Færsluflokkur: Dægurmál
7.9.2007 | 23:14
Er löggan ekki að standa sig?
Undanfarna daga hef ég hugsað til löggunnar, kannski meira en góðu hófi gegnir. Lögreglumenn eru margir fjallmyndarlegir, en ekki þó svo að maður hugsi til þeirra oft á dag.
Ég held að skömmu fyrir skólabyrjun hafi ég lesið eða heyrt að fyrstu vikur skólaársins myndu lögreglumenn verða á ferðinni nærri skólunum, til þess að gæta þess að allt fari nú fram samkvæmt lögum og reglum. Nú hefur skólinn starfað nærri þrjár vikur og ég hef séð eina löggu. Það var reyndar inni í skólanum, ég veit ekki hvert erindið var.
En úti á götunum sem liggja næst skólanum okkar og svo nærliggjandi plönum geysar akstursíþróttakeppni af verstu sort, algerlega án afskipta laganna varða. Um hábjartan daginn, þegar skólinn er fullur af krökkum fer þarna fram spyrnukeppni og sýningar, þar er reykspólað með viðeigandi hljóðum og brunalykt og reykjarmökkinn leggur yfir skólalóðina. Hraðakstur er bara sjálfsagður bónus á milli atriða. Allt er þetta auðvitað miklu betur gert og áhrifameira vegna þess fjölda áhorfenda sem er í gluggum eða lóð skólans. Skiptir ekki máli þó áhorfendur séu að meiri hluta undir tólf ára aldri, ökuþórarnir eru líklega að einhverju leiti enn á svipuðu þroskastigi.
Allt fer þetta fram án þess að nokkur geri athugasemd, helst kannski að mömmur og pabbar kveinki sér, þau verða að standa straum af dekkjabræðslunni.
Fyrir utan þetta er svo spólið og fretið um nætur. Um allan bæ er þetta stundað, að því er virðist óátalið, ekki bara stutt og lítið, heldur tímunum saman.
Ég bara get ekki orða bundist: Hvað í ósköpunum er löggan á Selfossi að gera alla daga og nætur? Það er ekki nóg að rjúka til og hirða nokkra gæja og skamma þá, hviss, bang, búmm - búið! Það verður að vera á stöðugri vakt, vera á ferðinni, láta sjá sig, svo allir viti að það er starfandi lögregla í bænum.
Eitt enn sem ég hef reyndar hugsað lengi. Stundum er talað um að virðing fyrir lögreglunni fari minnkandi. Ég er alveg viss um að það varð fyrst áberandi eftir að fötunum þeirra var breytt. Mér finnst bara ekkert virðulegt við húfupottlokin sem þeir bera núna, og reyndar, allur klæðnaðurinn gæti eins verið á - bara enhverjum - kalli sem les af fyrir hitaveituna, eða áhrifalausum eftirlitsmanni frá heilbrigðiseftirlitinu. Þetta finnst mér alla vega.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.9.2007 | 21:04
Ég ætla að "bera beinin"
Að tala um að einn eða annar "beri beinin" hér eða þar, hvað skyldi það þýða? Í allan dag er ég búin að reyna að bera bein, en ekkert orðið ágengt. Reyndar voru það ekki bara einhver örfá bein sem ég hafði áhuga á, heldur heil beinagrind. Beinagrind sem við eigum í skólanum, að vísu úr plasti en alveg rétt sköpuð að öðru leyti. Hún hefur í vor eða sumar farið á flakk, sem ég hélt nú að svona "grindur"gerðu ekki hjálparlaust.
Í einhverjum afkima skólans er nú þetta grey, með skinin beinin, krepptar kjúkur og hvíta leggi. Ég verð að finna hana á morgun, annars hugsa ég til hennar alla helgina.
6.9.2007 | 20:48
Eins og ég gerði fyrir fjörutíu árum
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.9.2007 | 18:25
Þegar ég hangi í trjánum á haustin
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.9.2007 | 20:37
Fólkið sem ég hef "týnt"
Stundum dettur mér í hug hvað það væri skemmtilegt að finna einhvern aftur í gegnum bloggið. Ég hef kynnst alveg ótrúlega mörgu fólki og þess vegna líka tapað mörgum eitthvað útí buskann. Ekki séð eða heyrt í mörg ár. Mikið væri gaman ef ég sæi einn daginn nýjan bloggara á skjánum og það væri einmitt einn þeirra sem mig langar til að vita hvar er núna. Hvert fóruð þið öll, og hvað eruð þið að gera núna?
Ekki væri verra að fá komment frá gömlu vinunum og félögum. En kannski er þetta allt svo löngu liðið og fólkið orðið svo gamalt að það eignaðist aldrei tölvu. Samt getur það ekki verið, ég hef alltaf frekar leitað í félagsskap mér yngra fólks. greinilegt merki um seinan þroska.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.8.2007 | 20:57
Minningar úr Mosfellssveit
Nú er dottið á með dramatískar minningar úr Mosfellssveitinni. Frændi minn og bloggvinur Sigurður Hreiðar, man allt aftur til stríðsára og segir framhaldssögu af því.
Ég fæddist í stríðslok, að vísu í sama húsi og hann, gamla íbúðarhúsinu á Engi, en man þaðan lítið eða ekki neitt. Minar minningar eru frá Hulduhólum og svo gæti ég líka munað eitthvað smáræði frá vetrinum sem ég vann í Skálatúni. Þá fór ég á rúntinn með gæjum úr sveitinni og gekk á böllin í Þórskaffi eftir endilöngum hitaveitustokknum.
En þá var Siggi Hreiðar ekki í Hlíðartúni. Líklega var hann í Borgarfirðinum á þeim tíma. En hann kom þaðan aftur, það koma alltaf allir aftur. Bestu minningarnar frá Hulduhólum snúast um skepnurnar hans afa. Tíkina Tátu og svo hænurnar. Dögum saman sat ég á haugnum í miðri hænsnastíunni og fylgdist með pútunum. Aðalmálið var að sitja svo kyrr að þær kæmu alveg til mín og héldu að ég væri bara hluti af haugnum. Ég man að stundum var talað um "Helgu á haugi". Fyrir neðan túnið á Hulduhólum voru líka stríðsminjar. Byrgi grafin inn í brekkuna og hlaðin með sandpokum. Þarna lékum við okkur mikið . Svo fórum við í fjöruferðir sem tóku langan tíma - fannst okkur þá. Svo langan að við þurftum nesti, sem við auðvitað lukum við um leið og við vorum komin í hvarf frá bænum. En ég kann greinilega ekki að koma myndinni fyrir á réttum stað. Þetta verður að duga.
28.8.2007 | 21:53
Kæru "bræður og systur"
Hvað er að fólki sem bregst við nýjum bróður með ónotum og forpokuðum hugsunarhætti. Ég hélt þetta væru vel ættaðar og sæmilega greindar manneskjur.
Á síðustu árum eru ættarmót haldin í flestum fjölskyldum. Hvert sumar er skipulagt með þetta í huga og stundum þarf maður að mæta á fleiri en eitt, eða jafnvel tvö á sama tíma. Ég held að oftar en ekki komi nýtt "barn" á þessar samkomur. Synir eða dætur einhvers ættingjans sem ekki hefur verið vitað um fram að því. Síðast kom kona sem var bróðurdóttir pabba. Örstutt var þá síðan systkini hennar fréttu af tilvist hennar, en þau tóku henni auðvitað vel. Og líka dætrum hennar og barnabörnum. Fjölskyldan stækkaði um nærri tíu manns þennan dag. Öllum ættingjunum fannst þetta frábær viðbót.
Þessi fornaldarviðhorf eiga ekki að þekkjast á okkar tíma. Þetta eru leifar frá því fyrir hundrað og áttatíu árum þegar flestir fyrirmenn héldu við vinnukonur og hlóðu niður börnum, sem þeir síðan skrifuðu á vinnumenn eða fáráðlinga. Þá var ekkert DNA til.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.8.2007 | 21:41
Víst er þetta indælt líf
Í morgun fórum við í fyrsta sundtímann þetta haustið. Það er allt komið af stað, valið byrjaði í dag og sumir áttu í erfiðleikum með að finna út hvert ætti að fara og hvenær. Í fyrsta sinn sem hópurinn tvístrast og hver verður að bjarga sér. Vill til að þau eru oftast fleiri en eitt úr bekknum í hverri grein og geta hjálpast að.
Nú eru stelpur og strákar saman í sundi. Síðustu ár hefur okkur verið skipt í stelpur og stráka. Stelpurnar voru sumar búnar að kvíða því skelfilega að hafa þetta svona, en þegar á hólminn var komið held ég að allir hafi verið sáttir. Að vísu er nokkuð þröngt um okkur. Tuttugu og tvö að synda á þremur brautum í útilauginni er nokkuð mikið, en sleppur með skipulagningu. Það er aftur á móti verra í klefunum, við erum þar með pínulitlum krílum úr Sunnulæk og verðum að flýta okkur til að vera aðeins á undan eða þá að ganga einstaklega varlega um klefann.
Að vera komin í níunda bekk er ekkert smáræði. Sumarið eftir ferminguna gerist svo mikið hjá unglingunum. Nú eru þau fyrst orðin Unglingar með stórum staf. Strákarnir sem voru langminnstir í vor og máttu var sig á að stíga ekki í faldinn á femingarkyrtlunum, jafnvel þó þeir væru í allra minnsta númeri. Sumir þessara stráka hafa síðan vaxið eins og arfi í rigningartíð, líka á þessu þurra sumri. Fermigarfötin eru orðin allt of lítil. Stelpurnar eru orðnar nærri fullorðnar og jafn sætar og þær voru á fermingardaginn. Svo halda þær bara áfram að verða flottari með hverjum mánuði sem líður. Þetta er indælt líf.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.8.2007 | 20:23
Það verður stundum svo mikið úr litlu
Þessi helgi var svona "ekki að gera neitt sérstakt" helgi. Ég byrjaði á því síðdegis á föstudag að fara í búð til að kaupa það sem þurfti. "Að versla inn", eins og konan sagði þegar hún var að segja frétt af skólavörukaupum barnanna.
Ég keypti nú ekki skólavörur, heldur bara svona mjólk og brauð og þ.h. Endaði reyndar á að ná mér í litla trjáplöntu á hálfvirði í Blómaval (i). Kannski var ég að bjarga lífi hríslunnar, sem heitir fullu nafni Fjallaþinur, mér hefur sýnst að plöntur sem ekki seljast þarna verði oft á endanum ruslapokanum að bráð.
Jæja áfram svo. Dýrleif Nanna kom og fékk að gista á aðfaranótt laugardags. Foreldrarnir fóru á Árborgarslútt. Nóttin gekk bara vel, gesturinn vaknaði að vísu einu sinni, en sofnaði svo bara aftur eftir dálitla stund af spjalli og flissi við sjálfa sig. Á meðan lá amman í sófanum við hliðina á henni og þóttist sofa. Það virkaði.
Á laugardagsmorgni þvoði ég smá þvott og svo var "hádegi í fyrra lagi" og eftir það brunuðum við í "Mosó". Júlía kom með okkur af því foreldrar hennar fóru í brúðkaup, hin systkinin bjuggu sjálfsþurftarbúskap heima. Börnum er aldrei boðið í brúðkaup, sama þó þau séu orðin stór.
Í íþróttahúsi Varmárskóla var sýning á öllu mögulegu í tilefni 20 ára afmælis sveitarfélagsins, eða bæjarins eins og Mosfellssveitin heitir núna. Þetta er held ég líka árleg sumarhátíð haldin þarna á túnunum heima hjá sveitungunum. Ég fæddist í þessari sveit og er þar nokkuð kunnug. Siggi Hreiðar frændi minn átti þarna í einum básnum myndir úr sveitinni. Þessi bás var annars í nafni eldri borgara og fannst mér svolítið skrýtið að hann væri að blanda sér í þeirra starf. Hann er nú bara sex árum eldri en ég. Nokkrar myndanna voru númeraðar og getraun um hvaðan þær væru, eða af hverju. Ég reyndi að svara, lagði í það alla mína samvisku og fræðin sem sitja í mér frá árunum sem ég var hér fastur gestur hvert haust. Meira að segja eftir byrjun skólagöngu fengum við að vera hjá afa og ömmu á Hulduhólum, alveg í hálfan mánuð. Skólinn byrjaði aldrei fyrr en öllum haustverkum og nauðsynlegum heimsóknum var lokið.Næst fórum við í heimsókn á Hraunteiginn og þar vildi svo vel til að foreldrarnir þurftu að fara með eldri dótturina til að kaupa búninginn fyrir ballettinn. Við pössuðum Unu á meðan.
Svo héldum við til baka í "sveitina" . Ég tók af snúrunni og eldaði fiskisúpu. Tíndi svo sólber og rifs fyrir myrkur. Ívar kom eftir kvöldmatinn, Helga þurfti að bregða sér af bæ. Svo komu foreldrarnir og tóku Júlíu með sér heim, en Ívar varð eftir og kom svo með okkur á flugeldasýningu í Hveragerði. Glæsilegasta sýning af því tagi sem ég hef séð á Suðurlandi er alltaf sú sem þar er haldin. Hvort hún slær við þeirri sem ég hef sé í Boston 4. júlí get ég ekki sagt, þær eru ólíkar. En Hvegerðingar kunna að halda svona sýningu. Svo skiluðum við Ívari.
Í morgun byrjaði ég á að sjóða berin og búa til rifs og sólberjahlaup. Ég er búin að koma mér upp ákveðnum hóp "neytenda" á þessu sviði og þarf að eiga slatta.
Svo fór ég aftur í Hveragerði og nú til Hreins og Ingibjargar til að kaupa tré. Hreinn valdi með mér sex plöntur sjaldgæfar og flottar, sem verður gaman að reyna í Mýrinni. Tvær voru reyndar svo stórar að ég rétt komst hjá því að brjóta framrúðuna svo hægt væri að koma þeim fyrir. Þær lágu frá skottloki allt að þurrkum og aðeins snúið uppá toppana. Ég sauð sultupott nr. tvö eftir hádegið. Og þvoði tvær vélar fyrir Guðbjörgu, hennar vél gafst upp af að þvo táfýlusokka fyrir Kf. Árborg. Þau fóru í sveitina, í berjamó og ætla svo að grilla í Leynigarði áður en þau koma heim. Ég leit aðeins til nágrannanna. Og tók til í búrinu. Haddi og Ellý komu við um kaffileytið. Þau voru í Mýrinni um helgina og fengu "leigt" í hjólhýsinu í Gamla - Garði. Þau voru að leggja gólf í húsið sitt í Miðgarði. Svo fórum við einn rúnt. Ég þurfti að taka tvær myndir fyrir ferðasögu og svo fórum við að kaupa rúðupiss í Júróprís. Þar er nefnilega ódýrasta rúðupissið. Við fórum til að líta á vegagerð í Sadvík, þar er nú búið að leggja Strokkhólsveg.
Ég held ég sé vitlaus, er hægt að birta svona mikið í einu? Alla vega les enginn nema hálfa leið. Og kvöldið er allt eftir. Over and át.
24.8.2007 | 21:22
Hætta á alvarlegri limlestingu
Limlesting - skrýtið orð, ég held ég hafi aldrei skrifað það fyrr, en vona að sé rétt prentað. Já það er ekki frá því að ég sé svolítið hrædd um líf og limi þessa dagana.
Eins og ég hef marga kennara í vetur þarf ég að fara í margar stofur. Níundi bekkur situr ekki aldeilis bara á rassinum og bíður eftir að kennarinn birtist. Nei, við förum til þeirra, alltaf í nýja og nýja stofu. Flestar stofur eru alveg ágætar, og allar svo snyrtilegar sem kostur er svona í vetrarbyrjun. En það er svolítið misjafn hiti og ekki alltaf hægt að draga fyrir glugga, sem er svolítið slæmt þegar sumarið er enn allsráðandi og sólin skín hátt á himni.
Eiginlega er það bara í einni stofu sem ég er verulega óróleg. Þar snúa gluggarnir út að lokuðum garði, svo enginn trekkur kemur um opna gluggana. Gardínurnar eru ekki komnar úr hreinsun og þess vegna skín sólin beint inn. Það er svækjuhiti þó allir ofnar séu kaldir.
Til að bjarga þessu er vifta í loftinu. Stór og kraftmikil vifta sem skapar ofsarok í stofunni sé hún stillt á einhverja ferð. Dálítið óþægilegt að hemja vinnubækur og laus blöð, en þá er bara notast við þykkar harðspjaldabækur í þessari stofu. Mér finnst það allt í lagi, en hef áhyggjur af viftunni sjálfri.
Ég hef nefnilega verið á vinnustað með svona tæki áður og beinlínis horfði á þegar spaðarnir losnuðu af á ferð og lentu í vegg. Þar varð enginn maður fyrir, enda eins gott, það kom heljar gat í vegginn. En þetta gæti alveg komið fyrir mig í skólastofunni. Viftan gæti slitnað af á fullri ferð og fleygst út í horn, eða vegg. Þess vegna valdi ég mér og mínum nánustu sæti eftir aðstæðum í þessari stofu. Við sitjum beint undir viftunni, hún dettur aldrei beint niður. Kennarinn er hins vegar úti í horni, og það finns mér slæmt, þetta er ágætur kennari.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar