Færsluflokkur: Dægurmál

Hjónaballinu borgið

Það þarf ekki að velta vöngum yfir dagskránni þar. Reyndar tekst Hrunamönnum alltaf vel upp á hjónaballinu, en hér er komnn alveg úrvals efniviður og næsta ljóst hver verður í aðalhlutverkinu. Hvernig dettur mönnum í hug að gefa frá sér lífsbjörgina? Sá sem fær kálblöð gefins og "svona óformlegt veiðileyfi" á garðana kaupir ekki grænmeti í búðum.
mbl.is Sendiráðsmenn hirða grænmetisúrgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugeldasýningin sú flottasta

Mér er sama þó þeir hafi slegist í gær - örugglega einhverjir "ókunnugir utanbæjarmenn".

Í kvöld verðu flugeldasýningin og hún hefur undanfarin ár verið sú flottasta, sem sunnlendingar alla vega,  eiga kost á að sjá.

Alveg þess virði að fara að sjá - en þó aðallega heyra. 

 


mbl.is Blómstrandi dagar í Hveragerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem mig langar til

Um daginn, þegar við fórum í ferðina austur á land, kom það fyrir á lönguum dagleiðum að mér datt í hug eitt og annað skemmtilegt, undarlegt og kannski furðulegt?

Til dæmis var ég á tímabili alveg uppnumin af nokkrum atriðum sem mig langar til að gera. Bara einhverntíman, ekkert endilega á morgun eða hinn. Enda er sumt af þessu mjög árstíða og staðbundið.

Mig langar til að fara á þjóðhátíð. 

Mig langar í tatto ( bara mjög lítið).

Mig langar til að stökkva í hylinn við brúna á Egilsstöðum.

Mig langar til að vera eitt sumar, alein, að rápa um austfirði til að leita að fallegu grjóti. 

Mér finnst þetta ekki miklar kröfur og ekki þarf það endilega að kosta mikið.

 

 

 


Það er bara þetta með kartöflurnar

Það er alltaf von á næturfrosti í uppsveitum í ágúst. Einstakt lán ef sleppur fram yfir miðjan mánuð. Eiginlega væri mér alveg sama - ef ekki væru kartöflurnar.

Annars var snemma sett niður í ár og líklega nokkuð vel prottið.  Hefur einhver séð fallin grös síðustu daga?


mbl.is Frostið bítur kinnar á nóttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég verð að hrósa Fjöruborðinu

Og svona fer ég að því: Undanfarin ár hefur fjölskyldan komið þeim sið á að fara í humarsúpu á Fjöruborðinu 17, júni. Alltaf vel heppnað og þjónustan frábær og hingað til, alltaf á íslensku. (Samt eru þetta engir fordómar).

Af því að ég var áðan komin á Borgarfjörð eystra datt mér í hug að í þeirri sömu ferð gerðum við ferðafélagar okkur eitt sinn dagamun  og ákváðum að fá okkur humarsúpu á veitingastað.  Það var þó aldeilis ekki á Borgarfirði.

Við komum inn í veitingahúsið og biðum við útidyr eins og maður á að gera á betri stöðum. Það varð engin bið og ung og snotur stúlka kom til okkar. "Getum við fengið borð fyrir fjóra"? Hún svarað "já" og leiddi okkur að borði við gluggann.

Rétt strax kom hún með matseðla og svo vatn í könnu og glös. Hröð og góð þjónusta, enda ekki margir þarna inni. Við skoðuðum hvað  boðið var á seðlinum, en vorum svo nokkuð ákveðin að skella okkur á humarsúpuna. Kölluðum þó í stúlkuna og spurðum svlítið nánar. "Er brauð með súpunni"? "Já". "Er þetta ekki alveg full máltíð"? "Já". 

Afgreitt mál við skellum okkur á súpu fyrir fjóra.

Afgreiðslan var eldsnögg. Hún kom með brauðið í lítilli körfu og svo fljótlega súpuna. Nokkrir útlendingar voru að tínast inn og reyndar sýndust flest borðin vera frátekin.

Súpan var "ágæt", en ekki þó eins og á Fjöruborðinu, og það var frekar lítið á diskunum. Fyrsti diskur auðveldur að innbyrða, samt reyndum við að borða kurteislega og ekki hakka allt brauðið í okkur strax.

Nokkur tími leið frá því við vorum búin þangað til stúlkan kom. "Getum við fengið ábót"? spurðum við þegar hún bauð hana ekki af fyrrabragði. "Já", - og meira brauð? samt vorum við ekki búin með það. "Já".

Svo fór hún að taka saman diskana. Váá! - aldeilis flottheit - bara nýir diskar fyrir seinni hálfleik! Hún fór með diskana - og tók brauðkörfuna líka.

Nú leið langur tími --. Súpan var löngu sjötnuð og við eiginlega orðin hálfsvöng aftur. Vatnið búið úr könnunni og glösin tóm.Við vorum líklega farin að ókyrrast í sætunum því piltur sem var þarna við þjónustu var farinn að gefa okkur auga. Stelpan var algerlega horfin.

Á endanum kom hann til okkar myndugum skrefum beint innan úr eldhúsi, hafði þá líkega farið þangað að kynna sér málavöxtu. 

"Hm - þetta með súpuna- hm, það á ekki að vera neitt meira. "Nú? okkur hafði nú eiginlega skilist annað. "Hún er sko útlendingur og vissi ekkert hvað þið voruð að tala um, "ábót" gat alveg eins þýtt "mjög gott". Þess vegna sagði hún auðvitað já -já- já.

Jahhá - auðvitað -já já - svona var það nú þarna. Blessandi Fjöruborðið í bak og fyrir- þó í mörghundruð kílómetra fjarlægð væri, röltum við út og fórum að leita að einhverjum stað þar sem hægt væri að seðja hungrið  - bara pizzur eða eitthvað. Við vorum orðin sársvöng.  

Farið á Stokkseyri ef ykkur langar í humarsúpu - þar klikkar ekki neitt! 

 

 


Það "fer allt í hundana"

Eitt var það sem tekið var eftir hér í bænum síðasta laugardag, daginn sem haldin var hátíðin "Sumar á Selfossi". Það var hundafárið sem geysaði hvar sem fleiri en tíu komu saman. Það eru tveir hundar á snærum afkomenda minna (nú var ég hérumbil búin að segja "í minni fjölskyldu"), en þeir eru á svona dögum algerlega hundsaðir og lokaðir eða bundnir heima hjá sér. Þar sem fjöldi fólks kemur saman á það aldeilis ekki að þekkjast að verið sé að vesenast með hunda.

Þennan dag varð ég vitni að hundaslag í miðjum hópi fólks, ég sá hund gera þarfir sínar í miðri þvögunni á sléttusöngnum, eigandinn "sá það ekki", og ég sá lítil börn grenjandi af hræðslu við ofvaxin ferlíki sem vissulega voru þó af tegundinni hundur.

Hvað er  fólkið að pæla? Ég veit vel að þetta er flott, eða er alla vega af sumum talið svo. Sá sem keyrir um á amrískum pallbíl af stærstu sort með tólf manna hjólhýsi aftaní og tvö fjórhjól á pallinum verður að hafa hund við hliðina á konunni sem situr í framsætinu í dressi úr CINTAMANI línunni. Við hliðina á henni dugir ekkert minna en Stóri Dan, Doberman eða í versta falli gullinn Labrador. Og þessi útgerð er vitanlega einskis virði ef ekki er parkerað í miðbæ þar sem hátíð er haldin og farið að spásser með bæði konu og hund. Hégómaskapur og fígúrugangur. Það á að banna alla umferð  gæludýra þegar hátíð er haldin í bæ.

Ég var um daginn á hátíð á Borgarfirði eystra og þar var einfaldlega bannað að vera með hunda, og ég veit að það er víðar gert. Þetta er eitt af því sem við þurfum að bæta úr að ári. Enga hunda í mannfjölda, ekki einu sinni þessa sem eru "svo sætir2, og svo litlir að það má stinga þeim í vasann. 


Sumar á Selfossi - og áfram svo- við getum þetta vel - og betur næst

Ég var bara nokkuð liðtæk í hátíðarhöldum gærdagsins. Var komin rúmlega níu í morgunverðinn, sem við Grínverjur höfum nú sótt samviskusamlega í allmörg ár. 

Mér finnst heldur leiðinlegra að vera þarna í kjallaranum, sérstaklega á þessum tíma, þegar sólin hefur ekki enn náð að komast fyrir hornið á húsinu. En veðrið var gott og öll framkvæmd til fyrirmyndar. Kjallarinn var hérumbil hlýlegur með tjöld á veggjum og harmonikukarla í horni.  Okkur tókst að sitja þarna rúman klukkutíma, en ekki grunar mig hversu margir komu  á meðan til að fá sér hressingu í morgunsárið. Þessi dagskrárliður hefur náð fótfestu og verður vonandi aldrei af okkur tekinn.

Svo röltum við af stað heim á leið, en gáfum okkur alveg tíma til að líta til búða og spjalla við fólk. Við byrjuðum í Kaupfélaginu, sem verður aldrei annað en Kaupfélag, enda get ég ómögulega munað öll þau nöfn sem sú búð hefur haft undanfarin ár og ég treysti því ekkert að Nóatúnsnafnið sé komið til að vera um aldur og æfi. Kaupfélagið er það og verður. Þar rákumst við á dúndurútsölu sem engin hafði áður heyrt af.

Þar vaknaði fyrsta spurning. Hvers vegna notar nú ekki þessi verslun sem er þarna tækifærið og auglýsir svakalega útsölu, hengir föt á slár fyrir utan og doblar einhvern frá kjötborðinu til að spila á gítar úti í blíðunni? Ekkert líf var í Kjarnanum, utan þess sem er þar alla daga.  Við héldum áfram.  Í Kaffi Krús hafði verið auglýst eitthvert geim, en það var bara ekki byrjað.  Obbb obbb obb - BLAZE - þar var allt að gerast. Fullt af fötum á slám úti á stéttinni, konur að skoða - samt er þetta karlabúð- og búðarkonan úti til viðtals og límdi spjöld á slárnar.  Það mátti prútta! Svona eiga kaupmenn að vera, taka þátt í hátíðinni. Svo var Bókakaffið hans Bjarna með borð úti eins og flesta góðviðrisdaga og það er gott. En þetta var líka það eina sem við sáum alla leið austur í "Júróprís". Ekkert lífsmark nokkursstaðar. Eftri hádegið fór ég á rúntinn og kannaði þessi mál aðeins betur. Alvörubúðin sýndi lífsmark. Ég sannfærðist um að við eigum langt í land að læra að halda hátíð. En það kemur, ekki gefast upp, við gerum betur næst.

Þarna voru þessi venjulegu gróðatæki aðkomumanna, litabolti og tívolí, en ekki mikið af okkar eigin framtaki. Að vísu var markaður í bílakjallaranum, en þangað komst ég ekki. Sú staðsetning er meingölluð. 

Ég vil sjá, á þessum degi, allar dyr opnar og vörur og fólk úti á stéttum.

Sumar á Selfossi á alltaf að vera sömu helgina. Við eigum alltaf að vera heima um þessa helgi og við eigum að halda fjölskyldugrill sumarsins. Ég vil að Pizzusalar gefi bita í hádeginu, á borði fyrir utan í svona góðu veðri.  Hestamenn eiga að bjóða á bak, ekki bara teyma undir smábörnum, heldur bara venjulegu fólki skrepp niður að Glóru eða svo. Það er svo ótalmargt hægt að gera, mér bara dettur ekki allt í hug í einu. Nú kom þó ein ( frekar brjáluð hugmynd). N1 gæti lækkað besínverið alveg helling, bara á Selfossi þennan eina dag. Þeir rugla nú annað eins með það. 

Svo fór ég á sléttusönginn í gærkvöldi og það var alveg brilljant. 

Ég veit að mér er málið skylt en ég ætla samt að hrósa strákunum, og líka stelpum í Árborgarliðinu fyrir þeirra þátt í þessari hátíð. Þið stóðuð ykkur með stakri prýði.

En það er bara fótboltaliðið sem heitir þetta. Árborg kemur málinu ekkert við.     Hátíðin heitir "Sumar á Selfossi". Þetta er okkar hátíð og allra sem vilja heimsækja  okkur aðra helgina í ágúst. Og það á alltaf að vera gott veður.


Hvar er þessi auglýsing - ég veit um viðskiptavin

Já - ég sá það í dag með eigin augum að hér á Selfossi vantar verulega svona konur - eða bara menn - hvort sem er gerir sama gagn.

Ég var á ferð í úthverfi bæjarins og sá þá litla stúlku á bleiku hjóli. Hún hjólaði ákveðin í átt að miðbænum. Svo vildi þannig til að ég átti erindi í búð og var þar við innganginn þegar sú stutta siglir þar á fullri ferð uppað húsinu. Leggur hjólinu fyrir dyrnar og gengur inn. Nú var ég orðin verulega forvitin og leit í kringum mig eftir einhverskonar "fylgdarmanneskju", mömmu eða barnapíu eða bara einhverju. Stelpan var örugglega ekki eldri en þriggja ára, en ég sá enga mömmu. Svo elti ég hana inn í búðina. Hún gekk hiklaust að svona nammistandi sem er þarna, margar skúffur fullar af nammi. Hún tók poka, sem blessunarlega var í neðstu hillu og svo skófluna og byrjaði að moka í pokann. Allt varð það að vera úr neðstu hæð, hún náði ekki hærra. En það dugði vel og pokinn varð fljótlega vel hálfur. Svo skilaði hún skóflunni, leit aðeins á innihaldið í pokanum, virtist vel ánægð með það -og labbaði út!  Ég horfði á eftir henni. Hún tók hjólið steig á það og hjólaði sömu leið og hún áður kom. Ég fylgdist með henni yfir götur og gangbrautir, hún virtist alvön svona ferðalögum. En hún var þó á hjálpardekkjum.


mbl.is Fylgdardama býður Íslendingum þjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hélt konan að við værum á undanþágu?

Svei mér þá, blessuð konan, umhverfisráðherra, segir nú morgunljóst að við munum finna fyrir hlýnunaráhrifum eins og aðrir í heiminum. Hélt hún virkilega að við værum á einhverjum sér samningi við almættið?
mbl.is Þarf að auka náttúruvöktun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ökukennslan í ó - lagi?

Það er regla frekar en undantekning að sjá framúrakstur yfir óbrotna línu - þó tvöföld sé - ef maður á leið um þjóðveg eitt. Reyndar ekki bara á þeim vegi, hvar sem er gerir fólk þetta og þykir alveg sjálfsagt. Ég hefði gaman af að heyra lexíuna sem ökukennarar lesa nemendum sínum um þessa umferðarreglu. Eða leggja þeir kannski enga áherslu á hana?

Það er eitthvað mikið að þarna.  


mbl.is Hættulegur framúrakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband