30.12.2006 | 22:41
Andvökunótt í Skötufirði
Þegar ég las bókina um hana Rögnu á Laugabóli rifjaðist upp fyrir mér sumarnótt í tjaldi fyrir vestan. Ég er ættuð úr Ögursveit, þaðan var hann Einar langafi minn og meira að segja frá Laugabóli. En forfeður hans höfðu búið á öðrum bæjum í sveitinni, stundum sjálfstæðu búi, en líklega oftar annarra þjónar. Ég fór í ferðalag vestur, pílagrímsferð, og leitaði ummerkja eftir löngu liðna afa og ömmur. Hafði áður lesið mér svolítið til og vissi ýmislegt.
Á Borg í Skötufirði: Gist í tjald síðsumars, einstakt blíðviðri og kyrrðin alger. En ég gat ekki sofnað. Velti mér fram og aftur í pokanum, hugsaði til hennar Maríu Svarthöfðadóttur langa langa langa langa langömmu minnar, sem dó hér á Borg árið 1836, þá fátæk húskona. Mér fannst allt þrengja að mér og vildi komast út. Renndi lásnum niður, eins hljóðlega og ég gat til að vekja ekki félagana. Þau voru löngu sofnuð.Ég þokaði mér út fyrir skörina, úti var skuggsýnt en þó sá ég móta fyrir kennileitum. Það voru bæjarrústir innan girðingar hjá sumarbústaðnum og aðrar neðan við túnið. Hér var áður tvíbýli, Borg var ekkert kot. Það var stafalogn og alger þögn eins og alltaf um lágnættið. Allt og allir sváfu.
´
Ég sá hana koma gangandi frá neðri tóftunum. Hún fór ósköp hægt og horfði beint fram fyrir sig. Í dökkum fötum, síðu pilsi og treyju, ekki sparilegum, með skýluklút á höfðinu. Hún gekk rakleitt til mín, staðnæmdist svo sem í seilingarfjarlægð og horfði á mig litla stund. Svo brosti hún svolítið. Hún hafði falleg augu, blá stór augu og þau brostu við mér. Henni virtist þykja vænt um að sjá þennan langt að komna afkomanda í túninu hjá sér. Ég áttaði mig strax á því hver hún var, María Svarthöfðadóttir, ég stóð eins og negld niður í jörðina, var viss um að hún myndi fara ef ég hreyfði mig.
Svo fór hún að tala. Hún sagðist vera búin að bíða svo óralengi eftir mér og hvað hún væri fegin að eg skyldi loksins koma. Hún sagði mér frá lífinu á Borg þegar þar var blómlegur búskapur og fjöldi fólks á báðum bæjum. Hún átti aldrei með sig sjálf, þau Einar voru lengst af annarra þjónar, í húsmennsku þegar best lét. Það var lán að þau eignuðust ekki nema þessa einu dóttur, hana Guðbjörgu, nógu var nú róðurinn þungur samt. þau höfðu verið víða áður en komið var að Borg, síðast í Þernuvík i skjóli dótturinnar, sem bjó þar, en skildi svo við manninn sinn. Þá var ekki til setunnar boðið og leiðin lá hingað að Borg þar sem María endaði sína jarðvist. Hún var þá orðin 57 ára gömul og margföld amma, það náðu því ekki allir á þessum árum. Síðan sagðist hún hafa beðið eftir mér. Þó hún eignaðist bara þessa einu dóttur voru afkomendurnir orðnir svo margir að einhver hlaut að lokum að koma hér. Ég stóð jafn frosin sem fyrr. Hvað var hægt að segja við langa langa langa langa langömmu sem var til fyrir 156 árum og átti aldrei þak yfir höfuðið?
Að síðustu þakkaði hún mér fyrir komuna, sneri frá og gekk aftur til baka að tóftunum. Dökkur klæðnaðurinn samlagaðist rökkrinu og svo sá ég bara grjótið úr föllnum veggjunum-----------
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2006 | 16:42
Er þá einu "málinu" færra?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.12.2006 | 21:21
Jólin liðin og dagurinn lengist
Þó ekki sé bjart út að líta núna er það viðurkennd staðreynd að dagurinn í dag er lengri en sá í gær og enn batnar það á morgun. Þetta er það sem mér finnst best við jólin, myrkrið fer að víkja fyrir birtunni. Samt hef ég aldrei verið þjáð af því sem kallað er skammdegisþunglyndi, það er bara einhvernvegin all miklu betra í björtu.
Í þetta sinn voru bókajól hjá mér, meiri en nokkru sinni áður held ég. Ég er búin að lesa um hana Rögnu á Laugabóli. Ragna er kona sem á ekki marga jafningja og sagan er ákflega vel skrifuð og áhugaverð í alla staði. Nú er ég byrjuð á Ólafíu, það verður þyngri róður sýnist mér, en textinn er samt vel læsilegur. Hún er bara svo rosaleg þykk, eins og reyndar margar aðrar bækur, þær hafa stækkað og fitnað umtalsvert á síðustu árum.
Í gær fórum við í bæinn, aðeins í eina búð að skila, en svo í heimsókn að skoða jólin á Hraunteig. Á leiðinni heim var rosalega svört þoka á heiðinni, en engan sáum við þar þó í vandræðum í þetta sinn. Það fóru flestir rólega. Í Mogganum í gær var góð grein í "Velvakanda" frá góðum flóamanni, Valdimar Guðjónssyni. Hann skrifaði um það sem margir vita en fáir tala um.
Hvað hugsunarháttur umferðarráðsmanna og annarra sem eiga að fræða og reka áróður í umferðarmálum er óskaplega mikið aftan úr fornöld. Í þessum ráðum og nefndum, eins og reyndar víðar sitja gaddfreðnir karlar sem virðast hafa áhuga á því einu að hanga sem lengst í embættunum þó þeir séu löngu útbrunnir og úr sambandi við umheiminn. Eins og Valdimar sagði "hverjum dettur í hug að táningarnir sem eru að nálgast eða nýkomnir með bílpróf séu að hlusta á Gufuna"? En það er sá eini vettvangur sem "ráðin" nýta til að koma sínum boðskap á framfæri. Krakkarnir fara í bíó, þar á að sýna áhrifamiklar auglýsingar. Ef þau hlusta á útvarp, sem ég efast þó um að sé mikið, eru það bullstöðvarnar, en þar heyrist aldrei orð um hættur í umferð. Þar á að senda út stuttar tilkynningar. Of stuttar til að þau nái að skipta um rás.
Það verður að fá til þessara hluta ungt fólk sem krakkarnir taka mark á, og gleymið því að það séu helst einhverjir íþróttamenn, unglingarnir sem lenda í vandræðum hafa ekki áhuga á íþróttamönnum. Það væri líka vel hægt að sýna árlega í tíunda bekk áhrifamikla filmu um afleiðingar bílslysa. Ræææs! Hreinsið til í nefndum og ráðum, það verður að koma á hugarfarsbreytingu og algerri uppstokkun í þessu forpokaða "ráðakerfi".
Og þá gæti ég komið að Neytendasamtökunum, en læt það bíða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.12.2006 | 20:19
Ég kemst innum bréfalúgu
Alltaf er maður að uppgötva eitthvað nýtt. Í dag komst ég að því að mér eru líklega flestir vegir færir. Ég átti von á bréfi með póstinum, bréfi sem ég þurfti að fá og beið eftir. Rétt fyrir hádegið fór ég fram í forstofu og sá mér til ánægju að pósturinn var kominn, ég þurfti ekki að bíða lengur. En þegar betur var að gáð sá ég að það höfðu orðið mistök, Sigga var líklega í fríi og einhver ókunnugur hafði borið út. Bréfin sem ég fékk voru þau sem áttu að fara í næsta hús, ekkert til mín. Nú var ég í slæmum málum, ég vissi að nágrannarnir voru ekki heima í dag og þar inni var örugglega pósturinn minn. Ég ákvað samt að skila því sem ég hafði fengið og velti því fyrir mér á leiðinni þangað hvernig ég ætti að fara að því að komast yfir það sem ég átti hjá þeim. Ég ætla ekki að lýsa því neitt frekar, en mér tókst að ná í bréfið mitt og reyndar annað til. Bæði með greinilegri áritun.
Ég vona bara að Sigga verði ekki lengi í burtu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.12.2006 | 23:26
Jólaböll fyrir fullorðna
Nú er hálfleikur hjá mér, bara ein stórfjölskylda í heimsókn á morgun og svo er hægt að snúa sér að öðru en mat og kökum. Ég hef reyndar farið hóflega í kræsingarnar, en samt getur orðið nóg af veislumat. "Allt er best í hófi" eins og alkunna er. En það er jóladagskráin utan eldhúss sem ég hef verið að hugsa um og hef nokkrar áhyggjur af.
Á árum áður þegar samkvæmislíf var í mestum blóma á Suðurlandi var alltaf fullt að gera á hverju kvöldi milli jóla og nýárs. Þegar ég var að byrja mitt útsláelsi tók ég þátt í uppfærslu leikrita í sveitinni. Á hverju hausti var byrjað svona í nóvember að æfa eitthvert leikrit undir stjórn alvöru leikstjóra. Lárus Pálsson, Jón Aðils, Helgi Skúlason, og Jón Sigurbjörnsson, eru nöfn sem Hrunamenn þekktu vel á þeim tíma. Á annan eða þriðja í jólum var svo frumsýnt og haldið ball á eftir. Þetta var líkt í sveitunum í kring. Leiksýning og svo ball, eða bara ball. En það var aldrei á tveimur stöðum í einu. þessu var svo snilldarlega fyrir komið að við gátum farið á ball hvert einasta kvöld alla vikuna. Byrjaði t.d. í Aratungu á annan, svo Flúðir, Borg, Hvoll, Hellubíó, Brautarholt eða Árnes. Áramótaball í Selfossbíó. Þangað fórum við reyndar ekki, Selfoss var ekki vinsæll staður hjá sveitamönnum.
Svo var haldið áfram eftir áramótin og endað á grímuballi í Þjórsárveri. Það var sko vit í þessu og alveg óskaplega gaman. Þetta voru alvöru böll, með góðri hljómsveit. Sennilga var þessu dreift svona skynsamlega á kvöldin til að nýta bandið sem best. Það var yfirleitt hljv.sv. Óskars Guðmundssonar á öllum stöðunum. Nú er ekkert um að vera. Krakkagreyin flækjast um göturnar, eða verða að fara í bæinn til að skemmta sér. Og svo eru þetta engar "skemmtanir" hangandi með bjórglas á yfirfullum bar.
Það veit enginn orðið hvað BALL er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.12.2006 | 16:51
"Ég er enn í eldhúsinu, eitthvað að fást við mat"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.12.2006 | 00:07
Jólin byrjuðu í kvöld
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.12.2006 | 16:53
Þegar Litla-Laxá breyttist í stórfljót
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.12.2006 | 22:02
Dansað í allan dag
Nú var skólinn búinn í dag og eftir hádegið unnum við í eilífðarverkefninu "talning úr skoðanakönnun", en við vorum duglegar og lukum því snemma og fengum þá að fara heim.
Nú var líka komið að því að búast sparifötum fyrir "Litlu jólin", sem voru í kvöld.
Aftur mætt í skólann 18.30 og þá fyrst í stofujól þar sem ég sagði mínum bekk, og öðrum sem heimsótti okkur, jólasögu sem fjallar um skelfilega reynslu mína fyrir fjöldamörgum árum. Það var þegar ég tólf ára gömul kom fyrst á heimili tilvonandi eiginmnns, en þá vissi ég auðvitað ekki hvað framtíðin bæri í skauti sínu. Svo skiptumst við á pökkum, en þá var farið að heyrast til hljómsveitar fyrir utan dyrnar. Þar var komin hljómsveitin "Uppþot", sem spilaði fyrir okkur í klukkutíma. Fyrst gengum við i kringum jólatréð og sungum viðeigandi lög, nokkuð hástöfum. En svo var alvöru popp- rock síðasta hálftímann, þá var ég nú reyndar sest við hliðarlínuna. Nú er komið jólafrí, ég fer samt á morgun útí skóla þar sem við starfsmenn fáum okkar litlu jól. Góðan mat í hádeginu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.12.2006 | 17:07
Ég fór illa að ráði mínu
Ég var heldur óheppin til að byrja með en fékk loks á miðvikudegi rauðvínsglas með mynd af jólasveini og fullt af súkkulaðirúsínum. Þetta var góð gjöf. Það má að vísu ekki borða sælgæti í skólanum, en ég fékk að geyma glasið hjá ritaranum og einhvernveginn tókst okkur að láta rúsínurnar hverfa á næstu dögum. Svo leið fimmtudagur og allt fram á föstudagsmorgunn. Þá fékk ég aftur gjöf, nú tvær litlar rauðvínsflöskur til að hella úr í glasið þegar rúsínurnar væru búnar, sem þær nú voru. En það er eins með rauðvín og rúsínur, hvorugt má láta sjást í þessari góðu stofnun, og í þetta sinn datt mér ekki í hug að mynda samsæri með ritaranum. Þetta varð ég að fara með heim. Við fórum svo í bíó eftir hádegið á föstudag og ég nennti ekki að burðast þangað með boka með víní og leirtaui. Ég geymdi bara gjafirnar mínar í skólanum til mánudags.
Þegar ég svo fór heim í gær setti ég allt saman í plastpoka áður en ég labbaði heim. Ég fór ekki beina leið, ég þurfti að koma við í bankanum og svo pósthúsinu til að sækja pakka sem ég hafði fengið tilkynningu um.
Ég rölti Bankaveginn sæl og glöð yfir rigningunni sem var næstum alveg búin að eyða hálkunni af stéttunum.
Ég er óskaplega ánægð með rigningu og hlýindi á þessum árstíma. Ég sveiflaði pokanum í annarri hendinni en hafði skólatöskuna á hinni öxlinni, það var að byrja að skyggja, eða hafði kannski aldrei birt? Allt í einu brá mér við - sársaukafullt glamur í gleri! Ég hafð óvart slegið pokanum utaní ljósastaur sem hallaði sér þarna út yfir gangstéttina, eða var ég bara of nærri kanntinum. Satt að segja hafði ég verið að hugsa um eitthvað allt annað en flutninga á brothættum hlutum, ég var að pæla hvað ég ætti að taka mikið út í bankanum til að eyða í jólagjafir.
Staupið fína með myndinni af jólasveininum var brotið í pokanum. Ekki þó alveg í maski, en ónothæft með öllu. Jæja skítt með það, rauðvín hefur áður verið sopið af stút og flöskurnar voru báðar heilar. Ég hélt áfram í bankann og þegar þar var komið varð ég auðvitað fyrst að fara og ná mér í númer. Nú er enginn maður með mönnum í banka nema hann hafi númer, samt var ekkert að gera. Ég tók af mér vettlingana, og þegar ég togaði þann seinni fram af fingrunum var ég svo óheppin að pokinn með víni og glerbrotum fylgdi með. Hann hrundi með átakanlegu brothljóði á grjóthart marmmaragólfið í Landsbankanum! Þegar svona hendir mann á almannafæri eru það ósjálfráð viðbrögð að líta í kringum sig, Hvað sáu þetta margir - og heyrðu. það voru blessunarlega fáir að sækja sér peninga í bankann. Ég snarbeygði mig um leið og ég skannaði umhverfið þreif upp pokann og hélt svo á honum eins og hverjum öðrum poka án þess að líta ofaní. Ég lét semsagt eins og ekkert hefði skeð, en innst inni var ég að velta því fyrir mér hvort mikið rauðvín væri að leka á glansandi gólfið í bankanum?
Það tók ekki langan tíma að fá krónurnar, furðu margar þó, og svo flýtti ég mér út og leit ekki einu sinni niður á leiðinni til að skoða rauðan lækinn sem vafalaust elti mig út á tröppurnar. Þegar út var komið gat ég kannað ástandið í pokanum. Glasið var auðvitað í maski, en flöskurnar báðar heilar. Guði sé lof, það var ekki mikið tjón. Leynivinurinn hafði sagt mér að svona glas kostaði bara 200 krónur í "Tiger", og það er ekkert nauðsynlegt að drekka rauðvín úr glasi með mynd af jólasveini.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.8.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 197657
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar