Færsluflokkur: Dægurmál

Hvað ef hún María hefði ekki komist í fjárhúsið - og hvernig stóð á að hún lenti þar?

Ég meina það - í alvöru, ef hann Jesú hefði nú bara fæðst einhversstaðar úti, í holtunum í kringum Betlehem? Kannski bara í skjóli við stóran stein - ætli það sé kalt þarna á þessum árstíma?   Hann hefði kannski aldrei fundist og ekkert orðið úr neinu.

Ala vega - í jólaguðspjallinu væri engin jata og ekkert þak yfir höfuðið. Engar rollur eða asnar og hreint ekki víst að vitringarnir hefðu rambað að einhverjum steini  þarna í hrjóstrugu og stórgrýttu holtinu - janvel þó einhver stjarna hefði verið þar á himni. 

En hvernig stóð þá á því að þau lentu þarna í fjárhúsinu? Var það ekki einhver sem vann á hótelinu, sem reyndi að leysa vandann eins og best hann gat?  Hótelið var pakkfullt, en af eintómri hjálpsemi og jákvæðni reyndi hann að bjarga því sem hægt var og vísaði á útihúsin. "Kristilegt hugarfar", myndi það heita núan, sem var auðvitað ekki til þá.

Svona hugarfar finnst mér því miður svo víða vanta núna. Að taka á málum og samskiptum á jákvæðan hátt. "Hvernig þet ég leyst þennan vanda og hjálpað"?           "Ég skal gera þetta, það munar mig engu". Í staðinn finnst manni meira um "Hvernig kemst ég nú hjá því að sinna þessu, eða "þetta er nú ekki í mínum verkahring, ekki fæ ég borgað fyrir það". 

Að "gera góðverk", er alveg ágætt og öllum hollt. En að ásetja sjálfum sér að leysa hvern vanda eins og best er hægt og komast sem oftast hjá því að segja nei - það er betra.  


Nú er ekkert í "pípunum"

Svona getur öllum förlast flugið. Ég er að vísu að melta það með mér hvort ég eigi að byrja á langri sögulegri skáldsögu, sem ég skrifaði fyrir einhverjum árum, eða ætti ég frekar að gefa frá mér "þrjá þætti úr uppsveitinni". Þeir gætu þó saman komnir orðið jafn langir og sagan. Ég var beðin að segja meira frá sveitamönnum og í öllum þessum fjórum þáttum koma þeir við sögu, ósköp meinlaust þó og ekki alltaf undir nöfnum.

Það er ekkert hægt að segja frá sveitungum sínum endalaust. Það sem maður man er kannski ekki það sem viðkomandi vill láta segja alþjóð, sem er mjög skiljanlegt.           Og svo er það síminn. Þetta kemur allt.

Nú veit ég. Í þessu yndislega desembervotviðri verður mér hugsað til stjörnubjartra kvölda á ísilagðri Litlu-Laxá. Við Garðs og Grafarbakkakrakkarnir fórum stundum langt upp eftir ánni á ísnum. Í allt vorum við 15 og oftast öll saman þegar farið var í svona ferðir. Við áttum aldrei skauta, en sleða drógum við gjarnan þar sem á sátu  þau minnstu eða lötustu. Það var alveg ótrúlegt hvað tunglið lýsti upp, við sáum allt í kring. Berghylsfjallið og ásana og reykinn sem steig upp af hverunum við hólmann. Það rauk svo mikið í frostinu. Ána lagði aldrei neðan við hólmann, þar var hveravatnið búið að hita hana svo.  Þegar frostið var mikið heyrðust brestir í ísnum eins og þungir dynkir, stundum langt að. Alveg ofan úr Hrunavelli. Brestirnir komu ekki endilega frá ánni, heldur eins þar sem land var blautt og hafði frosið. Það glitraði á ísbungurnar í Krókunum, þar höfðu lækjarsitrurnar komið undan brekkunum og hlaðist upp með frostinu og þar voru  nú stóra ísbunkar með hrjúfu yfirborði. Og það glitraði allt. 

 


Í kolsvarta myrkri og dautt ljósastaurunum

Það eru ýmsar leiðir til sparnaðar. Ég veit reyndar ekki hver græðir á því, en í morgun þegar ég fór í sundið með bekknum mínum þurftum við að þreifa okkur þangað eftir minni af því flestir staurarnir voru ljóslausir. Þetta er nú varla boðlegt í næsta nágrenni barnaskóla. Þetta var að vísu snemma, kannski var enginn vaknaður til að kanna stöðuna eftir helgina. En ég hef það fyrir satt að svona hafi þetta verið fyrir helgina líka og það meira að segja allan hringinn í kringum skólann, grasvöllinn og allt.  Og það eru ekki skemmdarverk eða rokslys. Perurnar eru einfaldlega búnar að gefast upp eftir langa og stranga vetrardaga. En rafmagnsreikningurinn hjá bænum fer auðvitað fram úr öllu hófi í desember. 

En tíminn í sundinu var frábær. Það var búið að umvefja heita pottinn rauðum ljósalengjum og við bekkjarsystkinin lágum svo í vaðlauginni litlu og spjölluðum. Öll sem mætt voru, hringinn í kring og tærnar mættust í miðju. Síðasti tíminn fyrir jól og kennarinn stóð á bakkanum og tók þátt í umræðunum. Svona eiga sundtímar að vera.


þegar jólin voru nærri því eyðilögð - og afmælisveislan líka - síðari hluti.

Morguninn eftir kvöddum við fólkið í húsinu og héldum niður á ferðaskrifstofu. Ekki varð sú för til fagnaðar. Ófærðin var sú sama og "enginn mjólkurbíll myndi leggja í hann í dag", sagði Bjartur og var víst ekkert áhyggjufullur vegna þess.

Æi- Guð, af hverju gerir þú okkur þetta?

Jólin eru alveg að koma heima í Garði og við sitjum hér föst. Á ferðaskrifstofunni, þar sem aldrei koma jól.   Ég fór út á tröppurnar, hallaði mér út yfir steypta handriðið og tárin hrundu ofaní snjóinn fyrir neðan.   En ekki gat ég látið eftir mér að grenja hástöfum, ég var ekkert smábarn lengur og þarna var allt fullt af fólki, ókunnugu fólki. Ég harkaði af mér og þurrkað tárin með erminni. 

Eftir nokkra umhugsaun fóru Stebbi og Gústa með okkur aftur yfir ána, til sama staðar og áður. Ekki held ég að sú endurkoma hafi vakið fögnuð innfæddra. Mér heyrðist einhver kvarta yfir því að það væri ömurlegt að sofa á gólfinu hjá ömmu og líka að einhver afmælisveisla gæti orðið eyðilögð.

Ég hélt mig að mestu uppi í herberginu og las. Örn var bara hinn kátasti úti að leika sér með strákunum. Það munaði um árið að hann hafði ekki vit til jafns við mig til að gera sér grein fyrir alvöru málsins.   Mér fannst stelpan ekkert skemmtileg og ég lét eins og ég sæi ekki þegar hún var að kíkja á mig um dyrgættina. Svo braut hún stól í frekjukasti.

Maðurinn lét okkur afskiptalaus, en konan var góð.   Fullorðna fólkið var alltaf að spila og hlægja, meira að segja Stebbi og Gústa hlógu, samt vissi ég að þau áttu mörg lítil börn heima í Götu.  Var þeim alveg sama þó þau væru alein á jólunum?

Það gerði dálitla glætu í myrkrið að við fréttum að pabbi og Jói í Hvammi væru að koma á Hvammsjeppanum að sækja okkur. En þeir festu hann austur í Flóa og urðu að ganga þaðan.  Þeir komu sér í gistingu í öðru húsi, en við vorum áfram þar sem við vorum komin. Svo ástandið var litlu betra en fyrr, kannski bara verra.    Nú var mamma ein heima með smástrákana þrjá, það yrðu ekki mikil jól þar. Hver átti að skreyta jólatréð þegar pabbi var hér og við ekki einu sinni hjá honum? 

Svona liðu nú tvær nætur og dagur á milli. Áreiðanlega fengum við vel að borða, en ekki man ég neitt um það og best gæti ég trúað að ég hafi verið lystarlítil.      Strákarnir léku sér úti í þessum óláns snjó, ég las og stelpan var að kíkja á mig öðru hvoru, en félagsskapur hennar freistaði mín ekki frekar en áður.   Enginn virtist hafa áhyggjur, nema þá helst út af þessari afmælisveislu sem við vorum í þann veginn að eyðileggja.  

Á Þorláksmessumorgunn komu boð um að reynt yrði að fara af stað með mjólkurbíl. Við tókum okkur saman, og yfirgáfum svo þetta leiðindahús öðru sinni - og ég óskaði þess að þar kæmi ég aldrei aftur.  Á ferðaskrifstofunni hittum við pabba og Jóa og við það batnaði ástandið til mikilla muna.

Síðan var lagt af stað og áfram haldið alla leið.    Ekkert man ég frá þessu ferðalagi, nema að Hvammsjeppinn var skilinn eftir þar sem hann sat fastur. Hvernig áttum við nú að komast í kirkjuna á Jóladag? 

En ég man að það var logn og stjörnubjartur himinn, þegar við gengum úr Kvíadalnum yfir Litlu-Laxá ísilagða á Þorláksmessukvöld.                                                                Nú stóð afmælisveislan sjálfsagt sem hæst á Selfossi.

Nokkrum árum seinna var ég gift öðrum stráknum. Þessum sem Örn hafði áður leikið sér við heima í sveitinni, og það er alltaf afmælisveisla hjá okkur á Þorláksmessu. 


Þegar jólin voru nærri því eyðilögð - og afmælisveislan líka

Ekki man ég hvort eftirfarandi frásögn hefur fyrr verið birt, en örugglega var hún lesin nokkrum sinnum við ólík tækifæri. Svo langt er nú liðið síðan, að ég læt hana flakka.

Kemur hér fyrri hluti  sögunnar:

Sú ferð sem hér er sagt frá  mun hafa verið farin árið 1956 eða þar um bil. Ferðalangarnir vorum við Örn bróðir minn. 

Á þeim árum var það gert okkur systkinum til skemmtunar, og sjálfsagt ekki síður mömmu til léttis, að leyfa okkur að eyða hluta af jólafríinu hjá ömmu og afa á Hulduhólum.    Í þessum ferðum var ekki minnst um vert að farið var með okkur í skoðunarferðir til höfuðborgarinnar, þar  sem jólin voru farin að gera boð á undan sér.    Jólasveinarnir voru komnir í glugga Rammagerðarinnar, og ef við voru heppin, stóðum við á Austurvelli þegar kveikt var á stóra jólatrénu.

Ekki var þessi orlofsdvöl neitt frábrugðin öðrum, en líklega varð hún lengri en til stóð í upphafi, því ég man að amma var að álasa sjálfri sér fyrir að hafa ekki látið okkur fara deginum fyrr, þegar hún sendi okkur af stað í Selfossrútunni og komið var hið versta veður og færi. Þá fór rútan frá  B.S.Í. niðri í miðbæ.

Við vorum svo sem ekkert leið yfir veðrinu, við vorum á heimleið og jólin á næstu grösum, varla meira en 4 - 5 dagar eftir. 

Rútan varð að fara Krísuvíkurleiðina, því heiðin var ófær og gat alveg eins orðið það til vors.   Svo lengi sem áfram var haldið var allt í lagi. Við þurftum bara að komast á Selfoss nógu tímanlega til að ná mjólkurbílnum áður en hann legði af stað upp í hrepp. En ferðin átti eftir að ganga öðruvísi en ætlað var og eiginlega snúast á versta veg.

Hvort rútan varð of sein til að ná mjólkurbílnum, eða að hann fór ekki af stað vegna ófærðar man ég ekki, en þegar við komum inn á ferðaskrifstofuna á Selfossi, þar sem Bjartur sat og talaði í talstöðina, gaf hann sér tíma til að skjóta því að okkur, eins og ekkert væri sjálfsagðara, að við gætum ekki farið heim fyrr en á morgun.                      Á morgun!Ég man ekki mörg verri áföll sem ég hef orðið fyrir um dagana, kannski ekkert. Hvað áttum við að gera til morguns?  Selfoss var í okkar augum aðeins áningarstaður. Til að skipta um farkost, eða komast á klósett á leiðinni til Reykjavíkur, eða til ömmu og afa á Hulduhólum.  Við þekktum hér ekki nokkurn mann og höfðum aldrei orðið vör við að neinn hefði áhuga á að kynnast okkur. Og það var greinilega gefið í skyn að við ættum ekki að setjast að á þessari ferðaskrifstofu.

Bjartur í Selfossradíó var á þessum árum frægastur allra Selfossbúa, að minnsta kosti sá eini sem við þekktum með nafni. Við höfðum ekki svo sjaldan hlustað á hann tala við mjólkurbílstjórana sem voru fasti í sköflum á Húsatófta, eða Sandlækjarholtinu. En það dugði ekkert hér, hann hafði ekki áhuga á að hýsa okkur.

Eftir einhverjar vöflur  kom til okkar fólk, sem við vissum jú að voru sveitungar okkar, en við þekktum þau ekki neitt. Hann var lítill og hét Stebbi í Götu, en konan hans hét Gústa og það var vont að skilja hvað hún sagði, samt var hún ekki útlensk. 

Þau sögðu okkur að við ættum að koma með þeim í eitthvert hús.   Við gátum lítið haft á móti því og létum þau fara með okkur í ókunnugt hús hinumegin við ána.

Ekki þekkti ég fólkið þarna, það voru hjón og gömul kona, ein stelpa minni en ég og og tveir strákar eldri. Strákarnir höfðu að vísu verið í sveit uppi í hrepp og Örn lék sér þá stundum með öðrum þeirra, en þá höfðu þeir mig yfirleitt útundan, svo þessi félagsskapur varð ekki til að gleðja mig. Ég man ekki að neitt markvert gerðist það sem eftir var dagsins. Strákarnir lánuðu okkur rúmin sín, sem voru í smáherbergi uppi á lofti og við fórum líklega snemma að sofa. Fullorðna folkið var niðri að spila.  -------


Leynivinavikan

Síðasta heila skólavikan fyrir jól. Þá eignum við okkur leynivini og erum góð við þá. Ég á nú frekar erfitt í þetta sinn, vinur minn er af þeirri sortinni sem ekki er að auglýsa það daglega hvað honum finnst gott eða skemmtilegt. Þess vegna dettur mér ekki í hug að bjóða honum með mér á tónleikana á morgun, það er of dýrt til að eyða í óvissu. Kannski hefur hann engan áhuga á söng og vill vera heima hjá sér á kvöldin. Auðvitað væri heldur ekki hægt að taka hann með, ég yrði bara að senda honum miðann í leynipósti. Þetta er svolítið flókið að eiga við. 

Sá sem á mig að vini hefur staðið sig vel. hann hefur víst ekki lesið ársgamla færslu um hrakfarir mínar með vinargjafir, þá hefði hann ekki gefið mér brothætt eins og hann gerði í gær. 


Annasöm helgi

Það hefur eitt og annað verið að gera þessa helgi, enda er orðið einum of stutt til jóla. Hvað verður eiginlega um allan þennan tíma?

Hún Una er nú farin úr einu fóstrinu í annað, hún er komin til Guggu frænku og Júlíu.  Eins og aðrir hafði hún nóg að gera um helgina. Það byrjaði í gær, þá fór hún með ömmu og afa að taka á móti jólasveinunum sem voru að koma ofanúr fjalli. Það var nú eiginlega afi sem mest var með henni af því að amma var að gefa öllu fólkinu fullt af rjómavöfflum og kakói. Amma var nú ekki að þessu af eintómri góðmennsku, hún er bara ein af karlakórskonunum og þær gerðu þetta fyrir bæinn. Bærinn kann ekkert að baka vöfflur. Afi fór svo að syngja fyrir jólasveinana, með kórnum, og þá varð Una að vera hjá ömmu á meðan. Sat í tröppunum upp á loft í skálanum, á bak við hurð.

Við vöknuðum snemma í morgun - ja - alla vega snemma á sunnudegi. Una fékk sér morgunmat, en fór svo að hjálpa ömmu að baka smákökur. Það alveg skotgekk og var búið áður en Una fór að leggja sig síðdegis. Hún hefur verið í ferðarúminu hennar Dýrleifar og verið ánægð með það. Í gærdag gekk henni samt ekki vel að sofna og eftir smá stund var hún allt í einu komin fram. Amma og afi urðu alveg hissa, þetta rúm átti alveg að halda barni eins og Unu. En hún er víst ekkert venjuleg, sagði reyndar að Una hefði meitt sig, en gerði annars ekki mál úr þessu.

Við fórum svo í Bónus í Hveragerði seinnipartinn í dag. Amma þurfti að kaupa hitt og þetta, það besta sem hún keypti voru vínberin, og Una var búin að borða heilmikið af þeim áður en komið var að kassanum. Stelpan þar sagði samt ekki neitt þó pokinn væri hálftómur. HDSCF5586DSCF5596DSCF5594DSCF5598DSCF5602DSCF5608DSCF5613enni er víst alveg sama um þessi vínber.


Lítil stúlka í heimsókn

Hún Una ætlar að vera hjá ömmu og afa um helgina. Foreldrar og systir eru úti í Ameríku og ef það eru til tölvur þar geta þau séð hvernig dagarnir líða hjá okkur.

Síðdegis í dag komu Gummi og Dýrleif Nanna að heimsækja okkur, þær fengu sér piparkökur og mjólk frænkurnar og svo fóru þær að leita að einhverju að lesa.   Fundu eina bók álitlega, sem Dýrleif settist með ofaná pabba sínum í sófanum.           En Una fór að horfa á barnaefni með afa. Svo sofnuðu auðvitað feðginin í sófanum og vöknuðu ekki fyrr en seint og síðarmeir, þá fóru þau heim til sín.

Eftir matinn fór Una í bað. Amma ætlaði að sækja balann út í skúr, en hann var þá ekki þar. Ansans. En amma kom þá auga á forláta frauðplastkassa sem hún hafði eihverntíman fengið í Bónus. Svona lika stór og góður, undan salati frá Spáni. Hann var síst verri en balinn og Una var hæst ánægð. Svo fór hún nú bara að sofa kl. átta, eins gott að rétt áður kom Gugga frænka með hundinn mjúka sem Una hafði gleymt hjá henni. Una þarf nefnilega að vera á tveimur stöðum í þessu orlofi. Á meDSCF5494DSCF5523DSCF5527DSCF5530DSCF5553DSCF5568DSCF5578ðan amma er í vinnunni, er hún hjá Guggu og Júlíu. Auðvitað öllum hinum í fjölskyldunni líka, en þessar eru nú merkilegastar.


Ef ég "segði mig til sveitar"

Eins og þið kanski hafið tekið eftir eignaðist ég um daginn nýjan vin. Einu sinni var ég búin að heita sjálfri mér því að bindast ekki vinaböndum öðrum en þeim sem ég væri skyld eða tengd með einhverju móti. Tengdir gætu þá verið þeir sem ég, börnin mín og barnabörnin tengjast, eða þá fólk sem mér væri vel við af öðrum orsökum.

En svo er ég búin að finna út að fyrrum sveitungar mínir, og jafnvel uppsveitamenn, eins og Bjarni Harðar, eiga fyllilega skilið að vera með.                Á þeim slóðum býr bara gott fólk, og auðvitað eins þó það  hafi svo komið sér fyrir í öðrum sóknum.

Reyndar er ég á því að mér gæti komið vel að hafa þá, þar efra, mín megin ef til þess kæmi að ég þyrfti að segja mig til sveitar á gamals aldri. Þá myndi ég væntanlega send upp í hrepp?   Ó - mæ! nú fattaði ég eitt. Var ekki fólkið í gamla daga sent til sinnar fæðingarsveitar?    Ó jú - Mosfellssveitin myndi það verða, en hún er ekki lengur til - hvað þá?

Nei, auðvitað verður ekkert svona vesen með mig, en það er ekki svo langt síðan þetta var alvanalegt og reyndar er nútímavistun gamalmenna stundum með keim af hreppaflutningum.

Þessi nýi vinur bað mig endilega að halda áfrm að skrifa um Hrunamenn. Ekki lái ég honum það, okkur finnst öllum sem þaðan komum, gaman að heyra af mönnum og málefnum í þeirri sveit. En það er nú spurning hvort endalaust er hægt að halda áfram með sögur frá fyrri tíð? Ég gæti jafnvel slysast til að skálda óvart eitthvað um þá sem síst skyldi. Reyndar væri gaman að búa til sögu um Grafarbakkabræður eða þá eitthvað af leynifundum Arnar bróður míns og Bjarna á Hverabakka. Það gætu alveg orðið magnaðar sögur. Ég gæti líka fært mig nær í tíma og sagt frá næturlífi ungmenna í Hrunamannahreppi um 1960. Það væri sniðugt, en þyrfti þó að fara verlega. Jú líklega er enginn vandi að halda svolítið áfram, bara ekki akkúrat núna, ég ætla að skrifa á nokkur jólakort.

En ég fékk út úr prófinu í dag, ég verð að segja frá því. Prófinu um Indland, sem við í níunda M.A. tókum í síðustu viku. Ég fékk 9,9 og var heldur kát. Ég átti að vísu enga bók og las ekki heima, ég var heldur ekki hæst, en bara ánægð samt. 


Það eru engar deilur í Hrunamannahreppi

Mikið getur sjónvarpið bullað, og reyndar margir aðrir fjölmiðlar líka. Upphrópun til kynningar á Kastljósi  hljóðaði einhvenvegin svona: "Deilur í Hrunamannahreppi vegna riðusýkingar á bæ þar"? Svo rúllaði Kastljósið áfram og í ljós kom að það sem málið snerist um var seinagangur og rugl í kerfinu, þras á milli opinberra stofnana, en kom Hrunamönnum bara ekkert við. Nema náttúrulega honum Sigga í Gróf og kindunum hans. Það eru þau sem fá að finna fyrir klúðrinu hjá snillingunum í kerfinu. Það ætti að byggja fleiri glæsihallir fyrir þessar stofnanir, þá kannski gætu þær skilað þeirri vinnu sem til er ætlast sómasamlega?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband