Dansað í jólafrí

Í dag var generalprufa fyrir danssýninguna stóru sem verður á morgun. Oftar en ekki fara allar svona prufur í skólanum þannig fram að enginn sér nokkra von til að sýning geti tekist sæmilega. Það var eins í dag, þau eiga að vera búin að læra öll sporin og þetta er skemmtilega skipulögð sýning. En þegar svona margir krakkar koma saman í íþróttahúsinu (svona 300) þá fara þau algerlega í flækju og taka ekki eftir nokkrum fyrirmælum. Við getum lítið gert annað en að reyna að halda rónni og biðja þess í hljóði að betur takist til á morgun.
Það verður fullt hús, allir foreldrar boðnir og reyndar bara allir sem hafa gaman af að horfa á marga krakka í einu.
Við höfum líka gaman af þessu, einhvernvegin endar alltaf allt vel. Svo eru bara litlu jólin eftir, seinni partinn á morgun hjá þeim eldri en á miðvikudag í yngri bekkjunum. Svo erum við komin í jólafrí!

Jólagjafir frá vinnuveitendum

Nú er leynivinavikunni lokið og allt pukur búið. Við fengum í dag merki í barminn þar sem við skrifuðum á nafn þess sem við höfðum reynt að gleðja í vikunni. Það kom í ljós að sá sem skyldi gleðja mig var löglega afsakaður - greyið. Hann var veikur til að byrja með en var svo vinnandi annarsstaðar eitthvað líka, svo hann átti lítið samneyti við okkar vinnustað. Gjöfin sem ég fékk í dag og falleg kveðja frá vininum varð mér alger sárabót fyrir stopular kveðjur vikunnar.
Eftir hádegið fórum við í 8. bekk í bíó að sjá "Eragon" og það var bara gaman, góður endir á erilssamri viku.
Nú er verulega farið að styttast til jóla og á hverjum degi ljúkum við einhverjum áfanga í udirbúningnum.
Það er líklega víðast orðin venja að vinnuveitendur gefi starfsfólki sínu jólagjafir. Flestir gera það vonandi af því að þá langar til að gleðja og sumir hafa meira að segja heilmikið fyrir því að vel takist til. Eins og ég hef sagt við sjálfa mig svo oft í vikunni "það er sælla að gefa en þiggja". Hjá hinum ýmsu fyrirtækjum og vinnustöðum eyða yfirmenn gjarnan einu eða tveimur kvöldum saman við að pakka gjöfum starfsmanna og hafa gaman af. Svo keyra þeir glaðninginn út, stundum fjölskyldan, eða það annað fólk sem næst stendur þeim sem gefa.
Í dag varð ég vitni að alveg einstakri aðferð við jólagjafadreifingu til starfsmanna. Hjá fyrirtæki sem hefur starfsstöðvar á nokkrum stöðum, misstórar og misfjölmennar. Allnokkuð stórt fyrirtæki þó. Það var hringt á vinnustaðina frá höfuðstöðvunum og þeim sem svaraði sagt að "þið getið sótt jólagjafirnar á mánudaginn, á tiltekinn stað" Þið ráðið svo hvort þið merkið þær eða ekki, þetta er allt eins! Ekki nóg með það, síminn svaraði ekki á einum staðnum og þá var spurt hvort símsvarandi á nálægum stað gæti ekki skroppið og sagt þeim þar af þessu.
Nú vill svo til að flestir vinnustaðirnir hafa ekki bíl til umráða, en fyrirtækið stóra hefur yfir bílum að ráða, allnokkrum. Það er samt ætlast til að einstaklingar sem gætu verið á bíl í vinnunni, bara einhver, skreppi eftir þassu á bílnum sínum. Þarna vantar finnst mér allnokkuð uppá að gjafir séu gefnar af sönnum jólahug. "Æ - ég má ekkert vera að þessu þið reddið því bara sjálf". Smánarlega aulaleg og satt að sgja bara "klén" aðferð til að "gleðja" fólkið sitt. Eða er ég bara smámunasöm og stressuð í jólafárinu?

Víðikettlingar á jólum

Hvað skyldu margir vita hvað "víðikettlingar" eru? Ég hef verið að segja bekknum mínum frá hinu og þessu sem "einu sinni var". Frá því hvernig jólin voru í sveitinni þegar ég var lítil. En ég hef ekki sagt þeim allt, það var ýmislegt gert á þeim tíma sem ég held að þau myndu alls ekki botna neitt í. Samt var þetta hreint ekki í fornöld, eins og þau halda sum. Þegar ég tala um að ég hafi verið úti að leika mér með eitthvert dót, þá spyrja þau með stórum augum. "Voru það bein"? Nei það voru ekki bein og ég átti heima í venjulegu húsi en ekki torfkofa. Þau átta sig nú reyndar flest þegar ég nefni ártalið, fyrir 50 árum var nú engin fornöld. pabbi hafði mikið gaman af jólaundirbúningnum og nú er ég búin að átta mig á því þó ég vissi það ekki þá að líklega var hann listamaður inn við beinið. Hann gerði listilegar jólaskreytingar löngu áður en þær þekktust annarsstaðar. Hýjasintur voru hans sérgrein, listilega skreyttar skálar með hýjasintum sem hann fékk hjá Skafta vini sínum í Hveragerði. Svo ræktaði hann þær lika sjálfur seinna og kenndi mér. Um miðjan desember fór hann í leiðangur inn í ás og klifraði þar í klettunum til að finna grávíði. Hann klippti greinar og kom með heim. Úti í gróðurhúsi setti hann þær í vatn og eftir nokkra daga fóru þær að lifna. Brumið tútnaði út og þegar það var mátulega til komið tók hann greinarnar og skar utanaf bruminu svo í ljós komu dúnmjúkir "kettlingar". Svo þurrkaði hann greinarnar aftur og þá urðu hnoðrarnir stærri og ennþá mýkri. Þetta notaði hann svo í skreytingar. Ég á mér víðirunna sem ég veit alltaf um og get sótt í þó allt sé á kafi í snjó, sem er reyndar aldrei. Ég bý líka til víðikettlinga fyrir jólin.
það var líka notalegt í gróðurhúsinu upphituðu um háveturinn, þegar bylurinn buldi á glerinu. Þar vorum við að leika okkur í moldinni þegar veður voru of vond til að lítil börn gætu verið úti. Líklega er það með mínum fyrstu minningum, sitjandi á gólfinu í gróðurhúsinu að moka mold í fötu.

Betra er að gefa en þiggja

Nú dugir ekkert annað en að grípa til gamalla innrætinga og kristilegrar meðaumkvunar. Vinurinn minn dularfulli gerði ekki vart við sig í dag! Ég verð að trúa að hann sé illa veikur eða þá ákaflega fátækur. Kannski er hann í þunglyndiskasti vagna óhóflegs áreitis jólakaupmennskunnar. En ég sinni mínum og hef gaman af. Verst hvað ég þarf að vanda mig við að fela mín persónulegu einkenni. Ég get ekki gefið honum neitt sem ég útbý sjálf. Þetta er nefnilega alveg ótrúlega klókur vinur, sem þekkir mig vel. Síðasti fimmtudagurinn fyrir jólafrí, leikfimitíminn frjáls og sundið líka. það var hörkufrost þegar við vorum í lauginni og gufuna lagði upp af heitu vatninu í pottum og laugum Við sáum varla hvert annað þar sem við lágum í heita pottinum. Á morgun förum við í bíó, umbunarferð fyrir þá sem mættu hundrað prósent á fyrstu önn. Eins gott að hér er komið bíó.

Hann er að koma til

Loksins! Hann gaf mér gjöf í dag, vinurinn sem ég var farin að halda að væri ekki til. Hann gaf mér svolítið sem hægt var að borða og það var í íláti sem má nota til að drekka úr - á jólunum. Ég hef nú reyndar ekki mikið stundað drykkju á jólum hingað til, en hver veit hvert þessi langþráði vinur getur tælt mig.

Ég sá í dag auglýsta jólasveinaþjónustu og þá varð mér hugsað til þess að einu sinni fyrir ekki mjög mörgum árum tókum við hjónin að okkur svoleiðis þjónustu. Bara einu sinni. Við tókum að okkur að vera jólasveinar á jólaballi Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps hins forna. Ég get svarið það, "við vorum pöntuð þangað" og fengum alvöru búninga, stígvél og ullarvettlinga og allt. Svo vorum við með gott í poka handa börnunum, gengum í kringum jólatréð og sungum með þeim. Ég var Hurðaskellir og notaði mér það óspart á dyrahlerunum í félagsheimili hestamanna þar sem samkoman var haldin. Þetta varð ekki til einskis, næsta ár fengum við veglegt jólatré að gjöf frá Skógræktarfélaginu.


Ef hann er til

Þessi makalausi "vinur", þá veit ég ekki hvað ég á að gera við hann þegar og ef hann birtist. Ekkert gaf hann mér í dag frekar en í gær. Kannski á ég bara að vorkenna honum? Hann hefur örugglega í dag verið einn þeirra sem fengu fína pakka á borð í kennarastofunni. Kerti, kökur og ýmislegt fleira flæddi þar um allt. En ekkert fyrir mig. En ég er nú samt við bestu heilsu og það er búið að skrifa á öll jólakortin hér á bæ. Foreldrar Unu komu síðdegis að sækja hana og ég frétti að hún hefði verið heldur glöð að komast heim til sín. Það var frekar órólegt í bekknum mínum í dag og líffræðikennarinn var sammála mér um að líklega væri það af því að það væru að koma jólasveinar til byggða og þeir væru svo góðir að gefa þessum elskum ríflega í skóinn! Við erum í áttunda bekk.

Er hann karlmaður eða bara fátækur

Ég mátti svo sem vita það, vinur minn gerði nákvæmlega EKKERT til að gleðja mig í dag. Kannski langar hann ekkert til að vera vinur minn. Það þarf ekki að kosta mikið, eiginlega ekki neitt, að gleðja vinnufélaga örlítið, væri nóg að senda honum miða með hrósi um vel unnin störf. Ég held alla vega að það væri hægt að senda mér svoleiðis miða.
Það gæti líka verið að hann sé karlmaður, það er alveg einkennilegt hvað þeir eru sumir andlausir. Og ef hann á ekki konu til að spyrja ráða má búast við mestu vandræðum. Svo enda þeir með að gera eitthvað algert stórvirki sem konur myndu aldrei hafa efni á svona rétt fyrir jólin. Ég ætla bara að vona að það verði þannig. Ef hann býður mér í mat á Rauða húsinu á föstudaginn er mér alveg sama þó ég fái ekkert annað. Það myndi algerlega ganga fram af liðinu.

Hver er leynivinur minn?

Þegar líður að jólum höldum við hátíðlega leynivinaviku í vinnunni. Það er næsta vika.    Ég veit ekki enn hvern ég á að gleðja og enn síður grunar mig hver muni gleðja mig.     En það er pottþétt að það verða margir glaðir næstu daga. Í samabandi við þessa viku datt mér í hug hvað ég veit lítið um "vini" mína. Ég hlýt að telja þá vini sem heimsækja mig á bloggið reglulega, þeir eru 30 - 50 alla daga. En ég hef ekki hugmynd um hvað þið heitið, ekki nema þessi fimm sem gefa sig reglulega fram. Nú datt mér í hug - af því það er nú svona vika hjá mér, hvort ég fengi ekki aukaglaðning með nokkrum óvæntum og gleðilegum kommentum? Hvað segiði um það?

Ég bara hef allt annað að gera

Helgin var með fjörugasta móti. Ég fékk ársgamalt barn til að passa á fimmtudagskvöld, það er reyndar varla hægt að hugsa sér fyrirhafnarminna barn, en maður þarf þó að hafa hugann við það. Hún Una litla undi sér bara vel hérna, enda lék hún lausum hala um allt hús. Blaðagrindin er tóm núna og Cheerios  ásamt blöðunum um allt eldhúsgólf. Við sváfum saman og það gekk vel, en þegar ég rumskaði var hún annaðhvort þversum ofaná mér eða öfug til fóta. Í gær var svo kakósöludagur kvennaklúbbsins og þar varð ég að vera frá 12 - 18. Afinn sá um Unu á meðan, þau komu reyndar að fá sér föfflu og súkkulaði.

Nú er hún flutt til föðursystur sinnar, ég þarf að vinna á morgun og foreldrarnir koma ekki fyrr en á þriðjudag. En hún var hin rólegasta þegar hún var sótt í kvöld, samt vorkenndi ég henni svolítið. Hvað getur svona lítil sál sagt um hvað henni finnst? Hún er bara eins árs og var nú eiginlega búin að sætta sig við þessa ömmu. 

Ég ætla að fara að taka til í húsinu. 


Hús fyrir 75 krónur

Í dag var tarsanleikur í leikfimitímanum, það er alltaf svoleiðis í síðustu tímunum fyrir jólin. Allur salurinn lagður undir og bekkjunum þremur, 1,8 og 9,blandað saman í eitt allsherjar fjör.  Dúndrandi jólamúsik í græjunum, rosalega gaman.  Svo í sundinu var kertasund, það er boðsund með logandi kerti í hendinni. þarna var líka blandað,            við strákarnir fengum að vera með stelpunum.                                                          Svo í danstímanum var verið að leggja lokahönd, eða fót, á dansana sem á að sýna á danssýningunni stóru sem verður í íþróttahúsinu daginn áður en við förum í jólafríið.

Við enduðum á bóklegum tíma,  krakkarnir eru að vinna jólaverkefni sem er sundurliðað í kafla og einn þeirra á að vera viðtal við eldri borgara um jólin fyrir langa löngu. Þar sem engir eldri borgarar eru að vinna í skólanum fékk ég að fara í þeirra hlutverk.       Einhverjir höfðu þó fundið sér önnur fórnarlömb, svo ég þurfti ekki að svara öllum bekknum. Ég komst að því að jólin heima hjá mér voru lítið ólík því sem nú þekkist.   Við fórum reyndar ekki í stjórnlaust búðaráp fyrir jól, pabbi fór yfirleitt eina ferð til Rvk. en annað var pantað úr Kaupfélaginu. Það var alltaf keyptur heill kassi af hvoru, eplum og appelsínum. En það fengum við líka bara á jólum.    Mamma saumaði auðvitað öll jólafötin, hún var snillingur að sauma. Þess vegna er ég svona léleg, ég þurfti aldrei að reyna mig í því.

Við krakkarnir gátum ekki gefið aðrar jólagjafir en þær sem við bjuggum til sjálf fyrr en Siggabúð var opnuð uppi á bakkanum hinumegin við ána. Þar var selt appelsín og gotterí, gjafavörur og fatnaður.  Ég man þegar við Örn fórum með krónurnar sem við áttum yfir ána til að kaupa jólagjöf handa mömmu og pabba í fyrsta sinn. Við áttum 75 krónur og fljótlega eftir að við komum í búðina til Sigga heilluðumst við bæði gjörsamlega af "veðurhúsinu".  Það var lítið líkan af fallegu húsi, og stóðu karl og kerling í dyragættinni. Ef veðrið var vont kom karlinn út, en kerla fékk að fara út í góðu.

    Annað eins draumahús höfðum við aldrei séð. það kostaði víst örugglega meira en við áttum, en Siggi var svo góður kaupmaður að það var hægt að fá miklu meira fyrir peningana hjá honum en öllum öðrum. Samt sé ég það núna að hann var með "einokunaraðstöðu. Við keyptum húsið fyrir krónurnar 75 og fengum meira að segja appelsín og súkkulaði líka. Siggi sagði nú reyndar að það væri hvorutveggja ónýtt og væri ekki til annars en að henda því.  Svona var hann góður í viðskiptum við lítil börn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 197661

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband