Færsluflokkur: Dægurmál

Fyrsta mynd

DSCF6799"GAMALT" er það, fyrsta myndin birtist hér svo getið þið sett ykkar í komment, þeir sem ekki kunna, eftir leiðsögn sem væntanlega birtist hér undir fljótlega. Ef einhver vill ekki birta mynd hér þá er það í góðu lagi, hafið þær bara hjá ykkur og látið okkur kannski vita.  Vegna ófærðar og fleiri vandamála er skilafrestur framlengdur til mánudagskvölds. Jóhanna velur svo næsta viðfangsefni og því verður að skila næsta sunnudag.

Ljósmyndamaraþon

Ég fékk aldrei að taka þátt í svoleiðis þegar ég var í skóla, það var ekki búið að finna það upp þá. En núna í vikunni voru þemadagar í skólanum og þar var svona maraþon. Ég tók eina syrpu af myndum eftir efninu og það var gaman. Getum við ekki komið svona myndamaraþoni á hér í blogginu? ( nú er ég auðvitað aðallega að skora á mín börn) Jóh. Guðm. Guðbj. En auðvitað öllum velkomið að vera með. Hvað segið þið um mynd, eina frá hverju, birt á ykkar síðum - til d. fyrst eitthvað sem sýnir "gamalt", og svo finnum við næsta viðfangsefni. Það verða að vera tímamörk - kannski fyrir sunnudagskvöld?

Veðrið er heldur subbulegt

Hefði átt að vera fyrirsögn síðustu færslu. Ég var  langt úti á túni og hélt ég væri að flýta mér til að horfa á spurningakeppnina. En svo kemur Kastljósið með endalaust REY röfl og ég hef nógan tíma. 

Það er rok og rigning, en líka yndisleg hláka sem étur upp  snjóinn sem er nú ekki lengur neitt fallegur eða skemmtilegur. Ég er búin að grafa upp saumadót sem ég skildi síðast við fyrir fimmtán árum eða svo og ætlaði að dunda í því um helgina. En þá kom aldeilis "babb í bát". Ég sé ekki núna það sem ég sá þá, þetta er svo smátt, eða hefur kannski hlaupið? Ég verð að endurhanna umhverfið með ofurlampa og setja smámunagleraugun á nefið. En ég skal klára þennan klukkustreng. Auðvitað veit ég að klukkustrengir eru fjarri því að vera "inn" nú til dags, en ég bara gef hann einhverjum. Svo koma svona hlutir alltaf aftur í tísku, ef ekki í mínu lífi þá bara einhverju öðru.


Þá verður bara tekið í nef og vör

Samt er víst veðrið ekki verst hér. En ég ætlaði ekki að tala um veðrið, heldur aumingja þingmennina.  Frá næsta hausti geta þeir ekki einu sinni reykt úti í garði.

Það er næsta ljóst að jólagjöfin í ár, eða kannski afmælisgjöf til þingmanna verða neftóbaksbaukar úr horni, silfurslegnir að auki. Svo eru líka til þessar fínu dósir fyrir munntóbakið.


Eins gott að ég er ekki í Reykjavík

Þá væri ég alveg í vandræðum. Hvort ætti ég að taka mark á löggunni sem segir að allir eigi að vera heima hjá sér,  og skjólmegin í húsunum, með breitt uppfyrir haus. Eða þá konunni í rauða kjólnum í Þjóðminjasafninu sem sagði að þangað ættu allir að koma og væri opið til kl. 1.00?  Eki nóg með það, öll önnur söfn í Reykjavík eru opin langt fram á kvöld. Þetta eru hreint ekki nógu skýr skilaboð, liggur bara við að þau séu "misvísandi og tvísaga". Mér líst ekki á það.

Það hefur nú snjóað fyrr- og meira en þetta

Ég get alveg staðið við það. Þegar ég fór mína fyrstu ferð yfir Hellisheiði viku af maí árið 1944 var nýbúið að opna heiðina. Snjógöngin voru svo djúp að nam við þakbrún á frambyggðum GEMSA frá hernum, sem var hálfur rúta og hálfur vörubíll. Ég var í rútunni. "Maður hafur nú lent í ýmsu".

Nú er Sigmar reiður einn ganginn enn

Mér bara líður illa þegar hann er að skammast svona í sjónvarpinu. Alveg sama hvort hann er að skamma Svandísi eða Villa. Dettur honum í hug að hann fái þau til að segja bara si svona: "Hann (einhver) klúðraði þessu  og hann á að taka pokann sinn". Dettur honum það í hug í alvöru, eða er hann bara að þrasa þetta út í bláinn?  Þannig bara gerist ekki í beinni útsendingu kallinn minn, þú ættir nú orðið að vita það. Æ - nú var ég farin að tala við Simma beint - það er heldur ekki hægt.

Kaffiskortur?

Þetta ætlar engan enda að taka, hvorki snjókoman eða fjárans (leyfilegt orð krakkar) pestin í mér. Þriðji dagur sem ég hangi heima yfir engu nema sjálfri mér. Með sáran háls, svitakóf, hóstaköst og hausverk. En það er engin veiki svona? Ég hef svolítið verið að spyrjast fyrir og er nú orðin helst á því að þarna komi saman margir óheppilegir kvillar og úr verði þessi leiðindi án þess þó að heita nokkuð sérstakt. Svitakófið er mér sagt að sé eðlilegt konum á mínum aldri.Gengur yfir. Hóstaköst koma af því sem heitir "bakflæði" og kemur yfir mann láréttan. Aldrei að leggjast niður. Hausverkurinn er af kaffileysi. Auðvitað er ég ekkert að hella á handa mé aleinni sofandi í rúminu. Særindin í hálsinum gætu verið af því að ég hafi sungið of mikið eða skammast við krakka. Reyndar kannast ég  ekki við að hafa staðið í neinu svoleiðis, en hver veit?

Í dag hef ég hagað mér samkvæmt öllu þessu. Verið upprétt að mestu, hellti á könnuna og talaði eiginlega ekkert. Og ég skolaði af mér svitanum í sturtunni. Mér hlýtur að fara að batna. 


Himnaríki og H......

Það má nú segja. Auðvitað er heldur fast að orði kveðið að tala um h...... , en að liggja heima, ein, sofandi í rúminu heilan dag - það er engin skemmtun.

Ef mér hefði verið sagt í gær að það væri hægt að sofa til 14.30 á mánudegi hefði ég sagt það bull, svoleiðis gerir enginn. Þessi langi svefn var þó ekki alveg í einum dúr og það bjargaði deginum að nýir draumar fylgdu hverjum blundi.

Við áttum að fara í sund í morgun, en auðvitað missti ég af því. Fyrsti draumurinn var þó á þann veg að ég kom í laugina aðeins á eftir hinum og Gummi kennari skaut á  mig "skensi" fyrir að vera bara í lauginni þegar ég var búin að tilkynna mig veika.  Og ég skammaðist mín í alvöru svo að ég fór strax uppúr.  Svo komu fleiri draumar og var þá víða komið við, oftar en ekki í skólanum.

Sá síðasti var góður. Ég var ein á ferð og ætlaði austur að Barkarstöðum í berjamó. Ég var á rauðum gömlum ljótum bíl, Moscovits eða Lödu eða eitthvað svoleiðis. En ég hafði keypt hann sjálf og átti skuldlaust. Svo var ég komin niður á strönd fyrir austan Stokkseyri. Skildi bílinn eftir og fór út að ganga. Þar var hár garður grænu grasi gróinn, einskonar sjóvarnargarður. Ég sá ekki sjóinn, en fullt af rosalega stórum berjum og fallegum jurtum. Fannst verst að vera ekki með myndavélina. Þarna var eitthvað af fólki, í sólbaði og börn með að leika sér, en ég skipti mér ekki af neinum. Ég var svo hamingjusöm að geta bara verið þarna á röltinu án þess að hafa áhyggjur af að einhver myndi stela bílnum mínum. Hann var svo ljótur að það vildi hann enginn.

En þetta var nú ekki upphaflegt "efni þáttarins". Þegar ég var loksins sæmilega vöknuð um kl.15.00 og ekki illt í hausnum, lauk ég við bókina sem ég hafði á náttborðinu. Himnaríki ogDevil (þar sem hann á heima).  Góð bók.

Það er eins og maður horfi á mynd, eldgamla, en óskaplega fallega og skýra, stundum skelfilega mynd, sem er samt svo full af orðum sem segja svo miklu meira en orðin í venjulegum bókum.

Svo var ég aftur komin með hausverk og sofnaði einu sinni enn. 


Ég var með sex hundruð í mat

Að minnsta kosti. Reyndar gat ég aldrei talið almennilega, ekki gat ég talið diska eða glös og gestirnir voru svo kvikir og hræðslugjarnir að ég gat aldrei komist almennilega að þeim.  Þeir voru heldur ekki allir eins, mátti heita að hér væri samankominn "fjölmenningarlegur" hópur. En þeir komu sér samt ágætlega saman,  og voru ekki með áberandi yfirgang eða frekju við þá sem minna máttu sín.

Stærstir voru líklega þrestirnir, alla vega sýnist manni það, þeir ýfa fiðrið í kuldanum svo þeir verða bústnir og "feitir" sýnist sumum. Starrarnir kunna þetta líklega ekki, alla vega eru þeir jafn mjóslegnir, hversu kalt sem er. Svo eru snjótittlingarnir, sumir ljósari en aðrir, en allir fallegir. Einn hópur hefur  slegið sér að samkvæminu nú nýlega, það eru auðnutittlingarnir. Þeir eru minni en allir hinir, sumir með rauða kolla, það eru víst karlarnir. Merkilegt hvað þeim er alltaf úthlutað skrautfjöðrum. Kannski ættu þeir annars enga von um athygli.

Einn kom hér reyndar minnstur allra. Músarrindill örsmár hrundi fram af þakskegginu og slóst í hópinn stundarkorn. Ekki þó lengi, hann skaust niður í holu við gróðurhúsið, kannski kemst hann þar inn? Hann er sá allra styggasti og gott að ekki þurfti að telja hann nema upp að einum. Starrarnir eru fyrstir til að kveðja og koma sér í næturskjól. Það segir mér að sjónin sé ekki góð.

Þrestir og snjótittlingar þrauka alveg fram í myrkur, vita sem er að það er aldrei að vita nema þetta sé síðasta máltíðin að sinni.  Músi litli er löngu sofnaður í gróðurhúsinu áður en þeir hætta að háma í sig. Það er nóg til.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband