Færsluflokkur: Dægurmál

Ég veit hvað kemur næst

En ég bara nenni ekki núna að skrifa neitt að ráði. Síðasta færsla sýnir ástandið sem er á mér. Eintómar ásláttarvillur og bull.  Kannski er það af hungri? Hér var fyrst eldað í kvöld og hafði þá ekki verið gert síðan á fimmtudag. Kannski er það bara þreyta? En það var nú  ósköp rólegt í vinnunni í dag. Og það var frábært að fara í sundið í morgun, í myrkrinu og rigningunni. Níundi bekkur er kominn aftur og það er gott. Ég saknaði þeirra og heyrði meira að segja að einhver hefði saknað mín, það er enn betra.  

Ég veit alla vega hvað ég ætla að skrifa þegar ég nenni næst - það er úr sveitinni, það er eldgamalt, það er skemmtilegt. Segi ekki meir. Mér finnst skrítið hvað margir koma hér í heimsókn alla daga þó ég skrifi ekki neitt nýtt? Auðvitað eru allir velkomnir, en það væri gaman að fá kvittun frá fleirum.


Hvorki var þó brúðkaup eða jarðarför

En fjögur ólík mannamót komst ég á um helgina. Slapp úr vinnu síðdegis á föstudag og fór þá í smá útréttingar sem var lokið fyrir fimm. Þá fórum við nokkrar vinkinur upp í grímsnes til að borða og drekka og bulla og hlægja og borða meira, fara í pottinn og svo á endanum  að sofa  kl. 3.00 og til morguns.  1. mynd.

Komin heim um hádegi til að fara og redda smá pakka vegna framhaldsins.                  Svo var skírnarveisla Emils í sveitinni. Hann var auðvitað skírður Emil. 2. mynd. 

Fórum heim til að búa okkur á ball.  Sem betur fer vel södd, enginn kvöldmatur.  Myndakvöld Karlakórsins, byrjaði kl. 21.00. Myndasýning og skemmtun með góðu fólki. Fórum heim um nóttina - ekki mjög seint? mynd.3.

Fyrir hádegi á sunnudag komu systurnar af Hraunteig með pabba sínum í heimsókn.   Mamman var farin til útlanda svo þau stoppuðu bara vel og lengi og komu svo með okkur í afmælisveisluna hjá henni Habbý. Og ekki þurfti heldur að elda kvöldmat þann daginn. Habbý afmælisbarn mynd 4.

En aðalmálið er að hún Una á afmæli í dag. Það eru tvö ár síðan hún fæddist úti í Amríku og hún  sagði afa sínum í símanum í kvöld að hú væri á bílasölu með pabba sínum að skoða Lexus. Ja  - DSCF4710DSCF4390121-2155_IMGhabb� d�llaDSCF2385það er aldeilis önnur öldin - maður spáði ekki í bíla fyrr en eftir tvítugt hér áður. Una,mynd 5. 


Ég er bara í öðru

Það verður að hafa það, en ég hef allt annað að gera en skrifa blogg. Aðalfundurinn er á morgun. Ég var að ljúka við ársyfirlit formannsins og svo bjó ég til dagskrá fundarins og nokkra punkta til að skoða sem "önnur mál". Mér finnst alltaf svo gaman þegar kemur að "öðrum málum",ekkert beint afgreiðsluefni, heldur spjall út um víðan völl. Það er eins og að sitja á vinnustað eftir vinnu. Nenna ekki heim af því þar bíða verkefni, en sitja alveg róleg af því vinnan kallar ekki lengur. Frábær tilfinning.  Ég ætla sem sagt að láta ykkur í friði svolítið lengur.

Ég þarf líka að vesenast útaf fjölskyldunni hana Jónasar Hallgrímssonar. Partíið á að vera 24. nóv. Ég ætla svo í útilegu um helgina og líka að skíra hann frænda minn og líka að fara á myndakvöld karlakórsins og svo á hún Una afmæli.  Ég hef eiginlega nóg að gera.


Hvar eru allir?

Hvar ertu vinur sem varst mér svo kær? Eða hvert ertu horfin mín draumfagra mær?  Kannski eru þessar línur bara eintómt bull, alla vega allt of væmnar fyrir þau sem ég sakna. Hvar er "auto" og hvar er "runarsdottir"? Sérstaklega hún, ég hef verulegar áhyggjur. 

Annars gæti ég líka spurt, "hvar er níundi bekkur"? Ég veit þó að þau eru á Laugum, flest. Við erum bara ellefu eftir af öllum þessum fjölda og það fer heldur lítið fyrir okkur í skólanum. Þau fóru hundrað í morgun og bara eftir daginn í dag er ég farin að sakna þeirra.

Það er svo skrýtið að þó maður sé fermdur og eigi að fara í framhaldsskóla eftir  fáeina mánuði þá er svooo erfitt að sofna á kvöldin í öðru rúmi í ókunnu húsi í vitlausri sveit. Samt eru allar vinkonurnar þar, "en þegar ég er að festa blundinn eru þær kannski sofnaðar. Eða eins og ég, aaaaaleinar í heiminum".


Heitir piparsveinar?

Ég sá í dag, í blaði, ákall til íslenskra kvenna í "neyð". Þar voru auglýstir nokkrir miðaldra karlar og fáeinir strákar og fullyrt að þarna væru saman komnir "heitustu piparsveinar landsins".   OMG! ég get ekki annað en ákallað þig. Hvað þýðir eiginlega "heitur"? Ég hélt fram að þessu að "heitir" væru menn spennandi, en það getur varla verið rétt.   Hvenær verða menn "piparsveinar"? Ég hefði haldið, menn sem ekki hefðu uppburði í sér til að nálgast kvenfólk ,og væru gjarnan komnir um og yfir þrítugt.  En þarna sýnist mér átt við karla eða stráka á ólíkum aldri, óreyndir eða útpískaðir, skiptir ekki máli. Kjáninn ég.     Og svo landið allt? Ég er viss um að bæði á Bolungarvík og Borgarfirði eystra, eru menn sem ættu miklu frekar erindi í svona heilsíðuauglýsingu - alla vega eins og ég skil orðin "spennandi piparsveinn".   Ég skal bara alveg sýna ykkur mynd af blaðinu - og  það eina sem ég hef haft með "feminista" að gera, var þegar ég tíu ára gömul fletti danska blaðinu "FEMINA" þegar ég kom í heimsókn til hennar frænku minnar í Reykjavík.DSCF4510

Á tónleikum Andrea Bocelli

Ég fór á tónleika í gær, elskuleg tengdadóttir bauð okkur hjónum að hlusta á snillinginn  Andrea Bocelli. Sjálf ætlaði hún að vera heima og halda hrekkjavökupartí.

Það vildi svo heppilega til að dóttirin og þessi eini tengdasonur sem við eigum (og verða vonandi ekki fleiri, þessi er góður) höfðu líka pantað miða og buðu okkur far.

Hann var reyndar að vinna í Reykjavík, en við fundum hann á leiðinni, í húsi við Elliðavatn.  Notalegu og fallegu húsi, sem nú er eins og demantur í eyðimörk innanum tugi steypukumbalda með forljótu kassalagi sem þekja allar hlíðar þarna sunnan við vatnið.

Jæja hann hafði fataskipti í snarheitum og svo héldum við áfram.                              En hann var svangur, fékk engan kvöldmat þarna í hlíðinni, enginn heima til að gefa honum neitt. Stopp á Skalla hjá Nonna, í eina pylsu með öllu. Nonni er gamall skólabróðir minn sem ég haf alltaf vitað af og hann af mér.   Við hjónin komum við hjá honum ef við erum svöng á heimleið úr Babýlon.   Tengdasonurinn ók og ég sat í framsætinu, feðginin afturí á bak við skyggðar rúður.

Ég veit ekki hvort Nonni var sáttur þegar ég heilsaði honum með Hæi! og sagði að nú væri ég búin að yngja upp, hvort honum litist ekki bara vel á minn nýja? Hann varð alla vega frekar svarafár, en ég vona nú svona undir niðri að hann hafi vitað að drengurinn  er maðurinn hennar dóttur minnar. Hann Nonni fer víst nokkuð nærri um það hver er hver og hver á hvern, eftir áratuga þjónustu við vegfarendur austur og austan.

Svo héldum við áfram. Óslitin lest á vesturlandsvegi og stefndi í Mosfellssveit. Við fórum hina leiðina. Um Gullinbrú og svo bakdyramegin um Grafarholtið og komum öllum að óvörum uppað vegg hallarinnar á meðan lestin var en óslitin frá Elliðaánum að áfangastað. Á hraða snigilsins  færðust þeir þó allir að sama marki. Egilshöllinni. 

Tengdó skellti sér útfyrir veg, auðvitað á fjallajeppa, rétt við norðvesturhorn hallarinnar. En það var ekki allt fengið með því. Karlarnir þarna hleypa víst bara inn í húsið um einar dyr, svo við urðum að slást í hóp allra hinna sem voru á sömu leið, og ganga hringinn í kringum þetta ferlíki til að komast inn. Yfir tún og skurði pípulagnir og ruðninga, holur og polla.  Eins og flóttamenn í loftárás streymdi fólkið að, gangandi úr öllum áttum og sameinaðist svo í þéttri fylkingu þegar nálgaðist innganginn.  Þá var komið á rauðan dregil, að vísu úr einhverju nauðaómerkilegu efni, en hann var rauður.

Inni í anddyrinu var allt troðið. Fólk, fólk, fólk, alveg ótrúlega mikið af fólki stóð þar uppá endann og talaði. Það var eins og það hefði ekki séð neinn í langan tíma, það talaði svo mikið.  Og það var flest að drekka eitthvað úr glærum plastglösum, líklega hvítvín, það var svoleiðis lykt. Ekki fórum við nú að grennslast eftir hvar þetta vín væri að hafa, kannski var það einhverstaðar á bakvið fólkið, raðað á bakka í boði hússins.   En við létum það eiga sig.

Sumt fólkið var rosalega flott, konurnar í dragsíðum pelsum svo flottum að manni datt í hug tófa í sólskini á sumardegi. Aðrir voru styttri og settir saman úr einhverjum skinnum sem engin dýr á Íslandi eiga. Þeir voru heldur ekki allir svo flottir og sumt fólkið var bara hreint ekkert flott. Ég hefði sem best getað farið í kanínupelsinum mínum brúna sem ég keypti á markaðnum í London árið sem Kalli og Díana giftu sig. Eitthvað hefði kannski slitnað af honum í þrengslunum, en það hafði enginn tekið eftir því, það voru allir að horfa á fína fólkið. Svo var nú bara hleypt inní salinn, enginn smá salur maður.  Ég veit ekki hvað margir fótboltavellir, en þeir eru nokkrir.

Okkur gekk vel að finna sætin, frekar framarlega, á B svæði. Og bara nokkuð framarlega á því. Bara örfáum sætaröðum fyrir aftan A svæðið, þar sem fínustu pelsarnir fundu sín sæti.      Og ekki bara pelsarnir, þangað komu líka allnokkrir af frægustu mönnunum á Ísalnd í dag. Ekki samt fyrir einhver listræn afrek- heldur bara - - æ - svona menn sem alltaf er verið að tala um í fréttunum.

Sá sem mér fannst merkilegastur af öllum mönnunum sem ég kannaðist við þarna var samt ekki í þessum hóp,hann er bara tónlistarmaður og heitir Gunnar Þórðarson, kannski var hann á B svæði eins og ég, eða bara C.   Löngu áður en tónleikarnir byrjuðu var ég búin að sjá út að þarna var ALLT fólkið. Þetta var samkoma sem algert "möst" var að láta sjá sig á. Gat verið að það tengdist því eitthað að miðaverðið var svívirðilega hátt.

Það átti að byrja klukkan átta, en hún var að verða 8.30 þegar hljómsveitin kom sér fyrir og ljósin voru slökkt. Kannski voru enn einhverjir ennþá úti í myrkrinu að brölta yfir skurðsruðningana kringum þessa stórkostlegu höll.  Bíla varð að skilja eftir hér og þar í næstu hverfum. 

Tónleikarnir voru svo bara ekkert nema snilldin ein. Ég er ekki fróð í þessum efnum, en veit hvenær mér finnst flott og þarna var það verulega svoleiðis. Sinfóníuhljómsveit Tékklands, og þessir frábæru söngvarar, stóðu vel fyrir sínu.

Svo kom hlé og við stóðum upp til að rétta úr okkur á hliðarlínunni. Krakkarnir voru bara fáum sætaröðum frá okkur og við stóðum þarna saman og litum í kringum okkur. En A - fólkið hljóp allt út!  Þetta varð lagt hlé, nærri klukkutími, og þá voru þeir síðustu á útleið varla komnir út úr salnum. Hvað var fólkið að æða?  Var svona mikið eftir af hvítvíni? Var ljósmyndari frá Séð og Heyrt búinn að auglýsa komu sína í bönkum og baðhúsum? Eða var bara allt þetta fólk í spreng á klósettið. Eins gott að þau væru mörg, hér ræðir víst ekki um að fara út fyrir og pissa undir vegg.

Svo var kallað til sæta,  og byrjað aftur, en langa lengi var A- fólkið að tínast í salinn. Glamrandi inn eftir salnum í hælaskóm á legóplastgólfinu.  Það lærist greinilega hvorki í bönkunum eða hjá feldskeranum hvernig á að haga sér á tónleikum.

Seinni hálfleikur gekk ekki síður en fyrri, og þau fengu frábærar undirtektir. Konur hljóðuðu og féllust í faðma, stunur og andköf fóru með kliði um salinn í upphafi sumra laga og í lokin stóðu öll þessi sex þúsund af  misjafnlega fínu fólki og klappaði söngvarana upp hvað eftir annað. Svona framkallar gæsahúð og tár þó maður hafi ekkert vit á söng og hafi aldrei til Ítalíu komið. Ég er fegin að barnavaggan mín var keypt hjá Blindrafélaginu.

Það eru útgönguleiðir merktar á nokkrum stöðum á langhliðum salarins og þar vorum við búin að koma okkur saman um að fara út. Bíllinn var þá bara fáeina metra í burtu.Ekki ætlaði það svo að ganga andskotalaust. Ásamt mörgum öðrum fórum við þessa leið og þar voru opnar dyr, en jafnframt kvenmaður nr. xxxxL, sem reyndi að varna okkur útgöngu. Nokkrum féllust hendur og sneru frá - en ekki honum tengdasyni mínum. Hann hélt áfram út og við eltum, enda voru þarna fjórar opnar dyr og fullt af fólki komið út fyrir. Við heyrðum það síðast til konunnar að hún kallaði í talstöð og bað um hjálp við að reka fólkið aftur inn. 

Leiðin að bílnum var bara nokkuð greið, enginn skurður eða röraflækja. Svo héldum við af stað heim á leið. Auðvitað útilokað að fara sömu leið og allir hinir.     

Við - sveitamennirnir - þekktum leið. Við bara fórum upp í Mosfellssveit. Þegar við fórum hjá Korpúlfsstöðum sáum við fólk á gangi, fullt af því, að leita að bílunum sínum þar á túnunum í kring.  Við hringtorgið undir Úlfarsfellinu hættum við við að fara Hafravatnsleið og snerum í átt til Rvk. Þegar við komum að Grafarholti var enn ekki farið að bera á bílalestinni sem væntanlega var að þokast af stað frá höllinni.             Við komum við í sjoppunni nýju við Norðlingaholt og fengum okkur hressingu.        Þetta er flott sjoppa.

Þar hittum við ungan mann  - frá okkur - líka á austurleið, og hann sagðist hafa verið að læra töfrabrögð. Hann var rosalega hamingjusamur og hafði greinilega lært eitthvað sem hann hafði lengi dreymt um. Guðbjörg benti á mig og spurði hann hvort hann gæti látið mig hverfa? Hann horfði aðeins á mig og hugsaði sig um, en sagði svo nei.  "En ég get sagað hana í sundur", sagði hann svo ánægður.    En við vorum að fara heim, klukkan orðin margt og við máttum ekki vera að því að lenda í einhverju veseni. Svona ef hann gæti ekki límt saman aftur og svoleiðis. 

Það var tunglskisbirta og reykjarmekkirnir stigu upp af heiðinni. Fýluna lagði í vesturátt, það verður ærið verkefni að pússa silfrið í Þorlákshöfn fyrir jólin.


Nú má hann rigna og blása

Ég veit að sumum finnst ég  skrýtin og jafnvel hálfbiluð, en nú vil ég rigningu og rok með þessum hitavotti sem er kominn á mælinn. Ég vil að ófögnuðurinn sem ég óð í gegnum þegar ég fór heim, hverfi alveg áður en ég fer út í fyrramálið. Svona slabb er ekki mitt uppáhald, og ég tala nú ekki um af svo myndi frysta á allt saman. Nei - bænirnar mínar fyrir svefninn í kvöld snúast um sex stiga hita rigningu og rok. 

Það er svo óralangt síðan

og svo mikið búið að gera, síðan ég var í skólanum síðast.  Vetrarfrí - föstudag og mánudag - og það er eins og eilífðin öll.  Ég skrifaði langan lista fyrir helgi, þar sem allt var skráð sem ég ætlaði og þurfti að gera í þessu fríi.  Sumt er ég búin að gera tvisvar, en annað er ógert. Ég fór í laugina bæði á föstudag og í dag, en ég er ekki enn búin að skrifa skýrslu formanns. Það er nú samt allt í lagi, fundurinn er ekki fyrr en eftir viku. 

Ég fór líka tvær ferðir í bankann - og kom út i +. En ég er ekki búin að sá úti í gróðurhúsi, sem er líka eins gott af því ég fann í gær fullt af fræjum sem ég get notað. Gullregn - alveg fullt af þeim.  

Mér tókst að ljúka við teppið sem ég var að hekla - þá átti ég þau orðið fjögur.           En það stóð ekki lengi, Emil kom í heimsókn of ég gaf honum eitt til að lúra í.            Nú verð ég að þvo það nýjasta í hvelli, ef það koma fleiri smábörn í heimsókn. 

Sennilega má flokka þetta sem "nútímablogg", um ekki neitt, ekki einu sinni minnst á snjófölið sem lá hér yfir öllu í gærmorgun. Það var svo sem ekki til að gleðja mig sérstaklega, nú verð ég að leita að mannbroddunum mínum og setja undir skóna svo ég fari ekki á hausinn í fyrramálið. Mér er verulega illa við þá tilhugsun - að fara á hausinn - og kannski brjóta mig. Enginn er á ferðinni á sama tíma og ég. Jú bara í bílum á götunni, en það myndi enginn taka eftir dökkklæddri hrúgu á gangstéttinni. Ég gæti legið þarna þangað til birti og kannski alveg þangað til konan með Fréttablaðið fer á stjá, ef hún þá ber eitthvað út þann daginn.

Kannski ég setji flautuna mína í vasann. Svona íþróttakennaraflautu, ég á tvær, það kemur sér oft vel í ferðum með krakkana. Ég vona alla vega að ég finnist áður en ég krókna, og svo á að fara að snjóa meira á morgun. 

Það hlýtur að vera ömurlegt að hanga fyrst á sjúkrahúsi og svo heima - kannski vikum saman án þess ð vera vitund veikur. Veikur er maður ekki þegar maður er hitalaus.  Það er enginn hiti með fótbroti - er það?

Svona verður maður af að hanga heima í fjóra daga - ég hlakka til að fara í leikfimina á morgun. Og svo er matreiðsla hjá okkur eftir hádegið. 


Af tónskáldum og oddvitum

Framan við Langholtsfjallið voru Syðra- Langholtsbæirnir, tvibýli þegar þetta var.  Sigmundur og Anna bjuggu annars vegar, og þar var líka gamall afi, Sigurður, pabbi Sigmundar. Eldri börnin tvö, Jóhannes og Kristjana (Kidda í Dalbæ), voru líklega um það bil að byrja eign búskap, en heima voru tvíburarnir Siggi og Geiri og svo yngsti bróðirinn Sverrir.  Hann var jafnaldri minn og skólabróðir. 

Sigmundur var "skjalatöskubóndi", hann var ótrúlega atkvæðamikill út í frá. Hann var á kafi í pólitík, hann var í sveitarstjórn, oddviti í mörg ár og hann var alltaf á búnaðarþingi.  Honum búnaðist þó ágætlega og hafði góðar reiður á sínum málum. 

Á hinum bænum bjó Bjarni og átti tvö börn sem ég kynntist, Gróu og Braga, sem var með mér í skóla.  Það var allt sem ég hafði af þessu heimili að segja, við áttum lítið erindi á þessar slóðir.  Þórður (Dúddi), uppeldissonur Bjarna hefur á þessum tíma verið að stofna til eigin fjölskyldu með Siggu. Þau byggðu sér íbúðarhús vestan við gamla bæinn.

Vestan við Langholtið var Bjarg. Þar bjuggu Lauga og Guðjón barnlaus. Svo komu  Rúna frá Högnastöðum og Guðbrandur Kristmundsson frá Kaldbak og bjuggu þarna með þeim. Guðjón var föðurbróðir Guðbrands. 

Í Unnarholti bjuggu Bjarni og Halldóra með þremur myndarlegum dætrum og í Unnarholtskoti Helga og Gísli sem áttu þá bara einn son, Hjörleif. Seinna fjölgaði börnunum þar. 

Á þessa þrjá bæi kom ég aldrei og þekkti þar ekkert til, frekar en á Auðsholtsbæjunum, sem reyndar tilheyrðu Tungunum á þessum tíma. Samt voru Auðsholtsbændur með okkur í öllu sem gerðist. Ráku á Hrunamannaafrétt og smöluðu þar líka. Voru í réttunum og krakkar og konur á barnaskemmtunum um jólin. 

Ég kom að vísu að Auðsholti um 16 ára aldurinn til að sækja hann Skjóna minn, sem var þar að hugsa hvort hann ætti að þora að steypa sér í Hvítá í stroki. Hann átti erfitt með að festa yndi austan við ána, alinn upp í Skálholti.

Austan við Langholt, niðri við Stóru Laxá  var Birtingaholt. Þar bjó Sigurður Ágústsson ásamt Sigríði konu sinni og börnunum Ásthildi, Dísu, Sigurfinni, Gústa, Magnúsi og Móeiði.  Ein af mínu fyrstu minningum er af því þegar íbúðarhúsin í Birtingaholti brann. Nýtt hús var  byggt þar 1951, svo ég hef verið 6 eða 7 ára.

Móa var einu ári eldri en ég og sú eina  af systkinunum sem var mér samferða í skólanum.  Birtingaholtsheimilið var held ég talið með þeim merkilegri í sveitinni. Sigurður var þó trúi ég einn af þeim fjöldamörgu  bændasonum þessa tíma sem lenti á rangri hillu í lífinu. Hann var fyrst og fremst tónskáld og var snillingur á því sviði.

Búskapurinn var þó ágætlega rekinn með vinnufólki, börnunum þegar þau stækkuðu, og svo var Sigríður örugglega miklu meira en venjuleg húsmóðir í sveit. Hún var öndvegiskona og hefur örugglega oft þurft að sjá um búið.   Sigurður starfaði líka sem skólastjóri á Flúðum og vann þar flest kvöld að tónlistarmálum. Þó hann væri enginn afburða leikfimikennari bjó hann til ótrúlega mikið af fallegum lögum.

Sóleyjarbakki lokar hringnum aðeins austar við ána. Þar bjó ekkja sem hét Steinunn með sonum sínum tveimur Helga og Sigga. Þarna þekkti ég ekkert til, en kynntist bræðrunum seinna. 

Svo er nú lokið hringferð um sveitina mína Hrunamannahrepp.

Nú væri víst illmögulegt að fara svona ferð og þó eru samgöngur og vegir miklu betri en áður. Varla væri nú víst nokkur leið að leggja niður girðingu og teyma þar yfir hest til að stytta sér leið.         Og legði ég af stað gangandi svona dagleið, yrði örugglega fljótlega auglýst eftir mér í útvarpinu.

 

 

 

 


Af fjallkóngum og hestamönnum

Hvítárholt var langt úr alfaraleið, á austurbakka Hvítár. Þangað kom ég aldrei og hef reyndar ekki komið enn. Sigurður og Ella áttu þar heima og áttu Sigga, Önnu Fíu, Guðbjörgu og Kristján, sem voru á mínu reki. En  svo áttu þau yngri börn sem ég þekkti ekki, nema bara nöfnin, Kolbein, Höllu og Guðmund Geir.  Ég held að Ella hafi verið aðalbóndinn á þessum bæ. Sigurður var fræðimaður og grúskari, skrifaði greinar í blöð og hafði skoðanir á skoðunum  og skrifum annarra. Ella var lagin við hesta og ferðaðist um ríðandi á meðan hann keyrði um á rússajeppa og var reyndar nokuð oft "úti að aka".  Anna Fía var jafnaldra mín og fermingarsystir, annars var ég þessu fólki lítið kunnug.

Á Selsbæina kom ég heldur aldrei, en þekkti þar alla af mannamótum. Á Syðra Seli bjuggu í tvíbýlishúsi bræðurnir Gestur og Böðvar. Gestur átti Ásu fyrir konu, en Böðvar Fjólu. Þarna var mikill fans af krökkum. Gunna, Marta, Ásgeir, Halldór og Skúli Gestsbörn. Og Rúna, Elsa, Guðmundur og svo Kristrún og Agnes Böðvarsbörn.        Allur var þessi hópur fjallmyndarlegur eins og sagt er og systurnar hinir mestu kvenkostir.

Gestur var fjallkóngur í mörg ár og hvar sem kindur voru reknar saman komu þeir bræður líka. Glaðlegir háværir neftóbakskarlar og supu á pela í réttunum. Einstaklega góðir karlar.  Þeir voru bræður Billa á Sólheimum og þar upp aldir.

Á Efra Seli bjó Daníel ásamt Ástu. Þau voru bæði innflutt í sveitina - vestan af fjörðum. Hann var bróðir Konna á Grund. Þeirra börn voru Dísa, Helgi, Ásta Guðný og Hanna Sigga. Þær voru tvíburar og jafngamlar okkar tvíburum. Þarna kom ég ekki svo ég muni, en þau voru öllum kunnug og indælisfólk.  

Á Hrafnkelsstöðum bjó Sigríður ásamt Helga bróður sínum. Hún var ekkja Sveins sem þar var áður bóndi og börnin voru fimm. Rúna, Geiri, Gunna, Sveinn og Haraldur.    Geiri byggði um þessar mundir nýtt íbúðarhús, þar sem hann bjó með konu sinni Svövu frá Dalbæ og seinna byggðu þau svo saman, Sigríður, Helgi og Sveinn. Ég man vel eftir gamla bænum og kom þar víst inn, en ekki man ág nú eftir því.

Haraldur var yngstur þessara systkina, fáum árum eldri en ég og áttum við víða samleið, en það var þó Geiri sem ég hafði mest saman við að sælda á unglingsárunum. Og reyndar var það miklu fyrr. Hann kom stundum ríðandi heim að Garði og tók mig þá gjarnan og setti á hnakknefið. Fór svo svolítinn sprett um hverfið. Ég man að ég sat á baki Blesa á stéttinni fyrir framan húsið heima. Man þó ekki neitt nema nafnið hans, og að það glamraði í skeifunum á stéttinni.  Geiri hafði alla tíð hönd í bagga með mínu búskaparbrölti, fóðraði fyrir mig kindur eftir að við Jói í Hvammi hættum búskap og það var hann sem valdi hestinn sem ég fékk í fermingargjöf.  Ég þekkti allt fólkið á Hrafnkelsstöðum og þar voru allir góðir.

Bærinn í Efra Langholti stóð utaní brekku sem sneri móti suð-austri, vestan við Miðfellsfjall. Þar bjuggu Jói og Sigga, ásamt Sveini, sem var frændi og uppeldisbróðir Jóa. Börnin á bænum voru Bogga, Jóhanna, Pálmi og Flosi. Við Bogga vorum skólasystur og vinkonur og ég kom oft að Langholti þó töluverður spölur væri þangað. 

Ég man að ég hjólaði þangað í vorleysingum og gekk erfiðlega í drullunni.                 Þurfti stundum að teyma yfir verstu hvörfin. Þá hef ég verið að fara í afmæli til Boggu- 8. maí. Ég man að ég gaf henni einu sinni í afmælisgjöf nælu úr plasti, grænan, gulan og reuðna gítar. Áreiðnlega hef ég dauðséð eftir gjöfinni úr því ég man þetta svona vel. Ég man líka að Jóhanna gamla - amman á bænum, skoðaði næluna og sagði að hún væri "afskaplega falleg".

Það var tvíbýli í Efra Langholti. Vesturbærinn var torfbær og þar bjuggu Eiríkur og Sólveig, sem var kölluð Veiga. Þar var líka dóttir Veigu, sem hét Sigurrós og var kölluð Rósa. Eiríkur var fjallkóngur á sínum góðu árum, en var orðinn gamall þegar ég man til Rósa átti engan mann en dálítið af börnum, sem þótti nokkuð sérstakt á þessum árum.

Dálítið vestan við Langholtsbæinn var Ásatún, þar sem systkinin Óskar, Hallgrímur og Laufey bjuggu.  Þau voru öll ógift og barnlaus, en höfðu fjöldann allan af börnum í sveit eða fóstri um lengri og skemmri tíma. Ég var ekkert kunnug þarna en þekkti fólkið ágætlega.  Bræðurnir áttu fallega og góða hesta.

Vestan við holtið var Langholtskot, þar sem Hermann og Katrín bjuggu. Þar bjó líka Palli í Langholtskoti, ógiftur og barnlaus. Hjónin áttu börn á mínu reki, Sigrúnu og Jón og svo voru Elínbjört og Unnsteinn yngri.

Þessari fjölskyldu var ég ekkert kunnug nema krökkunum úr skólanum. Hermann var góður fjárbóndi og hestamaður og ég man að hesturinn hans, sem hét Blær, var á sínum tíma fallegastur af öllum hestum á Íslandi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband