Færsluflokkur: Dægurmál

Fyrir Hreppamenn í Ameríku

Ég gerði mér til gamans og kannski líka til að hafa allt kórrétt, svolítið vandaðri upprifjun frá árinu 1958, þegar bændur á Litla Hrauni ráku fé sitt til fjalls í byrjun júlí.

Upphaf sögunnar er nokkuð rétt, nema hvað fangarnir voru þrír, en ekki tveir og svo voru þeir ekki mjög ómissandi vinnumenn við fjárflutninginn. Í Öldinni okkar er sagt      " að þeim sé gjarnan leyft að fara með í einskonar skemmtiferð". Að kvöldi dagsins sem þeir týndust úr "skemmtiferðinni", "var mikill mannsöfnuður samankominn á Ásólfsstöðum til leitar, og höfðu með sér hunda".  En hvort sem þeir hafa falið sig í skóginum í Þjórsárdal eða árgljúfrum þar innaf fundust þeir aldrei í Eystri hreppnum. 

Hrunamenn heyrðu af þessum flótta í útvarpi, en það var ekki fyrr en seinna, þegar menn fóru að hittast og bera saman bækur sínar að nokkuð skýr mynd varð til af ferðum þeirra þar í sveit. Kannski var það á Álfaskeiði, en þar var hátíð haldin hvert sumar um síðustu helgi júlí.

Á þessum árum þekktust allir í einni sveit og þess vegna var tekið eftir ef ókunnugir sáust á ferð, þó ekki dytti nokkrum manni í hug að þar færu flóttamenn. Hestar höfðu færst á milli bæja í uppsveitinni. Þeim hefur tekist að ná sér í reiðskjóta einhverja spotta. Á Syðra Seli hvarf jólakaka úr búri, og krakkar sáu til manna þar í grennd og jafnvel nærri Hvítá. Þeir hafa farið yfir þvera sveit en orðið að snúa frá Hvítánni, ekki nokkur leið að vaða hana, eða komast yfir á annan hátt. 

Gestir voru hjá foreldrum mínum, skólabræður pabba og voru á bíl. Þeir fóru um kl. 2.00 um nótt og þá sáu þau öll til manna uppi á Högnastaðaásnum. Tóku eftir því sem óvenjulegu, án þess að gruna hverjir væru á ferð. Þar hafa þeir beðið eftir að allir væru sofnaðir í grenndinni.

Eftir að gestirnir voru farnir - yfir vaðið á Litlu Laxá upp hverabrekkuna og um hlaðið á Grafarbakka, hafa þeir talið alla sofandi í hverfinu og fóru að líta í kringum sig eftir farartæki.

Weeponinn hans Kristófers varð fyrst fyrir valinu. En hann varð strax bensínlaus, komst þó austur á Stöðul, sem var ekki langt frá því sem Eiríks hús er núna. Þar urðu þeir að taka til fótanna á nýjan leik.  Þá fóru þeir fram að Laugalandi og tóku jeppann.         Óku svo til Reykjavíkur, en það var tekið eftir þeim við Kotströnd, sennilega þá búið að sakna bílsins. Það var ekkert ekið til Reykjavíkur á klukkutíma á þeim árum.              Þeir voru svo eltir í bæinn í æðislegum kappakstri.                                                  "Og þykir með fádæmum að þeir skyldu sleppa lifandi frá ökuferðinni, slík sem hún var" segir í Öldinni.  Jeppinn hans Emma hefur ekki verið neinn skrjóður.                        Þeir voru svo króaðir af í garðinum á bak við Austurbæjarbíó og náðust þar.            Þann garð hef ég komið í, án þess að hafa grun um hvað þar fór fram  á þessum sumardegi árið 1958.


Einu sinni voru fangar á ferð, á gömlum Willys

Það rifjaðist upp fyrir mér í dag, þegar ég frétti af ferðum fanganna tveggja sem yfirgáfu Hraunið í gærkvöldi.  Fyrir 50 - 60 árum  þegar ég var stelpa í sveitinni gerðist þar nokkuð í svipuðum dúr.

Sveitin mín er langt í burtu frá fangelsinu, sem þá var rekið líkt og nú.  Ég veit ekkert hversu langt er síðan Litla Hraun var tekið í notkun, en það var örugglega  fyrir 1960.      Á fyrstu árum hefur líklega verið rekinn þar einhver búskapur, eins og á öðrum sveitabæjum. Alla vega var fé flutt á fjall snemmsumars og fangar látnir aðstoða við það eins og önnur bústörf. Réttast hefði auðvitað verið að láta þá fara ríðandi með rekstur inn á Flóamannaafrétt, þeir hefðu kannski hugsað sinn gang eftir það ferðalag. En það var nú ekki, heldur var flutt á vörubíl. Bílstjórinn var bara skikkanlegur vörubílstjóri, en tveir fangar stóðu á pallinum til að passa að lömbin ekki træðust undir. Þetta er alltaf gert þegar fé er flutt á bíl, það þekkja sveitamenn.

Ekki veit ég hvort það var á leiðinni uppeftir eða heim, en piltarnir urðu leiðir á bílpallinum og hoppuðu af. Ofarlega í Gnúpverjahreppi létu þeir sig hverfa útí móa og bílstjórinn hélt áfram einn síns liðs. Ekki fullyrði ég þó að hann hafi verið einn, annar gæti hafa setið við hliðina á honum. En fangarnir voru sem sagt frjálsir, lengst uppi í Eystri -hrepp.  Á þessum tíma voru fjölmiðlar ekki eins virkir og nú, en ég man þó eftir að hafa heyrt um þetta í útvarpi.

Ekki töldum við í Ytri - hreppnum þetta vera neitt sm við þyrftum að hafa áhyggjur af. Það næsta sem svo fréttist var að Willys jeppa var stolið frá bæ í minni sveit.  Í  miðju Flúðahverfinu.  Ég held þremur dögum eftir flóttann. Hann fannst svo seinna í Reykjavík og kauðarnir víst einhverju síðar.   Þeir höfðu farið yfir þverar sveitir, yfir ása og ár, sofið í hlöðum og hnuplað mat á bæjum. Það fréttist seinna af því.  Þó að kjötbiti eða annað ætilegt hyrfi á bæjum í uppsveitum á þessum tíma var ekki verið að kenna það strokuföngum. Meiri líkur á að hundurinn hafi komist þangað sem síst skyldi.

Þeir sem þekkja til geta séð fyrir sér hversu langt þetta ferðalag var. Frá Skáldabúðum í Flúðahverfi. Leiðin til Reykjavíkur var heldur ekki eins fljótfarin og nú og Willysinn engin spýttkerra.  Í þá daga var enginn leikur að strjúka af Litla Hrauni.


MMeð græðgisglampa í augum, erum við "vonanadi" stærstir í öllum heiminum

Einhvernvegin finnst mér þetta ekki passa hér á litla Íslandi, þar sem svo margt er öðruvísi en best væri fyrir sauðsvartan almúgann. Rjóðir í bústnum kinnum komu þessir menn fram í kvöldfréttum sjónvarps og fögnuðu sameiningu orkusölufyrirtækja sem þeir varla kunnu að nefna. Svo glaðir, að líkast var því sem þeir væru með þessu að tryggja eigin afkomu fyrir lífstíð. En ekki getur það nú samt verið annað en hugboð mitt á  villigötum. Þeir græða ekkert á þessu sjálfir, er það?

Hefur pólitíkin lamandi áhrif - á venjuegt fólk?

Eða - alla vega - ég hélt ég væri venjuleg. Eldhúsdagsumræður í sjónvarpinu. Hvers vegna þetta nafn er notað man ég ekki, hef þó örugglega einhverntíman heyrt það. Kannski fundið upp af einhverjum sem leiddist óskaplega eldhússtörfin.

Ég ræð ekki öllu hér heima og eftir að Ingibj. Sól. var búin, hækkaði hann aftur og nú suða þeir hver af öðrum í eyrunum á mér. Ég kem mér ekki að neinu verki. Ætti þó alveg að geta gripið í teppið sem ég er að hekla, eða bara dundað í bókhaldi eða myndafrágangi. Einhverntíman þarf ég líka að ganga frá öllu í formannsmöppu kvennaklúbbsins, ég er að ljúka mínum tíma í því embætti. Ég gæti endalaust fundið mér eitthvað að gera, en kem mér ekki að neinu. Stöðugar upphrópanir um fjárlög, evrur, evrópusamband og allt sem þessir kallar geta fundið til að rífast um, trufla mig ótrúlega.

Vel á minnst - ég hef verið að hugsa. Þegar Hitler var til - í gamla daga - þegar ég var ekki fædd - var hann þá ekki að reyna að stofna eins konar Evrópusamband?               Þá átti bara að stýra því frá Þýskalandinu hans, en ekki Brussel?  Mér hefur bara svona dotið þetta í hug undanfarið, kannski er það bara vitleysa.

Ég viðurkenni alveg að pólitíkin truflar mig af því ég er auðvitað að hlusta með öðru eyranu, ég hef víst dulinn áhuga fyrir þessu rugli öllu saman.


Í gúmmískóm á messutíma

Svo kom sunnudagurinn. Nú orðið er alveg sama hvort ég fer í afmæli eða ekki, fótaferðin er oftast sú sama. Ekki seinna en níu er ég komin á fætur um helgarnar.  Tveimur tímum seinna en virku dagana, heitir það ekki að sofa út? Ég notaði þessa morgunstund til að ganga frá þvotti, og svo hringdi ég í mömmu. Það er allt í lagi að hringja til hennar uppúr tíu á sunnudögum. Annars væri hún alveg vís til að hafa farið í afmæli eða annað partí og sofa lengur en ég. Hún var komin á fætur í þetta sinn.   Veðrið var enn frábært, smá raki í loftinu, en hlýtt og logn.  Ég ákvað að fara aftur til Pólverjanna og tína meira. Ég fór einn hring um bæinn og skoðaði tré sem ég hafði heyrt um, flottur hlynur í óræktargarði. Aumingja hann.

Það var mikil umferð í vesturbænum. Kirkjuklukkurnar hringdu til messu og þangað streymdi fleira fólk en ég kannski átti von á. Fermingarbörnin. Átti ég að skammast min fyrir það sem ég hafði fyrir stafni? Væri ég kannski betur komin prúðbúin á kirkjubekk?                       En Guð er allsstaðar og hann hefur örugglega ekkert á móti hlýlegum klæðnaði og gúmmískóm, þó sunnudagur sé, ef aðstæður krefjast þess klæðnaðar.                       Ég man þá tíð að maður klæddi sig í sérstök sunnudagaföt og gerði ekki neitt nema það væri sparilegt.

Fyrst fór ég  til góða  grannans Pólverjanna og tíndi hjá honum af nokkrum dýrindis trjám sem ekki er hægt að finna hvar sem er. Ég komst í fjársjóð. Þar var mér svo boðið í kaffi. 

Það var opið út á tröppur hjá Pólverjunum þegar ég kom þangað. Átti ég að gera vart við mig eða bara klifra yfir girðinguna eins og í gær? Það var greinilegt að einhver var heima, geta þessir menn ekki unnið á sunnudögum? Einhverjir gera það. Ég klifraði yfir girðinguna og byrjaði að tína. Hlynurinn er stór og ég gat verið þeim megin sem sneri frá húsinu, þeir sáu mig ekki neitt.

En svo fóru að koma gangandi menn úr öllum áttum. Meiri Pólverjar, og þeir voru allir að koma í heimsókn. Kannski voru þeir allir boðnir þarna í sunnudagssteik, læri að hætti Pólverja? Auðvitað sáu þeir mig þar sem ég hamaðist við að tína fræ, eins falin og mér framast var unnt, í laufmiklum greinum hlynsins.

Eftir smá stund fannst mér allir gluggar í húsinu fullir af pólskum augum sem voru að reyna að koma auga á mig í þykkninu. Ég fór heim. Fer bara aftur seinna - á vinnutíma.

Seinni partinn fórum við áhöfnin á X605 upp í Þrastarskóg. Bara smá bíltúr í góða veðrinu, taka myndir og svona. Það er fullt af fólki að byggja sér bústaði í skóginum, samt finnst manni þar allt fullt.DSCF4226DSCF4251

Ég endaði svo útivistina á að fara smá gönguferð um skóginn hér fyrir framan, Grýlupottaskóginn. Annars held ég að sá skógur heiti ekki neitt. Þess vegna fær hann kannski að vera í friði. Þarna er garður sem miklu fleiri mættu nýta til gönguferða og útivistar.            Eftir alla frætínsluna leit ég aðeins eftir könglum, þá tíni ég seinna, það er nóg af þeim um allt.  Svo tók ég myndir af götunum hér í kring í leiðinni heim.  Líklega birtast hér tvær myndir úr Þrastaskógi og svo ein úr "Gleymdaskógi" og önnur af götunni minni. Um miðja nótt rumskaði ég við rokið, góðviðrið búið í bili. En það kemur örugglega aftur, það gerist alltaf.DSCF4264DSCF4273


Í pólskri landhelgi

Eftir hádegið á laugardag þegar ég hafði lokið öllu sem þurfti nauðsynlega að gera heima, lagði ég af stað í leiðangur. Fræsöfnunarátakið er á síðasta snúning, í kapp við fuglana og haustvindana verð ég nú að nota hverja stund sem gefst með skikkanlegu veðri.Fyrst fór ég í garð sem ég hef haft áskrift að í nokkur ár. Húsráðandi var ræðinn og talaði mest um byggingar og breytingar á húsunum í hverfinu okkar. Það var heldur lítið að hafa hjá honum núna, Hlynurinn er orðinn svo stór að ég næ bara í neðstu greinar og á þeim var ekki mikið. Næst reyndi ég fyrir mér í nýjum garði, þar er gullregn með glás af fræbelgjum, hvort sem þar er svo mikið að fræjum í, það verður að sýna sig seinna. Húsráðendur voru vinsamlegir og gáfu mér fúslega leyfi til tínslu. Svo lá leiðin að lóðinni með hlyninum stóra sem alltaf er með fullt af fræi og gott að ná því. Ég hitti nágranna á götunni, hann sagði að búið væri að selja húsið og það væri nú leigt Pólverjum, nokkuð mörgum. Hann hvatti mig til tínslu og taldi íbúana varla mundu hafa af því afskiptiDSCF4207DSCF4212 þó ég héngi þar í greinum trjánna einhverja stund. Reyndar bauð þessi góði maður mér í lóðina til sín líka og þangað fór ég áður en meira var að gert.

Svo klifraði ég svellköld yfir girðinguna og tíndi góða stund af hlyninum, nóg var til. Enginn kom að mér Pólverjinn, sennilega vinna þeir fram á kvöld á laugardögum. Ég hætti þegar fór að rigna, kannski myndi ég koma aftur seinna. Ég fór svo í afmælisveislu um kvöldið. Afmælisveislur eru bestar ( fyrir utan það að gleðjast með afmælisbarninu) fyrir það hvað maður hittir oft fólk sem annars er ekki að rekast utaní mann dags daglega. þarna hitti ég fullt af svona sjaldgæfu og góðu fólki.


Eru hreindýrin á Holtavörðuheiðinni?

Þessi helgi átti að verða svona "ekkert sérstakt og bara taka það rólega" helgi. Þess vegna byrjaði ég á að fara í laugina beint úr vinnunni á föstudag og lá þar svo í barnaluginni og spjallaði við kall (bara tilfallandi kall)alveg til kl. að verða fimm. Notaleg byrjun á helginni.Þegar ég kom svo heim voru þar fyrir gestir úr Sandvíkinn, Dýrleif Nanna og foreldrar. Hún er öll að verða svo fullorðinsleg, fer hér nú um allt og finnur það sem hún þarf, veit reyndar hvar allt dótið er fyrir löngu síðan. 

Á laugardagsmorgunn byrjaði ég á innanhússþrifum en fór svo út og tók til í gróðurhúsinu og í reitnum. Sáði alla vega trjáplöntum og bjó undir veturinn. Það var indælisblíða og hefur verið alla helgina. Eins gott, því frumburðurinn minn hefur verið í göngum uppi á Holtavörðuheiði.

Borgfirðingar fara í alvöru "göngur" þ.e. leita gangandi að kindunum sínum, sem kannski urðu eftir í fyrr leitum. Ég vona bara að það hafi ekki verið þoka og að hann hafi ekki rekist á hreinkúna með kálfinn sinn. Þau gætu sem best verið á þessum slóðum núna. Að mæta hreindýri í þoku á Holtavörðuheiði, væri svona eins og þegar "Helgi var einn í heiminum", engin leið að vita hvers væri von á bak við næsta leiti. Gæti farið svo að göngurnar breyttust í hlaup?

Þegar leið á laugardaginn hafði ég svo miklu meira að gera að það verðu að bíða morguns. Þessi þýski þáttur er allt of góður til að sleppa honum.


Mótvægisaðgerð - leysir allan vanda

Mikið er gott þegar svona gullvæg orð verða til. "MÓTVÆGISAÐGERÐ".

Ef maður bara hefði kunnað það hérna á árum áður þegar allt var í hönk.

Atvinnuleysi, olíukreppa, uppskerubrestur, rigningasumur,mæðiveikin og almennt auraleysi. Mótvægisaðgerð hefði trúlega leyst þarna hvern vandann af öðrum.  Mótvægisaðgerð bætir skaðann þegar byggja skal á skógræktarsvæði.                      Við getum endalaust mengað andrúmsloftið með bílunum okkar ef við plöntum bara nokkrum trjám í staðinn, það er mótvægisaðgerð.                                               Hætta að veiða fiskinn í sjónum og bara malbika í staðinn, og af því að það er mótvægisaðgerð er það af því góða og allir eiga að vera glaðir.

Ef ég er ekki ánægð með launin mín get ég bara fundið mér aðra vinnu til viðbótar þeirri sem fyrir er. Karlinn getur ekkert verið að kvarta þó hann þurfi þá að sjá um allt heima, ég er að hamast við að framfylgja mótvægisaðgerð.  Ef allt klárast þá úr ísskápnum hjá honum getur hann bara farið í skápinn hjá henni Jónínu í næsta húsi og sótt það sem vantar. Hún getur ekkert verið að væla yfir því, hann er bara að vinna við mótvægisaðgerð.  Svona getur þetta eina orð bjargað heiminum. Hver skyldi hafa fundið það upp?

Mér dettur í hug annað orð, sem á sínum tíma var allt sem þurfti í utanríkissamskiptum Íslendinga. "Tvíhliða viðræður" mikið óskaplega átti hann Halldór Ásgrímsson margar tvíhliða viðræður við menn um allan heim. Þó þeir varla skildu orð af því sem hinn sagði voru samtölin harla góð af því viðræðurnar voru "tvíhlíða".  Hvernig ætli "einhliða" viðræður fari fram? 


Er manneskjan mállaus eða pólsk?

Þau leynast víða vandamálin.  Fyrir nokkrum vikum kom ný manneskja til starfa í verslun sem ég skipti svolítið við, afgreiðslumaður á kassa. Þegar ég kem að kassa í búð segi ég alltaf góðan daginn og fæ í flestum tilfellum kveðju til baka. Á síðustu misserum ekki alltaf á hreinni íslensku, og jafnvel frá hörundsdökku fólki, en það er allt í lagi. Þetta fólk heilsar með einhverju móti, er að reyna að læra og gengur mörgum vel. Sumum reyndar alveg frábærlega.

En þessi starfskraftur sem ég nefndi í upphafi sýndi engin viðbrögð þegar ég heilsaði. Hvorki stuna né hósti til að heilsa mér og bjóða velkomna til viðskipta. Engin svipbrigði heldur. Mér hefði þótt skárra en ekki að fá bara einhver hljóð þó mér væru þau alveg óskiljanleg.  Svona algert afskiptaleysi kann ég ekki að meta. Það sem ég átti að borga kom á skjá og það var mér bent á. Ég fékk til baka, en það heyrðist ekki tíst þegar ég sagði takk og fór.  Svona hefur þetta svo verið áfram, engin viðbrögð.

Þetta varð til þess að ég hef verið að fjasa út um allt yfir útlendingunum sem eru að leggja alla vinnustaði undir sig, en hafa engan áhuga á að læra íslensku eða nokkuð annað hér á landi. "Þessi manneskja er örugglega ein af þeim sem ætla bara að vera hér tímabundið og fleyta rjómann af kökunni og fara svo heim aftur". Svona hugsaði ég og sagði kannski líka. En í gær hitti ég vinkonu mína sem verslar í þessari sömu búð og hún upplýsti mig aldeilis. 

Hún hafði heldur ekki fengið nokkurt hljóð uppúr kassamanneskjunni, en taldi það ekki stafa af útlendum uppruna. Hún var alveg viss um að þarna væri mállaus manneskja komin til vinnu. Það getur svo sem alveg verið? En hvernig eigum við grandalausir kúnnarnir að vita það? Næst ætla ég að prófa að heilsa á táknmáli, en ef það ekki gengur er ég satt að segja alveg ráðalaus.


Eins og það raunverulega er

Einmitt svona, maður á ekki að skrifa nema þörfin geri vart við sig, það er raunverulegt, hitt er gerfi.

Þörfin helltist sem sagt yfir mig eftir fjögurra daga stopp, það er ágætt bil, og á þessum dögum hef ég fengist við eitt og annað sem alveg má segja frá. Raunverulegt blogg er eins og þegar falin myndavél fylgir manni hvert skref, nú ætla ég að horfa á sjálfa mig síðustu daga í gegnum linsuna og skoða svo hvernig útkoman verður.   Ath. þetta er video - ekki stillimynd.

Ég var frekar snemma búin í vinnu á föstudaginn, það var kennaraþing og við fórum bara á fyrirlestur og snerumst í fáeina hringi, en svo fórum við nokkrar saman í sundlaugina í Hveragerði. Laugin hér var lokuð og það er líka fínt að skoða sundlaugar sem víðast. Þessi ferð hét "hópeflisleiðangur" og við fylgdum stranglega hópeflisreglum. Höfðum enga útundan. Þarna í Hvragerði er nokkuð sem við eigum ekki í okkar laug, alvöru dýfingapallur. Auðvitað prófuðum við hann og gekk bara vel. Þegar maður stekkur af svona palli má ekki koma neitt skvett, ég hef séð það á myndum í sjónvarpinu - frá Olympíuleikum. Svo gerðum við Mullersæfingar og fórum í gufuna, meira að segja gerðum við kviðæfingar hangandi á startpöllunum. Við voru bara góðar.

Eftir að heim var komið þurfti ég að fara niður í kórhús að ganga frá eftir skrallið hjá körlunum kvöldið áður, en svo síðdegis fórum við "settið" upp í sveit og inn í Mýri að ganga frá hjólhýsinu. Veðrið var svo gott að það var alveg upplagt.  Við tókum niður fortjaldið og settum allt sem í því var inní húsið eða tókum með heim. Aðeins er farið að sjást haust í Mýrinni, kannski koma myndir sem sýna það.  Svo tókum við tjaldvagninn í tog og fórum með hann í fóstur í Miðfelli. Auðvitað komum við aðeins til mömmu í leiðinni, svona til að segja henni frá aðgerðunum.

Á laugardagsmorgunn vorum við tímanlega á fótum til að fara í leiðangur til R.vk. Fyrst þurfti að koma í bókakaffi þingmannsins til að kaupa afmælisgjöf, en þá rákum við okkur á þá staðreynd að verslanir eru almennt ekki opnaðar um fótaferðatíma fullorðinna, samt eru það nú oftast þeir sem hafa efni á að kaupa í búðunum.            Við vorum á rúntinum í klukkutíma fram að opnun, reyndum að komast í morgunkaffi hjá ættingjum, en þeir voru ekki viðlátnir, eða bara sofandi. Þetta er auðvitað engin hemja hvað maður er farinn að rjúka á lappir fyrir allar aldir og til einskis. Mogginn er ekki lesefni margra klukkutíma og Fréttablaðið nennir enginn orðið að bera út um helgar.

Þetta hringsól um bæinn varð til þess að þegar bókakaffið var loksins opnað kl. 11.00 vorum við búin að kaupa allt það sem hafði staðið til að finna í höfuðstaðnum.         Það vildi til að við ætluðum þangað í afmælisheimsókn, annars hefði málið verið steindautt þarna löngu fyrir hádegi. 

 Hún Urður átti nefnilega afmæli á fimmtudaginn og pabbi hennar svo á sunnudag.    Við sameinuðum allt í eina heimsókn. Veislan hennar Urðar var í Skautahöllinni á föstudag, en hún bað afa sinn um fram allt að koma ekki þangað og ekki þá heldur ég. Ég veit ekki hvort krökkum sem eru níu ára finnst hallærislegt að fá afa og ömmu i bekkjarafmæli, eða hvort hún var hrædd um að við létum ljós okkar skína á svellinu? Hvort sem var, við vorum ekkert að angra hana með skautadansi daginn þann.          Við fórum einn hring í Kringlunni og svo líka á bókamarkað. Alveg er það einkennilegt hvað maður getur alltaf farið fram úr sjálfum sér á bókamarkaði, samt eru allar hillur fullar heima.   

DSCF3497DSCF4161Ég er búin að eignast lítinn frænda sem heitir Emil, hann á heima í R.vk. og er annaðhvort rauðhærður eða ekki? Við gátum ekki heimsótt hann í þetta sinn, en gerum     það kannski næst.

Þegar við komum heim fengum við Sandvíkurfjölskylduna í heimsókn, Dýrleif fer hér nú um allt hús og veit alveg hvar helst er að leita að gersemum, eða kexi.                    Hún er myndarstúlka eins og vænta má. 

Á laugardagskvöldinu var okkur svo boðið í mat, eins konar myndakvöld frá Vestfjarðaferð sumarsins. Vorum þó komin heim fyrir miðnætti, enda eins gott eins og fótaferðin er, sem ég nefndi áður.

Í gær var svo "leiðindadagur" þ.e. heima að gera ekki neitt, nema þvo nokkrar vélar, borða öðru hvoru og prenta út slatta af myndum. Við fórum  jú eina ferð niður á Stokkseyri í hífandi roki svo varla var fært út úr bíl við sjoppuna til að kaupa kók og prins.  Það var svolítið brim, en sýndist miklu meira, af rokinu sem blés öldunum til baka út í hafsauga.  Hann var á norð- austan.

Nú er aftur mánudagur, hann er reyndar liðinn og þá fer helgin að nálgast. Svoleiðis eru allar vikur, búnar eins og skot. Við fórum í sund í morgun, þar var skítkalt í rokinu.    Svo var "tónlist fyrir alla", það er árlegur viðburður og alltaf gaman.

Ef ég myndi búa til raunveruleikaþátt um þessa daga - og kannski ýkja aðeins - það er alltaf gert, held ég bara að gæti orðið gaman að horfa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband