Færsluflokkur: Dægurmál

Heppnir vegfarendur

Það er ekki hættulaust að voga sér út í umferðina þessa dagana og er Vogavegurinn síst undanskilinn.  Kveðja til Vogabúa -
mbl.is Fjórir á sjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fróðlegt væri að vita

Hvar stúlkukidin er núna?  Væntanlega einhversstaðar á Íslandi að bardúsa í búi með piltinum.
mbl.is Kastljós sýknað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara flott og það er gott

 Spurt er: Af hverju gekk okkur svona vel? Jóhanna var góð, lagið var gott, allir gerðu vel.  Kannski hjálpaði hvalurinn líka, eða tunglið, eða hrunið? Allir vilja vera góðir við okkur? Hvað veit maður hvernið fólkið í útlöndum hugsar?Sigmar var líka góður og Bretarnir eru að skammast sín. Þeir gáfu okkur stig. Til hamingju Ísland.

Og til hamingju Noregur, það voru fimm Norðmenn hjá okkur í kvöldmat og þeir voru ekkert nema kæruleysið. Sögðu að strákurinn væri ekki einu sinni norskur og fóru áður en úrslitin voru ljós. En við fengum það loforð (líklega fyrir góðan mat) að ef við myndum vinna skyldu þau lána okkur svo við gætum byggt  "júróvisjón höll".

Það er gott að eiga góða að. 

 


mbl.is Langt fram úr mínum vonum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Utan þjónustusvæðis

Ég er á röngum stað, er þó samt í vinnunni. Ég var send á milli sókna.

Staður á Eyrarbakka - samkomuhús - íþróttahús. Ég sit í anddyrinu.

Rúðurnar í gluggunum eru mattar af sjóroki og salti, það er hvasst úti og mistur svo ekki sést til fjalla. Eyrarbakki er einangraður í rykskýi sem kemur með suðaustanáttinni alla leið  frá Evrópu. 

Ég fór áðan út á sjóvarnargarðinn og leit til sjávar, sá alveg út fyrir brimgarðinn, sem var þó ekki stórkostlegur. Ég hélt að í svona roki væri mikið brim en ég er nú ekki þaulkunnug sjólaginu við ströndina. Fyrir utan húsið berst fáni á stöng, eða öllu heldur slitrur af fána sem líklega hefur lamist þarna í allan vetur. Ekki gott að sjá hverskonar flagg er þarna á ferð, en sýnist þó hafa liti sveitarfélagsins eins og merkið á bílnum sem kom áðan. Hann stoppaði við grjóthrúgu sem er nærri fánastönginni og eftir góða stund komu tvær manneskjur  út og krupu við hrúguna. Kröfsuðu eitthvað í kringum steinana en stóðu svo upp, fóru í bílinn og óku burt.

Annars er ekki mikil umferð. Einstaka bíll fer um götuna, rólega eins og þeir eigi ekkert erindi. Kannski eldri borgarar í bíltúr að skoða brimið - sem ekkert er.

Það virðist fátt af fólki á ferli í þessu þorpi. Skólabíllinn kom áðan og var greinilega að flytja heim börn eftir skóladaginn. Þau voru fjögur sem fóru hér úr og hlupu sitt í hverja áttina, væntanlega hvert heim til sín og þar hljóta þau þá að eiga foreldra. Einhverjir búa hér þó. 

"Rauða húsið", sem einu sinni var, er hér handan götunnar. Það er enn rautt  og með grænu þaki, en það er þar ekki neitt núna. Veitingastaðurinn Rauða húsið er  austar, nær kirkjunni og bara rautt að hálfu. Hinn helmingurinn er hvítur. 

Klukkan er tvö. Það er rólegt hjá mér núna. Ég er fylgdarkona stráka úr skólanum sem eru að læra nútímadans í salnum hérna. Mér finnst reyndar spurning hversu nútímalegur þessi dans sé, finnst ég hafa séð götubörn í New York dansa eitthvað svipað í bíómynd fyrir fjörutíu árum. 

Fyrir hádegi voru hér fjörutíu 9. bekkingar, en nú eru bara tíu úr 10. bekk.  Þeim finnst þetta gaman og eru ekkert að fela það. Það er gott. 

Það er allt of fátt sem strákum á þessum aldri finnst gaman.Við förum aftur á morgun og svo verður sýning í íþróttasalnum á Sólvöllum á föstudaginn. Þá verða margir hissa, en ekki ég.

Þarna kom ein stelpa labbandi á móti rokinu. Hún hlýtur að vera að  fara í sjoppuna?

Það er sjoppa hérna og svo líka kirkja. Það er verið að byggja hús hér fyrir vestan og það er með turni eins og kirkja, samt er það víst bara venjulegt hús.

Það er sjávarlykt í loftinu, líka inni. Og það lífsmark sem helst er að sjá eru stöku mávar sem láta vindinn feykja sér um loftið.

Enn kemur skólabíll, sá þriðþji á klukkutíma en hann er tómur. Kannski sleppti hann út krakka einhversstaðar á Túngötunni, það býr eitthvað af fólki við Túngötuna sagði húsvörðurinn mér, en hann sagði líka að hér væri varla nokkur maður kunnugur orðið, allt svo ólíkt því sem einu sinni var, þegar allir þekktu alla. Hann sagði mér líka söguna af Stað, húsinu sem einu sinni var hér, en stendur nú á Selfossi og fær að vera einhver ár í viðbót, þökk sé kreppunni. Hann sagði líka að það brimaði ekki á Bakkanum í suð-austan átt.

Fjórði skólabíllinn kom og svo sá fimmti, sem við fórum í og vorum flutt heim á Sólvelli. Bílstjórinn sagði mér að hann færi fimmtán ferðir á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar yfir daginn, eitthvað kostar það?

Það kostar allt svo mikið núna. Við förum aftur í dansinn á morgun og það kostar sjálfsagt sitt, en það er gaman. 

 


Áttundi maí - fyrir langa löngu síðan

Afmælisveisla í Efra Langholti - hjá Boggu.

Ellefu eða tólf ára urðum við þetta vor, kynntumst fyrst í barnaskóla og þar byrjuðum við tíu ára gamlar.

Ég fór að heiman á hjóli. Pabbi hafði keypt tvö hjól á uppboði í Reykjavík, eitt strákahjól handa Erni og eitt stelpuhjól handa mér. Hann fór alltaf á uppboð ef það var í boði þegar hann fór til Reykjavíkur. Bæði voru þessi hjól notuð og báru reynslu fyrri ára utaná sér, lakkið var lélegt. En pabbi sá við því. Hann keypti í sömu ferð dollu með grænu reiðhjólalakki sem dugði á bæði hjólin.

Þau litu ekki lengur út eins og notuð hjól, en reyndar ekki heldur eins og ný, hvergi nokkursstaðar í heiminum voru framleidd hjól sem voru svona fallega græn. Alveg eins og tún á vori.

Það var aurbleyta í vegum uppsveitanna þennan áttunda maí fyrir langa löngu. Fram að Langholti var dágóður spölur, svona sex til átta kílómetrar trúi ég og töluvert af brekkum - aðallega upp i móti.  Það var þurrt í veðri en vegurinn allur í drullu. Hvert hvarfið tók við af öðru og ég í betri skónum. Uppreimuðum strigaskóm sem nú væru væntanlega rándýrir og kallaðir flottu nafni, Canvas eða eitthvað slíkt.

Ég varð að teyma hjólið megnið af leiðinni, draga það út fyrir veg til að komast hjá hvörfunum þar sem það var hægt, eða stikla á steinunum sem uppúr stóðu. Þetta var erfitt ferðalag. En ég komst í afmælið. Eins gott, því annars hefði ekki orðið nein veisla, ég var eini gesturinn. Og ég var með pakka.

Það var lítill pakki. Ef ég hefði sjálf fengið svona lítinn pakka í afmælisgjöf er ég viss um að mér hefði fundist hann einstaklega léleg gjöf.  En ég vissi hvað var innan í umbúðunum og fannst þetta mjög flott afmælisgjöf, svo flott að ég hefði alveg viljað eiga hana sjálf. En ég var nú samt rausnarleg og rétti Boggu gjöfina.

Hún tók umbúðirnar utanaf og í ljós kom lítil næla. Óskaplega falleg næla sem var í laginu eins og gítar, þessir sem spánverjarnir spila á þegar konurnar dansa í síðu skrautlegu kjólunum. Og gítarinn var líka skrautlegur, grænn og rauður og gulur, með brúnum hálsi þar sem mótaði fyrir örfínum strengjum.Og hann var ekki úr tré eða pappír eða öðru venjulegu efni, þetta var "plastik" gítar. Guð hvað ég vildi að ég ætti svona nælu. En pabbi hafði bara keypt eina afmælisgjöf þegar hann fór til Reykjavíkur, þarna þegar hann keypti hjólin á uppboðinu, og auðvitað valdi hann gítar, hann kunni sjálfur að spila á þessháttar hljóðfæri.

Bogga var auðvitað ánægð með gjöfina og sýndi öllum. Aldrei hafði sést svona falleg næla í Efra Langholti. Við fórum svo inn til Jóhönnu gömlu. Jóhanna var amman á bænum og átti sitt eigið herbergi. Það var einu sinni þannig á öllum bæjum, allar ömmur og líka afar áttu eitthvað sem var kallað "inni hjá sér". Jóhanna sat í stólnum sínum. Ömmurnar áttu líka alltaf stól til að sitja í, nema þær vildu heldur sitja á rúmstokknum, eins og hún Ingibjörg á Högnastöðum gerði.

Já - Jóhanna sat í stólnum sínum og Bogga sýndi henni næluna. Mikið dæmalaust fannst henni þetta fallegur hlutur, hafði víst aldrei séð annað eins. En hvað er þetta, vildi hún fá að vita? Það lá svo sem ekkert í augum uppi og gamlar konur sem voru fæddar 1800 og eitthvað höfðu víst ekki mörg tækifæri til að skoða búðadót frá Reykjavík.

"Þetta er gítar amma mín" sagði Bogga, og það á eð næla honum svona í sig, bætti hún við og festi gítarinn í barminn.

Jóhanna var svo aldeilis hissa hvað hægt var að búa til mikið fallegt og ég var víst alveg sammála, en kannski pínulítið öfundsjúk samt. Alla vega man ég enn í dag hvað nælan var falleg - og úr ekta plastik.

Til hamingju með afmælið Bogga mín.Scan10054


Það er maríuerla á þakrennunni

Hún tifar þar fram og til baka, tístir og skimar í kringum sig. Hvar ætti ég nú að setja hreiðrið mitt í ár?

Fróðlegt væri -

-- að vita hvað þessi "fjárfestir" væri að fást við í Rússlandi?

Þetta orð "FJÁRFESTIR" heyrði ég fyrst á árunum rétt fyrir 1990. 

Merkilegt orð og áhrifamikið.    Þá vann ég á mínum gamla og góða vinnustað í Fossnesti sem lenti í höndum svona manna, fjárfesta.

Það þarf ekki að orðlengja það að þetta var upphafið að endalokunum á þessum góða stað, allt komið á hausinn fáum árum seinna.  


mbl.is Skoðar málskot til Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránlegar tölur

Ef ég ætti 1/2 milljarð væri ég forrík, en þessi aumingja maður á víst ekki nema tæpa 30 milljarða og verður að lýsa sig gjaldþrota. Ja það er misjafnt mannanna lánið. 

En ég vorkenni honum samt ekki neitt, það eru örugglega einhversstaðar "nokkrar evrur" sem hann hefur gleymt að nefna.


mbl.is Björgólfur ábyrgur fyrir 58 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru margir í hlutastarfi?

Mig langar til að vita hvort einhverjir af þessum 18.000 eru í hlutastarfi og svo kannski hálfum eða 1/4 bótum. Upplýsingar um fjöldann gefa það í skyn að 18.00 heil störf vanti, en það er kannski ekki rétt?
mbl.is Bæturnar misnotaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var sagt "að sumarið væri tíminn"

En það er nú held ég misjafnt og fer eftir því hver á í hlut.

Hjá mér er það örugglega vorið sem fær þessa nafnbót. Auðvitað helst vegna þess að þá lifnar allt sem legið hefur í dvala yfir veturinn, en svo líka af því á þessum tíma er svo margt í gangi og mikið um að vera að það þarf meira en venjulega viku til að komast yfir það allt.  Þetta með vorið og gróðurinn - ég opnaði vermireitinn minn fyrir rúmri viku - aðeins bara til að vökva í honum, það var dálítið þurrt. En þar var aldeilis sjón að sjá! Allt að lifna og grænka. Og bakkarnir sem ég sáði í  haust flestir orðnir alþaktir litlum grænum blöðum sem voru að brjótast upp úr moldinni. Ég tók mynd sem þið fáið að sjá og lokaði svo aftur. Næstu mynd tek ég um miðjan maí og hvað verður þá að sjá? 

Ég er löt í tölvu þessa dagana. Nenni stundum að henda inn athugasemdum við eitt eða annað, en almennilegar skriftir sitja á hakanum. Ævisagan er ekki komin lengra en að 1980 eða svo, það vill til að hún er til handskrifuð í  2 stk.A4 ef ég skyldi gleyma henni alveg.   Ég er miklu duglegri við aðra handavinnu þessa dagana. Búin með klukkustrenginn sem ég gufaði upp á 1972 og svo er ég núna að hekla og prjóna úr öllu garni sem ég finn í pokum og skúffum. Á orðið þokkalegan lager af vögguteppum pilsum og ýmsu öðru skemmtilegu. Ég er hræddust um að ég lendi á glapstigum og fari í frekari garnkaup þegar fer að létta á lagernum.

Annars fór ég í óvissuferð á föstudaginn, út í Hveragerði með karlakórskonum - það var nú meiri óvissan. En við komumst aftur heim. Svo var ég vöknuð fyrir allar aldir og kaus eldsnemma. Það var til þess að ég fengi svo allan laugardaginn til að hreinsa til á lóðinni. Að vísu kom gestur á milli tíu og tólf og svo var smá grjónagrautspartí í hádeginu, en lóðin er orðin fín núna. Það var svo konsert í Hveragerði á sunnudag, ég seldi þar miðana. Ég sá engann sem ég hafði hitt á föstudagskvöldinu, sennilega annað fólk sem fer á karlakórstónleika í kirkjuá sunnudegi, en það sem stendur í "óvissu brölti " um kvöldin. Á föstudaginn ætlum við í leikhús í Borgarnesi og svo fer að nálgast karlakórsferðalag og það þarf að bera á pallin áður en tjaldið verðu reist hjá hjólhýsinu. Ég segi ekki að ég þjáist af verkkvíða, enda eru þetta svo sem engin verk, bara eintóm skemmtun.

Það er vinnan nú reyndar líka, og nú þarf ég að fara að búa mig undir að kveðja bekkinn minn. Við erum búin að eiga saman súrt og sætt í nærri tíu ár og vitum held ég, hvorki ég né þau,DSCF4459DSCF4506DSCF4498 hvernig við komumst af án hvers annars. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 197260

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband