Færsluflokkur: Dægurmál

Sá síðasti "rauði"

Fyrir þá sem hanga heima og hafa ekkert fyrir stafni.

Ég man að einu sinni spurði ég mömmu hvað þau pabbi ættu mikið af peningum, og hvað þau ætluðu sér eiginlega að gera við þá?

Hún sagði þau enga peninga eiga og þótti mér það með ólíkindum. Öll þau ósköp af káli og  gulrótum sem búið var að skera, búnta og senda með Mumma í Sölufélagið. Að bera það á borð fyrir mig eð eftir allt það streð ættu þau hreint enga peninga fannst mér illa heppnaður brandari.

Að einhverju þyrfti að kosta til við uppbyggingu nýbýlis og uppeldis fimm krakka var ég ekki meðvituð um á þeim tíma.

Þó mikið væri sent af grænmeti til Reykjavíkur var líka ótrúlegt magn af því étið beint upp úr moldinni - okkur fannst ekkert varið í það soðið.  Hvítkál og blómkál, rófur og gulrætur spændum við í okkur daginn út og inn. Sprungnir hvítkáshausar, bestir inní miðjum haus, blómkálsdvergar og úrgangsgulrætur. Það var hreint ekki sama hvernig gulrótin var, þær bestu voru frekar mjóar og svolítið glærar.

Við átum ekki bara garðávexti, hundasúra var lostæti, mér fannst blöðin betri en stönglarnir. Og kerfillinn á ruslahaugnum var eins og kóngabrjóstsykur á bragðið, en ekki gott að borða of mikið af honum.

Þó að við stæðum svona á beit flesta daga sumarsins var líklega þó nokkuð sem þurfti að kaupa til heimilisins, alla vega var alltaf verið að panta í Kaupfélaginu, vörur sem komu svo með mjólkurbílnum. Og svona eftirá skildi ég að líklega hafi þurft að borga það.

Svo kom alltaf öðru hvoru maður frá Selfossi að rukka fyrir rafmagnið. Hann hét "Langi Sveinn"  og þeir þarna á Selfossi höfðu víst eitthvað með rafmagnið að gera þó staurarnir með rafmagnslínunni stæðu beint fyrir utan eldhúsgluggann og það voru karlar frá Eyrarbakka sem settu þá þar. Hilmar og Böddi og Bragi og allir hinir sem ég man ekki hvað hétu.

Einu sinni, þegar Langi Sveinn var farinn heyrði ég pabba segja við mömmu, (frekar lágt svo ég átti víst ekki að heyra),  að hann hafi orðið að láta hann hafa "þann síðasta rauða"! Ég vissi að Sveinn kom til þess eins að fá peninga og enginn peningur var rauður nema fimmhundruð kallinn. Hann hafði sem sagt tekið eina fimmhundruð kallinn sem til var!

Í marga daga eftir þetta var ég áhyggjum hlaðin. Hvernig myndi fara fyrir okkur peningalausum? Þó einhverjir hundrað eða tíkallar hefðu orðið eftir dygðu þeir varla lengi? Mér fannst það óbærileg tilhugsun að engir peningar væru til á heimilinu.

Að til væri banki eða inneign í Sölufélagi vissi ég þá ekkert um, enda hefði mér ekki þótt mikið til þess koma. Beinharðir peningar í einhverri hirslu heima voru þeir einu sem mér fannst einhvers virði.

Það var ágætt ráð til að herða á okkur á sendingardögum, sem voru mánudagar og fimmtudagar, að segja okkur, eða kannski aðallega mér, hvað mikið fengist í Sölufélaginu fyrir hvern kálpoka eða gulrótabúnt. Það kom kapp í mig að við gætum sent sem allra mest. Taldi svo og reiknaði hver hagnaðurinn ætti að verða þann daginn og fagnaði hverri krónu. Svo hélt ég líklega að Mummi kæmi með krónurnar  til baka og þær fjölguðu sér jafnt og þétt einhversstaðar í fórum pabba.

Pabbi var sá eini á heimilinu sem réði yfir þessum peningum, hann geymdi þá  alla á góðum stað og gaf mömmu svo smá ef hún fór til Reykjavíkur.   Það kom fyrir að pabbi fór líka til Reykjavíkur, eða á Selfoss, reyndar fór hann oftar en mamma. En að þær ferðir væru farnar í banka eða Sölufélag, eða Kaupfélag í viðskiptaerindum hvarflaði ekki að mér, ekki fyrr en seinna þegar heimurinn fór að stækka.   Ætli ég hafi ekki frétt af Landsbankanum á Selfossi og jafnvel reikningi í Sölufélaginu svona uppúr tíu ára aldrinum. Þá fór ég í fyrsta skipti til Púlla tannlæknis, ein með mjólkurbílnum og labbaði svo frá búinu alla leið að stóra gráa húsinu. Það var Landsbankinn á Selfossi og þar var Púlli með stofu á efri hæðinni, gengið inn að austan.

En þetta kemur tannlækningum ekkert við.

Ég man enn í dag hvað mér fannst óþægilegt að hugsa til þess að ekki væri til nóg af peningum. Ef pabbi keypti eitthvað stórt, eða lét mömmu hafa aura til kaupstaðarferðar, var alveg víst að hann ætti eitthvað eftir? Þegar ég svo seinna fór að fá pening til að fara á böll og þh. fannst mér alltaf gott ef ég átti afgang, þá þurfti ég ekki eins mikið næst og sjóðurinn rýrnaði minna. OMG! Ég var orðin hálf fullorðin, en vissi þó orðið þarna að bankinn geymdi megnið af því sem til var.

Þetta er söfnunarárátta, fyrr á árum hefði ég verið kölluð nirfill. En ég hef komist að því á síðari árum, að þó maður sé safnari og ýmislegt dragist að manni er ekki einfalt mál að safna peningum. Og skiljanlegt finnst mér núna að mamma skyldi svara eins og hún gerði um árið án þess að sýnast verulega áhyggjufull - að þau ættu enga peninga. 


Hvað ráðum við lengi yfir þessu litla landi?

Það er ekki lengur löggan sem ræður í Danmörku, þessu friðsæla og fallega landi.

Það eru glæpasamtökin sem segja óknyttakrökkunum hvernig þau eiga að sitja og standa.

Einhverjar vísbendingar eru um að þessu bófafélagi sé stýrt af innflytjendum og svo sem engin ástæða til að efast um það, eftir að hafa hlustað á hádegisfréttir hjá útvarpi Reykjavík: "Fangageymslur fullar, eftir nóttina - af útlendingum"!

Enn virðist þó löggan hér þora að  "stinga þeim í steininn", ef þarf, en hvað verður það lengi?


mbl.is Glæpasamtök stöðvuðu uppþot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðasaga - í myndum

Nú klikkaði allt sem staðið hefur óhaggað í þrjátíu ár.

Við fórum EKKi í Vogana á föstudaginn langa. þangað höfum við farið á þessum degi svo lengi sem börnin muna - og þau eru langt frá því að vera nokkur börn lengur.

Við fórum heldur ekki í göngutúr á Hvalfjarðareyrinni, en það höfum við gert líka þennan dag efir að við höfðum ekki lengur börn í eftirdragi.

Það var allt ruglað í þetta sinn. Við fórum að vísu af stað í vesturátt og upp í Hvalfjörð, en gerðum ekki meira en að staldra við ofan við eyrina til að líta eftir sjávarhæð og öðru útliti þar, sem getur verið nokkuð misjafnt frá ári til árs.  Það var kuldalegt þar í gæmorgun.

Við héldum áfram og keyrðum Hvalfjörðinn allan. Sjoppurnar í Borgarnesi voru opnar en við keyptum þar ekki neitt. Við komumst svo alla leið í Þverárhlíðina án þess að tefjast frekar og þar vorum við í gær og nótt og fram yfir hádegi í dag.

Þar var ýmislegt fallegt og skemmtilegt að sjá. Snjórinn hefur verið þar mikill, en nú er hann á förum. Stórir skaflar fara þó seint og í lægðum og giljum er enn fullt af snjó. Allar rollur eru á gjöf, en fara út að krafsa yfir daginn og víða eru skrýtnir steinar komnir upp úr snjónum. Litlar stúlkur vilja helst ekki fara inn þegar þær eru búnar að vera úti í skóginum og finna lyktina af vorinu.

Við fórum svo hina leiðina heim, göngin og allt það. Komum við í IKEA og keyptum hnífapör 24stk. sem hvert og eitt var sérpakkað í vandaðar umbúðir og fylgdi leiðarvísir á ellefu tungumálum - ekki þó íslensku.DSCF7599DSCF7641DSCF7619DSCF7652DSCF7674DSCF7713


Verðhækkanir

Skoo - ég var að hugsa: Í kvöldfréttum var talað við einhverja stúlku sem endaði sitt mál á því að biðja heild og smásala að fara rólega í verðhækkanir? Í gær var svo sagt frá því að mikið væri að gera í raftækja og húsgagnaverslunum við að breyta verði á vörum í búðunum?

Það hefur eitthvað skolast til í hausnum á mér, eða vinnulag í búðum tekið verulegum "framförum" síðan ég var í þeim bransa.

Þá komu vörurnar í búðina(eða til heildsalans) og fylgdi nóta þar sem verðið kom fram. Við reiknuðum svo út álagningu, verðmerktum og settum í sölu. Eftir það var ekki hægt að breyta verðinu, og ekki heldur þó gengið félli. En næsta nóta kom þá væntanlega með nýju verði sem gilti frá því Á VÖRUNUM SEM HENNI FYLGDU.

Og vörurnar á gamla verðinu seldust auðvitað upp áður en hinar voru snertar.

Eru svona aðferðir liðin tíð? 


Eins gott að það eru að koma páskar!

Þá verða allar þessar peningastofnanir væntanlega lokaðar í nokkra daga og engin leið að sjá eða heyra hvað mikið fellur eða sígur á hverjum degi. Eða er það ekki rétt?

Þeir lækka ekki launin sín - miklu betra að draga úr þjónustu við landsbyggðafólk

Ég var búin að heyra það áður, en las svo í blaði í dag. "Kaupþing banki", sem einu sinni var Búnaðarbanki og enginn veit hvað verður í framtíðinni, ætlar að loka útibúinu á Fúðum.

Það er auðvitað hin mesta firra að halda úti þjónustu í sveitarfélagi þar sem búið er lengst frá sjó á Íslandi öllu. Ólíklegt að þeir kotungar geri sér nokkra grein fyrir mikilvægi peningastofnana og  ægivldi þeirra sem þeim stýra. Þetta fólk getur bara grafið sínar handónýtu krónur í jörð, ef svo ólíklega vill til að það eigi þær þá einhverjar.

Það er ekki einu sinni ætlaunin að sýna sveitungunum örlitla virðingu og þjónustulund með einhverskonar neyðarúrræðum. Afgreiðslu einu sinni í viku eða eitthvað þessháttar.

Blessaðir KB mennirnir sem ekki sjá ástæðu til að lækka launin sín eru svo gjörsmalega úr tengslum við lífið í landinu, sem þeir eiga þó að þakka upphafið að öllu sínu veldi. Þeim er betur kunnugt og hafa frekar áhuga á fjármálamörkuðum í útlöndum, enda líklega oftar þar en í sveitunum á Íslandi.

En nú er staðan laus og fullt af peningastofnunum í landinu. Hrunamannahreppur er sveit í vexti, þeir sem hafa áhuga geta kynnt sér staðhætti ( og kannski laust húsnæði). Banki og póstur eiga að hafa fulla þjónustu við íbúana sveitinni, einni þeirra bestu á Íslandi. 


Sumarið kemur

Ég sannfærðist í dag, þessi vetur tekur enda eins og allir hinir sem áður komu hér við.

Það er orðið bjart þegar ég fer í vinnuna og í morgun var sólin farin að kasta rauðum lit á himininn yfir hesthúsunum. Það er komin páskafiðringur í krakkana og ég væri ekki hreinskilin ef ég reyndi að halda því fram að við fullorðnu séum eitthvað betri. Auðvitað er fríið jafn langþráð hjá okkur öllum.

Sumir fara til útlanda, Englands, Kanarí eða Danmerkur og jafnvel  einhverjir langt út í heiminn til Panama. Það er á milli Norður og Suður Ameríku, við lærðum það í samfélagsfræðinni og það var próf í gær. Hvar eru skilin á milli norður og suður Ameríku? Það vissum við örugglega flest.

Enn aðrir fara í bústaði innanlands, eða í fermingarveislu, kannski tvær. Einhverjir fara í gönguferð í Hvalfirðinum eða í heimsókn til ættingja í Borgarfirðinum. Sumir fara svo ekki neitt, rísla sér bara heima við og búa sig undir vorið. En við fáum ekki fríið okkar fyrr en á morgun, bara þingmenn fóru í frí í dag.( Mér finnst það nú annars alveg forkastanlegt, þetta fólk tollir ekkert í vinnunni)

 Það er eins gott að vorið haldi áfram að nálgast okkur svo litlu blómin sem eru farin að gægjast upp úr snjónum fái að halda áfram að vaxa, og nái að blómstra- helst í maí. Ég fann í dag lítinn fjóluknúpp, sem hafði potað sér upp úr snjónum og gerði sig líklegan til að springa út. Kannski er fullt að óútsprungnum blómum undir öllum snjónum? Það bara kemur í ljós. Svo var sólsetrið í kvöld alveg jafn fallegt eins og upprásin í morgun DSCF7427DSCF7486DSCF7518- flottur rauður bjarmi yfir Víðivöllunum. 


Þema vikunnar - ANDSTÆÐUR

Nú getið þið farið að hugsa í ANDSTÆÐUM, þema vikunnar að þessu sinni. Skilið myndunum inn fyrir sunnudagskvöld. Svo held ég nú að sé að verða nóg í bili, við getum ekki haldið þessu endalaust áfram, finnst ykkur það?

Ljósmyndamaraþon - þema vikunnar

Ég veit ekki hvernig ég á að bjarga mér, og vinna í þetta sinn. Mýrarljósið hefur valið þema sem getur orðið snúið fyrir einhver okkar. Ég vona þó að allir viti hvað orðið ÁFERÐ þýðir? 

Samt gæti einhverjum dottið í hug að snúa útúr og kannski segja að þarna væru á ferðinni tvö orð sem óvart hefðu orðið að einu "á ferð". Eða kannski að verið sé að tala um að "fara á eitthvað", það gæti verið áferð?

Það er misjafnt hver orðaforði manna er eins og ég komst að í dag þegar ég var spurð í matreiðslu hvor hliðin væri "sú grófa" á rifjárninu. 

Þema vikunnar er sem sagt ÁFERÐ og þið leggið myndirnar inn hér fyrir sunnudagskvöld.

Þeir sem það vilja geta líka sent mér þær í pósti og við "josiha" hjálpumst að við að koma þeim inn.

Nú er bara að byrja að hugsa í áferðum, eins og í síðustu viku var hugsað beint upp.

Gangi ykkur vel og góða skemmtun. 


Loksins mokað!

Ég er hætt að telja illviðrisáhlaupin og ófærðardagana sem við höfum fengið frá áramótum, en af því er löngu komið nóg. Ég hafði orð á því hér um daginn að illa væri staðið að mokstri í kringum skólann og var þá engu logið. En hér virðast vera til "batnandi menn" eins og svo víða.

Í síðustu viku, og svo aftur í morgun hefur verið búið að moka allt í kringum skólann áður en við komum. Og ekki bara moka, heldur fínhreinsa alveg upp að dyrum, eins og gerðist hér best á "Gummagröfu árunum". Það liggur við að maður sætti sig við svona langan og snjóþungan vetur úr því það tókst á endanum að finna mann sem kunni á gröfu og var leyft að nota hana þarna. Ég veit reyndar um einn gröfumann, sem vinnur hjá bænum sem gæti gert þetta svona vel, skil bara ekki hvert hann hefur verið sendur í janúar og fram eftir fefbrúar. Kannski niður í Tjarnabyggð?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 197617

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband