Færsluflokkur: Dægurmál

Sláturtíð og rok og skírn

Synd og skömm hvað ég er orðin löt að skrifa. Ég hef rekið mig á að skriftir eru eitthvað sem ég fæst ekki við nema lítið sé að gera. Og nú er bara alltaf svo allt of mikið að gera. Eða kannski er ég orðin svona gömul að mér finnst allt meira en það raunverulega er.

Nei - það er nú örugglega ekki það - mér finnst ég alltaf jafn "lítið gömul", en núna undanfarið er ég bara farin að gera ólíklegustu hluti sem mér hefði aldrei dottið í hug áður.

Nú er ég farin að taka slátur á hverju ári, meira að segja bjó ég til rúsínublóðmör í dag (eða öllu heldur í kvöld). Nokkuð sem ég hef aldrei smakkað eða séð hvernig á að búa til. Ég bara lét hugmyndaflugið ráða og  úr varð þessi fíni blóðmör.

Ég hef líka verið að prjóna og hekla og sauma eins og ég sé með tólf manna fjölskyldu sem engin ráð hefur með að klæða sig í neitt nema ég búi það til. Svo fann ég í skáp hjá mömmu um daginn áteiknaðan dúk sem mamma hennar(amma mín) hafði látið eftir sig ósaumaðan. Mamma hafði heldur ekki einu sinni keypt í hann garn. Ég auðvitað hirti dúkinn keypti garn og er langt komin með að ljúka honum. Hann kostaði 7.50 þegar amma keypti hann í einhverri búð, kannski Erlu á Snorrabraut, ef sú búð hefur verið til um miðja síðustu öld. 

Svo eru auðvitað öll uppskerustörfin búin, nema rófurnar reyndar, þær verða teknar upp í einhverri hlákunni í nóvember. Rófur nefnilega eru gæddar þeim hæfileika að halda áfram að vaxa í hverjum hlýindakafla sem Guð gefur, langt fram á hustið. 

Sáning á trjáfræjum er búin. Það er nú eitt sem ég hef tekið uppá undanfarið, að tína ber af öllum trjám sem ég finn með berjum og sá í reitinn minn á bakvið hús. Það er svo spennandi að sjá hvað kemur þar upp á vorin. Einstaka tegundir láta ekki á sér kræla fyrr en eftir tvö þrjú ár, en yfirleitt kemur einhventíman eitthvað. 

Það var ekki neitt voðaveður hér í gær. Austanáttin er ekki svo slæm hér. Það er útsynningurinn sem gerir hér mestan usla.

Í morgun fórum við í bæinn og það var enn hvasst undir fjallinu og þegar nær dró borginni. Ég fór í fimleika á Þróttarheimilinu. Ekki það að fimleikar séu á meðal þess sem ég er farin að stunda uppá síðkastið, en ég fór með henni Unu. Hún er að verða fjögurra ára og þá er mjög gott að æfa sig í fimleikum einu sinni í viku.

Svo eftir hádegið var hún Hrafnhildur Eva skírð heima hjá afa og ömmu í Grafarv.

Hún er voða falleg stelpa og sofnaði um leið og hún var búin að fá nafnið sitt.

Í heimleiðinni komum við svo til Helgu Guðrúnar í Hraunbænum og í Bónus í Hveragerði. Langur og notadrjúgur dagur kominn að kveldi eins og þar stendur.

Eða stendur það annars ekki? 

 


Þeir eiga ekki sjö dagana sæla

Undarlegustu uppákomur í sambandi við guðsmennina. Svo er alltaf verið að kæra þá fyrir  afglöpin. Væri ekki nær að biðja bara fyrir þeim, fast og vel. Til d. þessi kæra er eingöngu til að reyna að fá peninginn til baka. 

Kannski eru svona óhappaprestar bara á rangri hillu. 

Allt þetta vesen er örugglega bara af því þeim líður eitthvað illa - gæti það ekki verið?

 

 


mbl.is Drukkinn prestur eyðilagði útför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um að gera að nýta kunnáttuna

Það er ekki mikill munur á tölvuleikjunum og bankaleikjunum, sem við skulum vona að heyri fortíðinni til. Nú ætla þeir að verða ríkir af þessu. 

Sennilega komast þeir seint að því að lifið getur snúist um fleira en peninga. Gangi þeim bara vel.


mbl.is Úr banka í tölvuleikjagerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hún ríður ekki við einteyming" -

  - ævintýramennskan á Íslandi, gætu þeir hafa hugsað sem skrifuðu þessa frétt úti í Danmörku.
mbl.is Ráðning ritstjóra vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Í eftirmiðdag var haldinn fundur í Hádegismóum"

Mér finnst þetta ljótt og klaufalegt svo ekki sé meira sagt.

Í kvöldfréttunum var sagt frá "uppákomu dagsins" með þessum hætti.

Hvers vegna mátti ekki bara segja að nú síðdegis hafi verið haldinn fundur?


Heilsa eða heilsuleysi?

Hvar eru þau sjúkrahús á Íslandi sem ekki tengjast heilsu fólks með einhverjum hætti?

Ég er nú bara svo vitlaus að mér finnst þetta orðalag eitthvað einkennilegt. 


mbl.is Uppbygging á heilsusjúkrahúsi í Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttir, brúðkaup og uppskerustörf

Fjárrekstrar á Skeiðunum í fíngerðum rigningarsudda, hlýju og logni.

Ég fann til samkenndar með rekstrarmönnum, gallaklæddum, ýmist gangandi eða ríðandi alsælir fylgdu þeir kindunum sínum heim úr réttunum. Á svona dögum skiptir veðrið engu máli, allt er gott. Síðustu ár finnst mér að rekstrar á þessari leið hafi verið fáir og smáir. Alla vega þó einn bærilega stór Flóarekstur, en nú mættum við fjórum hópum. Fyrst kom rekstur frá Löngumýri, svo kom Litlu- Reykja reksturinn, síðan Flóareksturinn stóri. Ég ætla ekki að halda því fram að ég þekki svipinn á rollunum á bæjunum, en fólkið þekki ég.  

Síðast sáum við svo til rekstrar á Húsatóftaholtinu og bílalestin hægði á sér einu sinni enn. Stoppaði alveg. Þessi rekstur var ekki stór, en það var mikið að gera í kringum hann. Kindurnar voru útum allt, á veginum og svo einhver slæðingur báðumegin við. Ein rolla tók sig til og hljóp í átt að Húsatóftum en hún komst ekkert upp með það, tíu manns, vel ríðandi eltu hana og komu á rétta leið. Með öllum þessum rekstrum var fjöldinn allur af fólk, en með þessum síðasta þó miklu meira af gangandi börnum. En þarna þekkti ég engan. Mér datt í hug að einhver væri þarna á ferð sem hefði nýlega sest að á Skeiðunum til að lifa af landsins gæðum og það væri bara gott.

Svo var brúðkaupið. Erla Björg og Vilberg giftu sig í Hrunakirkju og buðu síðan vinum og ættingjum til veislu í félagsheimilinu.  Enn var súld og milt og lygnt. Það er örugglega gott veður fyrir brúðkaup, ég held að hjónin eigi þá að lifa kyrrlátu lífi og efnast vel. 

Á sunnudagsmorgni eftir náðuga nótt í Mýrinni vorum við svo tímanlega á fótum og tilbúin í uppskerustörfin.    Við vorum vel mönnuð með allflesta afkomendur í vinnu.

Við tókum kartöflurnar allar upp, en rófurnar létum við vera. Þær vaxa langt frameftir haustinu. Laukurinn var líka tekinn og jarðarberin sem nothæf voru. Sniglaskrattarnir höfðu farið illa með þau.  Hindberin eru orðin ágætlega þroskuð og berjatínslukonurnar fylltu þar glösin sín. Það var nú reyndar upp og ofan hvort þær  fylltu og tóku með heim eða supu bara úr glösunum þegar slatti var kominn í.

Svo var endað á að elda dýrindis súpu úr hráefni sem allt hafði verið tekið upp þarna samdægurs. Hún var einstaklega kjarngóð og ljúffeng. 

Hér eru nokkrar myndir: í fyrsta lagi af brúðarbílnum á leið frá kirkjunni, svo af "gömlu" hjónunum í kartöflugarðinum,DSCF6689DSCF6761DSCF6749DSCF6752 hindberjunum og svo stúlkunum sem tíndu berin. 


"Talið að hann væri farinn"

Það er hvað eftir öðru hér á skerinu. Er ekki hægt að deila upplýsingum og stunda eðlileg samskipti á milli stofnana á þessum tímum sem við viljum kenna við upplýsingar og tækni? 

Best væri að setja allt liðið í gáminn, sem þeir hafa væntanlega verið búnir að panta sér,   ( án þess að nokkur sæi neitt athugavert við það) flytja í skip og loka svo algerlega fyrir endurkomu - að eilífu. Amen.

 


mbl.is Þjófar áfram í varðhaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona er pólitíkin - svei skítalykt

Auðvitað voru forverarnir ekkert að skila til eftirmannanna einhverju sem hefði mögulega skilað einhverjum jákvæðum árangri. Starfsfólk ráðuneytanna er kannski ekkert skárra en liðið sem við erum að kjósa. Hefði ekki einhver þar átt að koma boðunum á milli?
mbl.is Vilja fjárfesta fyrir milljarð dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það styttist til vors

Nú er komið niðamyrkur og réttirnar á föstudaginn. Þegar svona er orðið áliðið hætti ég að hugsa um að haustið og veturinn séu að koma og fer að hlakka til vorsins.

Ég fletti síðunum frá plöntusölunum og leita að trjátegundum sem mig vantar og ætla að kaupa næsta vor.

Ég keypti ekki neitt í sumar, en plantaði alveg ósköpum af eigin framleiðslu í Mýrina. Og enn á ég fullt af plöntum sem þurfa að komast í jörð. 

Nú er líka berjatíminn kominn. Ég er farin að safna fyrir suðurlandsskóga eins og undanfarin haust og nú er nóg til. Yllirinn er ég búin með og rétt slapp á undan þröstunum. Ég kom að einum runna um daginn þar sem mikið var af berjum, en hann var morandi af þröstum, örugglega fleiri hundruð svo allt var á iði. Eftir smá stund voru öll ber horfin.  

En ég á eftir að tína af hlyn og svo smá af reyni og ýmsu öðru. Og þar á ofan get ég aldrei stillt mig þegar ég sé  ber á trjám, eiginlega sama hvað það er, ég verð að tína smá og sá hjá sjálfri mér. Þess vegna á ég líka allt of mikið af alla vega trjáplöntum, en það er allt í lagi, ég get þá gefið með mér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband