Færsluflokkur: Dægurmál
27.2.2008 | 16:42
Ljósmyndamaraþon - þema vikunnar
25.2.2008 | 20:45
Aldrei að segja aldrei - eða stundum?
Ég var búin að ákveða að draga verulega úr bloggi. Það er svo margt annað sem ég þarf að gera. Skrifa svona eins og tvær ævisögur og skanna inn mörghundruð myndir. Þvílikt lán að skanninn notar ekki blek. Ég ætla nú samt að halda áfram með myndamaraþonið í nokkrar vikur á meðan þátttakendur gefast ekki upp.
En svo bara er alltaf eitthvað sem kallar á smá færslu.
Ég hef reyndar verulega rúman tíma núna - ekkert eldhús, ekki hægt að elda mat eða vaska upp - sældarlíf. Stúlkur tvær komu í gær, reyndar þrjár, en festust ekki allar á "filmu". Una sat við skriftir í gær og svo kom Dýrleif Nanna aftur í dag og lá við sína myndlist.
Vill til að amma á heilu pakkana af ljósritunarpappír og fullt pennaveski af litum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.2.2008 | 20:17
Undir sænginni -
- Þar er bara best að vera þessa dagana. Skítakuldi ennþá og samt var búið að leyfa okkur að kíkja örlítið inní vorið. Það hefði verið betra að sleppa því.
Við vorum orðin svo illu vön að okkur hefði ekkert munað um þriggja vikna fannfergi og frosthörkur, en nú hugsum við til fimmtudagsins síðasta - af hverju gátum við ekki fengið fleiri daga eins og hann?
Æææi - þetta er dæmigert volæði í vetrarlok, ég veit það vel. Kannski er ég líka pínu þreytt eftir afmælið sem ég fór í um helgina? Allt hefur sínar orsakir og tíma og svo eru til lausnir á öllum vandamálum - líka snjó og kulda. Bara klæða sig vel og líta undan þegar skafbylurinn þyrlast um loftið fyrir utan gluggana. Kúra sig undir sænginni heima og horfa bara á krakkana í vinnunni. Það eru bara þrjár vikur fram að páskafríi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2008 | 17:06
Þema vikunnar - HUGMYND
Þegar ég var að fara heim úr skólanum áðan fann ég húfu á ganginum - fína húfu.
Mér DATT Í HUG að sjá hvernig hún tæki sig út- við svona aðeins óvenjulegar aðstæður - og það var bara flott! Þetta var góð HUGMYND.
Allir af stað nú - gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.
Allar reglur eins og síðast, það gekk vel. kv.
18.2.2008 | 20:59
Leiðindastund
Er það ekki réttnefni þegar maður situr heima hjá sér - einn - og hefur svo sem ekkert að gera. Reyndar er það ekki rétt. Á leiðindastundum áttu foreldrarnir að vera með börnunum heima og hafa slökkt á öllu. Ekkert sjónvarp, engin tölva, ekkert nútímaleiktæki yfirleitt. Kannski mátti hafa útvarpið lágt stillt á gufuna og ljós á lampa í stofunni.
Það er enginn vandi að slökkva á sjónvarpinu, þar er bara eitthvað rugl um Rússland. Ég á ekki IPOD eða önnur leiktæki, en tölvuna verð ég að nota til að vera ekki alein þessa stund, það átti maður aldrei að vera. Ég get meira að segja toppað allar fyrri leiðindastundir með því að segja ykkur að það er búið að henda eldavélinni út og líka gufugleypinum og ofninum - geri aðrir betur. Engin truflun af eldamennsku eða bakstri. Vaskurinn er líka farinn - enginn uppþvottur. Ég get dundað langa stund með ykkur algerlega ótrufluð af óvæntum eldhússtörfum. Hér er ekkert eldhús.
Svo átti að spila við börnin eða segja þeim sögur. Frekar erfitt með spilin svona í fjarvinnslu, en kannski er það eins gott, aldrei að vita nema einhver myndi tapa og fara í fýlu. En sögu gæti ég sagt ef ég kynni hana einhverja? Eruð þið ekki orðin alltof gömul fyrir Búkollu? Einu sinni var hún nú góð. Og svo margar barnasögur sem voru sagðar svona í "einu sinni var" stílnum. Hans og Gréta, það er nú með ljótustu sögum sem ég hef heyrt enn í dag. En ég bara áttaði mig ekki á því fyrr en nýlega.
Foreldrar sem bera börnin sín út - hvað væri gert við þau í dag? Kærð til barnaverndar og krakkarnir teknir af þeim. Og svo nornin maður - át börn - halló - það heitir mannát nú til dags. Ég held að það sé ekki til sú refsing á Íslandi sem myndi ná yfir þann glæp. Bara engum dottið svoleiðis í hug. En samt sjálfsagt að segja litlum börnum sögur af því. Þyrnirós og Mjallhvít - einstakar lýsingar á mannvonsku og misljótum aðferðum til að níðast á sakleysingjum. Og aumingja Dísa ljósálfur, sú fékk nú að kenna á skærunum kerlingarinnar. Vængirnir bara klipptir af. Ofbeldi og líkamsárás sem leiddi til örkumla.
Ég held ég láti það var að segja ykkur sögu, komið allt of nærri háttatíma. Ég vil ekki eiga sök á andvökunótt eða martröðum vegna ljótra lýsinga úr sögum.
Kannski ég fari að leita, einhversstaðar hljóta að vera til fallegar sögur.
En hefur þá bara nokkur maður gaman af þeim?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2008 | 20:22
Þess vegna snjóar aftur
Það er ekki gott að fá of mikil hlýindi í febrúar, sagði mér góður granni fyrir mörgum árum. Gróðurinn er búinn að sofa svo lengi að hann er alveg til í að vakna núna - en það er bara of fljótt - það á eftir að koma frost og kuldi sem gæti þá farið illa með brum og viðkvæma vaxtarbrodda.
Því miður, það er bara svona. Eins og ég gæti vel þegið vorblíðu næstu sex vikurnar, alveg fram í marslok þess vegna. Þá ætti vorið eina líka að vera rétt ókomið.
Það er alveg með ólíkindum hvað hefur tekið upp af snjó síðustu daga. Má heita alautt á leiðinni í skólann, nema bara á stéttinni sem liggur frá götu að dyrum, þar var aldrei mokað, sem mér fannst þá og finnst enn alveg með ólíkindum. Það er eins og blessaðir hreppskallarnir hafi ekki hugmynd um að það fara fleiri hundruð manns um þessa stétt á hverjum degi.
Á óveðurstímanum myndaðist þarna skriðjökull sem maður fetaði sig ofanaf niður að dyrunum inn í skólann. Nú er þar glærusvell frá dyrum að götu, og aldrei sandborið hvað þá meira. Kannski halda kallarnir að það sé bara einn inngangur í skólann. Það gæti verið að þeir viti bara ekkert hvað er hvað hér, eins og sá sem ég hitti um daginn á litla traktornum og var búinn að keyra marga hringi Sólvelli, Bankaveg, Austurveg og Reynivelli. Rakst á mig í þriðja hring, stoppaði og spurði: "hvar eru Sólvellir". Á íslensku þó. Stéttin var orðin fínpússuð allan þennan hring, en núna fyrst er stéttin við Rauðholt að koma undan fönn. Hún var aldrei mokuð.
Æ - greyin - það er auðvitað engin leið að gera sem skyldi þegar snjóar svona mikið. Engin tæki til sem varla er von, hér hefur verið sumarfæri í fjögur ár. Og svo er Tjarnarbyggðin, það er nú eitt, engar smá vegalengdir sem þarf að ryðja þar.
Það á víst að kólna á morgun.
Þá festir brumið blundinn aftur og glærusvellið getur ekki lengur brotið beinin í börnunum bæjarbúa. "Allt hefur sinn tíma", eins og presturinn sagði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2008 | 20:26
Hvað er þetta "Nova"
Mín vegna gæti það verið sturtuhreinsir. Ég veit það ekki og ætla svo sem ekkert að kynna mér það frekar, sá þetta bara poppa upp á síðunni minni aftur og aftur.
Er einhver sem borgar fyrir að auglýsa svona? Ef svo er held ég að þeim aurum sé kastað á glæ. Alla vega hér hjá mér.
13.2.2008 | 19:11
Ég leitaði og fann - FJÖRIÐ - fyrsta mynd vikunnar
13.2.2008 | 16:29
Næsta viðfangsefni er FJÖR
FJÖR - valið af sigurvegara vikunnar - Jóhönnu. Til hamingju mín kæra.
Ég sé ekki alveg fyrir mér núna hvernig ég sný mér í þessu verki, en það verður að koma í ljós.
Leikreglur endurteknar og allir byrjunarörðugleikar að baki:
Þátttakandi verður að taka myndina sjálfur, núna á næstu dögum, ekki að marka að finna bara eitthvað í safni,og skila henni inn fyrir sunnudagskvöld. Nú látum við það GILDA.
Mesta áskorunin er að finna út hvernig maður sér og túlkar þema vikunnar í mynd.
Dómari lýkur sínu hlutverki fyrir mánudagskvöld.
Öllum er velkomið að vera með.
Sigurvegari hverrar viku velur svo næsta þema.
Ef einhver á í erfiðleikum með að koma mynd fyrir í kommenti þá má bara senda mér og ég kem henni alla leið.
Nokkrar athugasemdir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.2.2008 | 22:43
Kristín er með

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.7.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 197617
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar