Færsluflokkur: Dægurmál
22.10.2007 | 20:59
Aldrei dansaði ég i Hruna
Eftir að ég komst á þann aldur að hægt var að treysta mér til að sitja kyrr heila guðsþjónustu, var ekki messað svo í Hruna að ég væri þar ekki viðstödd. Á þriðja bekk að framan, vinstra megin, sat ég ásamt bræðrum mínum eftir því sem þeir urðu "messufærir". Prestsfrúin sat fyrir framan okkur með börnin sín og svo organistinn Helgi fremst við orgelið.
Mamma var í kórnum og valdi okkur sjálfsagt sæti þar sem hún átti auðvelt með að ná augnsambandi færi eitthvað úrskeiðis. Ég gaf henni ekki mikið færi á því sambandi, kunni utanað allar myndirnar á veggjunum og stjörnurnar í loftinu. Gylltar stjörnur í bláum ferhyrningum, taldi þær í hverri messu og finnst nú skömm að muna ekki hvað þær eru margar. Gæti mig rámað í níu þversum og svo eitthvað fleiri langsum? Innan við tvöhundruð held ég þær séu.
Presturinn í Hruna hét Sveinbjörn Sveinbjörnsson og var ættaður undan fjöllunum. Hann bjó einn til að byrja með en kvæntist svo henni Ölmu Ásbjarnardóttur. Ekki man ég eftir öðru íbúðarhúsi í Hruna en því sem nú stendur, en það var byggt 1950.
Alma var ekkja og átti fyrir tvö börn, Magga og Dísu, fyrri maðurinn hennar hafði verið flugmaður og farist í flugslysi. Svo eignuðust þau Sveinbjörn tvo syni, Bjössa og Palla.
Í Hruna var gamall maður(kannski var hann ekkert gamall) sem hét Guðjón, hann annaðist búskapinn með prestinum, sem var töluvert gefinn fyrir skepnur. Guðjón átti bleikan hest sem hét þá eðlilega Bleikur. Þessi hestur var áreiðanlega það dýrmætasta sem Guðjón átti og ég man hvað ég fann mikið til mín þegar ég fékk hann einhverntíman lánaðan, það fengu ekki allir, eða datt kannski ekki í hug að spyrja? Einu sinni rákum við á fjall með Guðjóni, þá var farið inn með Hrunaásunum og svo Berghylsfjalli austanverðu. Allt aðra leið en var venjulega farin.
Fyrir ofan bæinn og kirkjuna er klettur sem heitir "Hrunakarlinn", hann er eins og stórskorinn haus út úr klettunum þar uppi. Þarna uppi á brúinni gat maður séð, með góðum vilja, móta fyrir útlínum gömlu kirkjunnar sem einu sinni var þar uppi. Kirkjunnar sem sökk ofan í jörðina þegar dansað var í henni á nýársnótt. Ég hefði gaman af að vita hvað eiginlega gerðist þar, svona sögusögn verður ekki til af engu.
Þar innaf eru svo Hrunaásarnir og Hrunavöllurinn breiðir úr sér fyrir neðan, allt vestur að Litlu Laxá. Þar vestast voru réttirnar byggðar og standa enn, þó hrörlegar séu.
Einu sinni vorum við fjórir krakkar send að leita að hestunum í Hvammi. Þetta var á átta til tíu ára bilinu. Við fórum af stað eftir hádegi og leituðum fyrst um allt heimavið, í ásnum og inní hvömmum og svo um allt Túnsbergsland. Engin hross. Við vorum oft send svona ýmislegt, við gerðum ekki illt af okkur á meðan.
Til að gera langa sögu stutta vorum við komin rétt fyrir myrkur efst uppá hrunaása og horfðum niður að Þverspyrnu þar sem heimafólk var að taka saman hey. Svo fór að dimma og við sáum ekkert meira í kringum okkur og vissum reyndar ekkert hvaða bær þetta hafði verið.
Presturinn og Helgi í Hvammi fundu okkur í svartamyrkri þarna uppi í ásunum. Þá var búið að leita mikið og líklega fengu þeir ábendingu frá heyskaparfólkinu um undarlega krakka á skrýtnum stað. Þeir kölluðu okkur til sín, en ekki vissum við nú að við værum týnd. Þá fengum við kakó og mjólkurkex í eldhúsinu hjá Ölmu áður en Helgi fór svo með okkur heim í jeppanum.
Þegar við fermingarsystkinin gengum til spurninga gerðum við það í bókstaflegum skilningi. Við gengum upp að Hruna. Það var gaman í spurningum hjá séra Sveinbirni. Skemmtilegast þó og eftirminnilegast daginn sem músin hljóp inn í orgelið og við vorum allan tímann að reyna að ná henni. Það tókst á endanum og við fórum inn í eldhús til Ölmu og fengum eitthvað gott að borða áður en við fórum aftur heim.
Hrunalaug er dálítinn spöl fram með ásunum austan við bæinn. Lítil laug sem áður var notuð til sauðfjárbaða, en á seinni árum eingöngu fyrir fólk. Laugin er af sumum talin heilsulind og ég man eftir að hafa einu sinni heyrt um dreng sem þar var baðaður fárveikur og batnaði af. Kannski rétt, alla vega engin ástæða ti að rengja það.
Ég hef oft farið þarna í bað og bara haft gott af. Unglingar í sveitinni hafa löngum komið þarna við og dýft sér í, helst á björtum sumarnóttum. Alveg einstaklega hressandi.
Ein lítil mynd frá Hrunalaug.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2007 | 22:31
Rjómabúið við Áslæk
Nú liggur leiðin yfir Kvíadalinn og upp á Mela. Þar var rófugarður og grænmetisgeymsla í jarðhúsi, þetta var samyrkjubúskapur pabba og Sigga Tomm.
Við Áslækinn voru rústirnar af rjómabúinu sem þar var einu sinni. Áður en hann Brynki fór að koma á mjólkurbílnum til að sækja mjólkina og flytja hana niður á Selfoss, var mjólkin flutt hingað frá bæjunum í sveitinni og konur, sem höfðu nafnbótina rjómabústýrur, gerðu það sem fyrir ennþá fleiri árum, var gert á hverjum bæ - "þær komu mjólkinni í mat". Það var svo langt síðan þessu lauk, að nú voru veggirnir einir uppistandandi og gluggatóftirnar gláptu glerjalausar niður eftir læknum.
Í Ási bjuggu Steindór og Guðrún. Þangað kom ég aldrei og þekkti þau bara af afspurn. En hrossin í Ási þekkti ég vel og dáðist að, þar sem þau voru á beit fremst í Hrunavellinum. Þvílík litadýrð! Skjótt í ótrúlegustu litbrigðum, brúnskjótt og gráskjótt flottast. Hjá okkur var allt brúnt eða rautt. Eiríkur var á þessum tíma einn orðinn heima af börnum hjónanna í Ási og hann tók þar svo við búi.
Ég kom hins vegar stundum að Skyggni, þar sem Kristín frá Ási bjó með manninum sínum honum Stefáni. Hann var oft að heiman og fór þá til sjós, helst í Grindavík held ég. Nokkur vor hjálpaði pabbi Stebba að setja niður kartöflurnar, því við áttum niðursetningarvél. Þá tók hann mig með sér, af því ég var elst af okkur og krakkarnir í Skyggni líka öll yngri. Þau voru Gunna, Denni, Jónína, og Gummi.
Pabbi ók traktornum og ég sat aftan á vélinni við hliðina á Stebba. Ég var heldur uppburðarlítil við hliðina á þessum karli sem ég þekkti svosem ekkert. Það var alltaf kalt og moldin rauk í augu og nef. Stebbi tók í nefið og tóbaksblandaður sultardropinn datt af og til á eftir karöflunum ofaní trektina.
En þessar ferðir borguðu sig alltaf áður en lauk. Þegar búið var, tók Stebbi okkur með heim til sín. Krakkarnir voru sofnaðir, það var orðið framorðið. Pabbi fékk kaffi og koníak ,en ég Mackintos eins og ég gat í mig troðið. Ég hugsa að þetta hafi verið eini bærinn í sveitinni sem gat boðið uppá svo sjaldgæft gómsæti, en það var að þakka sjómennsku Stebba. Svo ók pabbi heim, góðglaður á traktornum og ég ánægð á brettinu, enginn annar en ég fékk svona fallegt og gott sælgæti. Vonandi fengi ég að fara aftur næsta vor. Það var komin nótt og allir sofnaðir heima.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.10.2007 | 21:13
Grafarbakki er góður staður
Grafarbakki - það hlýtur að vera ástæða fyrir því að svona bæjarnafn verður til. Okkur fannst nafnið aldrei nema eðlilegt, enda horfðum við daglega upp á bakkann neðan frá lægðinni okkar, sem fyrir mörgum árum hafði tilheyrt jörðinni Gröf.
Brattur bakkinn upp frá Litlu Laxá, alveg ofan frá Kvíadal og fram að Torfdal gat ekki heitið neitt annað en Grafarbakki. Systkinin úr vestubænum byggðu sér hús þarna á bakkanum
Á Reykjabakka bjuggu Þóra Tómasdóttir frá Grafarbakka og Jón Einarsson frá Reykjadal. Nöfn þeirra fyrri heimila sameinast þarna í einu. Þau hjónin eignuðust fyrst hann Tómas Þóri en seinna komu svo Einar, Reynir og Þröstur.
Þarna var allt frekar smátt. Lítið hús, fáar kýr, enda jörðin líklega ekki stór. Dálítil garðyrkja niðri í Hofum, sem er fremsti hlutinn af eyrinni. Við braggann í Hofunum voru líka "hrútar". Ekki lifandi hrútar sem jörmuðu, heldur dauðir hrútar úr járni sem dældu vatni upp til bæjanna. Þó þeir ekki jörmuðu gáfu þeir frá sér hljóð - paff - plaff - plaff - sí og æ, alla daga og nætur, sumar og vetur. Við fórum gjarnan um Hofin þegar við fórum fram í Flúðahverfi. Á eyrinni höfðu allir grafarbakkabæirnir sín garðlönd og það kom að því að Siggi Tomm sneri sér alveg að garðyrkjunni.
Fremst á eyrinni var sumarbústaður í stórum trjágarði og bræðurnir sem áttu hann ásamt móður sinni Jóhönnu áttu hluta af garðlandinu þarna, og einnig gróðurhús uppi á bakkanum. Þessir bræður hétu Bjarni, Haraldur, Hróbjartur og Grímur Bjarnasynir og voru ættaðir frá Sóleyjarbakka. Þessi rekstur gekk undir nafninu Gróður h/f og Siggi var þeim til aðstoðar við ræktunina. Bræðurnir bjuggu allir í Reykjavík. En þetta h/f varð ekki langlíft og gróðurhúsið á bakkanum hrundi hægt og hljótt og brakið týndist í hávöxnu grasinu þarna á brekkubrúninni.
Í austurbænum á Grafarbakka bjuggu Kristófer og Kristín og þar var hjá þeim amma - Katrín - mamma Stínu. Það var hún sem gaf hænunum sem voru í kofnum ofan við hverabrekkuna.
Kristófer og Stína áttu tíu börn, sem öll voru á svipuðum aldri og við. Dálítið merkilegt, þar sem við vorum helmingi færri. Þau voru Jón, Emil, Eiríkur, Björk, Kjartan,, Gunna, Maja, Hlíf, Gyða, og Hreinn. Í byrjun var reynt að aftra för okkar yfir ána, en þegar fram liðu stundir varð ekki komið í veg fyrir að þessir hópar blönduðust, og þótti gott að yfirleitt tókst að draga rétt í sundur fyrir svefninn.
Í eldhúsinu í austurbænum var hveravatnið notað til eldunar, með einhverju því móti sem ég lærði aldrei almennilega að skilja. Pottar voru greyptir ofaní eldhúsbekkinn og þar í var kraumandi hver. Kristófer var klár kall og hefur örugglega hannað þessa búbót.
Enn í dag sé ég ekki alveg fyrir mér hvar allir krakkarnir sváfu um nætur, en þau virtust alltaf ágætlega úthvíld. Þau voru látin taka til hendinni svo um munaði, ég man að eftir Kristófer var haft að það væri nógur tími til að nærast þegar hægðist um við heyskapinn. Það var aldrei stjanað við þau, en þau voru og eru enn, samhentari en flest systkin sem ég hef kynnst, og vinir vina sinna svo sjaldgæft er.
Kristófer átti Weapon bíl og tók að sér fólksflutninga á dansleiki og aðra mannfagnaði, það myndu heita sætaferðir á nútíma máli. Þar voru líka vörubílar, traktorar og ýmis önnur tæki sem ekki voru til á öðrum bæjum.
Austast á bakkanum var kofi sem var kallaður Helgakofi. Hann átti Helgi Steinberg, en var þar sjaldnast. Þetta þótti okkur hálfgert draugahús og komum þar helst ekki nærri. Helgi þessi var Þórðarson og bróðir Tómasar í vesturbænum. Hann hafði verið barnsfaðir Tobbu á Högnastöðum, sem svo missti það barn, en varð upp frá þessu til æviloka lítilsigld vinnukona á heimili bróður hans og svo bróðursonar á Högnastöðum. Helgi var líka pabbi Blomma í Miðfelli, en Jón gamli, pabbi Dodda og Þóru, var einn af þessum Þórðarsonum ef ég man rétt. Þetta voru víst ekki einu börnin sem Helgi átti en við þekktum það ekki. Við vildum sem minnst nálgast þennan mann.
Einu sinni vorum við að taka upp kartöflur austur á eyri, beint fyrir neðan grafarbakkann, þar sem brattast er. Þá kom Eiríkur Kristófersson á traktor með kerru fulla af rusli - grænmetisúrgangi - til að sturta þar fram af, ofan í ána. Þá var Eiríkur bara tíu til tólf ára strákur.
Hann bakkaði útaf veginum, en í þetta sinn heldur langt svo kerran fór framaf og dró traktorinn á eftir sér niður brekkuna, svona 30 - 40 metra fall. Eiríkur flaug af á leiðinni og hefur það líklega orðið honum til lífs því traktorinn lenti á hvolfi í klessu á klöppinni. Eiríkur í Túnsbergi var í smíðavinnu hjá Kristófer og sá hvað gerðist. Hann var örfljótur að komast til nafna síns og sá þá að hann var lifandi, en eitthvað töluvert brotinn. Við stóðum stjörf í kartöflugarðinum og Kristófer uppi á bakkanum. Ekki minnist ég þess að Eiríkur grenjaði.
Eiríkur átti eftir að brotna meira en þetta, og einu sinni var það mér að kenna. Ég henti honum ofanaf stabba í hlöðunni svo hann handleggsbrotnaði í lendingunni. En ég ætlaði ekkert að brjóta hann.
Þegar ég man fyrst var sæmilegasta tún fyrir norðan Grafarbakkabæina, í brattanum niður að ánni. Þar var alltaf heyjað, að vísu með orfi og ljá og rakað með hrífum. En þarna var væna tuggu að hafa þangað til áin hafði étið svo mikið af bakkanum og túninu að ekki tók því lengur að slá það. Það var trjágarður handan við hlaðið á Grafarbakka, þar hafði verið plantað nokkuð mörgum trjám sem þrifust vel. Og austan við bæinn á leiðinn austur í Kvíadalinn var annar garður. Þetta var held ég svolítið sérstakt á þessum árum, að verið væri að setja niður svona "óþarfa", það var meira lagt uppúr "björginni". Ég trúi það hafi verið Katrín og Jón - foreldrar Stínu sem þetta gerðu. Og er þá lokið þætti "bakkabúa".
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.10.2007 | 21:06
Sjö stelpur og Tomsens magasín
Olgeir og Svana bjuggu í Hellisholtum og áttu soninn Garðar. Hann var jafnaldri minn og fermingarbróðir, sá eini, en við stelpurnar vorum sjö. Þarna var hefðbundinn búskapur með kýr og kindur, en þar að auki var Olgeir ýtumaður og mikið í vinnu um alla sveit. Svoleiðis voru bændur oft í gamla daga, þeir kunnu allt mögulegt og unnu við það meðfram búskapnum. Gæti verið að konurnar hafi stundum séð um búið að mestu?
Svana í Hellisholtum var frá Dalbæ, systir Palla og Madda, og svo voru Gunna í Galtafelli og Sigga í Bryðjuholti systur þeirra. Við systkinin komum stundum að Hellisholtum til að leika okkur við Garðar, en ég man þar held ég ekkert sérstakt.
Á Grafarbakka í vesturbænum bjuggu Þóra Loftsdóttir og Tómas Þórðarson, hann var bróðir Guðmundar, afans á Högnastöðum. Sigga dóttir þeirra hjóna var þar líka i heimili og bjó með foreldrunum. Svo giftist hún Magnúsi og þau tóku við búskapnum. Það voru vinnumenn þarna á sumrin. Sá eftirminnilegasti var Daddi úr Grindavík. Seinna varð hann Dagbjartur Einarsson útgerðarmaður. Hann var alveg rosalegur gæi og ég efast að nokkurn sveitastrák hafi dreymt um að feta í sporin hans. Sem betur fer var ég bara krakki þegar hann var upp á sitt besta,( ég var seinþroska) svo ég slapp við allar hjartasorgir hans vegna.
Á grafarbakkahlaðinu var brúsapallur og þangað fluttum við mjólkina frá Hvammi. Mjólkurbílstjórinn hét Brynki Vald og hann borðaði í vesturbænum. Stundum sat í með honum kona sem hét Bella og var frá bæ í Flóanum sem hét Kjartansstaðir. Hún hafði með sér tvo smástráka sem hétu Siggi og Búmmi. Þau biðu í trjágarðinum austur á Stöðli á meðan Brynki sótti mjólkina og borðaði. Sjálfsagt með nesti.
Sigurður Tómasson byggði sér hús á Hverabakka og átti Svövu systur prestsins fyrir konu, þau eignuðust svo dæturnar Önnu, Þóru og Sjöfn. Ég var oft fengin til að passa þær systur þegar ég stálpaðist og Anna var líklega fyrsta barnið sem ég sá nærri nýfætt.
Siggi bjó til að byrja með í samvinnu við foreldrana og Siggu með kýrnar. Þar í hlöðunni var allt morandi af villiköttum og kettlingum sem við vorum iðin við að veiða og fara með heim. Mikið reyndum vð að fá leyfi til að hafa einn eða tvo hjá okkur, en vorum alltaf send með þá til baka. Lengi fram eftir árum var algerlega kattalaust okkar megin árinnar.
Á Laxárbakka byggði Sveinn Tómasson og bjó þar í nokkur ár með Sigrúnu konu sinni. Þau áttu tvo syni, Bjarna og Júlla og svo áttu þau dóttur, en ég man ekki hvort hún var fædd þegar þau fluttu úr sveitinni niður á Selfoss.
Eftir að Sigrún og Svenni fóru, notaði Siggi á Hverabakka húsið fyrir verslun í einhvern tíma. Það var fyrsta búðin í sveitinni fyrir utan tyggjó og tóbakssöluna í kjallaranum hjá Bjarna Halldórs á Gilsbakka..
Þessi búð var ýmist kölluð Siggabúð eða Tomsens magasín, Þarna fékkst sitt af hverju og ég man að við Örn fengum þar fyrstu jólagjöfina sem við gáfum foreldrunum og keyptum á eigin spýtur. Það var veðurhús, með karli og kerlingu, sem komu og fóru út og inn eftir veðri. Hún var úti í góðu, en hann ef veðrið var vont. Það einkenndi kaupmennsku Sigga hvað sumar vörurnar geymdust ótrúlega illa. Þegar við komum þar, sem var oft, var alltaf eitthvað sem lá undir skemmdum og varð að éta eða drekka strax. Lakkrís man ég, og sérstaklega maltöl, það var alveg vonlaust að geyma það stundinni lengur, - sagði kaupmaðurinn. Og við trúðum honum auðvitað og hjálpuðum til við að eyða því strax.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.10.2007 | 20:40
Og svo var þar Miðfellshverfið
Miðfell - áberandi fjall í miðri sveit. Við töluðum alltaf um Miðfellsfjall, en líklega er það mesta bull, frekar er þetta fell en fjall, myndu þeir segja sem hafa alist upp við alvöru fjöll. En við sem ólumst upp í minni sveit þekktum ekki til stærri fjalla. Skipholtsfjallið hét jú fjall og svo var Hlíðarfjall í Eystri hreppnum og Hestfjall á Skeiðunum. En fellin okkar og ásarnir voru alveg jafn merkileg, falleg og brött- fannst okkur þá.
Við fórum oft upp á Miðfellið. Annaðhvort bara til að fara í fjallgöngu á sunnudegi, eða til að veiða. Aldrei var spurt hvort krakkar mættu veiða á þessum tíma. Ef við nenntum að dröslast með prikin með okkur, stundum bara skaft með girnisspotta og öngli á enda, þá dýfðum við í þær sprænur og tjarnir sem á vegi okkar urðu - og veiddum ótrúlega oft einhverja titti.
Ef við gengum fram á suðurbrún Miðfellsins sáum við niður í Miðfellshverfið. Þyrpingu fjögurra bæja, með útihúsum og mörgu fólki á ferli.
Í Götu bjó Stebbi með Gústu og fjórum börnum, sem hétu Katrín, Sigríður, Jón og Sigurdór. Þangað kom ég aldrei og þekkti krakkana ekkert fyrr en við urðum stærri. Þau voru öll svolítið yngri en ég.
Gunnlaugur og Margrét bjuggu í Miðfelli með mörgum sonum. Þeir hétu Skúli, Emil, Magnús, Karl og Sigurður. Þeir voru allir eldri en ég og flestir um það bil að hefja eigin búskap á þessum árum. Þeir voru íþróttamenn og vel þekktir fyrir það víða um Suðurlandið. Skarphéðinsmótin við Þjórsártún voru fjölmenn á þessum árum og þar gerðu þeir það gott. Og komust svo örugglega á landsmótin þegar þau voru haldin.
Þóra og Þórður bjuggu í hinum bænu í Miðfelli. Þau voru systkini. Þar byggði svo líka hann Blómkvist sem náði í hana Gerðu sem var vinnukona hjá okkur. Ég fór með mömmu í heimsókn þangað þegar Gerða var nýbúin að eignast stúlkubarnið Maju. Þá var líklega verið að byggja Blomma hús, en þau bjuggu á meðan í gamla bænum hjá Þóru og Dodda. Við fórum gangandi frameftir, vestan við Miðfellið í þetta sinn. Það var stysta leið frá okkur.
Hjónin í Dalbæ hétu Margrét og Páll og þau áttu uppkomin börn þegar ég fór að þekkja þar til. Þau hétu Brynjólfur Geir (Bryngeir) Svava, Guðmundur og Jóhann. Jói var að vísu ekki svo mikið eldri en ég svo ég kynntist honum dálítið. Ég man best eftir honum í lauginni, hann var frábær sundmaður og alltaf með þegar farið var að senda okkur á sundmótin til að keppa. Svo var líka dæmalaust gaman að dansa við hann.
Ég kynntist Bryngeiri reyndar fyrst af öllum í Dalbæ. Það var á 17. júní skemmtun í gamla salnum hjá skólanum. Kannski var ég svona fimm eða sex ára. Sennilega var þröngt í húsinu og hiti - það leið yfir mig og ég lagðist eins og blautur poki á gólfið - í rauðröndóttum kjól. Bryngeir tók mig þá upp og bar mig út á hlað , þar enduheimti ég rænuna svo fljótlega. Síðan var Bryngeir alltaf einn af mínum uppáhalds.
Það var blindur maður í dalbæ, sem var kallaður Maddi, hann var trúi ég bróðir Palla. Svo voru þar líka tveir piltar á minum aldri, Birgir og Grétar. Birgir fékk happdrættisvinning, í D.A.S. held ég, sem kom sér ákaflega vel fyrir unglingsstúlkur sveitarinnar. Vinningurinn var "Fíat - lús", sem var óspart notuð til ökuferða um allar sveitir. Við áttum ekki annarra kosta völ á þeim tíma, en það komust bara fjórir fyrir - með bílstjóra.
Miðfellshverfið var öll sumur fullt af kaupakonum og mönnum, sem settu svip á sveitina. Og allir voru mættir í Fúðalaugina á miðvikudags og föstudagskvöldum. Það voru "laugarkvöldin" og ótrúlegt fjör í boltaleik á milli stráka og stelpna. Þar voru ALLIR.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.10.2007 | 21:41
Þegar komið er yfir brúna á Stóru Laxá
Nú á ég bara eftir að rölta hring um sveitina og rifja upp það sem mér fannst þar merkilegt á árunum ca.1955 - 60. Þegar komið er yfir brúna á Stóru Laxá verður Hólakot fyrsti viðkomustaður. Hægra megin við veginn, og hefur alltaf verið þannig þó veginum sé marg búið að breyta. Holótta örmjóa malarbrautin sem varð oftast ófær í vorleysingum, hvert hvarfið við annað, (kannski vita ekki allir að hvarf er drulludý á malarvegi um það bil sem klaki er að fara úr jörð á vorin) er nú malbikaður tveggja akreina vegur.
Í Hólakoti bjuggu Ásmundur og Pálína með fimm börnum. Þar þekkti ég ekkert til, nema hvað yngsta dóttirin hún Elínborg var með mér í skóla og yngri sonurinn, Hjalti ferðaðist með okkur á böllin í sveitunum í kring þegar við höfðum aldur til. Íbúðarhúsið sem nú er, var í byggingu á þeim tíma og Hjalti svaf þar á loftinu.
Hin systkinin, eldri, voru Unnur, Guðjón og Halldóra.
Hrepphólahjónin hétu Elísabet og Jón, þau áttu býsnin öll af börnum: Ellu, Sigga, Stebba, Guðjón, Kristján, Gunnar, Sólveigu og Önnu - ég held að þetta sé rétt talið. Kristján og Gunnar voru með mér í skóla og stunduðu síðan skemmtanalífið á sömu slóðum og ég. Sérstaklega áttum við Stjáni gott samstarf á þeim vettvangi. Hann hringdi til mín og bauð far á ball og svo dönsuðum við saman þangað til við komum auga á eitthvað áhugaverðara. Síðan fórum við samferða heim að samkomunni lokinni og skreið þar hver í sitt ból, sem varla þættu tilþrifamikil sögulok núna. Annað hafði ég ekki með Hólamenn að gera og þekkti þar ekkert til. Ég kom líklega einu sinni í gamla bæinn, sem stóð niðri við kirkjuna, en það var ekki fyrr en á fullorðinsárum.
Í Núpstúni bjó Guðmundur, eða Mundi, og konan hans hét Sigríður. Þau áttu tvo syni Jóa og Binna. Jói flutti fljótlega til Reykjavikur og gerðist þar póstmaður, en Binni tók við búi. Hann gifti sig svo henni Ingu Guðmundsdóttur úr Fljótshlíðinni.
Ég kom aldrei að Núpstúni, en ég man vel eftir Munda úr réttunum og víðar. Hann var skemmtilegur karl og það var hann sem reiddi mig fyrir framan sig heim úr réttunum þegar pabbi hafði borið mig þangað á bakinu þriggja ára gamla. Mundi var góður.
Binni fór alltaf á fjall, með tvo hesta rauða, stjörnótta eða blesótta. Hann var húmoristi og bjó til vísur ef á þurfti að halda. Í Núpstúni voru strákar á sumrin, einn þeirra í mörg ár, það var hann Bjarni, sem nú heitir "skó".
Árni bjó í Galtafelli og konan hans hét Guðrún. Þau áttu börn sem hétu Magga, Dísa, Áslaug, Svavar og Hjalti. Svo var þar Magnús, bróðir Árna, hann átti vörubíl og sá líka um kindurnar sem voru í fjárhúsinu út við veg. Og svo var þarna Jóna, systir þeirra, en hún stjórnaði símstöð sveitarinnar sem var þarna á bænum. Mér þykir slæmt að ég man ekki hringinguna að Galtafelli, en heima var það ein löng og tvær stuttar.
Að Galtafelli vorum við systkinin send gangandi nokkrum sinnum á ári. Þangað þurfti að sækja skömmtunarseðlana sem varð að hafa til að fá ýmsar vörur í Kaupfélaginu. Þá var send pöntum með mjólkurbílnum, og ef vantaði kaffi, sykur eða eitthvað annað skömmtunarskylt fylgdi seðill með. Annars kom bara ekkert kaffi með mjólkurbílnum næsta dag. Þangað fórum við líka með minkaskottin þegar okkur hafði tekist að drepa einn eða fleiri minka. Árni var hreppstjórinn og borgaði okkur fyrir skottin, bara nokkuð vel, og við vorum vel virk í veiðunum. Ég ætti víst ekki að lýsa aðferðinni sem við notuðum, umhverfis og náttúrusinnar væru vísir til að kæra okkur. En við höfðum hund sem náði skepnunum, hristi þá ringlaða og svo bara dauðrotuðum við þá, oftast með grjóti eða spýtu. Við vorum ekki nema tíu ára og þá er ekki hægt að fá byssuleyfi.
Þessar ferðir tóku allan daginn, auðvitað vorum við gangandi og máttum svo stoppa aðeins áður en við fórum til baka. Þegar Áslaug gifti sig Magnari og hann fór að búa með svín urðu þetta mestu ævintýraferðir vegna þess að svín voru þá hvergi annarsstaðar til. Og reyndar var Magnar töluvert merkilegur sjálfur af því hann var norskur og eini "útlendingurinn" sem við þekktum.
Systkinin voru öll eldri en við, nema Hjalti, sem var með okkur Erni í skóla og svo á böllunum þegar fram í sótti. Bæði Svavar og Hjalti áttu alltaf rosalega flotta bíla sem ekki spilltu fyrir vinsældum þeirra.
Vestan við íbúðarhúsið var lítið rauðmálað hús sem mig minnir að væri kallað "Einarshús". Þetta hús var tengt Einari Jónssyni myndhöggvara, en hann var frá Galtafelli, sennilega áttu það einhverjir ættingjar hans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.10.2007 | 17:37
Í smiðjuskúrnum voru smíðaðar skeifur
Akurgerðishúsið var komið þarna líka, þar sem Guðmundur og Hrefna bjuggu og í einu herbergi innst á ganginum Katrín og Sigurdór foreldrar Mumma, eins og Guðmundur var kallaður.
Mummi var vörubílstjóri. Fyrst bara svona á vörubíl sem flutti hvað sem var hvert sem var, en svo fór hann að sjá um flutningana á grænmetinu til Reykjavíkur. Í hverri viku fór hann tvær ferðir, á þriðjudögum og föstudögum, og hafði þá safnað grænmetinu saman á bílinn kvöldið áður. Þess vegna hétu mánudagar og fimmtudagar "sendingadagar "hjá okkur. Hrefna kenndi handavinnu í skólanum og þau áttu tvo syni Tryggva og Ármann.
Á bak við húsið var smiðjuskúr þar sem Dóri gamli smíðaði skeifur. Þar var líka hesthúskofi, sem hesturinn hans, hann Jarpur hafði fyrir sig. Dóri átti líka nokkrar kindur sem voru hýstar í húsi sem eiginlega tilheyrði Flúðaskóla, eins konar fortíðar bílskúr. Það var í upphafi ætlað reiðskjótum þeirra sem komu á samkomur í skólanum.
Þetta hús stóð þar sem nú er suðvesturhorn Félagsheimilisins á Flúðum, en það var byggt á þeim árum sem ég var í barnaskóla. Ég man að yfirsmiðurinn, sem hét Stefán og var frá Geirakoti, lét okkur skólakrakkana skrifa nöfnin okkar á miða sem hann setti svo í flösku og lagði undir gólfið í slanum.
Niður við Hellisholtalækinn fyrir framan laugina, var þvottaaðstaða við hver, ekki ólíkt því sem var í hverahólmanum heima. Þarna var smákofi og var eitthvað notað af konum frá bæjunum í kring. Ég kom víst aldrei þarna, en við sáum til mannaferð þar ef við voru að flækjast fyrir framan laug. Þar gátum við komist undir laugina í undirgöngum, en áttum þar ekkert erindi frekar en víða annarsstaðar sem við fórum á þessum árum. Alveg makalaust hvað krakkar sækja í að vera þar sem síst skyldi.
Gróðrastöð ungmennafélagsins var til á þessum tíma, afgirt og nokkuð mikið af trjám þar komið þá. Eiginlega var hún alveg eins og nú, nema hvað trén hafa vaxið.
Og nú er þá Flúðahverfið upp talið árið 1956-8.
13.10.2007 | 17:01
Olíuskúrinn á Grund
Á Grund bjó Konráð Guðmundsson, með konunni sinni henni Þuríði og börnunum sex. Við kölluðum hann Konna. Inga var elst af börnunum og svo kom Hrafnhildur, jafnaldra mín. Sólrún, Snorri Sævar, Bryndís og Guðmundur. Ég kom stundum að Grund og fékk þar mjólk og kleinur. Konni var ekki alvörubóndi, hann ræktaði kartöflur og gulrætur og svo var hann bensín og olíusali. Á Grund var olíuskúr, sá eini í sveitinni og fyrirboði bensínstöðva nútímans. Í eldhúsinu á Grund var stór eldavél sem stóð á miðju gólfi, annaðhvort hét hún AGA eða SÓLÓ, ég þori ekki að fullyrða neitt, og hún var kynt með koksi. Þessi vél var tæknilega fremri öðrum samsvarandi vélum sem ég hafði séð. Þar sem ég þekkti til og ekki var eldað á kolavélum var soðið í hver. Svona risastór koksvél var merkilegri en önnur eldunartæki.
Konni var líka áhugamaður um svona hluti og nokkuð sérlundaður. Ég held að hann hafi eignast Ferguson traktor fyrr en aðrir svveitungar og í allri vélvæðingu var hann framarlega.
Það þótti ekkert grín ef einhverjum varð það á að styggja Konna og einu sinni man ég að Haraldur á Hrafnkelsstöðum forðaði sér heim á hlaupum niður með læk, vegna þess að hann óttaðist eftirför, þegar honum hafði orðið það á að henda Snorra alklæddum í laugina. Það er ekkert víst að Snorri hafi sagt hvað gerðist og enn síður hafði Konni áhuga á að elta sökudólginn. Ég held að Haraldur hafi hlaupið frá traktornum sem hann kom á, til að losna við að fara um hlaðið á Grund.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.10.2007 | 20:49
Þar var selt amerískt tyggjó og appelsín frá Agli
Sunnan við skólahúsið var sundlaugin og var hún ein af þeim betri í sýslunni. Þær voru reyndar ekki margar á þessum tíma, og sundmót Skarphéðins, sem voru haldin árlega, voru til skiptis í Hveragerði og á Flúðum.
Þarna mátti heita að við værum öllum stundum og þó að íþróttakennslan væri ekki margbrotin í skólanum (skólastjórinn stjórnaði vikulegum tíma með Mullers æfingum) var ekki hægt að segja annað en að við fengjum að njóta geysigóðrar líkamsræktar. Fæstum þurfti að kenna sundtökin því við lærðum þau löngu áður en við komum í skólann. Við lærðum þau um leið og skítnum var skolað af okkur í lauginni heima. Aftur á móti var eitt vorið ráðinn alvöru íþróttakennari til að kenna okkur nokkrum stelpum hinar ýmsu sundaðferðir. Síðan vorum við látnar æfa af kappi svo hægt væri að senda okkur til keppni á Skarphéðinsmótum eða öðrum mótum sem til féllu. Þjálfarinn hét Helga Haraldsdóttir og var á þessum tíma fræg á Íslandi fyrir sundafrek. Það var ungmennafélagið sem stóð fyrir þessu átaki, kostaði þjálfunina og fékk svo í staðinn stigin, sem við unnum eitthvað af á mótum næstu árin. Þetta voru ágæt skipti.
Gilsbakki stendur enn, á vinstri hönd þegar komið er niður brekkuna að lauginni. Á Gilsbakka bjó Bjarni Halldórsson. Hann var bróðir hennar Ingibjargar, ömmunnar á Högnastöðum. Bjarni bjó þarna einn og hvaðan sem það kom, þá var hægt að kaupa hjá honum appelsín og amerískt tyggjó. Við krakkarnir áttum nú aldrei peninga til að kaupa neitt, en það kom fyrir að við værum send til Bjarna og mig grunar að hann hafi selt tóbak svona meðfram tyggjóinu. Þetta var víst fyrsta sjoppan í sveitinni.
Bjarni átti fjárhúskofa uppi á bakkanum vestan við Hellisholtalækinn, sem rann þarna eftir lægðinni og gerir enn. Í þessum kofa hafði hann nokkrar kindur og ein þeirra var hún Botna. Botna var öllum kindum spakari og frekari. Hún fylgdi Bjarna eins og hundur hvert sem hann fór í grendinni.
Gilsbakki var svo, og er, sunnan við laugina ofan við brekkuna. Þar bjó á þessum tíma kona sem hét Halla. Hún var ekkja og hún átti tvo syni sem hétu Magnús og Haraldur. Þeir voru dálítið eldri en ég og ég þekkti til þeirra vegna þess að stundum voru þeir, annar eða báðir, í vinnumennsku í Hvammi, eða í Gröf. Dóttur átti Halla líka, en hún var farin að heiman og ég þekkti hana ekki.
Á mínum skólaárum byggði Hannes Bjarnason frá Selfossi verkstæðishús við Hellisholtalækinn. Hannes var bifvélavirki. Hann innréttaði íbúð í öðrum endanum og bjó þar með henni Dísu frá Galtafelli þangað til hann hafði byggt íbúðarhúsið á Varmalandi. Það byggði hann uppi á túninu, þar sem Varmilækur og Laugaland risu þá líka. Áður var þetta tún notað sem íþróttavöllur og þar voru haldnar útisamkomur og skemmtanir t.d. á 17. júní. Skógræktarreitur kvenfélagsins var þarna ofan við túnið, en trén þá ekki nema örlitlar hríslur.
Nú sýnist mér stefna í að ég fari um alla sveit og komi við á hverjum bæ. Ég ætla að nálgast fólkið sem þar bjó eins og ég gerði þegar ég var lítil. Suma sem kunningja, aðra góða vini og einhverja þekkti ég bara ekki neitt. Suma var alltaf talað um með gælunöfnum og þannig er það bara. Ég vona bara að minnið fari ekki illa með mig, og vonandi geri ég engum grikk með þessu. Vissast þó að biðja um fyrirgefningu strax, verði mér einhversstaðar á í messunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.10.2007 | 16:47
Ráðskonan svaf á einbreiðum "dívan"
Fyrir nútímafók er örugglega nokkuð fróðlegt að kynnast húsnæði Flúðaskóla fyrir fimmtíu árum. Fimmtíu - váááá! það er langt.
Ráðskonan bjó í einu herbergi uppi. Það var svo sem tvær rúmlengdir ( einbreiður dívan) á lengd og tæpar tvær breiddir á hinn veginn. Fyrir fáfróða var dívan og er reyndar enn, bólstraður bekkur, ýmist notaður til að sofa á eða sem sæti í stofum. Þá gjarnan með teppi yfir og púðum til skrauts. Þá var líka vel hægt að leggja sig þar. Sófar voru fáséðir og nærri óþekktir í sveitum.
Ráðskonan var á mínum skólaárum Valgerður Ingvarsdóttir. Hún sá um að fæða allan hópinn og kennarann með. Sigurlaug hjálpaði henni á meðan hún var, enda borðaði öll fjölskyldan með okkur í borðstofunni. Uppi voru svo líka herbergin tvö sem fjölskyldan hafði og heimavistin. Tvö herbergi fyrir stráka og tvö fyrir stelpur. Í allt voru þar 18 kojur en ekki alltaf fullskipað. Alltaf var pláss fyrir okkur þegar það henti að við yrðum að gista vegna veðurs eða vatnavaxta. Það fannst okkur mikið gaman og ekkert verið að vandræðast þó tannburstinn væri heima.
Á neðri hæðinni var eldhúsið og borðstofan. Úr eldhúsinu var innangengt í það sem kallað var hverahús,en þar var bullandi hver fast við hliðina á eldhúsinu yfirbyggður og notaður til að sjóða mat í. Þetta var bara svona eins og maður væri að fara inní búr, nema þarna var eingöngu hverinn og svo hægt að ganga í gegn og út.
Þarna niðri var svo nokkuð rúmgott hol og skólastofan. Lítil skrifstofa og eitt pínulítið klósett undir stiganum. Það var ætlað öllum í húsinu. Ekki var þar neinn vaskur, en einn slíkur var uppi á stigapallinum fyrir utan svefherbergin. Áfast skólanum var svo samkomuhús sveitarinnar, salurinn þar sem böllin voru haldin.
Þar fór ég fyrst á ball, í gulum kjól úr riffluðu flaueli og Bogga í öðrum bláum. Báðir voru með sama sniði - svokallaðir pokakjólar. Það var flott árið 1956 - fermingarárið okkar. Þarna sátum við á bekk við vegginn dyramegin og horfðum á fyllibytturnar frá Selfossi slá um sig á gólfinu. Ég man ekki að neinn dansaði við okkur, eða hefði á okkur sýnilegan áhuga. Svo fórum við báðar í Skógaskóla og reyndum ekki frekar fyrir okkur á dansleikjum fyrr en eftir dvölina þar. Þá varð okkur líka miklu betur ágengt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar