Færsluflokkur: Dægurmál
7.9.2009 | 19:46
Ekkert einsdæmi
Sé maður á ferð um þjóðveg eitt hér á Suðurlandi er næsta víst að eitt eða tvö mótorhjól taka framúr á ofsahraða. Mér er hins vegar ómögulegt að skilja hvernig ég gæti hringt í lögguna til að tilkynna glæfraaksturinn. Ég get ekkert séð. Hraðinn er svo mikill að engin leið er að ná númeri, ökumaðurinn er þakinn leðri og með hjálm á höfði svo ekkert sést til hans. Útilokað að vita einu sinni hvort á ferðinni er karl eða kona. Ég held þeir seilist nokkuð langt í skjóli þessa.
Það er heldur þunn lýsing að segja í símann "ég sá, eða kannski frekar heyrði, mótorhjól fara framúr mér á flóaveginum, en núna er það örugglega komið upp í Þjórsárdal".
Á ofsahraða í Flóanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.9.2009 | 19:32
Er það ekki Óseyri ?
Ég hef alltaf haldið það, og brúin hefur þess vegna heitið Óseyrarbrú í mínum fræðum.
Er ég ekki í lagi?
Skýstrokkur í Ölfusi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.8.2009 | 19:52
Já - mér fannst eitthvað öðruvísi en áður
Ég fór í Hveragerði til að horfa á flugeldasýninguna eins og undanfarin ár.
Sýningin var glæsileg og þarna njóta bomburnar sín alveg einstaklega vel með áhrifamiklu bergmáli frá klettunum í kring. Þetta var allt eins og fyrr.
En svo þegar við ókum niður brekkuna og í gegnum bæinn var eitthvað öðruvísi.
Ég sá lítið af fullorðna fólkinu sem leiddi heim börnin sín eftir vel heppnaðan dag. Kannski var það farið fyrr, það var ansi kalt.
Í stað þess var troðið á götum og gangstígum af unglingum sem höfðu sumir hátt. Hvers vegna þau höfðu hátt veit ég ekki - kannski var bara hrollur í þeim.
Flúði frá lögreglu út á veg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.8.2009 | 14:52
Velkomin nafna
Nýtt skip til Reykjavíkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.8.2009 | 22:07
"Á misjöfnu þrífast börnin best"
Ég sá í gær, þegar við fórum í sveitina, að það er kominn haustlitur á kornakrana, kornið er að verða þroskað. Ég hef líka tekið eftir því í sumar að á Sandlækjarmýrinni var sáð einhverju öðru en korni í stórar sléttur. Ég hef ekki stoppað til að smakka á þessu en mér hefur dottið í hug að þarna séu hafrar, áferðin er ekki ólík.
Og þá rifjaðist upp fyrir mér hvað hafrarnir voru góðir á bragðið.
Fyrir óralöngu í uppvextinum heima var alveg ótrúlega fjölbreytt fæði hjá okkur krökkunum. Við fengum auðvitað að borða á matmálstímum eins og annað fólk, yfirleitt ágætismat, en það var bara brot af því sem við létum ofaní okkur.
Hvernig átti líka annað að vera en að við værum sísvöng, úti allan guðslangan daginn og ekki bara að leika okkur, við vorum látin vinna baki brotnu, svo líklega yrði kært til Evrópusambandsins núna.
Við systkinin vorum heppnari en margir, við gátum verið á beit í fjölbreyttari gróðri en flestir. Við gátum étið grænmeti allt sumarið eftir að það varð sæmilega vaxið. Gulræturnar voru að vísu ekki tilbúnar fyrr en í júlílok, en eftir það voru þær aðalfæðan hjá mér á milli mála. Ég stóð og pakkaði gulrótum amk. tvo daga í viku.
Hvítkál og blómkál var líka vinsælt og svo rófur, stundum skafnar með hníf, þá voru þær svo sætar og safaríkar. Grænkálið fannst mér alltaf svolítið rammt, en steinseljan, sem við kölluðum nú bara persille, var ágætt á bragðið, leggirnir bestir, og mikið af þeim í einu. Tómatana máttum við ekki vaða í óhindrað, þeir voru meira svona "spari" og pabbi hugsaði alveg um þá.
Áður en grænfóðrið var tilbúið var hægt að bjargast á rabbarbara eða hundasúrum og kerfillinn á ruslahaugnum var ágætis bragðbætir, en ekki gott að éta mikið af honum. Síðsumars var umfeðmingurinn góður, blómin bláu voru sæt og góð. Rifsrunnana varð að verja svo við værum ekki búin að klára berin löngu áður en nokkur litur kom á þau.
Á veturna var allt í lagi að japla á töðunni í hlöðunni í Hvammi. Bragðið var gott af safanum sem úr henni kom, en mig minnir að tuggunni hafi yfirleitt verið spýtt þegar hún var orðin bragðlaus. Ég komst aldrei uppá lag með að jórtra eins og kýrnar og kindurnar. Hafrarnir voru aftur á móti étnir óðurrkaðir og þeir voru góðir.
Svo voru þeir settir í súrhey ef ekki var beitt á þá strax. Súrheyið fannst mér aldrei gott. En á veturna var beljunum gefið mél, á meðan var verið að mjólka úðuðu þær í sig þessu góðgæti og þá var stundum síldarmél, það var lostæti. Að taka fulla lúku úr pokanum og troða uppí sig, ég man enn að innsogið var stundum svo mikið að nefið fylltist og allt lenti í fári. Ég held að enginn hafi amast við þessu síldarmélsáti, það var nóg til.
Hænsnakornið var hægt að bryðja í neyð, en hænsnamatinn sem hrærður var daglega langaði mig aldrei í, samt var hann búinn til úr mannamat. Afganginum af hafragrautnum, köldum kartöflum og allskonar afgöngum öðrum var hrært saman handa hænunum. Þær voru sólgnar í þetta, en ég var aldrei svo svöng að ég hnuplaði frá þeim.
Á þeim árum voru engir kornakrar í sveitinni, en ég efast ekki um að þar hefðum við fundið góða og holla næringu. Kannski ég smakki á því í næstu ferð?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2009 | 21:06
Motorcross
Af hverju er ekki orð um þessa íþrótt í íþróttafréttum helgarinnar á mbl.is?
Og útvarpið ætlar að vera svo vinsamlegt að sýna frá móti helgarinnar á þriðjudaskvöldið kl. 24.00. Þá verð ég löngu sofnuð og flestir krakkarnir sem verða þar sýndir í keppni ættu auðvitað að vera sofnaðir líka af því þau verða þá byrjuð í skólanum. En væntanlega láta þau sig nú hafa það að hengja haus í fyrstu tímunum frekar en að sleppa því að horfa.
Mér finnst þessari íþrótt engin virðing sýnd. Og ég er að nöldra yfir því af því hann Hákon Andrason fyrrum bekkjarfélagi minn vann keppni helgarinnar í sínum flokki og varð svo annar í samanlögðu úr keppnum sumarsins.
Til hamingju Hákon, gott hjá þér. En þetta finnst þessum íþróttanördum ekkert merkilegt. Ég meira að segja stal mynd af síðu einhvers rallýcrossklúbbs til að sýna ykkur Hákon í öðru sæti í svona dæmalaust fínni lopapeysu.( fyrirgefðu myndasmiður)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2009 | 18:08
Til hamingju Örn
Gaman að geta sagt öllum að maður þekki svona frábæran strák.
Og til hamingju allir sem að honum standa. kv.
Örn Norðurlandameistari í spjótkasti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2009 | 21:52
Í Mýrinni
Við höfum heilmikið verið í Mýrinni í sumar, enda margt sem þar er hægt að gera. Við förum oft snemma dags og erum þar allan daginn, en gistum ekkert alltaf.
Þarna þarf á hverju ári að hreinsa til í gömlum limgerðum, skógarhöggsmenn taka þá til hendinni svo um munar.
Í anda nútímans, nýtninnar og tregafullra hugsana um það sem einu sinni var, grófum við upp gamla tjaldið í bílskúrnum. Það var þegar við áttum eiginlega ekkert nema skuldir, hálfbyggt hús, lélegan bíl og appelsínugult tjald frá Tjaldborg á Hellu. Það hafði ekki verið notað í nærri tuttugu ár, en var nú alveg stíheilt og varð eftirsóttur gististaður unglinga í Mýrinni.
Áður en farið var að sofa - í tjaldinu - var dansaður færeyskur dans undir kröftugum karlakórssöng. Karlakór Selfoss er nefnilega búinn að gefa út lög sem konurnar þeirra geta dansað við á konsertum.
Það var slegið og reytt í kringum sparitrén, sem eru nú reyndar útum allt þarna og svo mörg að ég gæti með engu móti sagt hvað tegundirnar eru margar.
En þessa þjónustu launa þau með fínum vexti, en heldur var lítil blómgun þar sem hennar var von þetta árið, eitthvað hefur líklega gerst þarna í veðurfarinu síðasta haust segja mér þeir sem vitið hafa.
Júlía er dugleg að fara í heimsóknir til þeirra sem eru í Mýrinni hverju sinni. Oft kemur hún til ömmu og afa í Gamlagarð og í sumar oftast frekar fáklædd. Svo fer hún heim í Leynigarð þegar hún er orðin leið á okkur.
Ég fann þarna í sumar nýja tegund af einhverskonar lirfu, sem ég lét greina og er nú búin að fá að vita að heitir Skógbursti.(Myndinni hnuplaði ég af netinu, fyrirgefðu ljósmyndari) Fiðrildalirfa sem hefur unað sér við lúpínuát í Skaftafelli en er að færa sig uppá skaftið og dreifast um landið.
En ég fann líka annað sem var skemmtilegra. Pínulítið hreiður á gömlum dauðum asparstofni. Líklega eru þetta auðnutittlingar, þó ég viti það svosem ekki fyrir víst. Skemmtileg viðbót í fuglalífinu þarna. Fyrr höfum við aðallega fundið hreiður þrasta og ýmissa mófugla. Rjúpa hefur svo verið þarna flest árin, endur - og líka einu sinni gæs.
Já það er aldeilis líflegt í Mýrinni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2009 | 21:53
Sjitt Helga, fokking tan!
Væri ég ekki þaulvön samskiptum við unglinga og sé nokkuð vel kunnug málfari þeirra, hefði mér líklega brugðið við þetta ávarp. En aðdáunartónninn leyndi sér ekki og öfundin í augunum á 16 ára stráknum sem ég rakst á einn daginn. Og vissulega er þessi lýsing ekki fjarri lagi. Og hvernig á annað að vera? Dýrðarsumar með sólskinsdögum og hlýindum gerir ekkert annað en "tana" þá sem vilja þiggja.
Nú fer að koma að skýrslugerð, ferðasögum og afrekalista sumarsins. Það hefur eitt og annað drifið á dagana.
Einn föstudag í sólskini, logni og hita fórum við stöllur tvær í gönguferð. Við erum að reyna að venja okkur á að fara svona eina stutta gönguferð á sumri, bara við. Kannski er þetta svona "trúnóferð", en ég er viss um að þær eru nauðsynlegar að minnsta kosti árlega. Við gefum okkur þann tíma sem við þurfum, höfum með nesti og skoðum allt þetta smáa í náttúrunni. Þar er sko miklu meira að sjá en flesta grunar. Í þetta sinn gengum við niður með Hvítá, frá Merkurlaut að Ölvesholti. Við sáum blóm og fugla, gjótur og steina, kindur og kindagötur. Stífluna við inntak Flóaáveitunnar, heyskapinn á Brúnastöðum, gamlar tóftir og svo margt fleira. Á myndunum sem við tókum sést meira að segja eitt og annað óskiljanlegt, yfirnáttúrulegt? Hér eru fáeinar myndir, en ekki af því.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2009 | 15:11
Plííís Kári - ekki eyða þessu í útlöndum -
-- komdu með krónurnar heim - við þurfum svo sárlega á þeim að halda. Öllum.
Ó! Ég var nærri búin að gleyma - til hamingju.
Kári fær norræn verðlaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar