Færsluflokkur: Dægurmál

Eigum við að "frysta" alla peningana?

Ég las einhversstaðar í dag að símapeningarnir væru komnir í frysti af því eignlega væri ekkert við þá að gera. Þá datt mér í hug spurning um aðra peninga. Samvinnutrygginga aurana sem var talað um í vor að hefðu fundist alveg óvænt. Eldgamlir peningar. Eftir að þeir höfðu verið skoðaðir vandlega og ljóst varð að þeir væru svo góðir sem nýir, þá var tilkynnt að í haust myndi þeim verða dreift út til þeirra sem áttu þá í upphafi.

Allir gamlir samvinnumenn á Íslandi myndu fá einhverjar krónur á haustdögum. Nú þekki ég þá nokkra, en hef ekki heyrt að neinn hafi fengið krónu. Enda er kannski enginn sem er þess umkominn að ráða yfir sjóðnum, eða skipta á milli. Ætli verði ekki með þessar krónur eins og þær frá símanum, best að geyma þær í frysti svo þeim verði ekki eytt í vitleysu. En hver ákveður það og hvar er geymslan?


Bekkurinn minn er frábær!

Skreytingadagurinn er liðinn. Kreppappírinn orðinn að músastigum hangandi í lofti og á veggjum. Kartonpappírinn er nú kominn í gluggana í liki  húsa, jólatrjáa og jólakatta, á kafi í snjó gerðum úr hvítum umbúðapappír af tveimur rúllum stórum. Jólapakkar fylla allar hillur og syllur. Að vísu er þar lítið innihald annað en tómir skókassar, cheeriospakkar  og í stærsta falli kassar undan ljósritunarpappír, en þetta er flott.  Greinar, skreyttar ljósaseríum og töflurnar svo umvafðar ljósum, að kennarar fá örugglega sjónskekkju af að reyna að skrifa þar eitthvað gáfulegt.

Í bekknum okkar var ekki slegið slöku við, einn félaginn hannaði jólasvein sem við svo stækkuðum með nútímatækni og endurköstuðum  á maskínupappír. Svo var límt og klippt rifið og tætt, en aðrir hengdu upp seríur og kúlur.  Skraut í gardínurnar og jólapakkar á hillurnar. Við enduðum á að hengja karlinn upp og taka mynd af hönnuðinum og þeim sem eftir voru í stofunni. Nokkrir voru farnir að skoða skrautið í öðrum stofum.  DSCF5340Við erum frábær í 9. M.A.


Kynlaus veröld

Þessari fyrirsögn stal ég úr sjónvarpinu. Það var eitthvert fólk að tala um börn, og bleikt og blátt og allt það rugl sem hefur verið í umræðunni síðustu viku. Ég horfði ekki, en heyrði svona álengdar annað hvert orð. Þess vegna greip ég þessa fyrirsögn og tengdi hana við það sem einhverjum datt í hug í skólanum um daginn í sambandi við þetta " allir eins" þema sem hefur verið í gangi.

Þið hafið séð bíómyndir sem hafa verið gerðar til þess að sýna: væntanlega, mögulega, kannski löngu orðna, heimsókn utanúr geimnum. Fljúgandi diskar eru þá látnir lenda hér eða þar á jörðinni og Marsbúarnir koma þar út til að kynna sér lífið á jörðinni. 

        Og hvað einkennir svo þessa Marsbúa, annað en að vera yfirleitt litlir og ljótir? Jú, þeir eru allir eins, hvorki strákar eða stelpur og allir eins klæddir. Kannski við séum bara á réttri leið í þróunarsögunni, einu eða tveimur skrefum á eftir þeim sem búa úti í geimnum, við erum líklega að verða kynlaus og einkennalaus, allur heimurinn ein heild, númeruð en ekki nefnd og  notum eitt mál eða tákn til samskipta. Er nokkuð hægt að sporna við eðlilegri þróun?


Berrassað og kuldalegt

Ég bara get ekki að því gert, ég er búin að reyna og reyna að venja mig við þetta nýja útlit hérna hjá Mogganum, en það bara gengur ekki neitt. Það er eins og það vanti eitthvað, allt einhvernvegin í lausu lofti og einmanalegt. Samt var ég búin að ákveða að vera jákvæð, láta bara tímann líða og venjast smátt og smátt. Er ég of bráðlát, á ég að láta jólin líða? Nei ég held ekki, það verður að reyna að laga þetta fyrir jól, þeim vil ég ekki eyða í þessu berrassaða kuldalega umhverfi. Sorrý.

Kreppappír og túpulím - bærinn slapp vel frá þessu

Á föstudaginn er skreytingadagurinn. Það er dagurinn sem við notum til að skreyta skólastofurnar fyrir jólin. Öllum finnst lang best að gera þetta bara allir í einu, á tveim síðustu tímunum fyrir hádegi. Ef einhver eð að skreyta en aðrir ekki fer allt uppíloft og úr skorðum. Hvað ætli sé hægt að læra í stofunni við hliðina á þeim sem eru að búa til músastiga? 

Við erum nú reyndar orðin svo stór í níunda bekk að við erum hætt að búa til músastiga - eða svona að mestu leyti. Við á unglingastiginu fáum aðeins að nota hugmyndaflugið og gera það sem andinn innblæs, og það er nú svona sitt af hverju. Þess vegna þarf svo líka að viða að efni í öll herlegheitin. Kartonpappír, bómull, lím í túpum, límstifti, tvinni, glimmer, gullpennar, jólapappír, pakkabönd, seríur þvottaklemmur girni og svo margt annað, sín ögnin af hverju. Við fórum í dag tvö saman í innkaupaferð. Byrjuðum í Júróprís, þar fást nefnilega ótrúlegustu hlutir, og bara frekar ódýrt sumt. Sumir halda að þegar við förum í svona leiðangra til að eyða peningum frá bænum sé okkur skítt sama hvað það kostar, en það er nú bara ekki svoleiðis, þetta eru peningarnir okkar líka.

Þarna fengum við jólapappírinn og pakkaböndin, bómullina og límbandið. Seríur voru ekki til nema með mörgum ljósum, við ætluðum bara að kaupa frekar litlar. Tókum samt nokkrar.

Ég keypti mér piparkökur fyrir eigin krónur til að eiga með miðdagskaffinu. Við eigum nokkrar saman einskonar matarkistu, þar sem við geymum kex og súkkulaði með öðru góðgæti til að renna í síðdegis. 

Enn var mikið eftir á listanum. Við vissum líka alltaf að við myndum þurfa að fara í prentsmiðjuna eftir öllum pappírnum. Þangað lá leiðin næst. Þegar inn kom var þar allt öðruvísi en síðasta ár. Engin búð? og þá auðvitað ekkert hægt að fá nema pappírinn einan. Við lögðum inn pöntun og fórum út.

Enn áttum við eftir að ná í gullpenna, kreppappír, klemmur, túpulím og stifti og reyndar ýmislegt fleira. "Offis one" - það er útlend búð í hótelinu. Þar sem einu sinni var umferðarmiðstöð eða "Ice in að bucket" (önnur útlend búð) eða eitthvað sem ég man ekki. Við þangað.

Þar var til rauður kreppappír og ein rúlla græn. Límstifti og gull og silfurpennar, dúkahnífar hundódýrir. Annars voru nú sparnaðaráform fyrir hönd bæjarins óðum að fjara út. það verður bara áð grípa það sem til er hvar sem það er. Við létum þetta duga í bili. Ef allt væri í óefni á föstudag yrði bara að rjúka út til neyðarráðstafana.

Túpulímið hvíldi þó þungt á mér, svo ég fór, um leið og ég skrapp í fiskbúðina eftir vinnu, í T.R.S. Þar held ég þó að ekki sé mikið hægt ð græða fyrir bæinn, en það varð að hafa það  -  límið.  Þarna fann ég líka kreppappír í nokkrum litum svo ég keypti hann og túpulím eins og ég taldi þurfa. Einstakt lán var að þarna er víst bærinn í viðskiptum svo ég þurfti ekkert að gera nema leggja nafnið mitt við orðinn hlut. Ég hlýt að klóra mig út úr því ef gert verður veður vegna þessa.

Ég endaði svo á því að kaupa til heimilisins í Bónus og  laumaði þremur pökkum af þvottaklemmum með. Skítt með það, ég bara gef bænum þessar klemmur, stend ekki í nótuveseni og innheimtu fyrir 500 kall. Kannski ég geti vonað að mér verði það til góðs, bærinn hlýtur að kunna að meta svona góðverk? Þá held ég að flest sé fengið og hlakka til föstudagsins þegar allt þetta dót kemst í gagnið. 


Hvað þarf ég að kunna um Indland?

Í skólanum - í skólanum er skemmtilegt að vera.  Það er próf á morgun, landafræði, Indland. Þess vegna fórum við í dag yfir spurningar og svör sem við höfum verið að læra síðustu vikur. Ég er miklu fróðari núna en é hef verið undanfarin fimmtíu og einhver ár. Enda eru þau fræði sem við lærðum þá ógild fyrir löngu. Að Indverjum fjölgi daglega sem nemur 60 x fjölda Íslendinga hefði til dæmis ekki verið að marka þá. En svona er það víst núna - átján milljónir á dag! getur það verið? Alla vega segir bókin það. Og þar stendur líka að úrkoma á Indlandi nýtist miklu verr en hér, vegna uppgufunar, og svo ótalmargt annað gáfulegt. Ég held ég hafi aldrei lært svona vel fyrir próf og er að hugsa um að fá að reyna mig á því - bara svona til gamans.

Grenjandi á flótta undan beljunum

Nú er rétt að hætta þessum þeytingi um alla sveit og færa sig nær upphafinu.

Frá Garði var farið upp Hvammsbrekkuna upp á Hvammshlað, sunnan við hlaðið var Kiðagilið og þar meðfram Högnastaðaásnum lá gatan fram að Gröf. Klapparhylurinn í ánni á vinstri hönd og svo Týrukofi hægra megin í blágresisbrekkunni neðan við Högnastaði. Það er mjög líklegt að í Högnastaðaásnum séu staðir sem einu sinni áttu nöfn, ég veit þar af Ólafskletti, en man ekki nákvæmlega hver hann er af þeim klettum sem eru  þar. Ég á það á korti sem ég finn ekki í bili. Þó veit ég að hann er á þeirri leið sem við fórum þegar við á milli jóla og nýárs bárum upp á ás hverja ferðina af annarri af brennuefni. Dag eftir dag, ferð eftir ferð, létum ekki deigan síga.

Á gamlársdag kom svo í ljós að hægt var að komast á traktor frá Högnastöðum alveg að brennustað og þá tóku fullorðir þátt í aðdráttum.  Næsta ár var það svo gleymt og við byrjuðum aftur að burðast upp, á annan í jólum,með eitt dekk eða fjórar spýtur í hverri ferð. 

Ólafskletturinn gæti verið sá sem við skriðum uppá þegar hvammsbeljurnar eltu okkur fjögur eða fimm og ætluðu að drepa okkur, eða það héldum við. Stóð svo hersingin á klettinum, grenjandi svo heyrðist til bæja - og Snati með okkur, sem líklega hefur verið fyrirhugað fórnarlamb kúnna. Venjulega sýndu þær okkur ekki slíkan áhuga. 

Norðan við bæinn í Hvammi lá gata inn með ásnum. Þar á miðri leið var klettur sem við lékum okkur mikið í. Það var þar oft drullubú á hverri syllu, en kletturinn var nafnlaus. Þar fyrir innan var svo skriðan sem steindeplarnir bjuggu í á sumrin, áttu þar hreiðrin sín og vörðu þau með hvellum hljóðum. Þar fyrir neðan var brunnurinn, tunna sem safnaði vatni. Upp úr honum bjargaði ég einu sinni lambi og blés í það lífi, þó ég vissi ekkert þá hvað blástursaðferð var.

Þarna fyrir innan var svo Hveraheiðin og austan við hana hvammarnir.  Upp af þeim var svo kappreiðavöllurinn sem notaður var til æfinga fyrir kappreiðarnar á Sandlæk. Þarna á heiðinni, næst ásnum var gerðið, allvænt afgirt tún og gömul fjárhústóft innan girðingarinnar. Þangað hefur verið farið meðfram ásnum til gegninga frá Gröf - í Hvammi voru ekki kindur fyrr en eftir 1950. Enda var þessi tóft eldgömul og eingöngu notuð sem hreiðurstæði smáfugla á sumrum.

Ofan við gerðið lá svo Ljónastígurinn vestur yfir ásinn. 

Áður fyrr voru réttirnar í Túnsbergslandi og þá var framsveitarféð rekið þaðan meðfram Litlu-Laxá og um Kvíadal sumt, en annað beygði af leið á  móts við nautagirðinguna, norðan Hveraheiðar og handan ár, og fór svo um Ljónastíg vestur yfir ásinn. Þá var komið niður nokkru fyrir sunnan Bryðjuholtsmúla. 

Ekki man ég eftir neinum örnefnum tengdum draugum eða álfum, nema Draugahvernum. Líklega hafa engar þesskonar verur þrifist í Grafarhverfinu.

Í Gröf var þúfnaklasi í túninu vestan við bæinn sem var kallaður Lögrétta, hefur líklega heitið það frá fornu fari. Í Gröf var þingstaður í fornöld.  Þarna var svo sléttað og Sunnuhlíð byggð yfir. Þar var líka farið upp brekkuna, á milli Lögréttunnar og tjarnarinnar upp á Hof, þar sem fjárhúsið var. Emil í gröf átti aldrei margar kindur, en þær gáfu örugglega meira af sér en stærri hjarðir á öðrum bæjum.  Og fallegar voru þær. Grafarhverinn var svo austur við ána undir bakkanum á móts við Reykjarbakka.     Í honum sáust hverafuglar. Grafarhverfið var eingöngu okkar megin árinnar, Grafarbakkabæirnir voru ekki þar með.

Örnefni verða ekki öll til á sama tíma og þau koma til af ýmsu. Tobbugarður er nafn á gömlum gulrótagarði norðan Hverahólmans og sílalækurinn þar fyrir austan. Nefið er líka ákveðinn staður sem enginn þekkir þó víst nema við systkinin. 

Kannski finn ég kortið einhverntíman og þá get ég bætt úr því sem hér vantar. Þó minnir mig að þar séu ekki öll þau nöfn sem hér hafa verið nefnd.

 


Það sem einu sinni hét og heitir enn, þó fáir muni eftir því, í Grafarhverfi hinu forna

Ég ætla að skrifa hér, líklega í tvennu lagi, það sem ég kann eða man um örnefni í Grafarhverfinu. Ekki dettur mér í hug að ég viti allt sem skyldi og gaman væri ef fleiri leggðu mér lið til að bæta um betur. Ég skrifa þetta í þátíð, en allt er það þó í fullu gildi enn í dag.

Það sem næst okkur var, og hét eitthvað, voru Litla- Laxá og Hverahólminn. Það var vað á ánni fyrir framan bæinn í Garði, en það hét ekki neitt.  Klapparhylurinn var það eina í ánni nærri okkur sem hét eitthvað. Svo var reyndar annar hylur í ánni, miklu neðar, í Grafar landi, vestan við Torfdalinn. Sá hét Breiðtrog og við hann var byggt klakhús.

 Í Hverahólmanum var bara einn hver sem átti nafn, það var Vaðmálahverinn, allir aðrir voru bara hverir og hétu ekki neitt. Einn þeirra var þó farinn á mínum tíma. Honum hafði draugur frá Reykjadal stolið fyrir mörg hundruð árum. Þar efra var enga volgru að finna og hann því sendur í ránsferð fram í sveit. Fyrst hafði hann þó víst verið vakinn upp úr kirkjugarðinum í Reykjadal. En þessi hver sem hann tók, var heitur að halda á og draugsi glopraði honum niður eftir skamman spöl í Hveramýrinni framanvið Hveraheiðina og heitir þar síðan Draugahver.  

Austan við Hverahólmann, hét "austur á eyri" og önnur eyri var svo framan við ána og þá var farið "fram á eyri". Og ef maður ekki fór upp hverabrekkuna að Grafarbakka lá leiðin fram með bakkanum og fram í Hof. Þar var braggi sem ég aldrei vissi hvað geymdi, og svo hrútar, líklega tveir, en á þessum árum voru hrútar ýmist dauðir eða lifandi og dældu vatni væru þeir dauðir. Þessir voru dauðir.

Ef farið var upp Hverabrekkuna að Grafarbakka var þar á brekkubrún til hægri hænsnakofi austurbæinga og þar fyrir framan svo gróðurhús, eða húsarústir sem Gróður h/f. hafði átt. Þaðan lá svo gatan um hlaðið á Grafarbakkabænum, Þar var brúsapallurinn sem mjólkurbrúsarnir voru settir á í daglegum ferðum frá Hvammi. 

Svo var farið áfram austur bakkann, sem var brattur niður að ánni. Eiríkur hrapaði þar einu sinni niður á traktornum, sem fór í klessu á klöppinni við ána, en Eiríkur laskaðist bara lítillega. Þá varð hlé á upptöku í kartöflugarðinum okkar á eyrinni. Þarna lá svo vegurinn framhjá Helgakofa, þar sem neglt var fyrir alla gluuga, og svo var komið á Stöðulinn.

Á Stöðlinum var rétt, áður fyrr notuð til að mjólka kvíaærnar, eins og gert var í "gamla daga". Kvíaærnar voru rollur sem lömbin voru tekin frá og þær svo mjólkaðar kvöld og morgunn, eins og grafarbakkabeljurnar á síðustu árum.

Á mínum tíma voru þessar réttir notaðar í tengslum við ærhúsið sem var þar norðanvið, á bakkabrún, nýlega byggt og myndarlegt. Í réttinni var rúið og markað á vorin og annað stússað við kindur þess tíma.  Hinumegin við veginn til móts við réttina var trjágarður, sem einhver framsýnn bóndi hafði plantað. Á þessum tíma voru þar myndarlegustu tré. Þarna fyrir austan kom svo afleggjarinn út á þjóðveginn, sem lá  upp með Hryggjarholtinu og á svo ofaní Kvíadalinn, sem Kvíadalslækurinn rennur um. Svo upp brekkuna og upp á Mela. Þar voru malargryfjur og mátti þar sjá grafarbakkabræður "delera" á sunnudögum.

Á Melunum áttu pabbi og Siggi á Hverabakka rófugarð og kartöflukofa. Stæði maður þar í kofadyrum blöstu Selholtin við, þar sem Eiríkur, upprisinn úr traktorsslysinu á nú sín fjárhús. Meðfram ánni, frá Kvíadal að Áslæk voru mýrarhvammar sem hétu Krókar --


Þar má reka við án þess að eftir því sé tekið

Um helgina fór ég fjórar ferðir yfir Hellisheiði, sem er nú heldur mikið á minn mælikvarða. Frá rennandi blautu barnsbeini hef ég farið þessa leið, fyrstu árin svona tvisvar  til fjórum sinnum á ári, en síðan oftar eins og eðlilegt er.

Það hefur alltaf verið fýla í grennd við Hveradali.  Misjafnlega ágeng eftir vindum. Hverafýlan, sem ekki þekktist heima í sveitinni þó við ættum heima á barmi sjóðandi hvera. Ekki einu sinni Vaðmálahverinn, stór og djúpur, bullandi neðan úr iðrum jarðar, kannski alveg frá fjandanum sjálfum, gaf frá sér minnsta vott af svona fýlu.

Þessi venjulega hverafýla hefur aldrei verið mjög sterk, eiginlega oftast svona eins og væg prumpufýla, og getur verið að ókunnugir hafi stundum misreiknað sig og litið ferðafélaga hornauga. En núna, í seinni tíð, er engin hætta á þesskonar  ranghugmyndum. Svo magnaðan fnyk sem nú leggur þarna með hlíðum og smýgur í bíla getur enginn mennskur maður framleitt.

Þetta kemur frá borholunum. Nú er borað dýpra en áður, og getur það verið rétt sem mér dettur í hug, að fýlan verði stækari eftir því sem dýpra er borað? Ef svo er þá ætla ég bara að biðjast undan frekari borunum á heiðinni. Eða þá að orkuveitan bori líka fyrir okkur vegfarendur - göng undir heiðina - tvenn göng, ein í hvora átt.  Þeir eru að bora þarna hvort sem er.DSCF5079DSCF5080


Beljur á beit - aukabúgrein framtíðarinnar

Hvers vegna ekki? Það er talað um að í framtíðinni muni mjólkurkýr á Íslandi ekki fá að fara út úr fjósi, frekar en raunin er víst með frænkur þeirra í útlöndum. En er þá ekki upplagt að hafa úti kvígur og annað geldneyti, og selja ferðafólki aðgang.

Eins mikið litaúrval og hægt er að finna, kálfa og fullorðið með naut í bland. Þetta gæti orðið góð tilbreyting í sunnudagsrúntinn, að skreppa heim að Laugardælum til dæmis, og fá leiðsögn í kringum "nautgripatúnið". Ég er viss um að fjöldi fólks myndi borga fyrir það.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband