Færsluflokkur: Dægurmál

Enn á ferð í Hrunamannahreppi

Þriðji hluti:

 Í hverahólmanum var fjölbreyttur gróður, sem hvergi fannst annarsstaðar í okkar nágrenni og líklega þó víðar væri leitað. Það var algengt að fræðimenn, jafnvel útlendir kæmu til að gera þarna rannsóknir.   Ég man að Vatnsnafli þótti merkilegur og sjálfsagt fleiri tegundir sem ég kann ekki að nefna. Mosa sótti pabbi í hólmann til að nota í Hýasintuskreytingar um jólin, þar fraus aldrei.

Austan í hólmanum grófum við eftir hveraleir. Þetta var rauðleitur leir, alveg hreinn og við notuðum hann í hin mætustu listaverk. En þau entust illa eftir að leirinn þornaði. 

Öll hús í Hvammi og Garði voru að sjálfsögðu hituð með hitaveitu frá hverunum í hólmanum. Einnig lagði pabbi lokræsi í garðana heima við og leiddi þar í heitt vatn. Þetta flýtti stórlega fyrir sprettunni.

Matur var oft soðinn í hverunum. Sett í pott og potturinn svo í hverinn, breitt yfir og látið sjóða svo lengi sem þurfti. Þarna voru líka bökuð  stór hverabrauð. 

Ég skolaði sjálf þvott við Vaðmálahverinn fyrir "nokkrum" árum. Þá stóð maður við hverinn með langt prik og hreyfði þvottinn í bullandi hvernum, hann er nokkuð stór. Svo var veitt uppúr og sett á hellu sem var þarna. Þar rann mesta bleytan úr áður en maður tók þvottinn heim. Hellan á að vera þarna enn.

Ég held að einungis Vaðmálahverinn hafi átt sér eigið nafn, en við kölluðum þá suma eitt og annað til aðgreiningar í daglegu tali.  Þegar byggt var í "Litla Hvammi", sem síðar fékk nafnið Hvammur 2 var þangað leitt vatn frá Draugahver, en hann er í túninu þar fyrir austan bæinn og er eini hverinn í Hvamms landi utan hverahólmans. 

Það er til saga um það hvers vegna hann er þarna, en það var draugur frá Reykjadal sem glopraði honum niður þegar hann var á heimleið með hverinn í fanginu. Hann hafði verið sendur til að sækja hver í hólmann fyrir húsmóðurina í Reykjadal, þar var enginn jarðhiti.  Hún hafði vakið hann upp úr kirkjugarðinum til sendifrðarinnar. En  ræfillinn varð að gefast upp þarna eftir skamman spöl og ekki veit ég hvað varð svo um hann, kannski þorði hann ekki aftur heim. 

Þó að við byggjum þarna í nábýli við hverina öll okkar uppvaxtarár kom varla fyrir að krakki brenndi sig. Þó voru engin boðorð sem bönnuðu okkur að ganga þarna um, en okkur var kennt frá upphafi að glannaskapur ætti þar ekki við.  Stundum stóðum við álengdar og undruðumst hvernig ferðafólk gekk þar um. Sumir stungu fingri ofaní hverina til að kanna hvort vatnið sem þar kraumaði væri heitt. 

Nú er þróin hrunin og sundskýlið svipur hjá sjón. Laugin er óbreytt í útliti, og reyndar núna, b�rinnDSCF4352ágætlega vatnsheld og hrein. En langt er síðan þar hefur nokkur lært sundtökin. Eigi maður þarna leið um er vissara að fara með gát, nýjar holur og rjúkandi augu gætu hafa myndast síðan síðast. 

Tvær myndir fylgja, önnur var tekin áður en byggt var í Garði og gæti ég trúað að Guðmundur Kjartansson eða Unnur systir hans hafi tekið þá mynd. Þar er laugin og sundskýlið í góðu standi. Bærinn í Hvammi næst og Grafarbakkabæirnir uppi á bakkanum handan árinnar. Hina tók ég sjálf á síðasta hausti, frá líku sjónarhorni. Þarna er útlitið orðið dálítið öðruvísi. Endir.


Enn á ferð í Hrunamannahreppi

Annar hluti:

Fyrir okkar heimili var þetta mannvirki hin mesta búbót, þar sem við höfðum ekkert baðherbergi með nútíma þægindum svo sem sturtu eða baðkari.

Frá frumbersku vorum við böðuð í bala svo lengi sem hann var nógu stór, en eftir það fórum við í laugina allt árið um kring.  En þegar þróin kom í hólmann varð hún miklu betri kostur, sérstaklega á veturna. Þá var hverinn látinn renna í þróna og svo látið kólna þar til hægt var að komast ofaní. Kannski var þarna einn fyrsti heiti potturinn á Íslandi. Ég man sérstaklega eftir einu jólabaði á aðfangadag. Við máttum ekkert vera að bíða eftir að vatnið kólnaði og píndum okkur ofaní allt of fljótt. En það vandist furðanlega og ekkert þótti tiltökumál þó við værum eldrauð og kannski hálfsoðin þegar við skriðum uppúr til að klæða okkur í jólafötin.

Ég man ekki sérstaklega eftir því að ég lærði að synda. Ég hef líklega verið fimm eða sex ára, og ég veit að það var Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur frá Hruna sem kenndi mér ásamt Solveigu dóttur sinni. Örugglega höfum við kunnað eitthvert hundasund og verið færar um að bjarga okkur, en hann kenndi okkur sundtökin.   Í lauginni vorum við á hverjum degi allt sumarið, fórum kannski heim ef við urðum svöng en síðan aftur í laugina.

Laugin var merkilegt fyrirbæri. Hún var þannig gerð að veggir voru hlaðnir á þrjá vegu úr grjóti og þéttað með torfi að utanverðu. Þannig var gerð fyrirstaða fyrir afrennsli hveranna í hólmanum.  Grynnst er hún næst hólmanum, þar sem farið var útí, en svo nokkuð djúp  lengra frá. Þessi laug var í mörg ár sú eina í uppsveitunum og notuð til sundkennslu þar til byggðar voru aðrar og flottari laugar í sveitunum. 

Laugin var hreinsuð öðru hvoru, kannski einu sinni á ári. Þá var vatninu hleypt úr, um botnloku sem var á þeirri hlið sem sneri að læknum fyrir utan, sem rann svo út í á. Þegar laugin var orðin tóm var Tanni, vagnhesturinn besti í Hvammi, teymdur ofaní, með einhvern slóða á eftir sér. Hann var svo teymdur fram og aftur um allan laugarbotninn til að hreinsa gróður og drullu sem kannski hafði sest þar að. Svo var lokað aftur og vatnið byrjaði að safnast fyrir. Ég man að hreinsunardagar voru ekki góðir dagar. Við gátum ekki farið í laugina. Varla hafa þeir þó verið margir í hvert sinn.

Þegar byggð var laug við skólann á Flúðum var hætt að nota þessa laug til kennslu og hún varð bara okkar einka. Þegar við svo stækkuðum fórum við að sækja í félagsskapinn þar og minna varð um hreinsun á gömlu lauginni. Eitthvað fórum við þó áfram í hana en á endanum var gróðurinn orðinn svo mikill og dýralíf í honum að okkur var ekki vært þar lengur. Komum uppúr bitin og bólótt, (væri sjálfsagt fréttaefni nú á tímum). Okkur klæjaði í bólurnar, en þær hurfu og við fórum bara aftur ofaní. En með okkar kynslóð var víst að mestu lokið verulegri notkun á þessari stórmerkilegu laug. Hún stendur enn og er alveg eins og áður. Og á síðasta ári var hún tæmd og hreinsuð svo þar eru nú vist engar pöddur lengur. Gott framtak hjá honum Bjössa í Hvammi.   

Sundskýlið við laugina var hólfað í tvennt. Í öðrum endanum var búningsklefi með bekkjum við veggi, en í hinum endanum var gufubað. Hár bekkur við einn vegginn, en í öðru gólfhorninu á móti kom gufan inn, jafnt og þétt, þangað leidd í stokki frá einum hvernum fyrir utan.  framh...


Enn á ferð í Hrunamannahreppi

Fyrri hluti af grein um Hverahólmann.

Þetta hefur að vísu verið birt fyrr, í bók sem gefin var út fyrir nokkrum árum. Voru reyndar tvær bækur saman: Hrunamenn - byggðir og bú - 1 og 2. 

En mér er sagt að það eigi ekki allir þessar bækur - sem mér finnst alveg undarlegt!

Hverahólminn - fyrri hluti:

Mínar fyrstu minningar frá Hverahólmanum snúast aðallega um þvott, og konurnar sem komu með þvottinn á hverinn, eins og sagt var.  Þær komu sumar snemma morguns og voru allan daginn í hólmanum að þvo.

Ein þeirra var hún Lína á Sólheimum, líklega var hún sú sem kom lengst að, ríðandi og teymdi vagnhest.  Á meðan sauð í balanum um miðjan daginn tók hún sér smá hvíld og og þá  heimsótti ég  hana gjarnan. Hún bauð mér nefnilega stundum á bak. Varla meira en fimm ára var ég farin að sitja um að hitta Línu til að fá að fara á hestbak. Þá varð vagnhesturinn að glæstum reiðskjóta og við fórum stundum alla leið upp að Áslæk.    Ein ferð er mér minnisstæðari en aðrar þó ekki hafi hún verið neitt sérlega vel heppnuð.        Við fórum  austur eyri og þar yfir Litlu Laxá, um Kvíadalinn og upp á mela - og við komumst alla leið upp að Áslæk.  Á melunum var vegurinn beinn á löngum kafla og upplagt að  láta þar  lausan tauminn og taka dálítinn sprett. Það þótti mér venjulega ákaflega skemmtilegt, en í þetta sinn fór haldur verr en ég vildi. Ég reið berbakt eins og ævinlega, en var í þetta skipti svo óhappin að vera í stígvélum, heldur í stærra lagi. Þau dingluðu smám saman niður af fótunum á mér og ég gat ekkert að gert, hafði ekkert til að spyrna í. Ekki þorði ég að kalla til Línu og segja henni frá vandræðunum, mér fannst útilokað að biðja hana að hægja á feðinni útaf svona aulalegum vanda. Auðvitað endaði þetta með að stígvélið datt og þá var útilokað að dyljast lengur, ég varð að kalla til hennar og segja frá óhappinu. Sjálfsagt fussaði hún svolítið, snaraðist af baki, náði í stígvélið  og kom því fyrir á sínum stað. Síðan var snúið til baka í Hverahólmann til að taka þvottinn úr suðunni og setja í skol.

Tobba á Högnastöðum var önnur þvottakona í hólmanum. Hún var vinnukona á Högnastöðum frá því ég fyrst fór að þekkja þar til og það sem hún átti eftir ævinnar. Á sínum yngri árum hafði hún verið vatnsberi í Reykjavik, en á þeim árum var allt vatn borið frá brunni í húsin. Varla hefur það verið neitt sældarbrauð að standa í slíku allan ársins hring hvernig sem viðraði. Kannski var hún þá unglingur að vaxa úr grasi við fábrotið mataræði og kröpp kjör. Hún bar þess merki, okkur krökkunum var sagt að það væri vegna harðræðis í æsku, að hún var mjög bogin í baki. 

En stritinu var ekki lokið þegar hér var komið. Hún kom með þvottinn allan ársins hring, hvernig sem viðraði. Stundum á vetrum var garðurinn framan við laugina, þar sem gengið var, svo ísi lagður að þar var gjörsamlega ófært fyrir gamla konu með stóran poka á bakinu fullan af blautum þvotti. Jafnvel fór hún skríðandi  yfir svellbunkann og það kom oft fyrir að pabbi hjálpaði henni ef hann varð var við að illa gekk.

Fleiri konur komu á hverinn til að þvo þó þessar séu mér minnisstæðastar. 

Fyrst hefur verið þvegið í hverunum eins og nafnið á Vaðmálahver bendir til, en seinna var steypt þró í hólmanum og þótti það hin mesta framför.

Hólfin í þrónni voru þrjú, tvö minni fyrir sápuþvott og svo eitt stærst þar sem skolað var.  --- framhald ---


Skamm fyrir fínafólkasnopp

Þegar spurningaþátturinn Útsvar var kynntur í dagskrá sjónvarpsins í kvöld sagði þulan eitthvað á þá leið,"að nú hæfist spurningaþátturinn Útsvar og þar myndu keppa Akurnesingar og Ísfirðingar". Svo bætti hún við: "Þess má geta að á meðal keppenda eru Ólína Þorvarðardóttir og Bjarni Ármannsson", og hvað með það? Þar voru líka fjórir aðrir keppendur sem allir báru vel frambærileg nöfn og hafa engu síður en þau tvö staðið vel fyrir sínu. Hvað átti þetta að þýða?

Rollubúskapur og rekstrarferðir á Hrunamannaafrétt

Fimmti kafli:

Á leiðinni heim úr rekstrarferðum kenndi Geiri okkur allt sem hann taldi okkur þurfa að vita um hesta og reiðmennsku.   Hvernig setið skyldi í hnakknum, taumhaldið í lagi og hvernig skyldi haga sér í áningarstað. Hver einasti hestur var sérstakur og þess vegna varð að umgangast hvern og einn á sinn  hátt.

Það var endalaust hægt að segja okkur til og Geiri var ólatur við það.

Á haustin, um réttir, þegar ég þurfti að fara á móti safninu, sem ég gerði alltaf, fékk ég oftar en ekki orð frá Hrafnkelsstöðum um að þar biði mín hestur sem þyrfti að hreyfa. Og ekki bara þá - það biðu mín alltaf hestar á þeim bæ.

Í leiðinni heim frá rekstrum var komið við á bæjum, eiginlega flestum bæjum í uppsveitinni.  Oft voru margir samferða á heimleið.  Við komum í gamla bæinn í Tungufelli til Jónínu, Jóns og Óla. Þar fengum við kaffi kökur og kleinur, við krakkarnir þó líklega mjólk og karlarnir útí kaffið.

Á Jaðri, hjá Bergi, fékk ég í fyrsta sinn á ævinni kaffi og koníak, þá var ég þó líklega orðin eitthvað meira en krakki. Ég man bara að mér hitnaði rosalega af þessu, en ekki held ég mér hafi fundist það sérstaklega gott. Maður bara hafnaði ekki því sem manni var boðið á bæjunum. 

Við komum líka að Haukholtum og Skipholti, varla þó á alla þessa bæi í sömu ferðinni, en það var sama hvar var, ekkert var of gott fyrir gestina.

Að Kotlaugum hjá Völu og Sigga var gott að koma og riðum við þar sjaldan hjá garði án þess að líta inn. Það var einstaklega gaman að sitja á kantinum og hlusta á bændurna spjalla sín á milli um kindur og hesta, tíðarfarið ,sprettuna og búskapinn yfirleitt. (Hvers konar unglingur var ég eiginlega?)

Oftast var komið heim um kvöld á öðrum degi, misjafnlega snemma, en oftast svolítið seint - töluvert seint.   Þegar heim var komið lá ekkert fyrir annað en að fara í háttinn, svo það var þá jafn gott að koma við á einum bænum enn, þangað til kominn væri almennilegur háttatími. Oftast höfðum við vakað nærri tvo sólarhringa þegar loksins var lagst fyrir, en það var ekkert erfitt eftir að komið var í gegnum afréttarhliðið á  inneftirleið. Þetta var allt svo dæmalaust skemmtilegt að það var ekkert mál.

Sögulok. 


Rollubúskapur og rekstrarferðir á Hrunamannaafrétt

Fjórði kafli:

Veðrið gekk niður með morgninum og svo fljótt sem fært var fórum við með reksturinn yfir ána. Ég man að ég kveið því að reka yfir Sandá þegar ég fór þar fyrst, mér hafði verið sagt að hún gæti verið ill yfirferðar, helst þá vegna sandbleytu.

Svo var þetta ekki eins slæmt og ég hafði haldið, en þó var þarna meira vatn en við lentum í annarsstaðar á rekstrarleiðinni.

Í þetta tiltekna skipti var óvenju mikið í ánni svo hún var vel á síður hestanna og kindurnar fóru allar á sund, svo ég tali nú ekki um litlu lömbin.                                     En allt gekk þetta áfallalaust.  Svo rákum við aðeins lengra áður en við byrjuðum að sleppa. Þarna var það sem við rákumst á álftaparið sem réðist á Pálmar. Hann kom eitthvað óvarlega að tjörninni sem þau höfðu helgað sér með ungunum fjórum og átti fótum(eða hesti) fjör að launa. Álftir eru verulega grimmar ef þær verða fyrir áreiti við uppeldisstörfin, en Pálmar slapp með skrekkinn í þetta sinn.

Á afréttinum er endalaus aragrúi staða sem eiga sér nöfn. Geiri þekkti þetta allt og sagði okkur, aftur og aftur, ár eftir ár.

Búrfellið og tófugrenin í urðinni fyrir neðan. Miklalda, Heygil, Leppistungur, Búðará, með fossinum Búða, Meraskeið, Stangará og Stangarárbotnar, þar sem tófugrenið var og við tíndum fjallagrösin á heimleið. 

Örnefnin eru lítils virði þekki maður ekki staðinn og geti séð hann fyrir sér, og þá er líka auðveldara að muna.   Þorsteinshöfði til dæmis, hver var Þorsteinn? Jú hann var bóndi í Tungufelli, sem var rekinn að heiman(gerður útlægur) og bjó sér ból við höfðann.

Allmörg örnefni tengjast tófunni: Melrakkaá, Melrakkaalda. Aldrei varð ég svo fræg að rekast á tófu í rekstrarferð, en Geiri sýndi okkur marga staði þar sem fundist höfðu greni. 

Afréttur í sólskini, afréttur í rigningu, roki eða slyddu. Afréttur um bjarta nótt eða sumardagsmorgunn, án allra girðinga og skurða, eða annarra farartálma menningarinnar.

En þó eru þar farartálmar og leyndar hættur, gljúfur og hamrabelti, botnlaus fen og urðargjótur.

Ein slík varð á vegi okkar eitt sinn þegar við Örn bróðir minn vorum að reka með Jóa í Hvammi:   Gustur, sem var bestur allra hesta, missti skyndilega annan afturfótinn ofaní jörðina í heiðarbrúninni austan við Rofshóla.     Það var sama hvað við toguðum í tauminn, hottuðum og hvöttum, honum var algerlega ómögulegt að hafa sig uppúr.   Fóturinn náði greinilega ekki til botns svo hann hafði ekkert að spyrna í og lá þess vegna hjálparvana á jörðinni.

Eftir langa mæðu sá Jói ekki aðra leið en fara til byggða eftir aðstoð, en við Örn áttum að bíða hjá Gusti á meðan. Jói var kominn dálítinn spöl fram í Búðarártunguna þegar Gustur allt í einu tók viðbragð og reif sig uppúr gjótunni. Stóð svo alheill á öllum fjórum fótum, sveittur og titrandi. Við Örn stigum villtan dans með öllum þeim hljóðum sem við áttum yfir að ráða.

Í afréttarkyrrðinni dugðu þessi hljóð til að vekja athygli Jóa svo hann sneri við til að alhuga hverju þetta sætti og hann slapp við að fara eftir hjálpinni sem í okkar huga gat aðeins orðið með einu móti. Hann hefði komið til baka með byssu og skotið Gust á staðnum.

Gustur var alla tíð hálfgerður klaufi í mýrum og pyttum, ekki skyldi mig undra þó einhver hræðsla hafi setið í honum eftir þetta slys. 


Hvað er uxi?

Ég held að ég sé orðin eitthvað biluð - eða hvað? Í síðdegisútvarpinu var talað við mann sem hafði verið á Indlandi, eitthvað að gera í sambandi við leiklist og sögur. Hann sagði meðal annars  Indverjunum söguna af Búkollu og þar með var talið komið að heilögu kúnum á Indlandi. Hann var að lýsa því hvað þær væru háheilagar og sagði í því sambandi að "þeir notuðu miklu frekar mjólkina úr uxunum og notuðu þá til verka, kýrnar væru svo heilagar að af þeim væri einskis krafist nema bara að vera til". Getur þetta verið? Ég bara spyr eins og fávís kona - hvað er uxi?

Rollubúskapur og rekstrarferðir á Hrunamannaafrétt

Þriðji kafli:

Fyrir innan girðinguna lá leiðin um Þorsteinshöfða niður yfir Búðará og þaðan inn heiðina austur af Rofshólum, eða upp með Stangará.

Þarna slepptum við oft, og það að sleppa var vandasamt verk sem ekki mátti misfarast. Þá var rekið í rólegheitum áfram og ein og ein kind látin tínast úr, ef rétt lömb voru með henni.  Þegar allar ærnar höfðu fundið lömbin sín og voru orðnar rólegar á beit fórum við í gamla torfkofann í Rofshólum þar sem nestinu var lokið  og svo búið til ketilkaffi og rommtoddý. Lyktin er ógleymanleg og við krakkarnir fengum líka að smakka. Toddý var ekki "brennivín" eins og annað áfengi var kallað, heldur ljúffeng hressing við hrolli og þreytu eftir erfiða nótt. 

Stundum var rekið lengra, þá fórum við inn með Skyggni, um Heygil og Merarskeið í Svínárnes.  Þar fórum við yfir Sandá og slepptum svo  austan Hvítár undir hlíðum Bláfells.

Eitt árið fórum við frá Rofshólum beint yfir að Hvítá og fylgdum henni allt inn að Svínárnesi, þá vorum við að reyna nýja rekstrarleið.  Við vorum bara þrjú í þetta sinn, Pálmar, Geiri og ég. Þetta er mín eftirminnilegasta ferð á afréttinn. Á leið upp með ánni lentum við í foraðsveðri, norðanroki og éljahraglanda. Þessi barningur tók megnið af deginum sem var dagur tvö í ferðinni, enginn hefði blundað frá því farið var af stað að heiman.

Þegar komið var í Svínárnes var þar fyrir fjöldi fólks og hesta sem beið eftir að lægði. Yfirleitt var rekið frá mörgum bæjum á sama tíma. Flestir þó búnir að sleppa sínum rekstrum en höfðu gefist upp við að fara yfir ána. Sandá var kolófær og við ætluðum að reka innyfir.

Það var ekki annað að gera en að koma rekstrinum í gerði og bíða af sér veðrið.

Þá var í Svínárnesi gamall torfkofi með palli í öðrum enda, en að öðru leyti var þetta bara hesthús óinnréttað með moldargólfi. Líklega var þarna um tíu til fimmtán manns svo ekki var rúm á pallinum fyrir alla, þar komust ekki nema þrír í einu. Lauga á Bjargi hreiðraði um sig í einu horninu og þá var eftir rúm fyrir tvo. Við Pálmar lögðum okkur á hinum endanum.  Ekkert var þarna til að breiða yfir sig eða undir svo vistin var köld þangað til Pálmari datt í hug að ná í tjald sem við vorum með í klyfjunum. Við vöfðum því utanum okkur og hélt það að okkur hitanum svo skárra var en ekki.

Allir aðrir röltu um gólf og börðu sér til hita mest af nóttinni. Þarna var engin upphitun og allir meira og minna blautir eftir barninginn daginn áður. Óveðrið hamaðist útifyrir og hestarnir stóðu í höm í gerðinu úti. Nokkrir komust þó inn í kofann hjá okkur og gáfu frá sér örlítinn yl.

Haraldur og Hanna höfðu náð að sleppa sínu fé og riðu heim þessa nótt, það var þó undan vindi. 


Rollubúskapur og rekstrarferðir á Hrunamannaafrétt

Annar kafli: 

Þessar rekstrarferðir voru alveg meiriháttar. Geiri kenndi sínu rekstrarfólki, sem oftast voru auk mín, systkini hans Gunna og Haraldur og svo Pálmar sonur hans. Haraldur eignaðist svo sitt eigið bú og fór að reka sjálfstætt, en það voru fleiri sem vildu koma með okkur og gerðu það nokkrir til skiptis. En við Gunna vorum á eins konar fastráðningarsamningi og létum okkur helst aldrei vanta.

Geiri kenndi okkur að þekkja leiðina  með örnefnum. Allir hólar, mýrar, ásar og fjöll áttu sín nöfn sem við lærðum, og oftar en ekki fylgdi saga með sem skýrði hvers vegna nafnið var til komið. 

Við rákum ekki kindurnar til fjalls bara si svona. Ekki aldeilis. Við fórum framhjá Bryðjuholti og uppúr Kirkjuskarðinu og yfir foraðsmýrina í Núpagerði. Þar lá allt í og varð að gæta vel að svo ekki færi allt á svartakaf og lömbin træðust jafnvel undir. Að fara þar yfir á hesti, var í vætutíð bara  bölvað  brask.  Svo áfram yfir Skipholtfjallið, þar sem byrgið hans Fjalla Eyvindar var. Þangað fór bróðir hans í Skipholti með mat sem Eyvi gat svo nálgast við tækifæri. Væri kalt og kannski blautt var gott að fara af baki og teyma  þarna á fjallinu. Hellugrjótið var gott að ganga á. Steinbogamýrin tók svo við þegar komið var norður af Skipholtsfjalli.

Alltaf var áð á sömu stöðum ár eftir ár. Við áðum við túngarðinn á Fossi og oftast kom þá einhver hlaupandi heiman frá bæ og bauð í kaffi. Svo var farið inn yfir Skerslin og upp á Hlíðartorfur, þar sem áð var um kvöldmatarleytið. Þegar við Jói rákum okkar fé fengum við stundum sendan heitan mat þangað. Bílaöldin hafði haldið innreið sína í Grafarhverfið, þar voru til jeppar og annaðhvort kom pabbi, eða einhver frá Hvammi með mat. Oftast stóran pott með kjarngóðri kjötsúpu. 

Eftir góða áningu þarna var haldið inn á Tungufellsdal og áð þar um lágnættið, á meðan döggin settist á stráin og mófuglarnir þögnuðu stundarkorn. 

Geiri kenndi okkur að passa hestana og fara vel með þá, og hann kenndi okkur að umgangast kindurnar af virðingu.

Svo reyndi hann að kenna okkur vísur og kvæði og alltaf fylgdi nafnið á höfundinum með. Unglingseyrun voru misnæm fyrir þessum fróðleik, en hann lét það ekkert á sig fá.

Eftir miðnæturáninguna var haldið áfram yfir Deildarklifið grýtt og bratt, inn í Deild og svo þaðan inn að afréttargirðingunni með úðann af Gullfossi á vinstri hönd og eyðibýlið Hamarsholt horfið ofan í svörðinn.

Þarna fannst mér oft langur áfangi, svefninn sótti að og umhverfið var fábreytt. Sandur og grjót hvert sem litið var og klukkan á bilinu 4 - 6 að morgni. 


Rollubúskapur og rekstrarferðir á Hrunamannaafrétt

Verður nú fram haldið birtingu á þokukenndum minningabrotum frá liðinni öld.

Væntanlega nær þessi upprifjun einum fjórum eða fimm köflum, svo að þeir sem ekki treysta sér til svo langrar lesningar ættu bara að hætta hér.

Fyrsti kafli: 

Það er ekki hægt að skrifa um rekstrarferðir, hesta og kindur í Hrunamannahreppi á síðustu öld án þess að nefna hann Geira á Hrafnkelsstöðum.  

Hann valdi hestinn sem ég fékk í fermingargjöf og fór með mér í reynsluferðina. Í þeirri ferð flaug ég fram af hrossinu niður á malarborinn lækjarbakka, beint á andlitið og varð nokkuð skrámuð og blóðrisa.   Þetta kenndi hann sér um, taldi að auðvitað hefði hann átt að vita að fákurinn myndi stökkva útundan sér, hlaupa einn góðan sprett og snarbremsa svo við lækinn. 

Hann dæmdi gæðinginn samstundis ónothæfan með öllu. Setti á hann leynitaum og teymdi svo undir mér það sem eftir var ferðarinnar. 

Svo valdi hann annan hest og sá um skiptin.  Það var upphafið að mínu hrossabraski og var Geiri alla tíð sjálfsagður leiðbeinandi í þeim efnum. 

Þegar fjárbúskapur hófst í Hvammi og ég vildi taka þátt í því eins og öðru á þeim bæ, var hann garðyrkjubóndanum föður mínum innan handar um val á bústofni. Sumt kom frá honum sjálfum og varla dýru verði selt.

Ég fékk að nota markið hans afa á Hulduhólum, það var nógu langt á milli okkar. "Sýlt á báðum og biti aftan hægra", frábært mark, auðmarkað og gott að þekkja. Brennimarkið var GARÐUR og það smíðaði hann Maggi maðurinn hennar Kristrúnar móðursystur. 

Seinna þegar sýnt þótti að sauðkindin yrði að víkja úr Grafarhverfinu, sem var þá orðið meiriháttar garðyrkjusvæði og rollur þess vegna meindýr, stóð stelpan uppi landlaus og húslaus með hjörðina á vergangi. 

Að vísu var þá skorið niður að hluta og sumt selt til lífs, en Geiri bauðst til að fóðra fyrir mig, nóg til þess að ég gæti áfram talist fjárbóndi og átt númer hjá S.S. Því númeri gat ég svo vísað fram hjá fyrrnefndu S.S til að kaupa þar bjúgu með afslætti. En það varð nú ekki fyrr en löngu seinna.

Þennan greiða þurfti ég þó að  launa Geira með einhverju móti og hann fann leið til að það yrði mér ekki of þungur baggi að bera. Ég átti að reka á fjall með honum á vorin og þóttu mér þau kjör aldeilis vel við unanadi. 

Þegar hér var komið sögu hafði ég reyndar rekið á fjall í fjölda ára. Byrjaði líklega svona tíu ára að fylgja, fyrst upp að Fossi, svo inn á dal og síðan alla leið.

Við Jói í Hvammi byrjuðum á að vera i samfloti við Reykjadalsmenn í rekstrum, svo einu sinni eða tvisvar með vesturbænum á Grafarbakka. Það var þegar Dagbjartur, seinna stórútgerðarmaður í Grindavik, var þar vinnumaður og eftirsóttasti kostur kaupakvenna í Hrunamannahreppi. Ég var bara krakki og hafði svosem enga skoðun á honum, nema hvað hann var heldur fyrirferðarmikill og söng oft hátt í stofunni heima.

Svo fórum við Jói bara að reka sjálf, þegar hann var búinn að læra að þekkja leiðina. Einu sinni rákum við reyndar með Guðjóni í Hruna og fórum þá allt aðra leið en venja var og flestir fóru.    Við fórum inn með Berghylsfjallinu að austanverðu og svo beint innyfir Hrunaheiðarnar þangað til kom að hliði á afréttargirðinunni sem var miklu austar en það sem venjulega er notað.

Í þeirri ferð fékk ég örugglega að koma á bak honum Bleik hans Guðjóns, sem ég fékk reyndar oftar að reyna. Það var hreint ekki lítils virði að vera trúað fyrir honum, ég vissi að Guðjón lét hann ekki öllum eftir. Kannski var Bleikur það besta og dýrmætasta sem hann eignaðist á ævinni.  

Jæja - þegar kom að búskapar samskiptum okkar Geira var ég sem sagt búin að reka á fjall hvert sumar í nærri því heilan áratug, svo ég hefði verið heldur illa stödd hefði þeim ferðum lokið skyndilega vegna grænmetisframleiðslu í Grafarhverfinu. 

Nú varð það árviss viðburður að Geiri hringdi, oftast í Júlíbyrjun, og sagði eitthvað á þá leið "að nú stæði til að reka eftir einn eða tvo daga, væri nokkur leið að ég gæti hjálpað honum"? Auðvitað gat ég það, þó feykinóg væri við að vera heima, oftast verið að keppast við að grisja gulræturnar. Stundum sagði pabbi sem svo " að ef ég gæti lokið þessum fjórum eða fimm gulrótabeðum fyrir kvöldið mætti ég fara".Kannski herti ég á mér einhverja stund og jafnvel var lokið einhverjum áfanga, en aldrei held ég að hefði komið til þess að leyfið væri ekki veitt. Hann pabbi átti bara þessa einu stelpu  - og hún fékk víst það sem hún vildi.

Seinna meir var ég eitt ár úti í Noregi og svo var ég tvisvar ólétt, en annað kom ekki í veg fyrir að ég ræki á fjall árlega fram á fertugsaldur. Þá var reyndar minn eigin fjárstofn löngu útdauður.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband