Færsluflokkur: Dægurmál
1.2.2008 | 22:28
"Að þreyja Þorrann og Góuna"
Mér hefur alltaf fundist gott að hafa þetta orðatiltæki í huga á frostköldum og dimmum vetrarkvöldum. Þegar þessir tveir mánuðir eru liðnir er öllum þrautum vetrar og kulda lokið í bil. Og tíminn líður svo hratt. Ein vikan enn horfin út í buskann og þar með 1/4 af Þorranum sem er nýbyrjaður.
Hvað er mér minnisstætt frá vikunni sem var? Snjórinn - og kuldinn, en það gerist ekki neitt. Auðvitað gerist alltaf eitthvað, en það er svo ómerkilegt og enginn veit af því.
Ég hef labbað í vinnuna alla vikuna, það er ekkert óvenjulegt, það geri ég oftast. En núna er það seinlegra en hina dagana út af öllum fötunum. Þessum ósköpum af fötum sem ég klæði mig í áður en ég fer út á morgnana og svo aftur fyrir heimferðina. Ég enda á að fara í kuldaskóna með mannbroddunum undir og er stundum orðin bullsveitt áður en ég kemst út. Eins ef ég þarf að koma við í búð á heimleið. Röðin má ekki vera löng við kassann í Bónus svo ég komi ekki þaðan út rennsveitt.
Á mánudaginn var búið að ryðja alla mína leið í skólann, það var ágætt, ég þurfti ekki lengur að klofast í sköflunum. En þó aðeins. Ég stytti mér alltaf leið við leikskólann og grasvöllinn, en þangað hafði þá snjó verið mokað í stóra dyngju mitt á mína gönguleið.
Ekki lét ég það samt flæma mig af leið, miklu lengra að fara þar sem mokað var. Ég bara klifraði upp á ruðninginn - svona tvær mannhæðir, og gekk vel. Svolítið bratt og hart en broddarnir gerðu sitt gagn. Á toppnum leit ég í kringum mig heldur ánægð, svona hátt hafði ég ekki farið á leið í skólann fyrr. Það hefði nú alveg mátt moka skólalóðina fyrir framan líka, en þessi hreinsun var víst gerð fyrir bílastæði út af þorrablótinu.
Svo lá leiðin ofan af hólnum og ég steig þungt niður í fyrsta skrefi. Betra að gera það svo broddarnir næðu gripi, annars gæti ég runnið á rassinn. En þarna megin var haugurinn eitthvað öðruvísi. Þetta fyrsta skref fór í gegnum þunna skel, en varð svo aldeilis botnlaust. Ég sökk í snjó upp í klof á annarri löpp. En allt annað en þessi eina löpp hélt ferðinni áfram niður brekkuna og lenti í láréttri stöðu utaní fönninni. Ég hló. Ég gerði ekki einu sinni, eins og manni oftast verður á, að líta í kringum mig eftir áhorfendum. Vonlaust, ekki kvikindi þarna á ferð fyrir hálf átta á mánudegi. Ég tosaði löppina uppúr hrúgunni og fleytti mér á maganum niður á jafnsléttu. Og flissaði svo með sjálfri mér það sem eftir var inn. Svona getur verið gaman á leiðinni í skólann.
Í gær og í dag var vitlaust veður í Færeyjum, Noregi og Sviþjóð. Það er aldrei sagt frá því í fréttum þó eitthvað gerist í þessum löndum. Af hverju skyldi það vera? Nú hljóta að vera til myndavélar og svoleiðis græjur þarna alveg eins og í Kenýa og Pakistan. Miklu frekar hefði ég áhuga á fréttum frá löndunum í kringum okkur, en fæ víst engu um það ráðið.
Ég er hálfnuð með bókina, þessa sem heitir nafninu, þarna með tveimur Háum en má ekki segja það seinna svo krakkarnir verði ekki vitlaus. Ég bannaði þeim alltaf að segja þetta og nú allt í einu muna þau það svo vel. Bókin er góð, hingað til. Það er eins og maður sé að lesa mynd, eldgamla mynd, sem er samt eitthvað svo kunnugleg. Þarna var hann langafi.
Á heimleðinni í dag þurfti ég að koma við í bankanum, þar hitnaði nú aldeilis í mér. Ég kem orðið alltaf að bankanum bakvið, ágæt gönguleið þar frá bílastæðinu. Þar í kjallaratröppunum hef ég stundum séð konur sem fara út til að reykja. Greyin í þessum kulda. Þar voru nú reyndar engar konur í dag, en ég heyrði í körlum án þess að sjá nokkurn. Forvitnin var vakin og ég leit betur í kringum mig. Það eru svalir uppi á efri hæðinni! Þær hef ég aldrei fyrr séð. Og þar sá ég tvo frakkaklædda menn standa reykjandi. Jahhá - það er semsagt reyksvæði bæði fyrir háa og lága í bankanum. Karla og konur.
Svo - úr því ég var orðin sveitt hvort sem var fór eg aðeins inn í Bónus. Keypti bara smá og fór svo í langa - langa röð við kassa. En það getur verið gott að bíða lengi við kassa. Á meðan ég beið gat ég lesið alla forsíðuna á "Séð og heyrt", þar voru nú ekki svo lítil tíðindi þessa vikuna!. Sigmar og Þóra bara "hætt saman". Ég get aldrei sætt mig við þessi orð "hætt saman", eða "byrjuð saman". Ekki þó með Sigmar eða Þóru sérstaklega í huga, þau verða að sjá um sig sjálf. En af hverju má ekki segja: "hætt að vera saman", eða öfugt? Pirrr. Ég var að byrja að lesa Vikuna líka, en þá fór konan sem var á eftir mér að kvarta við mig vegna þess að hún hafði ekki fundið nein lambalæri í búðinni. Hún hafði grafið alveg niður á botn, eins og sýnt var að ætti að gera, en fann ekki neitt. Ég samsinnti henni auðvitað að þetta næði ekki nokkurri átt og svo var komið að mér. Sú sem var á undan mér borgaði átjánþúsund krónur og gleymdi svo blómunum sem hún hafði borgað. Ég nennti ekki að elta hana svona mikið klædd, lét bara búðarstrákin, sem var skólafélagi minn fyrir fáum árum sjá um blómin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2008 | 21:23
"Rimlar hugans"
Mikið óskaplega var ég lengi að lesa þessa bók. Var víst byrjuð í jólafríinu, en ég las hana þó alla - vandlega. Ég hef heyrt af einhverjum sem fóru að "fleyta kerlingar" í miðri bók, lesa á hundavaði.
Þarna er sagt frá ýmsu sem ég og mergir aðrir þekkja ekkert til, sem betur fer. En einhverjir eiga svona líf, langt eða stutt.
Ef ég hefði skrifað þessa bók hefði ég haft mína frásögn, (Einars Más) með mínum stíl, en rithátt krakkanna eins og þau hefðu skrifað. Það er eitthvað svo ótrúlegt að þau skrifi sama stíl og rithöfundurinn. Ég held bókin væri trúverðugri þannig.
En ég hef nú heldur ekkert vit á bókum. Nú ræðst ég á "Himnaríki og Helvíti".
Uss svona ljótt orð ætti aldrei að sjást hér.
28.1.2008 | 19:52
Að gera (frétta) mönnum mishátt undir höfði
Mér datt það í hug í kvöld þegar ég var að horfa á fréttirnar. Gísli fréttamaður á Vesturlandi var að segja fréttir af vandræðum fiskvinnslunnar á Akranesi. Hann er góður í því, að segja frá hinu og þessu sem gerist vestur á landi.
Þá varð mér auðvitað hugsað til "Laugardagslaganna". Þar fær þessi ágæti fréttamaður tækifæri til að spreyta sig á öðru sviði, en það finnst mér bara ekki fara honum neitt sérlega vel, hann passar ekkert við gólin í henni Ragnhildi Steinunni. Eða er það hún sem ekki passar þarna? Hefði kannski átt að finna einhverja settlega konu úr Kjósinni til að vera með Gísla? Það getur vel verið. En af hverju fékk Gísli einn þetta tækifæri, en ekki til dæmis Magnús Hlynur? Það hefði alveg mátt búa til þátt fyrir hann líka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.1.2008 | 19:35
Hvar eru peningarnir grafnir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2008 | 21:22
Á að fara á blótið?
Svona spurði einn vinnufélagi okkur þegar verið var að tína lausa hluti og veggjaskraut úr anddyrinu í skólanum í gær. Blótið er nefnilega í íþróttahúsinu sem hefur sameiginlegt anddyri með okkur í skólanum. Neei - eitthvað var nú lítið um að við skólafólk ætluðum á blótið. Ekki einu sinni þú? - sagði hún og benti á mig. Nei - ekki einu sinni ég svaraði ég, þó ánægð með, að því er virtist, óbilandi trú hennar á mér í þessum efnum.
Í þetta sinn förum við ekki á blótið. Fórum í fyrra og förum kannski næsta ár, en ekki núna. Að fara á blót, hefur fyrir mig þann eina tilgang að hitta fólk og skemmta mér með góðu fólki. Þarna koma margir sem ekki eru úti á lífinu daglega, burtflutt fólk kemur gjarnan til að sjá gamla kunningja og vini. Fólk á öllum aldri, og einkennandi er að þarna er aðallega fólk sem þekkist. Sem hefur lengi átt hér heima og ætlar sér ekkert að fara.
En svona samkoma væri alveg jafngóð þó þar væri enginn þorramatur fram borinn. Þessi spurning: "Borðarðu þorramat"? finnst mér alltaf jafn undarleg. Þorramatur er ekki bara súrt og kæst. Ég tel mig borða þorramat, þar sem ég borða hangikjöt og uppstúf, svið og rófustöppu, síld og harðfisk, flatkökur og rúgbrauð með smjöri. Allt þetta stendur mér til boða á þorrablótum svo ég get alveg svarað játandi. En þennan mat get ég líka fengið mér alla daga heima ef mér sýnist svo. Spurningin er líka held ég frekar ætluð til að komast að hvort fólk borðar súrt og kæst, feitt og úldið. það geri ég ekki.
Af hverju er ekki spurt á vorin "borðarðu grillmat"? Ég gæti alveg svarað því játandi, en kannski sagt að ég væri ekki mjög spennt fyrir pylsunum.
Heima hjá mér í sveitinni, fyrir tíma kæliskápanna, var alla vetur tunna frammi í geymslu þar sem í var slátur í "súr" eins og sagt var. Slátur var tekið á hverju hausti af því það var ódýr og hollur matur. Engin ósköp þó, það var ekki hægt að geyma mikið af nýmeti og sviðin voru víst soðin og borðuð sem fyrst. Þegar búið var að fylla upp í sláturkeppina voru þeir settir í bala ( járn) og hann svo í hverinn þar sem soðið var.
Eftir suðuna var slátrið sett í tunnuna í geymslunni og svo notað fram eftir vetri. Með hafragrautnum á morgnana eða grjónagrautnum á laugardögum. Ég var aldrei spennt fyrir því. Súr matur var einfaldlega ónýtur fannst mér.
Mjólkina sóttum við í brúsa, daglega, upp að Hvammi. Á veturna gekk ágætlega að geyma hana, í búrinu við opinn glugga. Stundum krapaði í brúsanum. En sumartíminn var erfiðari, hvergi hægt að halda almennilega köldu og hún vildi þá súrna. Staðin mjólk með rjómakekkjum og súrbragði var það versta sem gat komið fyrir væru mér boðnar góðgerðir á öðrum bæjum. En þá var útilokað að leifa eða láta á nokkru bera. Við fengum víst ísskapinn heima um 1960. Það var ekki fyrr en rafmagið var lagt í sveitina. Mótorinn sem áður var notaður í allmörg ár dugði víst ekki nema til "eldunar og ljósa" eins og sagt var. Enda var hann kallaður ljósamótor.
"Rafmagnskallarnir" voru eftirminnileg innrás í sveitina, Stór hópur af frískum strákum sem höfðu aðsetur í salnum hjá skólanum. Flestir voru þeir held ég frá Eyrarbakka, eins og "símakallarnir" höfðu verið áður. Þetta verk, að leggja rafmagn í sveitina tók nokkuð langan tíma, kannski tvö, þrjú eða fjögur ár og það voru skemmtilegir tímar. Einskonar "ástandsár" í sveitinni. Ég var þá bara fjórtán eða fimmtán ára svo það var eins með þetta og sitthvað annað , ég missti af því, en gaman var að fylgjast með álengdar.
24.1.2008 | 20:42
Ekki í kot vísað
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.1.2008 | 20:18
Mig vantar ekki neitt
Nú er ég búin að horfa á auglýsingar í sjónvarpi, með nokkurri athygli, undanfarin kvöld, til að reyna að finna þar auglýst eitthvað sem mig vantar. Eða komast að því hvað mig vantar.
Og mér til mikillar ánægju er ég búin að komast að því að ég á allt sem máli skiptir. Mig vantar ekki bíl, mig vantar ekki utanlandsferð, mig vantar ekki Niveakrem, sjónvarp parket,eða síma. Hér er allt gulltryggt og þær krónur sem ekki eru í umferð una sér vel á sínum stað.
Ég get hætt að horfa á auglýsingarnar, mig vantar ekki neitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.1.2008 | 20:36
Ætti ég ekki að hafa áhyggjur?
Alla vega er ég svolítið hugsandi út af þessu öllu. Eða kannski ekki út af því, heldur af mínu eigin kæruleysi.
Ætti ég ekki að vera áhyggjufull út af þessu brölti í borgarstjórninni? Svei mér þá, ég er eingöngu fúl út af því að ekkert sé skemmtilegra í fréttunum.
Ætti ég ekki að hafa áhyggjur af peningamarkaðnum? Öll bréf á útsölu og bankar að hugsa sinn gang. Bréf hafa hingað til ekki flækst fyrir mér, nema þá helst sendibréf sem eg ætti að skrifa vinum og vandamönnum.
Ætti ég að hafa áhyggjur af honum Bobbý, eða arfinum? Ég held ekki. Hann er vel kominn upp í Laugardælum, "á bökkum Ölfusár", eins og þeir segja í fréttunum. Vita ekkert að golfvöllurinn er á milli. Og hann hefur varla átt svo mikla peninga að taki því að telja þá.
Ætti ég að hafa áhyggjur af því að Ólafur Ragnar er í útlöndum að kynna land, þjóð og landkosti, án þess að spyrja Sollu hvað hann megi segja? Nei engar áhyggjur af því, hann kann vel að koma fyrir sig orði og er miklu betri í útlensku en pólitíkusar á Íslandi yfirleitt.
Ætti ég að hafa áhyggjur af handboltanum? Þýðir ekki neitt, hvað ætli sé hægt að ætlast til að þessi strákagrey ráði við lið frá milljónaþjóðum. Klöppum þeim á bakið þegar þeir koma heim og verum góð við þá. Þeir gera eins og þeir geta.
Ætti ég að hafa áhyggjur af því hvernig framsóknarmenn nota búsáhöldin sín, eð hvernig þeir eiga að halda í við sig svo þeir komist í fötin "sín"? Æææi - hann Guðni getur bara haft áhyggjur af því, hann kemst vel yfir það.
Ætti ég að hafa áhyggjur af geðheilsunni hjá fréttamönnum sjónvarps?
Ég er ekki frá því. Það er alveg einkennilegt hvað þeir virðast alltaf vera vondir og tæpir á skapinu. Alveg sama hvort þeir tala við gamlan borgarstjóra, nýjan borgarstjóra eða væntanlegan borgarstjóra, það er alltaf þessi óskemmtilegi skammartónn í þeim, hvort sem þeir heita Sigmar eða Helgi - eða bara hvað sem hann heitir. Þarf þetta alltaf að vera svona "skammarlegt"?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.1.2008 | 20:10
Ég er vitlausari en skólakrakki
Samt er ég búin að vera í skóla í mörg ár og hef fengið alveg ágæta kennslu.
En ég kann ekkert í "Norrænni goðafræði". Í hvaða bekk átti ég að læra ég hana?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.1.2008 | 19:27
"Bláa höndin" sló taktinn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.7.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 197619
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar