Færsluflokkur: Dægurmál
7.8.2007 | 23:12
Það er ekki alltaf auðvelt að efna fögur fyrirheit
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.8.2007 | 21:52
Það sem þér dettur í hug kona!
Jú rétt er það - mér datt þetta í hug en ætlaði ekki að segja það nokkrum manni og auðvitað geri ég ekki ráð fyrir að ég muni nokkurn tíman framkvæmi það, en manni getur nú dottið í hug án þess að ráða nokkuð við það.
Ég var sem sagt að hugsa hvort við hjónin gætum farið í smá ferðalag án þess að taka með okkur gistibúnað? Svona síðsumars eru flestir bændur búnir að hirða mest allt sitt hey og það var svo æðislegt að sofa í hlöðu. Æli við værum talin skrýtin ef við bönkuðum uppá hjá bændum í Skagafirði og spyrðum hvort við mættum gista í hlöðunni? Við myndum að sjálfsögðu mæta á staðinn í okkar splunkunýja jeppa, svo ekki væri hætta á að við yrðum talin svona gamaldags "flökkulýður". En það er þetta með rúlluvæðinguna, ætli hvergi sé hey hirt eins og í gamla daga? Og aumingja fólkið sem aldrei fær að lifa það "að sofa í hlöðunni".
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.8.2007 | 21:37
Svona var í sveitinni
Eins og margir aðrir fórum við að heiman um helgina. Snemma á laugardagsmorgni skelltum við í lás og héldum til uppsveita. Í Mýrinni höfum við svo búið síðan og haft það ljómandi gott. Þar er ekki rafmagn og þess vegna ekki sjónvarp og engin tölva. Útvarpið er battarís og þess vegna bara hlustað á fréttir - og svo brekkusöng í gær. Þar eru ekki borin út blöð og þess vegna enginn Moggi. En þar er sól og blíða og fuglasöngur og gras svo hátt að maður stendur bara hálfur uppúr í gönguferðinni og trjágróður sem skýlir fyrir vindi. Þar eru góðir ættingjar og vinir frá árunum áður. Þar er umfeðmingsgras sem klifrar upp grenitrén og mjaðurjurt sem ilmar eins og í gamla daga. Þar eru grasmaðkar á trjánum, grænir og gulröndóttir. Þar er þröstur sem kemur til að sníkja brauðmylsnu.
Og svo er þar traktorstorfæra og krakkarnir á Grafarbakka og furðubátakeppni og Útlaginn og allt til alls. Þar er gott að vera.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.8.2007 | 20:32
Hvenær var þín besta verslunarmannahelgi?
Eftir að ég hætti að sofa í tjaldinu í Skriðufellsskógi uppúr 1960 var þessi helgi hjá mér ekki öðruvísi en aðrar í mörg ár. Sem uppsveitastelpa fór ég á böll allar helgar á sumrin bæði laugardaga og sunnudaga. Hljómsveit Óskars Guðmundssonar þjónaði okkur vel á þeim árum. Félagsheimilin allt frá Borg í Grímsnesi að Heimalandi undir Eyjafjöllum skiptu þessari hljómsveit með sér svo aldrei var dautt kvöld. Það voru víst einhverjar aðrar hljómsveitir líka að reyna sig en Óskar var "málið" á þessum tíma og ég var þar.
Svo kom að því að ég fór að búa og eiga börn og þá var sjálfhætt í þessum bransa. Árin í Fossnesti sem urðu 23 í allt vann ég svo allar þessar helgar. Það voru alltaf einhverjar stelpur að vinna með mér sem "bara urðu að fá frí", og mér var alveg sama. Þetta voru líka skemmtilegustu stundirnar í vinnunni, þegar ekki sá út úr gluggunum heilu átta tíma vaktirnar fyrir fólki, og heyrðist ekki mannsins mál fyrir söng og gleðskap. Viðskiptin fóru jafnoft fram á táknmáli.
Svo kom að því að ég gat farið að ferðast og þá fórum við oftast eitthvað austur eða vestur. Það þarf ekki alltaf að vera eitthvað "um að vera", maður getur séð um sig sjálfur. Besta og eftirminnilegasta útilegan um verslunarmannahelgi var þegar við gistum á Rauðasandi í logni og sólskini og horfðum á geimskipið taka á loft frá Snæfellsjökli og hverfa í vesturátt á heiðskírum himninum. Það var sko verulega "kool".
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.8.2007 | 20:02
Er helgin að verða "bara venjuleg" ? Sjitt maður!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.8.2007 | 21:01
Þegar allt var hægt - fyrir næstum ekki neitt
Við fórum í Þjórsárdalinn að minnsta kosti einu sinni eða tvisvar enn og þá tjölduðum við á sama stað og áður, í rjóðrinu innan girðingar í Skriðufellslandi. Það kom að því að strákarnir úr okkar sveit urðu ekki lengur spennandi. Það hlaut að koma að því, við vorum búnar að leika okkur við þá frá því við vorum tíu ára og byrjuðum í skólanum. Við vorum búnar að fermast með þeim og enn lékum við okkur með þeim í boltaleik í lauginni alla miðviku og föstudaga. Það var vonlaust að fara svo að eltast við þá í annarlegum tilgangi um helgar.
Að vísu áttu þeir margir ágæta bíla, sem voru nauðsynlegir á þessum árum, og þeir máttu eiga það að aldrei brást að okkur væri boðið far á böllin um helgar. En það var líka alveg nóg og allir sáttir. Auðvitað hafa þeir verið orðnir hundleiðir á að leika við okkur líka. Við vorum eins og systur þeirra. Það voru stelpur í öðrum sveitum.
Nú var sem sagt komið að því að líta á strákana í Eystri - hreppnum. Vinkonan var mér fremri í þeim efnum. Á balli tvö eða þrjú í Ásaskóla var hún farin að dansa við strákinn sem hún hefur síðan aldrei sleppt. Ég viðurkenni það alveg að mér fannst henni liggja fullmikið á, og ég dansaði við þá nokkra án þess að fá verulegan áhuga á að ílengjast í þessari sveit. En það var oft gaman hjá okkur svo lengi sem ég hafði á henni einhver tök. En það kom að því að ég varð algerlega nr. 2 ef ekki 3 og þá fór ég að leita á önnur mið. Ég fór til Noregs og var þar í ár og þegar ég kom til baka var hún endanlega glötuð, gott ef ekki ólétt og allt. Eftir það fór ég aldrei í útilegu um verslunarmannahelgi.
Á þessum gullárum kostaði helgarskrallið merkilega lítið. Pabbi minn eða hennar keyrðu okkur á staðinn og við höfðum með okkur nesti. Það var engin sjoppa. Tilfallandi strákar keyrðu okkur svo á ballið og við borguðum okkur inn á það. Kannski keyptum við þar svo eina appelsín eða svo og það var allur kostnaðurinn. Einhverjir skiluðu okkur svo í tjald og heim á sunnudegi.
Á þessum árum voru líka íþróttamót árlega á milli hreppanna. Til skiptis í sveitunum. Mótið var haldið í Eystri - hreppnum á túni við Ásaskóla og ég man að við fórum þangað ríðandi. Það var á þessum árum, sem hún var kolfallinn aðdáandi og stuðningsmaður með vilausu liði. Alla vega fannst mér það en fylgdi samt með. Það var alltaf betra að fara á stjá en sitja heima, aldrei að vita hver væri hvar, eða hvað gæti skeð?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.8.2007 | 21:07
Svo var sótt á dýpri mið
Við fórum bara einu sinni í útilegu í Haukholtagili. Næsta ár vorum við 15 ára og fórum víst ekki neitt, en þar næst 16 ára og búnar að vera í Skógaskóla fannst okkur ekki lengur spennandi að fara bara eitthvað til að sofa í tjaldi. Það fréttist að fólk sem vildi sýna sig og sjá aðra færu gjarnan í Þjórsárdalinn um verslunarmannahelgi.
Engan þekktum við þó sem þangað ætlaði, og það var eins og áður, spurningin um heyskapinn og þurrkinn. En síðdegis á laugardegi lagði pabbi af stað með okkur, nú bara tvær og stefnan var tekin á Eystri - hreppinn. Þetta var töluvert ferðalag á þessum árum, vegurinn bara einföld malargata og jeppinn fór ekki í loftköstum. En í Þjórsárdalinn komumst við og fórum þá að líta í kringum okkur eftir tjaldstæði. Eitthvað var af tjöldum við ána fyrir neðan Ásólfsstaði, en ekki hentaði það nógu vel. Þar gat verið eitthvað ókunnugt fólk og jafnvel fyllibyttur frá Selfossi. Við fórum í gegnum hliðið, sennilega landamæri Ásólfsstaða og Skriðufells. Eftir hliðið kom svolítil beygja og þá vorum við komin í hvarf frá öllu og öllum. Þarna í litlu rjóðri komum við okkur svo fyrir og pabbi fór aftur heim.
Ekki fer neinum sögum af því sem við gerðum þarna. Örugglega höfum við fengið okkur að borða og svo bara setið og spjallað. Við kunnum ekki að gera neitt annað í útilegu. Hvernig sem það gerðist þá fundumst við þegar líða tók á kvöldið. Við vorum svo heppnar að það voru strákar úr okkar eigin sveit sem það gerðu. Þeir voru á bíl og buðu okkur nú með á ball í Ásaskóla. Hundaheppni! Ballið var örugglega ágætt og svo var okkur skilað aftur í tjaldið. Strákarnir fóru og við höfðum engar áhyggjur af hvort þeir voru í tjaldi eða fóru heim. En þeir komu aftur daginn eftir og þá fórum við öll í miðdagskaffi hjá henni Dísu á Skriðufelli. Dísa var frúin þar og hún seldi kaffi um svona helgar. Í stofunni sinni dúkaði hún borð og seldi kaffi, krökkum úr Ytri- hreppnum sem létu alveg eins og kjánar. Enda drukku þau ekki kaffi, fengu bara ógerilsneydda mjólk með kleinunum og jólakökunni. Pabbi slapp víst við að sækja okkur, strákarnir sáu um að koma okkur heim. Getur verið að pabbi hafi alltaf uppljóstrað hvar við værum, svo hann þyrfti ekki að tefja sig á að ná í okkur? Á mánudegi var skorið kál og gulrótum pakkað í ómældu magni eins og alla aðra mánudaga í ágúst. Við vorum ekki verslunarmenn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.8.2007 | 18:53
"ÉG og fjármálaráðherra"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.7.2007 | 22:35
Verslunarmannahelgin fyrir óralöngu síðan
Frídagur verslunarmanna hefur verið til svo lengi sem ég man og á fyrstu árunum fengu verslunarmenn jafnvel frí á þeim degi. Þarna fyrir óralöngu, þegar ég man fyrst, var líka farið í ferðir og útilegur um þessa helgi. Þá méttu allir fara í útilegu, jafnvel þó þeir væru ekki orðnir þrítugir. Þjóðhátíð hefur trúlega verið haldin í Vestmannaeyjum en það kom okkur sveitamönnum ekkert við. Það hefði aldrei komið til mála að fara að flækjast þangað.
Þessi helgi fór oftast eftir veðri hjá mér og vinkonunni sem ég var mest með á þessum tíma. Ekki af því eitt veður væri öðrum hagstæðara til útilegu heldur vegna þess að ef það var þurrkur var bara allt á fullu í heyskap og engin leið að fá frí, þó maður væri 15 ára og ALLIR væru farnir í útilegu. Heima hjá mér var að vísu ekki hey, en á mánudeginum varð ég að vera heima af því þá var "sendingardagur" og við rifum upp kál og gulrætur í tonnavís til að hlaða á bílinn hjá Mumma á mánudagskvöldi. Hann lagði af stað í bæinn kl. 7.00 næsta dag.
Þegar við fyrst fengum að fara í útilegu vorum við nýlega fermdar og fjórtán ára. Pabbi fór með okkur á jeppanum sínum upp í Haukholtagil síðdegis á laugardegi. Þar skildi hann okkur eftir. Við vorum fjórar saman og það hefur staðið vel á í heyskapnum af því veðrið var með ólíkindum gott, sólskin og hiti. Ég átti víst enga almennilega útileguskó, enda hefði það verið algert óráð, útilega eða annað álíka var í mesta lagi einu sinni á ári. Ég var þess vegna í stígvélunum mínum sem ég notaði í kálgarðinum hina dagana. Svo var ég í "rokkbuxum" svörtum og útprjónaðri peysu sem frændfólk mitt á Sauðárkróki hafði sent mér í fermingargjöf.
Við komum upp tjaldi og sváfum þarna um nóttina. Engir aðrir voru nærri og ekki sást til okkar frá Haukholtum. Við lágum svo þarna í sólinni fram eftir degi á sunnudeginum og ég man að hitinn var nærri óbærilegur, enda klæðnaðurinn ekki í samræmi við veðrið. Svo undarlega vildi til að Hólabræður, sem voru á þessum tíma mestir allra gæja í sveitinni fundu okkur þarna eftir hádegið. Þeir voru á frambyggðum vörubíl, bara pláss fyrir tvo eða þrjá í húsinu. Þeir voru svo almennilegir að hjálpa okkur að taka niður tjaldið og buðust svo til að flytja okkur heim - á pallinum. Tvær okkar voru eitthvað eldri, líklega orðnar "skvísur", og nutum við fermingarstúlkurnar þess. En við vorum alveg jafn ánægðar fyrir það. Helginn var algerlega bjargað, við vorum keyrðar heim á hlað og það voru aldeilis engir hallærisdelar sem það gerðu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.7.2007 | 20:58
Svona var hún þá rigningin
Ég var satt að segja búin að gleyma því hvernig rigningardagar eru. Rigning heilan dag og ég held bara að síðasta nótt hafi verið verulega blaut líka.
En þessi dagur fór þannig fram hjá mér að ég gerði hreint ekki neitt. Kannski bara allt í lagi, náttúran sá um það sem ég hefði líklega gert að óbreyttu, hún vökvaði garðinn og alla pottana í flaginu líka. En ég er viss um að það fylgir þessari rigningu verulega djúp lægð.Eða rigningin lægðinni Ég hef reyndar ekki hlustað grannt á veðurspár, en ég hef verið innan við 600 millibör í allan dag. Svaf fyrst til tíu, en fór þó á fætur. Eftir hádegið sat ég svo og prjónaði og stúlka sem talaði með sænskum hreim suðaði eitthvað í útvarpinu.
Og hvað haldiði - ég sofnaði sitjandi og prjónandi undir þessu sænska suði. Ég segi ekki meir - svona hefur ekki gerst síðan í febrúarbyrjun þegar lægðin djúpa sem rústaði skúrnum á ströndinni var að nálgast. Kannski alveg 400 mb.
Ef ekki styttir upp síðdegis á morgun verð ég örugglega farin að biðja um sólskin - "Æ - það ætlar aldrei að stytta upp". Svona bara er maður, kann ekki gott að meta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar