Aldurinn segir til sín- ég hef enga stjórn á mínu lífi

Í vor þurftum við skólasystur að fella niður "hitting", sem við höfðum áætlað austur á Sólheimum í Mýrdalshreppi, vegna þeirra óskapa sem á þeim tíma dundu yfir þá sveit og aðrar nærliggjandi. Ég hafði að vísu afboðað nærveru mína þá, þar sem ég þurfti að fara með Karlakór Selfoss í árlega vorferð. Við "systur" höfum verið duglegar að koma saman og rifja upp skólaárin okkar í Skógum og svo til að fylgjast með framvindu mála í fjölskyldum okkar og starfi.

Því var nú kallað til varaþings á hausti og skyldi haldið á Hótel Borg í Reykjavík 28. ágúst klukkan tvö. Kemur þá strax að fyrsta kafla óstjórnarinnar í mínu lífi. 

Viku eftir að ég hafði tilkynnt þátttöku á Borginni var fjölskyldunni minni, eiginmanni börnum, barnabörnum og barnatengdabörnum, með hundum, úthlutað helgi í veiðihúsi á Hrunamannaafrétti, þar sem Heiðarvatn heitir.  Vandaðist nú málið nokkuð, en ég tók þó nokkuð fljótlega ákvörðun um að yfirgefa fjölskylduna og fara með "systrunum", þær eru öllu sjaldgæfari félagsskapur í mínu lífi, sem ég nú með þessu, reyndi af fremsta megni að stjórna sjálf.

Ekki tóku fjölskyldumeðlimir þessu beinlínis illa, en þótti þó sumum töluvert á sig lagt, ég hef jú reyndar nokkuð ákveðið hlutverk við fóðrun og uppeldisstörf. 

Við "systur" búum nokkrar hér austanfjalls og ég fékk loforð um far til borgarinnar með einni þeirra og við skyldum leggja í hann uppúr hádeginu. Mér fannst eiginmanni og afkomendm ekkert ganga að koma sér af stað. Hér átti að safnast saman og leggja af stað um hádegi. Mátti litlu muna hvort þau eða ég færum fyrr frá húsi. Strax uppúr kl. níu setti ég grjón í pott og grjónagrauturinn var tilbúinn löngu fyrir ellefu, ekki skyldu þau fara hungruð að heiman og ég hefði þá, fannst mér, gert þeim nokkuð til góða.

Jafnframt því sem grauturinn sauð fór ég í bað og dubbaði mig svo upp í kaupstaðarskrúðann.

Þetta skilaði svo góðum árangri að ég fékk aðdáunarandvörp og upphrópanir frá barnabörnum sem töldu ömmu sína fullbúna - "æðislega gellu", sem myndi slá í gegn í 101 Rvk. "Passaðu nú bara að verða ekki of drukkin" og "láttu ekki rónana á Austurvelli ná að klípa í rassinn á þér". Undir niðri var ég auðvitað doldið hreykin, það var greinilegt að krökkunum leist ekki illa á, en ég gerði þó lítið úr öllu saman og sagðist ekki búast við öðru en köku á Borginni og væntanlega yrði ég komin heim fyrir kvöldmat.

Loksins fóru þau. Tíu manns, af ýmsum stærðum og hundurinn Max með. Veiðgræjur, svefnpokar og teppi, kuldaföt og matvörur svo hvergi sá í auða smugu. Eins gott að ég fór ekki með- hvar hefði ég átt að vera?

Það datt á dúnalogn og ég tyllti mér niður og beið eftir bílnum sem skyldi flytja mig til borgarinnar. Ég var svöng. Það átti að vera eitthvað voða spennandi á boðstólum á þessu fína hóteli og ég lét grjónagrautinn því alveg eiga sig. Bara vera vel birg með pening í buddunni, þá væru mér allar leiðir færar í "borg óttans". Langt síðan ég hef verið "ein" á ferð þar á laugardagssíðdegi. 

Klukkan var orðin eitt, nú hlaut hún að fara að koma.  Ég tyllti mér við tölvuna og kíkti á "fésið", lítið um að vera þar í svona sumarblíðu, veður til að fara á fjöll eða í borgarferðir, það hangir enginn heima í tölvu.  Klukkan var orðin tvö.

Ég ákvað að hringja til að kanna hvað tefði mína kæru? Ekkert svar - talhólf í gemsa og heimasími einn heima, líklega var hún á leiðinni og hafði tafist.

Ég sá bíl stoppa fyrir utan og ungan mann stíga út- gat eitthvað hafa komið fyrir? Var þetta fulltrúi prestsins eða löggunnar?  Ég fór svo til dyra og hann stóða þarna á tröppunum með miða í hönd. "Sæl", sagðann, "ég átti að sækja fyrir Sæunni". "Sæll, sagði ég, sækja fyrir Sæunni"? "Já Sæunni Lúðvíksdóttur, ég átti að sækja"- " haaa"??  " Já, Sæunni- hans Gunnars".  Já ég þekki hana vel, hana mömmu þína, en ertu viss um að þú hafir átt að koma hingað? "Já"- hann gaf sig ekki með það þó ég stæði þarna uppdubbuð og meira að segja máluð og ilmandi, hann átti að sækja fyrir Sæunni. "Og hvað áttirðu að sækja"? sagði ég -  kannski heldur frekjulega, því hann bakkaði aðeins þar sem hann stóð á tröppunum- "tré" sagðann svo og ákvað greinilega að gefa ekkert eftir. Þá rann upp ljós- dæmalaust var ég heppin að vera ekki farin, Sæunn hafði pantað hjá mér tvö reynitré og það sem ég fengi fyrir þau, eins og öll önnur tré, fer í sjóðinn, ferðasjóðinn sem ég ætla að nota til að komast til St.Pétursborgar á næsta vori. 

Klukkan var langt gengin í þrjú. Nú varð ég að grípa til einhverra ráða. Ég hringdi í þá "systur" sem hafði boðað til samkomunnar, guði sé lof fyrir gemsana, þó ég eigi engan sjálf. Hún svaraði og var þá stödd í hópi glaðra skólasystra, auðvitað á Borginni, þar sem dýrðlegar veitingar biðu á borðum. Nei hún hafði ekkert heyrt af mínum bílstjóra, en lofaði að kanna málið. 

Ég settist niður með prjónana- eiginlega hefur mér aldrei þótt mjög gaman í Reykjavík, og ekki sérstaklega sótt eftir að fara á Borgina, síðan við komum þar einu sinni inn fyrir leiksýningu í Iðnó. Þá var þar samkomustaður hommanna í Reykjavík, en það vissum við ekki fyrr en seinna.

Eina "góða" minningin mín frá þessum stað var þegar við vinkonur úr húsó Rekjavíkur fórum þar á ball í "Gyllta salnum"og dönsuðum sleitulaust til að vekja athygli söngvarans í hljómsveitinni. Hann hét Harald G.Haralds og var svo rosalega sætur. Hann hafði engan áhuga á okkur, en sendi mér þó á endanum merki um að koma að tala við sig. Ég  varð auðvitað  hálf miður mín og vissi engan vegin hvernig ég ætti að bregðast við, fór þó að sviðinu með hálfum huga og hann kom fram á brúnina.  Svo beygði hann sig niður til mín og hvíslaði í eyrað: "Þú flaggar".   OMG!!!!, var hægt að verða fyrir verra áfalli? En ég man þó alla vega eftir þessu balli, betur en mörgum öðrum.

Klukkan þrjú var hringt til baka frá Borginni. Það hafði tekist að finna orsök þess að ég sat á miðjum laugardegi og prjónaði, í sparifötunum, máluð og ilmandi og sársvöng.   Mín kæra vinkona hafði farið dagavillt, hún héltað mætingin væri á morgun. 

Ég er viss um að þarna voru bara örlögin að taka í taumana. Ef ég hefði farið hefði ég kannski orðið alltof drukkin, eytt um efni fram á barnum.  Og svo kannski lent í slagtogi með einhverjum rónanum á Austurvelli. Ég hefði ekki fengið pening í ferðasjóðinn og ekki væri ég þá búni með pilsið sem ég var að prjóna. Og í fyrramálið fer ég að Heiðarvatni með þeim fjölskyldumeðlimum sem enn eru í byggð. Mikið dæmalaust er ég heppin að eiga skólasystur og vinkonu sem er jafngömul mér, en það er ekki beinlínis hægt að segja að ég stjórni  mínu lífi sjáf?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja hérna:) og ég man að þú hafðir orð á því þegar þú sást hann síðast, hve lummó hann væri orðinn.

En ég er nú nokkuð viss um að það hefur verið gaman á Borginni í dag en skil þig samt vel:)

mýrarljósið (IP-tala skráð) 28.8.2010 kl. 20:01

2 Smámynd: Jóhanna

Ji minn eini!!!!! Mér finnst ekkert smá sorglegt að vera komin í sparidressið og allt - og fara svo ekki neitt! En það er alltaf hægt að sjá ljósu punktana á öllu, það er sko alveg rétt hjá þér

Ég hló þegar ég las þessa setningu hér: guði sé lof fyrir gemsana, þó ég eigi engan sjálf.

Jóhanna, 29.8.2010 kl. 00:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 196851

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband