Ekki lagast það

Gestir á krá í Kaupmannahöfn urðu fyrir skotárás. Einn drepinn á staðnum. Þar er hún Guðbjörg mín með Vigdísi í "skemmtiferð".  Ég vona þó að þær hafi ekki verið að dandalast á einhverjum innflyrjendabar, eða hafi jafnvel komið sér snemma í koju. Tveir togarar flotnir uppá sker í Hafnarfirði. Þar er Ívar hjá ömmu Báru og ætluðu í leikhús í dag.

Öllu ameríkuflugi snúið til Glasgow. Þar í einni vélinni er hún Binna og hefur nú verið í flugvél eða á flugvelli síðan á fimmtudag, með smá viðkomu í Seattle.  Ég veit ekki annað en aðrir fjölskyldumeðlimir séu á sínum stað. Sem betur fer fór enginn frá okkur á rjúpnaveiðar um helgina. Annars er veðrið ekki svo slæmt hér, bara venjulegt rok, sem þó magnast í hávaðarok í hryðjunum. Ég hef ekki séð neitt af aðskotahlutum í kringum húsið. Trambolín og sundlaugar nágrannanna hafa flogið eitthvað miklu lengra ef þau hafa farið af stað á annað borð.  En þetta er ekki sunnudagur til mikillar útivistar,, það er skítaveður.


Fjölskyldar á ferð í vitlausu veðri

Ástandið er ekki gott. Börnin mín og barnabörnin eru út um allar trissur í þessu fúla veðri. Einar var fyrir stuttu undir Hafnarfjalli með dætur sínar tvær. Binna er að sveima yfir Ameríku og á að lenda í Keflavík í fyrramálið á meðan stormurinn stendur sem hæst. Guðmundur er vonandi kominn yfir heiðna og heim til sín, það er ekki blankalogn í Svínahrauni núna. Hún nafna mín er að þjóna gestunum á Örkinni í kvöld. Það vill til að þar er nóg af rúmum ef ekki verður hundi út sigandi þegar störfum lýkur. Lárus slapp úr Reykjavík með Júlíu, en hann var hvass undir fjallinu. Hann skildi Ívar eftir í Hafnarfirði hjá ömmu Báru. Jóhanna og Dýrleif Nanna eru þær einu sem hafa haldið sig heima í dag - eða það vona ég. Og hún Guðbjörg einkadóttir mín er á tattústofu í Kaupmannahöfn með henni Vigdísi, hvernig sem það svo endar. Semsagt - familían er í algerri upplausn!

Landsmót hestamanna á Þingvöllum

Sumarið ´62 var landsmót hestamanna haldið á Þingvöllum. Þangað fór ég ríðandi með Jóa í Hvammi.  Fram Langholtsfjall, á vaði yfir Stóru- Laxá, yfir Iðubrú og svo Brúará við Spóastaði. Okkur fjölgaði á þessari leið, sveitungar, skeiðamenn og gnúpverjar slógust í hópinn, og svo tungnamenn líka.  Þegar við fórum vestur með Mosfellinu og að Apavatni vorum við orðin nokkuð mörg.  Frá Laugarvatni yfir Lyngdalsheiðina og komum síðla dags að Skógarhólum þar sem fjöldi var fyrir, bæði menn og hestar.

Emil í Gröf hafði flutt fyrir okkur tjöld og annan farangur og nú fékk ég fúsar hendur Bóa á Blesastöðum og Tryggva Sig, skólabróður míns frá Skógum, til að hjálpa mér að tjalda og koma mér fyrir. Þeir sváfu reyndar báðir hjá mér í tjaldinu um nóttina.

Við vorum ferðalúin og urðum engra veðra vör fyrr en við vöknuðum næsta dag í stórum polli eftir rigningarnótt. Eftir það var veðrið gott.

Á sunnudeginum var hópreið hestamanna og ég hafði gert ráð fyrir að ríða Skjóna mínum í hópi Smárafélaga, en einhverjir höfðu aðrar hugmyndir.

Mér var sagt að ég ætti að sitja Gust og vera fremst í hópnum á milli Jóa í Efra- Langholti og Ingvars á Reykjum. Þeir áttu báðir stóra rauða hesta svo þessir þrír voru ákaflega líkir, enda samfeðra. Ég var vel ánægð með þessa ráðstöfun og við Gustur bæði hin bröttustu þegar fylkingin hélt inn á völlinn með fleiri hundruð áhorfenda á báða vegu.


Þegar rotturnar dönsuðu

Það var ýmislegt sem við gerðum okkur til gamans á þessum árum. Það var haughús undir fjósinu í Hvammi  og þar gátum við setið fyrir utan og horft inn.

Við sátum þar oft á þúfunum tímunum saman og fylgdumst með rottunum.  Þær áttu þar heima í hundraða tali. Þær hlupu um haughúsið, hoppuðu og stóðu á afturlöppunum. Við sáum ekki betur en þær dönsuðu þarna um allt. Okkur fannst þetta hin besta skemmtun og ekki fannst okkur þær vitund ógeðslegar. En fullorðna fólkið var ekki hrifið. Það var á endanum eitrað fyrir þeim og þá fundum við þær hingað og þangað í kringum fjósið, steindauðar. Ekki fannst okkur það ógeðslegt heldur og jarðsungum þær með viðhöfn.

Áður en lauk áttum við stóran rottukirkjugarð skreyttan krossum og blómum.  

 


Á kappreiðar í Tungunum

Eitt  síðsumarkvöld var það ákveðið á balli í Félagsheimilinu Hrunamanna að fara ríðandi á kappreiðar Tungnamanna við Hrísholt daginn eftir.   þetta varð hópferð ungs fólks úr þremur sveitum,  Hrunamenn, Skeiðamenn og Gnúpverjar, sem við kölluðum  þá alltaf Eystrihreppsmenn.

Snemma á sunnudegi stefndi fólk að úr öllum áttum, sameinaðist á leið upp hrepp og fór yfir brúna við Brúarhlöð. Þaðan lá svo leiðin að Hrísholti,  og þar vorum við allan daginn. Það var ekki þreyta eða heilsuleysi í okkur eftir ball í þá daga. 

Þegar kappreiðarnar voru búnar héldum við af stað heim í stórum hóp, örugglega 50 manns með 100 hesta, og nú fórum við niður Tungurnar.

Það lá ekkert á og þegar við komum að Laugarási var orðið dimmt. Þar á veginum varð fyrir okkur eitthvað sem nærri lokaði leiðinni, svo hægt gekk góða stund. Þegar ég kom að þessum farartálma sá ég að þetta var pabbi á jeppanum sínum. Hann hafði tekið aftursætið úr og látið þar inn stóra mjólkurbrúsann sem kvenfélagið hafði útbúið sem kaffibrúsa. Hann var nærri eingöngu notaður til að hella á og selja kaffi á Álfaskeiði.

( en Álfaskeið er kapítuli fyrir sig)

Pabbi hafði hellt uppá brúsann við hver í Laugarási og bauð nú kaffi og líklega útí það þeim sem vildu.  Hann pabbi minn var ekki mikill hestamaður, en hafði einstaklega gaman af að veita öðrum og gerði það vel. Hann vildi líka gjarnan fylgjast með mér, hvað sem ég gerði og hvar sem ég var.


Ágrip af ævi minni

Ég var víst ekki gömul þegar ég fór fyrst á hestbak, varla meira en eins árs hjá afa Hreiðari á Engi, látin uppá hest til myndatöku og man ekkert eftir því.

Svo um leið og ég gat setið sjálf fékk ég að sitja á Tanna, vagnhestinum í Hvammi. Hann var eingöngu notaður til dráttar, oftast fyrir vagn, og daglega var mjólkin flutt á þeim vagni upp að Grafarbakka.  Við vorum ekki alltaf stór eða sterk sem fluttum mjólkina, örugglega innan við tíu ára. Tanni rataði og á Grafarbakkahlaðinu var okkur hjálpað að setja brúsana upp á pallinn og þaðan á mjólkurbilinn. Svo voru tómu brúsarnir settir á vagninn, líka pöntunin frá kaupfélaginu, Mogginn og pósturinn. Þá gat Tanni snúið til baka með varninginn heim. Ef mikið var í ánni fannst okkur betra að sitja á baki, það gat flætt uppí vagninn, líklega vorum við þó ekki látin fara ein við þær aðstæður, en það var ofsalega spennandi.

Við notuðum Tanna reyndar fyrir reiðhest líka á þessum árum, hann fór aldrei hratt yfir og öllum var óhætt sem höfðu sæmilegt jafnvægi og gátu haldið sér í faxið.

Gamli Rauður var annar vagnhestur, og þessir tveir drógu sláttuvélina saman á sumrin. En Rauður var ekki eins barnvænn, gat átt það til að fara hraðar en til stóð.

Ég var líklega sjö eða átta ára þegar hann fór með mig í réttirnar við Túnsberg. Þá var Örn á Tanna og fór á viðeigandi hraða, en Rauður réði sinni ferð að mestu sjálfur og hljóp, allavega síðasta spölinn, á mikilli ferð og snarstansaði svo við réttarvegg.

Ég flaug framaf. 


Pólitískar vangaveltur

Það komu pólitíkusar í skólann í dag. Þeir komu á kaffistofuna en ég var þá farin í tíma. Sem betur fer. Ég forða mér alltaf langt í burtu þegar svona gestir koma, ekki af því þeir séu vondir við mig, síður en svo, mér bara finnst eitthvað svo aulalegt þegar fullorðið fólk er að bera út boðskap og dreifa um sig loforðum sem það ætti að vita að engin leið er að standa við.

Í hvert sinn sem líður að kosningum þarf ég að gera upp við mig á hvaða lista sé vænlegast að krossa, ef ég á þá bara nokkuð að krossa. Mér hefur semsagt aldrei tekist að ná fótfestu í ákveðnum flokki. Þó held ég, svona undir niðri að ég sé töluvert pólitísk, en bara ekki þannig að ég gæti unað því að vera alltaf sammála einhverjum ákveðnum. Ég verð að geta haft mína skoðun á einu málefni í dag, sem er þá kannski líka skoðun Vinstri grænna, en á morgun væri ég alveg til í að styðja gáfulega hugmynd sjálfstæðismanna. Reyndar finnst mér Geir góður, ég segi kannski ekki "hot", en oft nokkuð "kool".  Mér finnst enginn þeirra sem vilja "þjóna" okkur Sunnlendingum vitundarögn "kool", jafnvel ekki þó þeir séu af Suðurnesjunum. Bjarni H. er reyndar sér á báti, maður tekur þó eftir honum. Hvorki "kool" eða "hot" þó, en eitthvað er við hann sem ég hef gaman af. Mig vantar semsagt orð yfir hann - fæ ég hjálp?

Þegar ég var lítil ( svona 10 - 12 ára), hlustaði ég alltaf á eldhúsdagsumræður, enda ekki margra kosta völ á þeim tíma. Núna nenni ég því alls ekki. Nú er þó hægt, sem ekki var þá, að lækka í sjónvarpinu og skoða bara klæðaburð og almenna hegðun þeirra fáu þingmanna sem eru í salnum. Þeir eru þar bara svo sárafáir, nenna ekki frekar en ég að sitja undir masinu.

Það var líka ég sem vakti fram á nætur með pabba pg fylgdist með talningu atkvæða í kosningum. Mamma og strákarnir voru löngu sofnuð, en við héldum út svo lengi sem mögulegt var. Á þeim árum vorum við pabbi sjálfstæðismenn, en mig grunar að afgangurinn af fjölskyldunni hafi hneigst til framsóknar, alla vega höfðu þau engan áhuga á glæsilegri útkomu okkar á viðreisnartímanum.

Áður en þessi vetur er á enda verða víst margar heimsóknir á kaffistofuna, og það er nú eitt, maður verður orðinn hundleiður á þessu öllu löngu fyrir páska .


Vetrarfrí - var það frí?

Í fyrramálið má ég fara aftur í skólann eftir tvaggja daga vetrarfrí, föstudag og mánudag.

Ég notaði þessa daga vel. Fór í jarðarför á föstudag en hef svo verið heima að taka til í öllum skápum í húsinu. Ótrúlegt hvað þar var margt sem ég var búin að gleyma, það fór líka heilmikið á haugana. Í dag þurfti ég svo aðeins að útrétta, " gerði hreint fyrir mínum dyrum". Svo var ég líka að undirbúa upphaf vetrarstarfs hjá Kvennaklúbbi Karlakórsins. Hélt stjórnarfund í kvöld og svo er aðalfundurinn eftir viku. Ég á eftir eitt ár í formennskunni. Í gær kom Dýrleif Nanna í heimsókn og var hjá ömmu og afa í pössun smá stund. Hún er bara góð og er alveg sama þegar hún er skilin eftir.


Síldarsöltun á Mjóafirði

Ég fór þangað í októberlok og saltaði síld í sex vikur. Flaug til Egilsstaða og fór svo þaðan í rútu niður á Neskaupsstað. Það var vitlaust veður, rok og bylur. Frá Neskaupsstað var svo farið á tveggja tonna trillu til Mjóafjarðar. Í suðaustan 18 og haugasjó fyrir Norðfjarðarhorn. Ég hélt ég myndi deyja. Lokuð niðri í lúkar með olíu og ælupest. Ekki var nokkur leið að opna út, sennilega hefði sjór þá flætt þar niður og dallurinn sokkið. 

Þá var síldin að hverfa af Íslandsmiðum, en fannst helst á haustmánuðum fyrir austan land. Föðursystir mín var þar með fjölskylduna sína, en maðurinn hennar stjórnaði þessari söltunarstöð. Pabbi tók okkur tvö systkini með sér austur - bara ævintýramennska, en kannski smá von um pening líka. Síldarplanið var yfirbyggt á bryggjunni skammt utan við Brekku, þar sem Vilhjálmur bjó. Hann var þó víst á þingi en sonur hans sá um búskapinn.

Við bjuggum í ágætu húsi sem var byggt á þessum tíma, myndarleg verbúð, en hefur á síðari árum verið nýtt sem barnaskóli og ég veit ekki betur en heiti Sólbrekka, eins og söltunarstöðin hét þá.

Það var ekki alltaf síld og við gátum skoðað okkur um í eyðibyggðinni sem þarna var. Einu sinni var búið á mörgum bæjum í Mjóafirði en flestir voru þeir komnir í eyði á þessum tíma. Við fórum líka nokkrar ferðir með trillunni "góðu" á Neskaupsstað, en hún fór tvisvar í viku held ég, og var eina samband íbúanna við umheiminn. Við keyptum þá lopa í stórum stíl og prjónuðum svo peysur.

Þegar bátar komu með síld var heldur fjör í firði. Saltað hvíldarlaust, tímum og jafnvel sólarhringum saman, merkin hrúguðust í stígvélin og og við fengum peninga fyrir merkin. Á meðan ég var þarna kom veturinn fyrir austan, snjóaði mikið og þegar ég ætlaði heim var orðið ófært á Egilsstaði svo það varð að moka flugvöllinn á Neskaupsstað og fljúga þaðan. Ferðin heim tók tvo daga. Á fyrsta degi með trillunni frá Mjóafirði á Neskaupsstað og þegar þangað kom var ekki hægt að fljúga svo við urðum að finna gistingu. Ég var samferða hjónum frá Akranesi á heimleið, við fundum gistipláss í heimahúsi. Eitt herbergi gátum við fengið og sváfum þar öll þrjú.

Svo var flogið kl. 13.00 næsta dag og það gekk ekki neitt. Brjálaður mótvindur og rellan ekki beisin. Ég er mest hissa að ekki var lent á Akureyri og beðið betra veðurs. Við vorum komin á Reykjavíkurflugvöll um kl. 19.00 um kvöldið. Rosalega var ég svöng þá. Eins og víða annarsstaðar fannst mér gaman á Mjóafirði, minnti svona pínu á heimavistarskóla, og þarna náði ég að öngla saman fyrir gardínum í stofuna og öllu sem þurfti til að hengja þær upp.


Ég fékk lús!

Ég var að koma úr Reykjavík, fór þangað með mömmu í jarðarför. það var gömul góð kona sem var verið að jarða, ég man mest eftir henni þegar ég kom heim til hennar með foreldrum mínum fyrir fjöldamörgum árum. Það var fullt af fólki  í kirkjunni og boðið í kaffi á eftir.  Flestir voru þarna vel fullorðnir og mamma þekkti marga. Ég var með þeim yngri en þekkti þó nokkra, og furðu margir þekktu mig þó ég hafi ekki séð þá árum saman.

Á leiðinni heim var ég að spyrja mömmu útí nokkra sem ég ekki vissi hverjir voru en hún þekkti greinilega. Þar á meðal var karl, nokkuð gamall - allavega eins og mamma - sem hún hafði heilsað. "Æ - það er varla von að þú munir eftir honum" sagði hún. "Hann er af Skeiðunum og kenndi Skeiðakrökkunum sund í gömlu lauginni heima". "Hann hélt svo oft á þér með sér og leyfði þér að horfa á, það var þegar þú fékkst lúsina"!      Hólí kræst!   Hvað sagði konan?

Hingað til hef ég haldið því fram að engin lús hafi komið í minn haus, en verð nú víst að bakka með það. Það var þegar ég var tveggja ára og hárið enn svo þunnt, og þar að auki ljóst, að það var enginn vandi að finna þessa lús, sem var víst bara ein.

En það sem mér finnst merkilegast við þessa lús er - að hún kom af Skeiðunum.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband