Færsluflokkur: Dægurmál

Er ekki að verða komið nóg?

Eins og gaman er að horfa á fallega flugeldasýningu og skotviðburði hverskonar, er nú orðið ljóst að öllu má ofgera. Það byrjaði á annan í jólum, eins og reyndar oftast á þeim degi, strákar þurfa alltaf að gera ákveðanar athuganir og forprófanir á svona skoteldum.En allt frá því hefur linnulaus skothríð dunið hér yfir austurbæinn. Með ákveðnu hámarki á gamlárskvöld og aftur nú í kvöld með óvenju flottri sýningu, en eftir hana dró ekkert úr, eiginlega síður en svo.

Ætli þeir sem selja góssið séu skyldaðir til að senda allt óselt til himna fyrir miðnætti? Maður gæti alveg ætlað það. Ég tel mig vera á besta aldri og allgóða á taugum og mínir nánustu eru meira að segja miklir aðdáendur sprenginga hvers konar. En nú er svo komið að talað er um að þetta sé orðið gott, enda enginn leikur fyrir áhugamenn að fylgjast með sýningu sem fer fram í öllum fjórum höfuðáttum. Það tekur á að hlaupa svona glugga úr glugga, út á tröppur og jafnvel lengra. Hreint ekkert grín. Og svo er nú bara að koma svefntími hjá vinnandi fólki.


Það vorar snemma!

Ég fór í dag til Reykjavíkur og það var sumarfæri. Ekki er svo langt síðan þessi leið var lokuð meira og minna allan veturinn. Ekki lengra en svo að það var búið að finna upp myndavélina og ég var fædd. Ég á mynd af bíl sem stendur í snjógöngum miklum sem höfðu orðið til þegar mokað vr í gegnum margra metra djúpa fönnina sem huldi Hellisheiðina þá.

Svona er allt breytingum háð.  

Það er líka breytilegt hvað ég hef mikinn tíma - eða nenni að sitja við bloggið.

Undanfarnar vikur hef ég verið léleg, ég veit það alveg. En það er bara ýmislegt annað að gera. Jólin, eru tími sem maður hefur ákveðnum skyldum að gegna.

Afmælisveisla á Þorláksmessu, krakkarnir í mat á Jóladag og stórfjölskyldan í partíi á annan. " Amma - eruði ekki rosalega blönk eftir jólin, að halda öll þessi boð"? spurði hún nafna mín og á hrós skilið fyrir umhyggjuna.

Svo hef ég lesið nokkrar bækur í rúminu á kvöldin - og stundum fram á nótt. Harðskafanum lauk ég fyrir jól, en hann hélt ekki vöku fyrir mér fram á nætur.           Ari Trausti í leit að fortíðinni gerði það hins vegar stundum og þá helst í fyrri hluta bókarinnar. Í heildina finnst mér sú bók ljómandi góð. Hún er persónuleg, einlæg og eitthvað svo sönn - samt er hún sögð skálduð. Aðeins sá ég þar smávægileg mistök prófarkarlesara, en truflaðist minna af þeim heldur en því að fólk og staðir voru ekki nefnd sínum réttu nöfnum. 

Ég er líka búin með Jarlhetturnar hans Björns Th. heitins. Allt frá því ég byrjaði að lesa bækurnar hans og komst að því að við vorum bæði af ætt "Hraunfólksins", hef ég lesið allt sem hann skrifaði og ég komst yfir. Einstaklega læsilegur stíll og í þessari síðustu bók tekst honum að gera eldgamla íslendingasögu svo  skemmtilega að ég las hana í einum fleng.

Næst fer ég norður á Strandir með Hrafni Jökylssyni og veit að það verður góð ferð.

Morgunstundirnar notaði ég fyrir drauma eins og áður er nefnt. Einn draumur var þá ónefndur sem mér fannst einna merkilegastur og vona að boði eitthvað gott: Ég var einhversstaðar úti á landi, líklega helst fyrir vestan og þar hafði ég fundið vegg, hlaðinn úr einhverjum eðalsteinum. Ég var að leita að fallegum steinum í hleðslunni og fann þá nokkra. Þar á meðal einn, sem var eins og hnefastór kristall, algerlega glær og fallega lagaður. Ég gekk svo frá veggnum þannig að hann var eins og áður. Undraði mig reyndar á því að ekkert sá á þó ég tæki nokkra steina.

Svo er nú bara skólinn byrjaður aftur. Við vorum í gær að gera allt sem við viljum fá að gera í friði fyrir krökkum. Tókum til á undarlegustu stöðum og veitti ekki af.

Svo komu þau í dag, þessar elskur. Brosandi - "hæ" og gleðilegt nýár Helga" - fékk mig til að fá það á tilfinninguna að vorið væri að koma, tíminn  líður svo fljótt þegar manni er heilsað svona í vinnunni.

 

 


Áramót í austurbænum

Það eru að verða fjörutíu ár - OMG. Eftir kl. 12.00 á miðnætti nýársnætur höfum við komið saman nokkrir nágrannar og gert upp árið og skipulagt það næsta.

Fyrst vorum við sex pör en með breytingum í tímanna rás erum við nú fern hjón, sem höfum öll þessi ár búið í sömu húsunum í sama hverfinu. Fyrstu árin vorum við hlaðin börnum og tókum þau alltaf með. Ekki endilega skipulagt hvar ætti að hittast í hvert sinn en fyrir kl. eitt voru allir saman komnir á einum stað. Heima hjá einhverjum okkar. Elstu krakkarnir voru úti að tína prik en þau yngri léku sér saman og duttu svo eitt og eitt úr hópnum, sofnuðu þá einhversstaðar í húsinu. Svo komu þau stærri inn, fengu snakk og gos og spiluðu þar til þau fór að syfja líka.

Það var ekki alltaf snemma sem foreldrarnir voru búnir að gera upp gamla árið, og skipulagið á því næsta gat tekið tímann sinn. En yfirleitt alltaf áður en hinir krakkarnir í hverfinu fóru út í seinni leiðangurinn til að leita að þeim prikum sem eftir urðu um nóttina vorum við búin að fara um hús gestgjafans og  leita hvert að sínum börnum, finna þau og bera heim í bólin sín. 

Nú eru þessar áramótasamkomur eitt það skemmtilegasta sem krakkarnir úr hverfinu minnast. En þau eru líka nokkuð viss um að ef þau fetuðu í fótspor foreldranna og bæru börnin sín sofandi á milli húsa kl.5.30 á nýársdagsmorgunn árið 2008,  myndu þau verða kærð til barnaverndarnefndar. Ég er ekkert svo viss um það - það er ekki nokkur maður á ferli til að sjá til þeirra - ég sá það í morgun .

Nú er ákveðið hvar á að koma saman næst, og það er skráð í bók - svona útaf minninu. Og við tökum með okkur á fundarstað einn flugeld hver hjón, til að skjóta upp saman. Þess vegna voru þessar sprengingar í austurbænum kl.3.00 í nótt, fyrirgefiði. 

Í nánasta nágrenni okkar má segja að hafi verið 27 fjölskyldur á fyrri árum. Nú eru eftir af því 12 frumbyggjar. Ég læt fylgja kort til gamans.DSCF6001


Auglýsendur geta bara séð um skaupið?

Gleðilegt nýár er gengið í garð og verður okkur vonandi öllum gott.

Ég tók í gærkvöldi þátt í öllu sem á að gera á gamlárskvöldi. Var boðið í mat og fékk þar gott að borða - og mikið.  Sprengingar  og ljósagangur fóru ekki framhjá mér, og svo var það skaupið.

Ég er ekki fær um að meta hvort það var gott eða vont, ég man ekki eftir neinu sérstöku atriði, en mér leiddist samt ekkert.

Það hafði áður verið mikið talað um auglýsingar og skaup og það sem mér fannst einkenna þennan klukkutíma, eða svo sem ég var að fylgjast með, voru auglýsingarnar. Það var á stundum hreint ekki gott að átta sig á hvort var í gangi - skaup eða auglýsing.   Þess vegna datt mér í hug hvort ekki væri bara reynandi að láta auglýsendum það eftir að sjá um þennan tíma í dagskránni, sem skaupið hefur notað fram að þessu. Auglýsingar eru margar vel gerðar og jafnvel eins og lítil skemmtileg leikrit. Það mætti jafnvel gera úr þessu eins konar keppni á milli auglýsenda - hver á skemmtilegustu auglýsinguna á gamlárskvöld? Leikstjórar fengju vinnu, leikarar líka, bankar og fasteignasölur myndu borga fyrir þennan dýrmæta tíma og sjónvarpið fengi tekjur en ekki kostnað. Aðeins einn hængur á - útlánsvextir myndu sennilega hækka, og sölulaun - en er það ekki alltaf að hækka hvort sem er?

 


Áramót í roki og kannski rigningu

En það skiptir engu máli. Þetta blessað ár 2007 verður ekki aftur tekið og ekki heldur verður komið í veg fyrir að árið 2008 "gangi í garð". Það er hægt að fresta brennum og skothríð, en áramótin verða þrátt fyrir það. Reyndar er búið að skjóta hér og sprengja samfellt síðustu daga svo við verðum bara hvíldinni fegin, ef Guð gefur svo mikið rok að ekki sé skotfært í nokkra klukkutíma.  Einn lítill bálköstur á síðkvöldi í Mýrinni finnst mér miklu fallegri en eitthver stærðar bál í roki og frosti með neistaflugið rjúkandi allt um kring. 

Ég strengi engin heit og hef aldrei gert. Samt er nú eitt og annað sem ég vonast til að geta gert á næsta ári. Allt er það frekar einfalt og ódýrt í framkvæmd svo mér ætti að takast það með góðum vilja. Sjáum hvað setur.

Ykkur öllum sem hér lítið við þakka ég samveruna á líðandi ári og vona að allt gangi ykkur í haginn á því næsta.  


Er frjáls innflutningur á áfengi?

Úfff - það er alltaf að verða flóknara að fylgjast með því hvað má og hvað ekki - nú bara verð ég að segja pass. Ég veit alveg að það má ekki brugga landa í tunnuvís í íbúðarhúsi við Laugaveginn í Reykjavík.

En ég hélt líka að það mætti enginn nema ríkið flytja inn til landsins eðalvín í trékössum? Marga kassa, alveg fyrir alla ráðherrana, eða ráðafólkið, og örugglega einhverja aðra líka?

Hvað á ég að halda - get ég flutt inn vín - ef það er í kössum? 


Það hefur eitt og annað drifið á dagana

Alveg ótrúlegt hvað ég hef komist yfir að gera margt á þessum jólum. Ég fór eina ferð til útlanda, til að heimsækja skólann minn gamla í Guðbrandsdalnum. Alltaf er jafn gaman að koma þangað, en mér finnst skrýtið að hitta ekkert af fólkinu mínu frá fyrri tíð.

Ég var líka úti í skóla að kynna nýjum starfsmanni allt sem þar er að sjá. Það var þar fullt af krökkum og mötuneytið fullt eins og venjulega. Svo voru strákar í fótbolta á grasvellinum, veðrið var alveg ágætt.

Ég undirbjó líka stóra afmælisveislu, verst að ég vissi ekki hver varð hvað gamall, hélt fyrst að það væri ég sjálf, en svo gat það ekki passað, ég er svo ung. En brauðtertan átti að vera algerlega óviðjafnanleg, og krydd átti að vera hjá henni fyrir gestina til að bragðbæta eftir smekk. 

Við hjónin fengum okkur líka húsbíl. Rosalega stóran og fórum í reynsluferð um bæinn. Þá var sól og blíða og ég sat framan á toppnum en hann ók. Verst að hann fór öfugu megin inn í Víðivellina og ók þannig til enda. En allt fólkið sem var í sólbaði í görðunum horfði líka hugfangið á þennan flotta húsbíl.

Svo var ég líka dagstund flugfreyja og var á leiðinni til Ameríku. Alveg ótrúlegt hvað margt þarf að snúast í flugstöðinni svona í leiðinni út. Mér hefur alltaf sýnst þessar stelpur bara spóka sig í gegn, dragandi töskurnar sem heita í hausinn á þeim, á háu hælunum dillandi sér á eftir flugstjórunum. En það er nú aldeilis eitthvað annað, ýmislegt þarf að gera áður en ferðin hefst.

Einu sinni rölti ég líka um götuna og fann þar skartgripi og góss af ýmsu tagi. Það geri ég reyndar svo oft og finnst það alltaf jafn gaman.

Já það er eitt og annað við að fást. Einhver mun víst undrast hvernig mér tekst að komast yfir allt þetta með heimilisstörfum og jólaboðum? Málið er bara að skipuleggja sig, "allt hefur sinn tíma", eins og presturinn sagði.  Tímann til alls þessa fann ég daglega í morgunsárið á meðan aðrir ( og kannski ég) sváfu. Á milli sjö  og tíu á hverjum morgni er tími fyrir svona nokkuð og ég nýtti hann vel.


Ef það væri nú ráðinn húsvörður í stóru blokkina við Austurbrún -

 - - hvað skyldi hann þurfa á klífa háa brekku til að hitta sinn æðsta yfirmann?   Ég kann ekki að nefna það í réttri röð en veit um embætti þjónustufulltrúa, starfsmannastjóra, verkefnisstjóra, sviðsstjóra, deildarstjóra - stjóra - stjóra - stjóra.

Getur verið að stjórarnir í svona borgar og bæjakerfi séu orðnir svo margir að engir peningar séu eftir til að hafa venjulegt fólk í vinnu?

Spyr nú bara eins og fávís kona og get ekki annað.


Jólin koma - þó eitthvað hafi gleymst

Eengin hætta á öðru og þetta sem gleymdist - ef það þá var eitthvað - skiptir ekki nokkru máli.
Gleðileg jól til ykkar allra sem komið hér við. Takk fyrir komuna á líðandi ári, gaman að vita af ykkur sem oftast. Vonandi verður næsta ár gott við okkur öll. Jólakveðja til vina og vandamanna út um allt. Á Sauðárkróki og Egilsstöðum, Odense, Noregi, Svíþjóð og Kaupmannahöfn.  Hrunamenn allir og frændfólk á Reyðarfirði og Akureyri. Og svo allir hinir sem fara huldu höfði, en eru jafn velkomnir fyrir það. Jólakveðja frá Helgu R.E.


Er kominn nýr bakaradrengur?

Í gær hringdi ég í bakaríið til að panta brauðið sem ég þarf að nota á Þorláksmessu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég geri það og alltaf hef ég fengið fyrirtaks þjónustu.

Í þett sinn svaraði ungur maður í símann. Gaman, hugsaði ég, kannski kominn nýr "bakaradrengur".  Svo bar ég fram bón mína og sagði hvers konar brauð ég þyrfti að nota. "Við bökum ekki svoleiðis", sagði pilturinn. Haa - bakið ekki? Jú ég held nú það, "hvað heitirðu góði minn"? Hann sagði til nafns og var reglulega kurteis. en hann var ákveðinn í því að svona brauð væri aldrei bakað í þessu bakaríi. "Er hún Jóna þarna"? spurði ég og var kannski svolítið hvöss. Nei, hún var ekki þar.  Hann var víst aleinn í húsinu og ég varð bara að bjarga mér sjálf.

"Skoo -- þó þú vitir það ekki þá hefur svona brauð verið bakað í þessu bakaríi í meira en 30 ár, á hverjum þorláksmessumorgni, tvö fyrir mig og svo líka fyrir tvær aðrar konur, sem ég að vísu þekki ekki, en ég gæti örugglega fundið þær ef þyrfti.  Þær hafa sagt mér það stelpurnar að þetta sé ekki bara bakað fyrir mig eina.

"Ókey - ókey - ég skal skrifa pöntun (bara til að láta mig þagna) hvað sagðirðu að þetta héti"?  Hann mátti eiga það blessaður að hann var kurteis og virtist vel skýr í kollinum, skrifaði nú pöntun og merkti með nafninu mínu. Ég vona alla vega að hann hafi gert það, en ekki bara sagt svona til að losna við mig - kolvitlausa kerlingu sem notar síðustu dagana fyrir jólin til að gera önnum köfnu búðafólki lífið leitt. Það kemur í ljós fyrir hádegi á Þorláksmessu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband