Færsluflokkur: Dægurmál

Það er svo mörgu breytt - bara til að breyta?

Og ég finn ekki að það pirri mig meira nú en það hefur alltaf gert. Þess vegna vil ég ekki kannast við að þetta sé aldurstengd andúð á breytingum. Þegar "Prins pólóið" fékk annað útlit fannst mér það slæmt, enda breyttist bragðið um leið þó enginn vildi viðurkenna það.

Breytingar á umbúðum matvöru er tilgangslaus og til þess eins að gera kúnnunum erfiðara fyrir að finna í hillunum. Ég hef lúmskan grun um að margar breytingar séu gerðar vegna hugmynda og eftir tillögum einhverra markaðsfræðinga og útlitshönnuða sem  fá borgað fyrir svoleiðis brölt. Og ekki er það til hagsbóta fyrir okkur óbreytta neytendur.

Og ég skil hreint ekki hvers vegna þurfti að breyta útlitinu hér hjá Mogganum?     Skiptir mig kannski ekki neinu máli, en einhvernvegin grunar mig að einhver hafi fengið borgað fyrir að búa þetta til og breyta. Og er ekki nóg annað við peningana að gera?  Ég bara spyr? 


Þar sem háir hólar -

- fylltu Öxnadalinn hálfan, fæddust forfeður og mæður okkar, sem í gær komum saman til að skoða hvert annað.  Ríflega tvöhundruð voru mætt í miðdagskaffi, hóflega dagskrá og myndasýningu. Afkomendur systkina Jónasar. Þau voru tvö sem áttu börn og á þessum örstutta spotta af eilífðinni sem liðinn er síðan, höfum við fjölgað okkur svo, að ekki myndi  jarðnæði fyrir helminginn þó Eyjafjörður allur væri undir lagður.

Það er skrýtið að koma í svona hóp. Að vísu vorum við þarna um þrjátíu af mínum nánustu ættingjum, sem höfum komið saman hvert fimmta ár, við þekkjum hvert annað.

En svo var þarna fólk sem ég hitti jafnvel daglega, eða hef þekkt í mörg ár, en ekki haft hugmynd um að væru frændur mínir. Það var gaman. Og skemmtilegast reyndar að ég varð ekki fyrir vonbrigðum með neinn!

Ein var þarna sérstaklega skemmtilegt dæmi: Við hittumst fyrst fyrir tæpum tíu árum, í skóla. Urðum strax með einhverju móti tengdar og hefur það haldið síðan. Af öllum þeim fjölda sem var með okkur af öðru fólki, er enginn sem ég náði eins góðu sambandi við, það var eins og við værum gamlar sálir sem fengu það sjaldgæfa hlutverk að fara saman í gegnum eitt líf enn.  Í gær settumst við í salinn á sama tíma, önnur tveimur bekkjum framan við hina. 

Í lok dagskrárinnar kom fram hjá dagskrárstjóra, að hann hafði verið að velta fyrir sér, og kannski skoðað aðeins, helstu kosti og galla þess fólks sem fyllir þennan flokk. Afkomendur Rannveigar og Hallgríms, gamla aðstoðarprestsins hans Jóns á Bægisá.  

Kostirnir sýndust vera þeir: Að það er gefið fyrir bækur, að það er öðrum gott, og að það loðir ekki við það fé.   Vissulega góðir kostir sem ýmislegt má lesa útúr. Gallarnir hins vegar voru: Þeir sömu og kostirnir.

Ég er ekki frá því að þarna sé nokkuð rétt til getið og þekki ég einkennin hjá mörgum minna ættingja. Og eitt er víst að enginn var  í veislunni í gær af þeim mönnum sem eru frægastir á Íslandi í dag. Þar voru hvorki braskarar eða fjárglæframenn. 

En enginn var þar heldur fullur, og enginn datt í tröppunum sem voru þó nokkuð margar í salnum. Enda er ég alveg viss, svona þegar ég hugsa út í það, að ef þeir hefðu verið búnir að finna "AAið" upp þegar  hann Jónas var uppá sitt besta, þá hefði kannski allt farið á annan veg, og við værum miklu fleiri í fjölskyldunni.


" Að lífið sé skjálfandi lítið gras"

"Má lesa í kvæði eftir Matthías"  Það er undarlegt ástand hérna núna. Jarðskjálftahrina svo mögnuð að við tökum eftir henni. Enda eru upptökin víst bara hérna fyrir austan mjólkurbúið.  Það skelfur oft án þess að nokkur viti af því, en þegar við sátum við matarborðið áðan heyrðum við þungan dyn, og svo dálítinn titring undir fótunum. Svo kom annar og annar og miklu fleiri. Þrír víst svo öflugir að það glamraði í gleri í skápum.  Annars er það aðallega þyturinn og drunurnar sem maður tekur eftir.

Það er misjafnt eftir því hvar húsin standa hvernig áhrifinn finnast. Við höfum hingað til verið heppin, ekkert hefur farið á flug hér innanhúss, ekki einu sinni í 2000 skjálftunum sem voru þó nokkuð snarpir. Nú hef ég engan heyrt eða fundið í svona korter -  ekki átti ég að segja þetta - ég heyrði í einum, en fann lítið.


Ég er að grafa upp sögur og vísur frá frændum okkar Jónasar

Það er sitthvað við að fást. Nú datt mér í hug að leita á netinu að vísbendingum um ritsnilli forfeðra og horfinna ættingja. Á laugardaginn á nefnilega að halda einskonar fjölskylduboð fyrir ættingja Jónasar. Já, þess sama Jónasar sem hefði orðið 200 ára síðasta föstudag hefði hann lifað. En auðvitað var það borin von frá byrjun. Jafnvel ekki  enn, á árum tækni og endalausra framfara, svo ég tali nú ekki um peninga, hefur tekist að láta nokkurn mann lifa svo lengi. 

   Mér hefur eiginlega ekki orðið ágengt að neinu gagni. Hann langafi, Tómas á Völlum virðist vera sá eini sem eitthvað fékkst við að skrifa, og hann bjó til vísur.  Eina fann ég kunnuglega um prestinn sem átti að sofa úti í hlöðu hjá flónum og lúsunum. Það bjó langafi til og þykir mér merkilegt. Merkilegra þó að lesa hver voru tildrögin að þessum kveðskap. Hann hélt víst að langamma væri skotin í einhverjum strák í sveitinni. Ja svei! Margur heldur mig sig.  Ég fann fullt að vísum sem eru ortar til einhverra stelpna með ókunnugum nöfnum. Það kom svosem ekki á óvart, ég vissi alltaf að hann hljóp útundan sér.

Hann orti líka fallega vísu um son sinn sem dó svo ungur. Hana þekkti ég án þess að vita: " Pabbi minn, pabbi minn, pabbi segir hann Steini".  Steingrímur dó þegar þau voru enn í Stærra Árskógi og ég fann leiðið hans þar í gamla kirkjugarðinum.

 

 


Krummi svaf í klettagjá

Það var að byrja að gráma fyrir nýjum degi þegar við skelltum í lás og héldum af stað til borgarinnar.  Bensínstöðin opin, en fáir á ferli á götunum, búðirnar ekki opnaðar fyrr en kl.10.00 svo það er engin ástæða til að fara út í dimmuna. Það eru nefnilega ákaflega fáir sem fara út á dimmum og köldum laugardagsmorgni til annars en að kaupa eitthvað.

Ég sá ljósið á fjallsbrúninni langar leiðir. Einkennilegt hvað ýtukallarnir sem vinna þar uppi eru alltaf að í myrkri?  Þegar nær dró sá ég móta fyrir skriðunni í gjánni og svo klettunum. Ýtan var á ystu nöf eins og oft áður. Ég hugsaði með mér hvort einhverntíman gæti komið að því að hún færi á eftir grjótinu niður hlíðina? Vonandi ekki, það eru líka klárir ýtukallar sem þarna eru á ferðinni.

Frá Ingólfshvoli sást orðið til heiðarinnar, hún var grá ofan við miðju, nóttin hafði þá verið köld. Tvö hross, brúnt og grátt, kroppuðu í móanum utan við veginn. Enn er hægt að finna græn strá á þúfunum, en þeim fer víst fækkandi.

Vestan við Hveragerði voru fjórir krummar að liðka sig eftir nóttina. Örugglega ætluðu þeir svo að fljúga niður að sjó til að leita sér ætis, það gera allir krummar í fjöllunum hér ofan við flatlendið. Um leið og birtir sér maður þá í hundraða tali stefna tl sjávar og svo til baka í ljósaskiptunum síðdegis.   Af Kambabrún sá ég himininn austan við Eyjar roðna af sólarupprásinni. Klukkan var 9.28.

Vegurinn var að mestu auður, kantarnir þó hvítir á köflum og aðeins skóf yfir næst Hveradölum. Þar í brekkunni mættum við vörubíl með snjóplóg, það var nú varla að það tæki því, en þeir eiga víst að gera þetta reglulega, fá það borgað.  Það rauk upp af manngerðum holum um alla heiði. 

Við litlu kaffistofuna stóðu átta vörubílar. Litla Kaffistofan er vegasjoppa með sál, þar er hægt að koma til að fá sér kaffi, brauð og kleinu og tala við afgreiðslufólkið um veðrið og færðina.   Í Lögbergsbrekkunni söng Sigga Beinteins um "fræ sem féll í jörð en varð þó aldrei blóm".

Við mættum mörgum vörubílum, örugglega allir á leið í kaffi.   Það var búið að kveikja jólaljós á trjám við Olíssjoppuna við Rauðavatn. Ég er búin að koma þar inn og þessi staður lofar góðu. Ég fékk um daginn inn um lúguna plastkort frá Olís? Ekki veit ég hvers vegna og ekki veit ég heldur hvaða gagn ég hef af því? En það er örugglega gott að eiga svona kort.  

Við fórum svo í búðir og heimsóknir, en þegar heim var haldið síðdegis var komið hífandi rok á heiðinni og snjórinn, sem varla var þó nema föl,DSCF5046DSCF5039 rauk undan vindinum og stefndi á Þorlákshöfn. Það gæti orðið barningur hjá krumma heim í klettaagjána sína.


Þá var róið yfir Hvítá til að sækja lækni

Fyrstu ár ævi minnar vissi ég lítið um tungnamenn. Uppsveitirnar áttu ýmislegt sameiginlegt, svo sem íþróttamót, kappreiðar, böll og svo komu allir til okkar á Álfaskeið. En á þessum mannamótum var lítið um tungnamenn. Þó voru auðvitað einhverjir þar sem áttu bíla og gátu farið upp á Brúarhlöð til að komast í hreppana, en það var ekki almennt. Vegurinn upp hrepp og yfir á Brúarhlöðum hefur líka mjög trúlega verið ófær stóran hluta ársins.

Eitt var það þó sem við urðum að sækja í Tungurnar, það var læknirinn. Hann var í Laugarási og ef einhver þurfti á lækni að halda, var hann ferjaður yfir Hvítá hjá Iðu. Róið fram og til baka á árabát. Líklega var það oftar sem læknirinn var sóttur, en kom þó fyrir að fólk fór til hans og þá þessa sömu leið.  

Mín fyrsta ferð í tungurnar var líklega farin þegar við fórum í grafarhverfisferðalagið að Gullfossi og Geysi. Dagsferð um hásumar og þá var farið um Brúarhlöð.

Næst fór ég um sumar á tombólu á Vatnsleysu. Mamma og pabbi fóru nokkrum sinnum með okkur þangað. Þeim fannst tungnamenn skemmtilegir. Við höfum trúlega fengið hvammséppann lánaðan og það var farið um Brúarhlöð. Tombólan á Vatnsleysu var árleg og með merkari mannamótum þessa tíma. Við fengum að kaupa nokkra miða, það dugði ekkert einn eða tveir af því að alltaf voru einhver núll og einstök heppni að fá vinning. Vinningarnir voru líka góðir. Lömb og jafnvel einstaka folald. Allskonar verkfæri og búsáhöld.

Mamma sagði mér að einu sinni hefðum við Örn átt miða með vinningi og fórum inn til að sækja hann. Borðið var fullt af allskyns dóti og forláta koppur hékk á veggnum. Konurnar fóru að leita  og voru nokkuð lengi að því, en þegar ein tók í koppinn til að gá að númeri var okkur öllum lokið og hlupum út. Óbærileg tilhugsun að fá  kopp.  Ekki áttum við hann þó, og fengum eitthvað annað skemmtilegra. Ég á enn kleinuskál góða sem ég fékk í vinning eitt árið. (mynd) Ég veit um strák frá Jaðri sem fékk lamb og reiddi það heim fyrir framan sig á hestinum.

Ég var þrettán ára þegar Iðubrúin var opnuð og þá opnaðist okkur nýr heimur - heimur nágrannanna fyrir vestan Hvítá, sem við fram til þessa höfðum horft til af Högnastaðaásnum. Ekki kannski með löngunaraugum, við vissum ekkert hvað var þarna fyrir handan. En við horfðum til útfjallanna án þess að vita á þeim nöfnin, Jarlhetturnar þó, og við vissum að þar var Geysir. Kom jafnvel fyrir að við sáum hann gjósa.  Við þekktum líka Bræðratungu, af því að þarna af ásnum hafði okkur oft verið sagt af henni Siggu frá Skipholti sem bjó þar með manninum sínum honum Sveini.

Um þetta leyti fékk pabbi éppann okkar og við gátum farið að ferðast. Og þá kom á daginn að pabbi og mamma þekktu fullt af fólki í þessari sveit. Við fórum til Maju og Bjössa í Skálholti og svo þekktu þau fullt af fólki á Vatnsleysu. 

Það voru garðyrkjumenn í Laugarási sem pabbi fór oft til og ég var ánægð þegar é fékk að fara með til Hjalta sem var svo vinalegur og góður. Hann átti fullt af börnum, en þau voru öll lítil og ég þekkti þau ekkert. Það var Hjalti sjálfur sem ég var að heimsækja.

Aldrei fór ég í Tungnaréttir. Þær voru nefnilega daginn sem ég var að fara á móti safninu og það var miklu nauðsynlegra. Pabbi og mamma fóru stundum og sögðu að þar væri alltaf verið að syngja. Við vorum að hugsa um okkar rollur austan við Hvítána.

Eitt laugardagskvöld þegar ég var orðin stór vorum við á balli í Félagsheimilinu á Flúðum og þá var ákveðið að fara ríðandi á kappreiðarnar í Tungunum næsta dag. ( í fyrramálið fattiði?)  Snemma á sunnudegi fóru svo fjöldamargir hestamenn að tínast saman á leið upp hrepp og að Brúarhlöðum. Skeiðamenn og Gnúpverjar og Hrunamenn  ríðandi í stórum hóp. Vel ríðandi með minnst tvo hver.  Þegar komið var yfir brúna uppi á Brúarhlöðum man ég að hann Skjóni minn flækti sig í vír og hljóp með mig góðan spöl með dræsuna aftaní sér. Ég datt þó ekki í það sinn og hann sleit þetta af sér.

Kappreiðarnar voru við Hrísholt og þar vorum við svo þar til síðdegis, en þá var haldið heim og nú niður Tungur og yfir Iðubrúna. það var komið myrkur þegar við nálguðumst Laugarás og þá varð einhver fyrirstaða á veginum sem hægði á flotanum. 

Þegar ég kom þar að sá ég að þar var pabbi á jeppanum með opið að aftan og þar í var Álfaskeiðskaffimjólkurbrúsinn kvenfélagsins og hann bauð kaffi og útí það öllum sem vildu.  Ég skildi það alveg þó ég fengi ekki neitt að hann var að líta eftir henni dóttur sinni. Búinn að hugsa til hennar allan daginn og fékk svo þessa bráðsnjöllu hugmynd. Mér þótti vænt um að sjá hann og var montinn af að eiga þennan pabba sem var svona mikill höfðingi að splæsa kaffi og brennivíni á allan hópinn.


Einstök heppni borgarstjórans

Alveg einstak lán að sjónverpsmennirnir skyldu einmitt vera þarna við skólann þegar hann kom til að sýna krökkunum teikninguna sem hann var einmitt að smþykkja þegar litla stúlkan hringdi. "Varstekki hrædd? " spurði fréttamaðurinn telpuna. Hverju er verið að koma inn hjá krökkunum? Er borgarstjóri eitthvað til að hræðast?

Eru hér verð um verð?

Og kannski til verða og frá verðum? Mér finnst þetta eitthvað einkennilegur talsmáti hjá fjölmiðlafólki og forsvarsmönnum verslana. Í kvöld var það Krónukallinn sem gerði mér þetta, en það hafa margir talað með líku móti á síðustu vikum. Hvort sem þeir hagræða verðinu heiðarlega eða ekki, ættu þeir, og ég tala nú ekki um fréttamennina, að reyna að nota rétt orð um verðið á vörunum í búðunum. Þeir bara verða.

Svo voru kappreiðarnar á Sandlæk

Eins og Snorri "sveitungi"  minn segir þá voru tvær, svona aðalútihátíðir yfir sumartímann. Álfaskeiðsskemmtunin og svo kappreiðarnar.

Mamma og pabbi voru nú ekkert að fara með okkur á kappreiðar, hestafólk voru þau ekki og nokkuð snúið að vera að flækjast með fimm krakka á svona samkomu að ástæðulausu. En ég var vitlaus í hesta. Kappreiðaæfingarnar inni á Hveraheiði voru ekkert nóg, og svo fljótt sem mér var treystandi til að komast á hesti yfir Stóru-Laxá og ég gat fengið lánaðan hest, þá bað ég hátt og í hljóði um að fá að fara.  Það var oft ekki ljóst fyrr en á síðustu stundu hvort leyfið fengist, eða þá hestur. En samt vissi ég alltaf svona undir niðri að ég kæmist - ég fékk víst oftast það sem ég bað um.  Oftast hest í Hvammi, en ef margir voru í sömu hugleiðingum gat ég þurft að labba inn að Túnsbergi til að fá lánað. Þá hafði ég samt fengið að hringja fyrst og spyrja. 

Ég fór alltaf með krökkunum frá Hvammi, oftast var Jói sem ábyrgðarmaður fyrir öllu saman. Örn kom stundum líka, en hann var aldrei verulega áhugasamur um hesta og endaði með að hann hætti alveg að eltast við þetta.

Það tók heilan dag að fara á kappreiðarnar. Alltaf voru þær á sunnudegi og þangað kom fólk úr öllum sveitunum í kring ríðandi.  Við fórum fram með Langholtsfjalli fyrir framan Ásatún og þurftum á þeirri leið að varast kelduna stóru sem ég man nú ekki hvað heitir. En örugglega heitir hún eitthvað. Skyldi Snorri muna það?  Svo var farið yfir ána rétt fyrir vestan Birtingaholt, þar var okkur sagt að gæti verið sandbleyta en aldrei fór þar neinn á kaf. En stundum var vatnið vel á síðu.

Síðan var leiðin greið fram eyrarnar að holtinu norðan við Sandlæk.  Nú er bær þar austan við sem heitir Gunnbjarnarholt, en ekki man ég eftir að heyra það nafn fyrr.  Skeiðvöllurinn var vestan við hæðina og hestagirðingin uppi og austar.  Við krakkarnir vorum þarna bara til að skoða menn og hesta, reiðtúrinn frameftir var eiginlega aðalmálið. Við fórum svo um svæðið og skoðuðum fólk og hesta.    Vorum stundum leiðinleg við Siggu á Sandlæk (blessuð sé minning hennar), óðum yfir girðingar sem við ekki máttum og Sigga sagði að hún ætlaði að klaga í pabba sinn og "að hún ætti alveg með það af því hann ætti landið".  Þá snerum við frá, en svona vorum við leiðinlegir krakkar samankomin á kappreiðum.  Síðdegis var svo haldið heim í hópi margra sveitunga og það var gaman. Sumir góðglaðir og einstaka fullur, það var líka spennandi. Það var komið kvöld þegar við komum heim.

Ég komst einu sinni á kappreiðar í Flóanum. Þá var okkur tveimur stelpum boðið með strákum í bíl, á kappreiðar sem voru haldnar við Hróarsholt. Þetta var á þeim árum sem strákar voru farnir að bjóða okkur vinkonunum eitt og annað, en þó áður en, ( alla vega ég) uppgötvaði hvers vegna.  Ég fór líka einu sinni ríðandi í stórum hópi hreppamanna, úr báðum hreppum, á kappreiðar í Tungunum. Þá var ég orðin stór og segi frá því með öðru sem kemur tungnamönnum við. Enn stærri var ég þegar við Jói fórum á landsmótið á Þingvöllum. Að sjálfsögðu ríðandi og sváfum í tjöldum. 


Þá var dansað á Álfaskeiði

Síðasta helgi júlímánaðar var árum saman "helgin þegar skemmtunin var haldin á Álfaskeiði".

En nú eru mörg ár síðan. Ég man að ég var þar ólétt í bláum kjól árið 1965. Sat með öllu hinu fólkinu á þúfnakollunum í brekkunni og hlustaði á séra Sveinbjörn halda ræðuna. Því auðvitað byrjuðu allar Álfaskeiðsskemmtanir á messu. Presturinn og kórinn stóðu á sviðinu sem var tjaldað yfir  með hvítu tjaldi. Misjafnlega hvítu þó eftir því sem árin liðu.

Stóra tjaldið ungmennafélagsins, Álfaskeiðstjaldið, var svo utar á flötinni og þar seldi kvenfélagið kaffi. Svo hefðbundið var þetta allt saman að heima í Garði hét ein tertan því merka nafni Álfaskeiðsterta. Ég komst að því fyrir tveimur árum að hjá Íslendingum í Kanada er hún bökuð á stórhátíðum og heitir Vínarterta.  Eins mikið ættjarðarlostæti og pönnukökur og kleinur. 

Við áttum ekki bíl heima fyrr en ég var komin nærri fermingu og þess vegna var mikið gengið á mínu heimili. Ég man eftir að við fórum gangandi fram fjall á Álfaskeið. Strákarnir auðvitað bornir meira og minna, þeir voru miklu minni en við Örn. Ég man líka að við fórum þessa sömu leið á Ferguson traktornum hans pabba og þótti lúxus, það fylgdi honum skúffa aftaná sem hægt var að standa í eða sitja. Skemmtilegast var að sitja aftaní henni og draga lappirnar.   Traktorinn var svo skilinn eftir fyrir neðan brekkuna hjá hestagirðingunni.

Mamma fór að syngja í kórnum eða bera fram kaffið í tjaldinu, pabbi leit eftir strákunum í brekkunni og reykti Camel. Það þurfti ekkert að líta eftir okkur Erni, við flæktumst þarna um flöt og brekkur eins og aðrir stálpaðir krakkar. Það var ekki hægt að týnast á Álfaskeiði. 

Ég fór reyndar oftast ríðandi á Álfaskeið.  Fram fjall með öðru fólki, bæði krökkum og fullorðnum. Hrossin voru svo geymd í girðingunni vestan við Skinnhúfuklettinn, en stundum gripið í eitt og eitt til að fara sýningarferð um flötina.

Fólkið úr nærsveitunum kom margt ríðandi, Reykjamenn af Skeiðunum fjölmennir á góðum hestum. Það var alltaf svo margt fólk á Reykjum. Eystrihreppsmenn komu líka, en færri úr Tungunum. Áður en Iðubrúin var byggð var það auðvitað eðlilegt, ekki verið að ferðast á bát með fullt af fólki til þess eins að skemmta sér dagstund, og fæstir áttu bíla til að keyra alla leið upp á Brúarhlöð. Það hefði verið nærri dagleið. 

Það var selt inn á þessa skemmtun og dagskráin var vönduð. Fyrst var alltaf messan og svo hélt einhver ræðu. Flúðakórinn söng í mínu minni, en áður var til karlakór Hrunamanna,(mynd) sem örugglega hefur sungið þarna. Svo var alltaf  keypt skemmtiatriði úr Reykjavík.  Söngvari eða kona með undirleikara, Baldur og Konni og fleira í þeim dúr.

Ég meira að segja man árið sem Ómar Ragnarsson skemmti( sem var nú víst oftar en einu sinni) og það var svo mikið rok að nærri lá að sviðið fyki burt með öllu saman. Þá hékk Ómar í þverslánni og taldi sig þar með halda sviðinu á jörðinn, en undirleikarinn Haukur spilaði sallarólegur undir.  Allir gestirnir sátu í brekkunni á móti sviðinu, auðvitað í sparifötunum eins og sjálfsagt var.

Mín fyrsta reynsla við pylsusölu var á Álfaskeiði. Ungmennafélagið ákvað að reyna þessa merku nýung og reisti lítið tjald fram með brekkunni og þar voru hitaðar pylsur og seldar í brauði með tómatsósu.  Umdeild samkeppni við kvenfélagskaffið. 

Brekkan fyrir innan flötina var á þessum árum skógræktarreitur ungmennafélagsins. Árlega var farið þangað á vorkvöldi til að planta trjám og á þessum hátíðar sunnudegi fóru margir að gá hvort plönturnar þeirra hefðu lifað eða dáið. Flestar lifðu þær, því skylirði þarna voru með ágætum og nú eru mörg ár síðan farið var að sækja jólatrén á Álfaskeið. Jólatrén sem kvenfélagið notar á barnaskemmtuninni í félagsheimilinu.

Þegar leið að mjöltum fór fólkið að tínast heim og þá fórum við krakkarnir líka. En fullorðna fólkið kom aftur um kvöldið og þá var dansað í tjaldinu. það var meira að segja svo merkilegt að þarna á mjaltatímanum kom hljómsveitin oft heim að Garði og pabbi og mDSCF4770amma fóru svo með þeim. Pabbi var nefnilega úr Reykjavík og þekkti þessa stráka, hafði kannski verið með einhverjum þeirra í KFUM. Einn hét Skafti Ólafsson og þeir voru á drossíu!       

Svo varð ég auðvitað á endanum stór , og það kom að því að ég fékk að fara á ballið í tjaldinu.  Og það var dansað á Álfaskeiði langt fram á nótt. Samt var mánudagur á morgun!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 197622

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband