Færsluflokkur: Dægurmál
3.11.2008 | 20:34
Leikið með kjálka og skeljar
Í mínu ungdæmi voru kjálkarnir kýr og leggirnir hross. Völurnar voru hundar en engar kindur áttum við í búinu, hvað var notað fyrir sauðfé bara veit ég ekki?
Í fjörunni neðan við Hulduhóla fundum við skeljar, en þær voru ekkert í búinu, bara skeljar og hörpudiskar til að safna saman og bera heim til ömmu og afa. Ég hef alltaf tínt skeljar í fjöru, eigi ég leið þar um. Og síðasta sumar var nokkuð fengsælt í þeim efnum. Og þegar ég hef gert sviðasultu undanfarið hef ég geymt kjálkana, ekki veit ég hvers vegna. Kannski undirmeðvitundin hafi hvíslað að mér að dót gæti orðið dýrt á næstu árum og barnabörnin hefðu jafnvel gaman af því sem einu sinni var.
Ég treysti mér alveg til að kenna þeim að nota gömlu gullin rétt.
Júlía kom hér um helgina og þá gerði ég tilraun. Lét hana hafa safnið og bauð að leika.
Fyrst tók hún kjálka og mundaði eins og skambyssu. Ég var ekki sein að leiðrétta misskilninginn og sagði henni að þetta væri belja. Útskýrði svo nánar, haus og tennur, spena og malir. Verst hvað illa gekk að láta kúna fóta sig á parketinu. En Júlía hætti að reyna að skjóta mig með beljunni. Þetta varð viðurkennd afburða mjólkurkýrin Búkolla.
Svo kom að skeljunum og það fór eins og á Hulduhólum forðum, raðað á gólfið, parað saman og snúið á alla kanta. Reyndar fann Júlía út að kúskeljar mætti nota á ýmsa vegu, höfuðföt, drykkjarílát, eða diska. Hver veit nema þar hafi lítill "sproti" skotið rótum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.10.2008 | 21:15
Jesss!
![]() |
Hafa endurráðið starfsfólk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.10.2008 | 19:45
Hvers konar þing er þarna í Úkraínu?
![]() |
Úkraínuþing samþykkir IMF-lög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.10.2008 | 20:50
jeppaferðirnar - framhald
það var ekki bara farið í jeppaferðir á vetrum. "Sumarið er tíminn", eins og þar stendur og þá fórum við líka í langar og stuttar ferðir.
Einu sinni fóru þessir þrír jeppakallar, sem ég talaði um í gær, í langferð austur undir Eyjafjöll. Auðvitað með konurnar þrjár - til að sjá um nestið.
Á þeim árum var enginn skottúr að komast svo langt sem þarna var ætlað, alla leið austur að Skógum. Einbreiður malarvegurinn lá til að byrja með á líkum slóðum og núna, alla vega austur á Hvolsvöll. Þaðan var helst farið um Fljótshlíðina, vegurinn í Landeyjar lá bara að bæjunum í Landeyjunum. Þröngar og niðurgrafnar göturnar lágu utaní grasi grónum brekkunum í Fljótshlíðinni. Fyrir neðan túngarð og stundum svo nærri bæjum að vel mátti finna ilminn af sunnudagslærinu hjá konunum á bæjunum. Auðvitað þó ekki nema ferðast væri á sunnudegi.
Svo var farið niður með Markarfljótinu að brúnni, og svo yfir hana. Þá var komið að Brú, þar sem hann Eysteinn bjó. Mig minnir að Eysteinn væri vegaverkstjóri þeirra Rangæinga og hann var líka pabbi hans Jenna, sem var í öðrum bekk þegar ég var í þriðja á Skógum. Jenni var skemmtilegur, en ég hef ekki séð hann í mörg mörg ár, held að hann hafi flutt til Nýja Sjálands, eða einhvers annars lands hinumegin á hnettinum.
Ekki kemur þetta nú jeppaferðalaginu neitt við, ég kom aldrei inn í þetta litla hús, sem hét þessu einfalda nafni - Brú. Það var blíðuveður, og þegar undir fjöllin var komið tóku ferðalangar á jeppunum á sig krók innað Seljavallalaug. Á Seljavöllum bjó einu sinni hún Margrét langömmusystir mín. Maðurinn hennar fórst í lendingu við Landeyjasand og Margrét varð ekkja á Seljavöllum. Hún fékk sér að sjálfsögðu ráðsmann og tók svo saman við hann. Örugglega hagkvæmara heldur en að þurfa að borga ráðsmannslaun. Þau fluttu svo út í Landeyjar - að Hildisey. Þegar við vorum þarna á ferðinni voru þau að sjálfsögðu löngu farin - hún var sko langömmusystir mín.
Við fórum í laugina á Seljavöllum, ég hafði ekki komið þar fyrr. þegar ég var í Skógaskóla var sundlaugin þar alveg splunkuný. Áður hafði verið farið með krakka í laugina á Seljavöllum og flestir jafnaldrar mínir í sveitinni höfðu lært þar að synda.
Það var eins undir Fjöllunum og í Fljótshlíðinni, vegurinn lá við bæina. Það var miklu skemmtilegra að ferðast þarna á þeim tíma. Oft hitti maður fólk útivið sem vildi spjalla og við hvern bæ kom hundur hlaupandi í bílinn. Kettir og hænsni þvældust gjarnan fyrir á hlöðunum og ef þannig stóð á að verið væri að reka beljurnar í eða úr fjósi gat maður þurft að bíða góða stund. Og þar þþyddi nú ekkert að vera með einhverja viðkvæmni útaf efninu í veginum, kúaskítur, mold eða möl, það var bara þannig. Þá var notalegt að ferðast um sveitirnar.
Þegar komið var að Skógum fórum við út með brekkunni fyrir utan safn og fundum þar prýðis tjaldstæði. Þarna vorum við svo í góðu yfirlæt, fórum í gönguferð að Skógafossi og svo líka inní Kvernugil, alveg inn að fossinum og ég sýndi ferðafélögunum, sem ekkert höfðu þarna vit á neinu, hvernig hægt er að fara á bakvið fossinn.
Næsta dag var svo snúið til baka, sennilega ekki seinna en um hádegi. Þetta var ekki fjarri því að vera dagleið.
Myndir eru þrjár sem ég finn:
Ein frá Seljavallalaug og svo tvær af tjaldstað austan við Skógasafn.
Dægurmál | Breytt 30.10.2008 kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
29.10.2008 | 17:03
Svo erum við að kenna börnunum að það sé ljótt að skrökva!
![]() |
Ekki benda á mig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2008 | 21:36
Jeppaferðir í vetrarfæri
Nú er að renna upp tími jeppakalla. Þessara sem eig stóru, öflugu, breyttu, og kannski dýru jeppanna. Jeppanna sem komast ALLT. Kannski verður núna eitthvað minna um langar fjallaferðir, það er dýrt að gera þessi tæki út, yfirleitt fylgir vélsleði eða fjórhjól einum sæmilegum jeppa. Það gæti komið snjóþota í staðinn fyrir sleðann, ég veit ekki hvað í staðinn fyrir fjórhjólið? Varla þó reiðhjól?
En svona til hughreystingar fyrir þá sem halda að nú sé eymdin ein framundan í þessum efnum, þá ætla ég að benda á að það er ekkert nauðsynlegt að hafa stóran breyttan jeppa, sleða eða hjól. Og engin þörf að fara endilega inní Laugar eða Kerlingafjöll. Maður líttu þér nær".
Einu sinni var lítill hópur fólks sem fór í ferð um páskana (að vísu fyrir langa löngu).
Kannski var það á föstudaginn langa eða pálmasunnudag, allavega einhvern af þessum rauðu dögum í páskavikunni sem allir áttu frí.
Veðrið var svolítið þungbúið, úrkomulaust og ekki kalt.
Þrír jeppakallar lögðu upp frá Selfossi hver á sínum jeppa og með konu sér við hlið. Tæplega þó konu - þetta voru hálfgerðar stelpur og ekki von á öðru ,"karlarnir" voru líka bara strákar. Samt átti hvert par alla vega eitt eða tvö börn. En þau voru skilin eftir hjá ömmum eða frænkum, enda var verið að fara í svaðilför.
Ekið var yfir brúna og svo uppað fjalli. Vegurinn var þá undir fjallinu og við vegamótin þar sem annaðhvort var farið til Reykjavíkur eða uppí Grímsnes var kofinn hans Hildiþórs, þar sem hann seldi sælgæti, gos, svið og sígarettur. Jeppakallarnir beygðu til hægri, inn með fjalli. Það var hálka á veginum, en þeir voru allir á keðjum, þetta var enginn venjulegur sunnudagsbíltúr.
Áfrem eins og leiðin lá yfir brúna á Soginu, gömlu brúna einbreiðu, og svo áfram að vegamótum til Þingvalla. Þar var beygt til vinstri.
Vorið var aðeins farið að segja til sín. Snjór í drögum og leifar af sköflum í lautum, en þúfurnar stóðu uppúr og kjarrið líka. Trjágróðurinn í Grímsnesinu var á þessum tíma heldur lágvaxinn og óræktarlegur. Eingöngu víði og birkikræklur sem voru nagaðar meira og minna af rollum bændanna í sveitinni. Þetta var prýðis beitiland, en ullin varð alltaf heldur leiðinleg, það sátu í henni kvistir og rusl af greinunum.
Jeppafólkið kom á Þingvöll. Þar var lítið staldrað við, ekkert lífsmark þar á þessum tíma. Það var heldur kuldalegra þegar svona langt var komið, snjór yfir öllu, en hann var þó orðinn leiður og meyr. Dekkin á jeppunum mörkuðu djúp för á vegarslóðanum. Það var haldið áfram inní Bolabás og þar var nestistími. Smurðar brauðsneiðar, kaldar kódelettur, vínarbrauð með glassúr og kaffi úr brúsa. Standandi partí, þarna voru engar þúfur sýnilegar til að tylla sér á og snjórinn blautur. Þegar áfram var svo haldið var færðin orðin verri. Svo var reynt að halda áfram- einn sat fastur - það varð að moka til að ná honum upp. Það þokaðist hægt áfram inn á Hoffmannaflöt. Þar var krapaflóð yfir öllu og þarna undir Meyjarsætinu var afráðið að snúa við. Finna aðra leið, kannski færa?
Sömu leið til baka þar til kom að vegamótum við Gjábakka. Var ekki rétt að reyna Lyngdalsheiðina? Beygt til vinstri. Ekki var þó langt komið þar þegar allt sat fast. Konurnar voru farnar að leita að nestisleifum, hver í sínum bíl, það var farið að skyggja og karlarnir þrír voru allir úti að moka. Hundblautir í lappirnar, höfðu ekki einu sinni haft vit á að vera í stígvélum. Það varð þrautin þyngri að snúa við. Gatan var niðurgrafin og full af snjó, sem engu hélt. Allt varð þó laust að lokum, og tókst að komast aftur á veg við Gjábakka. Síðan var leiðin greið heim aftur, þar sem börnum var safnað saman og hver hélt heim til sín. En ferðin var góð, tilganginum náð. Að spóla, festa, draga og moka - og borða nestið.
Það eru þrjár myndir: Af Hoffmannaflöt, önnur af Lyngdalsheiði og svo ein festa.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2008 | 21:50
Í Mýrinni á öðrum degi vetrar
Í gær fórum við í fjölskylduferð í sveitina. Ekki var þó nema brot af fjölskyldunni með, reyndar svo lítið brot að við komumst í einn bíl.
Fyrst fórum við með Ívar inní Mýri og skildum hann þar eftir. Svo fórum við á Högnastíg og stoppuðum þar í klukkutíma eða svo. Svo fórum við aftur inní Mýri.
Þar er nú allt snævi þakið og megnið af trjánum búið að fella laufið. þarna var þó eitt tré, súlureynir sem ég keypti og plantaði í sumar, hann var enn allaufgaður og varla farinn að fölna í toppinn. Ekki finnst mér það góðs viti. Tré sem eru sein að búa sig undir veturinn verða oft illa úti.
Tengdasonurinn fullyrti að þarna á leiðinni inneftir væru tófuspor. Hann er veiðimaður og á að þekkja villidýraslóðir, Ekki kaupi ég það nú samt í fljótheitum eins og tímarnir eru. Þó er víst ekki hægt að þræta fyrir tófu, eiginlega hvar sem er í sveitinni. Hún lætur sig ekki muna um að læðast á milli bæja til að leita að æti. Max var óskaplega glaður að komst út og fá að hlaupa eins og hann vildi. Mér tókst með naumindum að festa hann á filmu á fljúgandi ferð.
Og Guðbjörg tyllti sér í sófann, sem er nú að byrja einn veturinn enn, aleinn úti á palli. Ótrúlegur sófi, örugglega búinn að standa þarna í tíu vetur og sér ekki á honum. Enda keyptur í Kjörhúsgögnum hjá Sigurbirni fyrir 30 árum. Bjöllunni verður víst ekki hringt til kvöldverðar alveg á næstunni, kannski bara á jólunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2008 | 21:36
Það voru þrír menn skotnir í nótt
Það er allt að færast í samt lag hjá okkur. Síðasti mánuður hefur verið öðruvísi að mörgu leyti. Hvar sem fólk hittist er nærri eingöngu talað um peninga. Hlutabréf, bankahrun, Breta, Rússana, pólitíkina, Davíð, Geir og alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Og svo ótalmargt annað í þeim dúr, flest hundleiðinlegt. En á meðan hefur margt gleymst.
Að MS = væri að fara á hausinn, það hvarf alveg í hvirfilbylnum. Stærsta dópverksmiðja sem útlendar löggur hafa komist inní fékk lauslega umfjöllun í tvo daga eða svo og í útlöndum hefur fólk verið drepið í tugatali án þess að nokkur tæki eftir því.
Þegar ég vaknaði í morgun, við fréttir klukkan sjö gat ég ekki annað en glaðst-pínulítið- en má auðvitað ekki segja það upphátt. "Það voru þrír menn skotnir í Afganistan í nótt".
Undanfarin ár hef ég undantekningalaust vaknað við að einhver hafi verið drepinn um nóttina einhversstaðar langt útí heimi. Svo langt í burtu, og svo sjálfsagt var þetta orðið, á hverjum einasta morgni, að ég bara gat ekki með nokkru móti fundið til tilfinninga vegna þess. Átti ég að verða sorgmædd? átti ég að vorkenna fjölskyldum, foreldrum, börnum, eiginkonum og ömmum? Ég bara var laus við allt hugarangur vegna þessa, það kom mér ekki við. Það var alltaf að gerast, hvern einasta nýjan dag.
Síðasta mánuð hefur þetta ekki verið nefnt í fréttum kl. sjö.
Það er ekki laust við að mér finnist bankakreppufárið undanfarið svolítið í sama dúr og hörmungarnar úti í heimi. Ég held að við, mörg, gerum okkur enga grein fyrir hvað hefur verið að gerast. Horfum á þetta álengdar og hlustum með daufum eyrum. Milljarðar eru svo óskaplega fjarri okkar raunveruleika, hvað þá ef þeir eru saman komnir hundrað eða þúsund. Eins og bíómynd eða lygasaga og við reynum bara að láta dagana líða sem líkast því sem þeir gerðu fyrir réttir. Þá var lífið einfalt og gott.
En í nótt voru þrír menn drepnir í Afganistan. Ég tók eftir því, og ég tók eftir fréttum í dag, nánari frásögn af þessu vesalings mönnum. Það er eitthvað öðruvísi í dag en í gær, kannski lífið komist í samt lag aftur?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.10.2008 | 16:44
Hættu þessu nöldri Steingrímur
Eilíf ansvíllans neikvæðni og múður. Þú ert bara leiðinlegur svona nöldrandi endalaust. Mig grunar að þessi aðgerð sé ekki alveg vonlaus þar sem þú kveður ekki fastar að orði en svo "að þú sér mjög hugsi". Það fer illa með sál og líkama að leita eftir skrattanum í hverju horni og sjá aldrei ljósglætu nokkursstaðar. Hugsaðu um heilsuna maður!
Reyndu heldur að líta á björtu hliðarnar og vera svolítið glaðlegur. Ég er viss um að það er, þegar til lengdar lætur, heillavænlegra til atkvæðaveiða. Og ég held líka að þú sért, undir niðri, hreint ekki eins leiðinlegur og þú lætur.
![]() |
Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.10.2008 | 21:52
Hestamennska á liðinni öld
Ég átti einu sinni hesta - og var reyndar á hestbaki meira og minna frá fimm ára aldri. Á dráttarklárum, vagnhestum, truntum og gæðingum, folaldsmerum og graðhestum. Bara hverju því hrossi sem nærtækt var hverju sinni og mér var treyst fyrir.
En ég átti sjálf þrjá hesta. Reyndar fékk ég átta eða tíu ára að eigna mér skjótt merfolald eftir að ég hafði reynt að kaupa það fyrir 75 krónur sem ég átti í bauknum mínum. Baukurinn var í bókarformi með leðurspjöldum svörtum. Frá Lansbanka Íslands og ég braut hann upp til að ná í krónurnar. En ég fékk ekki að borga. En ég mátti eigna mér hana Skjónu og gerði það svo lengi sem hún lifði.
En ég fékk alvöru hest í fermingargjöf. Fallegan, rauðan og glófextan, tvístjörnóttan hest. Hann var aldrei nefndur.
Hann henti mér af baki í reynsluferðinni á annan í hvítasunnu, daginn eftir ferminguna.
Það varð til þess að honum var skift fyrir annan. Ég sá alltaf eftir honum og er viss um að hann hefði á endanum leyft mér að sitja. En ráðgjafi foreldranna taldi mesta óráð að láta mig sitja uppi með hrekkjótt hross og skiftin voru gerð. Þá fékk ég Skjóna. Fíngerður brúnskjóttur og og reglulega snotur hestur. Ég átti hann í nokkur ár og fannst mest gaman þegar ég tók hann inn rétt fyrir jólin. Inn í gróðurhús þar sem pabbi var búinn að smíða þennan líka fína bás fyrir hann. Í vetrarhárum hvítum og svörtum yndislega fallegur, bangsalegur og mjúkur. Þessi vetur í gróðurhúsinu var okkur Skjóna ógleymanlegur tími. Hlýtt inni, grænt hey í stallinum, ég að kemba, hann að gæða sér á töðunni og fóðurbætinum í fötunni. Blindbylur úti. Dýrðardagar.
Svo kom árið sem landsmótið var á Þingvöllum, var það 1962?
Við Jói fórum þangað ríðandi með marga hesta. Vorum heilan dag á leiðinni. Yfir Stóru - Laxá fyrir framan Syðra-Langholt, yfir Iðubrúna hjá Laugarási, yfir Tungur út í Grímsnes og meðfram Mosfellinu út að Apavatni. Þar var áð lengi. Þá vorum við orðin mörg í hóp með fleiri tugi hesta. Við komum á Þingvöll seint um kvöld og ég hafði aldrei séð svona mörg hross saman komin. Það var föstudagur.
Á sunnudeginu var hópreið hestamannafélaga og ég fékk að vera fremst í hópi smáramanna, á milli Ingvars á Reykjum og Jóa í Efra- Langholti. Öll á stórum rauðum hestum, þeir voru víst samfeðra. Ég var montin þá.
Áður en heim var haldið fór ég á fund Guðna í Skarði og leitaði eftir hestakaupum. Ráðgjafinn minn hafði bent mér á að hægt væri að finna betri hest en Skjóna.
Við Guðni skiftum og ég fékk í staðinn bleikskjóttan dugnaðarfork sem dugði mér vel á heimleiðinni. Hann varð aldrei jafn rennilegur og Skjóni hafði verið. Safnaði gjarnan spiki, enda ekki mikið notaður. Þarna var ég farin að leiða hugann að öðru en búskapnum. Fór til Noregs og var í burtu heilt ár og svo lenti ég bara í útsláelsi og strákastandi uppfrá því. Síðasti hesturinn minn var seldur til Sviss fyrir 9000.00 krónur og þótti góð sala á þeim tíma. Myndirnar eru af : Skjónu og okkur systkinum. Fermingar Stjarna, mér og foreldrunum, Skjóna og Ferguson traktornum. Og svo erum við Jói ferðbúin á hlaðinu í Hvammi á leið á landsmót. Síðast er svo Landi (hann var úr Landssveitinni) vel í holdum með mig á baki á blettinum heima.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 15
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar