Svo rann upp nýr dagur og spennan magnaðist

Guðbjörg var búin að bjóðast til að koma og hjálpa til að grafa upp úr rústunum. Ég stillti mig þess vegna um að byrja strax og ég vaknaði, endurnærð í innkeyrslunni.

S.K. fór í vinnuna, það var víst nóg að taka til þar. En ég átti að vera heima. Klukkan var bara 7.30.

Ég hafði eiginlega ekkert að gera svona snemma, hefði auðvitað átt að sofa til tíu.Ég fór inn og fékk mér morgunmat og hellti á könnuna. Það kom vatn úr krananum og kannan hitnaði.

Ég var svolítið hugsandi um lagnir, rafmagn, vatn og frárennsli. Það gat allt hafa farið í klessu án þess að sæist strax. Alla vega var ekkert net, enginn sími og ekkert sjónvarp. Ég ákvað að nota morgunstundina til að byrja tilraunir á þessu sviði og setti í þvottavél. Svo fór ég yfir götuna þegar ég sá húsbændur þar á stjái. Þeir voru að bera saman bækur og líta eftir skemmdum utanhúss. Enginn var víst byrjaður á tiltekt enn. Þeir spurðu hvað ég væri helst að glíma við, einsömul konan og húsið allt í drasli. Ég sagðist vera að þvo og þeir hlógu að því. Mér fannst það ekkert fyndið.

Svo fór ég í næsta hús og spurði um símann, hann var dauður þar líka. Þá settist ég í bíl og keyrði í TRS til að klaga.  Síminn er víst í fóstri hjá þeim. Eitthvað var ekki að virka þar. Ég hitti stúlku sem sagðist nú eiginlega ekki eiga að taka við bilanatilkynningum, ég hefði átt að hringja í bæinn. "Hvernig þá" ? spurði ég. "Í gemsanum", sagði hún!

Í gemsanum? Sú var góð, "ég á engan gemsa" var ég svo vinsamleg að fræða hana um. Það var mesta furða hvað hún tók því vel, horfði bara aðeins betur á mig. Og hún tók að sér að koma vandanum á framfæri í Reykjavík. En það sagðist hún verða að gera svo þeir í Reykjavík gætu haft samband við strákana hérna niðri og sent þá til að gera við.

Ég fór heim með viðkomu á E38. Lalli var kominn heim, hafði ekki unað sér á Vestfjörðum vitandi af fjölskyldunni í botnlausum náttúruhamförum. 

Þau komu svo til mín og við fórum að gramsa í hrúgunni í stofunni.  Þar varð svo stigvaxani spenna í loftinu allt þar til yfir lauk. Hvað skyldi finnast heilt og hvað var "brotið og týnt" eins og segir í ljóðinu. Skápurinn var maskbrotinn og kristallinn mest allur. Í minningu vina og ættingja sem hafa gefið, sópuðum við honum í bleikan bala og blessuðum yfir. En það var furðu margt heilt og hvert fagnaðarópið rak annað. Og mikið dæmalaust er ég fegin að ég skyldi ekki tíma að kaupa litla bollastellið gullslegna sem ég horfði sem lengst á í búðinni í París um árið. Þá væri það núna mylsnan ein. Nú get ég hlakkað til að fara til Parísar næst, ég á erindi. 

Þessum fagnaðarfundi lauk svo með gardenpartíi  -a -la Pylsuvagninn, og það dreif að gesti og gangandi.

En fjandans þvottavélin klikkaði. Dældi ekki af sér og flæddi um gólfið. Gat nú verið, tjónið kemur víða við. En þegar ég var búin að vinda útúr henni og hengja út á snúru, fór ég að hugsa. "Hvenær hreinsaði ég sigtið síðast"? 

Auðvitað var ekkert annað að. Ég hreinsaði það vel og vandlega og setti svo í aðra vél. Allt í fína lagi! 

Svo kom símamaðurinn og hann fann út að það væri eiginlega ekkert bilað, bara eitthvað smástykki sem hafði trúlega rekist utaní og brákast. Hann límdi það með límbandi og taldi myndi duga í tuttugu ár. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Dugnaðar kona.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 9.6.2008 kl. 14:10

3 Smámynd: Rannveig Bjarnfinnsdóttir

Duga í 20 ár... ja eða þangað til sá næsti kemur

Frábær frásögn Helga og ég fylgist spennt með framhaldinu.  Við vorum einmitt nokkur sem tókum til hjá Boggu ömmu eftir þetta en þar var slatti brotið en slatti heilt líka.  Aðallega fólkið sem er brotið held ég

Rannveig Bjarnfinnsdóttir, 9.6.2008 kl. 20:23

4 identicon

Stúlkan hefur auðvita séð við nánari athugun að ekki þýddi að ræða "gemmsa" við þig.

mýrarljósið (IP-tala skráð) 10.6.2008 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 196831

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband