Færsluflokkur: Dægurmál
22.8.2007 | 21:50
Eins og hendi væri veifað fylltist allt af krökkum
21.8.2007 | 21:43
Allt á floti á vellinum
Ég var að lesa "fagnaðarerindi" um rigninguna og sá að það er ekki bara gróðurinn sem nýtur þess að blotna. Íþróttir í bullandi bleytu, það er gaman. Fyrir þrjátíu og eitthvað árum varð til hópur ungra húsmæðra ( og barnsmæðra) á Selfossi, sem byrjaði að æfa handbolta.
Við fundum ungan íþróttakennara og knattspyrnuþjálfara og gerðum samning við hann um tvær æfingar á viku. En við höfðum ekkert húsnæði. Það var reyndar ekkert nauðsynlegt að æfa handbolta í húsi á þeim árum, ekki nema í mestu harðindum á vetrum.
Þetta fór af stað á miðju sumri og við æfðum á íþróttavellinum. Ég man ekki hvort við fengum eitthvert leyfi til þess, það var aldrei neinn á vellinum. Kannski spurðum við samt einhvern. En það sem ég man best og var mest gaman var hvað rigndi mikið á Selfossi þetta síðsumar. Völlurinn var oftast rennandi blautur og stundum einn alsherjar pollur. Þá gerðum við upphitunaræfingar liggjandi og sitjandi í pollinum. Þegar fór að kólna fengum við inni í salnum í Sandvíkurskóla, sem hét nú þá bara Barnaskólinn.
Við fórum alla vega einu sinni á landsleik í Laugardalshöllinni, með rútu frá Jóni og Snorra. Gunni Skúla var líka með og sjálfsagt fullt af öðrum strákum. Mennirnir okkar pössuðu börnin á meðan.
Við æfðum samviskusamlega allan veturinn og vorum svo fengnar til að keppa í tveimur liðum úti á velli á 17. júni. Við vorum orðnar skuggalega góðar. Svo góðar að Ungmennafélagið vildi eigna sér okkur og senda í keppnisferðir handan yfir heiðina. En við áttum allar fullt af litlum börnum og illa heimangengt. Það endaði með að við urðum að hætta til að fá frið. Ég veit ekki um annað íþróttalið sem hefur orðið svo gott að það varð að leggja upp laupana. Við hétum heldur aldrei neitt, vorum bara svona tuttugu stelpur að leika okkur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.8.2007 | 21:47
"Ertu-ygla"
Það er aldeilis flott nafnið sem grasmaðkarnir eru búnir að fá núna. Ég hef dundað við að hrista þessi kvikindi af trjánum í Mýrinni undanfarnar vikur, en annars hef ég ekki rekist á þá í fimmtíu ár. Fyrir svona löngu síðan var árvisst viðfangsefni okkar systkina að safna grasmöðkum - bara til gamans - þeir voru fallegir á litinn og rúlluðu sig svo flott upp þegar maður handlék þá.
Svo núna í sumar birtast þeir allt í einu og fara að éta trén mín í Mýrinni. Mér fannst vanta í fréttina í sjónvarpinu í kvöld, frekari umfjöllun og lýsingu á hegðun þessarra kvikinda. Nú heldur fólk sjálfsagt að þeir komi fljúgandi og setjist að í görðum, en það gera þeir ekki. Þeir eru fyrst og fremst í grasi og þar sem trjágróður er í miklu grasi, eins og t.d. víðirinn minn, skríða þeir upp á greinar og blöð til að fá sér að éta. Í veðráttu eins og nú er held ég að þeir séu að leita eftir safaríkari fæðu og fari þess vegna svona mikið upp úr grasinum.
Ekki hef ég hugmynd um hvað verður úr þeim á endanum, maður gæti haldið einhverskonar fiðrildi, en ég er bara ekki nógu fróð í ormafræðum. Ég tíndi nokkra um daginn og gaf tengdasyninum fyrir beitu, en ég held hann hafi ekkert veitt. Það þarf samt ekki að vera ormunum að kenna, kannski var bara enginn fiskur.
Ég lánaði líka litlum börum ílát og hvatti þau til að safna grasmöðkum. Það er ágæt dægradvöl í sveitinni þar sem stundum þarf að finna eitthvað nýtt að gera. En þetta er hvimleiður fjandi, þeir éta toppana af sumum tegundum, mest að alaskavíði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.8.2007 | 20:28
Fjórar rollur og tveir hestar
Eins og áður sagði var ég í dag á faralds fæti í Flóanum. Það er alveg merkilegt hvað margt er í kringum okkur sem fáir vita um. Þessi gönguleið er frábær og það eru til fleiri slíkar, alveg á næstu grösum.
Veðrið í dag var eins og best gat verið, logn og léttskýjað, en ekki stöðugt sólskin. Það var eitt sem við tókum sérstaklega eftir. Kyrrðin, þögnin, Það var ekkert um að vera. Við vorum á beitilandi í miðri sveit og sáum til bæja, túnin voru slegin og hirt, en aðeins á einum stað sáum við eitthvert líf. Það var verið að keyra heim rúllur, líklega að Dalsmynni.
Sennilega var það líka í landareign Dalsmynnis eða Hurðabaks sem við sáum rollurnar. Eina tvílembu og aðra lamblausa. Og þegar við vorum að koma á leiðarenda við Orrustudal heyrðum við hneggjað á eftir okkur og sáum þar hest koma skokkandi allfjarri. Hann nálgaðist fljótt og við biðum. Brúnn, tvístjörnóttur og hann fékk stroku á snoppuna. Annar fylgdi svo á eftir brúnskjóttur, svona alvöru indíánaskjóttur. Hann var ekki eins kumpánlegur. Hljóp framhjá í stórum sveig. Þetta var nú allt lífið sem við sáum á þriggja tíma göngu um úhaga Flóans.
Einn steindepil sáum við vestan við Þingdal og svo líka lóu á þúfu. Annars heyrðum við ekki í fuglum. Hvar eru allir mófuglarnir? Er tófufjandinn búin að éta þá? Ég veit að hún er komin niður í sveitirnar, en að allir fuglar séu þar með horfnir er ótrúlegt.
Við fórum svo hjá bæjum eftir að við komum á veginn, en hvergi var fólk að sjá. Eina gröfu og vörubíl sáum við hjá gryfjum, þar hljóta að hafa verið menn í, en hvergi svona alvöru sveitafólk við útiverk eða krakkar að leika sér. Hvergi beljur á túni. Er þetta eðlilegt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.8.2007 | 17:54
Ég gekk Ásaveginn í dag

Frábær ferð. Sex kílómetrar og sagt að tæki tvo tíma. Við Elísabet(Mýrarljós) vorum þrjá tíma, hefðum alveg með góðu móti komist á einum og hálfum, en við vorum með nesti sem þurfti að borða og svo var ekki auðvelt að ganga bara framhjá öllum berjunum. Bláber í haugum á lynginu sem var í mátulegtri hæð við götutroðningana. maður þurfti ekkert að beygja sig. Þetta er frábær leið, auðveld og skemmtilegt útsýni til allara sveita á Suðurlandi. Þó fannst okkur lítið sjást af Tungunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.8.2007 | 21:36
Vinnukona í Reykjavík
Það er ekki svo galið að fara öðru hvoru í allt önnur spor en venjulegast er. Ég var framan af vikunni heimavinnandi barnfóstra í höfuðstaðnum. Þar hef ég ekki haft aðsetur síðan veturinn sem ég stundaði nám í Húsmæðraskólanum við Sólvallagötu - það er langt síðan. Ég var í þetta sinn búsett í rótgrónu hverfi, sem ég reyndar gisti stundum þegar ég var ákaflega ung, sennilega um það bil 10 ára.
Þarna hefur lítið breytst síðan, ég fann meira að segja húsið sem ég var í þá og trén eru flest þau sömu, eldgömul og virðuleg. Ég fann inní mér hvernig var á kvöldin í myrkrinu þegar við máttum vera úti svolítið frameftir.
Ég fór í búðina, sem var nú líklega ekki til í gamla daga, ég myndi örugglega eftir henni. Lítil búð kaupmannsins á horninu, heitir núna einhverskonar "Kjör", en hefur örugglega átt mörg nöfn áður. Þarna sat afgreiðslukonan fyrir innan búðarborðið, alein í peysu frá Póstinum, Ég fékk hálfgert samviskubit þegar ég keypti alla fjóra bananana sem voru til, flatkökurnar voru frá H.P. á Selfossi og ofaná frystinum var miði þar sem stóð að mætti taka þar ókeypis brauð handa tilfallandi öndum eða öðrum fuglum.
Konan kvaddi þegar við fórum út og það gerðum við auðvitað líka. Svona búðir eru nauðsyn í öllum hverfum, þó lítið og fátt sé að finna í hillunum bæta samskipti nágranna og afgreiðslufólks það margfalt upp.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2007 | 19:27
Ég vil láta rassskella og reka
ruglaða kalla og kellingar sem fara eins og fáráðlingar með fjármuni ríkisins. Ég er ríkið ásamt öllu hinu fólkinu sem vinnur fyrir þessum peningum baki brotnu árið um kring.
Við erum ekki að þessu puði til að búa til spilapeninga fyrir svona jólasveina, sem "bera svo enga ábyrgð" þegar allt er farið til fjandans. Við viljum láta nota það sem af okkur er haft til skynsamlegra verka en ekki til að láta svona dela moka þeim út, oft og iðulega til þess að hygla vinum vandamönnum, eða jafnvel sjálfum sér. Ef þeir skammta alltaf of lítið til þess sem þarf, þá kunna þeir bara ekki vinnuna sína.
Til að þessir slúbbertar hugsi sinn gang er nauðsynlegt að gera þær breytingar sem þarf til að hægt sé að reka þá fyrir ítrekuð afglöp í störfum. Nú liggur við að þeir gætu framið morð án þess að við þeim verði hróflað, svona bara gengur ekki nema þá kannski í einræðisríkjunum sem kennd eru við bananaræktun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.8.2007 | 22:27
Barnabörnin í heimsókn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.8.2007 | 12:49
Ég má fá en ekki hinir
Mér finnst það meinbægni hjá þeim í Þorlákshöfn að vilja ekki leyfa Landeyingum að fá höfn. Auðvitað á að stækka höfnina í Þorlákshöfn, en Bakkafjöruhöfn má bara verða til líka. Það er kominn tími til að Fjallamenn og Landeyingar geti róið til fiskjar án þess að leggja sig í stórhættu. Þeir fórust ekki svo fáir þarna á árum áður. Það eru heldur ekki mörg ár síðan strákar úr Vestmannaeyjum fóru í konuleit undir fjöllin á tuðrum. Þeim varð ekkert of vel ágengt, stelpurnar voru skíthræddar við þennan ferðamáta.
Bakkafjöruhöfn höfn gæti stuðlað að kynbótum í eyjum, sem væri bara gott.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.8.2007 | 19:31
"Áhættufælinn fjárfestir"?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar