Færsluflokkur: Dægurmál

Svona er dagur í mínu lífi

Mánudagur. Klukkan sjö fimmtán og ég var vakandi, útvarpið malaði við hliðina á mér, en ekki man ég hvað var þar efst á baugi. Meðvitundin ekki meiri en svo.

Rétt fyrir hálf átta fór ég á fætur. Ég leit út um gluggann og sá að það hafði gránað. Hlýindi síðustu vikna búin í bili. Sá þó þegar ég leit á mælinn að frostið var ekki nema eitt eða tvö stig. Eftir morgunstúss og jógúrt í glasi (moggafletting með hraði fellur undir þann lið) klæddi ég mig í útifötin. Kuldabuxurnar í fyrsta sinn á árinu, sem er nokkuð merkilegt, úlpu húfu og vettlinga. Kuldaskóna, og setti járnin undir. Hálka er það versta sem ég veit, svellaðir blettir undir þunnu snjólagi hafa gert mörgum ljótan grikk.

Ég tók með mér handklæði og stuttbuxur í poka. Það var leikfimi í dag og einn félagi minn leikur það stundum að "gleyma" því sem þarf. Ég sé við því. 

Ég er fimm til sjö mínútur að labba út í skóla, það var gott veður og tunglið enn hátt á himni, einhversstaðar yfir Eyrarbakka. Ég er komin í skólann korter fyrir átta - alltaf.

Þess vegna er hægt að fara aðeins í kaffi á kennarastofunni, segja góðann daginn við þau sem þar eru komin og fletta fréttablaðinu, sem einhver er svo hugulsamur að taka með sér í vinnuna.

Komin fram á gang kl. átta, enn segjandi "góðan daginn" við alla sem koma inn. Margir eru þó komnir fyrr og búnir að fara í hafragrautinn í matsalnum. Ég fæ mér ekki hafragraut, finnst hann ekki góður og það er fortíðarvandi. En hann er ókeypis.

Einn kennarinn gleymdi lyklunum sínum svo ég varð að bjarga honum inní stofuna. Svoleiðis getur alltaf komið fyrir, en þessi kennari bætti fyrir gleymskuna með því að koma með fullan pakka af blýöntum, sem hann hafði keypt um helgina. Krakkarnir urðu ekki lítið glaðir þegar þau sáu það. Getur oft komið sér vel að kennarinn hafi nytjahluti til að lána - það gleymist svo margt - eða er kannski ekki alltaf til. Og undanfarnar vikur hefur ekki verið hægt að fá blýanta í skólanum. Þeir eru ekki margir til. (kreppan)

Þegar allir voru komnir í stofur fór ég á minn stað. Í þetta sinn í íþróttasalinn.

Ég var "böstuð", handklæðið og buxurnar í pokanum þurfti ekki að nota, minn maður gleymdi engu í dag.  Tíminn gekk ágætlega, Krakkarnir komu vel undan helginni, ekkert nöldur eða leti. Bara vaðið í það sem átti að gera, þó ekki væri það allt svo létt. 2x20 armbeygjur og 15 + 15 "samfellur". Ég veit vel að þetta skilja bara fagmenn og það er allt í lagi. Ég lenti bara í einni lífshættu í þessum tíma. Stóð við markið í vítakeppni og fékk boltann úr þrumuskoti utaní annað eyrað. Fann af honum þytinn, en varð annars ekki meint af. Sá sem skaut varð hins vegar fölur og fár. Baðst margfaldlega fyrirgefningar og var enn miður sín þegar hann var búinn í sturtunni. 

Svo komu löngu frímínúturnar og þá er ég í matsalnum. Alltaf á sama stað og hjálpa krökkunum að hafa stjórn á ruslinu svo það verði ekki að dóti á borðum eða gólfi.

Góður kunningi úr fimmta bekk kom að utan og kallaði "Helga, mig vantar poka, það var keyrt yfir kött"!  Ég sótti höldupoka í eldhúsið, þeir urðu að vera tveir af því ekki voru til neinir plastpokar ,(kreppan) bara druslupokar og við þorðum ekki að treysta því að einn væri nóg undir dauðan kött.

Eftir frímínúturnar fór ég í kaffi og rakst í laiðinni á strák sem hafði verið sendur eftir töflutússi.  Kennarinn hafði ekki fundið neitt nothæft í skúffunni sinni. Ritarinn leitaði og fann á endanum tvo notaða tússpenna grænan og rauðan. Strákurinn fékk þann rauða. "Kannski fáum við túss í vikunni" sagði ritarinn. (kreppan)

Svo liðu tímarnir einn af öðrum fram að hádegi. Nátúrufræði, danska, enska, samfélagsfræði. Ég þurfti að hitta deildarstjóra og fór inn til hans. Málið var leyst á staðnum. En þar - þar á staðnum - kom ég auga á plastkörfu -  fulla af tússpennum. Ég sagði fyrst ekkert, horfði bara stíft á alla þessa tússpenna, svo leit ég á hann og hann á körfuna. Við sáum bæði að þetta leit hreint ekki vel út. Ég hafði aðeins orð á því að nú væri víst bara einn grænn til hjá ritaranum.   "Já - er það" sagði hann, "þetta hefur víst safnast upp frá í haust". "Kannski flestir ónýtir"?

 Eftir stutt hádegishlé fór ég í tölvutíma í fimmta bekk. Það er heilmikil áskorun og tíminn líður hraðar en nokkurn gæti grunað. Fimmti bekkur er furðulega fjölhæfur í tölvum. 

Svo fór ég aðeins í stofuna okkar (10.bekkjar) að gá að dálitlu sem ég var beðin um að skoða og svo talaði ég við dönskukennarann okkar útaf morgundeginum.  Ég kom við á skrifstofunni og sá þá - tússpenna! - allnokkra, á borðshorninu hjá ritaranum.

"Einhver" hafði  lagt þá þarna, einhver sem ekki þurfti að nota þá alla.

Svo kom að því að dagurinn í skólanum var liðinn. Það var enn bjart þegar ég labbaði heim, en þó var klukkan orðin rúmlega fjögur.  Það kemur bráðum vor.

 

 


Ef ekki verður brugðist við fer allt í kaldakol

Svo segir Robert Wade alla vega og ég sé enga ástæðu til að hundsa það.

En hann sagði ekki hvað væri hægt að gera til bjargar? Hvað "Geiri smart og co" ættu að gera til að komast hjá þessum voða. Væntanlega dettur þeim, í hroka sínum, ekki í hug að fara að ráðum hans. En samt, ég vildi gjarnan vita hvað er til ráða, ef það er þá eitthvað?

   


mbl.is Fullur salur í Háskólabíó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónprinsessan

Er að fljúga úr hreiðrinu. Eða alla vega - byrjuð að æfa flugið.

Það er ekkert smámál þegar krónprinsessur hefja búskap.

Skyldi ekki vanta eitt og annað? Ætli amma eigi ekki eitthvað sem kæmi að góðum notum? Vonandi hafa prinsar og prinsessur rænu á að kanna það áður en farið verður að kaupa dýrum dómum.

Ég ætla ekki að hafa um það neinar efasemdir, vona bara að allt gangi vel.

Það væri gaman að líta inn hjá henni og sambýlingunum einhverntíman. Ég veit ekki einu sinni hvort ibúðin er á þriðju hæð, eða hvort það eru svartar tíglaflísar  til að  punta uppá hvíta flísavegginn í eldhúsinu?  Eða hvort íbúðin er til sölu? Ef þetta er svona þá veit ég kannski meira. DSCF5716

En eins og sjá má þá er  Helga krónprinsessa hin hressasta. 


Nú skelfur allt í Rauðholti

Jarðskjálftinn í maí rifjaður upp í janúar. Það er verið að brjóta upp tröppurnar til að komast að röri sem fór í sundur í "stóra skjálfta". Ég sit hér inni og reyni að heyra ekki loftpressubarninginn og finna ekki titringinn í gólfinu. Verst að nágrannarnir vita sennilega ekki sitt rjúkandi ráð. Byrjað að brjóta niður húsið eftir kvöldmat á föstudegi?   Þau vita ekkert að þetta snýst bara um tröppurnar.

Það er nú reyndar ekki svo hættulegt með þetta fjárans rör, bara afrennslið af húsinu sem liggur út í bílskúr og hitar þar svolítið upp. En þetta eru engar smátröppur sem þarf að mölva. Eins gott að hann Steinn nágranni hefur til þess réttu græjurnar. En það liggur við að ég fái í magann af þessum titringi og hávaðinn er heilmikill. 

Kannski fer ég bara í heimsóknir á meðan. 


Nú eiga olíufélögin að hamstra

Eða er kannski skömmtun á gjaldeyri til olíukaupa?   Það væri ekki amalegt að fylla ódýrt á birgðastöðvarnar  núna, svo  hrjáð íslensk þjóð geti stundað sparakstur  um landið í sumar.
mbl.is Verð á hráolíu hrynur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég held honum sé ekki alls varnað

En samt - hvað skyldi hann gera næst? Nú er hann kominn undan feldi, kannski af eintómum leiðindum, þarna hjá norsurunum, eða hvað veit maður. Hann hefur kannski bara álpast heim í jólahangikjötið og fengi "yfirhalningu hjá tengdó", eins og einhver sagði.   Svoleiðis meðferð hefur víða gert kraftaverk.

"Guð láti gott á vita" 


mbl.is Endurgreiddi 370 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er það sem skiptir máli?

Bjarni Ármannsson búin með fyrsta vers í syndaaflausn. Skiptir engu máli, og ég efast um að hann finni friðinn þó hann komist að sjötta versi.

Þáttur um þróun mannsins í sjónvarpinu. Skiptir engu máli, þetta er leikið. Ég ætlaði að horfa, en svo fattaði ég að þetta var ekki ekta, heldur bara tekið upp einnhversstaðar í stúdíói á síðustu árum.

Og hverju skiptir svo sem þessi þróun? Mannskepnan hefur lítið lært og hagar sér eins og apar sem berjast um banana ef færi gefst til að hygla sér og sínum.

"Árið framundan verður viðburðaríkt og jákvætt" segir stjörnuspáin um mig. "það verður mikið um samkvæmi, skemmtanalíf og vinafundi". Skiptir það einhverju máli? Ég reyni alla daga að vera frekar jákvæð en skemmtanalíf hef ég lítið að gera með núna.

Annað með  vinafundina - vinir skipta vissulega máli.

"Kunnátta mun varpa mér í sviðsljósið og velgengni banka uppá hjá mér". Skiptir engu, maður gleypir nú ekki svona bull á mínum aldri.

Það er ekki ég sem skipti máli á þessu nýja ári.

Það sem skiptir máli er  fólkið sem á um sárt að binda. Þau sem hafa misst vinnuna og eru að missa aleiguna. Þau sem hafa misst ástvini, eða glíma við veikindi. Þau skipta máli. Unga fólkið sem er að leggja af stað útí lífið og fær hvergi vinnu, það skiptir máli.

Við þurfum að halda vel hvert utanum annað, það skiptir máli.

Eina klausu í stjörnuspá ársins held ég að gæti komið sér nokkuð vel að muna. 

"Taktu þátt í íþróttum, skemmtunum og leik með börnum, vinum og fjölskyldu og njóttu skemmtilegra stunda með þeim". Það gæti skipt máli.

Og dettur mér nú snjallræði í hug!

Í mörg ár höfum við hugleitt "hátíð á róló". Gerum það núna í sumar - haaaa?

Einn laugardag á miðju sumri höldum við Austurbæjarhátíð á róló. Allir velkomnir sem vilja vera vinir okkar sem höfum átt hér heima, sumir öll árin, aðrir einhver ár eða bara þegar þeir voru litlir. Hrekkjusvín og boltabullur, stríðnispúkar og bestuvinir.  

Gerum þetta? - Það gæti skipt máli. 


Til hamingju Ólafur

Þú átt þetta margfalt skilið. Og svo ertu skemmtilegur líka.

En þetta ferlíki sem er þarna afhent sem verðlaunagripur, hvað er eiginlega málið?

Hvers vegna er þetta svo stórt og þungt að ekki einu sinni ofurhetjan Ólafur getur haldið á því stundarkorn.

Dæmigert fyrir stórmennskubrjálæði okkar Íslendinga undanfarin ár. 

Svo langar mig að vita hvaða bók allir  fengu?

Mér datt í hug "Jarðabók Skeiðahrepps" veit enga aðra eins stóra, en kannski er þó einhver til.


mbl.is Ólafur Stefánsson íþróttamaður ársins 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er líka verið að hengja milljónavirði á veggina?

Og það er eins í opinberum byggingum hér á landi. Þar sem kalla má "einskis manns land", enginn veit hver á hvað og sífellt verið að skipta um stjórnendur og starfsmenn. Hver sem er getur lallað inn og tínt af veggjunum það sem hugurinn girnist. "Bara verið að sækja það til að hreinsa, eða gera við". Heimurinn er ekki lengur eins góður og einu sinni var.
mbl.is Málverk hverfa úr sendiráðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það hefur verið komið að máli við mig"

Hvað eftir annað á síðustu mánuðum hef ég verið spurð hvers vegna ég sé ekki með.

Ég hef kannski hugleitt það aðeins, en ekki lengi. Neikvæðar lýsingar eru of margar fyrir mig. Það er sagt að þetta hafi leitt til fleiri hjónaskilnaða en nokkuð annað á síðasta ári. Þó veit ég ekki alveg hvernig það kemur til. Af því að þarna sé talað um og í kringum fólk sem ekki hefur nokkur ráð með að verjast - kannski? Af því að þarna hitti maður daglega gamla kærasta sem leiði svo til upprifjunar af ýmsu tagi? Getur verið, en ég hitti nú mína gömlu kærasta nokkuð reglulega - í Bónus eða sundaluginni - jafnvel í vinnunni líka.

En það hefur aldrei haft neikvæðar afleiðingar, ég held að okkur öllum finnist það bara skemmtilegt. Enda voru mínn gömlu sambönd svo saklaus  að "skömm" væri frá að segja. 

Ég er bara ánægð með ástandi eins og það er. Ef ég þarf að lýsa skoðunum get ég gert það hér. Ég hef ákveðið að vera ekki með - í Fésbók. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 197608

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband