Jeppaferðir í vetrarfæri

Nú er að renna upp tími jeppakalla. Þessara sem eig stóru, öflugu, breyttu, og kannski dýru jeppanna. Jeppanna sem komast ALLT. Kannski verður núna eitthvað minna um langar fjallaferðir, það er dýrt að gera þessi tæki út, yfirleitt fylgir vélsleði eða fjórhjól einum sæmilegum jeppa. Það gæti komið snjóþota í staðinn fyrir sleðann, ég veit ekki hvað í staðinn fyrir fjórhjólið? Varla þó reiðhjól?

En svona til hughreystingar fyrir þá sem halda að  nú sé eymdin ein framundan í þessum efnum, þá ætla ég að benda á að það er ekkert nauðsynlegt að hafa stóran breyttan jeppa, sleða eða hjól. Og engin þörf að fara endilega inní Laugar eða Kerlingafjöll. Maður líttu þér nær".

Einu sinni var lítill hópur fólks sem fór í ferð um páskana (að vísu fyrir langa löngu).

 Kannski var það á föstudaginn langa eða pálmasunnudag, allavega einhvern af þessum rauðu dögum í páskavikunni sem allir áttu frí.

Veðrið var svolítið þungbúið, úrkomulaust og ekki kalt.

Þrír jeppakallar lögðu upp frá Selfossi hver á sínum jeppa og með konu sér við hlið. Tæplega þó konu - þetta voru hálfgerðar stelpur og ekki von á öðru ,"karlarnir" voru líka bara strákar. Samt átti hvert par alla vega eitt eða tvö börn. En þau voru skilin eftir hjá ömmum eða frænkum, enda var verið að fara í svaðilför.

Ekið var yfir brúna og svo uppað fjalli. Vegurinn var þá undir fjallinu og við vegamótin þar sem annaðhvort var farið til Reykjavíkur eða uppí Grímsnes  var kofinn hans Hildiþórs, þar sem hann seldi sælgæti, gos, svið og sígarettur. Jeppakallarnir beygðu til hægri, inn með fjalli. Það var hálka á veginum, en þeir voru allir á keðjum, þetta var enginn venjulegur sunnudagsbíltúr.

Áfrem eins og leiðin lá yfir brúna á Soginu, gömlu brúna einbreiðu, og svo áfram að vegamótum til Þingvalla. Þar var beygt til vinstri.

Vorið var aðeins farið að segja til sín. Snjór í drögum og leifar af sköflum í lautum, en þúfurnar stóðu uppúr og kjarrið líka. Trjágróðurinn í Grímsnesinu var á þessum tíma heldur lágvaxinn og  óræktarlegur. Eingöngu víði og birkikræklur sem voru nagaðar meira og minna af rollum bændanna í sveitinni. Þetta var prýðis beitiland, en ullin varð alltaf heldur leiðinleg, það sátu í henni kvistir og rusl af greinunum.

Jeppafólkið kom á Þingvöll. Þar var lítið staldrað við, ekkert lífsmark þar á þessum tíma.    Það var heldur kuldalegra þegar svona langt var komið, snjór yfir öllu, en hann var þó orðinn leiður og meyr. Dekkin á jeppunum mörkuðu djúp för á vegarslóðanum. Það var haldið áfram inní Bolabás og þar var nestistími. Smurðar brauðsneiðar, kaldar kódelettur, vínarbrauð með glassúr og kaffi úr brúsa. Standandi partí, þarna voru engar þúfur  sýnilegar til að tylla sér á og snjórinn blautur.  Þegar áfram var svo haldið var færðin orðin verri. Svo  var reynt að halda áfram- einn sat fastur - það varð að moka til að ná honum upp. Það þokaðist hægt áfram inn á Hoffmannaflöt. Þar var krapaflóð yfir öllu og þarna undir Meyjarsætinu var afráðið að snúa við. Finna aðra leið, kannski færa?

Sömu leið til baka þar til kom að vegamótum við Gjábakka. Var ekki rétt að reyna Lyngdalsheiðina? Beygt til vinstri. Ekki var þó langt komið þar þegar allt sat fast. Konurnar voru farnar að leita að nestisleifum, hver í sínum bíl, það var farið að skyggja og karlarnir þrír voru allir úti að moka. Hundblautir í lappirnar, höfðu ekki einu sinni haft vit á að vera í stígvélum. Það varð þrautin þyngri að snúa við. Gatan var niðurgrafin og full af snjó, sem engu hélt.  Allt varð þó laust að lokum, og tókst að komast aftur á veg við Gjábakka. Síðan var leiðin greið heim aftur, þar sem börnum var safnað saman og hver hélt heim til sín. En ferðin var góð, tilganginum náð. Að spóla, festa, draga og moka - og borða nestið.

Það eru þrjár myndir: Af Hoffmannaflöt, önnur af Lyngdalsheiði og svo ein festa.

Þetta var góður dagur. Scan10018Scan10019Scan10013


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Gaman af þessu og þeir höfðu allir skóflur. Minn fór ekkert skóflulaus  í þá daga. Og Willis jeppi. Fínar myndir.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 28.10.2008 kl. 21:52

2 identicon

Skemmtileg færsla! Meira svona.

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 196827

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband