Færsluflokkur: Dægurmál

Af handriti sem fannst í austurbænum

Enginn hefur leitað eftir miðunum sem fundust hér í innkeyrslunni á dögunum. Það er svolítið undarlegt af því ég held að þetta séu merkismiðar ( ekki merkimiðar) og hafi verið skrifað á þá í ákveðnum tilgangi. Ég ætla að nefna hér nokkur atriði sem eru skráð á þetta handrit:

1945 - skólinn fluttur, það er sennilega þegar Barnaskólinn á Selfossi, sem nú er kallaður Sandvíkurdeild Vallaskól, var tekinn í notkun.  Makalaust hvað er hægt að gera einfalda hluti flókna. þessi Barnaskóli er ekki einu sinni á Selfossi lengur, hann er í Árborg.  (En ég skal nú samt alltaf segja Selfossi)

  1947 - kjöt utan á? Hvað gæti það nú þýtt? Mér dettur í hug að þá hafi SS tekið sláturhúsið í notkun,og þar með byrjað að framleiða kjöt fyrir utan á.

 Landsímastöðin 1909 - þá hefur gamla símstöðin við Austurveg verið tilbúin?

Ölfusá vatnsmesta á landsins - það vissu nú allir.

Sundhöll =1960 - það hefur verið þegar sundhöllin á Selfossi var tekin í notkun.

1945 - löregluþjónn. Sennilega hefur þá verið settur lögregluþjónn á Selfoss. Ég þarf að finna út hvað hann hét og hvað hann var helst að gera.

Sumt á þessum miðum er svo smátt skrifað og skamstafað að ég get ekki lesið. Ætli ég fari ekki á "dulmálslestrarnámskeið" áður en ég reyni við meira. 


Æ og aftur æ

Það ríður ekki við einteyming klúðrið hjá blessuðum fréttamönnunum.

Nú var verið að segja frá niðurstöðum ransókna vegna hugsanlegra neðansjávarganga til Vestmannaeyja.

Ekki er alveg víst að sú framkvæmd muni borga sig, en samt á að skoða málið betur.

Þar á meðal hvernig aðstæður eru á Langeyjarsandi?  Er sá sandur kannski úti í eyjum?

Ég vil ekki skrifa tjónið endilega á þann sem les fréttirnar. Getur verið að einhverjir aðrir skili þessu svona til þeirra?


Feimnismál Lúkasar

Nú hefur hundgreyið Lúkas verið handsamað og lokað inni. Frelsinu lokið.Það er lítið talað um hvar hann hefur haldið sig eða hvers vegna hann fór að heiman. Það er auðvitað bara feimnismál þegar fullfrískur hundur á besta aldri strýkur að heiman og fer á lóðarí  í margar vikur. Það væri ekkert leyndarmál ef hundur af óljósum uppruna á ónefndum sveitabæ hefði látið freistast til lauslætis með hækkandi sól. En svona fínn hundur getur auðvitað ekki verið þekktur fyrir það.  Það verður fróðlegt að sjá útlitið á hvolpunum í Eyjafirðinum á næstu mánuðum. Gott ef hann hefur ekki reynt við tófurnar líka.

Ef það fer nú að gjósa?

Ef svo slysalega tækist til að færi að gjósa norðan Vatnajökuls, gæti þá ekki allt farið til fjandans við Kárahnjúka og þar í kring? Mér fannst verið að ýja að því í kvöldfréttunum.

En ef það færi nú að gjósa í Heklu, segjum svona gos uppá hálft ár, með hraunrennsli og öllu. Gæti þá ekki kannski allt farið til fjandans  í öllum virkjunum sunnanlands? Það er alltaf verið að mála skrattann á veggin í fjölmiðlunum. Af hverju er ekki hægt að spá í eitthvað skemmtilegt og jákvætt, svona all vega á meðan ógæfan lætur ekki á sér kræla.

Það er ekki bara í sambandi við virkjanir og stóriðju. Þegar Helgi Seljan talaði við Jón Ólafsson um daginn, var það hans eina áhugamál hvort ekki yrði bölvað að tappa vatni á flöskur í Ölfusinu ef þar kæmi álverksmiðja.  Honum var alveg sama um velgengni Jóns í sölumálum.  Jón þurfti þá að fræða fréttamanninn um það að vatn hefði þann eiginleika að renna frekar niður en upp og þess vegna gæti þetta bara orðið allt í lagi. Helgi virtist ekkert verða því feginn, nema síður væri.


Fyrirspurn til fuglafræðinga

Ég var fyrir stuttu í Manchester á Englandi og sá þar fálka sem hafði sest að á stórri verslunarmiðstöð.  Mér var sagt að þarna væri á ferðinni "Peregrine fálki", og hann væri hraðfleygastur allra fugla í heiminum. Hvort sem það er rétt eður ei, langar mig til að vita hvað þessi fálki myndi hafa að viðurnefni hér á landi.  Er einhver sem veit það?

Kæri Jón Ó. átt´ekki nóg af vatni?

Mér fyndist að við ættu á senda grönnum okkar á Bretlandi einn eða tvo flugvélarfarma af drykkjarvatni.  Eins og áður -  af hverju erum við alltaf að velta okkur uppúr einhverju sem er svo víðs fjarri að  fæstir hafa á því áhuga eða möguleika á að hafa hundsvit á málunum.

En svo þegar kemur að þeim sem nær okkur standa, búa eða  vaða. Þá er eins og okkur komi það ekkert við?  Ég gæti reyndar vel trúað eikaaðilum - Jónum eða Jóhannesum - til að gera eitthvað í málinu - en ekki stjórnvöldum.


Á Rangárvöllum að leita fortíðar

Við fórum í svolítið merkilega ferð í dag.  Hún Guðbjörg var ein heima með börn og hund svo við tókum þau með okkur í gamaldags "sunnudagsbíltúr". Hundurinn var að vísu skilinn eftir.  Við fórum austur í Rangárvallasýslu og komum fyrst við á Vegamótum, til að kaupa nestið. Það varð bara svona hefðbundið sunnudagsbíltúranesti, gos, kex og smá nammi. Síðan fórum við austur fyrir Hellu og upp á Rangárvelli. Þegar fór að nálgast Gunnarsholt var ljóst að þar fyrir ofan væri úrhellisrigning(gott fyrir gróðurinn), svo við beygðum til vesturs í átt að Heiði og svo Svínhaga Hólum og mörgum fleiri bæjum. Þessi vegarspotti, sem er nú reyndar enginn spotti, alla leið upp fyrir Næfurholt, var í einu orði sagt, hræðilegur. Þvottabretti alla leiðina, það grófasta og versta sem við höfum fyrir hitt á áratugi, segi og skrifa. Krökkunum fannst þetta bara fyndið - til að byrja með, en svo dró úr gleðinni eftir því sem á leið. Ég var ekkert að auka hörmungarnar eð því að segja þeim að ég fyndi nýrum hristast svo að ég væri næstum viss um að þau færu á flakk. Á þessari leið eigum við og Guðbjörg, reyndar eldgamlar skemmtilegar minningar. Frá þeim árum þegar farið var með börnin í stuttar útilegur, af því heimilisbíll þess tíma réði ekki við lengri ferðir. Svo var hún líka í sveit í Flagbjarnarholti og þar keyrðum við framhjá til að sjá hvað væri eins og áður, eða kannski allt orðið öðruvísi. það var bara mjög líkt því sem var.  Við borðuðum nestið fyrir ofan Næfurholt og þar var líka hægt að sulla í læk. Þetta varð  skemmtileg ferð.

Allt er hey í harðindum

Ég átti leið niður í Sandvíkurhrepp (hinn forna) áðan og fór þá hjá túnunum í Björk. Við eigum þessi tún svo best ég veit. Kafloðnar flatir og ætti að vera löngu búið að slá.  Er ekki kæruleysi af þeim sem ráða málum okkar hér í sveitarfélaginu að slá ekki túnin okkar í þessari líka frábæru heyskapartíð. Ég veit ekki betur en bændur um allar sveitir leigi slægjur eða slái sjálfir og selji hey í stórum stíl. Af hverju ekki við. Eigum við of mikið af peningum?

Hvernig er þetta með hana Ingibjörgu Sólrúnu?

Getur verið að ég hafi misst af einhverju? Stendur til að við tökum Palestínu í fóstur?

Hver einasti fréttatími byrjar á ýtarlegri lýsingu á því sem konunni finnst um eitt og annað. Eins og hún geti eitthvað gert í því? Ég trúi því varla. Þarna hefur engum tekist að reisa rönd við árum saman, getur verið að hún sé almáttug?

Einhvernvegin finnst mér að nær væri fyrir utanríkisráðherra á frumstigi að "kynna" sér eitthvað sem nær okkur stendur. Hvað með að skoða þróun innflytjendamála á hinum Norðurlöndunum? 


Loksins hægt að taka til hendinni

Sólin var ekki þar í morgun, og hún er ekki komin enn. Hvað er að ske?

Ég sá ekki annað ráð en að setja í þvottavél, fara í klippingu og ýmislegt svona sem maður getur ekki á góðviðrisdögum. Svo fór ég í Blómaval til að kaupa potta fyrir fimmtíu trjáplöntur sem ég á eftir að skipta á. En svo aumt sem það er þá fást engir pottar í þeirri búð. Ekki svonaódýrir hversdagspottar til að ala upp plöntur í. Bara rándýrt drasl til að raða á svalir og palla með einhverjum fullvöxnum rósum og runnum, sem er þá auðvitað líka reynt að selja manni.  Verð ég að fara í aðrar sóknir til að leita að svörtum ferköntuðum pottum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband