Færsluflokkur: Dægurmál
17.7.2007 | 21:13
Bara þetta eina "klukk"
Ég geri það fyrir Jórunni í þetta sinn, en ég er jafn lítið fyrir svona skylduskriftir eins og ég er lítið fyrir "dirty"brandara. Sendi þá aldrei áfram þó ég líti lauslega á ein og einn. Átta atriði um sjálfa mig gætu litið einhvernvegin svona út.
Ég er fædd 1944 á Engi í Mosfellssveit.
Ég ólst upp í Hrunamannahreppi.
Ég á alltaf sama manninn.
Ég á þrjú börn og jafnmörg tengdabörn.
Ég á sex barnabörn.
Ég er stuðningsfulltrúi í grunnskóla og finnst það gaman.
Ég er ekki fín frú.
Ég er "útivera".
Ég er skrifari, á erfitt með að hætta þegar ég byrja.
Ég vil síður gera fólki þann grikk að klukka það. En bara fyrir Jórunni: Jóhanna Guðbjörg, Berglind, Zófus, Rúnarsdóttir, Fjóla Signý, Sig. Hreiðar, Guðmundur Karl.
15.7.2007 | 20:47
Það fjölgar í gæludýrafjölskyldunni
Þegar við komum heim í gær leit ég til brunnklukkunnar í steininum. Datt í hug að vatnið hefði gufað upp eða verið drukkið af tilfallandi köttum eða hundum. Nei, ekki var það, nóg af vatni og Brúnka svamlaði um pollinn sinn kát og glöð. Krakkann sá ég ekki, en fljótlega kom ég auga á aðra fullvaxna klukku! Getur verið að þær vaxi svona fljótt? Eitt ferðalag vestur á firði og hviss bang krakkinn orðinn stór?
Svo í morgun þegar sólin skein í vatnið sá ég hvers kyns var. Krakkinn var enn lítill, en það hafði bara fjölgað í búinu, Brúnka hafði tælt til sín karl, hvaða leið sem hann hefur nú komið. Eða eru þessar skepnur ekki kven og karlk.? Nú býr þarna sem sagt tæplega vísitölufjölskylda af brunnklukkuættinni. Brúnka, Brúnó og Brynki(a).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.7.2007 | 20:33
Hvernig verða fréttamenn til?
Stundum dettur manni í hug að þeir detti af himnum og fái ekki jarðbundna meðvitund fyrr en eftir einhverra vikna dvöl á meðal manna. Spurningar sem maður heyrir í t.d. útvarpi eru svo ótrúlega heimskulegar að ég skil ekkert í honum Páli að biðjast ekki afsökunar svona einu sinni í viku.
Í nótt var slökkviliðið, í Borgarnesi held ég, kallað út, í einu tilfelli að Grábrók, þar sem eldur var í mosa. Og fréttakona í hádeginu spurði slökkviliðsmann hvort mosinn væri virkilega svona þurr, að hann bara brynni?
Og þegar minnst er á sinubruna, það var eldur við Nesjavallaleið, fyrirgefðu frændi, ég kann ekki að nefna stðinn. En í miðju kafi náðist viðtal fyrir útvarp við einn slökkviliðsmanninn, og hann var spurður hvað þeir myndu þurfa marga lítra af vatni? Löngu áður en séð var fyrir endann á bálinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2007 | 21:42
Á ferð um Ísland
Borgarnes - Geirabakarí - frábært kaffi.
Búðardalur - löggustöðin harðlæst
Fellsströndin - logn, sólskin, selir á steinum og álftir á sundi
Skarðsströnd - tjaldstæðið Ögn á Á er jafn gott og áður.
Króksfjarðarnes - harðfiskur
Kollafjörður - vegagerð
Flókalundur - flókin bensíndæla
Hænuvík - stafalogn
Tálknafjörður - glæsileg aðstaða fyrir ferðamenn
Holt í Önundarfirði - hádegismatur á picnik borði
Ísafjörður - Edinborgarhúsið
Á Ísafjarðardjúpi - Sjóferðir Hafsteins og Kiddýar
Vigur - heyskapur og æðarfugl
Aftur á Ísafirði - pizza
Súðavík - 207 húsbílar
Í botni Álftafjarðar - kríur og þvottur á snúru
Í Skötufirði - sumarbústaðir
Þorskafjarðarheiði - grjót
Í Saurbænum - gott tjaldstæði og Jónsbúð.
Borgarnes - landnámssýning og lasagna
Reykjavík - Stella í heimsókn
Selfoss - það er að þykkna upp, getur það verið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.7.2007 | 18:58
Hvar vex álið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.7.2007 | 21:07
Hver kom hér?
Á fimmtudag fannst hér í innkeyrslunni miði, eða öllu heldur tveir samanbrotnir miðar. Sá sem hefur misst þá frá sér er heilmiklum fróðleik fátækari, nema hann eða hún hafi verið búin(n) að læra utanbókar það sem á þá var skrifað.
Þarna eru minnispunkatar um allt mögulegt í sögu Selfoss. Allt frá því að brúin hrundi undan mjólkurbílunum og til þess að Byko var opnað og skeiðvöllur Sleipnis tekinn í notkun. Úr því ég komst yfir þessi blöð er ég að hugsa um að nýta mér þau og skrifa um það sem punktarnir vísa á. Bara svona með tíð og tíma, ekkert endilega hér. En ég er líka alveg til í að skila þessu ef eigandinn gefur sig fram.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.7.2007 | 20:31
Loksins gæludýr í Rauðholti
Við erum búin að eignast gæludýr og ekki aldeilis neitt venjulegt. Líklega er það af langvarandi þurrkum sem blessuð skepnan leitaði hælis hjá okkur.
Í steininn frá Hrepphólum, fuglasteininn sem tekur tíu lítra af vatni, höfum við reglulega fyllt úr krananum í þvottahúsinu. Fuglarnir verða að fá að drekka, og jafnvel baða sig. En það er ekki fugl sem leitaði þar hælis. Nei það er brunnklukka. Hún syndir þarna um eins og í mýrarpytti væri, og til að staðfesta búsetuna og líklega ánægju með nágrannana þá er hún búin að ala barn. Pínulítill brunnklukkukrakki fylgir henni á sundinu. Tvær ömmustelpur fylgdust þarna með fjölskyldulífinu í dag - með munnana vandlega lokaða - því allir vita að brunnklukkur hoppa uppí mann sem gapir yfir læk eða keldu. Og aðvitað ekki síður sé hún í fuglasteini á bletti í austurbænum. En hvaðan í ósköpunum kom hún?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2007 | 17:30
Þrumur og eldingar
Ég er búin að vera í stuttbuxum í margar vikur. Alveg eins og ég myndi gera í útlöndum. Í dag fórum við mæðgur í vettvangsferð um nágrennið. Fyrst austur í Flóa, í móana í landi Króks. Við fórum til að skoða gamla lambhúsið sem enn er þar að hálfu uppistandandi. Þetta er nú orðið ósköp lélegt hús, en samt var það í notkun þegar við komum að. Tveir hrútar og ein rolla með lömb höfðu fundið sér þar skjól fyrir sólargeislunum. Mér finnst það illa gert við þesi grey að sleppa þeim út í sumarblíðuna án þess að rýja. "Það fæst ekkert fyrir ullina", segir kannski einhver, en hugsið ykkur að druslast með þetta utaná sér í sumarhitanum. Ég er hrædd um að einhverjum fyndist nóg um ef hann væri skikkaður til að vera í kraftgallanum allt sumarið, dag og nótt.
Við fórum næst einn hring í miðbænum, þar sem allt er nú í rúst. En sáum þar þó vott af endurbótum. Hópur af strákum, sennilega frá Ræktó, voru að leggja gangstéttar og létu ekki reka á eftir sér. Þeir voru alveg á fullu og má mikið vera ef eitthvað verður þar óunnið í kvöld.
Hjá Maddömunum komum við beint í nýlagað kaffi sem okkur var boðið að smakka á og drekka úr yndislega gamaldags ( enda antik) mokkabollum. Það er gaman að koma þar. Úti á stéttinni heyrðum við til þrumu yfir fjallinu. Næst heimsóttum við Náttúru, hún er meri brún og eyðir sumrinu með fjórum öðrum hrossum í grænum haganum fyrir utan á. Þar fórum við að taka eftir þrumunum svo um munaði. Yfir Grímsnesi og Laugardal lá þungur skýjabakki og þaðan bárust þrumurnar, stundum samfleytt í langan tíma. Guðbjörg reyndi að taka þær upp á video, þ.e.a.s. hljóðið, en líklega truflaðist það af bílahljóðum á Suðurlandsveginum.
Þess vegna fórum við inn með fjalli, inn fyrir Tannastaði og þar reyndi hún að gera þetta svo vel væri. Það voru stöðugar þrumur og ekki langt í burtu, en við sáum ekki eldingar, þær hafa verið inni í skýjabakkanum og eiginlega var sólbjart. Einkennilegt veður. Það rigndi greinilega úr þessum skýjum, í Grímsnesinu og gott ef ekki efst á Skeiðum líka. Ekki þorðum við að vona að dropar féllu á kartöflurnar okkar og trén í Mýrinni.
Ferðalok voru svo í ís á Arnbergi. Við fórum út á Langanes og aðeins uppí Hellisskóg á meðan við vorum að ljúka við hann. Gott ferðalag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.7.2007 | 20:55
Skemmtileg leikföng
Allir sem eiga börn lend einhverntíman í því að allt dótið er orðið hundleiðinlegt. Búið að veltast með þetta um gólfin mánuðum saman og ekkert er spennandi lengur. Ég lærði ráð nýlega. Ráð til að búa til nýtt dót, óskaplega spennandi fyrir börn, frá eins árs og - ég held bara alveg upp til fullorðinsára.
Flestir hafa séð maðkaflugurnar sem safnast saman í gluggum guðshúsa á Íslandi - til þess eins að deyja. Ég veit ekki hvernig þær koma sér þarna fyrir, oftast er allt kyrfilega lokað vikum saman og samt fyllast allir gluggar af dauðum flugum. En þessar flugur er líka stundum hægt að finna lifandi, gjarnan upp til sveita eða í sjávarplássum. Þar er reyndar nokkuð öruggt að finna nóg af þeim.
Maður fær sér box úr glæru plasti, og þá meina ég alveg glæru, með loki sem smellur vel yfir. Svo veiðir maður tvær eða þrjár maðkaflugur, setur í boxið og lokar. Komið dót. Dót sem er hægt að sitja með tímunum saman, velta fyrir sér á ýmsa vegu og má jafnvel taka með í baðið. Þetta dót endist alveg heilan dag lifandi og þeir sem eru mjög viðkvæmir og náttúruvænir geta sleppt flugunum út að kvöldi og veiða svo bara aðrar næsta dag. Það má auðvitað nota aðrar tegundir, t.d. geitunga, margfætlur, hunangsflugur, kóngulær eða járnsmiði - möguleikarnir eru óteljandi. Og kostar ekki neitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.7.2007 | 15:31
Endalaust arfaveður, það er ágætt líka
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.7.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 197629
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar