12.1.2007 | 20:37
Mér er sama um "vinsælt blogg"
Ég sá hér á blogginu að einn góður maður, vel ritfær og skemmtilegur, tilkynnti vinum og öðrum lesendum að hann væri búinn að fá sig fullsaddan af því að skrifa pistla sem enginn kynni að meta og aldrei kæmust á vinsældalstann.
Synd og skömm. En er þetta nú ekki heldur mikil viðkvæmni? Erum við að þessu til að toppa eitthvað? Í upphafi byrjaði ég í bransanum til að fylgjast með skrifum barna minna og barnabarna. Þó að uppeldisstörfum mínum eigi að heita lokið vil ég gjarnan vita hvað þau láta frá sér á prenti, hvort þau eru sæmilega ritfær og hvernig stafsetningarreglurnar gagnast þeim. Svo finnst mér líka bara gaman að skrifa, ég geri þetta fyrir mig sjálfa og er nokk sama um vinsældalistann. Ég les líka frá nokkrum einstaklingum sem ég þekki ekki neitt, bara af því mér finnst þeir skemmtilegir. En ég hef ekki gert neitt í því að auka hróður pólitíkusa, þeir eru upp til hópa hundleiðinlegir. Að einum undanskildum þó, en það væri held ég sama um hvað hann Bjarni Harðar skrifaði, hann er bara góður, hvort sem hann skrifar um hallærislegan Framsóknarflokkinn eða fyrri tíðar unglingavanda í Tungunum.
Svo er heldur ekkert víst að hann sé alvöru pólitíkus, það reynir ekki á það fyrr en eftir næstu helgi. En ég vona þó að honum takist að ná þangað sem hann ætlar sér. Þeir sem stunduðu sín bernskubrek og unglingaóknytti í uppsveitunum eru ekki þjakaðir af "flóamennsku"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.1.2007 | 20:40
Fagnað af heilum hug
Enginn dagur er öðrum líkur. Að vísu var jafn kalt í dag og í gær, en það var meiri snjór og þess vegna meiri læti í frímínútum.
Það er verið að kenna okkur orðflokkagreiningu í íslenskutímunum núna. Málfræði hefur aldrei verið mín sterka hlið, ég held að mér tækist ekki að ná hárri einkunn ef ég tæki próf í 8. bekk. Einu sinni lærði ég þetta allt en man ekkert af því núna. Ég má víst ekki segja að það sé hægt að komast bærilega af án þess að kunna allar þessar reglur og án þeirra sé hægt að vera þokkalega talandi og skrifandi. En "mér" hefur til dæmis aldrei langað til að gera nokkurn skapaðan hlut.
Ég hef stundum tekið próf með krökkunum og oft staðið mig ágætlega. Ég man að ég var ánægð með mig þegar ég fékk 9,5 í dönsku í 9. bekk fyrir fáum árum.
Ég var í dag á fundi lykilmanna í verkefninu "Olweusar áætlun gegn einelti", sem er í gangi í skólanum. Á svona fundum er margt til umræðu og mikið spjallað um allskonar vanda sem upp getur komið í stórum skóla. Ein leið til að bæta samskipti barna og reyndar fullorðinna líka er að fara í allskonar leiki, hlutverkaleiki og líkalmstjáningu. Við enduðum í dag á svoleiðis leik. Við stóðum í hring og áttum að sýna hin ýmsu viðbrögð með látbragði. Gleði, sorg, feimni og fögnuð. Það voru ýmsar leiðir farnar þegar að "fagninu" kom. Það var klappað hoppað og brosað stórt. Við vorum stödd í hinum ýmsu ólíku aðstæðum. þegar röðin kom að mér fann ég ekkert nærtækara en að vera liðsmaður á fótboltavelli - og félagi minn var að skora glæsimark. Ég hljóp til hans og faðmaði að mér, skellti honum svo flötum á vellinum og lagðist ofaná hann og lét höggin dynja á honum. Áhorfendur samfögnuðu innilega. Ég fagnaði þarna góða stund en svo varð leikurinn að halda áfram og ég staulaðist á fætur ofanaf fórnarlambinu, sem lá eftir á gólfinu, ómeiddur þó. Hann er reyndar ekki óvanur íþrótta"fagni", fílefldur og frábær körfuboltakappi. Hann er líka sundkennarinn okkar í 8. bekk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.1.2007 | 21:33
Eins og mánudagar eru
Það var kalt að labba í skólann í morgun en ég hafði vit á að fara í kuldabuxurnar og setja á mig almennilega húfu. Jólaljósin eru víðast horfin af húsunum, þó eru nokkrir sem láta þau loga og sjálfsagt margir sem ætla að taka seríurnar niður í vor. Ég hef þó séð að það vill gleymast alveg og svo verður fjárans vesen að fá ljós á þær aftur um næstu jól. En það er þeirra vandamál.
Dagurinn byrjaði á enskutíma, það er alltaf gott í ensku, við höfum góðan kennara. Ég er svo inngróin í þennan bekk að mér finnst stundum að ég hugsi alveg eins og krakki. Ég skoða kennarana með þeirra augum, en vona þó að mér takist að vera réttu megin við borðið þegar það á við. Aðeins hefur borið á púðurlykt á göngum þessa daga eftir jólin, ekkert mikið þó, og hefði víst hér áður fyrr þótt heldur lítið til koma. Það er margt sem er öðruvísi nú en þá og ég get ekki sagt að mér finnist unglingar vandamál, þau eru bara flest í mjög góðum málum.
Eftir hádegið datt ég inní bekk þar sem kennarinn tafðist. Þetta var í einum af yngri bekkjunum og ég hafði ekki verið með þeim áður. Í svona tilvikum fer ég oft í leik með krökkunum á meðan við bíðum og það gerðum við í dag. Leikurinn felst í því að ég á að geta uppá nafninu þeirra og reyna svo að komast að ætt og uppruna. Hér áður fyrr var þetta enginn vandi, ég þekkti alla með nafni og mömmurnar og pabbana líka, og afa og ömmur. En nú er þetta orðið erfiðara, það hafa svo margir flutt hingað á síðustu árum að það er hreint ekki sjálfgefið að ég hafi unnið með mömmu eða viti úr hvaða sveit hann afi er. Svo eru líka fjölskylduflækjur sem þarf að vara sig á. Samt gekk nokkuð vel. Flest nöfnin þekkti ég, en það voru víst þrjú eða fjögur sem áttu uppruna annarsstaðar á landinu, jafnvel í útlöndum.Þá verður maður að finna eitthvað skemmtilegt til að segja um þann ákveðna stað. Ég hafði unnið með nokkrum ömmum og mömmum, ein amman var með mér í handbolta fyrir óralöngu. Þau "tóku" mig þó í einu tilfelli, það var gestur í bekknum í dag og þar var ég mát. En þá fékk ég bara að vita hvaða skóla hann væri í og gat gert gott úr því. Við náðum að ljúka við alla áður en kennarinn kom, hann hafði víst þurft að leysa mikinn og langan vanda.
Þegar ég kom heim voru þrestirnir mættir á baklóðina, þeir voru að tína uppí sig reyniberin sem ég gaf þeim á jólunum. Það var svo hlýtt um jólin að þeir komu aldrei þá, hafa haft nóg í sig annarsstaðar. En nú er komið frost og snjór og ég gaf þeim meiri ber. Það er nóg til í skúrnum, allir útsæðiskassarnir fullir af berjum sem ég tíndi í haust. Það er gott að vera þröstur í austurbænum
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.1.2007 | 18:07
Ráðskona óskast - í skóla
Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að segja já þegar ég var beðin um að taka að mér ráðskonustörf í skólanum í sveitinni. Áður hafði ég unnið við garðyrkju heima og reyndar oft sett upp kartöflurnar fyrir mömmu. Líka kunni ég að smyrja franskbrauð og búa til baunasalat. Svo hafði ég verið einn vetur í Skálatúni, sem starfsmaður, ekki í eldhúsi, og eitt sumar uppvaskari á hóteli í Noregi. Ég var nítján ára.
Líklega var það norska hótelið sem varð þess valdandi að leitað var til mín. það voru ekki margar stelpur í sveitinni sem höfðu unnið á hóteli í útlöndum!
Hvað um það í einhverri óráðsvímu sagði ég já og var fáum vikum seinna farin að elda mat fyrir 12 - 15 krakka og skólastjóra í skólanum á Flúðum.
Þetta var heimavistarskóli og svona tíu til tólf krakkar voru þarna alla vikuna og fóru svo heim um helgar. Aðrir gengu heim, eins og ég hafði sjálf gert fáum árum fyrr, en þau voru í mat í hádeginu. Ég hafði herbergi fyrir mig og það hafði skólastjórinn líka. Mitt var pínulítið, rúm fyrir dívan, smáborð og einn stól. Krakkarnir voru í fjórum herbergjum, tvö fyrir stelpur og tvö fyrir stráka, allt á sömu rishæðinni og ósköp þröngt.
Dagurinn byrjaði með hafragraut, sem ég var bara ágæt í. Svo var hádegismatur, síðan miðdagskaffi ( smurt í allt liðið), kvöldmatur, og endaði svo með mjólk og kexi fyrir svefninn. Allar matvörur varð ég að panta úr Kaupfélaginu á Selfossi og þær komu svo með mjólkurbílnum. það var ekki símapöntun, ég varð að fylla út ákveðinn pöntunarseðil. Nokkuð var um það að bændur leggðu mat með börnunum í heimavistina. Kartöflupoki frá einum og saltkjötstunna frá öðrum. Hrossakjöt, slátur, bjúgu, egg og rófur gat líka verið í farangri krakkanna þegar þau mættu á mánudögum. Allt annað en brauð varð ég að baka, kanilsnúðar voru vinsælt viðfangsefni man ég. Skólastjórinn var eini kennarinn, fyrir utan handavinnu hjá stelpum það kom kona til þess einu sinni í viku. þessi skólastjóri var líka atkvæðamikill í menningarlífi sveitarinnar svo hann var varla heima nokkurt kvöld. Ég var þess vegna yfirleitt ein með heimavistrkrakkana á kvöldin. þessir krakar voru það sem nú er kallað "unglingar", tíu til fjórtán ára gömul. Fjórtán ára voru þau fermd og búin með skyldunám. Þau voru alltaf góð við mig og ég reyndi að vera þeim sæmileg fóstra. Ég man ekki eftir að okkur leiddist.
Mér gekk held ég alveg bærilega að halda á þeim holdum þennan vetur og auðvitað á ég það mikið að þakka henni móður minni sem ég gat alltaf leitað til ef vandræði skullu á. Mér er minnisstætt að á laugardögum þegar heim var haldið var einn strákur alltaf með poka með sér þar sem í var afgangurinn af grjónagrautnum sem þau höfðu fengið í hádeginu. Hann sagðist aldrei fá svona góðan grjónagraut heima. Nú er hann umsvifamikill atvinnurekandi í sveitinni, svo hann hefur komist vel til manns af öllum þessum graut. Þá var skóli fram að hádegi á laugardögum, svo grauturinn og ég gekk svo frá og tók til þegar allir voru farnir heim.
Líklega má segja að ég hafi átt frí á sunnudögum - og auðvitað fór ég á ball á laugardagskvöldum. Það er allt hægt þegar maður er nítján ára.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.1.2007 | 22:02
Bjartsýni Björn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.1.2007 | 21:56
Bjarni Harðar - gerir það sem honum dettur í hug
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.1.2007 | 21:43
Aumingja Þráinn
Ég er langt komin að lesa bókina hans Þráinns Bertelssonar. Þetta eru minningar, alveg frá frumbernsku. Mér finnst magnað hvað hann man og ekki síður vegna þess að fæstar eru minningarnar ánægjulegar. Ég hef stundum haldið að undirmeðvitundin lokaði gjarnan á það vonda. Það er alveg með ólíkindum hvernig farið var með drenginn í skólunum sem hann átti leið um. Hefði ég verið ráðskona í einhverjum þeirra vona ég bara að ég hefði staðið mig betur en þarna tíðkaðist. Ég held bara að ef ég mætti Þráni núna á götu yrði ég að taka mig á svo ég ekki faðmaði hann að mér og segði að ég skyldi vera góð við hann, þó ég vinni í skóla. En kannski væri bara allt í lagi að gera það. Hann á það skilið.
Það er orðið langt síðan ég var ráðskona í barnaskólanum á Flúðum, sennilega bara á svipuðum tíma og þessi saga segir frá. En ég held að ég hafi verið frekar góð ráðskona, alla vega í samskiptum við börnin. En ég var líka litlu eldri en þau og ekki mjög þjökuð af forræðishyggju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.1.2007 | 22:04
Þeir urðu úti á Skorarheiði
Ég er enn að lesa. Á meðan ég las Ólafíu á stofuborðinu var ég með "Annað tækifæri" eftir Mary Higgins í rúminu. Hún er búin líka, var ágæt "í rúmi" en skilur ekki mikið eftir. Nú er ég byrjuð á "Einhverskonar ég" eftir Þráinn Bertelsson. Þessar tvær eru báðar útgefnar fyrir einhverjum árum, en voru ólesnar hjá mér. Þegar ég var að lesa um hana Rögnu á Laugabóli um daginn vissi ég ekki það sem ég veit núna, að hún er frænka mín. Það hlaut að vera þar sem ættin hennar hefur búið þarna lengi og hann langafi minn átti þar heima lítill drengur. Í þessari bók um Rögnu er sagt frá eilífum áföllum ömmu hennar, Friðrikku, sem missti mennina sína hvern af öðrum í skelfilegum slysum.
Þegar við gengum á sumardegi yfir Skorarheiði fyrir fáum árum töluðum við um mennina sem urðu þar úti skömmu eftir aldamótin fyrri. Annar þeirra var Ólafur, eiginmaður hennar Friðrikku. Þeir bjuggu á sama bæ í Hrafnfirði og höfðu farið gangandi til Furufjarðar, en urðu úti á heimleið. Við minntumst þessa þegar við vorum stödd á háheiðinni og sáum engin kennileiti vegna þoku. Ekkert okkar hafði áður farið þessa leið og við gerðum okkur vel grein fyrir því að þarna myndi ekki gott að vera á ferð í vetrarveðrum.
Ágrip af kirkjumyndasögu - sumar 2001.
...Öðru hvoru hægðum við á til að kasta mæðinni, annars gengum við þetta viðstöðulítið. Eftir brúna kemur aðalbrattinn uppá heiðarbrún og þegar þangað kom áttum við að sjá Skorarvatnð. En þar uppi var þokan þéttari en neðra svo útsýni var ekki mikið. Götunni héldum við enn og sáum vatnið litlu síðar. Skaflar við bakka sem sumir bráðna aldrei. Áfram og áfram og nú fór að halla undan, niður í Furufjörð. lengi vel sáum við þó ekki neitt, þokan allt í kringum okkur. Hér hafa menn orðið úti og ef einhversstaðar eru draugar og tröll er næsta víst að hér gætu þau unað sér vel. Það sást þó loks til vörðu á vinstri hönd og þær urðu fleiri, en gatan var ekki samferða þeim. Var nú um stund ráfað í stefnuleysi um holt og hóla til að finna götu sem fylgdi vörðunum og það endaði með að allur hópurinn yfirgaf götuna og tók á rás á vegaleysu út með hlíðinni. Yfir læki var stiklað á steinum og hoppað á þúfnakollum á milli. En nú sáum við greinilega niður að sjó. Við sáum líka hvar kirkjan stóð og húsið stóra þar hjá. Við mynum komast alla leið...........
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.1.2007 | 16:31
Ólafía - fleiri spurningar en svör
Ég er búin að lesa bókina um hana Ólafíu. Heilmikið afrek finnst mér. Saga þessarar konu er merkileg um margt, en mér finnst að þarna sé frekar á ferðinni saga kvennréttindabaráttunnar á Íslandi. Sú barátta hófst fyrir fyrri aldamót og lauk svo með stofnun og síðar andláti Kvennalistans um það bil hundrað árum síðar. Nú þurfa konur á Íslandi ekki að berjast fyrir neinu?
Fyrri hluti bókarinnar snýst nærri engöngu um þetta. Þorbjörg fóstra Ólafíu hefur verið einskonar ofurkona, sem hagaði sér eins og karlmaður í flestu. Hún hefur ekki getað unnt Ólafíu að taka saman við strákinn Einar og á þessum árum létu stúlkur víst oftast að ráðum foreldranna. Svo lengi sem sú gamla lifði sýnist mér Ólafía hafa farið í flestu að vilja hennar og Þorbjörg beitti henni óspart fyrir sig í baráttumálunum. Efti að fóstran dó og Einar var giftur á svo Ólafía ekkert hlutverk í lífinu, en finnur sér athvarf hjá Guði og þeim sem eru hjálpar þurfi. Bókin hefði mátt vera helmingi þynnri, það er útilokað að lesa hana í rúminu. Mér fannst hún eiginlega meira í anda skýrslu fræðimanns en ævisögu konu, upptalning á ræðum og fundum hefði getað verið helmingi styttri. Ég hefði heldur viljað lesa sagnfræðilega skádsögu um þessa konu.
En þarna komst ég að einu sem ég vissi ekki áður. Langafasystir mín var nunna! þetta hefur mínum nánustu láðst að segja mér. Steinunn systir langafa frá Vatnshorni í Skorradal, lífsglaða vel menntaða stúlkan gekk í klaustur. Ég les nú líka á milli línanna þar. Hún hefur ekki viljað láta að vilja föður síns þegar kom að hjónabandi. Auðvitað hefur hann ætlað henni ákveðinn karl alveg eins og þegar hann útvegaði syni sínum hreppstjóradótturina af Reyðarfirði, sem áður hafði verið send í hússtjórnarnám í Danmörku. Hvort það hefur fylgt henni við afhendingu að hún hafði verið send úr landi til að gleyma æskuástinni, auðnuleysingjanum sinnisveika með skáldagrillurnar efast ég um.
Svona var þetta bara á þessum árum. Feðurnir komu sér saman um heppileg hjónabönd, en þau ungmenni sem ef til vill voru vel gefin, menntuð og víðsýn létu ekki alltaf að stjórn. Það fólk varð þá að sjá um sig sjálft og fann sér sumt óvenjulegar leiðir í lífinu.
Bókin um Ólafíu er fróðleg um margt, ekki spennandi, of löng, og ég sit uppi með fleiri spurningar en svör. Það vantar í hana sálina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.1.2007 | 14:22
Bjart yfir árinu nýja
Einu sinni heyrði ég það, og trúi að sé rétt, að bjartviðri á nýársdag vísi til ársins sem framundan er. Við eigum von á góðu ári. Það var líka heiður himinn í gærkvöldi þegar við fórum að kíkja á brennur. Tunglið, nærri fullt, lýsti upp landið og skyggnið var svo gott að við sáum alla leið niður í Þorlákshöfn. Við fórum nefnilega út fyrir bæinn og sáum þá brennur allt í kring. Á þessum tímamótum verður mér oft hugsað til fyrri áramóta. Ég man áramótin´53 -´54. Við borðuðum alltaf heima, en fórum svo upp að Hvammi þar sem við eyddum kvöldinu í allskonar leikjum og svo kakói og kökum. Þegar áramótin nálguðust var sungið og Helgi spilaði á orgelið. "Stóð ég úti í tunglsljósi" og fleiri söngva sem tengdust áramótum. Svo loks "Nú árið er liðið". Um þessi sérstöku áramót var ég eitthvað óvenju viðkvæm og þegar kom að þessum söng um árið sem var að kveðja og myndi aldrei nokkurntíman koma aftur var mér allri lokið. Ég faldi mig á gólfinu á bakvið stól þar sem ég svo grét það fögrum tárum að þetta vesalings ár væri að eilífu horfið.
Ég man líka árið sem pabbi keypti flugeldana tvo. Þeim skaut hann í loftið eftir matinn áður en við fórum að Hvammi. Sennilega svo allir gætu séð, stákarnir voru svo litlir að þeir sofnuðu löngu fyrir áramótin. Við lágum í gluggunum og fylgdumst með pabba undirbúa skotin, hann var allt of lengi að því, við biðum svo lengi að ég var alveg orðin í spreng, hafði víst gleymt í spenningnum að undirbúa þessa merku athöfn sem skyldi.
Á endanum fór svo einn í loftið, enginn venjulegur flugeldur. Reyndar vissi ég ekkert þá hvernig "venjulegur flugeldur" leit út, hafði aðdrei séð slíkan fyrr. En þetta var stjörnuglitrandi hvít súla sem þaut upp frá jörðinni hæst upp í himininn. Með miklum hvin reis hún eins og eldstólpi upp til stjarnanna á himninum og var svo horfin. Ég var alveg að pissa í mig. Skyldi hann verða eins lengi að undirbúa hinn? Ég varð á endanum að gefast upp, hljóp fram á klósett, en heyrði á leiðinni þrumuna af þeim seinni þegar hann hófst á loft, örugglega var hann ekki síðri þeim fyrri. Auðvitað fannst mér slæmt að missa af síðari hálfleik, en ég sagði pabba aldrei frá því. Ég held að henn hefði orðið leiðari en ég að frétta af því að áhorfandi hefði misst af svo stórkostlegu atriði sem aldrei yrði endurtekið.
Okkur tókst í nótt að halda út til kl. 5.30. Í nærri 40 ár höfum við komið saman eftir kl. 12.00, nokkur hjón sem byggðum þetta hverfi í upphafi. Við hittumst í einhverju húsinu með öll börnin og sátum svo saman fram undir morgun. Á þessari nótt var gamla árið krufið og það nýja skipulagt. Ekki bara í okkar einkamálum hedur höfðum við ákveðnar hugmyndir um bæjar og landsmálin og töldum jafnvel að okkur væri fært að hafa þar nokkur áhrif á. Börnin léku sér saman og stundum fóru þau stærri út að tína prik á næstu lóðum. Undir morgun voru þau oftast sofnuð hingað og þangað um húsið. Við bárum svo heim þau sem minni voru, en drógum hin í svefnrofunum heim í rúmin sín. Þau sváfu þó sjaldan lengi því spenningurinn fyrir prikasöfnuninni var mikill. Að verða fyrst út þegar birti til að ná í fleiri prik en hinir.
Við vorum fyrst 6 hjón sem nú hefur fækkað niður í 4. Nú er komið skipulag á þessar samkomur, röðin gengur í hring og við förum öll í ákveðið hús þegar við komum úr heimsóknunum hjá börnunum okkar sem eru orðin stór og bjóða foreldrunum í sín hús á þessu kvöldi. Þegar allir eru mættir förum við út og skjótum upp flugeldunum sem skylda er að taka með sér. Nú höfum við engin börn að bera heim, en okkur tekst alltaf að sitja til morguns og við erum engu síður en áður fullkomlega fær um að leysa vanda og finna leiðir til betra gengis hjá bæ og ríki.
Ég vil þakka Rangæingum og öðrum forráðamönnum sveitarfálaga á Suðurlandi fyrir að leyfa barnabörnunum okkar að taka þátt í áramótaböllunum sem haldin eru í félagsheimilum þeirra. Mín fór á Hvolsvöll annað árið í röð og segir að þar sé gott fólk. Því trúi ég vel og alla vega standa þeir sig betur þar en við þekkjum í okkar bæ. Hér er ekkert gert fyrir ungt fólk sem langar til að skemmta sér og er orðið of stórt til að fylgja foreldrunum í heimahús eða tína prik í morgunskímunni.
Gleðilegt nýár og kærar þakkir fyrir það gamla.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.8.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 15
- Frá upphafi: 197655
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar