Í Kaupmannahöfn hjá Jóni Helgasyni og Þórunni frænku

Ég fór með ferjunni frá Ósló til Kaupmannahafnar haustið 1962. Eftir að ég hafði verið í Noregi eitt ár og komið var að heimferð bauð ömmusystir mín, Þórunn Ásta, mér að koma og heimsækja sig í Kaupmannahöfn.

  Áður hafði ég búið nokkra daga hjá annarri frænku, Guðrúnu Brunnborg, en hún bjó skammt fyrir utan Ósló. Þar var ég að tína epli og það ekkert smáræði. Ég var nú orðin nokkuð sjálfbjarga í útlöndum og fór einhvern daginn að heimsækja gömlu konurnar sem tóku á móti mér ári áður. Vinnukonan fór þá með mér í skoðunarferð um Óslóarborg og við komum í Vigelandgarðinn sem ég man að mér fannst flottur.

En nú átti ég að koma mér hjálparlaust á milli landa.   Ferjan var auðfundin og ég komst þar um borð tíðindalaust. Þetta var næturferð og ég man lítið annað en að ég fékk koju í klefa og svaf lengst af leiðinni.  Svo var tekið á móti mér við komuna, það var Helgi, sonur Jóns og Þórunnar sem það gerði og flutti mig heim til þeirra. Mér var vel tekið á þessu heimili, sem var á þessum tíma athvarf Íslendinga, og það oft ekki aldeilis ómerkra Íslendinga. En það vissi ég þá ekkert um. Ég var hjá þeim í nokkra daga og fór í Tívolí, dýragarðinn, og á Strikið. Svo fór Helgi og fjölskyldan hans með mig í ferð út á land og er mér minnistætt að við komum þá til gamallar konu sem bjó í rosalega flottu eldgömlu húsi með stráþaki.  Við komum þá líka við i listasafni, gæti verið Luisiana safnið ef ég man nafnið rétt? Helgi bjó þá með konu og börnum í borginni, Sólveig var flutt til Íslands og líklega Björn líka, þó er ég ekki viss um það.

Eftir þessa heimsókn fór ég svo aftur til Noregs með ferjunni og nú lenti ég í klefa með tveim konum sem voru báðar svo sjóveikar að mér var þar ekki vært. Ég kom mér út úr klefanum og fann mér skemmtilegri félagsskap. Landslið Noregs í skotfimi, var á heimleið úr keppnisferð, og með þeim skemmti ég mér það sem eftir var ferðar.        Þeim fannst ég eitthvað einmana og vildu allt fyrir mig gera og ég man að þeim þótti merkilegt að ég væri Íslensk.                                                                        Íslenskar stelpur, einar á báti, voru víst ekki algeng fyrirbæri á Skagerak og Kattegat á þessum árum.     


Gerði Laddi tæknileg mistök á Bifröst?

Laddi hefur alltaf verið vinsæll á mínu heimili, og bróðir hans hann Halli er skólabróðir minn og góður vinur.Við spiluðum plöturnar þeirra  í tætlur og kunnum alla textana. Þegar  mér bárust þau tíðindi á dögunum að þeir bræður hefðu verið undanfarna mánuði við upptökur í Borgarfirðinum gladdist ég mjög- nú get ég aftur farið að syngja um skríplana og Roy Roggers.   En auðvitað er þetta bara bull.  Þeir bræður voru ekkert í Borgarfirðinum. 

Ég var áðan að lesa pistil frá ungum manni sem óforvarendis komst á topp tíu hér í blogginu og langar svo mikið til að komast alla leið á toppinn. Hvernig kemst maður þangað? Ég held að hann hafi alla möguleika til þess: Hann er karlmaður. Hann á tölvu og vinnur við hana. Hann gæti fengið sér hárkollu. Svo flettir hann blöðunum og finnur helstu slúður og klúðurfréttir dagsins. Býr til fyrirsögn úr þeirra fyrirsögnum. Allt í lagi að blanda nokkrum saman til að auka áhrifin. Þegar hann er búinn að skrifa fyrirsögnina teymir hann lesendur af stað með einhverju bulli, en eftir það getur hann bara skrifað um það sem hann langar til. Ekki spillir það að hann er alveg ljómandi góður penni


Kuldakast og bilaðar dælur

Það var skítkalt að labba í vinnuna í morgun. Eins og venjulega á fimmtudögum byrjuðum við á tveimur tímum í leikfimi. Gummi ætlaði alveg að gera útaf við liðið með þrekæfingum og púli. Það er reyndar mesta furða hvað þau nöldra lítið yfir meðferðinni hjá honum, hafa bara flest gaman af leikfimitímunum. Eftir tvo stofutíma fórum við svo í sundið. Í þessum líka brunagaddi, örugglega 25st. frosti með vindkælingunni.

Það varð okkur til happs að kennarinn stelpnanna var ekki við svo við fengum öll að vera saman í innilauginni. Venjulega er ég bara með strákunum og við skiptumst á að vera inni og úti. Það er frábært að vera með þessum elskum, við erum í áttunda bekk og þeir eru allir að tútna út af karlmennsku, vita ekkert í hvora löppina þeir eiga að stíga.               En í hjartanu eru þeir bara litlir strákar og af því ég er búin að vera með þeim svo lengi kemst ég líklega næst mömmunum að fá að gægjast inn í þessi hjörtu. Þegar svona margir eru í innilauginni er lítið hægt að synda, svo það voru bara leikir og köfunaræfingar. Einn lenti í mesta basli þar sem hann átti að kafa í djúpu lauginni, sagði að það væri svo mikið loft í sér að hann kæmist aldrei niður á botn. Svo var fjársjóðsleikur, og þar þurfti nú aldeilis að kafa.

Í tímalok máttum við svo fara í útipottana eða bara hvað sem hver vildi. það var bara einn strákur sem kom með mér í heita pottinn og allan tímmann var hann að fara uppúr öðru hvoru,í frosti og roki, að sækja sér klaka sem hann bræddi svo á bakinu á mér. Ég átti auðvitað að skrækja og kveina en potturinn var svo heitur að ég fann þetta varla. Þegar við komum úr danstímanum eftir hádegið var það helst að frétta að hitaveitan á Selfossi væri biluð. Ekkert heitt vatn og ekki von um viðgerð alveg strax. Gat nú skeð - hitaveitan bilar hér aldrei nema í svona frosthörkum.  Þegar ég kom svo heim síðdegis var það mitt fyrsta verk að gá hvort ekki væru allir gluggar lokaðir. Ég klæddi mig í dúnfóðruðu inniskóna og fór í hlýja peysu. Svo kveikti ég á kertum um allt hús, ég skyldi sko halda mér heitri þangað tilég gæti skriðið undir sængina.

Ég fór svo útí skúr og sótti kartöflur í pottinn, þar er fullur kassi nýkominn úr geymslunni, þar sem er vetrarforði af eigin framleiðslu. Ég fór inn með kartöflurnar og þvoði þær.   Skrúfaði þá óvart frá heita krananum sem ekki átti að skila mér neinu samkvæmt fréttum --- en það kom vatn, heitt vatn. Ég mátti svo sem vita það sem hefur sýnt sig áður, austurbærinn er forréttindasamfélag, þessi eina dæla sem er í lagi er náttúrulega sú sem þjónar okkur!  Ég fór úr peysunni og slökkti á helmingnum af kertunum, enda var ég að drepast úr hita.


Að mæta snemma til vinnu

Það er gott að fá ábendingar og hjálp við að rifja upp gömul afglöp.

Það var svo margt sem gerðist á Fossnestisárunum að ég get ómögulega munað eftir því öllu í einu. Þar var opið til kl. hálf tólf á kvöldin - og svo þurfti að ganga frá og loka öllu vandlega áður en heim var haldið, svo oftast var farið að líða fram yfir miðnætti þegar loksins var komið í koju.  Kvöldvakt fylgdi yfirleitt morgunvakt næsta dag, það vildi til að maður var sæmilega hress. Mætt í vinnu og búið að opna k. átta. Það kom fyrir að við vorum á leigubílavakt ef við áttum ekki sjoppuvakt og þá sátum við í herbergi bílstjóranna, stundum alveg til sex á morgnana.

Ég var á sjoppuvakt eina helgi um hávetur. Farin að sofa um kl.eitt og vaknaði svo eldsnemma næsta morgun. Ég vakna oft klukkulaust og þannig var það í þetta sinn. Snaraðist framúr og í fötin. Ég lauk mínu morgunstússi með hraði, ég var á þessum árum ekkert að dunda við hlutina í morgunsárið. Klæddi mig í útifötin og fór út í myrkrið. Ég er ekki nema þrjár mínútur að hlaupa þennan spotta og var fyrst á staðinn.

Ég hef aldrei verið myrkfælin og fannst reyndar bara notalegt að dunda ein við morgunverkin. Kveikja öll ljósin, starta ísvélinni og gera pylsupottinn kláran. Sótti skúffurnar í peningaskápinn og setti þær í kassana. Svo fór ég fram að opna. Á þeirri leið heyrði ég einhvern umgang í bílstjóraheberginu sem var í hinum enda hússins. Ótrúlega voru þeir lengi að þessa nótt? Ég leit á klukkuna á veggnum - vantaði korter í fimm! Kræst! ég var of snemma á ferðinni, karlarnir á stöðinni allir hinumegin við vegginn. Ég hentist aftur innfyrir og slökkti ljósin í snatri. Svo paufaðist ég í myrkrinu við að slökkva aftur á öllu sem ég var búin að setja í gang. Ekki gat ég hugsað mér að láta bílstjórana skemmta sér yfir minni snemmbúnu fótaferð. Þegar kom að því að setja peningaskúffurnar aftur í skápinn hægði ég ferðina, ég nennti nú eiginlega ekki að ganga frá þeim aftur. Og átti ég þá bara nokkuð að fara  heim, bara vesen? Ég fór og læsti innganginum á bakvið. Fór inn í grill, dró þar saman nokkra bólstraða stóla, sótti mér úlpu og peysur og bjó mér þarna besta ból. Lagðist fyrir og sofnaði.

Þegar vinnufélagarnir komu svo á réttum tíma var ég nývöknuð og ágætlega hress. En ég gat ekki með nokkru móti þagað yfir þessu næturbrölti mínu. Það var of skemmtilegt til þess.


Ég reyndi að bjarga lífi

Af ótilgreindum ástæðum datt mér nú í hug nokkuð sem ég var fyrir nokkru beðin um að rifja upp.  Ekki var það neitt skemmtilegt og hefði satt að segja getað orðið aðlveg skelfilegt. En svona var það. 

Ég vann í Fossnesti allmörg ár og á þeim tíma var þar vinsælasta sjoppan á Suðurlandi öllu. Þetta er alveg satt. Það var líka alltaf gaman að vinna þar á þeim tíma. Alltaf fullt að gera og maður hitti fólk af öllum landshornum.  Ég sakna þess enn þegar gerir vitlaust veður. Í blindbyl og bullandi ófærð vorum við oft beðin að halda opnu langt fram eftir nóttu til að taka á móti rútum og flutningabílum sem höfðu farið síðdegis úr bænum en náðu ekki austur fyrir lokun kl. hálf tólf. Þá hituðum við súpu og biðum svo eftir þeim. Við vorum bjargvættir.Ég gerði þetta nokkrum sinnum og var ekki komin heim fyrr en tvö eða þrjú um nætur.  Það var hentugt að biðja mig að bíða af því ég átti svo stutt heim og gat klofað skaflana á fimm mínútum. Það kom líka nokkrum sinnum fyrir að ég hafði þá með mér olíubílstjóra, samstarfskonur eða bensíntitti sem ekki komust heim til sín. Gaman - gaman.

En það var ekki þetta sem ég ætlaði að segja, það var óhappið.   Ég var að vinna um kvöld þegar ungur maður sem ég kannaðist við kom að fá sér pylsu. (Það á að skrifa pylsu þó margir segi pulsu. ) Hann fékk afgreiðslu,  fékk sér líklega tvær, hann var svo stór og þrekinn að ein hefði örugglega ekki verið nóg. Svo fór hann frá borðinu og út í horn þar sem við sáum ekki til hans. Góð stund leið, við héldum áfram að afgreiða tíðindalaust. þá heyrðum við allt í einu stunur og hljóð úr horninu og pilturinn kom fram í einum keng, helblár í framan. Hann stundi einhvernvegin upp svo við skildum:"Ég er að kafna"! Pylsan stóð í honum. Við frusum augnablik, hvað gátum við gert?  En auðvitað varð að gera eitthvað, hann stóð enn í lappirnar, en var algerlega bjargarlaus. Ég snaraðist fram fyrir borðið.  Stóð hjá honum og varð um leið ljóst að mér voru allar bjargir bannaðar. Ég náði honum rúmlega í mitti og  þó ég væri á þeim tíma nokkuð vel í holdum var hann alveg tvisvar sinnum ég. Ég barði hann þó í bakið nokkrum sinnum, en það var eins og fluga á fílsbaki, það hafði auðvitað engin áhrif. Mér datt í hug að láta hann leggjast á magann og hoppa svo á bakinu á honum, það hlaut þó að ganga betur. Samstarfsfólk og viðskiptavinir stóðu álengdar og höfðust ekki að. Mér varð það til happs að einmitt í þessu kom vinnuflokkur frá RARIK inn, allt fílefldir karlmenn og einn þeirra lögga að auki. Ég hrinti þjáningabróður mínum til þeirra og þeir tóku við. Tóku hann á milli sín og fóru með hann út. Mín martröð var á enda. En það tók þá nokkra stund að ná fjandans pylsubitanum og þar með bjarga lífi stráksins, en það tókst að lokum.  Þökk sé Guði og Rafmagnsveitu ríkisins .

 


"Ég er vinsæl og veit af því"

Þess vegna kemur mér ekki á óvart að ég fæ nú allmargar óskir um "vinasamband". Ég bið ykkur að taka það ekki illa upp, en ég hef ákveðið að halda þessháttar samböndum innan fjölskyldunnar. Mér hættir svo til að taka hlutina alvarlega og vil gjarnan gera vel við vini mína. Það gæti orðið til þess að ég færi að leita ykkur uppi, koma í heimsóknir eða senda smákökur fyrir jólin, ég hef bara ekki tíma í þessháttar núna. Sjáum til eftir starfslok, það er nokkurra ára bið. 

Það eru annaskipti í skólanum núna. Í dag var foreldradagur, þá komu foreldrar með börnunum að tala við kennarana og sækja vitnisburði. 

Ég fékk líka vitnisburð í dag. Ég fer reglulega til læknis sem reynir allt hvað hann getur að finna hjá mér einhverja kvilla, en gengur lítið. Auðvitað sem betur fer. Ég er búin að gera þetta í nokkur ár og ekkert er að mér. Kannski er illa farið með dýrmætan læknatíma með þessu, en það verður að hafa það. Í dag eins og áður labbaði ég hróðug út með "hvítan miða". Ef þið hafið aldrei farið með bíl í skoðun þýðir það fulla skoðun, ekkert að.  Ef eitthvað þarf að laga er miðinn grænn og í versta falli, þegar druslan er algerlega í rusli fær hún rauðan miða. En ég vona að það líði nú mörg ár þangað til ég lendi í því.

 


Músahreiður í eldhússkúffunni

Þegar ég las um óboðinn gest í ókunnu húsi datt mér í hug heimsókn sem fjölskyldan fékk fyrir nokkrum árum.

Það var þegar mömmur voru heima með börnunum sínum og leikskólarnir voru bara til að leyfa þeim að vera þar hluta úr degi til að leika með öðrum börnum. Ég var reyndar svo lánssöm að þurfa aldrei að nota leikskóla, aðeins eitt minna þriggja barna  var þar hálfan daginn eitt sumar. 

En sagan gerðist á vetrarmorgni fyrir langa löngu. Eldri börnin voru í skólanum og ég var heima með þeim yngsta.  Dyrabjöllunni var hringt. Ég fór til dyra og þar stóð þá lítil stúlka, fjögurra ára, jafnaldra sonarins, í kuldagalla og rjóð í kinnum. "Er Gummi heima"? spurði hún, og horfði á mig stórum eftirvæntingarfullum augum. Jú - jú, hann var heima og kominn á humáttina á eftir mér fram í forstofuna. Ég bauð henni innfyrir og lét þau svo ein í forstofunni. Mömmur eiga ekki alltaf að vera með nefið ofaní því sem ungt fólk þarf að tala saman. Ég fór eitthvað að dunda inni, en fljótlega kallaði sonurinn í mig og sagði mér að koma og sjá. Eitthvað hafði stúlkan meðferðis sem hún var að sýna honum. Og það var sko ekki lítið merkilegt. Hún hafði dregið uppúr vasanum á kuldagallanum ofboðlítinn músarunga, hárlausan og steindauðan. Þetta sýndi hún okkur aldeilis dolfallin af hrifningu. Ég varð að taka mig á til að sýna ekki hvað mér fannst um gripinn. "Óóóó, greyið" sagði ég með samblandi af aðdáun og vorkunnsemi í röddinni, ósköp er hann lítill.  Hvar fannstu hann?  spurði ég svo. Í skúffunni í eldhúsinu, svaraði hún. Og var hann dáinn? spurði ég aftur."Nei-nei, hann var lifandi og allir hinir líka, þeir skriðu um allt". Hún var heldur hróðug yfir þessari miklu búbót á heimilinu. "En ég tók bara einn". Ég varð nú að segja þeim báðum hvað það væri óheppilegt að taka svona lítinn unga úr eldhússkúffu og fara með hann út í kuldann, og vasinn á gallanu væri kannski ekki heppilegasta geymslan. Greinilega lífshættulegt.

Til að vera viss um að mamman frétti af búinu í skúffunni sagði ég henni að fara og sýna mömmu greyið. Og biðja hana svo að hjálpa sér við að jarða hann. Hún var alveg sátt við það enda búin að sýna okkur dýrgripin. Hún stakk honum aftur í vasann og rölti heim.


Dansað í "vitlausu veðri"

Á föstudaginn þegar við vorum að búa okkur undir að fara á myndakvöldið hjá Karlakórnum spáði veðurstofan vitlausu veðri. Ekki létum við það hafa áhrif á okkur og fórum galvösk á staðinn, með það í huga þó, að komið gæti til þess að við þyrftum að gista en það gerði ekkert til. Myndasýningin var fín og svo byrjaði ballið með miklu fjöri. Nú orðið eru tækifærin of fá sem maður fær til að spretta almennilega úr spori, meira lagt uppúr bjórdrykkju á pöbbum, en því bara nenni ég ekki. Maður verður að fá sæmilega hreyfingu með.  Það fór nú svo að veðurstofan tapaði, það varð ekkert vont veður og allir komust heim til sín einhverntíman um nóttina. Í gær varð ég svo að taka út fyrir því sem afrekað var í dansinum, harðsperrur í öllum limum. Það var nú eitthvað annað á árunum áður þegar ég fór í Þórskaffi sex kvöld í viku, þá voru aldrei aumir vöðvar. 

Svo fórum við í morgun til Reykjavíkur í skírnina hennar Unu. Á eins árs afmælinu var hún loksins formlega skírð, í barnamessu í Laugarneskirkju.  það er gaman að vera við skírn hjá svona stóru barni. Hún fylgdist með því sem fram fór og skoðaði allt í kringum sig. Lítil börn missa alveg af þessu, spurning hvort ekki ætti bara að skíra þegar þau eru svo gömul að þau geti munað eftir athöfninni. Það væri örugglega skemmtileg minning að eiga. "Þegar presturinn jós vatninu yfir mig". 

Nú verður kannski næstu vikur smáfriður fyrir pólitískum sneplum í forstofunni, en jólaáróðurinn kemur þá bara í staðinn.  Um prófkjörin hef ég svo sem ekkert að segja.  Af hverju er rótgrónum þingmönnum hent út? Er þetta ekki bara eins og á öðrum vinnustöðum, þeir eru endurráðnir sem vinna vinnuna sína? Þegar einhver þykist viss um að halda "sínu" sæti er hann kominn í djúpan sk--. "Ég ætla að gefa sætið mitt eftir"  er  fáránleg setning. Þú "átt" ekkert í þessu sæti vinurinn. Í heildina finnst mér þessi prófkjör hafa einkennst af fátækt, það vantar tilfinnanlega fólk sem mann myndi "langa" til að kjósa. Væri jafnvel tilbúinn til að ganga í einhverja flokka til þess. Ég hef heyrt að maður geti gengið í marga flokka í sömu vikunni ef manni sýnist svo.


Er nágranninn að negla fyrir gluggana?

Þegar ég fór út áðan heyrði ég áköf hamarshögg handan við götuna. Getur verið að veðrið verði svo vont að maður ætti að setja hlera fyrir glugga? Ég vona ekki, en geri þó ráð fyrir því að ég verði fljót á leiðinni í skólann á morgun. Það á nefnilega að vera suðaustan átt og það hentar mér ágætlega, þá bara fýk ég beint í skólann. Svo í hádeginu á hann að snúa sér í suðvestan og það er líka fínt - ég fæ þá sömu þjónustu hjá veðurguðunum á heimleiðinni. Þetta hefur verði frekar annasöm vika. Það var aðalfundur kvennaklúbbs karlakórsins á þriðjudag, af því ég er formaður varð ég að halda ræðu og stjórna fundi, og líka útbúa brauðrétt handa kellunum með kaffinu. Svo í gær fór ég í vinnuna aftur kl. 5 og var til 9.30. Það var nefnilega verið að sýna leikrit 10. bekkjar - tvær sýningar. Það tókst bara furðu vel,sennilega mesta lánið hvað krakkarnir voru lítið stressuð þó ekki væri alveg allt eftir bókinni. "Hva me þa"? áhorfendur vissu hvort sem ekkert hvernig textinn er í handritinu.  Og þessi sem datt afturyfir sig útaf sviðinu meiddi sig ekkert að ráði, og svo fengu allir kökur og svala á eftir. Hvað er hægt að hafa það betra?

Á morgun- ef veður leyfir er svo myndakvöld hjá karlakórnum og þar er alltaf gaman. Reyndar skiptir engu hvernig veðrið verður, við komumst þangað einhvernvegin og svo förum við þá bara heim þegar lægir. En á Sunnudaginn þarf að vera fært til Reykjavíkur af því þá förum við snemma dags þangað til að vera við skírnina hennar Unu. Hún er líka eins árs þann dag.  Og hún er búin að heita Una allt þetta ár af því hún fæddist úti í Ameríku. En það verður auðvitað að skíra hana almennilega með vígðu vatni og presti.

Og svona að síðustu. Hún dóttir mín er komin frá Kaupmannahöfn, Hún fékk sér ekki tattú í þetta sinn og á laugardaginn var hún ekki á krá þar sem gestir voru skotnir eins og gæsir á hausti.   Farið varlega i vonda veðrinu.


Tengdadóttir á hrakhólum

Enn er hún Binna ekki komin í leitirnar. Að hún lenti í Glasgow í morgun er næsta víst, en nú eru farnar að koma vélar þaðan en engin Binna. Það verður bara að bíta á jaxlinn og bíða eftir næstu vél.

Á meðan ætla ég að rifja upp þegar ég fór í fyrsta sinn í flugvél til útlanda. Það var á Skeiðaréttadaginn þegar ég var 18 ára gömul.  Ég hafði fengið skólavist í lýðháskóla í Guðbrandsdalnum í Noregi. Skólinn var byrjaður, en ég hafði fengið að fresta því að mæta. Af óviðráðanlegum ástæðum, var það látið heita, en ég bara varð að komast í réttirnar, en samt aðallega á móti safninu, þar hafði mig aldrei vantað. 

Foreldrar mínir keyrðu mig til Reykjavíkur og á flugvöllinn þar. Þá var enginn Keflavíkurflugvöllur til, nema fyrir herinn. Auðvitað táraðist ég svolítið þegar ég kvaddi þau, ég var búin að ákveða að vera í heilt ár að heiman og það er langur tími í lífi unglings.Lítið man ég eftir ferðinni, nema að það var lent í Bergen og allir reknir úr vélinni.  Líklega kaffitími hjá flugmönnunum. Ég fór út eins og aðrir og elti svo einhverja röð þangað til ég var stöðvuð. Einhver kerling leit á miðann minn og benti mér svo hvert ég ætti að fara. Ég leit í kringum mig og sá þá að þarna var allt merkt SAS, svo líklega hefði ég lent til Svíþjóðar ef ég hefði haldið mínu striki. Svo var eftir kaffið haldið áfram til Óslóar og þar átti ég þó örugglega að fara úr. Þarna í flugstöðinni átti ég að hitta konu sem hafði tekið að sér að geyma mig yfir nóttina, en það kom engin kona. Enginn þarna sýndi mér minnsta áhuga. Á endanum voru allir farnir úr salnum nema ég. Sitjandi á bekk á miðju gólfi beið ég heila eilífð - fannst mér. 

Ekki man ég eftir að ég væri verulega áhyggjufull. kannski var það sveitamennska, en ég trúði því bara statt og stöðugt að þessi kona myndi á endanum koma.  Hún gerði það líka og baðst margfaldlega afsökunar á töfinni. Ég skildi hana alveg, samt kunni ég ekki orð í norsku. Ég var svo hjá mömmu hennar um nóttina. Mamman var gömul og var með vinnukonu sem var líka eldgömul. Þar fékk ég púrrulauk soðinn með smjöri og kartöflum í kvöldmatinn. Næsta dag fór svo vinnukonan með mig á brautarstöðina og kom mér í lestina sem flutti mig til Ringebu í Guðbrandsdalnum.

Þetta varð gott ár. Þá var tæknin ekki til vandræða og aðeins einu sinni allan tímann var hringt til mín að heiman. Á afmælinu mínu. Ég var í tíma niðri í íþróttahúsi og þangað kom sprengmóður strákur til að sækja mig. Það mátti segja að allur skólinn væri í uppnámi útaf þessu símtali frá útlöndum. Ég man nákvæmlega hvar ég talaði í símann, við mömmu, sem hafði þurft að fara fram að Galtafelli til að fá símasamband við Noreg. Símstöðin var þar.  Krakkarnir voru allt í kringum mig og sperrtu eyrun. Að heyra íslensku talaða lengst uppí Guðbrandsdal gerðist ekki á hverjum degi.  Ég  kom heim eftir árið, daginn áður en safnið kom af fjalli.  Ég gat farið á móti eins og venjulega og fjallkarlarnir voru glaðir að sjá mig þá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 197661

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband