Færsluflokkur: Dægurmál

Nei, fínt - þú skalt bara baka smákökur

Enda þarftu hreint ekkert að berjast, eða aðrir sem kenna sig við pólitík, ef svo færi að þið létuð ykkur hverfa, sem auðvitað verður aldrei. Jólafríið, sem fer nú líklega að byrja hvað úr hverju, getið þið notað til að baka smákökur og úða í ykkur allslags frokostum og hlaðborðum í góðu næði. Þið yrðuð aldrei kosin aftur, við bara getum bjargað okkur sjálf.
mbl.is Aðventuna á ekki að nýta í kosningabaráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er í gangi? Fjarstýringin slær út þá og þegar

Eins gott að ég sit hér og læt mig málið engu skipta.

Nú næst í óteljandi sjónvarpsstöðvar, hérna , í sjónvarpinu okkar, sem er ekki einu sinni með flatskjá. 

Þrjár breskar stöðvar - auðvitað allar þessar frægustu, og svo alla vega þrjár frá hverju, Svíþjóð, Noregi, og Danmörku. Og svo líka einhver slatti af amerískum stöðvum - kannski eitthvað miklu meira, það takmarkast bara af viðbragðsflýti fjarstýringarinnar hvað mikið hefur fundist til þessa.

Erum við kannski ekki lengur sjálfstæð þjóð?  Er verið að undirbúa að þurrka ríkissjónvarpið út?


Grágæsirnar fóru suður í vikunni sem leið

Kannski til Skotlands, eða Írlands eða þá eitthvað miklu lengra.

Ég var í sundlauginni í birtingu á sunnudaginn fyrir viku. Það var heiður himinn og svolítil norðanátt. Allt í einu sá ég á himninum í suðri stóran gæsahóp í oddaflugi.  Svo kom annar, og síðan margir. Fleiri hundruð gæsa komu þarna saman í minni hópum og sameinuðust í einum ofurstórum, sem raðaði sér í stórn odd, og svo flugu þær á móti sólarupprásinni.

Kannski fóru þær í þessum áfanga bara á einhvern góðan stað á suðurströndinni. Þangað hafa svo komið gæsirnar af norður og austurlandi til að verða samferða suður. Varla trúi ég samt að þær ferðist allar í einum hóp. Það væri allt of mikið og algerlega ómögulegt að hafa stjórn á. Þetta flug gæsanna er ekki bara skyndiákvörðun og handahófsframkvæmd. (vængja)Þær hafa betra skipulag og gragaesDSCF3116DSCF3121sambönd sín á milli en - alla vega þeir "stjórnendur" sem við þekkjum best.  

Þennan sunnudag fórum við  hjónin svo í "safnaferð" um Flóann. Komum við hjá Óla í Forsæti og Siggu á Grund, en eftir það hittum við aðallega ferfætlinga - jú og svo stelpurnar í sjoppunni á Stokkseyri.

Enn er til fyrir bensíni í sunnudagsbíltúr og kók og prins í sjoppunni. Reyndar ákvað ég að hafa það STAUR í þetta sinn: Veljum íslenskt. 


Valgerður - nú varstu bara að snúa útúr

Það var verið að tala við þig í Kastljósinu áðan og þú spurð hvort þú vissir nokkuð hversu mikið væri enn til af peningunum sem Samvinnutryggingar skildu eftir sig.

Þú taldir líklegt að lítið væri eftir af þeim og ættir víst að vita það, þar sem þú ert, eða varst í forsvari fyrir það fyrirbæri sem nefnt var GIFT.

"Hvað finnst þér um það" spurði fréttamaðurinn, "að allir þessir milljarðar séu bara horfnir - si svona"?  Þú svaraðir að þér fyndist það slæmt, "að fólk hefði tapað svona miklu á falli bankanna".

Fussum svei! Það var búið að  eyða þessu öllu miklu fyrr, "vinir og frændur Kanínku" 

hafa með milljörðunum fjármagnað einkaeignir um allt land.

Svoleiðis tapaði fólkið peningunum sínum en ekki í bankahruni.  


Það var slegist á balli á Þingeyri

Við stóðum álengdar og horfðum á, systkin tvö af Suðurlandi. Hann í gráum gaberdínbuxum, hvítri skyrtu og vestispeysu utanyfir. Ég í brúnköflóttu pilsi og hvítri blússu, handsumað brúnt munstur neðst á blússunni. Skórnir brúnsanseraðir með hálfháum hælum.

Sjómenn af Vestfjörðum slógust í samkomuhúsinu á Þingeyri. Við höfðum aldrei séð annað eins, enda alin upp í Hrunamannahreppi og höfðum aldrei áður farið á ball.

Þetta var fyrir 50 árum. Þegar pabbi tók bíl á leigu og ók vestur á firði með konu  og  okkur tvö elstu systkinin, til að hitta ættingjana sem bjuggu á Þingeyri. Hann hafði ekki hitt það fólk árum saman. Þetta var "pílagrímsferð".

Bíllinn hét "Ford Anglia", drossía, og fínni bíll en við höfðum áður reynt. Reyndar höfðum við fram að því ekkert reynt nema  Willys jeppa.   Það var komið við í Skallagrímsgarðinum í Borgarnesi, þar voru teknar myndir, af mér, og svo pabba og Erni.  Um nóttina var gist í Bjarkarlundi, en þar var hann Magnar í Galltafelli kokkur á sumrin. Hann tók vel á móti okkur. Hann var norskur. Svo var stansað til að taka mynd af bílnum og ég fór út að tína ber. Vegagerðarkarlinn var skoðaður og svo var bíllinn þveginn áður en komið var á áfangastað. Við gistum í bústað sem ættingjarnir áttuScan10021Scan10022Scan10023Scan10024Scan10026Scan10027Scan10028Scan10025 í botni Dýrafjarðar og svo tjölduðum við þar líka. Ég drakk litla kók í gleri. Á laugardegi var okkur boðið í kvöldmat hjá frændfólkinu.  Það voru mikið góðar frænkur, sem skildu svo vel að okkur systkinum fyndist ekkert gaman að sitja fram á kvöld yfir gömlu fólki sem var að drekka sérrí og tala saman. 

Það var ball í samkomuhúsinu og við vorum send þangað. Hvernig áttu frænkurnar að vita að við hefðum aldrei á  svona böll farið.  Það dansaði heldur enginn við mig og örugglega hafði Örn ekki uppburði í sér til að reyna neitt í þá áttina. En hann var miklu spenntari  fyrir slagsmálunum en ég.


Ég get ekki ætlast til að nokkur vilji lána mér

Ég hef ekki hagað mér skynsamlega. Ég hef eytt og spreðað með kortum og lánum, depetað og vísað um allar trissur. Farið í langar og dýrar utanlandsferðir - fyrir peninga sem ég eiginlega átti ekki. Minnst tvær borgarferðir á ári - kannski soldið mikið keypt, en ætlaði alveg að borga reikingana.

Svo bara komu þeir allir í einu og ég var  komin upp fyrir haus og réði ekki við neitt. Ég átti víst að fatta þetta fyrir löngu og reyna að klóra í bakkann, en ég var bara svo mikið í útlöndum á þeim tíma - mátti ekkert vera að því að pæla íþví.

Svo var bara lokað á allar heimildir og ég fæ ekki neitt - neinsstaðar?  Samt vantar mig svo sárlega að hafa kortin í lagi fyrir eina Ameríkuferð fyrir jólin. Þeir segja að ég fái enga fyrirgreiðslu fyrr en ég hef komið öllu mínu á hreint? Sýna að ég ætli í alvöru að taka til í minni óreiðu og kannski bara láta einhvern annan sjá um fjármálin. 

 En ég er þver og ætla ekki að láta einhverja bankaplebba segja mér hvað ég á að gera.  Á meðan verð ég víst að hanga heima og bíða eftir því hvort þetta lagast ekki af sjálfu sér.

Svona gæti smækkuð mynd ástandsins á Íslandi í dag litið út. Hvernig er hægt að ætlast til að nokkur vilji lána þegar stjórnvöld þverskallast við að taka til eftir sig? 

Í dag var stærsta útspilið að nú eigi að leyfa öllum flokkum að vera með í að finna hverjum klúðrið er að kenna.

Það er ekkert verið að taka á lánamálum heimilanna, eða fyrirtækjanna. Eða eftirlaunamálum þingmanna. Eða er verið að vinna í að létta byrðar íslenskra framleiðenda lífsnauðsynja? Nei, ég held ekki, "það gerist þegar það gerist".

  Hingað kemur ekki króna frá útlendum bjargráðasjóðum fyrr en tekið hefur verið til í pólitík og bönkum. Ekki þó með kosningum, kosningar eru engin lausn, það trúir enginn á neitt af þessu fólki og einhverjir aðrir pólitíkusar væru alveg jafn "lens". 

Það á bara að skipa  nokkra menntaða menn með skýra hugsum til að stjórna á skerinu - svona  í eitt ár eða tvö.  

Og reynið ekki að segja mér að bankaráðin séu skipuð án pólitískra áhrifa. Ótrúlega heimskulegt að halda þessu fram, hver einasti bankaráðsmaður hefur pólitískan stimpil. En það er til fullt af góðu fólki sem hefur aldrei lagt nafn sitt við pólitík. Margt af því miklu betur til starfanna fallið. Ég sagði það alltaf, þetta er "bölvuð tík".


Af hverju er yfirleitt verið að tala við allt þetta fólk?

Eins og alþjóð veit er ekki hægt að trúa einu einasta orði og þess vegna alveg tilgangslaust að spyrja um eitt eða neitt. Allir undir sama hatti, Fjárglæframenn,  bankastjórar, gróðafíklar og pólitíkusar. Ekki bend´á mig eins og fyrri daginn og engin þörf að ræða það frekar.

En Spaugstofan var góð í gær og Silfrið hans Egils  í dag líka.

Ein athyglisverðasta hugmynd helgarinnar - finnst mér: Ef bara þingmenn - einhverjir úr öllum flokkum hefðu manndóm í sér til að rísa upp, taka höndum saman og segja sína skoðun, hætta að taka þátt í ruglinu og undirlægjuhættinum. Þið eigið ykkar líf, ekki flokkurinn.


mbl.is Hannes vísar ásökunum á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldeyrir til að hægt sé að flytja inn það nauðsynlegasta -

Í einhverjum Mogga síðustu viku rakst ég á fyrirsögn sem fékk mig til að lesa betur.

 "Skortur á munaði". Þó nú væri, við höfum hreint ekkert að vilja með munað þessa dagana. "Matvöru skipt eftir mikilvægi". Bara sjálfsagt, það er fullt af "matvörum" sem við getum vel verið án.  Seðlabankinn reynir, með aðstoð bankanna, eins og þarna er sagt, að útvega gjaldeyri til kaupa á nauðsynjum. Gott hjá Seðlabankanum.

Hann flokkar líka nauðsynjarnar í A B og C. Þetta er greinilega þrautskipulagt, enda örugglega margir fræðingar á bak við hvern þessara þriggja bókstafa.

Í flokki A eru samkvæmt þessu "matvörur sem neytendur geta tæpast verið án, s.s. grænmeti, ávextir, kjöt og mjólkurvörur". Haaaaa? Er ekki megnið af þessu framleitt á Íslandi?  Í B flokki eru "næstbestu", eða væntanlega næstmikilvægustu vörurnar, "eins og sælgæti morgunkorn og kex".  Í C flokki eru svo vörur sem neytendur geta vel verið án, svo í rauninni ætti C flokkurinn alls ekki að vera til.

Mér finnst röðunin á þennan forgangslista svolítið undarleg. Ég hélt í einfeldni minni að hér á landi væru framleiddar mjólkurvörur, kjöt og allavega eitthvað af grænmeti, svo að við værum sjálfum okkur nóg. Kannski minna af ávöxtum.

Ég held líka að nú hljóti menn í ráðuneytum að sitja sveittir við það að breyta reglugerðum hafta og gjalda svo að bændur í landinu geti framleitt sínar vörur sem aldrei fyrr.  Kvótann burt, leyfum þeim að framleiða eins og þeir vilja og geta. Öll gjöld verða afnumin af innfluttum áburði og hann, ásamt nauðsynlegu kjarnfóðri, settur í B flokkinn í staðinn fyrir sælgætið, sem við getum framleitt nóg af  hér á landi. Raforkuverð til garðyrkjubænda getur ekki annað en lækkað, svo þeir eigi betra með að framleiða í gróðurhúsunum allan ársins hring. Þeir eiga auðvitað, í ástandi eins og nú er að fá rafmagnið aldeilis ókeypis.  

Hverjir það eru sem hjálpa seðlabankastjórunum við að ákveða miklivægi innflutnigsins, hefði ég gaman af að vita. Varla eru það þeir sem hafa atvinnu af að flytja inn, landbúnaðarvörur eða nammi? Ég bara veit það ekki. 

Nú finnst einhverjum að ég sé vond manneskja sem ræðst á heildsala (heita vist "birgjar" núna), en það bara verður að sjá hlutina í réttu ljósi. Hætta að hugsa bara hver um sig og taka á því sem þarf.

Og fyrir alla muni, ekki selja alla gömlu traktorana og baggatínurnar til útlanda, ekki alla vega fyrr en ljóst verður hvort eitthvað verður gert fyrir bændur og búalið. Hver veit nema einhver heildsalinn fari að búa á jörðinni sem hann ætlaði áður að selja undir sumarbústaði. Þá væri gott að eiga Zetor með tætara aftaní. 

Myndir: Frá því sem einu sinni varScan10041Scan10039Scan10001Scan10008 - kýrnar í Hvammi, lömbin henna Kempu, mamma og ég grisjum rófurnar í Mýrinni ( fleirihundruð metrar á dag) og pabbi í kálakrinum miðjum.   Ó, ó, ég í rófuum lenti einhversstaðr útí móa, sem er kannski eðalilegt? Reyni aftur.Scan10001


Það var árið 1974

Og eldri börnin urðu sex og níu ára.  Leiðin í kringum landið var opnuð snemmsumars.

Að vísu þjófstartaði Karlakór Selfoss og heimsótti Hornfirðinga áður en vegur og brýr fengu formlega vígslu,  sú ferð gekk þó með ágætum.  

Í júlímánuði tók fjölskyldan í Rauðholtinu sig upp og lagði af stað í hringferð. 

Cortinan var hlaðin farangri, í skott og á topp, tjald og svefnpokar,  teppi koddar og föt. Nestisskrínur, prímus, pottar  og önnur áhöld. Allt sem fjögurra manna fjölskylda þarf til tíu daga ferðar. Þessi hringur hafði aldrei verið farinn fyrr svo við höfðum ekki hugmynd um hvað langan tíma tæki að keyra hann. Áður höfðum við komist lengst norður á Akureyri, en þó aðallega Sauðárkrók, til að heimsækja ættingjana þar. Á þessum tíma var malbik í strjálbýli óþekkt með öllu. Malarvegir misjafnlega holóttir og oftast frekar mjóir var það sem áhugafólk um ferðalög átti kost á, vildi það skoða landið.

Leiðin var greið austur í gegnum kunnuglega Rangárvallasýsluna og svo áfram austar, en þær slóðir hafði karlakórinn þrautkannað nokkur undanfarin ár. Þegar nálgaðist Klaustur, einhversstaðar í Eldhrauninu, kom bíll á móti - Saab´99- skaðræðistík. Þessir bílar óðu einhvernvegin áfram á vegunum í skjóli "sænska gæðastálsins" og sýndu öðrum vegfarendum ekki einu sinni lágmarkskurteisi. Svo voru þetta líka forljót farartæki. Hann henti grjóti í framrúðuna á Cortinunni og mölvaði hana. Splunkunýja rúðu!

Blessunarlega var ekki langt til byggða og við komumst  alla leið á Klaustur. Með gapandi opið þar sem rúðan hafði verið, glerperlur um allan bíl. Krakkarnir vælandi af kulda, bílstjórinn bölvandi og ég ráðalaus með öllu.

Á Kirkjubæjarklaustri var lagt við kant og svo varð að hugsa sinn gang. Það virtist ekki mikið hægt að gera í stöðunni. Ekki einu sinni snúa við og fara aftur heim, rúðulaus.

En það var hægt að tjalda og það gerðum við. Það var komið kvöld hvort sem var og eins gott að borða bara kvöldmatinn.   Svo fór hugsun og hegðun önnur að jafna sig eftir áfallið og SK minntist þess að gamla rúðan, sem hafði verið tekin úr þegar sett var ný, bara í liðinni viku, var inni í geymslunni heima.

SK fór heim að Klaustri og fékk að hringja í góðan granna. Bað hann að brjótast inn heima, kenndi honum hvernig það væri hægast, og ná rúðunni út úr húsinu. Fara svo með hana niður í Fossnesti fyrir 9.30 næsta morgun og biðja hann Bjarna, sem keyrði rútuna á Höfn að kippa rúðunni með. Allt gekk þetta eins og í sögu. Við sváfum svo langt fram á dag í tjaldinu og vorum tilbúin að taka á móti rútunni þegar hún kom um hádegisbil eða ríflega það.

Bjarni var hress að vanda þegar hann snaraðist út til að sækja rúðuna í lestina.

En lánið var ekki einleikið þennan dag. Næsti bíll á eftir rútunni var eðaldrossía úr austurbænum og bílstjóri hann Bjössi Halldórs. Hann var eins og við, að leggja af stað með fjölskylduna í hringferð um lendið. En hann Bjössi hafði fjöldamörg undanfarin ár unnið við það hjá KÁ að skipta um rúður í bílum. Eiginlega þó miklu meira en það, hann beinlínis smíðaði bíla, bara eiginlega úr engu. Hann var, og er reyndar enn, snillingur í svona bílavandamálum. Hann gat náttúrulega ekki annað en stoppað þegar hann sá þarna mann með rúðu í höndunum. Og bara svona í stuttu máli, þá setti hann rúðuna í á fimm mínútum án þess að hafa nokkuð til þess nema puttana, þessa líka snilldarputta.

Ferðin um landið gekk svo áfallalaust eftir það. Við komum við í Skaftafelli, í Atlavík og Akureyri og Ólafsfirði. Keyrðum um Fljótin og Lágheiðina þar sem enn var snjór. Heimsóttum ættingjana á Sauðárkróki og tjölduðum síðast í Borgarnesi, þar sem þá var verið að byggja við elliheimilið handan götunnar. Engin var þá Borgarfjarðarbrúin eða Hyrnan.

En alltaf ef við mættum Saab´99( eða 6) eftir þetta, og svo lengi þeir sáust á vegunum, þá vorum við sammála um það hjónin að víkja ekki spönn. Keyra bara beint framan á kvikindið og neyða það til að hægja á og víkja.

Reyndar eignuðumst við seinnaScan10005Scan10061Scan10064Scan10062Scan10002Scan10006Scan10063Scan10008Scan10022 svona bíl sjálf fyrir mistök, í einhverjum skiptum, en hann stóð ekki lengi við. Nógu lengi þó til þess að við fengjum að kynnast aðeins þessum undarlega yfirgangi tegundarinnar, að æða áfram með offorsi eins og hver kílómeter væri sá síðasti.

Myndir: Á Klaustri, í Skaftafelli,í Atlavík, Fjallakaffi á Möðrudal,í Vaglaskógi, á Lágheiði,ég útí móa,í Borgarnesi og svo saabdruslan einhverjum árum seinna. 


Margt hefur skemmtilegt skeð - í máli og myndum

Einu sinni átti ég bók sem hét "Margt getur skemmtilegt skeð", alla vega held ég að það hafi verið bók en ekki saga. Kannski eftir Stefán Jónsson?

Hvernig er hægt að lá mér það að muna ekki svona smáatriði eftir öll árin.

En hvað með það - ég ætla að stela þessum titli- og breyta aðeins, og segja ykkur frá einu og öðru skemmtilegu sem mér dettur í hug þagar ég skoða myndirnar mínar.

Við hjónin höfum alltaf verið rosalega dugleg að ferðast innanlands. Byrjuðum á því þegar börnin voru lítil og tókum þau þá með.

Víðfræg er ferð um sumar, farin í átt að Veiðivötnum.

Fararskjótinn "OPEL REKORD´55". Við tvö og Einar og Guðbjörg, sennilega sex og þriggja ára.  Ekið sem leiðin lá upp Landssveit og allt þar til komið var að smásprænu nafnlausri. Þar var vaðið útí, en reyndist dýpra en sýndist. Opelinn hikstaði og bað um að skift yrði niður. Ekkert mál, stigið á kúplingu gírað niður - og það drapst á honum. Í miðri sprænunni. Svo fór að grafa undan - meira og meira og vatnið flæddi inn á gólfið, uppí sætin og Guðbjörg grenjaði. Þegar vatnið fór að sullast uppá sætisbökin tók húsbóndinn til sinna ráða og bar okkur hvert af öðru úr bílnum uppá bakkann.

Þetta var nú bara spræna, en virtist botnlaus. Við biðum svo þarna góða stund þangað til hann Gunnlaugur á Borg ( heitinn) kom á karrígula Range Rovernum sínum og dró bílinn uppúr - afturábak. Þetta fékk svo farsælann endi nema hvað Mogginn, sem ætlað hafði verið að lesa í tjaldi í Veiðvötnum, varð þarna svo rennandi blautur að nærri ógerlegt var að fletta honum þar sem tjaldað var, í góðri laut á Rangárvöllum.  Engar myndir eru til úr þessari ferð, þetta var á tíma kreppunnar fyrri, þegar engin myndavél var til, enda eins gott, það hefðu aldrei verið ráð til að láta framkalla.  Hins vegar eru hér myndir af okkur hjónum úr ferð sem við fórum ásamt fleirum og nokkrum börnum, austur í Mýrdal og þar var tjaldað við Heiðarvatn. Seinni nótt svo vestan við Múlakot í Fljótshlíð. Það var frábær ferð og mér sýnist svolítið í anda hennar Stellu sem fór í orlof.Scan10001Scan10007

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband