Færsluflokkur: Dægurmál
22.1.2008 | 18:35
Hvar er litli sæti traktorinn?
Ég bara get ekki látið vera að jagast svolítið. Og reyndar finnst mér bara nokkuð meinlaust þó ég geri það. Það eru örugglega verri glæpir framdir í samfélaginu þessa dagana, meira að segja hef ég heyrt að verið sé að læðast aftan að fólki og stinga það í bakið. En það er nú víst meira fyrir vestan heiði.
Það sem ég ætla að jagast yfir er færðin á götunum hérna.
Ég veit vel að það hefur snjóað mikið, þess vegna er nú öll þessi ófærð. En að gangstéttarnar við Rauðholt hafi ekki fengið eina einustu heimsókn af litlu traktorstíkinni með snjótönnina, þykir mér alveg með ólíkindum. Það er eitthvað að. Ég las það á vef bæjarins að umferðar, og tengigötur væru látnar sitja fyrir, það bara er ekkert að marka. Gangstéttir eru báðu megin við þessa miklu umferðargötu, og verður að vaða fönnina í klof á þeim báðum. Maður gæti haldið að þeir sem eiga að stýra hreinsuninni þekki bara hreint ekkert til í bænum og viti ekki hverjar umferðar og tengigöturnar eru? Getur það verið? Eða er kannski búið að henda litla sæta traktornum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.1.2008 | 21:55
Bláfjöllin og skíðin og ég
Ferðin í gær kom mér til að rifja upp þau afrek sem ég hef unnið á sviði skíðaíþrótta.
Ég tók ekki með mér skíði, á þau ekki og datt ekki í hug að fá lánuð. Mitt hlutverk í skíðaferð frá skólanum er líka þannig að ég get ekki verið út um allt í brekkunum, ég á að vera svona um það bið á vísum stað svo krakkarnir geti leitað til mín ef eitthvað kemur uppá. Svo líka ef ég færi að ferðast með lyftum upp á brekkubrúnir myndi ég þurfa að koma mér niður aftur og það gæti ég aldrei ábyrgst að ég gerði óbrotin. Og brotin hjálparkona í skíðaferð er heldur gagnslítil kona.
Ég man einu sinni eftir að hafa reynt fyrir mér á svigskíðum. Úti í Noregi. Reyndar var þar engin lyfta, en mér bara fannst það svo hundleiðinlegt að ég hef ekki séð ástæðu til að eiga við það síðan.
En hins vegar vann ég nokkur ógleymanleg afrek á gönguskíðum, hérna um árið sem ég var úti í Noregi. Þegar ég fór þangað í september, var enn alautt í Guðbrandsdalnum. En fljótlega fór að snjóa og það gerði ekki annað en að bæta í, fram í apríl. Svoleiðis bara var það þarna, enginn svona skyndisnjór, sem kom og fór, heldur bara eilífðarfönn sem sat sem fastast til vors.
Fljótlega eftir að fór að snjóa um haustið var blásið til skíðaferðar frá skólanum. Þessir norsarar eru vitlausir í skíðaferðir og allir áttu skíði og kunnu að nota þau. Ég hafði aldrei stigið á skíði, en engum datt í hug að spyrja að þvi. Bara fundin handa mér lánsskíði af því það hafði verið of mikið vesen fyrir mig að koma með mín með mér. Auðvitað datt engum annað í hug en allir á Íslandi ættu skíði og væru ólmir í skíði. Nafnið á landinu bara bauð ekki upp á annað.
Þetta var áður en ég byrjaði að tala. Engin leið að leiðrétta þennan misskilning. Ég nefnilega hlustaði bara fram að jólum, en sagði ekki neitt. Eftir jólin hætti ég að hlusta og fór að tala.
En alla vega - ég var komin með skíði í hendurnar, og skó með og var að fara í skíðaferð sem ég vissi ekkert hvernig færi fram.
Við voru send af stað í rútu, líklega svona 25 krakkar. Þetta var sá hópur sem var á því sem hét "íþróttabrautin " í skólanum. Krakkar sem kunnu ýmislegt fyrir sér á íþróttasviðinu, höfðu verið liðtæk hjá sínum félögum og voru nú að búa sig undir frekari afrek á því sviði. Öll nema ég. Það taldi ekki mikið þarna að hafa synt nokkrum sinnum á sundmóti Skarphéðins eða hlaupið 100 metra á félagsmóti á móti eystri hreppnum.
Okkur var ekið upp á það sem ég heyrði þau kalla "féllet" og sturtað þar úr rútunni.
Við vorum svo látin festa á okkur skíðin og einhver aðstoðaði mig við það. Bara einhver strákurinn minnir mig, og kannski læddist þar grunur að viðstöddum að ég væri ekki á réttri hillu. En það varð ekki aftur snúið. Við voru stödd við allstórt stöðuvatn og allt á kafi í ótroðnum snjó. Vatnið gæti hafa verið á stærð við Laugarvatn. Nú vorum við látin hafa blað og blýant í vasann og svo sagt að leggja af stað. Svo mikið skildi ég að við áttum að ganga hringinn í kringum vatnið og finna einhverjar stöðvar á leiðinni og skrá á blaðið.
Í fáum orðum sagt þá komst ég alla leið, en ekki held ég að mér hafi tekist að finna mikið af því sem leita skyldi. En þetta tók eiginlega allan daginn. Og ég get hrósað mér af því að einn strákurinn kom ekkert úr þessu ferðalagi. Hann bara var týndur. Fyrst var beðið fram í myrkur, en svo var okkur skilað heim. Hann kom svo víst fram einhvers staðar langt í burtu, í einhverri allt annarri "kommúnu" eins og þeir segja í Noregi. Þarna vann ég mitt fyrsta afrek á skíðum.
Svo fékk ég nú eiginlega alveg frið það sem eftir var vetrar, kannski var ég búin að sanna mig, annaðhvort sem nógu góða, eða algerlega vonlausa, á skíðum. Alla vega voru engar frekari skylduskíðaferðir farnar þennan vetur.
Svo komu páskarnir. Ég var boðin heim til vinkonu í páskafrínu, sem var fínt. Ég fékk þá að ferðast svolítið um landið. Hún átti heima hálfa leið upp til Þrándheims og ekki var minni snjórinn þar. Í litlu sveitaþorpi með fjöllum allt í kring. Og unga fólkið í þessu þorpi, það var ekkert að hanga heima hjá sér í páskafríiinu. Ekki aldeilis. Það var farið á "féllet", sem ég vissi nú orðið allt of vel hvað var. Þar voru "hyttur" sem allar myndu fyllast af fólki um páskana. Bara ungu fólki, stöðug partí, var mér sagt. Það mátti nokkuð til vinna.
Það var stigið á skíðin á tröppunum heima, poki á bakið með öllu sem þurfti til fjögurra daga, og svo lagt í hann. Ég líka. Þetta var dagleið og allt á fótinn. Það vildi mér til að þegar þarna var komið hafði ég verið á íþróttabrautinni allan veturinn og var orðin nokkuð hress. En ég segi það satt, að ég átti ekki von á neinu nema dauða mínum, hvað eftir annað þegar leið á daginn. Með svima og æluna í hálsinum, staulaðist ég upp brekkurna og reyndi að tefja ekki ferðafélagana. Guð minn hvað þetta var erfitt. En ég komst alla leið, lagðist í koju og var ekkert viss um að vakna næsta dag. En það gerði ég þó! Þetta var mitt annað afrek á skíðum.
Dagarnir sem eftir komu fóru svo meira og minna í alls konar skíðabrölt. Ég lét mig hafa það að fara á staðina á skíðunum, en lét eiga sig að taka þátt í keppni. En það voru "brilljant" partí öll kvöld, í einni "hyttunni" af annarri, og það var farið á milli á skíðum. Svo varð ég auðvitað að koma mér aftur til byggða, en það var nú undan brekkunum að mestu.
Vorið var að koma og með því hvarf snjórinn. Ég vissi að ég yrði ekki annan vetur þarna og hef líklega ákveðið að með þessu væri mínu framlagi til skíðaíþróttarinnar lokið. Ég lifði þó af.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.1.2008 | 09:51
Það er svo mikið af öllu


Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.1.2008 | 22:48
Við áttum allan heiminn
Það var ekkert smáræði sem við gerðum í hreystitímanum í dag - við fórum á skíði í Bláfjöllum! Við fórum frá skólanum á réttum tíma, rétt fyrir 11.30, á rútu frá Gvendi Tyrfings, með skíði og bretti í lest, nesti í kassa og aukaföt í svörtum ruslapoka. Þrjátíu og sex krakkar og þrír fullorðnir. Hvernig er hægt að hafa það betra.
Við beygðum inn á Bláfjallaafleggjarann rétt um kl. tólf og heyrðum í útvarpinu að Fischer væri dáinn. Hér eftir munum við alltaf hvar við vorum stödd þegar sagt var frá því. Það var dimmt yfir fjöllunum og þarna fór að slíta úr eitt og eitt snjókorn - og þeim fjölgaði. Þegar við nálguðumst skíðasvæðið mátti heita alblint - við sáum bara það sem næst var. Bílstjórinn komst samt með okkur á áfangastað og eftir að farið var inn, til að spyrjast fyrir um hvað við mættum leyfa okkur þarna á staðnum, var krökkunum sleppt lausum. Þau voru ekki lengi að taka á rás, festa á sig skíði og bretti og raða sér við litlu lyftuna sem var sú eina í gangi. Í sjónvarpi í gær var sagt að enga þjónustu væri þarna að hafa, en þau sem þess þurftu fengu samt bretti á lappirnar. Það var þarna einn maður sem var líklega svona fjölhæfur, hann svaraði spurningum og leigði bretti.
Ég fór inn í skálann með nestið og við lögðum undir okkur þrjú borð með stólum í salnum. Þarna er ágæt aðstaða, en frekar var klístrað á borðunum. Þegar við komum var þarna fyrir ein rúta með krökkum - litlum á okkar mælikvarða, og ég sá bara eina konu með þeim. Hún fór fljótlega að smala þeim saman og gerði það á íslenskublandaðri útlensku. Svo fóru þau. Við áttum Bláfjöllin alein. En það var nú reyndar ekki lengi. Það kom fljótlega önnur rúta sem hleypti út krakkahóp. Þessi voru þó stærri en hin, eiginlega bara eins og við og það var nóg pláss fyrir alla.
Litla lyftan var notuð óspart og þar var gaman að sjá hvernig gekk. Við sem vorum fyrir neðan sáum þó ekki nema svona hálfa leið upp, en á þeim spotta fengu margir byltu bæði á leiðinni upp og niður.
Svo var farið inn að fá sér bita og hvíla smá stund. Það rauk upp af krökkunum, sveittum og rjóðum, sem gófluðu í sig samlokum, kakói, skyri eða ávöxtum.
Þessi hópur var mun hraustlegri en við eigum að venjast, og enginn fúlsaði við nestinu, það var allt jafn gott og þurfti stundum meira.
Svo fóru þau út aftur en ég leit yfir "völlinn". Mig vantaði tusku.
Ég fór þar inn sem var merkt starfsfólki og fann þar sex eða átta manns sem sátu og átu, konur og menn. Það voru þá fleiri hér í vinnu en við héldum.
"Mig vantar borðtusku", sagði ég og horfði yfir hópinn. Enginn leit upp, eða sýndi nein viðbrögð. Ég endurtók yfirlýsinguna heldur hærra, kannski hafði ég verið of lágmælt? Enn svaraði mér enginn. Þá skildi ég - auðvitað, pólverjar. "Skiljiði ekki íslensku"? spurði ég nú full skilnings og alveg nógu hátt. Ein stúlkan leit upp - "þú veist hvar ræstikompan er", sagði hún, þar eru tuskur. Ha - hvernig átti ég að vita hvar ræstikompan væri, hélt hún að ég væri gamla ráðskonan framliðin? Þá var varla von að þau sýndu mér áhuga, héldu bara að ég væri draugur og þorðu ekki. Ég sagðist því miður ekki vita um kompuna?
Þá loksins varð eins og ég væri þarna. Hvert af öðru vildu þau nú leiðbeina mér að ræstikompunni þar sem tuskurnar voru geymdar, og öll á ágætri íslensku.
Ég náði í tusku eftir þessum leiðarvísum og snaraðist í að þrífa borðin sem við höfðum notað. Þar varð á endanum miklu flottara en var þegar við komum, ég lét samt öll hin borðin eiga sig, það var ekki jafn mikið mannahallæri þarna og við höfðum haldið.
(Ó mæ- þetta átti bara að verða myndablogg.)
Ég fór svo í útifötin og aftur út til félaganna. Sumir voru orðnir ansi snjóbarðir. Húfulausir hausar uppfenntir og lopavettlingarnir sem hún amma prjónaði klepraðir eins og kind í stórhríð. Hettupeysur gegndrepa. Við fundum peysur til skipta, húfur og aðra vettlinga.
Nú fór að birta til og jafnskjótt skriðu nú starfsmen úr hýði sínu og opnuðu eina lyftu í viðbót. "Þá lægstu af þeim stóru", sögðu krakkarnir sem voru hagvön.
Nú varð miklu meira gaman. Í hópnum voru nokkrir sem kunnu vel, bæði á bretti og skíði. En svo voru kannski aðrir sem ætluðu sér um of. Fóru á toppinn og lögðu af stað niður, með misjöfnum árangri. Komust þó alla leið og sögðu þessa brekku "gildru dauðans", sem þeim hafði þá víst með einstakri heppni tekist að sleppa úr.
Þá sá til sólar, það var stytt upp. Og við áttum að fara heim.
Myndirnar sem fylgja áttu eiginlega að segja þessa sögu, ég bara get aldrei setið á mér.
1. það getur verið snúið að hjálpa félaga sínum að festa brettið. 2. strákar og stelpur, nærri óþekkjanleg í bylnum. 3.Einn á leið upp, annar niður, þriðji fallinn. 4.Nestistíminn. 5. Sólin skein á Esjuna þegar við fórum heim. 6 Heima.
Ég veit ekki hvers vegna rútan og kirkjan þurftu að troðast þarna efst og rugla röðinni. Þið bara skoðið myndirnar með réttu hugarfari.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.1.2008 | 17:21
Enn á gangi
Og allt í lagi með það. Ég er búin að komast að því að með þessum göngum get ég lært að þekkja fólk. Allt fólkið sem hefur flutt í hverfið síðustu ár. Í húsin sem einu sinni voru "húsið hans Óla, eða Begga eða Bjarna".
Þarna á nú heima eitthvert fólk sem ég þekki ekki neitt. Auðvitað er þetta óviðunandi til lengdar en ég var eiginlega búin að sætta mig við að fá ekkert að vita um þessa nýju nágranna fyrr en ég væri orðin "öldruð" og hætt að vinna. Þá gæti ég farið að rölta á milli húsa í heimsóknir og kynna mér íbúana. Reyndar eins víst að þá verði búið að skipta út einu sinni enn og aftur. Þetta blessað nýja fólk tollir einhvernvegin miklu verr en það sem var hér í upphafi. Það bara byggði sín hús og var í þeim þangað til það dó, svo einfalt var það nú. En nútíma fólk er alltaf á einhverju flakki.
En í dag og í gær hef ég sem sagt orðið bara þó nokkru fróðari. Fyrir utan nokkur hús hef ég rekist á íbúana. Suma með skóflu í höndum, eða bara hundinn í bandi. Einstaka bara standandi í miðjum skafli biðjandi Guð um hjálp. En hvað sem það var að gera, fékk ég tækifæri til að kynnast því aðeins hver á heima hvar og vonandi verður bara meiri snjór eitthvað áfram svo ég fái fleiri að sjá. Ég kunni nú ekki við að taka myndir af þessu fólki, ekki svona við fyrstu kynni, en tók samt nokkrar, bæði á leið að heiman og heim.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2008 | 20:21
Hrunamenn - Litla Laxá
Ekki var mikið um að við stunduðum hefðbundinn veiðiskap í ánni. Þó veiddist þar gjarnan ágætur silungur og líka lax öðru hvoru. Þessir fiskar létu bíða svo lengi eftir sér að við höfðum ekki þolinmæði til að veiða þá.
Veiðin í Kvíadalslæknum var miklu skemmtilegri. Þar stóðum við með færi og mokuðum upp aflanum. Fiskarnir voru að vísu ekki stórir, og oft var þeim sleppt aftur, en þeir voru ólatir að bíta á.
Seinna veiddum við í ánni og vorum oft heppin. Ég veiddi stundum væna silunga og þá bara á færi sem var vafið uppá spýtu. En að sjálfsögðu með öngul á endanum. Mér er sérstaklega minnisstæður einn boldangslax sem pabbi fékk í Klapparhylnum, hafði víst ekki annar eins sést á þessum slóðum fyrr.
Á haustin þegar fór að skyggja urðum við stundum vör við einhvern ljósagang við ána fyrir austan eyri, þar sem enginn átti að vera á ferð. Við fórum þá gjarnan í njósnaleiðangra að kanna hvað þarna gæti verið á seyði. En við urðum að fara verulega leynt við þessar njósnir því að um leið og okkar varð vart tóku ljósin á rás og hurfu eins og jörðin hefði gleypt þau. Aldrei náðum við að komast að hverjir væru þarna á ferð, en vorum þó nokkuð viss um að mennskir væru þeir. Seinna komumst við að því til hvers ljósin voru notuð og var líklega eins gott að það varð ekki fyrr. Við hefðum örugglega reynt fyrir okkur á þessu sviði eins og öðrum, ef við hefðum bara komist yfir vasaljós og heykvísl.
Á haustin var líka veitt í net, dregið á eins og sagt var. þá voru veiddir laxar í net, og þeir voru settir í laxakistu sem var útí ánni. Svo var farið með þá í klakhúsið sem var niðri við Breiðtrog, en það var hylur í Grafarlandi. Þar voru svo framleidd úr þeim laxaseyði, en ekki vissum við nú, á þeim tíma, alveg hvernig farið var að því.
Þegar við stækkuðum aðeins, kannski helst strákarnir, var farið að smíða skip og þeim svo róið um ána. Sumir bátarnir voru bara nokkuð veglegir, gerðir úr timbri og bárujárni. Leiðinlegast var að koma þeim aftur til heimahafnar, því siglingaleiðin lá oftast undan straumi og endaði jafnvel mörgum bælarleiðum í burtu.
Þó einstöku sinnum væri farartálmi af Litlu Laxá, þá var hún okkur til hinnar mestu ánægju í uppvextinum og mátti telja til forréttinda að alast upp í nábýli við hana. Endir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.1.2008 | 19:54
Svona er Selfoss í dag
Ég bara geng og geng og gengur vel. Nú er ég búin að átta mig á því hvað er hér í gangi, og víst allir hinir líka. Snjór! það er svo langt síðan við höfum fengið almennilegan snjó að það var varla von að við áttuðum okkur á því í gær. Þá sátu líka allir fastir út um allt, enginn man lengur hvernig svona mikill snjór virkar á umferðina, göturnar bílaplönin og allt þetta sem nú er horfið undir fönn.
Og við ferðumst bara um á fótunum, alla vega ég og aðrir sem ekki geta gefið sér tíma til að lenda í ógöngum. Sumir hafa jafnvel ekki fundið bílana sína, en ef þá langar mikið á rúntinn geta þeir farið fram og aftur á milli Selfoss og strandþorpanna með strætó.
Til að bæta fyrir gleymskuna í gær set ég hér inn nokkrar myndir. Tvær sm ég tók á leið í skólann í morgun en hinar tók ég á leiðinni heim. Svona er Selfoss í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.1.2008 | 20:30
Hrunamenn - Litla Laxá
Svo þegar leið að vori og ísa tók að leysa komu flóðin, og það voru sko flóð sem talandi var um. Það gátu liðið svo heilir dagar að við komumst ekki út úr húsinu heima af því að það var algerlega umflotið. Þá fór enginn út, nema pabbi í klofháum og þá til að bjarga því sem hætta var á að flyti burt.
Aldrei held ég að vatnið hafi orðið svo djúpt að það færi upp fyrir tröppur, en vel upp á miðjan sökkul var ekkert óalgengt að hún teygði sig. Þegar svona mikið varð í ánni var þó enginn straumur nærri húsinu. Hún flaut bara í lygnu þarna í kring og svo líka langt upp á tún, en aldrei held ég að neinar teljandi skemmdir hafi orðið af þessum flóðum. En hún skildi eftir sig sand og drasl og stundum stóðu stærðar ísjakar eftir allt í kringum húsið þegar sjatnaði í.
Áin var líka oft í vexti þó ekki væri svona mikið og þá fylgdumst við spennt með þegar verið var að flytja eitt og annað yfir. Fyrir utan stofugluggann okkar var vaðið, leiðin yfir ána til okkar frá umheiminum. Stundum á hestvagni, seinna á bílum og svo jafnvel á baki manns. Stundum var svo mikið í að klofháu stígvélin rétt dugðu.
Lengi var í minnum haft þegar Kolbeinn á Hamarsheiði var ferjaður yfir með logsuðukútana, á hestvagni og allt flaut upp. Stundum komu einhverjir ókunnugir sem ekkert kunnu á þessa á, jafnvel fullir karlar og óku útí flauminn án þess að gá að sér. Á fullri ferð og allt fór á bólakaf, drap á sér eða flaut upp. Urðu svo að vaða í land alveg upp í klof. Þá var gaman í stofuglugganum.
Í árbotninum framan við Garð er mjúk móbergsklöpp sem brotnaði uppúr og þar náðum við í svokallaða tálgusteina. Við gátum tálgað þá með hnífum og gert úr fígúrur og listaverk. En það var eins og með hveraleirinn, gripirnir þoldu illa geymslu og hnjask. Kannski þess vegna urðum við ekki fræg af listmunasmíði þarna á árbakkanum?
Nokkuð var um mink við ána og fórum við oft í svokallaðar "minkaveiðiferðir". Var þá gengið upp með ánni, allt upp undir Túnsberg. Aldrei lögðum við af stað sérstaklega vopnuð til veiða, en alltaf fylgdi okkur hundur. Snati hét hann og sennilega hafa þessar ferðir komið til af óstjórnlegri veiðigleði hans.Fengi hann veður af mink, varð hann alveg ólmur og gróf upp bælið, sem hann var oftast fljótur að finna.
Svo hljóp hann dýrið uppi þegar það reyndi að forða sér, náði að bíta í og hristi duglega. Á meðan höfðum við tíma til að finna nærliggjandi spýtu eða steina sem við síðan rotuðum minkinn með. Reyndar var hann oftast hálfdauður af meðferðinni hjá Snata.
Oftar var þó að minkur yrði óvænt á vegi okkar, en að hann fyndist í skipulögðum veiðiferðum, en Snati var alltaf með og lét engan sleppa. Svo var farið með skottin til Árna í Galtafelli, sem greiddi veiðilaunin af því hann var hreppstjórinn. Við fengum bara nokkuð gott fyrir þetta, sennilega 2-300kr. um 1954, það var dágóður aur á þeim tíma.
Einu sinni man ég að Snati fann minkabæli framarlega í Hrunavellinum, ofan við nautagirðinguna sem einu sinni var. Við vorum þá í gönguferð með honum, tvær stelpur 12 - 14 ár. Þarna gróf hann upp átta minkaunga - löngu dauða. Mamman hafði sennilega verið drepin frá þeim. Ekki vildum við una því að átta skott færu þarna til spillis - þó stutt væru, svo við hófumst handa við að ná þeim af berstrípuðum búkunum. En bæði var, að veiðimenn voru heldur illa vopnum búnir og hræin höfðu líklega legið þarna heldur lengi. Þessu lauk svo að við fórum skottlausar heim, heldur leiðar að þurfa að ganga frá fundnu fé. Við hefðum kannski getað fengið meira en þúsund krónur!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2008 | 18:56
Ég held ég gangi heim
Það er nú bara einu sinni besta forvörnin. Ég fór í vinnuna í morgun, kát og frekar glöð á mínum fjallabíl. Þá var ekkert farið að moka og er eiginlega ekki enn. Bara braut í gegnum fjölförnustu götur. Bílaplanið sem ég nota var fullt af snjó, en ég bara gaf í og sigldi í þessu fína hvíta dufti eftir því endilöngu og tók svo stóran sveig inní stæðið. Glæsilegt. Reyndar sá ég ekkert nema hvítt, og þó jú, ég sá íþróttahúsið, annars hefði ég keyrt á það.
Svo vann ég og vann og það snjóaði og snjóaði. Þegar kom að heimferð sá ég bara hvíta þúst þar sem ég skildi við bílinn og á planinu var orðinn miklu meiri snjór. Ég ákvað að vera ekkert að grafa eftir þessum bíl, örugglega myndi ég hvort sem er festa hann á fyrstu metrunum. Tók á mig viðeigandi verjur og gekk mína leið.
En auðvitað varð að koma þessum fína bíl heim fyrir nóttina og helst í hús. En það fór eins og mig grunaði, "það er ekki laust sem skrattinn heldur", eða er það annars ekki einhver málsháttur? Þrja bíla og tvö slitin tóg þurfti til að ná honum úr stæðinu sem ég valdi fyrir hann í morgun(að vísu af handahófi). En heim er hann kominn og inn í skúr, þökk sé Jóni Þór og Lalla. En ég ætla að fara á fæti í vinnuna á morgun - og næsta dag og þar næsta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2008 | 21:05
Hrunamenn - einn ganginn enn
Ég held ég sé búin að finna mína köllun í lífinu. Mér datt það í hug í gær þegar ég fór í bíltúr um Flóann, og hafði ákveðið að enda þann túr með því að kaupa mér kaffi á einhverjum góðum stað. Eftir því sem leið á ferðina varð meiri spurning hvort þessi góði staður væri til? Hvar var hægt að kaupa sér kaffi og kannski köku í Flóanum á sunnudegi í janúar? Þarna - þegar útlitið var ekki alveg nógu gott, datt mér í hug að taka þá bara næst besta kostinn, ( sem líklega hefði þó verið sá besti) að fara bara heim á einhvern bæinn og láta bjóða mé í kaffi. Það er alveg hægt að gera það, eða alla vega var það hægt fyrir ekki svo löngu og ætti bara að vera enn.
Svo að málið er, þetta með köllunina, mér datt í hug að fara bara að ferðast um uppsveitirnar og fara í heimsóknir. Væri það svo galið? Þetta gera þingmenn, eða segjast alla vega gera það, og hvers vegna þá ekki ég? Ég gæti í leiðinni safnað í sarpinn sögum og minningum og svo skrifað þær í bók til að gefa út á jólunum?
Ekki kom þó til neinnar innrásar á bæi í þetta sinn. Það var opið í Rauða húsinu á Eyrarbakka og þar fengum við kaffi og vöfflur með rjóma. Prýðisgott.
Nú kemur annar kafli sem fyrr var birtur í bókunum um Hrunamenn:
Litla Laxá - fyrsti kafli:
Litla Laxá er ekki bara lítil bergvatnsá, sem gefur einstaka lax þegar vel árar. Við sem ólumst upp við árbakkann áttum þar leikfélaga sem aldrei brást og bauð uppá margar leiðir til ótrúlegustu uppátækja.
Á fyrstu árunum var okkur kennt að við ættum ekki að koma nálægt ánni, en það bann hefur varla staðið nema svona til fimm ára aldurs. Þá var byrjað að prófa hvað þyrfti að fara langt útí til þess að fara uppfyrir vaðstígvélin og það leiddi af sér fjöldamörg fleytifull stígvél.
Fyrstu reglulegu ferðirnar yfir ána fórum við á hestvagni, þegar mjólkin var flutt frá Hvammi upp að Grafarbakka. Tanni, sem dró vagninn með mjólkurbrúsunum og okkur, rataði yfir ána og af honum lærðum við að þekkja vaðið.
Um sumartímann var stundum komið upp göngubrú yfir ána fyrir framan bæinn heima, en hún stóð ekki nema yfir sumarið. Vetrarflóðin hefðu rutt henni úr vegi svo hún var tekin á land að hausti og geymd til næsta vors.
Á heitum sumardögum var hádegis hvíldartíminn gjarnan notaður til að fara í ána, þá var svamlað þar í sundfötum eins og á fínustu baðströnd. Á heitustu dögum var matartíminn jafnvel framlengdur til þess að hægt væri að njóta þessara lystisemda sem best. Og það voru stórir jafnt sem smáir sem léku sér í ánni á svona dögum.
Svo var vinnudeginum lokið og sólin hvarf vestur yfir Högnastaðaásinn. Þá klæddumst við gallabuxum og gúmmískóm, eða bara fórum eins og við stóðum - aftur út í á. Þá voru farnar langar gönguferðir upp og niður eftir ánni. Hyljirnir kannaðir og lagst þar til sunds ef ekki náðist til botns. Við urðum okkur úti um tunnur sem við klofriðum niður strauminn og reyndum að komast hjá því að velta og lenda í kafi. En þó svo færi var það síður en svo verra.
Beint fram af hverahólmanum var hylur, með brattri klöpp við landið sem við notuðum sem stökkpall út í strenginn, sem svo skolaði manni fram á grynningarnar fyrir neðan. Aldrei var vatnið svo hlýtt að við sypum ekki hveljur og hljóðuðum meira og minna við dýfurnar.
Á veturna var áin oftast ísi lögð ofan hverahólma, en frá honum kom svo mikið heitt vatn að hún var auð alla sína leið í gegnum Grafarhverfið. En á ísnum austan við hólma lékum við okkur og þá finnst mér að alltaf hafi verið tunglsljós og ísinn spegilsléttur. Yfirleitt drógum við sleða, eða vorum dregin. Ég man eftir grænum sleðum sem pabbi smíðaði handa okkur Erni og við notuðum þá mikið. Við áttum aldrei skauta eða skíði, enda var sjaldan færi fyrir svileiðis tæki. Það hefði líka verið vonlaust að fara að kaupa á okkur skauta, við hefðum strax vaxið uppúr þeim.
Sleðarnir voru langbesti kosturinn, við gátum dregið þau yngstu á þeim, en það var ekki óalgengt að við værum þarna öll á ferð - tíu frá Grafarbakka og svo við fimm. Þetta var góður hópur að vera með á svelli undir stjörnubjörtum himni. Sá elsti af Grafarbakkasystkinum Jón, var þremur árum eldri en ég, og svo voru þeir yngstu, Öddi og Hreinn jafngamlir. Við vorum helmingi færri en það mátti heita að við værum öll á sama aldri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.7.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 197619
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar