Færsluflokkur: Dægurmál
Nú verður ekki aftur snúið, ég verð varla búin fyrir jól.
Á þessum árum var Flúðahverfið hvorki þéttbyggt eða fjölmennt. Gamli skólinn og sundlaugin, Gilsbakki, Vinaminni, Grund og Akurgerði. Það var nú allt sem þarna var þegar ég byrjaði mína skólagöngu tíu ára gömul.
Í skólahúsinu bjuggu skólastjórahjónin í tveimur herbergjum og ráðskonan í því þriðja. Fyrst var skólastjóri Gunnar Markússon og konan hans hét Sigurlaug. Þau áttu fjögur börn, sem öll sváfu líka í þessum herbergjum. Þau hétu Hildur, Þór Jens, Ágústa og Stefán. Sigurður Ágústsson tók svo við af Gunnari. Á þessum árum var bara einn kennari - eða skólastjóri og hann kenndi allt nema handavinnu fyrir stelpur, enda var ekki nema ein skólastofa.
Skólagangan tók okkur fjóra vetur og var skipt í yngri og eldri deild. Aldrei var nema önnur deildin í skólanum í einu, heima í hálfan mánuð og í skólanum hálfan mánuð. Flestir voru í heimavist, nema við sem áttum heima í næsta nágrenni, við gengum á milli kvölds og morgna. Hálftíma ganga í skólann var talin næsta nágrenni.
Með þessu fyrirkomulagi höfum við notað sem svaraði tveimur heilum vetrum til að læra það sem hefur fleytt okkur flestum síðan. Og auðvitað byrjaði skólinn ekki fyrr en eftir réttir, svona í byrjun október og var búinn fyrir sauðburð, í maíbyrjun.
Að vísu var á þessum tíma orðið nokkuð um að krakkar færu í gagnfræðaskóla, aðallega að Laugarvatni eða þá Skógum. Þá tók þrjá vetur að ljúka gagnfræðaprófi, eða þá landsprófi sem veitti inngöngu í menntaskóla.
Eftir fullnaðarpróf barnaskóla var ég einn vetur í utanskólanámi hjá Kristínu í Hvammi, hún var stúdent og kunni allt sem ég þurfti að læra og vel það. Eftir það fór ég í Skógaskóla og lauk þaðan gagnfræðaprófi á tveimur vetrum.
Áður en ég lýsi Flúðahverinu nánar ætla ég að setja hér inn nokkrar myndir sem eiginlega ættu að fylgja Grafarhverfinu. Þær sýna muninn sem orðinn er á umhverfi Litlu Laxár á minni "örstuttu" ævi eða þar um bil. Gömlu myndirnar fékk ég í ævagömlu albúmi og gæti verið að Unnur, systir Helga í Hvammi, hafi tekið þær. Hinar tók ég sjálf uppi á ás um síðustu helgi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.10.2007 | 20:41
Þá var spilaður fótbolti fram í myrkur
Á sumrin, þegar fjölmennast var í hverfinu var oft kallað saman til fótbolta, krakkar voru látnir hlaupa á milli bæja og segja "það er bolti í kvöld". þeir sem höfðu verið í Garðyrkjuskólanum á Reykjum þekktu vel til þessarar íþróttar og höfðu jafnvel tekið þátt í alvöru keppni þar. Á þessum boltakvöldum var hvorki spurt um kyn eða aldur, allir voru með sem það vildu og aðrir fylgdust með af áhuga. Þar sem fjölmenni var oft á bæjunum voru lítil takmörk á því hversu margir voru í hverju liði, og lengd leiksins réðist oftast af rökrinu sem færðist yfir þegar leið á kvöldið.
Innarlega á Hveraheiðinni er langur melur, sem sveitungarnir notuðu sem æfingavöll fyrir kappreiðarnar, sem hestamannafélagið Smári hélt hvert sumar í landi Sandlækjar í Eystri hreppnum. Fátt gat komið í veg fyrir að við krakkarnir færum inn á heiði ef við vissum þar af æfingu, þau voru ekki á hverju strái mannamótin, svo hvert eitt var dýrmætt. Svo notuðum við völlinn stundum til einkakappreiða þegar við fórum á hestbak. Það sást ekki þangað að heiman.
Það kom stundum fyrir að Litla Laxá flæddi svo í vorleysingum að húsið heima í Garði varð umflotið og engum fært út. Oftast komst þó pabbi það sem þurfti í klofháum. En við vorum stundum inni heila daga og horfðum á jakana fljóta í kringum húsið. Sandhrúgur og klakahrannir voru svo langt upp á tún þegar sjatnaði í. Það væri gaman að vita hvernig fjölmiðlar nútímans myndu bregðast við álíka viðburði. Ég tala nú ekki um fargið sem viðlaga og bjargráðasjóðir landsins þyrftu að bera gerðist þetta í nútíðinni. Okkur fannst þetta ekkert nema spennandi.
Það bar nokkuð upp á sama tíma, að brúin var byggð yfir ána hjá Gröf og vegur lagður um allt hverfið, og börnin á bæjunum voru komin til þess þroska að vilja kanna heiminn fyrir utan. Síðan hefur byggingum fjölgað og fólkinu með, svo fátt er nú þarna með líku móti og áður . En áin er þarna enn og ásinn líka. Eyrin, mýrin, Hveraheiðin og hvammarnir þar fyrir innan. Gerðið og Ljónastígurinn . Þó að þúfurnar sýnist nú smærri og lækirnir litlir er margt með líku móti og einu sinni var. Grafarhverfið verður alltaf fyrir ofan ána.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.10.2007 | 17:15
Fjórir krakkar á fjórum árum
Garður var sá bær sem síðast hafði verið byggður í Grafarhverfinu. Við bakka Litlu Laxár nærri hverahólmanum. Þar bjuggu Einar Hallgríms og Sigurbjörg Hreiðarsdóttir, foreldrar mínir, með okkur systkinin fjögur fædd á fjórum árum, Helgu Ragnheiði, Örn, Hallgrím og Björn Hreiðar. Svo bættist Eiður í hópinn þegar ég var tíu ára. Við fengum hann fyrst að láni en skiluðum honum svo ekkert aftur.
Hjá okkur voru kaupakonur á sumrin, en oftast bara ein í einu. Húsrýmið bauð ekki upp á meira og sennilega fjárhagurinn ekki heldur til að byrja með. Gerða var einu sinni hjá okkur í heilt ár, hún var þýsk, en svo fór hún fram að Miðfelli og giftist honum Blomma. Á þeim tíma sváfum við öll í kojum inni hjá mömmu og pabba, það voru bara tvö svefnherbegi. Svo var ein lítil stofa, eldhús, gangur, klósett búr og geymsla. Allt var þetta ósköp lítið og það var ekki bað. Okkur var dýft í bala þangað til við gátum farið í laugina, sem var við húsvegginn og mátti kalla góð hlunnindi.
Hjá okkur var eingöngu garðyrkjubúskapur, nema hvað hænum var úthlutað endanum á vinnuskúrnum þegar hann kom til. En þær urðu að minkafóðri með árunum, þrátt fyrir árangursríkar veiðiferðir okkar systkina. Nokkrar kindur fengum við að hafa hjá Jóa í Hvammi, þann tíma sem hann stundaði fjárbúskap, og hest fékk ég í fermingargjöf. En allt var þetta samyrkjubúskapur okkar og hvammsmanna og kannski til komið af þeim ólæknandi áhuga sem ég hafði á skepnum.
Fyrst eftir að foreldrar mínir hófu búskap fór pabbi stundum á haustin í einhverja vinnu "af bæ" eins og sagt var. Ég man til dæmis að hann vann við lagningu símans um sveitina, með vinnuflokknum hans "Óla sím", sem var frá Eyrarbakka.
Bílfært var yfir ána hjá Garði og upp Hverabrekkuna að Grafarbakka, en einnig var vegur austur eyri og þar yfir ána upp í Kvíadalinn. Það var hin opinbera leið að Hvammi og Garði, en svo ef áin varð ófær var engum fært til okkar eða frá.
Reyndar var ekki mikið við bílveg að gera, við áttum ekki bíl fyrr en um 1956-8, en eitthvað fyrr komu jeppar að Gröf og Högnastöum, þangað var fært yfir ána frá Grund. En Helgi í Hvammi átti fyrsta jeppann í hverfinu, gott ef ekki sveitinni allri og hvern jóladagsmorgunn kom hann í heimsókn og spurði hvort við ætluðum í kirkju? Auðvitað vissi hann vel að við ætluðum þangað, mamma var í kórnum, en svona bauð hann okkur far með sér í jeppanum. Helgi var sjálfur organistinn í Hruna.
Rútubílarnir komu austan af eyri, en Sigujón bílstjóri sem sá um áætlunarferðirnar til Reykjavíkur gisti alltaf í Hvammi. Svo kom "Guli Halli" og hann var á miklu flottari rútu - gulri. Grafarhverfisferðirnar hafa sennilega komið til af þessari gistingu bílstjóranna, en þær ferðir urðu þó nokkrar. Þá var öllum íbúum hverfisins troðið í rúturnar - í sunnudagafötunum skiljanlega - það var alltaf farið á sunnudegi og þá voru allir í sunnudagafötum. Tekið var með nesti til dagsins og svo ekið af stað. Ég man eftir ferð að Gullfossi og Geysi og í annað sinn var farið á Þingvöll - það þótti mikil langferð. Einu sinni fórum við í Fljótshlíðina og svo líka í Þjórsárdal og víðar um Eystri hreppinn..... bara smá eftir - úr þessu hverfi. En sveitin er milklu stærri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2007 | 21:12
Þá var túnið slegið með hestum og sofið í hlöðunni
Næsta þrep á eftir Tanna var Gamli Rauður. Hann var líka vagnhestur og dró sláttuvélina með Tanna. Fyrst þegar ég man var allt slegið með hestasláttuvél, traktor var ekki til í Hvammi fyrr en seinna. Gott ef jeppinn var ekki notaður þar á milli. Galtar voru hlaðnir á túnunum og svo dregnir uppá vagn. Svo var dregið af vagninum inn í hlöðuna. Þá var allt hey laust, grænt þurrt og ilmandi. Mikið óskaplega var gaman að leika sér í hlöðunni. Grafin ofaní ilmandi heyið á meðan rok og rigning buldi á hlöðuþakinu, það var ekki slæmt. Stundum fengum við meira að segja að sofa í hlöðunni. Aumingja krakkarnir í nútímanum sem ekki þekkja heyið öðruvísi en í rúllum. Við fengum alltaf að vera með í heyskapnum, auðvitað ekki til nokkurs gagns, en það var bara svo gaman. Það var alveg ótrúlegt hvað bræðurnir Jói og Kjartan voru þolinmóðir þegar við eltum þá við útiverkin nærri því árið um kring.
Já Gamli Rauður - hann gat átt það til að hraða ferðinni. Ég man að ég fór einu sinni á honum í réttirnar sem voru þá fyrir framan Túnsberg. Þá hafði hann náð upp svo mikilli ferð þegar þangað kom að ég flaug framaf þegar hann staðnæmdist við réttarvegginn.
Réttirnar voru svo fluttar austur yfir ána og í Hrunavöllinn. Gömlu réttirnar voru hlaðnar úr grjóti, mér er sagt að ég færi þangað fyrst tveggja ára gömul á háhesti pabba. Það er dálítill spotti að ganga, inn yfir Hveraheiðina og svo inn með ánni. Nautagirðingin var hinumegin við ána. Eins gott, því þar voru um sumartímann skelfileg bölvandi naut sem gátu kannski sloppið út ef það sá krakka álengdar. Sæðingamennirnir voru ekki fundnir upp fyrr en löngu seinna.
Næsti reiðskjóti var svo Jarpur og mig minnir að hann væri bara þokkalegur reiðhestur. Á svipuðum tíma var svo hægt að fara á bak henni Jörp, en hún var alltaf heldur leiðinleg til reiðar, oftast með folald í eftirdragi og hin versta frenja í skapinu. Sló og beit ef færi gafst. Toppurinn á þessum árum var svo Jóa Rauður, sem enginn fór á bak fyrr en hann taldist sæmilega hestfær.
Síðan tóku við aðrir og er þá Gustur mér efst í huga. Okkur kom alltaf ljómandi vel saman, þó hann væri ekki allra. Þegar ég man fyrst var hundur í Hvammi sem hét Snati, svart og hvítflekkóttur. Hann varð óskaplega gamall og gat undir það síðasta varla komist upp brekkuna ef honum varð það á að staulast niðureftir.
Það var heilmikil garðrækt í Hvammi, bæði í görðunum heimavið og svo kartöflur austur á eyri. Helgi og pabbi voru í upphafi saman með gróðurhúsið sem seinna tilheyrði Garði og eftir það var ekki gróðurhús í Hvammi fyrr en bræðurnir tóku þar við búi.
Að vísu var lítið uppeldisgróðurhús undir fjósveggnum, það fyrsta sem byggt var í hverfinu og þar voru stærstu kóngulær sem ég hafði þá séð. Nú eru þær víða til og heita víst Krosskóngulær. Fyrir framan bæinn voru myndarleg reynitré. Ég taldi mér trú um að þau hefðu verið fluttt frá Hvammi í Dölum, en kannski komu þau bara frá Hruna eða jafnvel voru þau komin alla leið frá Danmörku. En Helgi hafði átt heima í Dölunum í barnæsku og á þessum árum lærði ég að þekkja þá sveit sem fjarlægan sælureit.
Það var póstafgreiðsla í Hvammi og þar hafði rútubílstjórinn aðsetur. Þá var farið til Reykjavíkur á einum degi og komið til baka þann næsta. Vegurinn lá um Kvíadalinn og þar var ekið yfir ána - væri hún fær.
Ég gæti víst endalaust skrifað um þetta óðal æskuáranna, en nú enda ég með myndum. Önnur er ný og sýnir leiðina inn að gömlu réttum. Hveraheiðina með fjárhúsinu sem þar var byggt þegar kindurnar komu, þá fékk ég að eiga nokkrar og taka þátt í búskapnum. Skeiðvöllinn innst á heiðinni, þar hleyptum við stundum gæðingunum - og sást ekki til okkar að heiman. Þarna var nautagirðingin við ána og það sést bæði til gömlu réttanna og nýju. Berghylsfjallið og bærinn á Berghyl, þar sem ég fór tíu ára á hrútasýninguna á nýja Ferguson traktornum hans pabba, með Erni og vini hans , sem nú er húsbóndinn á mínu heimili. merkilegt að ég skyldi fá að fara með - þeir reyndu alltaf að stinga mig af.
Hin myndin er af mér og einni kaupakonunni á hestbaki, gamli bærin í Hvammi er uppi í brekkunni. Seinna brann þetta hús og var þá byggt upp aftur með því móti sem nú er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.10.2007 | 22:27
Sungið um Dísu í dalakofanum og dansað í fjósinu
Ég átti heima í Hvammi fyrstu misseri ævinnar, á meðan verið var að byggja húsið okkar. Svo var ég þar meira og minna alla daga næstu ár. Ein af vinkonum mínum þar og leikfélögum var Solveig Guðmundsdóttir. Guðmundur faðir hennar var bróðir Helga og þekktur jarðfræðingur, en svo var hún líka skyld mér í móðurættina. Hún var í Hvammi flest sumur og við vorum þá mikið saman. Ég man okkur í æðislegum slagsmálum í brekkunni hjá kartöflukofanum. Það var brekkan sem við fórum að heiman uppeftir, Hvammsbrekkan eins og við sögðum. Þar slógumst við, kannski fimm eða sex ára gamlar vegna þess að hún sagðist þurfa að fara heim að "éta", en ég vildi meina að hún ætti að segja "borða". Við veltumst þarna í brekkunni hágrenjandi báðar, hárreyttum, klipum og börðum þangað til Helgi kom og sleit okkur í sundur. Skammaði okkur vonandi og rak hvora heim til sín.
Næsta dag vorum við aftur bestu vinir og fórum þá kannski í fjósið á mjaltatíma þar sem við dönsuðum sömbu syngjandi um hana "Dísu í dalakofanum". Með því reyndum við að afla okkur vinsælda hjá fjósamönnum, en ekki er ég viss um að það hafi alltaf tekist. Kannski fengum við að gefa kálfunum sullið sitt, það var mjólk með méli útí, gómsæt kálfafæða. Það kom fyrir að við fengum okkur líka mél í lófann, en ekki þó nema það væri síldarmjöl. Það var ágætt á bragðið og vel hægt að slá með því á sultinn fram að kvöldmat.
Hestana í Hvammi mátti ég nota eins og ég vildi, um leið og ég gat komist á bak.
Það byrjaði með Tanna, en hann var fyrir vagninum þegar mjólkin var flutt yfir ána, upp hverabrekkuna og á brúsapallinn á Grafarbakkahlaðinu. Þar tók Brynki Vald brúsana og setti upp á mjólkurbílinn. Fyrst fórum við þessar ferðir með öðrum, en svo gátum við alveg farið ein. Mjólkurbrúsarnir voru látnir á vagninn og svo rataði Tanni, við vorum eiginlega bara ferþegar hjá honum.
Tanni var grár, (hvítur vildum við nú meina) og hafði verið Jóa gefinn í tannfé frá afa sínum í Gröf. Hann var alla tíð vagnhestur og barnahestur hinn besti. Nú leita ég að mynd af okkur Tanna og læt svo duga í dag. Við Sólveig og Dúna á Tanna með aktygjunum, ég er víst öftust og minnst. Og svo er ég ein á Tannabaki á hinni myndinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.10.2007 | 20:22
Rotturnar voru jarðsettar með viðhöfn
Hvammur var byggður úr landi Grafar og þar bjuggu á þessum árum Elín, dóttir Guðjóns, og Helgi Kjartansson frá Hruna. Þeirra börn vor Jóhannes, Kjartan og Guðrún. Þar að auki var yfirleitt vinnufólk á heimilinu mest þó yfir sumartímann.
Í Hvammi voru hestar og kýr, seinna komu líka svín og kindur. Svo man ég þegar í bústofninn bættust hænur - aldeilis makalausar hænur. Allar hænur sem við höfðum þekkt til þessa voru venjulegar mislitar eða hvítar hænur, en þessar voru aldeilis allt öðruvísi. Þær voru allar brúnar og þær voru frá útlöndum, alla leið frá Ítalíu. Þetta voru ótrúlegar hænur. Reyndar efast ég um að þær hafi komið alla leið frá Ítalíu en merkilegar voru þær samt. Þetta hænsnakyn hét "Brúnir Ítalir".
Þær voru settar í svartan hænsnakofa sem var sérstaklega byggður fyrir norðan fjós. Það var við hliðina á rottukirkjugarðinum þar sem við jörðuðum haughúsrotturnar. Það voru rotturnar sem við höfðum áður setið og horft á leika sér í haughúsinu. Tímunum saman gátum við setið á þúfum fyrir utan haughúsopið og fylgst með þeim dansa þar inni. En svo fannst fullorðnum þær orðnar of margar og það var eitrað. Þá tókum við að okkur útfararþjónustuna.
Á þessum árum vorum við systkinin börnin í hverfinu, ásamt Áshildi í Gröf og Dóru á Högnastöðum. Í Hvammi voru allir eldri en við, nema börnin sem komu þar til sumardvalar. Mér varð brekkan létt upp að Hvammi og mig grunar að svo lengi sem ég hafði ekki skyldum að gegna heima hafi ég verið oftar þar efra. Í brekkunni fyrir ofan bæinn var stór trjágarður sem Helgi hafði plantað og svo annar minni fyrir norðan fjós. Fyrir ofan bæinn var vindmylla sem framleiddi rafmagn, tröppur voru upp eftir öllum mylluturninum og þyrftum við á því að halda að sýna okkur - fyrir utanaðkomandi krökkum til dæmis, klifruðum við þar gjarnan upp í topp. Litill kofi var uppi í brekkunni, Gunna átti hann og finnst mér ekki ósennilegt að "afi í Gröf" hafi smiðað þetta hús fyrir afastelpuna sína.
Húsið í Hvammi var stórt og með sérstöku sniði. Tvær stórar bustir og tenging á milli. Í kjallaranum var smíðahús Guðjóns, þvottahús, eitt íbúðarherbergi og svo mjólkurhúsið. Á hæðinni var eldhús, búr, borðstofa og tvær stofur, en síðan svefnherbegin fimm uppi á lofti. Í millibyggingunni var geymsla fyrir allt mögulegt og smiðjan bakatil. Þar smíðaði Helgi úr járni, skeifur og þess háttar. Fjósið og hlaðan voru svo í norður risinu, haughúsið undir og óinnréttað loft fyrir ofan. Þar höfðu einu sinni verið hænur en ég kynntist þeim ekki, en loftið var kallað "hænsnaloftið"........
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.10.2007 | 10:12
Epli frá Danmörku
Í blágresisbrekkunni austan og neðan við Högnastaðabæinn átti hún Thyra Loftson sumarbústað, sem þar af leiðandi var kallaður Týrubústaður.
Thyra átti þennan bústað ekki ein, maðurinn hennar hét Pálmi Loftsson og þau áttu dóttur sem hét Björg. Týra, eins og við kölluðum hana, var tannlæknir og þar að auki dönsk. Hún gaf okkur gjarnan epli ef við komum þar í sendiferð. Oftast voru þau orðin hundgömul og hálfónýt, en það þótti okkur ekki nema eðlilegt, það er löng leiðin frá Danmörku, og við borðuðum þau með bestu lyst. Þetta voru þó epli og ekki von á öðrum fyrr en á jólunum.
Bústaðurinn var eingöngu notaður á sumrin og þegar árin liðu var minna um hann hirt. Að síðustu kom bara Björg í snöggar helgarferðir með öðrum unglingum, sem mundu svo ekki alltaf eftir að loka á eftir sér þegar heim var haldið. Það leiddi svo til þess að við hverfiskrakkarnir fórum að laumast þarna inn og þótti það hið mesta glæfraspil og launungarmál ef við gátum hvíslast á um það að við hefðum komist inn í Týrukofa í skjóli myrkurs. Ég man ekki eftir að við skemmdum neitt, enda var bústaðurinn þegar hér var komið auður og yfirgefinn, en auðvitað áttum við ekkert að vera að fara þarna inn.
Nú röltum við inn eftir götunni sem liggur utaní ásnum ofan við Klapparhylinn. Eins og allir vita er sá hylur í Litlu Laxá og hefur oft gefið góða veiði.
Þetta er eiginlega bara göngustígur, í mesta lagi fært með hest fyrir vagni. Þarna var ekki farið á bílum, enda lítið um þá í hverfinu. Þetta er leiðin sem hann afi í Gröf gekk á hverjum degi á leið í smíðahúsið sem var í kjallaranum í Hvammi. Hann Guðjón gamli var nefnilega listasmiður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.10.2007 | 09:36
Hvers vegna geta hænur ekki flogið?
Högnastaðabærinn stóð fremst á Högnastaðaásnum, háreist hús, kjallari hæð og ris. Eldhúsið var í kjallaranum og þar man ég eftir mér við langt borð, voxdúklagt með mjólkurglas og kleinur fyrir framan mig. Engin var sú sendiferð að ekki væru manni boðnar góðgjörðir og fimm ára stelpa í eggjakaupaleiðangri afþakkaði ekki slíkt boð. Eggin voru keypt á Högnastöðum af því að þar voru á þessum tíma einu hænurnar í hverfinu.
Eitt sinn skiluðum við Örn okkur ekki úr eggjakaupaferð og þegar eftir var leitað vorum við löngu farin frá Högnastöðum. Var nú hafin leit og þótti næsta víst að angarnir litlu, fjögurra og fimm ára hefðu lent í villu. Þegar leitin stóð sem hæst heyrði Kristbjörg á Högnastöðum einhvern hávaða í hænsnakofanum og datt í hug að minkur væri þar á ferð. Þegar hún kom inn fann hún "vesalings týndu" börnin sem voru önnum kafin við að kenna hænunum hennar að fljúga. Tóku hverja af annarri fóru með þær á einhvern stall eða kassa og létu svo detta. Einhver vængjatök voru þá tekin sem þótti gott. Þetta voru einu fuglarnir sem við höfðum séð sem ekki fengu tækifæri til að fljúga.
Hjónin á Högnastöðum hétu Kristbjörg Sveinbjörnsdóttir og Guðmundur Guðmundsson. Dætur áttu þau fjórar, Ástu, Sigrúnu, Ingibjörgu og Halldóru, sem var yngst og jafnaldra mín. Þess vegna var mörgum sunnudögum eytt á þessum bæ. Aðeins man ég eftir Ingibjörgu gömlu, sem var móðir Guðmundar. Hún sat og prjónaði á rúminu sínu í enda stofunnar uppi. Svo var þarna gömul kona sem var kölluð Tobba, Þorbjörg hét hún víst og var vinnukona, sem ég efa þó að hafi fengið meiri laun en fæði og húsnæði. Ég man að hún sat ekki til borðs með heimilisfólkinu heldur sat hún ein við endann á eldhúsbekknum. Hún bar þvottinn niður að hverahólmanum, þvoði þar og bar til baka - blautan, jafnt sumar sem vetur.
Þarna voru af augljósum orsökum engar kaupakonur á sumrin. Það var búið með kýr og kindur, auk hænsnanna og svo áttu Högnastaðir gulrótagarð og gróðurhús uppi við hverahólmann og hitarétt þar.
Ég man eftir hundi á Högnastöðum, sem í okkar munni hét Kópi. Kópur er nú líklegra að hafi verið hans rétta nafn, hann var gráyrjóttur, töluvert loðinn og ekki vinsæll meðal barna.
Við litum dálítið upp til Högnastaðasystra, þær voru líka flestar eldri en við og mikið rosalega var hún Inga orðin fín kona þegar búið var að ferma hana. Í háhæluðum skóm og allt. Dóra átti hjól áður en okkur dreymdi um slík tæki og hún leyfði okkur að njóta góðs af því. Á hennar hjóli lærði ég á meðan hún reytti gulrótagarðinn með systrum sínum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.10.2007 | 21:01
Hér sé Guð
..... Það var Emil í Gröf sem kenndi okkur Erni bróður mínum að berja að dyrum. Við komum oft að Gröf, ýmist í sendiferðum eða til að leika okkur. Mér er sagt að ég hafi fyrst verið send þangað ein, þriggja ára gömul, að fá lánaðan hitamæli. Örn var þá svo rosalega veikur og enginn annar heimavið sem gat farið þetta.
Á sunnudögum var okkur gerður dagamunur með því að leyfa okkur að fara í heimsókn á aðra bæi og leika okkur við krakkana þar. Svo þegar við stálpuðumst var skotist á milli hvenær sem færi gafst.
Já - ég minntist þess þegar Emil kenndi mér mannasiði. Við Örn gætum hafa verið fimm og sex ára og send að Gröf til að fá eitthvað lánað. Lánastarfsemi var mikil á milli bæja á þessum árum. Við stóðum á tröppunum og létum höggin dynja á hurðinni. Ýmist annað eða bæði í einu börðum við í síbylju. Opnuðust þá dyrnar og Emil stendur þar heldur þungbrýnn. Hann sagði að svona ætti ekki að banka, við ættum bara að berja þrjú högg í einu, og hugsa um leið -1. Hér - 2.sé - 3.Guð - og bíða svo. Hann sýndi okkur þetta og lokaði svo á nefið á okkur. Við reyndum hvort galdurinn virkaði og það stóð ekki á því, hann opnaði með það sama, kíminn á svip. Síðan kann ég að berja að dyrum.
Í Gröf var tvíbýli á þessum árum. Í austurbænum bjuggu Arnór og Stína og sonur þeirra, sem var kallaður Laugi átti þar heima líka. Ég man eftir að hafa komið inn í litla bæinn þeirra og af einhverju verður mér hugsað til "litlu Gunnu og litla Jóns". Inni í þessari litlu stofu var einstaklega snyrtilegt og þar var ákaflega góð lykt, sem ekki fannst í öðrum húsum. Það var vegna þess að hann Arnór var söðlasmiður og leðurlyktin lá í loftinu. Þar varð maður líka alltaf að þiggja mjólkursopa, hvort sem hún var með "flygsu" eða ekki.........
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.10.2007 | 14:20
Þegar Grafarhverfið var "allur heimurinn"
Nú legg ég af stað í langa ferð, til sveitar sem einu sinni var og margir nútímamenn sáu aldrei. Sveitin er þó enn til, og er meira að segja enn sjálfstæð, sem er nú ekki hægt að segja um margar sveitir á Íslandi. En hún er ekki sjálfri sér lík lengur. Allt er þar með öðru móti en á þeim dögum sem ég man best. Breytingin er ekki endilega slæm og jafnvel bara mjög góð á nútímavísu. En það er allt svo miklu flóknara, stærra og fleira. Ætti ég að skrifa þessa sögu um sveitina í nútímanummyndu mér fallast hendur, ég veit ekki einu sinni hvað allt fólkið heitir. Sveitin heitir Hrunamannahreppur.
Grafarhverfið eins og ég man það fyrst
Hverfið dregur nafn af þeim bæ sem þar var fyrst byggður. Bærinn í gröf stendur við bakka Litlu Laxár fremstur þeirra bæja sem eru þarna ofanvið ána. Norðanvið myndi nú víst einhver segja, en við áttum heima fyrir ofan ána. Í Gröf bjó Emil Ásgeirsson og konan hans hún Rúna. Hún hét nú reyndar Eyrún Guðjónsdóttir, en við létum Rúnunafnið duga. Börnin þeirra voru þrjú, Guðjón, Guðrún og Áshildur. Þar bjó lika afinn á heimilinu hann Guðjón Helgason, við kölluðum hann "afa í Gröf". Bærinn í Gröf var í gömlum burstabæjarstíl, með lágri viðbyggingu norðanvið. Ekki fannst mér þar neitt fornfálegt innandyra og bara ágætlega rúmgott. Enda var þess full þörf um sumartímann, því þar var ævinlega fans af kaupakonum og einstaka strákur slæddist með. Emil tók stundum til sín stráka sem áttu í vandræðum með sjálfa sig og var einstaklega laginn í umgengni við þá.
Í Gröf var búið með kýr og kindur og áreiðanlega voru þar hestar til vinnu þó ég muni ekki að nefna þá. Svo var þar töluverð garðyrkja bæði í gróðurhúsum og úti, enda mikill jarðhiti þarna við Grafar - hverinn. Hann var austanvið bæinn nærri ánni. Ekki man ég eftir hundi í Gröf og mætti segja mér að hafi enginn verið. Í túninu rétt norðan við bæinn var, og er enn, skeifulöguð tjörn, sem við börnin notuðum óspart til iðkunar vetraríþrótta, þó í öðru formi væru en nú þekkist. Aldrei áttum við systkinin skauta eða skíði, en eitthvað held ég að Grafarkrakkarnir hafi átt af slíkum gersemum. Handan við götuna, sem lá til fjárhússins á Hofunum, uppi á brekkubrúninni var þúfnaþyrping sem var kölluð Lögrétta og þar var okkur sagt að hefði verið þingstaður sveitarinnar fyrir óralöngu. Það getur vel verið rétt, í Gröf var þingstaður áður fyrr.
Þarna í Lögréttunni lékum við okkur oft. Þar var búið með kýr og kindur, heyjað og hirt í hlöður. Drullukökur voru bakaðar í tugatali og skreyttar sóleyjum og fíflum voru þær svo bornar fram með kaffinu á glerbroti. Þarna byggði svo Gunna bæinn sinn og nefndi Sunnuhlíð.
Á þessum tíma var engin brú yfir ána og ekki bílfær vegur. Leiðin okkar í skólann lá um hlaðið í Gröf og óðum við svo yfir ána. Oft í "skarðinu" eins og við sögðum, en þar var vað á ánni beint fyrir framan bæinn. Við byrjuðum ekki í skólanum fyrr en tíu ára og þá hafa stígvélin verið orðin nógu há til að við björguðumst yfir. En það kom líka fyrir ef mikið var í að við vorum borin á baki og svo sótt aftur síðdegis. Oftast var það Guggi sem sá um þessa flutninga, en Áshildur systir hans var mér samferða í skólann. Það kom líka fyrir að áin var ófær með öllu og þá varð bara að taka því. Mest fannst okkur gaman ef ófært varð og við í skólanum. Þá varð að láta okkur gista þar og það var sjaldgæf skemmtun .............
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar