Færsluflokkur: Dægurmál
18.10.2008 | 22:03
Fyrir krónprinsessuna í Glasgow
Krónprinsessur eru þær sem fæðast fyrstar af öllum prinsessunum. Nú vill svo til að í Glasgow í Skotlandi dvelur ein af krónprinsessum Íslands, hún er ljóshærð og skemmtileg, í nýjum prinsessufötum og hún er nafna mín.
Ég ætla að segja henni og sýna, hvers vegna ég hef verið svona löt í blogginu undanfarið.
Um síðustu helgi voru foreldrar þínir í útlöndum að eyða gjaldeyri og á meðan átti ég að passa systkinin Ívar og Júlíu. Það gekk ágætlega með Ívar til að byrja með, hann kom bara með mér í skólann, svaf og borðaði. Júlía var fyrstu dagana hjá ömmu Báru.
Á föstudaginn fór svo allt úrskeiðis. Ég fór í sumarbústaðarútilegu með Grínverjunum og afi þinn varð að taka við að passa Ívar, gefa honum að borða og láta hann sofa. Það tókst ágætlega, hann er nú líka orðinn 13 ára.
Við Inga fórum fyrstar af okkur Grínverjum, tvær á bíl og það var rigning. Af því það hefur margoft sýnt sig að Grínverjur eiga efitt með að rata, ég tala nú ekki um í dimmviðri, þá töldum við vissast að merkja leiðina við gatnamót. Að vísu rigndi svo mikið á köflum að næsta dag sáum við engin merki um þessa vönduðu aðgerð, en þá hafði hún líka lokið sínu hlutverki. Við undum okkur svo þarna í bústaðnum við hannyrðir, sögur, góðan mat og grín, langt fram eftir kvöldi, eiginlega fram á nótt. Töluðum ekkert um peninga, hlutabréf eða banka, enda eigum við allar eitthvað sem er miklu dýrmætara og skemmtilegra að tala um.
Ein hafði þó víst lent í því að tapa einhverju smáræði í sjóði og en bankakonan sem hafði ráðlagt henni þessa óráðsíu baðst margfalt fyrirgefningar og bauðst svo til að passa fyrir hana í staðinn. Sennilega kemur hún út í stórgróða þegar allt kemur til alls. Barnapíur vaxa ekki á trjánum og eru svo gjarnan á ofurlaunum.
Þegar heim var komið á laugardag fórum við svo til að sækja Júlíu til ömmu Báru. Það var frábært veður og fallegt á Sandskeiðinu þegar við keyrðum austur aftur..
Á sunnudeginum fóru afi þinn og Ívar í messu. Fermingarbörnin eiga að mæta í kirkjuna á sunnudögum og foreldrar með, en nú voru þau hvergi nærri svo einhver varð að fara í staðinn. Afanum fannst ræðan ekki skemmtileg og fann til með krökkunum að þurfa að mæta alla sunnudaga. Þeir fóru ekki í súpuna.
Á meðan fór Júlía út með brauð í poka til að gefa fuglunum, þeir hafa nú reyndar alveg nóg eins og er, reyniberin sem ég náði ekki til að tína af trjánum þekja nú allar götur og garða. En henni fannst bara að þeir mættu fá brauð líka.
Eftir hádegið fórum við svo upp í sveit. Fyrst fórum við inn í Mýri til að gá hvort Emil væri búinn að tæta kartöflugarðinn. Hann var búinn að því og þar er nú helmingi meira pláss en var í sumar. Eins gott, í vor setjum við niður meiri kartöflur og sáum meiri rófum en nokkurntíman áður. Ef allt fer til fjandans lifum við af landinu. En auðvitað fer ekkert til fjandans.
Það er orðið haustlegt í Mýrinni, en einstaka plöntur eru þó grænar, þær sem aldrei fölna eða fella lauf. Eru bara eins allt árið, sígrænar. Svo heimsóttum við ömmuna og fórum í heimsókn á einn bæ að auki.Þegar við komum heim kíkti Sandvíkurfjölskyldan aðeins inn og frænkurnar horfðu á Dodda, einu sinni eða tvisvar - eða kannski oftar. Doddi er málið hjá Dýrleifu.
Svo var ég nú bara að vinna alla vikuna, en mikið rosalega er ein svona vika fljót að líða, eftir þriðjudag er strax kominn föstudagur. Það er af því nóg er að snúast og alltaf er gaman. Í gær endaði stundaskráin mín á hreysti - útitíma í hellirigningu. Samt var ekki kalt og ég var með myndavélina í vasanum. Ég fann í leiðinni garð með blómstrandi rósum og hvítum berjum. Það var flott.
Á meðan ég var að ljúka vinnunni fór mamma þín í búð og keypti slátur. Það var líka afmælisdagur Júlíu og þegar ég kom heim voru þær mættar í sláturgerð - Júlía klædd í þennan líka fína Mjallhvítarkjól, sem reyndist bara vel í slátrinu. Júlía er nefnilega prinsessa líka þó þú sért krónprinsessan. Við vorum ekki lengi að hrista þessa sláturgerð fram úr ermunum. Hvorug hafði þó áður gert svona uppá eigin spýtur fyrr, en allt bendir til að það hafi heppnast.
Í dag var svo afi þinn að hjálpa til í húsinu hjá Guðmundi en ég tók til í bílskúrnum og bakaði svo lummur af því Jóhanna og Dýrleif komu, og svo Lalli og Júlía, mamma þín sendi þau út svo hún gæti undirbúið afmælisveisluna í friði. Svo komu Einar frændi úr Vogunum með Heiðu og soninn Birki Örn. Dýrleifu fannst mikið merkilegt að sjá þetta " litla sæta barn", eins og hún sagði.
Myndaröðin er nokkuð rétt, nema bara þær tvær sem áttu að vera fyrstar eru síðastar.
Ég þarf að æfa mig meira í myndabloggi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.10.2008 | 15:17
Hverjir áttu að halda utanum þessa peninga fyrir okkur?
![]() |
Ekkert ákveðið um slit Giftar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.10.2008 | 20:25
Er Simmi á Grund nú kominn á réttu hilluna í lífinu?
![]() |
IMF tilbúinn að hjálpa Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.10.2008 | 20:19
Blessað fólkið bara bullar, en þeim fækkar sem trúa
![]() |
Ingibjörg Sólrún vill að stjórn Seðlabankans stigi til hliðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.10.2008 | 14:51
Hvers konar bull er þetta?
Af hverju má ekki segja frá því á skiljanlegu máli hvað er í gangi? Ég man að það var "dregið á" í Litlu -Laxá á haustin. Oftast um nætur eða seint um kvöld, þetta var myrkraverk og ólöglegt. Hvernig á mann að gruna hvernig hægt er að draga á gjaldeyri.
Lýsandi dæmi um að það er langt frá því að við séum öll á sömu hillu og tölum sama mál.
Samt eigum við að standa saman og treysta hvert öðru sem aldrei fyrr. Halló!
![]() |
Gjaldeyrisskiptasamningar virkjaðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.10.2008 | 20:27
OMG! Verðum við að færast 30 ár aftur í tímannn í lífsgæðum?
Krakkarnir í skólanum spyrja mig stundum þess dagana um eitt og annað sem snýr að kreppuárunum fyrri.
Hvenær fannst þér mesta kreppan? Var það 1930 eða 1914? Hvað fékkstu að borða þá?
Ég verð að valda þeim vonbrigðum og segja að því miður muni ég ekki það sem gerðist þessi ár, ég var einfaldlega ekki fædd þá. En þessi upphrópum fréttamanns - eða konu - með lífskjörin fyrir 30 árum gengur heldur ekki upp. Ég man ekki betur en allt léki hér í lyndi á þeim tíma. Það var hins vegar fyrir tæpum fjörutíu árum sem heldur var fátt um fína drætti og eiginmaðurinn fór til Svíþjóðar til að vinna í skipasmíðastöð.
Hann var þó ekki verr settur en svo að hann sagði upp vinnu til að fara þangað. Mig minnir samt að "lífsgæðin" væru á þeim tíma síst verri en í nútímanum. Spurning hvernig þau gæði eru metin.
En fyrir um það bil þrjátíu árum man ég að áin hér leit svona út síðsumars. Ég átti stígvél á þeim tíma = síst verr stæð þá en núna, og ég óð útí eyju. Reyndar gekk ég þangað nærri þurrum fótum, ásamt "ljósinu" viðhengi hennar og nokkrum börnum sem við áttum. Þann dag var gaman - það voru lífsgæði.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.10.2008 | 20:17
Nú bara skoðum við gamlar myndir, rifjum upp skemmtilegar sögur og hlægjum að öllu saman
Nýlega náði ég í þessar frábæru myndir frá æskuárum okkar systkina. Við vorum alin upp í lausagöngu, sem þýðir að við gengum að mestu sjálfala. En áður en við urðum það viti borin að kunna fótum okkar forráð varð skiljanlega að hefta útrásina með einhverjum ráðum.
Á fyrri myndinni eru tvíburarnir greinilega enn á þessu frumstigi. Þeir eru geymdir þarna í einskonar stíu, ekki ólíkri þeim sem notaðar eru um heimaalin lömb, eða stundum tófuyrðlinga sem teknir eru af grenjum og geymdir heima við til gamans. Þetta er grind með neti sem hafði svo smáa möskva að ekki varð skriðið þar út - þó mjóslegnir væru bræðurnir á þessum tíma. Þarna hefur þeim verið gerður dagamunur með heimsókn systranna af Bergstaðastræti. Af þessu sýnast þeir nokkuð glaðir en annar ( mér sýnist Haddi) notar þó tímann til að bora í nefið, enda lítið annað hægt að gera við þær aðstæður sem hann er þarna í.
Á hinni myndinni erum við í lauginni, en þar vorum við einhvern tíma flesta daga. Örn og annar tvíburinn horfa á ljósmyndarann og hjá þeim Helga Magg. Hinn tvíburinn lítur undan og ég hangi svo á einhverri spýtu nær.
Á bakkanum sést þróin sem var steypt þarna til hagræðis fyrir konurnar sem komu í Hverahólmann með þvottinn sinn. Víða úr sveitinni, sumar með hest fyrir vagni, aðrar með poka á baki.
Þessi þró var svo fyllt af hveravatni á aðfangadag og látið kólna svo að hægt væri að baða okkur systkinin þar fyrir jólin. Ég man bara eftir svona baði fyrir jól, en held nú þó að við höfum verið þvegin oftar en þá.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.10.2008 | 21:27
Heklugos
Það væri nú til að kóróna allt, en kannski ekki alslæmt þó. Útlendingarnir myndu steyma til landsins með gjaldeyri sem okkur vantar svo sárlega.
Í vandræðafárinu undanfarna daga varð einhverjum að orði "að nú væri gott að geta spólað til baka svona að síðustu árum áttunda áratugarins".
Persónulega væri mér eiginlega sama, ég tala nú ekki um ef yrði, eins og mér skildist á manninum, hægt að leiðrétta í leiðinni þau mistök sem við höfum gert.
Ég væri hvort sem er búin að eiga öll börnin og ég væri í skemmtilegri vinnu.Ég myndi væntanlega í annað sinn gera það sem í mínu valdi stæði til að komast hjá því að sameina ströndina Selfossi. Það fannst mér ekki góður gjörningur, en fékk engu ráðið.
En heklugosið 1980 - 81 væri á næstu grösum og náttúruhamförum fær enginn varist.
Þennan sunnudag 17. ágúst 1980, vorum við í sveitinni, lágum úti á bletti og sóluðum okkur.Hádegismaturinn nýbúinn og þess vegna allir komnir á fætur, þrátt fyrir garðyrkjuball í félagsheimilinu kvöldið áður og nóttina með.
Kyrrðin var rofin af hljóðum í Einari sem hafði hjólað af stað fram á Grund. "Myndavél, myndavél" öskraði hann og enginn skildi hvers vegna. Myndavélin var samt sótt því útilokað var að drengurinn hætti við að fara í sjoppuferð nema eitthvað mikið lægi við."Hekla er að gjósa" sagði hann og allir litu í austur. Rétt var það, bólstrarnir voru vel sýnilegir í blíðunni - yfir Galtafellinu og stækkuðu hratt.
Myndirnar voru teknar, en fljótlega varð svo allt kolsvart þar eystra svo ekkert sást nema einstaka eldingar og blossar í sortanum.
Við fórum fljótlega heim á Selfoss og ég meldaði mig til vinnu vitandi það að mín væri þörf. Í Fossnesti stóð ég svo langt fram á nótt, eða þangað til allt var þar horfið úr hillunum. Klukkan var víst að verða þrjú um nóttina þegar skellt var í lás. En þetta var skemmtileg nótt, alltaf mest gaman þegar vitlaust var að gera.
5.10.2008 | 16:42
Veðurlýsing á sunnudegi

Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2008 | 21:51
Hverju má eyða?
Æææji - ekki endaði þessi dagur nú eins og ég ætlaði. Ég var búin að taka þá ákvörðun að eyða engu í dag og það leit svo vel út. Eyðsla er oft alveg óþörf og stundum eyðir maður bara útí bláinn. Ég ætlaði svo sannarlega að standa með þeim sem eru að klóra í bakkann, veita þeim svona einhverskonar móralskan stuðning með sjálfri mér.Auðvitað hafa þeir ekki hugmynd um hverslags bandamann þeir eiga hérna í austurbænum en það er mér slétt sama um.
Svo fékk ég þá ólánsflugu að líta á skrifin hjá bloggvinum mínum og sá þar að einn þeirra hefur ekki gefið frá sér lífsmark síðan um miðjan síðasta vetur. Ég veit ekki hvað kom yfir mig, eða hvers vegna einmitt núna, akkúrat í kvöld þegar ég var alveg að ná þessu takmarki. Heill dagur án þess að eyða nokkrum hlut.
Ég eyddi honum Skúla, ekki af nokkurri sérstakri ástæðu í dag frekar en í gær, ég bara allt í einu varð. Sem sannar fyrir sjálfri mér og öðrum að ég er veikgeðja sál, get ekki látið það vera einn einasta dag að eyða einhverju, bara einhverju.
Fyrirgefðu Skúli, þetta er alls ekki illa meint. Og vonandi lítur þú inn til mín eftir sem áður. Í laumi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 15
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar