14.10.2010 | 20:52
Hvar verður ráðherrann?
Lyngdalsheiðarvegur opnaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2010 | 21:57
Auðvitað sátu Íslendingar sem fastast.
Íslendingar gengu ekki út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.9.2010 | 18:21
Stöðugleika hjá þeim sem skulda?
Hægt að tryggja fjármálastöðugleika | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.9.2010 | 22:39
GaGnamaður? á ferð um skaga
Gangnamaðurinn heill á húfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.9.2010 | 20:57
Pönnukökur með rjóma og appelsín í gleri
Ég hef ekki farið í réttir í fimmtán ár, en nú var minn tími kominn og allir vegir færir.
Áður fór ég helst alltaf á móti safninu á miðvikudegi og svo í Hrunaréttir á fimmtudegi, það var áður en réttadögunum var breytt til hagræðis fyrir kaupstaðafólkið og kannski til góða fyrir þá sem ráku sjoppurnar í réttunum. En í mínum réttum var aldrei sjoppa, bara nesti að heiman, pönnukökur brotnar í horn með rabbarbarasultu og rjóma og svo appelsín í gleri. Þetta var löngu áður en við vissum að hægt væri að setja öl í dósir og bjór var ekki til. Tungnaréttir voru á miðvikudegi, svo þangað hef ég aldrei komið.
Nú fór ég þó ekki á móti safninu, fór ekki af stað að heiman fyrr en eftir kvöldmat á fimmtudag og svaf svo heima hjá mömmu um nóttina. Hún ætlaði að sjá til hvort hún kæmi með mér og þá átti ég að vera bílstjórinn á hennar bíl. Það er ljótt að segja frá því, en alltaf þegar ég er með mömmu á ferð þá heimta ég að keyra, reyni að láta sem ég sé að gera henni til þægðar að leyfa henni bara að sitja í og njóta lífsins, en ég held hún sjái í gegnum mig og viti að kjarkurinn minn vill helst hafa þetta svona.
Í þetta sinn vildi þó mamma helst ekki fara af stað um leið og ég, mér dugði ekkert minna en að mæta helst um leið og byrjað væri að rétta kl. 10.00. Hún vildi heldur koma seinna með einhverjum öðrum.
Þess vegna fékk ég far með Guðbjörgu dóttur minni og fjölskyldu, þau voru jafnfús og ég að taka daginn snemma. Þau sóttu mig svo á heljarstórum Toyota jeppa og við vorum fljót uppí réttir. Ég hef áður farið í réttirnar með ýmsu móti. Fyrst, áður en ég man og þegar réttirnar voru hinumegin við Litlu-Laxá fyrir framan Túnsberg, þá bar pabbi mig á bakinu uppeftir en svo var ég gjarnan reidd heim af einhverum góðum manni, sem lánaði pabba þá líka hest. Fyrsta ferðin mín ríðandi á eigin vegum endaði með kollsteypu við réttarvegg, þegar hann Gamli- Rauður snarstoppaði eftir að hafa valhoppað með mig síðasta spölinn. Ég hafði víst ekki mikla stjórn á því ferðalagi, kannski sex eða átta ára, en ég slasaðist ekki. Einu sinni fór ég á henni Skjónu minni, ótaminni með folald í eftirdragi. Það stóð til að skilja folaldið eftir heima, var ekki fínt að vera á folaldsmeri, en þá vildi Skjóna ekki fara, maður ræður ekki alltaf sínum ferðum. Einu sinni var ég á Skjóna mínum og reiddi litla stúlku á hnakknefinu, þá var ég orðin stór og réði yfir eigin hesti- sem var taminn og lét að stjórn.
Réttirnar eru orðnar gamlar, samt ekki eldri en ég, ætli ég hafi ekki verið svona tólf ára þegar þær voru byggðar og þá átti ég kindur svo ég fékk þar dilk til umráða. Þar stóð "Gröf Hvammur Garður" við hliðið og við rákum út til vesturs. Þannig var raðað dilkunum þá, ætlast til að rekið væri út þar sem hentugast væri fyrir rekstrarleiðina.
Þá voru engin plastmerki á kindunum, heldur eingöngu notast við eyrnamörkin og svo brennimörkin á hornum fullorðna fjárins. Markið mitt, "sýlt á báðum og biti aftan hægra" , var skráð í markaskránni og er þar held ég enn. Markaskráin er nú ekki lengur ómissandi rit í réttunum, nú sá ég að þeir sem allt áttu að kunna höfðu A4 örk í plastvasa í hendi og þar voru skráð númer og nöfn þeirra sem áttu fé á fjalli. A7 þýðir Hrunamannahreppur og svo er númer fyrir hvern bæ. Ég og mínir fylgifiskar lærðum númerið á Grafarbakka og í Auðsholti og eftir það var nóg að gera. Útilokað að fara í réttir og gera ekki neitt.
Það var fullt af fólki og fjölgaði stöðugt. Þarna sá ég fólk sem hefur komið í réttirnar frá því fyrst ég man, ekki til að draga fé, heldur til að hitta sveitungana. Það er fyrir marga aðalmálið og ég fann sjálf að það var mitt erindi í þetta sinn. GK blaðamaður sonur minn, kom í réttirnar í embættiserindum, að taka myndir fyrir Sunnlenska fréttablaðið. Hann ætlaði svo að skreppa í Skaftholtsréttir og koma til baka. Ég hef aldrei áður farið í réttirnar í Eystri- hreppnum, þær eru alltaf á sama degi og okkar, þess vegna greip ég tækifærið og fékk að sitja í hjá honum. Mér fannst gaman að koma þar, en við stöldruðum ekki lengi, bara til að ná nokkrum myndum svo fyllsta jafnræðis væri gætt í fjölmiðlinum. Skaftholtsréttir eru fallegar og vel uppgerðar, þar er hægt að láta fara vel um sig á réttarvegg og hafa góða yfirsýn. Ég þekkti þarna líka heilmargt fólk, ég þekki svo marga, er alltaf að sjá það betur og betur.
Þega við komum til baka hafði enn fjölgað fólkinu og enn var eitthvað ódregið, veðrið var eins og best gat verið. Mamma hafði komið á meðan við vorum þar eystra, en í þetta sinn kom hún ekki með pönnukökur eða appelsín í gleri. Líklega væri það nú mitt hlutverka að taka við, en ég stóð mig ekki í því. Ekki í þetta sinn. Við GK komum aðeins við í búðinni í Árnesi og fengum okkur prins og kók, það varð að duga. Það var gaman að hitta kaupmanninn í Árnesi.
Svo voru réttirnar búnar og ég notaði það sem eftir var dagsins til að keyra um sveitina meða mömmu mér við hlið. Það var kjötsúpa á borðum hvar sem komið var og allir jafnglaðir að fá gesti.
Þetta var í síðasta sinn sem réttað er í gömlu réttunum. Nú verður þar allt jafnað við jörðu og svo byggðar nýjar glæsilegar réttir sem verða tilbúnar að ári. Hvernig dilkunum verður raðað þar eða hvað þeir verða margir veit ég ekki en ég veit þó að enginn verður þar merktur "Gröf Hvammur Garður", við eigum ekki lengur kindur til að draga í dilk. En ég er nú aldeilis fullviss um að ég á samt erindi í réttirnar - til að draga fyrir alla þá sem kenna mér númerin sín, og svo til að hitta alla gömlu sveitungana- sem ég er ekki í nokkrum vafa um að vilja hitta mig. Hrunamenn eru og verða alltaf besta fók.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.9.2010 | 16:45
Hvers vegna erum við að rolast við að vera heiðarleg?
Það er öllu stolið og það eru alltaf leiðir til að komast upp með það. -"Sennilega á að flytja góssið úr landi"- og þykir varla umtalsvert. Útlendingar stela og íslendingar líka, þetta er ekki fyrsta lopapeysuránið í þessari viku. Sé bíll skilinn eftir ólæstur augnablik er nærri öruggt að úr honum verði hirt það sem verðmætt er. Gleymist flík einhversstaðar í hálftíma, er hún horfin þegar að er gáð. Það er einhversstaðar á Íslandi rekið stórt fyrirtæki í kringum útflutning á þýfi. Hvernig komast þessir "útflytjendur" í samband við hinn almenna þjóf? Er ekkert skoðað í gámana sem fara úr landi?
Fínu kallarnir stela, frá okkur vinnudýrunum, svo miklum peningum að þeir gætu jafnvel aldrei skrifað upphæðirnar eigin hendi, ekki endilega allir svo bráðvel gefnir. Stela samt og komast upp með það af því þeim hefur einhverntíman dottið í hug að kaupa fyrir hluta af ránsfeng, spjarir í rándýrum merkjabúðum, í þeim er hægt að komast langt á réttum stöðum.
Stundum heyrir maður að einhverjir séu teknir með þýfi - og svo er þeim bara sleppt eftir yfirheyrslu. Dettur einhverjum í hug að þeir fari þá bara heim að horfa á sjónvarpið?
Af hverju í ósköpunum erum við, óbreyttur lýðurinn, ekk bara með í þessu. Hvað græðum við á því að vera heiðarleg? Þegar til himna er komið segir Sankti Pétur hvort sem er bara með mildu brosi: "Æææ - ansans, þú hefur verið dulítið breyskur" og strikar svo út allar syndirnar. Maður er farinn að efast um að heiðarleiki borgi sig?
Lopapeysum stolið úr verslun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.8.2010 | 20:40
Hahahahaha- of seint!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2010 | 19:28
Þarf endalaust að minna okkur á?
Gylfi og Ragna hætta í stjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.8.2010 | 21:27
Hundarnir í lífi mínu
Alla mína ævi hef ég umgengist hunda- en þó aldrei átt neinn sjálf. Hundar virðast eiga gott með að vingast við mig. Fyrsti vinur minn í hundslíki var hann Snati gamli í Hvammi,Hann var bara hundur, svart og hvítflekkóttur með hringaða rófu og sperrt eyrun. Sennilega nokkuð íslenskur í útliti. Þegar ég fæddist og átti þá heima í Hvammi fyrstu árin var Snati ekki lengur ungur og ég man hann á síðustu árum staulast upp Hvammsbrekkuna, sem hann aldrei lærði að hyggilegast var að fara ekki niður. Hann varð að leggjast og hvíla í miðri brekku, stóð svo upp, stundum eftir langan tíma og staulaðist áfram. Hvítu blettirnir hans fannst okkur að væru orðnir grænir af elli, kannski var það bara vegna þess að oft var talað um að hlutir yrðu grænir með tímanum. Einn daginn komst hann ekki upp brekkuna, lagði sig á miðri leið og vaknaði ekki aftur. Ég var ekki gömul þegar ég lærði að hundar og aðrar skepnur deyja og að það væri eðlilegt og ekkert við að gera, en ég sá eftir Snata.
Næst kom annar Snati - allir hundar í Hvammi hétu Snati. Þessi kom frá Kópsvatni, svartur, frekar stór slétthærður og glansandi.Hann vantaði allan persónuleika, ég man ekkert sérstakt um hann og hann varð ekki gamall. Við vorum hjá ömmu og afa á Hulduhólum þegar frétt kom símleiðis um að Snati hefði étið rottueitur í geymslunni og látið lífið. Hvort það var vegna þessa válega dauðdaga eða annars, þá grétum við systkinin ógurlega við þessi tíðindi, svo mikið að amma og afi sáu ekki annað ráð en að lofa okkur að við mættum taka heim með okkur einn af hvolpunum hennar Tátu. Þá hættum við að grenja.
Táta var yndisleg tík sem afi átti. Gullbrúnkolótt með mjúkan feld aðeins síðhærð og dúnmjúk að strjúka. Fínlega vaxin og fríð í andliti. Það var sagt að hvolpafaðir hennar væri hundurinn sem komst lífs af úr Geysisslysinu. Ekki man ég nafnið hans, en sá Snati sem við fórum með austur í hrepp með rútunni, sem lagði af stað frá Steindóri í Skúlagötu og tók okkur upp í búð á horni á Hvefisgötu, var klumpslegur hvolpur, kolóttur með spora og fjárglyrnur. Hann pissaði á gólfið í búðinni.
Þessi Snati varð besti vinur barnanna. Hann var með okkur öllum stundum og gerði sig heimakominn jafnt í Garði sem uppi í Hvammi. Líklega var þó sagt að Jói ætti hann, en það skipti engu máli. Snati var veiðihundur og það var honum að þakka að við krakkarnir veiddum mink við Litlu Laxá. Hann fann minkinn, elti hann eða gróf upp, beit utanum hann og hristi svo kvikindið vankaðist. Þá tók við okkar hlutverk- að steinrota skepnuna svo öndin hyrfi algerlega úr henni. Við drápum ekki bara nokkra, heldur marga á hverju sumri og gerðum það bara nokkuð gott fjárhagslega. Við þurftum auðvitað að labba fram að Galtafelli með skottin en þar borgaði Árni okkur peninga fyrir þau. Árni var hreppstjórinn og borgaði tófu og minkabönum fyrir svona viðvik. Ekki þurfti nein leyfi til veiðanna, enda tæpt að við sum hefðum aldur til að lesa eða skrifa það sem þurft hefði í því sambandi.
Á öðrum bæjum voru líka hundar, en enginn mjög skemmtilegur. Muggur í Reykjadal var úfinn og grábrúnn og við hittum hann bara þegar við fórum gangandi eða ríðandi þangað í heimsókn. Á Högnastöðum var Kópi (hét þó víst Kópur) og hann var hndleiðinlegur. Gráyrjóttur, klepróttur í síðu hári og sást varla framaní hann. Við forðuðumst hann frekar. Krummi var á Grafarbakka og hann var bara svona venjulegur svartur hundur sem lék sér með okkur krökkunum.
Þegar við systkinin fórum að heiman fékk pabbi sér hund, eitthvað hefur vantað til að fylla skörðin. Hann hét Hringur og var það sem heitir B. Collie - Lassí öðru nafni. Hringur fyllti algerlega það skarð sem við skildum eftir okkur og var öllum kær á heimilinu. Ekki síst barnabörnunum sem oft voru þar í heimsókn. Hann varð gamall og að síðustu deyddur og jarðsunginn með viðhöfn. Það sáum við systkinin um þegar pabbi og mamma voru í utanlandsferð. Við fengum góðan mann til verksins og drukkum svo erfi fyrir hádegi á mánudegi. Svo var settur steinn á leiðið og nafnið hans málað þar á.
Aftur fékk pabbi sér hund, lítinn svartan hvolp, sem grét svo fyrstu næturnar að mamma og pabbi skiptust á að læðast fram að sækja hann, ætluðu ekki að vekja hitt, en rákust stundum saman í myrkrinu. Hann fékk þá að kúra á milli og var skírður Kjói. Var víst ekki talið hundslegt að heita Vælukjói.
Þetta varð síðasti hundurinn í okkar fjölskyldu.
Svo tóku börnin mín við. Tengdasonurinn á hann Max sem er svartur Labrador sem þykir óskaplega vænt um "ömmu", kannski klappar hún honum meira en á að klappa svona merkishundum, en hann kann vela að meta það. Svo á fjölskyldan í Strokkhól hana Dimmu. Hún er lítil ættlaus og ómerkileg tík, kolsvört og hrokkinhærð, þegar hárið fær að vaxa. Andlitið fínlegt og brosandi til ömmu sinnar þegar hún fær að hoppa uppí kjöltu mína. Á bestu stundum sest hún þar og leggu framloppurnar um hálsinn.
Þetta gerir hún ekki fyrir hvern sem er, "amma" er í uppáhaldi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.8.2010 | 17:53
Aldurinn segir til sín- ég hef enga stjórn á mínu lífi
Í vor þurftum við skólasystur að fella niður "hitting", sem við höfðum áætlað austur á Sólheimum í Mýrdalshreppi, vegna þeirra óskapa sem á þeim tíma dundu yfir þá sveit og aðrar nærliggjandi. Ég hafði að vísu afboðað nærveru mína þá, þar sem ég þurfti að fara með Karlakór Selfoss í árlega vorferð. Við "systur" höfum verið duglegar að koma saman og rifja upp skólaárin okkar í Skógum og svo til að fylgjast með framvindu mála í fjölskyldum okkar og starfi.
Því var nú kallað til varaþings á hausti og skyldi haldið á Hótel Borg í Reykjavík 28. ágúst klukkan tvö. Kemur þá strax að fyrsta kafla óstjórnarinnar í mínu lífi.
Viku eftir að ég hafði tilkynnt þátttöku á Borginni var fjölskyldunni minni, eiginmanni börnum, barnabörnum og barnatengdabörnum, með hundum, úthlutað helgi í veiðihúsi á Hrunamannaafrétti, þar sem Heiðarvatn heitir. Vandaðist nú málið nokkuð, en ég tók þó nokkuð fljótlega ákvörðun um að yfirgefa fjölskylduna og fara með "systrunum", þær eru öllu sjaldgæfari félagsskapur í mínu lífi, sem ég nú með þessu, reyndi af fremsta megni að stjórna sjálf.
Ekki tóku fjölskyldumeðlimir þessu beinlínis illa, en þótti þó sumum töluvert á sig lagt, ég hef jú reyndar nokkuð ákveðið hlutverk við fóðrun og uppeldisstörf.
Við "systur" búum nokkrar hér austanfjalls og ég fékk loforð um far til borgarinnar með einni þeirra og við skyldum leggja í hann uppúr hádeginu. Mér fannst eiginmanni og afkomendm ekkert ganga að koma sér af stað. Hér átti að safnast saman og leggja af stað um hádegi. Mátti litlu muna hvort þau eða ég færum fyrr frá húsi. Strax uppúr kl. níu setti ég grjón í pott og grjónagrauturinn var tilbúinn löngu fyrir ellefu, ekki skyldu þau fara hungruð að heiman og ég hefði þá, fannst mér, gert þeim nokkuð til góða.
Jafnframt því sem grauturinn sauð fór ég í bað og dubbaði mig svo upp í kaupstaðarskrúðann.
Þetta skilaði svo góðum árangri að ég fékk aðdáunarandvörp og upphrópanir frá barnabörnum sem töldu ömmu sína fullbúna - "æðislega gellu", sem myndi slá í gegn í 101 Rvk. "Passaðu nú bara að verða ekki of drukkin" og "láttu ekki rónana á Austurvelli ná að klípa í rassinn á þér". Undir niðri var ég auðvitað doldið hreykin, það var greinilegt að krökkunum leist ekki illa á, en ég gerði þó lítið úr öllu saman og sagðist ekki búast við öðru en köku á Borginni og væntanlega yrði ég komin heim fyrir kvöldmat.
Loksins fóru þau. Tíu manns, af ýmsum stærðum og hundurinn Max með. Veiðgræjur, svefnpokar og teppi, kuldaföt og matvörur svo hvergi sá í auða smugu. Eins gott að ég fór ekki með- hvar hefði ég átt að vera?
Það datt á dúnalogn og ég tyllti mér niður og beið eftir bílnum sem skyldi flytja mig til borgarinnar. Ég var svöng. Það átti að vera eitthvað voða spennandi á boðstólum á þessu fína hóteli og ég lét grjónagrautinn því alveg eiga sig. Bara vera vel birg með pening í buddunni, þá væru mér allar leiðir færar í "borg óttans". Langt síðan ég hef verið "ein" á ferð þar á laugardagssíðdegi.
Klukkan var orðin eitt, nú hlaut hún að fara að koma. Ég tyllti mér við tölvuna og kíkti á "fésið", lítið um að vera þar í svona sumarblíðu, veður til að fara á fjöll eða í borgarferðir, það hangir enginn heima í tölvu. Klukkan var orðin tvö.
Ég ákvað að hringja til að kanna hvað tefði mína kæru? Ekkert svar - talhólf í gemsa og heimasími einn heima, líklega var hún á leiðinni og hafði tafist.
Ég sá bíl stoppa fyrir utan og ungan mann stíga út- gat eitthvað hafa komið fyrir? Var þetta fulltrúi prestsins eða löggunnar? Ég fór svo til dyra og hann stóða þarna á tröppunum með miða í hönd. "Sæl", sagðann, "ég átti að sækja fyrir Sæunni". "Sæll, sagði ég, sækja fyrir Sæunni"? "Já Sæunni Lúðvíksdóttur, ég átti að sækja"- " haaa"?? " Já, Sæunni- hans Gunnars". Já ég þekki hana vel, hana mömmu þína, en ertu viss um að þú hafir átt að koma hingað? "Já"- hann gaf sig ekki með það þó ég stæði þarna uppdubbuð og meira að segja máluð og ilmandi, hann átti að sækja fyrir Sæunni. "Og hvað áttirðu að sækja"? sagði ég - kannski heldur frekjulega, því hann bakkaði aðeins þar sem hann stóð á tröppunum- "tré" sagðann svo og ákvað greinilega að gefa ekkert eftir. Þá rann upp ljós- dæmalaust var ég heppin að vera ekki farin, Sæunn hafði pantað hjá mér tvö reynitré og það sem ég fengi fyrir þau, eins og öll önnur tré, fer í sjóðinn, ferðasjóðinn sem ég ætla að nota til að komast til St.Pétursborgar á næsta vori.
Klukkan var langt gengin í þrjú. Nú varð ég að grípa til einhverra ráða. Ég hringdi í þá "systur" sem hafði boðað til samkomunnar, guði sé lof fyrir gemsana, þó ég eigi engan sjálf. Hún svaraði og var þá stödd í hópi glaðra skólasystra, auðvitað á Borginni, þar sem dýrðlegar veitingar biðu á borðum. Nei hún hafði ekkert heyrt af mínum bílstjóra, en lofaði að kanna málið.
Ég settist niður með prjónana- eiginlega hefur mér aldrei þótt mjög gaman í Reykjavík, og ekki sérstaklega sótt eftir að fara á Borgina, síðan við komum þar einu sinni inn fyrir leiksýningu í Iðnó. Þá var þar samkomustaður hommanna í Reykjavík, en það vissum við ekki fyrr en seinna.
Eina "góða" minningin mín frá þessum stað var þegar við vinkonur úr húsó Rekjavíkur fórum þar á ball í "Gyllta salnum"og dönsuðum sleitulaust til að vekja athygli söngvarans í hljómsveitinni. Hann hét Harald G.Haralds og var svo rosalega sætur. Hann hafði engan áhuga á okkur, en sendi mér þó á endanum merki um að koma að tala við sig. Ég varð auðvitað hálf miður mín og vissi engan vegin hvernig ég ætti að bregðast við, fór þó að sviðinu með hálfum huga og hann kom fram á brúnina. Svo beygði hann sig niður til mín og hvíslaði í eyrað: "Þú flaggar". OMG!!!!, var hægt að verða fyrir verra áfalli? En ég man þó alla vega eftir þessu balli, betur en mörgum öðrum.
Klukkan þrjú var hringt til baka frá Borginni. Það hafði tekist að finna orsök þess að ég sat á miðjum laugardegi og prjónaði, í sparifötunum, máluð og ilmandi og sársvöng. Mín kæra vinkona hafði farið dagavillt, hún héltað mætingin væri á morgun.
Ég er viss um að þarna voru bara örlögin að taka í taumana. Ef ég hefði farið hefði ég kannski orðið alltof drukkin, eytt um efni fram á barnum. Og svo kannski lent í slagtogi með einhverjum rónanum á Austurvelli. Ég hefði ekki fengið pening í ferðasjóðinn og ekki væri ég þá búni með pilsið sem ég var að prjóna. Og í fyrramálið fer ég að Heiðarvatni með þeim fjölskyldumeðlimum sem enn eru í byggð. Mikið dæmalaust er ég heppin að eiga skólasystur og vinkonu sem er jafngömul mér, en það er ekki beinlínis hægt að segja að ég stjórni mínu lífi sjáf?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 197335
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar