Færsluflokkur: Dægurmál
3.10.2008 | 20:15
Gaman í vinnunni- yndislegt veður
Vikan líður svo hratt að í vinnunni finnst manni eintómir föstudagar. Á venjulegum vinnustöðum eru þeir skemmtilegustu dagar vikunnar. Svona vinn ég nú á góðum stað.
Svo þegar heim var komið fórum við hjónakornin í skemmtiferð austur á Hellu. Við þurftum að koma þangað fortjaldinu af hjólhýsinu, það kom dálítið illa útúr einu rokinu um daginn. Á Hellu eru snillingar sem gefa svoleiðis fortjöldum framhaldslíf. Hekla og fjöllin fyrir austan voru hvít af snjó og nutu sín vel í sólskini og blíðu.
Svo tíndi ég fúksíurnar inn í skúr, svo þeim verði ekki kalt eina nóttina enn.
Veðurmyndirnar verða að vera tvær í dag. Ég fór snemma á fætur í morgun og varð að taka eina mynd þegar ég kom út. En þá var "veður dagsins" eiginlega ekki komið í ljós.
Það var hins vegar sýnilegt á Skeiðavegamótunum síðdegis.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2008 | 22:10
Afmælisdagurinn 2. október
Til hamingju kæra afmælisbarn, dóttir mín Guðbjörg Helga.
Og líka bara allir hinir sem eiga afmæli á þessum degi, sem er orðinn hinn merkilegasti veðurdagur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.10.2008 | 22:14
Þungar byrðar að bera til grafar
Ég er nú bara svo aldeilis hissa á þessu fjármálarugli sem dynur yfir þessa dagana.
Greinilega margir verr settir í þeim efnum en ég og mínir líkir - þessi allslausu.
En þó ég hafi ekki stórvægilegar áhyggjur, sem kannski er vítavert kæruleysi, get ég ekki annað en pælt aðeins í því hvernig fólkið talar í fjölmiðlunum, og hvernig því hlýtur að líða.
Það virðist skiptast í tvær fylkingar og ég held að fæst af því segi satt, eiginlega get ég ekki sagt að ég trúi nokkru þeirra. Er enginn á Íslandi traustur, vitur og algerlega hlutlaus sem hægt er að leita álits hjá? Einhver sem myndi bara segja satt og rétt frá. Að skrökva að alþjóð um svona veigamikil mál hlýtur að vera slæmur baggi að burðast með það sem eftir er ævinnar.
Hvenær skyldi koma að því að einhver treysti sér ekki til að fara yfir móðuna miklu með syndirnar? Það var nú bara slembilukka og frekjan í kerlingunni sem kom sálinni hans Jóns inn fyrir hliðið hjá Lykla Pétri. Það hlýtur að koma að því, einhverntíman, að einhver segi okkur á dánardægri hvernig liggur í þessu öllu saman, hver sagði satt og hver ekki, haustið 2008.
Í dönskutíma í stofu 16 tók ég myndina af veðrinu í dag. Hún er ekki alveg nógu góð, aðeins skökk, en verður að duga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.9.2008 | 21:25
Húsin á Selfossi jöfnuð við jörðu - og svo er það veðrið
Ég fer alltaf gangandi í skólann, í hvaða veðri sem er og vel stundum aðrar leiðir en þá beinustu.
Um daginn heyrði ég mikil vélahljóð og hávaða þegar ég var að leggja af stað heim og virtist koma frá Birkivöllum. Þá fór ég auðvitað þá leið.
Ég fór reyndar nærri um hvað gekk þar á, það var verið að rífa húsin. Tvö hús hlið við hlið voru jöfnuð við jörðu og eru ekki lengur til. Bekkjarbróðir minn frá Skógum bjó í öðru en gamall sveitungi og félagi í hinu. Báðir með góðum konum, en börnin farin að heiman. Bílskúrarnir standa einir eftir óskemmdir, en það er nú svolítið snúið að fara austur á Birkivelli til að setja bílinn inn ef maður sefur sjálfur í Fosslandinu?
Einu sinni þekktu hér allir alla. Krakkarnir sem ólust upp í þessum húsum eiga nú ekki lengur neitt sem heitir "heima". Kannski er þeim alveg sama, en mér finnst það svolítið tómlegt.
Það eru reyndar víðar að verða til eyður hér í bænum. Mikill hluti miðbæjarins var rifinn fyrir rúmu ári og svo er víst eftir að rífa nokkuð mörg hús vegna skjálftaskemmda. Hvað eða hvenær eitthvað kemur í staðinn verður óráðið eitthvað áfram, eins og horfurnar eru núna.
En veðrið í dag var eins og sést af myndinni sem ég tók í morgun þegar við vorum í hreystitíma úti á velli. Reyndar sést ekki á myndinni að hann var hrollkaldur, en þetta var líka snemma morguns.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.9.2008 | 21:05
Veðurblogg
Mér hlýtur að vera óhætt að blogga um veður þó ég sé ekki til þess lærð. Veðuráhugamennska er held ég þjóðaríþrótt og öllum frjálst að taka þar þátt.
Mér finnst gaman að hlusta á veðurfregnir og enn skemmtilegra að lesa eða hlusta á veðursögur, eins og þeir segja sumir veðurfræðingarnir.
Einar Sveinbjörnsson og Páll Bergþórsson eru snillingar í svoleiðis sögum.
Ég byrja hvern dag á því að gá til veðurs og líta á hitamælinn. Um nætur, ef ég rumska, hlusta ég eftir veðri, er rok eða rigning? Lognið heyrir maður af ánni, ekkert veður og niðurinn heyrist. Annars segja þeir sem vit hafa umfram aðra menn, að áin segi okkur hér meira um veðrabrigði en margur veðurspámaðurinn. Örugglega hækkar niðurinn með kólnandi veðri. í stillum eftir suðvestan áhlaup er líka hægt að heyra í sjónum. Brimið við ströndina lætur þá svo hátt að maður heyrir það hér úti ef umferðin er skaplega hljóðlát.
Ég ætla að skemmta mér við það fram eftir hausti að birta veðurmyndir.
Einar Svbj. birtir kort og útreikninga ( ég hefði aldrei getað orðið alvöru veðurfræðingur með öllum þessum reikningi), en ég ætla bara að birta veðrið á mynd.
Svona var veðrið á Selfossi í dag:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.9.2008 | 20:45
Tölum um eitthvað skemmtilegra
Peningar, peningar, peningar, bréf og hlutir - dauðir hlutir.
Þetta heimili hér átti víst einhverjar krónur í hlutafé í þessum blessuðum banka. Frá þeim tíma sem hann var Alþýðubankinn, eða Iðnaðarbankinn, Íslandsbanki eð hvur veit hvað.
En það voru bara sárafáar krónur sem engu skipta, ég hafði hvort sem er aldrei séð þær, enda heldur ekki unnið fyrir þeim. Ef talað var á bankamáli máti víst teygja upphæðina í einhverja tugi þúsunda á góðum degi.
En nú er aldeilis orðin búbót. Ég á nú, eins og allir aðrir Íslendingar, um það bil 280 og eitthvað þúsunda króna hlut, og karlinn annað eins. Það hefur margur grætt minna á einum degi og unað glaður við sitt!
En ég ætlaði að gera allt annað.
Til að gleðja lesendur og leiða hugann að öðru ætla ég að rifja upp góða daga á líðandi sumri. Það er nefnilega ekki liðið enn þó hann spái snjókomu um helgina.
Það var býsna fínt í garðinum í Rauðholti eins og sjá má á fyrstu mynd.
Við fórum þó oft í Mýrina og þar kom líka Dýrleif og skemmti sér á trampólíni.
Í Mýrinn var nú í fyrsta sinn töluvert af berjum sem þroskaðist á fínu trjánum í tilraunareitnum.
Svo var hægt að tína hindber í frumskóginum þegar tekið var hlé úr kartöfluupptökunni.
Nú lentu myndirnar auðvitað kolruglað inn á síðuna. Sést nú samt alveg hvar er verið að taka upp kartöflur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.9.2008 | 16:27
Kemur ekki á óvart
Gott að strákurinn slapp sæmilega heill. En mér kemur þetta ekkert á óvart, gangbraut næstum því utaní hringtorgi er hönnun sem örfáir snillingar hafa látið frá sér fara. Og sennilega eu það enn meiri snillingar sem kaupa slíka hönnun. Auk þess að vera slysagildra stöðva svona gangbrautir umferðina um hringtorgin, þar sem ég held að bannað sé að stoppa. Er það annars ekki rétt?
![]() |
Ekið á dreng á Selfossi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.9.2008 | 21:35
Haustið er komið
Þetta á að verða myndablogg. Samt verð ég að segja svolítið frá því sem ég hef gert undanfarið og um helgina. Það kemur líka fram á myndunum.
Síðustu vikur hef ég farið um bæinn, læðst inní garða, klifrað í trjám og tínt ber og fræ.
Ég læðist nú reyndar aldrei inní garð án þess að spyrja fyrst um leyfi.
Ég held að ég hafi náð ca. þremur fullum strigapokum að reyniberjum, þessum venjulegu sem allir þekkja, en svo minna af mörgum öðrum reynitegundum.
Svo líka hlyn og gullregn, yllir og toppa og svo eitt og annað skemmtilegt.
Dýrleif kom hér einn daginn og hjálpaði mér að tína síðustu rifsberin í garðinum - og borða þau. Svo settum við reyniber í poka hjá sólblóminu fína.
Í dag tók ég vel til í gróðurhúsinu og safnaði saman fúksíunum öllum sem eiga að vara í vetrardvöl í skúrnum. Þó liggur nú ekkert á að setja þau inn, ekki farið að frjósa enn.
Það er eins gott að mínu berjatímabili er lokið. Fuglarnir eru farnir að gerast ágengir og svo hefur rokið síðustu vikur lamið trén svo að berin hrynja af þeim. Ég var heppin að vera í stígvélum þegar ég óð berjaskaflana á stéttinni á leið í skólann.
En svona alveg aukalega. Ég notaði líka þessa helgi til að gera ærlega tiltekt í húsinu. Þarf ekki að líta á það fyrr en um jól.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.9.2008 | 21:33
Manstu þegar Harald G. Haralds söng á borginni?
Alltaf verður eitthvað til að gleðja mann.
Þar sem ég sat sallaróleg og horfði á "Svarta engla" í sjónvarpinu birtist Harald G.Haralds skyndilega á skjánum, líklega í hlutverki lögreglustjóra, eða það sýndist mér.
Ég skrapp aftur um 40+ ár.
Á balli á Hótel Borg stóð ungur piltur á sviðinu og söng með hljómsveitinni.
Alveg rosalega sætur strákur og söng eins og engill.
Ég var ásamt vinkonunum nokkuð stöðugt úti á dansgólfinu og gerði í því að vera sem næst sviðinu og reyna að vekja athygli gæjans.
Gott ef hann var ekki farinn að gefa okkur auga - einhverri okkar? Eftir að einu laginu lauk stóð ég niðri á gólfinu, ekki man ég neitt við hvern ég hafði dansað, og mændi löngum augum uppá sviðið. Hann horfði á mig - og gaf mér merki um að koma.
OMG! Með bullandi hjartslátt á titrandi fótum staulaðist ég uppað sviðinu.
Hann kom fram á brúnina og beygði sig niður til mín.
Hann vildi að ég kæmi nær, sem ég gerði. Kræst, hvað næst?
"Þú flaggar" sagðann og blikkaði mig.
Ég hélt ég myndi deyja.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.9.2008 | 23:01
Ég fékk að taka í Taylor ísvél
Í dag á hún Urður afmæli. Það var 20. sept. þegar hún fæddist úti í Ameríku, en þá var nú reyndar kominn 21. hér heima. Síðan eru liðin tíu ár.
Af þessu tilefni fórum við í dag til Reykjavíkur og enduðum veisluhöld dagsins með kvöldverði á veitingastað með afmælisbarninu og fjölskyldu.
Þar fengu börnin ís í ábæti og meira að segja úr vél. Mér var boðið að sýna hæfni mína á ísvélina og fannst það ekki leiðinlegt. Tuttugu og þriggja ára þjálfun á slík tæki gleymist ekki svo glatt. Ég fékk fiðring í puttana. Hún hét meira að segja Taylor, hugsið ykkur bara, eins og vélin okkar góða sem við áttum í Fossnesti og við sáum svo mikið eftir. Satt að segja svo mikið að við reyndum í nokkur ár að fá vinnufélagana til að skíra börnin sín eftir henni. Ísidóra Taylor, ekki amalegt nafn, eða Ísleifur Taylor kannski?
Ég var bara hætt að eiga börn á þessum tíma, annars ætti ég kannski fullt af "ísfólki".
Ég man ekki hvers vegna allt í einu þurfti að selja hana austur á Hellu og kaupa nýja vél fyrir okkur? Það var ekkert að henni, eins og við sáum á Hellu nokkrum árum seinna. Og sú nýja hét einhverju bjána nafni sem enginn gat lært- eða vildi læra?
Og auðvitað varð ísinn aldrei jafngóður eftir skiptin.
Taylor er málið, og afmælisveislan varð fullkomin.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar