Færsluflokkur: Dægurmál

Svo rann upp nýr dagur og spennan magnaðist

Guðbjörg var búin að bjóðast til að koma og hjálpa til að grafa upp úr rústunum. Ég stillti mig þess vegna um að byrja strax og ég vaknaði, endurnærð í innkeyrslunni.

S.K. fór í vinnuna, það var víst nóg að taka til þar. En ég átti að vera heima. Klukkan var bara 7.30.

Ég hafði eiginlega ekkert að gera svona snemma, hefði auðvitað átt að sofa til tíu.Ég fór inn og fékk mér morgunmat og hellti á könnuna. Það kom vatn úr krananum og kannan hitnaði.

Ég var svolítið hugsandi um lagnir, rafmagn, vatn og frárennsli. Það gat allt hafa farið í klessu án þess að sæist strax. Alla vega var ekkert net, enginn sími og ekkert sjónvarp. Ég ákvað að nota morgunstundina til að byrja tilraunir á þessu sviði og setti í þvottavél. Svo fór ég yfir götuna þegar ég sá húsbændur þar á stjái. Þeir voru að bera saman bækur og líta eftir skemmdum utanhúss. Enginn var víst byrjaður á tiltekt enn. Þeir spurðu hvað ég væri helst að glíma við, einsömul konan og húsið allt í drasli. Ég sagðist vera að þvo og þeir hlógu að því. Mér fannst það ekkert fyndið.

Svo fór ég í næsta hús og spurði um símann, hann var dauður þar líka. Þá settist ég í bíl og keyrði í TRS til að klaga.  Síminn er víst í fóstri hjá þeim. Eitthvað var ekki að virka þar. Ég hitti stúlku sem sagðist nú eiginlega ekki eiga að taka við bilanatilkynningum, ég hefði átt að hringja í bæinn. "Hvernig þá" ? spurði ég. "Í gemsanum", sagði hún!

Í gemsanum? Sú var góð, "ég á engan gemsa" var ég svo vinsamleg að fræða hana um. Það var mesta furða hvað hún tók því vel, horfði bara aðeins betur á mig. Og hún tók að sér að koma vandanum á framfæri í Reykjavík. En það sagðist hún verða að gera svo þeir í Reykjavík gætu haft samband við strákana hérna niðri og sent þá til að gera við.

Ég fór heim með viðkomu á E38. Lalli var kominn heim, hafði ekki unað sér á Vestfjörðum vitandi af fjölskyldunni í botnlausum náttúruhamförum. 

Þau komu svo til mín og við fórum að gramsa í hrúgunni í stofunni.  Þar varð svo stigvaxani spenna í loftinu allt þar til yfir lauk. Hvað skyldi finnast heilt og hvað var "brotið og týnt" eins og segir í ljóðinu. Skápurinn var maskbrotinn og kristallinn mest allur. Í minningu vina og ættingja sem hafa gefið, sópuðum við honum í bleikan bala og blessuðum yfir. En það var furðu margt heilt og hvert fagnaðarópið rak annað. Og mikið dæmalaust er ég fegin að ég skyldi ekki tíma að kaupa litla bollastellið gullslegna sem ég horfði sem lengst á í búðinni í París um árið. Þá væri það núna mylsnan ein. Nú get ég hlakkað til að fara til Parísar næst, ég á erindi. 

Þessum fagnaðarfundi lauk svo með gardenpartíi  -a -la Pylsuvagninn, og það dreif að gesti og gangandi.

En fjandans þvottavélin klikkaði. Dældi ekki af sér og flæddi um gólfið. Gat nú verið, tjónið kemur víða við. En þegar ég var búin að vinda útúr henni og hengja út á snúru, fór ég að hugsa. "Hvenær hreinsaði ég sigtið síðast"? 

Auðvitað var ekkert annað að. Ég hreinsaði það vel og vandlega og setti svo í aðra vél. Allt í fína lagi! 

Svo kom símamaðurinn og hann fann út að það væri eiginlega ekkert bilað, bara eitthvað smástykki sem hafði trúlega rekist utaní og brákast. Hann límdi það með límbandi og taldi myndi duga í tuttugu ár. 


Krakkar með grísi?

En hvað þá með baukinn minn? Ég á feitan grís sem ég þarf að fara að tæma. Ætli ég sé ekki velkomin þó ég sé "nokkuð við aldur"?  Kannski er ég heppin að hann er ekki frá Glitni sem einu sinni var Íslandsbanki og þar áður Iðnaðarbankinn held ég. Vegna þessara mörgu nafna forðast ég að tengjast stofnuninni of sterkum böndum - ég veit aldrei hvað verður á morgun.
mbl.is Enginn grís hjá Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og konan í austurbænum fór ekki í hús þessa nótt

Þegar sjónvarpið var komið út í skúr fór nú fyrst að verða þar heimilislegt.

Guðbjörg fór samt heim til sín, það var líka heldur dregið ú tilmælunum um að fólk væri undir berum himni. Henni hafði ekki tekist að ná í Lalla sem geystist um fjallvegi Vestfjarða án þess að vita nokkurn skapaðan hlut. Ívar, hins vegar náði að hringja úr Þórsmörk til að segja mömmu sinni að þau hefðu fundið fyrir skjálfta í göngunni uppá Valahnjúk. Nágrannakona kom og sagði frá dularfullri fjarsýni dóttur sinnar sem var stödd á Spáni en hafði beðið manninn sinn að hringja heim strax eftir skjálfta til að spyrja hvort all væri í lagi. Hún hafði legið í sólbaði á ströndinni, þegar allt fór að velta og ganga í bylgjum í kringum hana. 

Einar hringdi og bauð gistingu í Reykjavík og svo komu fleiri boð um búferlaflutninga, en nú vorum við eiginlega flutt í bílskúrinn, með stóla borð sjónvarp og teppi, svo við fórum hvergi. Við horfðum á fréttir í sjónvarpinu og undruðumst eins og aðrir, þau ósköp sem á höfðu gengið. Skólahaldi aflýst á morgun, starfsfólk átti ekki heldur að mæta. Skólinn var yfirtekinn af Rauða krossinum og við réðum þar engu á meðan.

Helga hafði brugðið sér frá en kom nú með vinkonu sem hún hafði "bjargað". Þær horfðu með okkur. Enn hafði ekki tekist að ná sambandi við Sandvík. Síminn var dauður, bæði gemsi og inni. Helga sendi SMS, "er allt í lagi"? Svarið kom fljótlega, allt í lagi. Svo kom Guðmundur stuttu seinna. Hann hafði bara verið á ferðinni eins og sönnum blaðamanni sæmdi, um Ölfusið, Selfoss, Hveragerði og svo framvegis, að taka myndir. Nýja húsið hafði staðið sig vel svo best var vitað, og ekkert alvarlegt skeð í sveitinni.  Við skiptum á milli okkur langlokunni sem hafði fundist í ísskápnum, annars var enginn svangur og það held ég að hafi ekki áður  komið fyrir um kvöldmatarbil í mínum búskap.

Það var talað við Ragnar skjálfta og líka hann Palla - Einars Páls, sem var frændi á Begstaðastræti 4 þegar ég kom þar sem oftast. Gott ef hann átti þar ekki heima líka. Á þeim árum var mitt mesta sport í kaupstaðrferðum að hanga úti í glugga á efstu hæð í þessu húsi (Bergststr 4) og horfa niður í garðinn við tugthúsið á Skólavörðustíg. Fangarnir voru þar á rölti og við töluðum saman á táknmáli.

Haddi bróðir minn hringdi og tilkynnti fæðingu sonarsonar á Reyðarfirði. Til hamingju Einar minn og fjölskylda. Ætli drengurinn verði ekki skírður Skjálfti öðru nafni? 

Þegar leið á kvöldið fórum við á stjá, til nágranna sem höfðu orðið fyrir miklu tjóni á innbúi. Hjá okkur var bara smá drasl í samanburði við það. Við fórum líka til Guðbjargar og við spáðum í að fara í Leynigarð og sofa þar öll saman. Hún hafði náð sambandi við Lalla. Hann spurði hvort hún vildi að hann kæmi, en hún sagði hann bara ráða þvi. Ekkert varð úr að við færum í sveitina til gistingar, en við "gömlu" skruppum uppeftir og sóttum tjaldvagninn. Komum aðeins við hjá mömmu en fórum  svo heim og tjölduðum í innkeyrslunni. Sváfum þar svo vel og lengi, en fundum samt morgunskjálftann sem kom ca. 6.30 held ég. Bara á réttum tima til að vekja bæjarbúa og minna þá á verkefni morgundagsins...... 


Eins gott að rabbarbarinn kom snemma til í ár

 Framhaldssagan um jarðskjálftann og konuna í austurbænum.

Þeir feðgar hurfu inn til sín og ég varð aftur ein. Tiplaði til baka yfir götuna á tásunum berum og sá um leið betur hvað gangstéttin var illa farin. Töluvert margir steinar(hétu þeir ekki Óðalssteinar) voru í haug og nokkuð stór hluti af steyptri stéttinni reis uppá rönd við hrúguna. Það var galopið út, ég hafði ekki haft fyrir því að loka á eftir mér.  

Af tröppunum sá ég inn eftir húsinu, alveg inn í gafl í stofunni. Allt í klessu?  Kannski hefði ég ekki átt að þora, en var of forvitin. Ég fór inn. 

Veggsamstæðan í stofunni hafði fallið fram á gólfi, öll hólfin eins og þau lögðu sig. Ofaná borðið sem við keyptum í síðustu viku, og þar á hafði staðið lampinn flotti sem var keyptur í fyrra. Borðið og lampinn brotin.  Allt sem hafði verið í efri hæð samstæðunnar var á gólfinu. Blómasúlan sem amma gaf mér var fallin og friðarliljan sem á henni stóð var á gólfinu. Súlan þó heil og potturinn óbrotinn. Ekki einu sinni mold á gólfinu. Hafði blessað blómið ekki haft mold í pottinum sínum? Séniverbrúsinn sem Haddi bróðir gróf uppúr jörðinni við mannvirkjagerð á Reykjavíkurflugvelli var heill. Hann gaf mér brúsann af því ég var sú eina í fjölskyldunni sem mundi almennilega eftir séniver í svona íláti.  Ég fór í skó.

Ég tók myndavélina af tölvunni og fór aftur út. Nú var aftur líf í austurbænum. Bílar á götunni og fólk á ferð. Ég fór í næsta hús að líta til hjónanna þar. Mér fannst eins og enginn væri þar heima, ekkert lífsmark höfðum við Kiddi séð þar áðan. Ég hringdi bjöllunni og var hleypt inn. Þarna var allt í lagi, engin ástæða til að rjúka út úr húsi. Nokkrir bókaskápar og laust glingur hafði fallið en ekkert sem tók því að gera veður útaf. "Allir heilir" eins og maðurinn sagði.

Ég var komin út aftur þegar eiginmaðurinn kom hjólandi úr vinnunni til að líta eftir eigum sínum. Hann átti eiginlega ekki von á mér heima, ég hafði komið í fyrra lagi. Hann leit lauslega inn um útidyrnar, en fór svo og opnaði bílinn. Útvarpið. Það hlaut að koma eitthvað um þetta í útvarpinu. Svolítið skrýtið að fara að hlusta á útvarp til að heyra hvað hefði gerst, við vissum það víst betur en aðrir landsmenn.

Það var farið að heyrast í sírenum um allan bæ og í útvarpinu sögðu þeir að skjálftinn hefði verið yfir 6 á Richter. Kannski nær 7 héldu þeir í Ameríku.  Guðbjörg kom með Júlíu með sér. Þær höfðu verið nýkomnar úr bænum og sátu inni í eldhúsi. Ívar í skólaferðalagi í Þórsmörk og Lalli í fjórhjólatúr fyrir vestan. Helga í vinnunni.  Heima hjáþeim var allt í lagi, datt bara eitthvað smá en brotnaði eiginlega sáralítið. 

Nú sögðu þeir í útvarpinu að við ættum ekki að fara inní húsin.  Veðrið var einstaklega gott, sólskin og nærri logn. Við fórum að búa um okkur á bakvið hús. Nágrannar komu að spyrja frétta og við fréttum af þeim. Það voru margar og ólíkar lýsingar. Hjá einhverjum allt í lagi en verra annarsstaðar. Það var víst búið að loka öllum búðum og nú fannst mér allt í einu enginn matur til. Ég hafði ekkert verið búin að fara í búð. Helga Guðrún kom og hún fór fljótlega að kanna þá hlið málsins. Þó ekki mætti vera í húsinu varð nú einhver að fórna sér til að leita að vistum og öðrum nauðsynjum. Ekkert brauð, en eitthvað kex þó. Langloka frá því í fyrradag þegar við fórum í sveitina. Ég fór að hugsa. Rabbarbarinn var orðinn nokkuð vel vaxinn og í skúrnum var til fullt af rifsberjahlaupi frá því í haust. Grillið var þar líka og kjöt í frysti í þvottahúsinu. Við myndum alveg komast af í nokkra daga. Tjaldið var líka í skúrnum. Það var ekki beðið boðanna heldur byrjað að borða þarna á baklóðinni allt það sem Helgu tókst að finna freistandi í ísskápnum. Hún skaust bara inn og út á örskotsstund. við fundum jörðina krauma undir okkur eiginlega stöðugt. Sitjandi á stólum eða standandi við dyrastaf í skúrnum, fundum við nærri stöðugan titring. Var þessi 3 eða meira? Kannski nærri 4.

S.K. Hætti lífinu og sótti litla sjónvarpið inn í svefnherbergi. Það var farið að kula aðeins  svo við sóttum föt og teppi og bjuggum svo um okkur í skúrnum. Það var ekkert símasamband svo við gátum ekki frétt að Sandvíkingum eða  nýja  fallega húsinu þeirra. framh - gestir


Skemmdir á Stöng?

Þar sem vísað er til tengdra frétta er sagt frá skemmdum á Stöng í Þjórsárdal. Var það ekki bara vegna slæmrar umgengni og slælegrar umhirðu?

Tökum vel á móti öllum?

Hefur okkur ekki verið kennt það, að taka vel á móti öllum sem vilja setjast að á Íslandi.

það væri eintóm skömm og hneisa ef ætti svo að farga þessum einstaka innflytjanda!

Verum góð við Bjössa eins og alla hina.


mbl.is Lögregla á slóðum ísbjarnarins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig kona á sjötugsaldri, búsett í austurbænum,bregst við jarðskjálfta uppá 6.2

Loksins lífsmark. Ég hef haft annað fyrir stafni og bara eins gott að gera úr þessu eina framhaldssöguna enn.

Ég fór í skólaferðalag á fimmtudaginn, þá var 29. maí en við tókum ekkert sérstaklega eftir því.

Veðrið var bara frábært og krakkarnir 60 sem við fórum með voru alveg þokkalega jákvæð þó að í þetta ferðalag þyrftu þau að fara að mestu gangandi. 

Við vorum flutt með rútum uppá Ölkelduháls og gengum svo þaðan niður Hveradalinn og niður í uppsveit Hveragerðis. Þessi ferð var bara skemmtileg og allt gekk eins og í sögu. Það var stoppað í nesti og sullað í læknum og krakkarnir léku sér eins og lömb á vordegi.

Þó þau séu komin í níunda bekk gátu þau ekki annað en haft gaman af ferðinni og það gerði, alla vega ég, líka. Mér er sagt að þetta séu einir sex til sjö kílómetrar.

Við komum heim í skóla um hádegi og þá var "skólinn" búinn þann daginn hjá krökkunum en ég átti nokkra tíma eftir og fann mér eitthvað til dundurs á vinnustað. Rétt fyrir þrjú fundum við allsnarpan jarðskjálftakipp í skólanum, en gerðum ekkert veður útaf því. Það var líkast því að einhver skellti hurð  heldur hraustlega.

Dundið, sem var bókaflutningar, entist mér þó ekki nema rétt fram yfir þrjú og þá var mér líka orðið óbærilega heitt í gönguflíkunum. Sólbökuð var ég líka svo lá við skaða.  Ég samdi um það við Rúnu að ég fengi að fara heim í fyrra lagi. 

Eftir að heim kom byrjaði ég á að skipta um föt og strjúka yfir sólbrunann.               Fletti svo Mogganum lauslega.  Svo settist ég hér við tölvuna og bjó mig undir að setja inn myndirnar sem ég tók í ferðinni.

Ég heyrði drunurnar fyrst og var strax nokkuð með á nótunum, enda var húsið nærri því um leið farið að hristast til eins og korktappi í stórsjó. Ég stóð upp og sneri mér við og sá þá að veggurinn virtist við það að slíta sig lausan frá gólfinu. Ég stökk í gegnum ganginn og fram í forstofuna, opnaði út og stökk út á tröppur. Berfætt. 

Bíllinn stóð í innkeyrslunni og ruggaði af einni hlið á aðra. Ég sá að fjallið var horfið í þéttum rykmekki. Ég sá ekkert annað lífsmark í kringum mig. Það var enginn í öllu hverfinu nema ég. Ég stökk niður af tröppunum og út að götunni. Kannski voru þarna liðnar þrjár sekúndur frá því skjálftanum lauk. Fínu steinarnir sem hann Hemmi lagði hér í innkeyrsluna fyrir fáum árum voru allir á rúi og stúi og endinn á gangstéttinni reis uppá rönd.

Sonur nágrannans kom út úr húsinu á móti. "Þessi var soldið öflugur" kallaði hann, og ég stökk af stað til hans. Berfætt. Yfir götuna, og prísaði mig sæla fyrir að vera ekki lengur eina lífsmarkið í austurbænum. Við stóðum svo þarna saman og horfðum á rykkmökkinn líða inn með fjallinu austanverðu og eyðast smám saman upp með  Soginu. Það var vestan andvari.

Þarna stóðum við svo tvö, en samt svo alein, ég hélt í ljósastaurinn og kannski strákinn líka, ég man það ekkert. Þetta er stór strákur, reyndar alveg maður. En hann var og er einn af krökkunum í hverfinu og þau verða alltaf krakkar.

Þá  kom þabbi hans og beygði uppað húsinu sínu á tveimur hjólum, hentist út og spurði "eru allir heilir"? Við önsuðum engu, hann sá það nú víst?  Ég losaði takið á staurnum, og kannski stráknum líka, hann elti pabba sinn inn í húsið, en ég sneri til baka yfir götuna. Berfætt.

 


Þetta finnst mér skrýtið

Í öllum regnbogans litum?  Hvernig má það vera að ættbálkur sem enginn hefur áður hitt sé svona marglitur?
mbl.is Myndir nást af óþekktum ættbálki í Brasilíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta ekki öfugmæli?

Ég hef aldrei hugsað útí það fyrr, en væri ekki nær að segja að "sólin sleikti fólkið"?

En svo má alveg fylgja að hvernig sem á því stendur eru engin veðurskeytis send úr minni sveit en mælirinn hjá okkur sýndi í dag yfir 20 st. hita. 


mbl.is Veðurguðir í góðu skapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir úr Mýrinni

Við fórum í sveitina í dag til að gera þar eitt og annað sem landeigendur þurfa að gera.

Þegar við komum þangað tóku hrossin hans Jóa á móti okkur, þau eru góðir grannar og fylgjast með þegar við komum. Við settum kartöflurnar niður fyrir viku og nú þurfti að gera arfaverjandi aðgerðir, bera á og svoleiðis. Svo færði ég nokkrar trjáplöntur, henti dauðum og setti aðrar í skörðin. Líka komum við með tvö tré til að planta. Trjágróðurinn kemur bara nokkuð vel til, sjaldséðar tegundir alveg lifandi upp í topp. En þrjár fann ég sem eru líklega dauðar, allstórar plöntur af ýmsum reynitegundum. Þarf að endurskoða það.

Svo endaði ég með að fara í frumskóginn og snyrta þar eina röð af öspum. saga dauðar greinar og svoleiðis. Ætli það séu ekki svona hundrað tré í hverri röð og raðirnar þrjátíu. Ég komst reyndar ekki alveg út á enda með þessa röð af því ég varð frá að hverfa vegna óvæntrar uppákomu.

Ég var að bogra við að saga dauða grein neðst á einu trénu, þegar ég heyrði þyt og sá fugl fljúga til hliðar við mig. Ég er að tala um að það var líkast því að hann kæmi uppúr buxnavasanum. Ég sneri mér við og horfði þá beint ofaní hreiður með fimm ungum allsberum, kannski komið úr eggjunum í gær. Greyin. Mamman sat uppí tré fyrir ofan hausinn á mér og skammaðist. Það var bara eitt að gera - koma sér í burtu.

Samt laumaðist ég aftur á vettvang og tók mynd af greyjunum. Það er ekki oft sem maður finnur þrastarhreiður á jörðinni. Síðast þegar ég komst í návígi við eitt slikt þurfti ég að sækja það uppí 15 metra hátt grenitré af því mamman var dáin og ég varð að taka við af henni. Hitamælirinn á pallinum sýndi góðar tölur í dag.

DSCF9482DSCF9488DSCF9498DSCF9499DSCF9506Svo fann ég fífla í sínu rétta umhverfi og tók mynd af þeim - fyrir Önnu Kollu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 197615

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband