Hundarnir í lífi mínu

Alla mína ævi hef ég umgengist hunda- en þó aldrei átt neinn sjálf. Hundar virðast eiga gott með að vingast við mig. Fyrsti vinur minn í hundslíki var hann Snati gamli í Hvammi,Hann var bara hundur, svart og hvítflekkóttur með hringaða rófu og sperrt eyrun. Sennilega nokkuð íslenskur í útliti. Þegar ég fæddist og átti þá heima í Hvammi fyrstu árin var Snati ekki lengur ungur og ég man hann á síðustu árum staulast upp Hvammsbrekkuna, sem hann aldrei lærði að hyggilegast var að fara ekki niður. Hann varð að leggjast  og hvíla í miðri brekku, stóð svo upp, stundum eftir langan tíma og staulaðist áfram. Hvítu blettirnir hans fannst okkur að væru orðnir grænir af elli, kannski var það bara vegna þess að oft var talað um að hlutir yrðu grænir með tímanum. Einn daginn komst hann ekki upp brekkuna, lagði sig á miðri leið og vaknaði ekki aftur. Ég var ekki gömul þegar ég lærði að hundar og aðrar skepnur deyja og að það væri eðlilegt og ekkert við að gera, en ég sá eftir Snata.

Næst kom annar Snati - allir hundar í Hvammi hétu Snati. Þessi kom frá Kópsvatni, svartur, frekar stór slétthærður og glansandi.Hann vantaði allan persónuleika, ég man ekkert sérstakt um hann og hann varð ekki gamall. Við vorum hjá ömmu og afa á Hulduhólum þegar frétt kom símleiðis um að Snati hefði étið rottueitur í geymslunni og látið lífið. Hvort það var vegna þessa válega dauðdaga eða annars, þá grétum við systkinin ógurlega við þessi tíðindi, svo mikið að amma og afi sáu ekki annað ráð en að lofa okkur að við mættum taka heim með okkur einn af hvolpunum hennar Tátu. Þá hættum við að grenja.

Táta var yndisleg tík sem afi  átti. Gullbrúnkolótt með mjúkan feld aðeins síðhærð og dúnmjúk að strjúka. Fínlega  vaxin og fríð í andliti. Það var sagt að hvolpafaðir hennar væri hundurinn sem komst lífs af úr Geysisslysinu. Ekki man ég nafnið hans, en sá Snati sem við fórum með austur í hrepp með rútunni, sem lagði af stað frá Steindóri í Skúlagötu og tók okkur upp í búð á horni á Hvefisgötu, var klumpslegur hvolpur, kolóttur með spora og fjárglyrnur. Hann pissaði á gólfið í búðinni.

Þessi Snati varð besti vinur barnanna. Hann var með okkur öllum stundum og gerði sig heimakominn jafnt í Garði sem uppi í Hvammi. Líklega var þó sagt að Jói ætti hann, en það skipti engu máli. Snati var veiðihundur og það var honum að þakka að við krakkarnir veiddum  mink við Litlu Laxá. Hann fann minkinn, elti hann eða gróf  upp, beit utanum hann og hristi svo kvikindið vankaðist. Þá tók við okkar hlutverk- að steinrota skepnuna svo öndin hyrfi algerlega úr henni.  Við drápum ekki bara nokkra, heldur marga á hverju sumri og  gerðum það bara nokkuð gott fjárhagslega. Við þurftum auðvitað að labba fram að Galtafelli með skottin en þar borgaði Árni okkur peninga fyrir þau. Árni var hreppstjórinn og borgaði tófu og minkabönum fyrir svona viðvik. Ekki þurfti nein leyfi til veiðanna, enda tæpt að við sum hefðum aldur til að lesa eða skrifa það sem þurft hefði í því sambandi.

Á öðrum bæjum voru líka hundar, en enginn mjög skemmtilegur. Muggur í Reykjadal var úfinn og grábrúnn og við hittum hann bara þegar við fórum gangandi eða ríðandi þangað í heimsókn. Á Högnastöðum var Kópi (hét þó víst Kópur) og hann var hndleiðinlegur. Gráyrjóttur, klepróttur í síðu hári og sást varla framaní hann. Við forðuðumst hann frekar.  Krummi var á Grafarbakka og hann var bara svona venjulegur svartur hundur sem lék sér með okkur krökkunum. 

Þegar við systkinin fórum að heiman fékk pabbi sér hund, eitthvað hefur vantað til að fylla skörðin. Hann hét Hringur og var það sem heitir  B. Collie - Lassí öðru nafni. Hringur fyllti algerlega það skarð sem við skildum eftir okkur og var öllum kær á heimilinu. Ekki síst barnabörnunum sem oft voru þar í heimsókn. Hann varð gamall og að síðustu deyddur og jarðsunginn með viðhöfn. Það sáum við systkinin um þegar pabbi og mamma voru í utanlandsferð. Við fengum góðan mann til verksins og drukkum svo erfi fyrir hádegi á mánudegi. Svo var settur steinn á leiðið og nafnið hans málað þar á.  

Aftur fékk pabbi sér hund, lítinn svartan hvolp, sem grét svo fyrstu næturnar að mamma og pabbi skiptust á að læðast fram að sækja hann, ætluðu ekki að vekja hitt, en rákust stundum saman í myrkrinu. Hann fékk þá að kúra á milli og var skírður Kjói. Var víst ekki talið hundslegt að heita Vælukjói.  

Þetta varð síðasti hundurinn í okkar fjölskyldu.

Svo tóku börnin mín við. Tengdasonurinn á hann Max sem er svartur Labrador sem þykir óskaplega vænt um "ömmu", kannski klappar hún honum meira en á að klappa svona merkishundum, en hann kann vela að meta það. Svo á fjölskyldan í Strokkhól hana Dimmu. Hún er lítil ættlaus og ómerkileg tík, kolsvört og hrokkinhærð, þegar hárið fær að vaxa. Andlitið fínlegt og brosandi til ömmu sinnar þegar hún fær að hoppa uppí kjöltu mína. Á bestu stundum sest hún þar og leggu framloppurnar um hálsinn.

Þetta gerir hún ekki fyrir hvern sem er, "amma" er í uppáhaldi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Frábært innlegg.

Galdurinn við að vingast við hunda er að sjálfsögðu að vera sjálfur hundur í þeirra augum. Þegar þú nálgast hunda sem þú þekkir ekki þarftu að draga lappirnar og síðan klappa þeim undir kjaftinum en ekki fara ofan á hausinn. Og síðan er náttúrlega alltaf gott að færa þeim æti. Þetta eru hjarðskepnur og rándýr og eðlið snýst mjög mikið um að skaffa og maðurinn sinnir því vel og verður því topphundur. 

Baldur Fjölnisson, 28.8.2010 kl. 21:59

2 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Mér finnst jafvel heldur skárra að skrifa um þetta efni heldur en biskupa, fjárglæframenn, og hitaveitu. Þetta meiðir engan og ég þarf ekki að lofa neinu- nema þá helst að ég skuli áfram reyna að vera "hundsleg".

Helga R. Einarsdóttir, 28.8.2010 kl. 22:35

3 Smámynd: Fjóla =)

Skemmtileg lesning..

Hundar eru ómissandi að mínu mati..:)

Fjóla =), 29.8.2010 kl. 20:24

4 Smámynd: GK

Skemmtilegt

GK, 29.8.2010 kl. 22:32

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Hvolpafaðir Tátu mun hafa heitið Tito og var af sjefferkyni, stór og stæltur og gerði sér mikinn mannamun. Ekki veit ég hvort hann var sá sem af komst úr Geysisslysinu en þegar Táta kynntist honum var hann í eigu Ásbjarnar á Álafossi. Þegar svo var komið að hann hafðist meira við  heima á Hulduhólum heldur en á Álafossi, þó hann væri ekki fóðraður viljandi á fyrrnefnda staðnum, var hann sendir til feðra sinna. En Tito var að mínu viti skemmtileg skepna og eftir að ég hafði óvart haft hann undir, nokkuð óþyrmilega, þegar fundum okkar bar fyrst saman, mátti hann varla af mér sjá og spurning hvort hann elskaði heitar, Tátu eða mig!

Sigurður Hreiðar, 30.8.2010 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 196839

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband