Færsluflokkur: Dægurmál

Bæði get ég flogið og keyrt hvaða bíl sem er.

Við fengum nýjan bíl í gær - auðvitað rándýran eins og allir nýir bílar eru, en annars bara ágætis bíl - held ég. Ég var að hugsa á leiðinni austur að nú þyrfti ég að læra að keyra þennan nýja bíl, þá finnst mér best að fara ein eitthvað út í buskann til að kynnast gripnum. Ég hef svo sem oft áður þurft að gera svoleiðis æfingar, ég hef ekki tölu á öllum bílunum sem við höfum átt.

En svo hugsaði ég líka til þess þegar ég sofandi í rúminu mínu keyri stóru bílana. Það er gaman. Mig dreymir nokkuð reglulega alveg æðislega drauma, og þeir eru allir í sama dúr. Ég er að keyra, annað hvort rútu af stærstu gerð eða risastóran vörubíl með stórum aftanívagni, ég veit ekki einu sinni hvað það heitir.  Og það er ekkert á víðavangi sem ég stunda þetta sport, nei ekki aldeilis, ég er á götum höfuðborgarinnar, og ekki alltaf ljóst hvort ég muni ná beygju eða komast um þröng sund. En þetta tekst alltaf og ég vakna sigri hrósandi og ánægð með sjálfa mig.

Ekki nóg með það, ég get líka flogið. Ekki neinni flugvél eða þessháttar, ekki aldeilis,  mér dugir að rétta út handleggina og þá svíf ég um loftið eins og örn yfir Skötufirði.  Það er æðisleg. Að horfa yfir landið og sjá þar allt með augum fuglanna. Ég hef að vísu aldrei tekið mig á loft eða lent, en það hlýtur að ganga vel ég vakna alltaf óbrotin. 


Þegar ég lagðist í rúmið af eintómu sólskini

Heilsufarsleg vandamál hafa að mestu farið framhjá mér, sem betur fer, ég þarf ekki að kvarta út af neinu þessháttar.  Þegar ég var yngri - allmikið yngri - alveg þegar ég var táningur, þá fékk ég öðru hvoru skelfileg höfuðverkjarköst.  Fyrst var haldið að þetta stafaði af einhverjum sjóntruflunum og ég fór til augnlæknis í Reykjavík sem lét mig hafa gleraugu. Þessi gleraugu notaði ég aldrei, þau voru bara fyrir mér og gerðu ekkert gagn. Enda fékk ég ekkert hausverk af lestri, þó ég læsi mikið á þessum árum.

Það tók nokkurn tíma að komast að því hvað það var sem helst orsakaði köstin, en ég fann það út sjálf með vaxandi þroska og reynslu. Þau komu helst ef mér var bannað eitthvað, ef eitthvað spennandi stóð til, eða ef sálartetrið varð fyrir einhverskonar áfalli. Líklega benti þetta til einhverskonar geðveika  eftir  þess tíma kenningum. Ég fór aftur til læknis, ég held bara þess sama af því ég man að hann spurði um reynsluna af gleraugunum, sem ég hafði þá ekki séð í marga mánuði.

Þarna heyrði ég í fyrsta skipti orðið mígreni - eða taugakrampi, sagði læknirinn. Nú var ég send heim með einhverja dropa sem ég átti að taka tvisvar á dag útí mjólk. Ógeðslega vont á bragðið.                Í minningunni einhverskonar joðbragð held ég, samt veit ég ekkert um joð. Ég lagaðist ekki af dropunum, en nú fór ég í alvöru að komast að því að skapið gat hjálpað mér ef ég reyndi að halda því svona frekar í góða gírnum. Ekki láta æsa sig og stressa. Aldrei velta mér uppúr óþarfa leiðindum. Mér fór að batna, en kannski var það líka vegna þess að gelgjan var að ganga yfir.

En það var eitt sem lagaðist ekki fyrr en löngu seinna. Ef ég var úti í miklu og sterku sólskini mátti ég ganga að því vísu að liggja flöt með bullandi hausverk næsta dag.   Það tók mig jafn langan tíma að skilja samhengið eins og það tók mig að fatta af hverju ég gat aldrei sofnað eftir fundi eða annað álíka með kaffiþambi.                                Ég fékk sólsting berhausuð úti í sólinni. Eftir að ég fór að passa mig og setja á mig derhúfu frá ESSO eða öðrum álíka, þegar sólin er sem  sterkust, er öllum mínum sorgum lokið.  Ég get verið sólarmegin í lífinu alla daga.


Er búið að breyta Mogganum?

Vá! Ein biluð - þegar Mogginn birtist á skjánum í morgun hélt ég að eitthvað væri að.   Allt svo ofboðslega  bleikt. Svo "varð ljós" - það er "konudagurinn". Ég hef aldrei verið svona "bleik kona". Ég er  aldeilis ekkert fyrir það gefin að útmála konur bleikar og karla bláa. Það bara er einhvernvegin ekki í mér.

Allt í lagi að klæða lítil börn bleik og blá á meðan ekki er hægt að sjá hvort er strákur eða stelpa. Það getur verið dáldið pínlegt að óska til hamingju með soninn, ef það er svo dóttir. Ef ekkert er gefið í skyn með öðrum hvorum litnum, kannski bara hvanngrænn krakki, verður maður stundum að segja "til hamingju með barnið", en kemur þá auðvitað upp um sig. "Ég átti að vita hvort það var"Blush.

Hins vegar fór ég í bleikan bol út af einhverju kvennahlaupi sem dóttir mín plataði mig í fyrir nokkrum árum, og sá þá að mér fór liturinn svo sem ekki illa, en ég klæðist ekki bleiku af einhverjum hugsjónum. Ég á fáeinar flíkur og fer í þær þegar nauðsyn krefur, eða ef allt annað er í þvottakörfunni.

Varðandi kvenréttindi, þá er ég ekki þjökuð af því að ég sé undirokuð, lítilsvirt eða niðurbrotin svona dags daglega. Auðvitað væri gott að fá meira kaup, en hver vill það ekki. Og ég er ekki viss um að ég fengi neitt meira þó ég væri yfirlýstur femínist, eða sósíalisti, eð bara píanisti. 

Það er líka nóg af kjarnakvenfólki sem lifir fyrir málstaðinn og gangi þeim vel.  


En ég er samt í fríi

Ég veit ekki um alla félaga mína, en ég hef alveg fullt að gera í þessu svonefnda sumarfríi. Vikuna fyrir 17. var ég á hvolfi úti í garði og tókst að ljúka því sem sést frá götunni - sem betur fer hélt ég - þegar ég las í dagskránni að skrúðgangan myndi fara hér hjá garði.  Svo rann upp sá merki dagur, bjartur og fagur.  En þar sem ég fylgdist spennt með göngunni, sem fróðir segja að hafi aldrei verið fjölmennari, sá ég ekki að nokkur kjaftur hefði áhuga á því sem var hér innan lóðamarka.

Ég þóttist vera að fylgjast með sonardætrum mínum,  en horfði auðvitað útundan mér á göngufólkið, til að sjá hver áhrif  þessi dæmalaust snyrtilegi garður hefði á það. En nei takk aðeins tveir eða þrír litu í áttina, afkomendur og náskyldir, til að gá hvort við værum heima og hægt að kíkja inn á eftir. Enginn áhugi fyrir blómum eða trjám, illgresi eða ekki - skiptir ekki máli. Blöðrur og barnavagnar var það sem fólkið hafði hugann við og hefði liklega verið allt í lagi að fara venjulegu leiðina og jafnvel yfir rústirnar í miðbænum, það hefði enginn tekið eftir því.

Ein ferlega sár!  Nei nei - ég er í góðu lagi og bara ánægð með að vera búin með hálfa lóðina. Nú á ég bara eftir að prikkla svona 300 trjáplöntum og umpotta annað eins, en það er á bakvið og ég get verið lengi að því. 

Á laugardag var Mýrardagurinn í sveitinni og tókst ljómandi vel. Við vorum ótrúlega mörg, en þó vantaði nærri helming. Við hreinsuðum mikið af gömlu rusli og svo var sagað og snyrt heilmikið af skóginum. Þar er þó eftir verkefni til margra laugardaga. 

Í dag gerði ég hins vegar það sem þurfti inni og fór í búð og svol. Svo í kvöld fór ég að útbúa léttar veitingar fyrir aðalfund karlakórsins.  Nú fer ég bakvið hús að dunda.


Hvað er svona merkilegt við það - að vera meðhjálpari?

Það hafa margir sinnt þessu starfi í kirkjunni okkar undanfarin ár en ég hef aldrei séð neitt um það í blöðum fyrr. Ekki einu sinni staðarblöðum, hvað þá dagblöðum á landsvísu.       Samt hefur það fólk sinnt sínu starfi af stakri prýði, sumir árum saman.                        En nú, þegar Eyþór Arnalds stígur á stokk, hefur presturinn greinilega haft samband við fjölmiðlaflóruna alla. Er ekki ljótt að gera svona upp á milli manna?


Mótorhjólafólk - hættið þessu væli

Um að allir séu settir undir sama hatt og allir séu vondir við hjólafólk.  Takið á þessu sjálf og rekið skussana úr samtökunum ykkar. Mig grunar að það myndi koma illa við einhverja og koma þeim til að hugsa sinn gang.

Svona var það í stríðinu

það er eins gott að ég er búin að taka til á lóðinni,  alla vega þeim hluta sem snýr að götunni,  Skrúðgangan á að fara um Rauðholtið á þjóðhátíðardaginn. Fyrir mörgum árum gerðist þetta oft og ég man að þá var mikið í húfi hjá okkur að hafa allt sem snyrtilegast. Á síðari árum hefur svo aðallega verið farið um miðbæinn sem nú er í rúst svo ófært er að ganga um. Satt að segja er aðkoman yfir Ölfusárbrú líkust því sem maður ímyndar sér Berlín í seinna stríðinu. Allt í rúst.Shocking

Þegar við komum frá Bretlandi seint á mánudagskvöld voru margir farnir að dotta í rútunni, enda leiðin löng sem farin var þann dag. Sleeping En þegar við komum á brúna blasti við það sem gerst hafði í fjarveru okkar og allir voru glaðvakandi um leið.                    Krónan fallin!   Einstök heppni að við vorum búin að ljúka öllum gjaldeyrisviðskiptum vegna ferðarinnar.Joyful


Ég málaði lifandi kónguló!

Óóóóó mæ god!  Það var ekki viljandi. Ég var sem sagt úti í garði að taka til í morgun (og er enn) og meðal annars sem ég þurfti að gera var að sprauta tvo hluti með silfurspreyi. Annað er mjólkurbrúsinn sem ég sótti mjólkina í upp að Hvammi þegar ég var tíu ára, en hitt er skilvinda, líklega frá ca. 1936, en hana grófu börnin mín up úr gamalli fjárhústóft á sjöunda áratug síðustu aldar.  -- Hugsa sér hvað þessi börn eru orðin gömul -- ekki ég.

Þessi skilvinda er búin til í Finnlandi  og alveg rosalega þung, alla vega 10 - 15 kíló. Þessu drösluðu þau með sér heim einhverja tvo eða þrjá kílómetra og voru þá  um eða  innan við tíu ára gömul. En þarna komu þau með gersemi sem seint verður metin til fjár. Ég geymi hana af því þau búa nú hvort á sínum stað. Ég var að spreyja skilvinduna þegar ég tók eftir kónguló sem kom skríðandi undan blaðinu sem ég hafði undir, og ég var alveg óvart búin að sprauta á hana áður en ég tók eftir. Hún varð alveg rosalega flott og ég hugsaði að ef hún myndi nú deyja þarna fyrir framan mig myndi ég taka hana og búa mér til hálsmen, hún var alveg mátulega stór til þess. En ekki varð það nú. Hún skreið bara í burtu og hvarf í grasið. Get ég nú átt von á því að kóngulóastofninn í lóðinni hjá mér taki stökkbreytingu og verði silfurlitaður? Ekki væri það nú slæmt.


Hvort er betra Liverpool eða Manchester?

Ég er ekki búin að finna út úr því enn. Bæði gott, en þá er ég alls ekki að tala um fótbolta. Leeds greyið dettur strax úr leik. Við erum sem sagt komin heim, en ég er ekki enn orðin almennilega ritfær á íslensku. Nú fer ég út í garð og finn mig kannski þar ofaní moldinni.

Eg er i Leeds

Hae tharna a Islandi! Vid erum i godum malum i skola i Leeds. Allir eru hressir enginn full og enginn veikur. Tolvukennarinn leyfdi mer ad fikta, eg bad hann fallega a utlensku og hann skildi mig alveg. AEdislegar kvedjur til allra ,vonandi rignir a grasid heima, her er bara sol og blida. kv. Helga R.E. i utlondum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 197631

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband