26.10.2006 | 21:44
Hvað er svona leyndardómsfullt í Parísarborg?
Er hægt að þekkja mann af því sem hann les?
Hver er ég sem les lífsbaráttusögur umkomulausra og minnimáttar? Dittu mannsbarn, Höllu og heiðarbýlið, Híbýli vindanna og Lífsins tré. Hver er sá sem vakir fram á nætur og sinnir varla öðrum þörfum af því hann fékk lánaðan allan pakkann af Ísfólkinu?
Og hver er ég sem hef ekki enn í dag vogað mér að biðja aldraða móður mína að lána mér svörtu þykku bækurnar tvær í efsta skápnum?
Forboðnar bókmenntir, gefnar út á fyrstu árum tuttugustu aldar: "LEYNDARDÓMAR PARÍSARBORGAR". Þær voru þar þegar ég var tólf ára og ég veit að þær eru þar enn. Bækur sem ég held að fjalli um fýsnir og hrylling undirheima stórborgarinnar. Eitthvað svo hroðalegt að tók útyfir allt velsæmi á sjötta áratug aldarinnar sem leið, hvað sem núna yrði um það sagt. Ég þori ekki enn að rjúfa þennan ógnarlega og hrollvekjandi dularhjúp sem umlykur efsta skápinn. Kannski yrði ég fyrir vonbrigðum - er það þess vegna sem ég held aftur af mér? Eins víst að rán, morð og nauðganir þess tíma hafi farið fram á hæverskari hátt en nú þykir hæfa.
Líklega best að ég láti þær eiga sig og baði mig áfram í þeim hríslandi hrolli sem fer um mig í hvert sinn sem ég renni augunum að skápnum. Þær eru þar enn.
Úr þessu er líklega ekki vert að angra mömmu með því að opinbera fyrir henni þessa nærri því ævilöngu þráhyggju dótturinnar um svörtu þykku bækurnar tvær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.10.2006 | 17:07
Var músin full eða hífuð?
Umræðan um samræmt próf í 4. bekk hefur vakið mig til umhugsunar um þær bókmenntir sem börnum hafa verið ætlaðar í gegnum árin. Á miðri síðustu öld var til fullt af bókum sem enginn þurfti að skammast sín fyrir að lesa, sígildar og hollar barnabókmenntir.
Dísa ljósálfur, Bláskjár, Grimms ævintýri og fjöldamargar aðrar, svo mikið lesnar bækur að stórsá á þeim, slitnar og þvældar en stóðu fyllilega fyrir sínu. Og nú er Dísa aftur komin á kreik ömmum og öfum til óblandinnar ánægju.
En nú bregður svo við að ég sé Dísu ljósálf í dulítið öðru ljósi en áður. Þegar ég hugsa útí það þá hef ég líklega við lestur þeirrar bókar í bernsku fengið svalað þeirri þörf sem ég hef síðar fundið fyrir öðru hvoru, þörf fyrir spennu hrylling og skelfingu. Hugsið ykkur bara! Hvað getur verið ógeðslegri athöfn en að klippa vængina af litlum ljósálfi? Þó maður hugsi sér bara að maðkafluga fái þessa meðferð er það nógu slæmt, en lítill ljósálfur sem engum hefur ógnað - það er alveg skelfilegt.
Svo kom Bláskjár og þar var nú aldeilis ekki skafið af ósköpunum. Barnsrán, drykkjuskapur, manndráp og dimmar dýflissur morandi af rottum.
Hans og Gréta: Heimilisofbeldi, útburður á stálpuðum krökkum, mannát og gamalmenni grillað í ofni.
Mjaðveig Mánadóttir: Útskúfað barn, drepið, saltað ofaní tunnu og étið af móður sinni.
Þessar lýsingar í barnabókunum góðu hafa augljóslega haft þvílík áhrif á mína ungu sál að þær eru enn á meðal minna skýrustu minninga.
Mér finnst alveg með ólíkindum að nokkrum skuli detta í hug að leggja fyrir nemendur fjórða bekkjar teksta um drykkjuskap músa. Hvað er að hjá þessu fólki?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.10.2006 | 19:49
Þegar ég lenti í lífsháska með ókunnugum manni
Það er ekki alltaf hættulaust að vinna í skóla. það fékk ég að reyna daginn sem ég fór að opna fyrir manninum sem kemur öðru hvoru að tékka á lyftunni. Eftir hádegi, allir komnir í tíma og ég var að leysa ritarann af. Hann kom og spurði hvort ég hefði lykil að lyftunni? Jú það hafði ég og taldi bara best að ég kæmi með honum niður til að opna fleiri dyr. Hvers vegna datt mér ekki í hug að bjóða honum kippuna að láni? Hvort sem það var gleði vegna nálægðar þessa ókunnuga karlmanns, eða af ósjálfráðri hjálpsemi, þá skildi ég við stöðu mína innan glers og fór með þessum svarthærða manni að lyftunni.
Ég opnaði með lykli, við stigum um borð og hann ýtti á hnappinn núll. Hann var með gleraugu og þar undir brún, eða eiginlega svört augu. Ekki benti það til norræns uppruna, hvaðan skyldi hann vera skroppinn þessi maður?
Það er ekki margt hægt að segja á stuttri leið lyftunnar niður í kjallara, þó einkennilega lengi sé hún að þokast síðustu sentimetrana. Þegar niður kom ýtti ferðafélagi minn á hurðina - eitthvað stóð á sér og hann ýtti aftur - fastar - og af öllum kröftum, hurðin haggaðist ekki. Þá ýtti hann á efsta hnappinn, við förum bara aftur upp - en ekkert hreyfðist. Við vorum föst í lyftunni!
ÉG fann að ég hvítnaði- og svitnaði um leið, enginn vissi af okkur þarna, hvað endist súrefnið lengi?
Innilokun er það versta sem ég veit, það flaug í hugann að ég gæti fengið æðiskast. Ég varð máttlaus í hnjánum og mér varð flökurt. Átti ég að hníga niður í einu horninu - eða í fangið á manninum? Ég vissi ekki einu sinni hvað hann hét.
Ég hef séð svona atriði í bíó, en það sem gerist í bíómyndum er allt leikið. Það getur ekki komið fyrir mig. Hann ýtti á takkana til skiptis en ekkert gerðist, enginn þeirra virkaði. hann ýtti á neyðarhnappinn, við heyrðum í bjöllunni en það heyrði enginn annar - það var enginn í húsinu.Hann tók upp gemsa, ég gleymdi að segja honum að þeir væru bannaðir í skólanum, en það breytti engu, við vorum á dauðum punkti sagði hann, síminn virkaði ekki. Ekki strax.
Svo kom í ljós að honum leið ekkert betur en mér og hafði þess vegna gleymt að kveikja á símanum.
Hann spurði mig hvaða númer hann ætti að velja? 1266 sagði ég - það var á tali.
Guði sé lof, hugsaði ég seinna, ætli þeim hefði ekki þótt skondið í Fossnesti að fá fá neyðarkall úr lyftu í skólanum.
Hann bað um annað númer, en ég kunni engin önnur - heilinn var tómur. Nú fann ég þó að fyrstu skelfingaráhrifin voru að hverfa, hnjáliðirnir skulfu ekki lengur og það var ekki að líða yfir mig. Líklega myndi ég sleppa við að gubba - hann var jú lyftuviðgerðarmaður. Ég ýtti á neyðarhnappinn fast og lengi, oftast var nú einhver á rápi á ganginum- en það heyrði það enginn.
Svo dró hann upp hníf - að vísu bara venjulega vasahníf. "Hann hefur örugglega líka séð svona myndir í bíó" hugsaði ég. Hvað ætlar hann að gera við hnífinn?
Ekki var þó vopnið ætlað mér, heldur hurðinni, hann réðist á hurðina með vasahnífnum. Hann var fljótur að missa vitið þessi maður - svellþykk stálhurð sem lét ekki undan neinu - með smákuta! Svo stakk hann hnífnum í falsið á milli stafs og hurðar - og opnaði. Vissi hann alltaf að þetta væri hægt? Var hann bara að reyna mig? Sá hann að ég var öll að koma til og engin von lengur um að ég félli í fangið á honum?
Ég veit ekki enn hvað lyftumaðurinn heitir en ég veit hvaðan hann er. Vestan af fjörðum, þar sem blóðheitum spönskum og frönskum sjómönnum skolaði að landi fyrr á árum. Þeir voru líka með svört augu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.10.2006 | 22:27
Ég er ótrúlega heppin kona
Á mánudögum heyrir maður fólk stundum kveina og kvarta yfir því að öll vikan sé núna framundan í vinnunni. Ótrúlega erfitt að fara á fætur og allt ómögulegt.
Það er alveg rétt að nú eru heilir fimm dagar fram að næstu helgi, en þeir líða með þvílíkum undrahraða að maður tekur bara eftir mánudegi og föstudegi. Reyndar kemst ég ekki hjá því að rekast á fimmtudaginn líka af því hann er langskemmtilegastur í minni vinnu. En lánið mitt er að mér finnst alltaf gaman í vinnunni. Ég hlakka til að sofna á kvöldin af því að þá er tíminn svo fljótur að líða - og ég get farið í vinnuna rétt bráðum!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2006 | 20:52
Innbú fyrir milljónir
Það er eitt af því sem ég hugsa um. Einu sinni var mér reyndar sagt að ég "hugsaði of mikið", ætti helst að reyna að hætta því. Kannski voru það mín mestu mistök að fara ekki eftir þeim fyrirmælum?
En ég er alla vega ekki hætt, og það sem ég er núna að hugsa er hvað það kostar ungt nútíma fólk að flytja inní húsið flotta sem er nýbúið að byggja. Ég held að þarfirnar séu stundum meiri en góðu hófi gegnir og ég tala nú ekki um fjárhagslega getu. Þegar við fluttum hér inn var perket ekki til umræðu. Teppi hefðu sennilega verið flottasta lausnin, en fyrir þeim voru bara ekki til peningar. Þá var gólfið annað hvort málað eða skellt á það pappadúk sem var svo látinn duga þangað til hann var orðinn götóttur í gegn. Þá var teppið loksins keypt. Innihurðir voru hreint engin nauðsyn, oftast þó sett ein fyrir klósettið. Hinar komu svo eftir efnum og ástæðum. Eldhúsinnréttingin var "bráðabirgða" og dugði gjarnan í nokkur ár, og eldavélin keypt notuð. Hún dugði svo lengi sem þurfti, eða þangað til það stóra stökk var tekið að fá alvöru innréttingu með eldavél og ofni.
Baðherbergð var yfirleitt að mestu tilbúið, allavega voru þar þau tæki sem þurfti, klósett, baðkar og vaskur. Ekki eins nauið með flísar og annað álíka pjatt.Gluggatjöld voru heldur ekki endilega fyrir öllum gluggum. Reyndar var ég í tvo mánuði í síld á Mjóafirði í okt. nóv að vinna fyrir stofugardínum, sem voru svo hengdar upp fyrir jólin. Það var nokkuð gott. Þrír mánuðir liðnir frá innflutningi, sem fór reyndar fram á meðan ég var fyrir austan. Oft var látið bíða að þilja og ljúka einu eða tveimur herbergjum, börnin ekki stærri en svo að þau gátu verið inni hjá foreldrunum tvö eða þrjú.
Eitt var þó til á flestum heimilum þó þar væri annars ekkert fyrir utan brýnustu þarfir. Sjónvarpið var á sínum stað - svarthvítt og var opnað öll kvöld nema fimmtudagur væri og svo fékk það líka frí einn mánuð á sumrin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.10.2006 | 20:12
Var þetta líknardráp?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.10.2006 | 18:24
Getur einhver sagt mér?
Hvernig allt þetta fólk verður til? Á leiðinni heim úr IKEA í gær ókum við um hverfi sem ég hef ekki séð fyrr, enda hafa þau ekki verið lengi til, eru reyndar í byggingu. Varla veit ég hvað þau heita heldur, en þau eru á þeirri leið sem einu sinni var kölluð "Flóttamannaleið", líklega vegna þess að þar höfðu Reykvíkingar von um að geta komist til sveita ef að þeim steðjaði ógn í höfuðstaðnum. Þarna var áður friðsæl sveit og gaman að fara þar um á góðum sumardegi á leið til ættingja suður með sjó. Líklega eru nöfn þarna eins og Kórar, Salir og svo Norðlingaholt. Þarna er nú verið að byggja þvílík býsn af húsum. Heljarstórar blokkir, minni blokkir, raðhús í kassastíl og svo eitthvað aðeins minna inná milli. En allar finnst mér þessar byggingar frekar ljótar. Það virðist loða við þennan stórbyggingabransa síðan Grafarholtið var byggt, en það hverfi finnst mér forljótt.
Það er víðar byggt en þarna, til dæmis hér á Selfossi spretta nú upp kynstrin öll af svona ljótum blokkum. Það sem ég er samt mest að pæla er: Hvar í ósköpunum er fólkið sem á að búa í öllum þessum ljótu blokkum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2006 | 23:44
Langur laugardagur
Í heiðskíru veðri og nokkuð köldu ókum við til Reykjavíkur í morgun. Strókarnir stóðu upp af Hellisheiðinni og rútur frá Orkuveitunni voru farnar að flytja forvitna hátíðargesti um slóðana sem nú eru eins og net um alla heiði. Það var saumadagur á Hraunteig og á meðan fór afinn í skoðunarferð um hverfið með stúlkurnar báðar, aðra í kerru en hina á fæti. Það sem helst þurfti að sýna honum var Sunnubúðin, svo skólinn og allt þar í kring svo var líka litið á pylsuvagninn. Það er margt hægt að sýna á teigunum og í Laugardalnum.
Svo lauk saumaskap uppúr hádeginu og þá fengum við Urði með okkur austur. Fyrst fórum við reyndar í IKEA búðina nýju til að kaupa barnastól. það er nauðsynlegt að eiga svoleiðis stól fyrir barnabörn í heimsóknum. Ekki ætlaði að ganga vel að komast í þessa búð, endalaus röð af bílum á einni akrein lengst af leiðinni. Og þegar á staðinn kom virtust öll bílastæði full, ég held þau séu 1000 eða meira. En þarna voru bílastæðaverðir sem vísuðu leið að auðum stæðum og það tókst svo vel að heita mátti að við parkeruðum við húsvegg. Við komumst svo inn og fórum á frekar stuttum tíma í gegnum báðar hæðir og fundum meira að segja stólinn og borguðum hann og allt. Ég viðurkenni alveg að við fórum fram úr nokkrum á þessari leið en alls ekki með neinni frekju, fórum bara aðeins frjálslega með umferðarreglur. Alla vega tók þetta ekki nema hálftíma eða minna. Svo fórum við af stað austur og urðum til að byrja með að fylgja röð á hraða snigilsins, en komum okkur útúr henni við Vífilsstaði og fórum flóttamannaleiðina.
Á sléttunni á milli Hveradala og Kolviðarhóls stóð nú sem hæst vígsluhátið Orkuveitunnar, þar voru fleiri hundruð manns að skála fyrir húskumböldum og röraflækjum sem nú eru um alla heiði. Í tilefni þessara hátíðarhalda þótti engum ástæða til að mótmæla neinu. Einkennilegur tvískinnungur veldur því að maður hefur enga samúð með mótmælafólki yfirleitt, og finnst heldur lítið til þess koma. Þarna var fullt af bílum, líklega skálað í eplasafa?
Á leiðinni yfir heiðina fóru fram úr okkur fjórir ökuníðingar, ég náði númerunum og birti þau síðar. Þeir sýndu sinn dólgshátt með ýmsu móti, svínuðu fyrir bíla og fóru yfir óbrotnar línur - tvöfaldar - og fleira þesslegt. Ég útskýri það seinna . Ég gæti trúað að við hjónin munum á næstunni eyða nokkru af helgunum við njósnir á heiðinni. Annað akur en hitt skrifar niður númer og lýsingar á brotum. það verður svo birt á opinberum vettvangi. Nokkur mótmæli?
Þegar heim kom fórum við beint í afmælisveislu Júlíu Katrínar og þangað kom svo seinna það sem eftir hafði orðið af fjölskyldunni á Hraunteig. Þar voru nú öll börnin okkar og barnabörnin, nú erum við ekki lengur hálf vængbrotin í svona veislum af því að ein fjölskyldan sé í Boston. Nú eru allir með og það er gott. Eftir veglega veislu fórum við svo heim og tókum Einars fjölskyldu með, þau stoppuðu aðeins en fóru svo í bæinn en skildu Urði eftir hún verður sótt á morgun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.10.2006 | 22:30
Barnamynd?
Ég var að koma úr bíó. Við fórum að sjá Mýrina í Selfossbíó kl. 20.00. Mér fannst heldur fátt í salnum, átti frekar von á að þar væri fullt hús. En ég er víst ekki sú sem hef mest vit á því hvaða myndir Sunnlendingar vilja sjá. En á þessari sýningu var einn gestur sem fékk alla mína athygli, lítið barn, varla ársgamalt var þar, sennilega með mömmu sinni og vinkonu hennar. Ég alla vega vona að þetta hafi ekki verið barnapíur útivinnandi móður.
Þetta litla síli var alveg til friðs lengst af, grenjaði smávegis tvisvar en ekki svo að til vandræða yrði. Kannski er þetta bara venjulegt í bíóhúsum, ég bara gamaldags og geri mér enga grein fyrir þörfum og kröfum ungbarna. En væri þá ekki nær að fara með þau 4 eða 6 bó? Annars var myndin fín og allt í lagi að mæla með henni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.10.2006 | 21:44
" Þrúgur reiðinnar"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.8.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 17
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar