19.10.2006 | 21:07
Spræk á fimmtudögum
Fimmtudagar eru góðir dagar. Það byrjaði reyndar í morgun eins og aðra daga á því að ég labbaði í vinnuna og nú er orðið svo kalt að ég fer í kuldabuxurnar. Það bítur svo skrambi mikið í lærin í gallabuxunum. Í fyrstu tveim tímum erum við í leikfimi og í dag eftir upphitun fengum við að fara í badminton ( það heitir hnit á íslensku). Þegar búið var að setja upp netið og para saman kom í ljós að einn var stakur. Svo að kennarinn gæti einbeitt sér að leiðsögn og dómgæslu spurði hann mig hvort ég vildi vera með og auðvitað vildi ég það. Einu sinni æfði ég þessa íþrótt með fullorðnum og hef alltaf gaman af að vera með. Þagar fimm mínútur voru eftir af tímanum spurði kennarinn hvort ég væri að gefast upp en það var nú aldeilis ekki, heldur færðist ég í aukana eftir þaví sem á leið. þetta eru tvær kennslustundir saman, svo ég fékk þarna góða byrjun á deginum.
Eftir nestistímann voru svo tveir bóklegir tímar sem liðu í friði og spekt, en svo var einn tími í sundi og þá fer ég alltaf ofaní, eins gott að gera það bara eins og að hanga á bakkanum. Eftir dágott sund fengum við svo að hvíla í pottinum. það er alveg einkennilegt með þessa stráka, það er fullt af pottum, en þeir elta mig alltaf eins og lömb í þann pott sem ég vel. Jafnvel þó hann sé svo heitur að þeirra litla kjöt verði gegnum soðið á engri stund. Ég er með svo mikið kjöt að ég þoli meira og hef reynt að segja þeim það og að þeir ættu frekar að fara eitthvað annað, en það er árangurslaust, þeir vilja vera hjá mér. Og mér finnst það nú reyndar bara gott, ætli ég verði ekki að fórna mér í kaldari pott til að koma í veg fyrir að þeir sjóði til skaða. Eftir hádegi er svo einn danstími, sem ég missti nú reyndar af að hluta vegna ófyrirséðra atvika. En við enduðum svo daginn í einum stofutíma og þar urðu mikil afköst á stuttum tíma.
Svona var nú þessi dagur í skólanum.
Mér finnst aulalegt að heyra fjölmiðlafólk tala um "kvali". Þá meina þau hvali sem við Hrunamenn lærðum að bera fram með allt öðrum hætti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.10.2006 | 21:49
Bandaríski herinn tekur við vörnum landsins
Enn kemur ágrip: --- Á þessum árum var ekki sjálfgefið að fólk yrði eldgamalt á Íslandi. Allir lífshættir og aðbúnaður gerðu það að ævi manna varð í mörgum tilfellum styttri en nú þekkist.
Nú þurfti amma ekki lengur að bíta á jaxlinn og berjast áfram hvort sem fært var eða ekki. Þegar hún var komin yfir fimmtugt fór að bera á versnandi heilsu. Hún hafði lagt of hart að sér, en það var bara eina leiðin til að komast af. Hún hafði lifað lengri og átakameiri ævi en margir sem eldri urðu að árum, leiðin hafði verið löng frá Seljalandi við Ísafjarðardjúp á Laugaveginn í Reykjavík.
Hún dó 52 ára gömul, 23.7.1941. Í sama mánuði tók bandaríski herinn við vörnum landsins af Bretunum, Tóbakseinkasala ríisins hóf framleiðslu á neftóbaki af illri nauðsyn samgönguleysis. Stríðið var í algleymingi. Börnin hennar ömmu áttu nú hvorki föður eða móður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.10.2006 | 22:23
Minkaveiðar
Ég lék mér aldrei með Barbí, Það var ekki búið að finna hana upp þegar ég var barn. Eignlega man ég ekki eftir að ég léki mér með neitt dót. Auðvitað átti ég eitthvað smávegis af dúkkum og litabókum en var heldu lítið gefin fyrir slíkt.
Ég vildi vera úti, og það sem ég man best eru sumarkvöld á minkaveiðum. Við krakkarnir á nágrannabæjunum voru iðin við að fara í gönguferðir upp með á, og jafnvel vaðandi í ánni og þá fylgdi okkur alltaf hundur. Hann Snati sem var svo einstaklega næmur á lyktina af minknum. Aldrei vorum við vopnuð í þessum ferðum en Snati fann minkinn, elti hann uppi og beit og hristi svo við áttum auðvelt með eftirleikinn. Tókum í skottið og slógum kvikindinu við stein svo það dauðrotaðist. Við fórum svo heim með fenginn og skottið var tekið af áður en dýrið var jarðsungið með viðhöfn. Við fengum peninga fyrir skottin og það bara nokkuð góðar upphæðir stundum. Að vísu þurftum við að labba dagleið til hreppstjórans eftir þessum aurum, en töldum það ekki eftir okkur.
Einu sinni vorum við tvær stelpur með Snata á gönguferð og hann fann minkabæli í moldarbarði. Hann byrjaði að grafa og var nokkuð lengi að, en þar kom ekki út neinn minkur. Eftir dágóða stund fórum við að sjá árangur af erfiði hans og upp kom hrúga af stráum og öðru rusli. Við skoðuðum þetta nánar og fundum þar átta unga dauða, greinilega nýgotna,pínulitla, hárlausa og frekar ógeðslega. Mamman hafði greinilega verið drepin frá þeim. Greip nú um sig mikil gróða fíkn. Átta skott, þó stutt væru, gætu orðið okkur góður peningur. En ekki langaði okkur að fara heim með hræin, svo við fórum að svipast um efir einhverju áhaldi til að ná skottunum af. Á endanum fundum við brot af gömlum girðingarstaur og reyndum að merja stubbana af með því, en þessi litlu kvikindi voru orðin svo langlegin og morkin að það gekk ekki upp. Við fórum heim skottlausar og enn í dag verður mér hugsað með söknuði til þessara töpuðu auðæfa. Við vorum ekki nema 10 - 12 ára og á þeim aldri munar um hverja krónu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.10.2006 | 20:52
Karlmannslaus í kulda og trekki!
Ég veit vel að þetta er ekki rétt, en svona er nú ástandið hér núna. Það er kuldi og trekkur úti og ég er ein heima af því að söngæfingarnar eru byrjaðar. Mér finnst það nú út af fyrir sig allt í lagi, ágætt að vera heima og horfa á Sörvævorið í rólegheitum. En það er heldur kuldalegt úti, ég fór áðan á bakvið hús og ætlaði að senda hlýjar kveðjur með tunglinu til Guatemala, en þar var þá ekkert tungl. Þar í landi er nefnilega lítil stúlka sem leiðist stundum og þá hef ég sagt henni að horfa á tunglið og þá megi hún vera viss um að það færi henni góða strauma að heiman. Heimurinn er svo ósköp lítill að okkur dugir öllum þetta eina tungl.
Nú eru allar horfur á að ég fari í skólaferðalag í vor - til útlanda. Það sem mér finnst skemmtilegast við ferðaundirbúning af því tagi er þegar kemur að því að velja sér herbergisfélaga. Hvað getum við verið margar saman og hvernig verður svo samkomulagið? Þetta er afskaplega spennandi og sambúðin í svona ferðum er, þegar vel tekst til, svolítið lík því sem var á heimavistinni í skólunum í gamladaga. Ég var í þremur ólíkum heimavistarskólum og það fannst mér gaman. Í þann fjórða þurfti ég að ganga, að heiman og heim daglega,en það kom fyrir á aftakaveðrum og stórflóðum að ég fékk að gista þar líka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.10.2006 | 15:11
Fullur skápur af dýrum bókum
--- Þó ég sæi aldrei hann afa minn var hann þó alltaf til heima hjá okkur. Á máðri brúnleitri mynd, grannleitur með yfirskegg. Og fullur skápur af dýrum bókum sem ég hafði þá ekkert vit til að meta. Þúsund og ein nótt, fræðarit, sögur og ljóðabækur skálda þessa tíma. Listaverkabækur sem við systkinin skoðuðum í tætlur á dimmum vetrarkvöldum. Og ljóðin hans Jónasar "frænda". Þetta kom allt frá Hallgrími afa. --
Á þessum árum áttu ómenntaðar konur líklega ekki margra kosta völ til vinnu. Vinnukonur hjá þeim sem höfðu efni á að halda slíkar, líklega heldur önugt fyrir einstæða sex barna móður. Þvottakonur hjá betri borgurum, trúlega stopult og flækingur úr einum stað í annan. Örugglega illa borgað eins og þjónustustörf á veitingahúsum.
Svo voru fiskverkakonur, erfiðisvinna og kuldaleg, aðallega við saltfiskvinnslu utanhúss. Salta, vaska, breiða, stafla - breiða aftur. Þessa vinnu valdi amma, líkamlegt erfiði, á köflum karlmannsvinna, en kannski sæmilega borgað?
Það var ekki allt einfalt á þessum árum, nútímatækni var ekki einu sinni til í draumum. Hitaveitustokkurinn var ekki lagður af stað úr Mosfellssveitinni, heita vatnið var bara í hverum og laugum. Rafmagn var alger nýlunda og ekki á færi allra að nýta það. Þvotturinn var dreginn á vagni inn í Laugar, dregið af þeim sterkari og svo ýttu börnin. Göturnar voru malarvegir með pollum eða svelli. Kolakraninn við höfnina, þegar hann kom, var líklega stórvirkasta tækið í Reykjavík, ef ekki Íslandi öllu. Kolin voru notuð til að kynda húsin og elda matinn.
Svo liðu árin og snerust að mestu um að komast af, og ömmu gekk alveg bærilega að bjarga sér. Hún gat jafnvel látið aðeins eftir sér þegar tækifæri gáfust.
Hún hafði gaman af hestum og fór stundum í útreiðar um nágrenni bæjarins með kunningjum sínum. Hestana þurfti hún þó að fá lánaða. Einu sinni kom hún til ömmu og afa að Engi í hópi hestamanna og það var hún sem gekk þar til bæjar og spurði til vegar. Hún var ófeimin og ákveðin - kvenskörungur mætti líklega segja ---
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.10.2006 | 14:38
Þegar Jésús kastaði syndunum á bakvið sig
--- Þá var það sem þau fluttu á Baldursgötuna. Í stóra húsið á horni Baldursgötu og Óðinsgötu og nefndu Garð. Þar voru systkinin þrjú skírð í einni athöfn og sögðu sjálf hvað þau skyldu heita. Þarna bjó svo þessi fjölskylda næstu ár og hafði það harla gott. Amma var frú sem hafði vinnukonur og afi sinnti sínum viðskiptum og störfum. Systkinin áttu líklega sínar bestu minningar frá árunum á Baldursgötunni.
Á þessum árum var K.F.U.K. og séra Friðrik það sem mest heillaði unga drengi í Reykjavík. Árunum sem " Jésús kastaði syndunum öllum á bakvið sig". Sunnudagaskólinn, þar sem sungið var"Áfram kristsmenn krossmenn", mikið klappað og Jésúmyndum safnað. Allt þetta var pabba gleðileg minning. Fótbolti á góðviðrisdögum á túnum og melum í útjaðri bæjarins, sem var þá ekki byggður lengra en á brekkurnar í kringum kvosina og inn að Tungu við Suðurlandsbrautina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2006 | 22:19
Mosavaxinn legsteinn
Enn kemur ágrip:
------------Valgerður langamma dó á Þingeyri 16. maí 1927, þá orðin 79 ára gömul. Hvort hún hefði þá óskað þess að fara heim að Völlum í suðvesturhornið hjá langafa veit ég ekki, en vafalaust hefði það orðið erfitt við að eiga á þessum tíma.
-------hún er jörðuð í gamla hluta kirkjuarðsins á Þingeyri, þar fann ég steininn hennar stóra, mosavaxinn í dimmum skugga aldraðra reynitrjáa. "Valgerður Jónsdóttir prestsfrú frá Völlum"---------
----Nítján hundruð og fjórtán, þegar Guðrún amma var 25 ára giftist hún Sigurði Magnússyni sjómanni í Reykjavík. Hann var þá ekki nema 21 árs, fjórum árum yngri en hún. Þau eignuðust sitt fyrsta barn Jóhann Kristján Hlíndal 20.6.1914 svo ekki er ótrúlegt að þessi hjúskapur hafi orðið fyrir slysni------
----Á þessum tíma var það áreiðanlega ekkert smá mál að skilja og útilokað að ímynda sér þær aðstæður sem urðu þess valdandi. Heldur get ég ekki séð fyrir mér hvernig þau rákust saman fátæka einstæðingsstúlkan að vestan og prestssonurinn að norðan, sem var orðinn kaupmaður og betri borgari í Reykjavík. Hann var á þessum tíma ekki bara kaupmaður í Voninni, heldur veitingamaður líka, rak veitingastað í Austurstræti þar sem seinna varð Hressó. Hugsum okkur að þau hafi fundið hvort annað þar og skilið svo uppúr því. Þau hljóta bara að hafa orðið ástfangin----
---Afi var heldur ölkær og ferðaðist um bæinn á sunnudögum með kunningjunum. Þeir tóku þá bíl á leigu - og afi borgaði. Hann var gestrisinn og veitandi sem gæti hafa verið misnotað af einhverjum. Hann var ekkert að lúra á því að hann væri betur settur en margir aðrir. Hann lét breyta föðurnafni sínu Hallgrímsson í ættarnafnið Hallgríms. Það var á þessum tíma fínt og hefur líklega verið borgað fyrir með peningum. Þá varð konan hans S.Guðrún E. Hallgríms og börnin voru eftir það skrifuð Hallgríms, þau voru fínt fólk ---
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.10.2006 | 18:33
Í faðmlögum við ókunnugan mann!
Ég fer oft í sund á sunnudögum, syndi meira að segja oftast og fer svo í slúðrið í pottinum. Fyrir hálfum mánuði var þetta með líku móti og venjulega, veðrið var alveg einstaklega gott og fullt af góðu fólki í lauginni.
Ég fór svo uppúr á eðlilegan hátt, fór í sturtu og klæddi mig. Þegar ég kom út á tröppurnar sá ég þar á bekk fyrir utan karlamann sem talaði í síma. Um leið og ég gekk framhjá honum sá ég að þetta var maður sem ég þekkti, vinnufélagi fyrir löngu síðan. Hann hafði verið í lauginni en ég áttaði mig ekki á honum þar, enda fáklæddari þar en ég hafði vanist á árunum áður. Ég stoppaði og heilsaði, hann hætti símtalinu og tók undir, og hann varð óskaplega glaður að sjá mig. Hann býr ekki hér og hafði fáa hitt af fyrri vinnufélögum árum saman. Ég settist svo há honum þarna í blíðunni og við spjölluðum um hvað á daga hefði drifið hjá okkur og öðrum kunnugum.
Svo mátti ég ekki vera að þessu lengur og bjóst til að kveðja. Stóð upp og sagði bless. Hann stóð þá líka upp og spurði hvort hann mætti faðma mig að skilnaði? Ég tók vel í það og svo tókumst við á þarna í haustblíðunni hjá sundlauginni. Í miðju faðmlagi sá ég þá vinkonu mína til margra ára koma gangandi, satt að segja var hún komin í algert návígi. Póstkona til margra ára, bókavörður og þekkir alla á Selfossi, ljósið mitt allrabesta, ( til hamingju). Hún vissi ekki hvert hún ætti að líta, þekkti mig auðvitað þar sem ég stóð í faðmlögum við aldeilis ókunnugan mann. Satt að segja varð hún þarna algerlega ráðvillt. Ég losaði tökin eins skyndilega og ég gat án þess að vera ókurteis, sagði aftur bless við kauða og tók til fótanna á eftir henni þar sem hún strunsaði framhjá með tvíræðum svip. Mér tókst að ná henni og dró hana með mér inní bíl, þar sem ég útskýrði uppákomuna fyrir henni sem best ég gat.
Hún átti afmæli fyrir stuttu og ég óska henni innilega til hamingju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.10.2006 | 16:58
Sundlaug í trjánum
Mig mátti svosem gruna að eitthvað myndi ske, þegar ég vaknaði síðla nætur við feiknarlegt rok. Hér er það ekki síst þyturinn í trjánum sem maður heyrir í svona veðri, "laufvinda" kallaði einhver haustvindana, en þetta var nú heldur öflugra. Þegar ég kom fram og leit út um eldhúsgluggann sá ég vaðlaug nágrannadrengjanna hangandi í trjánum, laufið hafði sópast af greinunum og þyrlaðist um allt.
Seinna, þegar ég kom út, var laugin lögð af stað útá róló og tók ég til fótanna á eftir henni. Náði henni fljótlega og dró með mér inná blett þar sem ég skellti hjólbörunum ofaní hana svo ekki færi aftur á flakk. Innkeyrslan er þakin rauðum berjum af trjánum, en samt er það þannig að þó að laufið hafi fokið virðast berin tolla betur. Stórir klasar hanga enn þó laufið sé fokið í burtu.
Þessi dagur var svo notaður til að tína saman blóm í pottum, af lóðinni og úr gróðurhúsinu. Klippa ofanaf og raða inní bílskúr, þar sem þau fá húsaskjól í vetur. Þessu fylgdi tiltekt í skúrnum og gróðuhúsinu, svo það má segja að rokið í nótt hafi gert góða hluti hér á bæ, það þarf eitthvað til að ýta við manni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2006 | 20:19
Drykkfelldur prestur í Svarfaðardal
Tómas langafi minn dó 54 ára gamall, en þá voru börnin á aldrinum 14 - 24 ára.
Þá hafði hann flutt að Völlum í Svarfaðardal og þjónaði þaðan fleiri kirkjum í Eyjafirði og út til Ólafsfjarðar, hvernig svo sem hann hefur ferðast um Múlann. Ekki er ólíklegt að hann hafi lent í hrakningum í messuferðum.
Hann eignaðist eina dóttur utan hjónabands, Guðrúnu, sem skrifuð var Gísladóttir og verið getur að hann hafi átt fleiri börn þó það yrði ekki opinbert. Kvensamur var hann og einstaklega myndarlegur, drykkfelldur og vantaði alla staðfestu. Hann hafði áberandi fallega söngrödd, var góður ræðumaður, gestrisinn og ljúfur útávið, en erfiður í sambúð.
Hann var jarðaður á Völlum og er leiðið hans í garðshorninu suðvestan við kirkjuna, afgirt og vel merkt. Nú kom nýr prestur að Völlum og þá varð Valgerður langamma að fara þaðan. Leiðin lá út í Skagafjörð, til Hofsóss.
Þó á þessum árum þætti fínt að vera prestur og prestsekkjur væru þá í tölu betri borgara var ekki þar með víst að allt léki í lyndi. Langamma hefur farið fátæk frá Völlum því enginn búmaður var hann Tómas og hélst illa á þeim krónum sem hann fékk fyrir prestsverkin. Hún var víst ekki mikil búkona heldur. Sennilegt er að einhver barnanna hafi verið komin á undan henni til Hofsóss og elstu dæturnar jafnvel giftar.
Hallgrímur afi minn gifti sig þetta sama ár, 24 ára gamall Hansínu Friðriku Hansdóttur----
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.8.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 17
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar