Færsluflokkur: Dægurmál
20.9.2007 | 21:08
Eins gott að veðrið er bærilegt
Það var allt að gerast í skólanum í dag. Kannski vegna þess að helgin lengist um einn dag, kennaraþing á morgun. Krakkarnir þurfa ekki að mæta og það verður lítið um kennara í skólanum. En við verðum þar. Við erum alltaf þar, það má treysta því.
Í morgun var enhvernvegin allt á öðrum endanum, samt gerðist ekkert sérstakt, bara ótrúlegt rok í krökkunum. Reyndar var einn strákur fluttur í burt á sjúkrabíl, það gerðist nú líka í gær, en þá var það stelpa. En hvorugt var alvarlegt, sem betur fer. Yfirleitt líða margir mánuðir, eða jafnvel allur veturinn án þess að við sjáum svona bíla á skólalóðinni.
Þegar flestir voru farnir í dag og allt orðið hljótt, brast á með hávaða inni í kennarastofu - hó - og - æ - og - puff, með miklu stappi í gólf, og slátt í flest sem fyrir varð - heyrðist mér. Ég fór í humáttina til að kanna málið, mætti þá konunni sem hafði verið að ganga frá þar inni, ennþá puffandi og berjandi í kringum sig.
Það stakk hana geitungsfjandi. Rauður blettur á upphandlegg sýndi hvar kvikindið hafði borað rananum. Vá! ef hann hefði nú hitt á slagæðina, þetta var furðu djúp stunga. Hvað á að gera í svona tilfellum? Hringja strax á sjúkrabíl? Þann þriðja á tveimur dögum. Okkur fannst það nú heldur óhemjuleg viðbrögð, ættum við ekki að bíða aðeins og sjá hvort handleggurinn yrði sívalur, eða blár. Töldum þó tryggast að hún hringdi á heilsugæsluna og spyrði ráða. Þar var henni sagt að á meðan hún yrði ekki andstutt ætti þetta að vera í lagi, sennilega hefur hún byrjað á að anda í símann og ekki hraðar en þótti hæfa. Kælipoki eða kælikrem gæti verið gott. Hún fór að þessum ráðum og ég fór svo heim. Skildi hana reyndar eftir eina. Auðvitað hefði ég átt að bíða aðeins og fylgjast með andardrættinum. Svona er maður nú kærulaus. Ég hef ekki heyrt í sírenu hér í austurbænum síðdegis, svo hún er örugglega í góðu lagi.
Í kvöld fór ég svo ásamt öðrum tveim og útbjó hressingu af ostum, ávöxtum og grænmeti fyrir karlakórinn. Þeir halda nú sitt kynningarkvöld fyrir áhugasama og/eða nýja félga. Þegar ég fór heim voru alla vega komnir fjórir eða fimm nýliðar.
Nú er indælt haustveður úti, engin rigning, ekki rok og bara mátulega hlýtt, eða kalt.
18.9.2007 | 21:07
Hvar voru börnin "geymd" í gamla daga?
Það var ekki löngu eftir að ég flutti hingað á Selfoss og byrjaði að búa, sem ljóst varð að ekki myndu duga eins manns laun til að sjá fyrir fjölskyldunni, þó ekki væri stór, og standa um leið straum af húsbyggingu í austurbænum. Húsbyggjendur í austurbænum bjuggu þó á þeim tíma við þau forréttindi að eiga nágranna á næstu lóð sem líka var að byggja. Þarna í holtunum hjálpuðust menn að og hlupu hver undir annars bagga eftir því sem kostur var. En peningar voru auðvitað nauðsynlegir og fóru svo margir í framkvæmdina að húsmæður urðu að leggja sitt að mörkum.
Fyrst með því að vinna um sumartímann, þá var hægt að fá barnapíur og þær margar góðar. Fjöldinn allur af framtíðarhúsmæðrum staðarins æfði sig á sumrum við barnagæslu, þvotta og bakstur. Það var verra með vetrartímann, þá varð bara að halda spart á krónunum, eða leita til fjölskyldu og vina. Ég var svo heppin að komast í vinnu á tíma sem hentaði barnapíunni minni líka. Ég þurfti aldrei að koma börnunum mínum fyrir í öðrum húsum til langframa. Aumingja þau? Auðvitað fékk ég stundum að stinga þeim inn hjá nágrönnum eða fjölskyldu smástund, en það varð aldrei til lengri tíma.
Kannski hafa mín börn farið á mis við mikið. Ekkert þeirra var í leikskóla, nema hvað sá elsti var eftir hádegi tvo sumarmánuði. Það var svo hann fengi að leika við aðra krakka, sem ekki var mikið um nærri okkur á þeim tíma. Ekkert þeirra fór í gæslu eftir skóla. Ég held, eða veit, að skólavistun, eða frístundaskóli, eða hvað í ósköpunum þetta á að heita hafi alls ekki verið til á þeim tíma. Þau voru bara úti að leika sér, eða heima hjá einhverjum vinum, eða bara heima hjá mér. Þau "fengu" aldrei að hafa lykil um hálsinn.
Samt erum við ekki svo rosalega gömul, hvorki ég né börnin. Og þetta var á þeim tíma að ein laun dugðu ekki til framfærslu fjölskyldu. Maður bara valdi sér vinnu og skipulagði eftir þörfum barnanna, það var alltaf einhver heima fyrir þau. Þetta er víst ekki hægt lengur. Fólk ræður engu um vinnutíma og getur ekki átt neitt val í þessum efnum. Það er ekki pláss á skólavistun nema fyrir brot af þeim börnum sem þurfa.
Ég kynntist einu sinni svona skólavistun, eða síðdegisgæslu í útlöndum. Það var í Boston í Bandaríkjunum fyrir nærri tveimur árum, þá var ég þar nokkra daga að líta eftir sonardætrum tveim og önnur var í svona gæslu. Á meðan amma var í heimsókn þurfti hún ekki endilega að vera allan timann, en þar gat hún annars verið til kl. 18.00. Ég sótti hana þangað og sá þá hvernig aðbúnaður er á svona stöðum í Ameríku. Hún var í skóla sem var stutt að ganga í að heiman. Skólavistunin síðdegis var svo í sama skólanum.
Á haustin þurftu foreldrar og börn að velja, hvað barnið ætti að fást við eftir skóla. Það var hægt að velja myndlist, píanó, íþróttir og eitthvað fleira sem ég ekki vissi. Í skólanum voru stofur fyrir allt þetta og íþróttasalurinn var í fullri notkun til kl. 18.00. Ég sótti hana einu sinni þangað og þá var íþróttakennari með stóran hóp í leikjum. Annað sinn fann ég hana í myndlistarstofunni með viðeigandi kennara. Svo gátu þau verið úti eða í einhverri stofu að föndra eða dunda eitthvað annað. Þessi skóli var sem sagt fullur af krökkum frá átta um morguninn til kl. sex um kvöldið. Og alvöru kennarar sinntu þörfum barnanna ásamt gæslufólki. Ég kvittaði fyrir móttöku hjá umsjónarkonunni þegar ég fór með stúlkuna heim.
Eitthvað hefur þetta nú kostað "hreppinn" maður! Allt þetta fólk sem hugsaði um börnin var í vinnu hjá Bostonborg. Og svo hefur þurft að skúra allt húsið eftir sex. Reyndar voru skólastofurna fæstar í notkun svona lengi, þar hefur verið hægt að flýta fyrir skúringakonunni. Ætli þetta verði nokkurn tíma svona á Íslandi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.9.2007 | 17:48
Úti er ævintýri - í þetta sinn
En það verður örugglega endurtekið, vonandi strax á næsta ári og þá bara sem bæjarhátíðin okkar sem búum hér á Selfossi. Ég er strax búin að finna eitt atriði sem má bæta við næst, ég ætla að vinna í að koma því á, en segi ekki strax hvað það er.
Afmælishátíðin hélt sem sagt áfram í gær, og var þá að mestu einhverskonar sýningar og atriði innanhúss. Það var auðvitað skipulagt þannig vegna veðursins sem gekk yfir Suðurland, eins og skipuleggjandinn Kjartan sagði. Ég fór í Tryggvaskála, þar sem sýndar voru myndir bæði kvikar og kyrrar og svo var þar líka hægt að kaupa húfur og kökur.
Í gærkvöldi fór ég svo í hótelið en þar safnaðist þá saman söngfólk af Selfossi, allt frá 1950 og eitthvað, og allt fram á þennan dag. Og þar voru margir mættir með mikla hæfileika og frábær atriði. Fæstir höfðu undirbúið sig eða æft með hljómsveitinni, en allir "gerðu það gott". Knattspyrnuliðið kom svo að norðan með vinning í pokanum og loforð um sæti í fyrstu deild. Það var góð afmælisgjöf. Bekkjarfélagar mínir í skólanum stóðu á palli með Árna Johnsen og sungu hástöfum fyrir almennum "brúarsöng". Ég minni þau á það næst þegar við tökum lagið í skólanum. Flugeldasýningin var svo síðasti liður afmælisdagskrár í gær og hún var glæsileg. Svo var auðvitað ball á eftir.
Í dag var svo kaffihlaðborð í hótelinu og karlakórssöngur með. Í næstu viku hefst vetrarstarf kórsins og ég vænti þess að nokkrir þeirra sem á hlýddu í dag leiti nú eftir inngöngu í kórinn.
Afmælisveislunni er lokið. Þeir sem stóðu fyrir þessari þriggja daga skemmtun, sem bæjarbúar virtust hafa mikið gaman af, eiga bestu þakkir skyldar frá okkur sem gerðum ekkert annað en að njóta.
Mynd er hér með frá kvöldinu í gær, þar standa á sviði nokkrir þeirra sem þöndu raddböndin á sviðinu í gamla Selfossbíói fyrir einhverjum óþekktum fjölda ára.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.9.2007 | 23:00
Selfoss er 60 ára, lengi lifi rakarinn
Og ég fór í afmælisveislu í kvöld - og ég ætla líka á morgun og svo að sjálfsögðu á sunnudaginn. Ég ætla að vera að skemmta mér með samborgurunum alla helgina. Það byrjaði síðdegis með kjötsúpuboði í Bónus. Garðyrkjubændur buðu, sagði fólkið sem jós í skálarnar. Einstaklega hentugt að sameina innkaupin veislunni. Súpan var meira að segja alveg eins og alvöru réttasúpa, sem er ekki slæmt á sjálfan réttadaginn.
Svo var skrúðganga í kvöld, í ágætu veðri og góðri stemningu, austur og vesturbæingar auðkenndir með bláu og appelsínugulu. Engan sá ég skarta gulu, eins og þeir Langnesingar áttu að gera. Ég vona bara að þeim detti ekki í hug að kljúfa sig út úr samfélaginu og stofna sjálfstætt bæjarfélag.
Það er alveg einstakt framtak einstaklingsins Kjartans Björnssonar að koma þessari afmælishátíð á, og okkur bæjarbúum ætti að vera bæði "ljúft og skylt" að sækja alla viðburði sem boðnir eru. Og það er margt í boði - skemmtanir í hótelinu, gamlar myndir sýndar í bíóinu, sýningar í skálanum og bókasafninu. Frítt í laugina og svo fjöldamargt sem ég man ekki að telja. Tjaldstæðið opið og gestir velkomnir.
Hér í austurbænum skreytum við hús og garða með appelsínugulu en vesturbærinn er blár. Það koma líklega tvær myndir hér með, önnur af húsinu Hafnartúni sem er jafngamalt Selfossi, myndin er ekki í fókus, en húsið engu að síður fallega skreytt vegna 60 ára afmælisins. Hin myndin er af kappanum Kjartani þar sem hann dreifir afgangsblöðrum til afmælissgesta. Áður höfðu allir fengið með póstinum, blöðrur í sínum litum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.9.2007 | 21:05
Það var blautt í dag
Ég varð gegndrepa bara af því að hlaupa yfir í Iðu í hreystitíma sem svo féll niður. Hljóp tilbaka og þá rigndi miklu meira. Ég rakst á lítinn strák sem ég greip með mér yfir götuna og kom þar með í veg fyrir að hann skolaðist með straumnum sem stefndi með boðaföllum að næsta niðurfalli. Niðurföllin höfðu reyndar engan vegin við og seinna kom ég að slökkviliðsmönnum sem dældu vatni í stórri slöngu úr sundlauginni yfir á skólalóðina. Mér fannst það svolítið kyndugt, en greinilega var eitthvað mikið að í lauginni.
Nú liggur við að mér finnist haustið komið, það er svo dimmt. Eftir að ég kom heim í dag klæddi ég mig í regngalla og fór út að tína ber. Ég tíndi sína fötuna af hvoru Reyni og Úlfareyni. Þá er ég komin með þéttfulla strigapoka af hvoru. Ég er viss um að þessi fræsöfnun telst mér til tekna á himnum. Örugglega er þetta kolefnisjöfnuð syndaaflausn og gott ef ekki mótvægisaðgerð líka. það verða ekki svo fáar trjáplöntur til af þessum berjum og þarf margar vinnufúsar hendur til að planta þeim í fyllingu tímans.
Það er farið að sjá á gróðrinum í garðinum eftir alla rigninguna. En það er hlýtt ennþá og gæti alveg verið fallegt eitthvað áfram ef styttir upp og frýs ekki mikið. Myndirnar sem fylgja eru, önnur úr garðinum, en hin af reynitrénu sem ég tíndi af í gær. Það er stórt tré og ég næ nú bara í neðstu greinar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.9.2007 | 20:02
Ég fór á móti safninu
Í dag er miðvikudagurinn í réttavikunni. Áður en réttum uppsveitanna var ruglað, til að kaupstaðafólk ætti hægara með að koma, voru Hrepparéttirnar alltaf á fimmtudeginum. Í dag hefði ég átt að vera að taka á móti safninu, samkvæmt gamla laginu. Allt frá tíu ára aldri og fram að fertugu fór ég hvert einasta ár ríðandi upp hrepp snemma dags.
Mér tókst oftast að komast upp að Fossi og fylgdi svo safninu það sem eftir var niður að réttum. Tvisvar lenti ég í því að vera ólétt, það voru einu árin sem ég stóð ekki mína plikt þennan dag. Meira að segja þegar ég fór til Noregsdvalar eitt ár fór ég daginn eftir réttir og passaði svo að koma heim aftur svo ég gæti farið á móti. Fjallkarlarnir fögnuðu mér vel í það skiptið, þeir vissu ekki að ég væri komin heim.
Eftir að ég byrjaði að vinna í skólanum hef ég ekki farið í réttir eða á móti. Mér finnst maður ekki eiga að biðja um frí að nauðsynjalausu og lifi svo sem alveg af. Myndin sem á að fylgja hér gæti verið tekin að morgni miðvikudags í miðjum september, ég að rölta af stað með hnakkinn minn á bakinu, á leið að sækja reiðskjóta til að fara á móti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.9.2007 | 20:13
Hundleiðinlegar fréttir
Þegar maður vinnur allan daginn og sér eftir það um þarfir heimilis, þó ekki sé stórt, þá eru kvöldfréttir sjónvarps eiginlega þær einu sem ég get séð eða heyrt. Því miður held ég að þær séu að verða leiðinlegri með hverjum deginum sem líður. Og þá meina ég ekki slæmar fréttir, heldur algerlega óþolandi hundleiðinlegar fréttir.
Þessi keypti hlut í hinum og fjárfestir festi ráð sitt eða óráð hér eða þar. Hverjum dettur í hug að venjulegt fólk hafi áhuga á þessu endemis rugli. Eina fréttin sem ég man eftir frá í kvöld, þó ekki kæmi hún til af góðu, var um bóndann í Borgarfirðinum sem er að reyna að leiða Vegagerðina til betri vegar. Hún var góð.
Þessar fréttir af milljörðum, útrásum, fjárfestingum, tapi eða gróða "athafnamanna" eða pappírsfyrirtækja þeirra, ættu að vera í sérstökum fjármálafréttum, það er víða svoleiðis í útlöndum og annað eins er nú apað eftir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.9.2007 | 20:55
Húsbændur og hjú




Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.9.2007 | 19:18
Er hægt að kaupa endalaust?
Við vorum í sveitinni í dag, það var uppskerudagurinn í Mýrinni. Eiginlega var ákaflega lítil uppskera, kartöflur fáar og smáar. Varla von á öðru, áburðurinn sem átti að gera þær stórar og margar komst aldrei ofaní jörðina vegna eilífra þurrka. Það má segja að vesalings kartöflumömmurnar sem áttu að gefa af sér kartöfluforða til vetrarins, hafi hvorki fengið vott né þurrt í allt sumar. En það gerði ekkert til þó lítið væri að hafa. Veðrið var frábært og við höfðum með okkur fullt af hjálparfólki. Við grilluðum svo pylsur og ég plantaði sex flottum trjám með góðri aðstoð.
Á heimleiðinni fórum við framhjá, ég held þremur sumarbústaðasvæðum, þar sem nú er auglýst og reynt að selja fólki lóðir. REMAX flaggað á tveimur stórum stöngum á Skeiðunum, en ekki sá ég þar nú mikla umferð. Eftir að heim var komið fórum við smá rúnt um bæinn, aðallega um nýju hverfin sem við þekkjum hreint ekki neitt.
Þetta er mun verra ástand en var þegar Vesmannaeyingarnir komu hérna um árið. Þá bættust við einhverjar þrjár eða fjórar götur og gekk nokkuð vel að læra hverjar þær voru og hvert þær lágu. En nú veit maður ekki neitt. Í mesta lagi hvað hverfin eru kölluð svona á milli manna. Þessi þensla er ekki fyrir hvítan mann að fylgjast með. Annað var sem vakti athygli - mikið af þessum húsum virðist hafa verið byggt bara svona út í bláinn! Skilti i gluggum á heilu röðunum bjóða húsin til sölu. Voru þau bara byggð án þess að nokkurn vantaði þak yfir höfuðið? Er endalaust til fólk sem kaupir og kaupir, hús og sumarbústaðalóðir? Mér bara finnst þetta alveg ótrúlegt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.9.2007 | 21:44
Kunnuglegar athafnir á laugardegi
Í dag rifjaðist upp fyrir mér hvernig ég fyrir langa löngu notaði laugardaga í rigningartíð. Ég man ekki hvað er langt síðan mér datt í hug að vera inni og taka til heilan laugardag. Ég hreinsaði til á skrifborðinu, þegar tölvan kom til sögunnar var mér sagt að ég hefði ekkert með skrifborð að gera upp frá því. Það er nú öðru nær, ég dauðsé eftir stóra borðinu sem ég átti áður, það er ekkert pláss fyrir allt það pappírsflóð sem að mér safnast. Einu sinni skrifaði ég lýsingu á því þegar ég fór inní búr til að taka þar til. Þá urðu til fjórar A4 síður þéttskrifaðar um allt sem í búrinu var og það gagn sem mér var að því að geyma það allt saman. Mér tókst ekki að henda nema einum sprungnum bolla.
Svipað var það í dag. Þarna voru nótur, sem fóru í möppuna sína. Útprentun með leiðarlýsingum á gönguleiðum um Flóann, ofaní skúffu með þær. Myndir, sem fóru í möppu, og þá þurfti aðeins að laga til í möppunni. Miðar með ótrúlegustu minnispunktum, sameina þá alla í minnisbókinni. Frumritið af ferðasögunni til Leeds, allt með rauðum merkjum og leiðréttingum, búið að leiðrétta og gefa út, 48 síður. Henda frumritinu. Póstkort frá ferðalöngum um allan heim og eitt frá mér sjálfri frá Vigur. Ofaní skúffuna með póstkortunum. Leiðarvísirinn með nýja Canon prentaranum mínum, hann á að vera hjá öðru tölvudóti í hægri hillunni. Ég raðaði nokkrum vikum af bloggi í möppuna sína. Ég prenta það nefnilega út og geymi þannig. Svona er ég gamaldags. Mig vantar plastvasa - og líka svona töng til að ná heftum úr nótubunka, þær hefta alltaf svo saman í bankanum. Ég er nefnilega ekki með heimabanka eins og sjálfsagt hefur áður komið fram. Það er að hluta vegna þvermóðsku, en líka til að hún Helga "litla" nafna mín hafi vinnu á meðan hún þarf þess.
Ég fór líka í dag á E38 til að hjálpa Helgu Guðrúnu að koma saumavélinni af stað. Hún var að byrja að sauma sér kjól sem hún ætlaði að nota í kvöld og foreldrarnir í R.vk. Þegar ég fór var hún að byrja að klippa silfurefnið í mátulega búta til að sauma svo saman aftur. Ég fór í leiðinni í eitt hús og gerði þar samning um berjatínslu. Júlía er komin til að gista og ég fór uppá sjúkrahús í heimsókn í kvöld. Það rignir hér rooosalega.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar