Færsluflokkur: Dægurmál
9.4.2008 | 21:53
Ljósmyndamaraþon - áminning
Bara svona til að minna ykkur á - GRJÓT skal það vera og ætti nú víðast að vera komið undan fönn.
Bara svona til að þið sjáið möguleikana hef ég undanfarið skotið á nokkur "grjót" sem hafa orðið á vegi mínum, en rammann fyrir keppnina set ég svo inn á næstu dögum.
Það má föndra með grjót. Ég kom við í Skálholti og sá þar grjótbiskupa og grjóthleðslu. Og þegar við Helga fórum í gönguna í gær rákumst við á eitt tilbúið grjót.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.4.2008 | 13:26
Fallegur afmælisdagur
Og í dag á líka falleg stúlka afmæli.
Til hamingju með tveggja ára afmælisdaginn elsku Dýrleif Nanna. Amma á hérna eina fína mynd sem hún tók einhvern mánudaginn sem D.N. kom í heimsókn, en það gerir hún alltaf á mánudögum.
Einhverjum finnst hún lík pabba sínum, og til að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll set ég hér inn tvær myndir af honum á svipuðum aldri. Önnur sýnir piltinn búa sig undir afrekin í leiklistinni en á hinni er hann farinn að kynna sér innihald og uppsetningu dagblaðanna. Ekki vil ég nú fullyrða að hann hefi "lesið", en það var ekki langt í það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.4.2008 | 21:44
Ævintýri á gönguferðum - í myndum
Í morgun labbaði ég í skólann - þá var heldur kuldalegt um götur og grasvelli.
Síðdegis rölti ég svo heim, í ágætu veðri og gekk þá um grænan völl.
Í kvöld fórum við Helga Guðrún svo í gönguferð sem varð svo löng að það þýðir ekkert að segja frá því - enginn myndi trúa.
En við gengum þá meðal annars hjá kirkjunni sem skyggði á sígandi sólina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.4.2008 | 20:48
"Drullupottatíminn"
Nú ætla ég bara að blogga um daginn og veginn og eiginlega ekki neitt.
Kannski ég annars skjóti hér að í leiðinni upprifjun á því sem var helst að gerast á apríldögum í sveitinni fyrir "nokkrum" árum. Eða "allmörgum" kannski.
Það var "drullupottatíminn".
Í apríl vorum við enn í skólanum, fengum oftast ekki fríið fyrr en um mánaðamótin apríl maí. En þegar nálgaðist miðjan apríl, áttum við að flýta okkur heim eftir skóla svo hægt væri að hafa gagn af okkur. Þá var byrjað að "potta kálið". Þá hafði verið sáð nokkru fyrr, hvítkáli, blómkáli og rauðkáli og nú var komið að næsta skrefi í ræktuninni, að prikla plöntunum í drullupottana.
Í skúrnum var stór moldarhaugur á gólfinu, í horninu næst stóru dyrunum. Þar hafði pappi flutt inn venjulega gróðurmold, úr skurðsruðningum og svo plandað þar saman við slatta af kúaskít. Þessu hrærði hann svo saman með skóflu og bætti í einhverju af tilbúnum áburði. Hann "blandaði moldina".
Þarna í horninu hjá moldarhaugnum stóð svo líka pottavélin. Á þremur járnfótum, virðuleg og margreynd vél sem engan hafði þó mótorinn. Hún var drifin af eintómri líkamsorku. Moldinni var mokað uppá brettið á vélinni og svo stóð einn af strákunum og stundum ég, til hliðar við og ýtti moldinni af brettinu niður í vélina. Á henni var skífa með sex eða átta holum og ofaní þau var moldinni troðið. Það hét að "troða í". Yfirleitt varð sá sem tróð að hafa kassa til að standa á svo hann næði sæmilega til þess sem hann(eða hún) átti að gera.
Pabbi sneri svo skífunni með handfangi og steig á fótstig um leið, allt saman í ákveðnum takti. Það var eins gott að passa puttana við að troða svo þeir ekki væri fastir í holu þegar skífan snerist. Þegar hann steig á pedalann fór pinni ofaní hólfin og gerði í moldardrulluna passlegt gat fyrir plönturnar og í leiðinni lyftist annar pottur af skífunni, tilbúinn, var tekinn og settur í kassa til hliðar. Svona voru steyptir fleirihundruð pottar eftir skóla á hverjum degi og svo auðvitað laugardaginn allan. Það var margoft blönduð ný moldarhrúga á gólfinu.
Næsta skref var að prikla í pottana. Það gerði mamma og yfirleitt ég með henni. Það þurfti við það svolítið "kvenleg" handtök, sem ég leyfi mér að halda fram að strákarnir hafi ekkert ráðið við. Enda höfðu þeir allt annað að gera.
Við tókum kassa með pottum(eða mamma til að byrja með, þeir voru þungir) og settum uppá borð. Við borðið þurfti ég líka kassa til að standa á fyrstu árin. Svo var stráð léttri gróðurmold yfir pottana, þjappað á og svo priklað með "priklupinna"þar sem við af eintómu hyggjuviti og þjálfum, vissum að götin í pottunum væru. Plönturnar voru agnarlitlar, bara tvö blöð, og vottaði fyrir tveim næstu. Það varð að fara vel með svo ekki skemmdust plöntur, þá yrði einum kálhausnum færra, sem var ekki gott.
Svo voru kassarnir settir til hliðar, eða raðað beint á brettið á hjólbörunum, sem voru svo keyrðar útí vermireiti þar sem pottunum var raðað uppúr kössunum. Hjólbörurnar voru notaðar við þetta þó traktorinn væri kominn, reitirnir voru allir heimavið og strákarnir hefðu verið vísir til að "delera" hefðu þeir fengið að vera á traktornum.
Þeir voru stundum klaufskir á hjólbörunum, eða kannski, held ég núna , hafa þeir bara verið svo linir og litlir að þeir réðu varla við svona farartæki, með stóru bretti ofaná og kannski fjórum kössum þungum af drullublautum pottum. Það kom "sárasjaldan" fyrir en gerðist þó, að allt fór á hliðina og það var ekkert grín.
Í reitnum sátu svo oftast tveir og "röðuðu út". Ég gerði það líka oft og það var frekar leiðinlegt. Manni fannst einhvernvegin ekkert ganga að fylla reitinn. Alveg vonlaust að vera ein við það, félagsskapur og stundum sögur flýttu heilmikið fyrir.
Svo voru settir glergluggar yfir reitina og plönturnar byrjuðu að vaxa. Stundum var tekið ofanaf og vökvað, og það var "loftað" á heitum dögum. En alltaf varð að loka fyrir nóttina, það var von á næturfrosti fram í maí. Ég man eftir að hafa oft verið send út á kvöldin til að loka. Tjaldarnir voru þá komnir og létu vel til sín heyra á eyrunum við ána.
Þessi aðferð, drullupottasteypan og allt það, var notuð alveg fram að "plastvæðingu", þegar farið var að nota græna bakka úr plasti sem fylltir voru af mold, sennilega ca. 65 +
Uppúr miðjum maí var svo kálinu plantað út í garðana og það var heilmikil vinna sem ég kannski lýsi seinna. Á þessum árum var í sveitinni gott að eiga nokkuð mörg börn, líka þó að traktorinn væri kominn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.4.2008 | 19:26
Svo fóru krakkar í körfubolta
Mér gekk vel að finna fleiri vísbendingar um vorið. Þurfti bara að líta út um gluggann í skólanum og þar voru strákarnir á fullu undir körfunni.
Reyndar hafa þeir stundum gengið fram af manni í vetur, nærri því hvernig sem viðraði létu þeir aldrei deigan síga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.3.2008 | 21:12
Það átti að vera með myndum


Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.3.2008 | 21:00
Ég vaknaði með jákvæðu hugarfari
Og hélt því áfram í allan dag. Og þvílíkur munur frá vetrarkvíðakastinu í gær.
Vitiði annars hvað "vetrarkvíði" er? Varla von, það þarf fjöldamörg ár og ómælda forvitni til að komast að því. Vetrarkvíði er nefnilega, ásamt öðru, "köngulóarvefur í háu grasi á hausti, glitrandi undir sólu". Og boðar harðan vetur í þokkabót.
Örugglega hefði svoleiðis vef verið víða að sjá á síðasta hausti, ef einhverntíman hefði stytt upp og séð til sólar.
En það er ekkert jákvætt að minnast þeirra leiðinda haustveðra.
Ég fór gangandi í skólann, ójárnuð. Það er óratími síðan ég gerði það. Þegar hálkan er verst fer ég á bíl til að detta síður á hausinn. Auðvitað er alveg hægt að detta á bílastæðinu eða skólalóðinni, þar sem skriðjökullinn liggur enn yfir. En þar er ég þó örugglega tryggð sem starfsmaður bæjarins? Aum eldhústrygging húsmóður sem brýtur sig á svelli á Víðivöllum bætir varla nema brotabrot af þessháttar tjóni.
Í morgun var svolítill grámi yfir öllu, en engin hálka. Og hitamælirinn sýndi ekki frost, sem er alger nýlunda. Ég var sjö mínútur að skokka í skólann kát og glöð.
Við byrjuðum í ensku, en svo fórum við í sund, það er besti tíminn á mánudögum. Krakkarnir tóku próf í köfun, ég þurfti þess ekki, kennarinn veit að ég get kafað, eiginlega eftir endilangri lauginni.
Sólin var komin upp þegar við fórum aftur útí skóla - bara peysuveður.
Ég man ekki eftir því síðan í haust, en þá varð reyndar að vera í regnúlpu yfir peysunni.
Ég labbaði í bankann í hádeginu og borgaði glás af peningum, brosandi og fannst bara allt í lagi með það. Kreppuvæl og vaxtaokur getur ekki unnið á mér, "ég hef nú lifað tímana tvenna"!
Svo leið nú bara dagurinn eins og allir dagar og ég labbaði aftur heim.
Á leiðinni leit ég í kringum mig með sama jákvæða hugarfarinu og ég lagði af stað með að heiman í morgun - og viti menn! Af eintómri jákvæðni sá ég tvo vorboða, alveg pottþétt, þetta sér maður bara þegar allt er að færast til betri vegar. Krókusar í beðinu fyrir framan húsið og konu sem skokkaði í hringi útá róló. Að vísu var hún í úlpu með húfu og vettlinga, en hvað með það, kannski ætlaði hún að vera úti fram á kvöld?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.3.2008 | 19:52
Það getur bara lagast
Stundum dettur mér í hug hvort veðurfarslegt þunglyndi sé til? Ef ég mögulega gæti verið einhvernvegin þunglynd þá væri það helst útaf veðri. Það hefur bara aldrei á ævi minni reynt á þetta fyrr, alla vega man ég ekki eftir svona langleiðinlegu veðri.
Ég segi og skrifa - það hefur komið einn einasti dagur síðan í ágústlok svo veðrið væri þannig að mann langaði til að fara út. Þá meina ég út undir bert loft , fótgangandi. Það var fimmtudagurinn 21 febrúar. Þetta er ekki eðlilegur andskoti - og nú skrifaði ég ljótara orð en maður á að gera og segi bara "skítt með það". Svona getur leiðindaveðrið farið með mann, meðfædd og vel varðveitt sómatilfinning farin út í veður og vind.Vonandi fer þetta að skána bráðum þó við sjáum það ekki í kortunum í dag - það getur ekki annað en lagast.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.3.2008 | 21:20
Ljósmyndamaraþon - við hættum ekki neitt
Ég er búin að ákveða næsta þema og tilkynni hér með svo þið getið farið að líta í kringum ykkur.
GRJÓT skal það vera. Skiladagur er 19. apríl og ég set hér upp sérstakan skilakassa þegar líður að lokadegi. Hvernig líst ykkur á þetta fyrirkomulag?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.3.2008 | 21:38
Og svo heldur lífið áfram
Gott páskafrí er að enda.
Hvernig er gott páskafrí?
Líklega eins breytilegt og þeir eru margir sem spurðir eru.
Að fá tíma til að eyða uppsöfnuðum vanda af þvotti, drasli, óhreinindum og bókhaldi. Stundarkorn til að ganga frá skattaskýrslunni. Fara í tvær eða þrjár heimsóknir og tvo væna bíltúra. Svona var gott páskafrí hjá húsmóður sem ég þekki vel.
Hún er á besta aldri í hundrað prósent vinnu utan heimilis og hlakkar til að koma í vinnuna á morgun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.7.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 197617
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar