Sá síðasti "rauði"

Fyrir þá sem hanga heima og hafa ekkert fyrir stafni.

Ég man að einu sinni spurði ég mömmu hvað þau pabbi ættu mikið af peningum, og hvað þau ætluðu sér eiginlega að gera við þá?

Hún sagði þau enga peninga eiga og þótti mér það með ólíkindum. Öll þau ósköp af káli og  gulrótum sem búið var að skera, búnta og senda með Mumma í Sölufélagið. Að bera það á borð fyrir mig eð eftir allt það streð ættu þau hreint enga peninga fannst mér illa heppnaður brandari.

Að einhverju þyrfti að kosta til við uppbyggingu nýbýlis og uppeldis fimm krakka var ég ekki meðvituð um á þeim tíma.

Þó mikið væri sent af grænmeti til Reykjavíkur var líka ótrúlegt magn af því étið beint upp úr moldinni - okkur fannst ekkert varið í það soðið.  Hvítkál og blómkál, rófur og gulrætur spændum við í okkur daginn út og inn. Sprungnir hvítkáshausar, bestir inní miðjum haus, blómkálsdvergar og úrgangsgulrætur. Það var hreint ekki sama hvernig gulrótin var, þær bestu voru frekar mjóar og svolítið glærar.

Við átum ekki bara garðávexti, hundasúra var lostæti, mér fannst blöðin betri en stönglarnir. Og kerfillinn á ruslahaugnum var eins og kóngabrjóstsykur á bragðið, en ekki gott að borða of mikið af honum.

Þó að við stæðum svona á beit flesta daga sumarsins var líklega þó nokkuð sem þurfti að kaupa til heimilisins, alla vega var alltaf verið að panta í Kaupfélaginu, vörur sem komu svo með mjólkurbílnum. Og svona eftirá skildi ég að líklega hafi þurft að borga það.

Svo kom alltaf öðru hvoru maður frá Selfossi að rukka fyrir rafmagnið. Hann hét "Langi Sveinn"  og þeir þarna á Selfossi höfðu víst eitthvað með rafmagnið að gera þó staurarnir með rafmagnslínunni stæðu beint fyrir utan eldhúsgluggann og það voru karlar frá Eyrarbakka sem settu þá þar. Hilmar og Böddi og Bragi og allir hinir sem ég man ekki hvað hétu.

Einu sinni, þegar Langi Sveinn var farinn heyrði ég pabba segja við mömmu, (frekar lágt svo ég átti víst ekki að heyra),  að hann hafi orðið að láta hann hafa "þann síðasta rauða"! Ég vissi að Sveinn kom til þess eins að fá peninga og enginn peningur var rauður nema fimmhundruð kallinn. Hann hafði sem sagt tekið eina fimmhundruð kallinn sem til var!

Í marga daga eftir þetta var ég áhyggjum hlaðin. Hvernig myndi fara fyrir okkur peningalausum? Þó einhverjir hundrað eða tíkallar hefðu orðið eftir dygðu þeir varla lengi? Mér fannst það óbærileg tilhugsun að engir peningar væru til á heimilinu.

Að til væri banki eða inneign í Sölufélagi vissi ég þá ekkert um, enda hefði mér ekki þótt mikið til þess koma. Beinharðir peningar í einhverri hirslu heima voru þeir einu sem mér fannst einhvers virði.

Það var ágætt ráð til að herða á okkur á sendingardögum, sem voru mánudagar og fimmtudagar, að segja okkur, eða kannski aðallega mér, hvað mikið fengist í Sölufélaginu fyrir hvern kálpoka eða gulrótabúnt. Það kom kapp í mig að við gætum sent sem allra mest. Taldi svo og reiknaði hver hagnaðurinn ætti að verða þann daginn og fagnaði hverri krónu. Svo hélt ég líklega að Mummi kæmi með krónurnar  til baka og þær fjölguðu sér jafnt og þétt einhversstaðar í fórum pabba.

Pabbi var sá eini á heimilinu sem réði yfir þessum peningum, hann geymdi þá  alla á góðum stað og gaf mömmu svo smá ef hún fór til Reykjavíkur.   Það kom fyrir að pabbi fór líka til Reykjavíkur, eða á Selfoss, reyndar fór hann oftar en mamma. En að þær ferðir væru farnar í banka eða Sölufélag, eða Kaupfélag í viðskiptaerindum hvarflaði ekki að mér, ekki fyrr en seinna þegar heimurinn fór að stækka.   Ætli ég hafi ekki frétt af Landsbankanum á Selfossi og jafnvel reikningi í Sölufélaginu svona uppúr tíu ára aldrinum. Þá fór ég í fyrsta skipti til Púlla tannlæknis, ein með mjólkurbílnum og labbaði svo frá búinu alla leið að stóra gráa húsinu. Það var Landsbankinn á Selfossi og þar var Púlli með stofu á efri hæðinni, gengið inn að austan.

En þetta kemur tannlækningum ekkert við.

Ég man enn í dag hvað mér fannst óþægilegt að hugsa til þess að ekki væri til nóg af peningum. Ef pabbi keypti eitthvað stórt, eða lét mömmu hafa aura til kaupstaðarferðar, var alveg víst að hann ætti eitthvað eftir? Þegar ég svo seinna fór að fá pening til að fara á böll og þh. fannst mér alltaf gott ef ég átti afgang, þá þurfti ég ekki eins mikið næst og sjóðurinn rýrnaði minna. OMG! Ég var orðin hálf fullorðin, en vissi þó orðið þarna að bankinn geymdi megnið af því sem til var.

Þetta er söfnunarárátta, fyrr á árum hefði ég verið kölluð nirfill. En ég hef komist að því á síðari árum, að þó maður sé safnari og ýmislegt dragist að manni er ekki einfalt mál að safna peningum. Og skiljanlegt finnst mér núna að mamma skyldi svara eins og hún gerði um árið án þess að sýnast verulega áhyggjufull - að þau ættu enga peninga. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Josiha

Hvað er kerfill?

En annars fróðleg lesning.

Josiha, 24.3.2008 kl. 00:27

2 identicon

Gleðilega páska Helga þetta  var skemmtileg lesning.Það á enginn peninga núna nema fermingarbarnið á mínu heimili heila skúffu!! Það var samt allt eitthvað svo einfaldara í den.

Guðbjörg Elín (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 09:35

3 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Jóhanna - Kerfill er jurt sem vex á ruslahaug - og reyndar víðar.

Guðbjörg - til hamingju með ferminguna hennar nöfnu, vonandi koma krónurnar að góðu gagni. kv. 

Helga R. Einarsdóttir, 24.3.2008 kl. 09:45

4 Smámynd: Josiha

Fann þess á netinu þegar ég googlaði "kerfill"

Ekki vissi ég að þessi jurt héti kerfill. Hún vex víða hér í Sandvík, t.d. meðfram Strokkhólsveginum. Og lyktin af þessari jurt er ein sú besta sem ég veit um! Hún minnir mig á sumarið, ömmu í sveitinni og gamla góða tíma. Gæti þefað eeeeeeeendalaust af henni.

Josiha, 24.3.2008 kl. 13:09

5 Smámynd: Josiha

Já og þessi mynd af á einhverri síðu, anno.blog.is. Bara svona að geta heimilda, enda flott mynd

Josiha, 24.3.2008 kl. 13:10

6 Smámynd: Rannveig Bjarnfinnsdóttir

Skemmtileg færsla hjá þér Helga.

Aldrei átti ég pening afgangs eftir böll   

Rannveig Bjarnfinnsdóttir, 24.3.2008 kl. 15:44

7 Smámynd: GK

Hvar hef ég lesið þennan pistil áður? Ertu farin að endurbirta færslur?

GK, 24.3.2008 kl. 20:49

8 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ég hélt ekki - hefurðu nokkuð verið hér í skúffunum Guðmundur?

Helga R. Einarsdóttir, 24.3.2008 kl. 21:07

9 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Pistill að mínu skapi, frænka, skil svona pælingar. Kannski eitthvað líkt með skyldum hér.

En -- hvað gerist ef maður verður of gráðugur í (helvítis) kerfilinn?

Kv. í bæinn

Sigurður Hreiðar, 25.3.2008 kl. 19:22

10 identicon

Flottur pistill og segir margt

                     Kveðja úr frostinu og snjónum í Óðinsvéum 

Kristín Gunnars. (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 21:10

11 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Siggi Hreiðar - ég held að maður fái ógeð áður en magapínan byrjar.

Og Kristín mín - auuumingja þú og öll þín fjölskylda. Vonandi kemur vorið til ykkar aftur. Það snjóar nú reyndar hér líka, en það finnst engum skrýtið lengur. kv.  

Helga R. Einarsdóttir, 25.3.2008 kl. 22:08

12 identicon

Með því skemmtilegra sem ég hef lesið lengi !

Sigmundur Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 95
  • Frá upphafi: 197002

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 91
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband