Er það nú ekki öfugt?

Er ekki líklegra að það megi rekja gjóskuna til kolsvörtu bólstranna sem risu hátt til himins upp af jöklinum? "Gjóskan" er nefnilega =askan og "strókur" er = gosmökkurinn.

Það er mynd af svörtum bólstrunum á    sunnlenska.is. 


mbl.is Öskufall berst austur yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er borgað af erlendum lánum sem ekki eru til?

 Lánum sem hafa verið gerð upp eða felld niður? Hvernig á fólk að geta treyst þessum stofnunum? Er einhver ástæða til að ætla að viðhorfið sé breytt? Bankarnir eiga að græða - og ekkert er heilagt í þeim efnum. Lýðurinn borgar alltaf ef hann með nokkru móti getur.
mbl.is Aðrsemi eiginfjár 30% hjá Íslandsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég vil láta rassskella og reka -

Þessi færsla er endurritun af annarri sem ég skrifaði 16.8.2007.

Og segiði svo að venjulegt fólk geti ekki séð fyrir óorðna hluti. Ég held ég sé venjuleg?

Ég vil láta rassskella og reka ruglaða kalla og kellingar sem fara eins og fáráðlingar með fjármuni ríkisins. Ég er ríkið ásamt öllu hinu fókinu sem vinnur fyrir þessum peningum baki brotnu árið um kring.

Við erum ekki að þessu puði til að búa til spilapeninga fyrir jólasveina, sem "bera svo enga ábyrgð" þegar allt er farið til fjandans. Við viljum láta nota það sem af okkur er haft til skynsamlegra verka en ekki til að láta svona dela moka þeim út, oft og iðulega til þess að hygla vinum, vandamönnum eða jafnvel sjálfum sér. 

Til að þessir slúbbertar hugsi sinn gang er nauðsynlegt að gera þær breytingar sem þarf til að hægt sé að reka þá fyrir ítrekuð afglöp í störfum. Nú liggur við að þeir gætu framið morð án þess að við þeim verði hróflað. Svona bara gengur ekki ,nema þá kannski í einræðisríkjum sem kennd eru við bananaræktun.

Svona hugsaði ég nú til pólitíkusanna  í ágúst árið 2007.

Hvað þeir voru akkúrat að bruðla með í það skiptið man ég ekki og nenni ekki að fletta til að leita, en það hefur verið einhver endemis óráðsían trúi ég.


Landsdómur?

Mig langar að vita eitthvað um það fyrirbæri. Hundrað og fimm ára gamalt og hefur aldrei verið gangsett. Hverjir myndu sitja í þeim dómi? Engum nútíma Íslendingi treystandi?

Til hamingju Rangæingar

Og til hamingju Guðmundur og fjölskylda. Ég væri alveg til í að búa á Hellu núna.
mbl.is Guðmundur Ingi sigraði í Rangárþingi ytra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Las það á Sunnlenska.is

Það er ljótt að gera svona og ég er bara ekkert hissa á að hann Einar sé reiður. Kannski veit hann hver gerði þetta og vonandi nær þá löggan í sökudólginn og rassskellir hann rækilega. En ég ætlaði nú aðallega að segja ykkur að ég sá fréttina fyrst á Sunnlenska.is. Góðar stundir.
mbl.is Útvarpssendi Kanans stolið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði það nú verið Valur, eða Haukar- eða bara KR --

--sem komst í gærkvöldi upp í úrvalsdeildina í handbolta. Ætli þá hefði verið sagt frá því í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna? Ekki eitt orð um að Selfossliðið næði þessum áfanga í gærkvöldi, hvorki hjá RUV eða Stöð tvö. Kannski varla von með stöð tvö, þeir lærðu í síðustu viku orðið "FLJÓTSHLÍÐ" ( lesið hægt) - án þess þó að vita endilega hvar sá staður er. Ekki hægt að ætlast til frekari landvinninga að sinni.

En RUV á fullt í fangi með að útlista fyrir okkur þriðja kvöldið í röð hvernig skotið var á fólk í Írak fyrir sex eða sjö árum og lýsa leitinni að ættingjum fórnarlambanna til að láta þau lýsa hremmingum sínum í smáatriðum. Hvernig eigum við að bæta það tjón, erum við einhverju bættari með þetta sjónvarpsefni, sem mig grunar að hafi kostað sitt- ég bara spyr?


Þegar vorið kom fyrir mörgum mörgum árum

Það er kalt og hryssingslegt út að líta, en samt er komið vor. Frostkaldar vindhviður feykja með sér snjókornum sem eru löngu leið á þessu vetrarlanga flökti. "Er ekki mál að linni" hugsa dauðuppgefin snjókornin og leggjast í ræfilslegt föl og vonleysislega litla skafla í hornum.     Kannski verða þau ekki til á morgun?

Vorið í minningunni var ekki svona. Tjaldurinn kom á eyrarnar við ána og lét þar til sín heyra frá morgni til kvölds.  Pabbi kom vermireitunum í lag og svo hófst drullupottagerðin og  kálplöntunum priklað í pottana.  Pottunum  var svo raðað í reitina. Svona bjuggum við til og prikluðum í mörg þúúúsund drullupotta.

Við vorum bara í hálfan mánuð í einu í skólanum, svo við gátum heilmikið unnið heima á milli. Einn daginn - og þá varð að vera mjjöög gott veður sáði pabbi gulrótunum . Þá hafði fræið verið látið spíra og svo breitt og þurrkað inni á gólfi, í Ingubænum, herberginu mínu. Þar var hitalögn undir gólfinu og alltaf hlýtt. Ætti maður leið á aðra bæi, gangandi eða hjólandi var það ekki alltaf auðvelt af því það voru hvörf í vegunum. Um allar sveitir voru stærðar drulludý í öllum vegum og mjólkurbílarnir  lentu oft í vandræðum. Það voru ekkert mjög margir aðrir bílar á ferðinni. 

Svo kom að suðburðinum og það var ævintýri. Ég fékk stundum að fara til kindanna að líta eftir, líka um nætur. Og ég lærði að sprauta lömbin nýfæddu, það var alltaf gert og ég var bara tólf ára en gat þetta samt. Svona var á vorin þá. Tjaldar, drullupottar, hvörf í vegum og lömb. Það voraði vel á þeim árum.

En það gerist nú örugglega líka núna, ég er bara óþolinmóð í þessari leiðinda kuldatíð. Mér var sagt að það myndi batna með "fimmunni", en það er fimmtudagurinn eftir páska. það breytir alltaf þá. Ef kalt hefur verið mun hlýna - og verða hlýtt, en hafi verið kalt þá ætti að kólna. Heppin erum við, það er búið að vera kalt og nú eigum við bara von á hlýnandi veðri og vorblíðu.


Til vesturs í Hvannárgil?

Ég hef áður villst á Fimmvörðuhálsi svo varla er von til að ég þekki það áttirnar. Að Hraun geti reunnið frá gígunum og vestur í Hvannárgil er mér þess vegna alveg óskiljanlegt?
mbl.is Rammvilltir á Fimmvörðuhálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar varstu þegar gosið byrjaði?

Ég hef verið að hugsa undanfarna daga, um eldgosin sem hafa orðið hér sunnanlands síðustu áratugi. Hvað er ég búin að lifa mörg gos?

Nú væri víst hægast að líta bara í "aldirnar" og finna út úr þvi, örugglega allt skráð um eldgosin allt aftur til landnáms.

Nei- ég ætla að reyna að hugsa sjálf, hver er röðin á gosunum sem hafa orðið á minni ævi og hvar var ég þegar ég frétti af þeim fyrst? 

Ég veit auðvitað bara af því mér hefur verið sagt það, að Hekla gaus 1947.

Ég var þá bara  þriggja ára og man ekkert eftir því. Sumir þykjast muna nærri því aftur til fæðingar, en ég hef aldrei fundið hjá mér þörf á að láta sem svo. Það sem mér hefur verið sagt, veit ég bara þess vegna, ekki af því ég muni það.  Svo er ég svo einstaklega heppin að góð vinkona mín hefur þetta símanúmer - 1947 - ég man það.

Ég var ráðskona í gamla barnaskólanum á Flúðum þegar Surtseyjargosið byrjaði. Var bara í eldhúsinu og útvarpið opið-  rás eitt auðvitað, af því þá var bara til rás eitt. Af þessari sömu rás heyrði ég svo allt um gosið og var ekki kostur á öðru eða meira. Þá var ekkert til annað en þessi eina rás í útvarpi. Þetta var víst 1963.

Vorkvöld í austurbænum og bóndinn að koma heim af söngæfingu. Undraði sig á því að allir austurbæingar sem ekki voru í karlakórnum voru komnir uppá þak á húsunum sínum? Við ekki löngu flutt í austurbæinn svo árið er einhversstaðar nærri 1970. Hekla var byrjuð að gjósa og hafði þá ekki látið á sér kræla rúm tuttugu ár. Þarna var komið sjónvarp og myndir sýndar næstu daga - svarthvítar.

1973 - ég svaf heima þegar SK hringdi - þá kominn í vinnuna, og sagði að það væri að gjósa í Vestmannaeyjum. Ég lá áfram í rúminu og hlustaði á útvarpið og fór svo í afmæli  Kötu, fyrir utan á síðdegis. Þá sáum við gosmökk yfir Eyjum og svo voru myndir í sjónvarpinu um kvöldið. Enn svarthvítar. 

Uppskeruhátíð garðyrkjubænda á Flúðum í kringum 1980, sennilega bara 80? Sunnudaginn eftir vorum við í sveitinni,Scan10001Scan10002Scan10003 allir liggjandi í sólbaði úti á bletti og Einar fór í laugina. Kom til baka með hávaða hljóðum "myndavél, myndavél"! "Það er að gjósa í Heklu". Myndavélin var gripin og þær myndir teknar sem fylgja hér með. Við fórum svo í hvelli á Selfoss af því ég vissi hvernig ástandið yrði fljótlega í Fossnesti. Á leiðinni sáum við ekkert nema kolsvartan mökk þar sem Hekla átti að vera. 

Stuttu seinna - 1981- eða -2-3  kom svo um miðja nótt eitthvað sem var kallað Skjólkvíagos í Heklu. Það er mér ekki minnisstætt, nema af því að þá varð aftur fjör í sjoppunni. Og ég man að það var um vetur ,þá var alltaf hvítt að líta til austurfjalla. Guðmundur fékk að sitja í hjá vinum mínum Austurleiðarbílsjórum í skoðunarferðir um gossvæðið.

Svo man ég næst eftir afmælisveislu í safnaðarheimili Selfosskirkju, í febrúar - 2000?  En ég man ekki mikið annað eftir því gosi.  Nú var allt sýnt í lit í sjónvarpi og með árunum verður maður ekki svo uppnæmur yfir gosi - það má öllu venjast.

Og er svo ekki bara Fimmvörðuháls næstur í röðinni? GK. hringdi um kl. eitt og ég nýsofnuð, hlustaði svo á fréttir af gosi fram til þrjú en sofnaði þá aftur.  Horfi síðan daglega á beina útsendingu frá MÍLU. Tækninni fleygir fram. Myndirnar eru teknar í Garði í ágúst 1980.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 197337

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband