Hvað eru þessir menn að pæla?

Það er alveg ótrúlegt hvað þessir gaurar sem "ráða" (hvað sem það verður nú lengi), geta verið staðir þegar Suðurlandsvegur er til umræðu. Stulli skólabróðir virtist þó vakna upp af værum blundi um helgina og lýsti því allt í einu yfir að ekkert dygði nema tvöföldun. En þá er grafinn upp einhver vegamálastjóri, sem ekki hefur áður haft opinbera skoðun á málinu, og hann hangir nú á því hálmstrái að tvöfaldur vegur myndi verða svo mikil hálkugildra að stórhætta yrði af. Það er eins og verið sé að leita allra leiða til að útiloka tvöföldun. Væri ekki nær að leita leiða til að gera hana að veruleika? Þeir eru ótrúlegir!

Það vill, til þó heimskulegt sé að það er pólitísk skítalykt af málinu. Af því að kosningar eru að nálgast geta þingkallarnir ekki þagað þunnu hljóði. Þeir verða að láta okkur halda,í nokkra mánuði, að þeir beri hag og líf okkar fyrir brjósti. En auðvitað eru þeir þá bara að hafa áhyggjur af stólunum sínum. En "sorry", Stulli, ég hef ekki undanfarið stært mig af því að bekkjarbróðir minn sé ráðherra. 


Saga Jólatrésins

Við sóttum það austur að Tumastöðum vorið 1972. Ósköp lítið tré, ca. 50cm. eða svo.   því var plantað fyrir framan húsið, á besta stað. Þar lifði  það góðu lífi tvö eða þrjú ár, en var þá flutt og sett niður bakvið og lengra frá húsinu. Það hefur öll árin vaxið frábærlega vel, langur toppur hvert haust og nú er það eitthvað töluvert yfir tíu metra. Þó hefur það orðið fyrir áföllum. Toppurinn hefur þrisvar sinnum brotnað af, einu sinni af knattspyrnuslysi en svo í hávaðaroki. Mörgum sinnum hafa þrestir gert sér hreiður í trénu og ungarnir sem þar hafa komist úr eggjum skipta tugum. Það hefur á hverju sumri verið ærið verkefni að flæma ketti úr garðinum á þeim tíma sem þeir eru að yfirgefa hreiðrin, og mörgum unganum hefur hér verið bjargað úr kattarkjafti.

En það hafa líka orðið slys, það er langt í frá að allir ungar sem alist hafa upp í Rauðholti hafi náð því að gera sér hreiður seinna meir. Fyrir tveimur árum var hreiður í trénu, hátt uppi, trúlega svona í fjögurra metra hæð. Við tókum eftir þegar mamman fór að bera maðka í búið, það voru komnir ungar.  En einn laugardagsmorgunn vaknaði ég upp við hræðslu og sársaukahljóð í þröstunum. Kattarhe------ í næsta húsi! Ég rauk út, í fáklæddara lagi, en varð of sein. Ófétið var búið að drepa fullorðinn þröst. Í lengstu lög vonaði ég að það væri ekki mamman, en ég sá hana ekki allan daginn. Enginn var að bera orma til unganna í hreiðrinu. þegar leið að kvöldi fórum við að heyra sultarlegt tíst frá trénu, þeir voru orðnir svangir. Við vorum boðin í afmæli um kvöldið, bjuggumst sparifötum og fórum í partí. Ég var í veislunni alltaf með hálfan hugann hjá ungunum, hvað skyldu svona grey lifa lengi matarlausir.  

Þegar við komum heim um nóttina, vel hress úr veislunni gat ég ekki hugsað mér að fara að sofa fyrr en ég væri búin að reyna að gera eitthvað fyrir munaðarleysingjana.  Það var langur stigi í bílskúrnum, ég náði í hann og reisti upp við grenitréð stóra.      Ekki stóð hann nú stöðugur svo S.K. tók að sér að styðja á meðan ég klifraði upp.      Ég hafði ekkert mátt vara að því að hafa fataskipti, var í háhæla skóm, pilsi og ermalausum bol. Það var hlý sumarnótt. Ég klifraði nú upp stigann, sem sveiflaðist til utaní trénu. Þar sem ég var í fáklæddara lagi var návígið við greninálarnar frekar óþægilegt. Stuðningurinn á jörðu niðri fannst mér heldur ekki til að hrópa húrra fyrir. En ég komst alla leið, þegar þrjú þrep voru eftir af þessum óralanga stiga kom ég þar sem hreiðrið var og horfðist nú í augu við fjóra berstrípaða unga, sem fögnuðu mér með sultartísti. En ég átti engan orm. Þarna sveiflaðist ég til í fjögurra metra hæð og því varla von á öðru en þessir litlu svöngu angar héldu að ég væri mamma. 

Ég ákvað að bregðast þeim ekki, " ég skal verða mamma ykkar", hvíslaði ég að ungunum  og tók hreiðrið af greininni. Svo hófst ferðin niður á jörðina aftur. Það vildi til að það var hánótt svo nágrannarnir  sváfu á sitt græna.  Við komumst  öll niður og þá setti ég hreiðrið í kassa inní skúr. Svo fór ég að leita að ormum, enn í sparifötunum. Ég fann orma og sleit þá í sundur í mátulega bita. Hvað vissi ég annars um  hvað væri mátulegt fyrir  þrastarunga á frumstigi? En þeir tóku við,  reyndar svo vel að ég bara hætti þegar mér fannst  komið nóg.  Svo fór ég að sofa.

Þeir lifðu einhverja daga greyin, ég gaf þeim samviskusamlega og hirti úr hreiðrinu það sem þeir létu frá sér. En ég var víst engin almennileg þrastamamma og þeir voru að síðustu jarðaðir á bakvið bílskúrinn.  En það getur verið við ýmislegt að fást eigi maður jólatré í garðinum. 


Launahækkanir bæjarfulltrúa í Árborg?

Hvar myndu finnast peningar til þess? Spyr sá sem ekki veit!

Hittumst við í Glaumbæ eða við Geitháls?

Þó ég væri saklaus sveitastúlka var mesta furða hvað mér tókst að kynnast næturlífinu í Reykjavík.  Fyrstu skrefin í áttina þangað voru þó tekin þegar við krakkarnir í uppsveitunum skruppum á sumarkvöldum til að fá okkur pylsu á Geithálsi.  Nú veit enginn hvar sá staður var. það var eðalsjoppa sem stóð við þjóðveginn á milli Rauðavatns og Gunnarshólma. Þar sem nú er beygt útaf ætli maður að fara Hafravatnshringinn. Við fórum miklu frekar þangað en til Hildiþórs, en hann átti sjoppu upp við Ingólfsfjall og seldi þar svið. Við vorum á eðalvögnum, stórum amerískum drossíum, af árgerðum undir´60 og það var ekkert mál að skjótast yfir heiðina þó malarborin væri og Kambarnir í krókum.

Þegar ég fór í fyrsta sinn á skemmtistað í Reykjavík var það í Vetrargarðinum. Við fórum tvær vinkonur saman og fengum að búa nokkrar nætur hjá frænku annarrar. Hún bjó við Rauðalæk. Við vorum 17 ára og ætluðum sko að "mála bæinn rauðan".   Frænkan fór í sumarbústað með manninn sinn og við áttum að sjá um okkur sjálfar. Við eyddum mestu af tímanum heima í íbúðinni. Sváfum og elduðum okkur mat. Einu sinni man ég þó að við komumst niður á Arnarhól þar sem við lágum fáklæddar í sólbaði dagstund.

Svo kom laugardagskvöld og við fórum á ball. Við vorum flottar á því og pöntuðum leigubíl og báðum um flutning í Vetrargarðinn. Sá staður var í Vatnsmýrinni, nærri því sem Umferðamiðstöðin er nú. Í lágreistri braggabyggingu sem áður hafð víst tilheyrt Tívolíinu sem einu sinni var. Við komumst inn, ekkert vandamál með það, en ekki var þetta líkt því sem við þekktum í sveitinni. Hálfgert myrkur inni og við þekktum ekki nokkurn mann. Allir eldri en við.Við hringsóluðum þarna þó fram eftir kvöldi, en komum okkur svo út og vildum komast heim á Rauðalæk. Þar voru engir leigubílar og við vorum lengst útí mýri.

Eitthvað höfum við litið vonleysislega út í augum vegfarenda því fljótlega renndi bíll upp að okkur og kona rak þar út hausinn og sagði okkur að setjast inn. "Þetta er ekki staður fyrir ykkur stelpur mínar". Það var fleira fólk í bílnum og spurði hvar við ættum næturstað? Við sögðum það og vorum svo í snarheitum keyrðar þangað. Ég vona að við höfum haft rænu á að þakka fyrir okkur áður en við drifum okkur inn og skriðum í hjónarúmið, sem við höfðum þessa daga til einkaumráða. Betur væri að borgarbúar nútímans hefðu svona fyrir því að bjarga ungum stúlkum af glapstigum. 

Ég fór bara einu sinni í Vetrargarðinn, en er núna nokkuð ánægð að hafa náð honum í safnið með öðrum stöðum sem nú eru löngu horfnir og gleymdir. Næst kom Þórskaffi, svo Röðull, Hótel Borg og svo sem betur fer Glaubær, áður en hann brann, "og fólkið þurfti að finna sér annan samastað". 


Vegna fjölda áskorana!

Þar sem afkomendur mínir og perluvinir hafa látið í ljós ákveðnar skoðanir, og mótmæla því kröftuglega að ég hefji langskólanám til þess að komast á hverjum sunnudegi í fjöruna á Borgarfirði eystra hef ég ákveðið að una glöð við mitt.   Ég ætla bara áfram að nýta hæfileika mína sem sálusorgari á sama stað og hingað til.  Þar er líka nóg við að fást og mér finnst það gaman.   Í dag vorum við að skipta jólaskreytingar efninu á milli bekkja.   Á morgun er skreytingardagurinn og það er kakódagurinn og líka föstudagurinn 1. des.

Kannski það sé kominn tími til að fara að huga að jólunum? Ég er samt löngu komin yfir það að fara hamförum allan desembermánuð. Ég þarf að halda einn jólafund og fara í eitt morgunverðarboð, sem verður nú reyndar um kvöld í þetta sinn. Svo þarf að halda jólasveinadaginn hátíðlegan með kakósölu í Tryggvaskála. Það er aðallega eitthvað svona félagslegt sem ég þarf að ljúka. Hitt kemur einhvernvegin af sjálfu sér.

Ég hef aðeins kíkt á jólabækur, en ekki haft tíma til að lesa neitt enn. Ég les helst það sem mér finnst spennandi og ákveð svo eftir á hvað mig langar til að eiga. Það er ekkert gaman að safna að sér einhverjum einnota bókum.  Ég heyrði um eina nýlega sem ég las fyrir löngu síðan, þýdd úr ensku. Hún er núna endurútgefin og heitir sínu upphaflega útlenda nafni. En þegar ég las hana áður hét hún "Fýkur yfir hæðir" og var góð. Svo var líka einu sinni bók sem hét og heitir sjálfsagt enn, "Grænn varstu dalur", hana vildi ég alveg eiga.

 


Prestur á Borgarfirði eystra

Ég er búin að fá úrslitin úr prófinu sem ég tók um daginn. Prófinu sem átti að segja mér hvað mér hentaði best að vinna við í framtíðinni. Það kom á daginn að ég er á réttri hillu í lífinu. Stuðningsfulltrúi í skóla fullum af fólki, stóru og smáu. En þar með er ekki sagt að ég eigi ekki fleiri möguleika. Ef mér sýnist svo get ég farið í langskólanám og orðið prestur, það væri kannski athugandi. En þá kæmi sér vel að fá stöðu á einhverjum góðum stað sem byði uppá fleiri möguleika. Ég gæti nefnilega líka orðið fréttamaður eða fararstjóri. Þegar ég lít yfir landið, sem ég þekki orðið ótrúlega vel, held ég að ég myndi velja Borgarfjörð eystri. Ég þyrfti ekki að messa nema annan hvern sunnudag og jarðarfarir eru þar frekar fáar. Þess í milli gæti ég farið með ferðamenn í Loðmundarfjörð, þar þekki ég vel til síðan við fórum þangað með honum Skúla. Verst að þangað er ekki fært nema lítinn hluta ársins. En það er líka hægt að fara í styttri ferðir eða í aðrar áttir. Austurlandið hefur heilmikið að bjóða. Svo þegar enginn er á ferðinni myndi ég leita frétta og senda hvort sem er í blöð eða útvarp. Reyndar sjónvarp líka, ég var sögð hafa leikræna hæfileika. það vantar alla vega tilfinnanlega fréttamann þarna í Bogarfjörð. Svo í frítímanum, eftir messu á sunnudögum, gæti ég farið niður í fjöru að tína steina. Fjaran sú geymir marga gersemina.

Að vera amma

Þegar ég var að spá í framtíðina datt mér aldrei í hug að verða amma. Nú er auglýst eftir ömmum í blöðunum og fást víst færri en þarf. En þrátt fyrir áhugaleysi í æsku er nú svo komið fyrir mér að ég er alvöru amma sex ydislegra barna. Sú elsta vill þó sjálfsagt ekki kannast við að hún sé barn lengur, keyrir um á eigin bíl og náði bóklega prófinu í fyrstu tilraun.

  Þessi helgi fór semsagt að miklu leyti í það að sinna skyldum ömmunnar. Systurnar tvær sem eiga heima í Reykjavík komu og gistu í nótt.  Það þarf ekki mikið fyrir þeim að hafa, sú eldri er sátt ef hún fær aðeins að leika í tölvunni og svo er alveg frábært ef afi nennir að spila við hana Olsen - og tapar. Annars eru þau held ég bæði frekar fyrir það að vinna. Svo bara les hún þykka doðranta, hvort sem er á ensku eða íslensku. Þó maður hefði sex næturgesti eins og hana væri það ekkert mál.

Sú yngri er nú bara nýlega eins árs, það þarf að skipta á og gefa að borða. Svo þarf að fylgjast með hvert hún fer í húsinu, sem hún þarf mikið að skoða. Á tveimur jafnfljótum, en ekki alveg stöðugum ennþá. Hún er alltaf glöð og góð og þegar ég fór með hana til að svæfa, varð það allt öðruvísi en ég man síðast þegar ég svæfði ársgamalt barn í ókunnugu húsi. Hún bara lagðist á koddann og sofnaði. 

Já ég er happin að vera amma "af sjálfu sér", en ekki eftir auglýsingu í Mogganum. Samt er ég viss um að svoleiðis ömmur eru margar góðar, og líka að þannig starf getur gefið miklu meira en bara peningana. Ég gæti kannski stofnað ráðningarstofu fyrir ömmur á lausu? Það eru örugglega margar góðar konur út um allt sem vildu vinna í faginu, en koma sér ekki á framfæri. Ef prófið vísar mér í átt að "ráðningarmálum" ætla ég að skoða þennan möguleika.


Þegar ég var bóndi

Þegar ég var að alast upp í sveitinni hafði ég alveg óskaplegan áhuga á skepnum. Foreldrar mínir voru garðyrkjubændur og við áttum engin dýr. Einu sinni tókst mér þó að veiða villikettling í hlöðu á nálægum bæ. Ég fór með hann heim, en hann var ekki velkominn. Kettir voru aldrei okkar megin við ána, þeir drápu fugla og það var ekki vinsælt.

En á meðan ég var til einskis nýt og lék mér alla daga, (sem var þó ekki nema fram að tíu ára aldri), var ég öllum stundum uppi í Hvammi, þangað var tveggja mínútna sprettur. Þar voru kýr og þar voru hestar. Á öllum mjaltatímum var ég í fjósinu og kunni þar skil á öllu. Ég lærði að mjólka og ég mokaði flórinn. Kálfunum gaf ég líka mjólk úr flösku með túttu. Ef ég hafði ekkert þarfara að gera dansaði ég sömbu fyrir fjósamennina og söng undir um "Dísu í dalakofanum". 

Ætli ég hafi ekki verið tólf ára þegar Jói í Hvammi byggði fjárhús inni á Hveraheiði og fékk sér svo nokkrar kindur. Ég fylgdist spennt með þessum nýjungum í búskaparháttum í Grafarhverfinu og ætlað mér auðvitað að taka fullan þátt í fjármennskunni. En ekki vissi ég , eða grunaði, að pabbi hafði samið við Jóa  um að ég fengi að verða meðeigandi. Með kindunum hans Jóa komu tvær sem pabbi hafði keypt handa mér. Ég varð fjárbóndi á einni nóttu og lífið varð fullkomið.  Næstu ár bjuggum við Jói svo blómlegu félagsbúi þarna á Heiðinni. Ég fór til skiptis við hann að gefa kvöld og morgunn, ég fékk frí úr gullrótagarðinum til að smala þegar þess þurfti og ég vaktaði sauðburðinn á vorin.

Það kom að því að sambýlingur minn fann sér konu, ég var bara krakki, og hann fór til Reykjavíkur að gifta sig eitt vorið á miðjum sauðburði. Þá var ég "aðal" og stóð mig held ég bara vel. Ég fór um miðjar nætur að líta til kindanna, ég tók á móti lömbunum og hjálpaði til ef þurfti. Ég gaf greyjunum sprautu í nárann, ekki man ég nú við hvaða pest það var.  Og á hverju vori rak ég á fjall. Ég verð að segja seinna frá þeim ferðum.

þessi ár átti ég oftast  þrjár til fjórar ær og ég lagði  nokkur lömb inn í sláturhúsið á hverju hausti. En það kom að því að garðyrkjubændur í hverfinu gáfust upp á ða verja garðana fyrir ágengum rollum og þessum búskap varð að hætta. Þá fékk ég inni hjá Geira á Hrafnkelsstöðum fyrir tvær rollur. Hann sá alveg um þær fyrir mig með því eina skilyrði að ég ræki með honum til fjalls á vorin. Og því hélt ég áfram árum saman. Botnurnar mínar voru örugglega margendurnýaðar og á endanum útdauðar þegar ég, þriggja barna móðir, komin fast að fertugu, loksins hætti fjallferðum.


Hvað viltu verða?

Ég fór í próf hjá námsráðgjafanum í gær. Það heitir "áhugasviðspróf" og á að hjálpa manni að ákveða hvað manni hentar best að starfa við. Þetta var nú ekki erfitt, ég átti að segja hvað mér hefði helst dottið í hug að gera, alveg draumóra frá barnæsku og til síðustu uppljómunar. Ég vildi fyrst verða bóndi, og var það líka í nokkur ár þó í smáum stíl væri. En þegar ég stálpaðist og ljóst varð að mér tækist ekki að ná mér í mann með jörð og bú var þessi hugsjón dauðadæmd.

Eftir það kom ýmislegt til athugunar. Þegar ég fékk leiðindaköst, þar sem ég skreið í arfanum í kálgarðinum, fannst mér alveg óskaplega spennandi að fara á síld fyrir norðan. Og svo það sem örugglega væri mest spennandi af öllu, að verða þerna á millilandaskipi.  En foreldrarnir töldu báða þessa kosti í meira lagi varasama fyrir ungar sveitastúlkur. Ég komst nú reyndar á síld, þó síðar væri, og mér fannst það bara gaman. Síldarplanið var þó á eyðifirði austur á landi og allt á kafi í snjó.

Það fyrsta sem í alvöru kom til umræðu að mennta mig til var íþróttakennsla. Ég sendi meira að segja umsókn á Laugarvatn, en var hafnað. Þess vegna fór ég til Noregs og átti þar að afla mér undirstöðumenntunar svo betur gengi að sækja um aftur. Ég kom þaðan með vottorð um að ég væri "íþróttaleiðbeinandi", og það bara nokkuð góður. Ég finn það líka núna í skólanum, í leikfimi, sund og danstímum, að þarna var ég á "réttri hillu"! En ég er þó fegin að ég sótti ekki aftur um á Lv. Þá væri ég núna orðin aflóga íþrk. og komin í skólastofu með bekk á yngsta stigi. Og það er meiri byrði að bera en ég gæti treyst mér í. Miklu betra að vera með ungum kennarastrák í í þróttatímum og taka þátt í því sem mig langar til.

Það var margt fleira sem ég skrifaði á blaðið í prófinu, og svo átti ég að lýsa áhuga mínum og færni á öllum mögulegum sviðum. En ég fæ ekki úrslitin fyrr en eftir helgi, svo ég verð bara að vera þolinmóð og una glöð við mitt þangað til. Hver veit hvað ég geri svo?


"Örninn" í kirkjunni minni

Í sjónvarpsmyndinni dönsku sem sem var á dagskrá sjónvarpsins á gær sá ég ekki betur en aðalbófarnir hefðu aðsetur í stavkirkjunni í Ringebu. Ég hef komið í þessa kirkju, oftar en einu sinni. En mér er ein messan minnisstæðari en aðrar.

Þegar ég var í skólanum í Ringebu fengum við að vera úti á kvöldin, oftast til ellefu minnir mig, en um helgar áttum við að koma heim fyrir kl. eitt. Þetta var svona alvöru heimavistarskóli, með húsverði og allt. En nemendurnir voru flestir nærri tvítugu, svo smávegis frjálsræði höfðum við. Það kom varla fyrir að nokkur bryti þessar reglur, alla vega vissi ég ekki um neinn sem það gerði og vissi ég þó töluvert.

Eitt laugardagskvöld vorum við flest niðri í þorpi, í bíó, hangandi á kaffihúsum eða í heimsóknum í heimahúsum. Ég ásamt vinkonu höfðum verið boðnar í partí hjá krökkum sem við þekktum.  Mér þykir það ennþá ákaflega leitt, en einhvernvegin tókst okkur að verða of seinar heim. Klukkan var orðin hálf tvö þegar við komum á tröppurnar - og það var búið að læsa. Ég reyni ekki að lýsa því hvernig okkur leið, okkur virtust öll sund lokuð. Fyrst reyndum við að henda grjóti í glugga hjá herbergisfélögum, en það varð enginn var við það. Þá urðum við bara að gefa okkur fram - og við bönkuðum hraustlega á dyrnar. Það kom enginn til dyra. Örþrifaráðið, þó við vissum að með því fórnuðum við mannorðinu endanlega, var að vekja vaktmeistarann. ( húsvörðinn) Hann bjó í öðru húsi og kom fúll til dyra eftir nokkrar barsmíðar á hurðina. Hann hleypti okkur svo inn, en var allan tímann grútfúll.  En sagan var ekki öll. Næsta dag kjaftaði hann auðvitað í skólameistarann og málið var tekið fyrir í skólastjórn. Dómurinn sem við fengum var þriggja vikna "husarrest". Það þýðir á finu máli útgöngubann.  Við máttum ekki fara út af skólalóðinni í þrjár vikur. Fimmtán virka daga og tvær helgar.

Svo byrjuðum við að afplána.  Aðrahvora helgina fréttum við að það ætti að skíra lítinn strák, bróður eins vinar okkar. Gátum við nú freistað þess að fá að komast út á meðal manna? Við fórum á fund skólameistara og spurðum hvort við mættum fara í kirkju á sunnudaginn?  Það varð auðvitað að funda um það, en úrslitin urðu þau að við fengjum að fara - í fylgd skólameistarans og líka aðstoðarmeistara!  Ég er ekki frá því að ég hafi séð lítið glott á aðstoðarmeistaranum þegar hann leiddi okkur til kirkju. Ég á teikningu af okkur fjórum á bekk í "Ringebu stavkjyrke", eins og þeir segja þar. Og strákurinn var skírður Jon Grunde.

Ég hef aldrei sagt neinum frá þessu og ég get svarið það að þetta er það versta sem ég braut af mér á öllum minum heimavistarárum og voru þau þó nokkur. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 197661

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband