Færsluflokkur: Dægurmál
2.7.2007 | 21:04
Úr bankanum í Bókakaffið
Ég byrjaði daginn á því að fara í laugina og þar sleikti sólin mig fram undir hádegi. Ég fór í búð í leiðinni heim og svo kom Guðbjrg með Ívar og Júlíu í smá heimsókn. Ívar kom eiginlega til að kveðja og sýna gallann flotta sem hann var að fá til að nota í boltanum í sumarbúðunum. Hann fer að Ástjörn á morgun og verður í hálfan mánuð. Eftir hádegið fór ég gangandi í bankann og tók hana Ásu með mér. Við fórum heldur lengri leið en þurfti og svo eftir bankaviðskiptin litum við á syni okkar sem báðir vinna í sama húsi.
Við vorum komnar í ríki Bjarna þingmanns, Bókakaffið við Austurveg. Það endaði með að við settumst þar að og pöntuðum kaffi og köku. Þarna var stjanað við okkur - og ég segi það satt - kakan var verulega góð. Mér tókst að kaupa tvær bækur á meðan við biðum eftir kaffinu, samt biðum við ekkert lengi. Önnur var um hana "Tryppa Siggu" sem kölluð var, merkiskona sem ég man eftir frá uppvextinum í sveitinni. Eldgömul bók sem kostaði 300kr. Ég þekkti Siggu þó aldrei persónulega, en heyrði af henni sagt. Hún ferðaðist um landið ríðandi árum saman og kom alltaf við á ákveðnum stöðum. Ég þarf að lesa bókina til að geta betur sagt sögur af henni seinna meir. Hina bókina gaf ég syninum á staðnum, það er bók sem hann getur þurft að nota á ferðum sínum í fréttaleit um Suðurland.
Svo gengum við aftur af stað, nokkra króka og svo í Bónus , síðasta viðkomustað fyrir heimkomu. Seinni partinn kom svo Guðbj. Hj. aðeins við og við skipulögðum "Góðra vina fund" morgundagsins. Blikksmiðurinn og frú komu svo við í kvöld, á góðri gönguferð um bæinn. Ég er líka að sjóða sultu, en er orðin krukkulaus. Hvað gera bændur þá?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.7.2007 | 22:09
Á faraldsfæti
Ég ætla alltaf að láta vita ef ég fer eitthvað að heiman, svona um helgar og í sumarfríinu. En þá læt ég bara vita eftirá, allir geta saknað mín þangað til. Bófar og ræningjar kunna nefnilega alveg að nota tæknina og kynna sér hvar líklegast er að finna tóm hús um helgar. Reyndar vita þeir ekki heldur hvaða svívirðilegu ráðstafanir og samráð er í gangi hér hjá okkur nagrönnum, þeir komast að því þegar á reynir.
Við fórum sem sagt í gær upp í Borgarfjörð, í heimsókn til fjölskyldunnar sem á þar afdrep um helgar. Vegna ræningjanna segi ég auðvitað ekki hver þessi fjölskylda er eða hvar hún býr virka daga.
Við byrjuðum á að koma við í "Ostabúðinni Bitruhálsi" og kaupa osta, bæði "sauða og geitaosta". Rándýra og innflutta, en það þótti nauðsynlegt að kynna sér þessar afurðir útlendra klaufdýra sem best. Eins og allir vita var dýrðarblíða um land og sjó, alla vega vestanlands, í gær og engin leiðindi í umferðinni heldur. Við tókum okkur góðan tíma, komum við í Borgarnesi til að fara í búðir m.a. til að kaupa rauðvín sem einhver hafði grun um að væri nauðsylegt að eiga með sauða og geitaostum.
Í sveitinni var allt á kafi í heyskap og undum við okkur þar í sem fæstum orðum einstaklega vel og nutum gestrisni heimamanna eins og oft áður. Í gærkvöldi var mér boðið að vera viðstödd kvöldvöku sem haldin var í eldhúsinu í höfuðstöðvunum. Þar fóru nokkur ungmenni með sögur og brandara og tókst vel. Mér var mikill sómi sýndur með því að fá þarna aðgang eins og heimamaður væri.
Auðvitað var smakkað á ostunum alveg eins og til stóð, en eiginlega má segja að þeir "stóðu sig ekki sem skyldi". það var ekki af þeim neitt óbragð, en það var bara vegna þess að þeir voru alveg bragðlausir. Ekki veit ég hvað gerir þá svona dýra, kannski er þetta bara snobb?
Í morgun var svo veðrið enn betra ef það var hægt og haldið áfram að hirða, slá og snúa. Við kvöddum svo og héldum heim í fyrra lagi, til að lenda ekki í "umframumferð" en það er umferð sem er meiri en vegirnir þola. Við komum samt við hjá "Gleym mér ei" í Borgarnesi, það gerum við alltaf, og svo skoðum við "Sveitamarkaðinn" við Leirá. Þið skulið líta þar við þegar þið eigið leið um, þar er meira um að vera en sýnist í fyrstu. Svo fórum við Hvalfjörð og Þingvöll og lentum í bullandi rigningu á Þingvöllum. Einhver hefur þar dansað afdrifaríkan regndans í gærkvöldi, kannski án þess að vita það. Löggan í Borgarnesi gómaði marga vegadólga um helgina, og svo voru líka ræningjar á ferðinni þar vestra. En ég get svarið það "við gerðum ekki neitt".
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.6.2007 | 17:22
Allt er nú hægt í Reykjavík!
Ég heyrði áðan í útvarpinu auglýsingu frá einhverri verslun á höfuðborgarsvæðinu, ég tók því miður ekki eftir nafninu. En þessi búð auglýsti nokkuð sem ég hef hingað til haldið að ekki væri til.
Auglýsingin var einhvernvegin svona. "Nýkomin sending af sauða og geitaosti", váá, sauðaosti - hvernig er það hægt? Sauðir eru hrútar sem búið er að gelda - hélt ég. Og þó ekki væri búið að fara þannig með þá hef ég aldrei heyrt að hrútar af nokkru tagi gæfu af sér mjólk, sem er algerlega nauðsynleg svo hægt sé að búa til ost.
Ég man hins vegar að þegar ég var úti í Noregi heyrði ég talað um "sau", og þá var átt við rollurnar sem voru þar, að vísu allt öðru vísi en okkar. Allar kollóttar með dindil niður í hnéspætur, samt kann ég ekkert skárra orð yfir það. Varla hali eða heldur skott? En þar sem ég var, í Guðbrandsdalnum, voru þessar skjátur þó alla vega sendar uppá heiði yfir sumariðm með bjöllur um hálsinn svo hægara væri að finna þær aftur.
Gæti hugsast að osturinn í Reykjavík sé búinn til úr mjólkinni úr þeim og svo fluttur til Íslands? Sau verður þá sauður þegar komið er í hillurnar í búðinni. Gæti verið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.6.2007 | 21:17
Sírenuvæl oft á dag
Hvernig stendur á þessu? Á síðasta ári - ég fullyrði það og er ekki ein um þá skoðun. Á síðasta ári hefur sírenunotkun sjúkra og lögreglubíla hér á Selfossi aukist svo að það er bara hreint ekkert eðlilegt. Lögregla og sjúkraflutningar hafa alltaf verið hér í bænum - slökkviliðið líka svo engin breyting á staðsetningu orsakar þetta.
Áður heyrði maður kannski í sírenu svona einu sinni í viku, ég segi nú bara svona til samanburðar, og þegar það gerðist var næsta víst að fljótlega fréttist af slysi, dauðsfalli eða eldsvoða. Nú líður ekki sá dagur að ekki bresti á með magnað sírenuvæl, yfirleitt oftar en einu sinni á degi hverjum. En sem betur fer fylgja sjaldnast tíðindi af stórslysi. En þetta er óþægilegt, maður tengir þessi hljóð við slæm slys og manni bregður.
Ég hef heyrt því fleygt að það hafi orðið áberandi breyting þegar sjúkraflutningarnir færðust frá lögreglu til einhverra annarra, sem ég kann ekki að nefna. Einhverjir töffarar séu komnir í þá flutninga sem kunni ekki með hljóðmerkin að fara. Ég veit það ekki, mér finnst þetta líka koma frá löggubílunum.
Ég ætla að segja eina dæmisögu sem ég þó veit ekki hvernig byrjaði eða heldur hvaða endi hafði, en þetta atvik leit undarlega út í mínum augum og örugglega annarra sem urðu vitni að því. Einn laugardag í vor lögðum við hjónin af stað í sveitina eftir hádegið kát og glöð á okkar fjallabíl. Við vorum komin skammt austur fyrir mjólkurbú og umferðin var bara svona í meðallagi, tveir eða þrír bílar á undan með löngu bili á milli og enginn á verulegri ferð. Það kom bíll á eftir okkur á töluverðri ferð og fór framúr, löggubíll. Allt í lagi með það, hann gat verið að flýta sér meira en við. Þegar hann var kominn framúr næsta bíl setti hann ljós og sírenu á og hvarf svo á örskotsstund öllum sem á undan voru. Örugglega bílslys einhversstaðar datt okkur í hug, og héldum áfram á sama hraða. Þegar við komum að vegamótunum að Þingborg hafði kauði lagt bílnum þar í heimkeyrslunni, sat hinn rólegasti, einn í bílnum, og talaði í símann. Það var ekkert annað um að vera á flóaveginum svo langt sem víð sáum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.6.2007 | 08:55
Kann einhver "regndansinn"?
Og þá meina ég ekki bara einhver asnaleg spor útí bláinn. Ég meina svona alvöru indíánaregndans, með hljóðum og tilfinningu sem sker inn í bein. Mig grunar að flestir sunnlendingar og jafvel fleiri væru til í að mæta um helgina og dansa með manninum, ef víst væri að það myndi skila árangri.Til dæmis bara uppi á miðri Hellisheiði, það rata allir þangað.
Við erum að þorna upp. Tún og garðlönd eru að skrælna og svo fýkur það sem óræktað er eitthvað út í buskann. Það er ekki einu sinni hægt að sækja vatn í lækinn af því að hann er búinn að vera þurr í margar vilur. Okkur vantar sárlega sunnlenska rigningu - og bara skítt með það - rokið mætti alveg fylgja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.6.2007 | 08:42
Það vill enginn vera "utangarðs"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2007 | 21:30
Sumargleði í Mýrdalnum
Síðustu daga hef ég búið í Vík í Mýrdal og stundað þaðan gönguferðir. Á mánudag gekk ég á Reynisfjall í sumarblíðu og sólskini. Við (vinnufélagar) fórum frá veginum þvert yfir fjallið og síðan með brúnum, allt að Reynisdröngum og hinu megin til baka. Um kvöldið fórum við í fjörugöngu og enn var veðrið gott.
Í gær fór svo helmingur hópsins í alvöru fjallgöngu, á hæsta tindinn yfir Víkinni, sem heitir Hatta. Hinn helmingurinn ( og ég) gekk um hlíðar nærri Víkurhömrum og við kynntum okkur svo lifnaðarhætti innfæddra seinni partinn. Okkur var sagt að um miðjan dginn væri hiti í Víkinni mestur á Íslandi öllu. Þegar ofurkonurnar komu af fjöllum var farið í sund og svo grillað. Þetta kvöld var værð yfir okkur eftir matinn, enda kuldalegra úti en áður og við sumar þokkalega grillaða.
Í morgun gengum við svo allar saman á Hjörleifshöfða í hífandi roki og sandbyl. En við urðum að fara alla leið upp til að skoða leiði forfeðra einnar okkar. Allt var þetta einstaklega vel heppnað, ekki síst góður aðbúnaður í húsinu Sigurðarstöðum í Vík. Þökk sé þeim sem vöktu yfir okkur þar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.6.2007 | 19:19
Hvað sást þú skemmtilegast?
Í umferðinni, heima, í bústaðnum eða útilegunni. Eða bara á gangi í bænum. Það sem ég sá skemmtilegast var ein lítil græn spíra sem gægist upp úr moldinni í potti frammi í þvottahúsi. Þessi litli angi á sér sögu, alveg einstaka sögu sem ég verð að segja.
Um daginn var ég í Leeds með vinnufélögum, við vorum í "vinnuferð", sem þýðir að við fórum alla daga í skóla þarna í borginni til að kynna okkur það sem þar er verið að gera. En síðdegis gátum við svo skoðað borgina. Nærri hótelinu hafði ég komið auga á falleg furutré sem ég ákvað að skoða betur og jafnvel reyna að hafa nokkuð gott af.
Ég taldi nokkrar vinkonur á að koma með mér einn daginn til að reyna að ná könglum af þessum trjám. Þær lögðu af stað fjórar, en spottinn að trjánum reyndist lengri en haldið var og fækkaði fljótlega um þrjár. Við tvær sem eftir vorum komumst alla leið og hófst nú leit að könglum sem við næðum til. Engir reyndust í seilingarhæð en þá var leitað á jörðinni. Vinkonan náði taki á stórri grein sem hún sveiflaði sér í góða stund eins og Níels hennar Línu myndi hafa gert ef hann hefði verið í Leeds. En það dugði ekki, enginn köngull datt á jörðina. Við vorum að verða vonlitlar þegar ég kom auga á einn köngul sem lá á jörðinni. Ég tók hann og fann svo annan. Þetta urðum við að láta gott heita. Ég þakkaði vinkonunni góðan stuðning og við snerum til hótelsins.
Heim komin gerði ég krufningu á könglunum, en fann þar ekki nema eitt fræ sem sýndist þroskað. Það fékk mold í pott í þvottahúsglugganum og gerði mér svo glaðan dag í dag. Hvað sást þú skemmtilegt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.6.2007 | 18:24
Það er svo margt skrýtið og skemmtilegt
Að sjá í umferðinni um helgar eins og þessa. Væntanlega líka ýmislegt ljótt og leiðinlegt, en um þessa helgi fór það framhjá mér að mestu. Ég hef ekki séð neitt umferðaróhapp og ekki heldur neinn vegadólg. En ég hef séð bíla, marga, í löngum lestum með ótrúleg viðhengi aftaní sér. Hestakerrur, fellihýsi, tjaldvagna, kerrur með fjórhjólum eða pikkup bíla með mótorhjól á palli og kerru aftaní með fjórhjóli einu eða fleirum. Nokkrir voru á ferðinni í dag með kerrur og þar á einhverskonar golfbíla. Einn sá ég í gær með kerru og Farmal Kubb þar á. Fyrir þá sem ekki vita ,er Farmal Kubb - traktor sem var vinsæll um miðja síustu öld. Húsbílar eru svo í lestunum óteljandi og af ýmsum gerðum og stærðum.
Fornbílarnir hafa sett svip sinn á umferðina hér þessa helgi og eru nú að snúa til síns heima. Takk fyrir komuna, það er alltaf gaman að sjá alla þessa glæsivana samankomna. Þeir blanda sér nú í lestarnar sem stefna allar að einu marki - til borgarinnar við sundin. Það er víst bara 20 km. hraði á þeirri leið núna, svo vonandi gengur allt vel og allir koma heilir heim.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2007 | 21:30
"Fyrir austan fjall"
Nú er sumartraffíkin skollin á og við "sveitamenn" fylgjumst með fullir aðdáunar og undrunar í bland. Við sem búum hér á Selfossi höfum held ég mörg komið okkur upp ákveðinni tækni til að komast ótrufluð í gegnum helgarnar á sumrin.
Það eru nokkrar reglur sem nauðsynlegt er að kunna og fara eftir.
1. Reyna að ljúka öllum innkaupum fyrir helgina eigi síðar en á fimmtudegi. Ef það tekst ekki má reyna við Bónus síðdegis á laugardegi, en þá er bara allt búið í búðinni.
2. Ekki fara niður í bæ að nauðsynjalausu frá hádegi á föstudegi til hádegis á laugardag.
3. Ekki reyna að komast í Nóatún eða bókasafnið öðruvísi en gangandi eða á hjóli.
4. Ef maður getur fundið sér eitthvað að dunda í Reykjavík, er upplagt að nota helgarnar í það og fara þá um suðurstrandarveg.
1.Svo er líka hægt að halda sig innan lóðamarka með nógan mat og drykk þangað til vinnuvikan byrjar aftur á mánudag.
Við hjónin höfðum ekkert að gera síðdegis, þegar við vorum búin að fara á Stokkseyri að sækja mold og í Blómaval eftir pottum, svo við dóluðum aðeins um göturnar og fylgdumst með umferðinni. Þetta er með ólíkindum, hvert er allt fólkið að fara?
Á planinu við Fossnesti þar sem einu sinni var talið líflegt á föstudögum, þegar kannski voru þar saman 20 - 30 rútur fullar af fólki á leiðinni í Þórsmörk eða bara eitthvað út í buskann, sáum við nú ekki eina einustu rútu. En þar var allt fullt af bílum, flestir með einhverskonar viðhengi misjafnlega stór, en öll stór. Þessu var lagt þvers og kruss og svo var fólk á hlaupum sitt í hverja áttina. Kallinn í bensínstöðina á meðan konan fór í ríkið. Eða konan í aðótekið á meðan hann sótti kjúklinga. Jafnvel voru sum svo bjartsýn að fara bæði í Bónus, en þá var nú ekki von á að sjá þau aftur fyrr en eftir lokun.
Einn stærðar jeppi með ennþá stærra hjólhýsi hringsólaði um planið og í kringum bensínstöðina aftur og aftur, sennilega hefur hann sent konuna í Bónus og ætlað að koma sér fyrir einhversstaðar en ekki tekist. Hún hefur svo orðið að henda sé uppí á ferð ef hún slapp þá út úr búðinni áður en hann varð bensínlaus.
Það er bara gaman að fylgjast með þessu stressi álengdar. Aumingja fólkið heldur að það sé svo þægilegt að komast út úr bænum og sinna svo öllum sínum erindum hér, en ég efast um að það sé alltaf auðveldari leiðin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar