Bjútífúli Breiðafjörður

Ferðin 1995 var farin í vesturátt. Við fórum af stað snemma morguns og vorum komin í Dalina. Komum að Hvammi þar sem ég tók mest eftir reynitrénu stóra og fallega. Ég þekki nefnilega afkomendur þessa trés. Þegar séra Kjartan Helgason fór frá Hvammi  að Hruna, nærri aldamótunum 18 - 19, tók hann með sér litlar reynihríslur  og plantaði þeim í uppsveitinni góðu. þau tré gáfu svo af sér fleiri og heima hjá mér í sveitinni áttum við nokkur tré sem alltaf var talað um að væru ættuð ú Dölunum. 

Nú var komið að áfanga sem var nokkuð spennandi. Að kirkjunni í Dagverðarnesi. Við byrjuðum á að villast framhjá afleggjaranum, en vorum þá svo "heppin" að rekast á mann sem sagðist vera þarna uppalinn og vísaði okkur á uppgróinn vegarslóða.  Við lögðum af stað, en fljótlega kom í ljós að þetta var hin versta ófæra og hafði sennilega ekki verið farin síðustu tuttugu ár. Við snerum við og fundum sjálf skárri leið.  "Heimamaðurinn" hefur sennilega flutt úr sveitinni fljótlega eftir ferminguna, þegar hann fór út í kirkjuna síðast og þá trúlega ríðandi eða á hestvagni.

Þennan skárri veg fórum við svo góðan spotta en tókum að lokum það ráð að skilja bílana eftir og ganga. Dagverðarnesið er að mestu hólmar og nes sem liggja út frá landi  fram í Breiðafjörðinn.  Þegar við komum að kirkjunni var þar fólk fyrir og þau höfðu lykil svo við gátum skoðað inni líka. Ein kona var þarna sem sagðist fædd á staðnum og hún fræddi okkur heilmikið.  þarna er altaristafla sem er hið mesta listaverk og aldeilis eldgömul.

  Áður en við snerum til baka fengum við okkur svala og súkkulaði í túninu sem einu sinni var. Hér hefur varla verið búið stóru búi, en sjórinn hefur gefið mikla björg. Við gengum svo aftur að bílunum og lögðum af stað til lands. Ekki höfðum við lengi farið þegar við komum fram á sjávarkamb nokkurn sem við ekki mundum að hafa séð á útleiðinni. Þarna hafði áður verið þurr vegur, en aðfallið hafði sett hann á kaf.

Ekki vildum við bíða þess að fjaraði út aftur, og ekki vissum við heldur hvort enn ætti eftir að hækka í. það var ekkert annað að gera en reyna að komast yfir.  Eins og stundum áður var Hemmi á undan og nú lét hann bílinn sinn blessaðan, sem hann hafði ætlað að ferðast á næstu viku, vaða útí Breiðafjörðinn.  Þetta var ekki djúpt og við komumst klakklaust yfir og til lands.  Þetta kvöld reistum við tjald á Skarðsströndinni við bæinn Á, þar sem bóndinn hafði útbúið notalegt lítið tjaldstæði og nefndi Ögn.     Þar var svo haldin sviðaveisla eins og alltaf er á fyrsta kvöldi ferðar. 


Úrhelli og skriðuföll

Í sömu ferð - 1994. Við höfðum farið af austfjörðum í rigningu og veðrið versnaði enn, Við komum á Djúpavog og þar stóð til að tjalda, en veðrið var orðið slíkt að það var útilokað. Við fórum á hótelið og báðumst gistingar. Ekki nokkur leið, allt fullt. En það var hringt fyrir okkur á sveitabæ sem ekki var langt í burtu og þar var okkur tekið fagnandi.   Á Hamri í Hamarsfirði.

Þar gátum við valið okkur herbergi og eldunaraðstaða var ágæt.Fyrir utan vegg hafði verið reistur tjaldvagn í skjóli við húsið og þar svaf fólk, en við fengum uppbúin rúm. þegar við vorum að elda kvöldmatinn heyrðum við í útvarpsfréttum að þjóðvegur 1 væri lokaður v/ skriðufalla í Kambaness og Þvottárskriðum, við vorum föst þar á milli. Nóttin leið og veið héldum af stað næsta dag, enn rigndi. þegar kom að Þvottárskriðum var verið að ryðja og eftir nokkra stund komumst við þar yfir áfallalaust. Skyggni var ekkert og það var eins gott, við sáum ekki fram af hengifluginu niður í sjóinn.

Við tókum kirkjumyndir á leiðinni þrátt fyrir að það sæist varla útúr linsum, og er mesta furða hvað sést af kirkjum á þeim myndum. Í hádegisfréttum var sagt að þjóðvegur 1 væri enn lokaður, nú vegna vatnavaxta í Suðursveit. Við komum að Brunnhól á Mýrum og tókum myndir, það virtist aðeins vera að birta til í vestrinu. 

Áfram var haldið og við komum að Kolgrímu, hún var í foráttuvexti, en flæddi þó ekki yfir veginn. Við tókum þar myndir og nú var komið ágætt veður og sá til sólar. Nú töldum við okkur hólpin en það varð nú aldeilis ekki raunin. þegar við komum fyrir eina beygju og yfir hæð blasti við okkur endalaust vatn sem okkur sýndist að sameinaðist sjónum fyrir utan. Og svo sem 300 metra spotti af veginum var á bólakafi. Bílar voru á báðum bökkum en enginn vogaði sér útí. Stikurnar sem áttu að sýna vegarstæðið stóðu naumlega uppúr.  Hemmi var á undan með tjaldvagninn OKKAR og var nú allt útlit fyrir að hann myndi berast til hafs með flóðinu, ef þeim sem stóðu á bökkunum tækist að mana Hemma útí.

Enginn virtist ætla að gefa sig í að fara á undan, voru þó margir á stærri bílum en við. En þeir sögðu að þetta væri örugglega allt í lagi. Auðvitað lét Hemmi ekki lengi mana sig og skellti sér útí. þar fór fjögurra ára tómstundastarf og ótaldar krónur. (Vagninn er heimasmíðaður) Ég tók mynd á eftir honum til að hafa eitthvað í höndunum með minningunum.  En það flaut ekkert upp og yfir komst hann. Þá vorum við næst og létum ekki lengi reka á eftir okkur. Mitt á milli stikanna sem stóðu uppúr að 1/3, hægt og rólega svömluðum við yfir og gekk bara vel. Svona upp á miðja hurð. Svo komu hinir einn af öðrum og gekk bara vel. Þetta var ekkert mál. 


Hundurinn sem ekki dó

Við vorum á ferð um norður og austurland. Höfðum komið á Kópasker þar sem engin kirkja er, en við fundum þar eitthvert hús sem við töldum vissara að skoða betur. Við komum á pósthúsið og konan þar sagði okkur að þetta væri leikskóli.  Okkur fannst hann nokkuð kirkjulegur í útliti, en það skrifast á arkitekt sem margir hér sunnanlands kannast við. Hann teiknaði líka Fjölbrautaskóla Suðurlands. 

Nú var strjálbýli framundan. Hemmi var á undan og dró vagninn, við skiptumst alltaf á að draga, einn dag hvor. Brátt komum við að Leirhöfn, sem áður var meiri athafnastaður en nú er. Við sáum þó lífsmark þar á túni við veginn, tveir karlar og hundur. Skyndilega tók hvutti á rás og gerði áhlaup á Hermann, Toyotuna og tjaldvagninn. Hemmi sá við árásinni og vék aðeins frá, en við sem vorum á eftir, sáum skyndilega hvar hundsspottið tókst á loft og lenti síðan á veginum, þar sem hann lá svo sem dauður væri. Hemmi stansaði og snaraðist út og karlarnir yfirgáfu heyskapinn og hlupu á vettvang. Þegar að var gáð reyndist hundurinn vera með lífsmarki, en sennilega við dauðans dyr. Þarna var líklega að hefjast átakanleg kveðjustund. Ekki bætti úr skák að í árásinni hafði honum heppnast að bíta í dekkið á vagninum og sprengja það. varadekk höfðum við með og ekki annað að gera en skipta um.

Við stumruðum yfir okkar ónýta dekki, en bændurnir yfir sínum deyjandi hundi, og hugsaði sjálfsagt hver sitt.  þeir voru dálítið frá okkur á veginum svo við sáum ekki hvernig dauðastriðið fór fram. Að stundu liðinni tóku þeir voffa og lyftu inní Landroverjeppann sinn, hann skyldi trúlega jarðsettur heima við. Ekki yrtu þeir á okkur eða spurðu hvernig farið hefði með dekkið, þeir voru eiginlega  langt frá því að vera vinsamlegir, sem kannski var von. Þeir létu þó svo lítið að hægja aðeins á þegar þeir keyrðu framhjá okkur og við gátum þá litið innum gluggann á hræið. Lá þar þá ekki hvutti hinn brattasti, að vísu dálitið móður, en annars virtist hann vel frískur. Með örlitla skeinu á hausnum og gott ef ekki glott við tönn, þar sem hann leit til þeirra sem bjástruðu við að ná dekkinu undan vagninum.


Kirkjusókn á röngum forsendum

Árið 1992 tókum við hjónin þá ákvörðun að taka myndir af öllum kirkjum á Íslandi áður en ævi okkar yrði öll. Forsagan var sú að við höfðum ferðast töluvert um landið, en sjaldan farið um ókunnar eða afskekktar slóðir. Eiginlega höfðum við rúntað hringveginn samviskusamlega hvert sumar frá árinu 1974. Með þessu uppátæki myndum við þurfa að fara í allar sveitir á landinu þó þar væri hvergi malbiksspotta að finna. Kirkjulegur áhugi var ekki meiri en gerist hjá flestum Íslendingu. Við höfðum bæði verið skírð og fermd, við giftum okkur í kirkju og þar voru börnin skírð. Lítið meira, utan við nauðsynlegar jarðarfarir. Ég hafði reyndar í barnæsku fylgt mömmu í kirkju alla sunnudaga sem messað var, hún var í kirkjuórnum. Kannski fékk ég þar fullnægt minni messuþörf fyrir lífstíð.

Aftur til ´92. Við  fundum okkur ferðafélaga, önnur hjón sem auðvelt var að tæla til undarlegra uppátækja sem þessa. Okkur fannst öllum skynsamlegt að byrja á þeim kirkjum sem voru langt í burtu og erfitt var að komast að. Þær sem voru hér nær máttu bíða þangað til við yrðum miklu eldri og brnabörnin gætu jafnvel keyrt okkur að þeim.

Við fórum eina langa ferð á hverju sumri. Stundum náðum við mörgum í einni ferð, en sumar ferðir voru farnar fyrir eina eða tvær kirkjur. Við áttum tjaldvagn með svefnplássi fyrir fjóra, laust tjald á milli, en aldrei fór þar nokkur maður í vitlaust rúm. Á kvöldin las ég fyrir þau kvöldsögu, einn dag í einu af ferðasögu ársins á undan. 

                             Við notuðum vagninn öll árin. Lengstu ferðirnar fóru upp í 8 eða 10 daga og það komu þau veður að varla var hægt að opna vagninn, en aðeins tvisvar sinnum þurftum við að leita í hús.

það tók okkur tíu ár að ljúka verkefninu, líka þeim kirkjum sem eru hér nærri og í Reykjavík. það var ekki alltaf einfalt mál að komast að takmarkinu. Við fórum á sjó, með ferjunni til Grímseyjar, leigðum okkur spíttbát á Húsavík til að fara í Flatey á Skjálafanda,  með Baldri yfir Breiðafjörðinn og með honum Má útí Papey.  leigðum báta á Ísafirði til að fara í  Aðalvík og Grunnavík. þar var svo löng ganga, eins og þegar við fengum bát til Hrafnfjarðar þaðan sem við löbbuðum svo í Furufjörð. 

Að ógleymdum honum Skúla á Borgarfirði eystra, sem fór með okkur í ógleymanega ferð á jeppanum sínum í Húsavík og Loðmundarfjörð. Hann er það eina rétta ef fólk vill ferðast þar um og fræðast í leiðinni. 

Ég ætla á næstunni að birta hér nokkra kafla úr ferðasögu áranna tíu. Svona rétt til að sýna ykkur hvers má vænta í ferðum utan malbiks á Íslandi.


Það var einu sinni verra

þegar veðrið er svona kalt - og hvítt verður mér hugsað til vetrarins sem ég var fóðurmeistari í hesthúsinu. Ég var heimavinnandi að mestu, tók bara allar aukavaktir sem buðust í Fossnesti og var eftir árið með meiri tekjur en þær sem voru í fullri vinnu.        En ég var heima flesta morgna og gat þess vegna farið í hesthúsið að gefa. Karlarnir sem voru með mér í húsi voru allir í vinnu og Kobbi gamli á sjúkrahúsi.

Guðmundur var lítill og ég dró hann með mér, nema veðrið væri svo vont að ekki væri smábarn út setjandi. þá fór ég með hann í geymslu í næsta hús. þá voru húsin í hverfinu full af góðum konum.         Já ef veðrið var svo vont, og það var oft þennan vetur. það var svo mikill snjór að ekki var nokkrum bíl fært að hesthúsunum í margar vikur. Við urðum bara öll að ganga, og skaflarnir voru jafháir húsunum. Ég man einn morgunn, það var blindbylur. Ég komst með G.K. í næsta hús og lagði svo af stað en sá ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég þekkti leiðina vel svo engin hætta var að ég villtist og ég komst alla leið. Þegar ég var að berja og skafa snjóinn frá dyrunum á hesthúsinu heyrði ég einhvern barning við hliðina á mér, við næstu dyr. Það voru svona þrír metrar á milli. Ég þreifaði mig eftir húsveggnum í áttina og rakst þá á Magga Hákonar sem var að brjótast inn í sitt hús. Við höfðum verið samferða alla leiðina en sáum hvorugt til hins.    Þá var sko almennilegur bylur.


Gettu betur næst

Það verða alltaf einhverjir að tapa, við F.S.U. erum dottin út. En það kemur ár á eftir þessu og gengur bara betur þá. Nú er reyndar "skólinn minn" að keppa  og óljóst um úrslit.        Þeir vita ekki að huðna er "geitarkona". Borgarholtsskóli hefur verið minn uppáhalds síðan ég var þar sjálf í námi. Svo er ég svo heppin að eiga þar frænda sem hefur séð um að gefa mér boli frá öllum keppnum. Við höldu með Borgó.                   Ég er hætt að forðast bloggvini, hef hingað til látið börnin mín nægja, en er búin að komast að því að ég ræð við fleiri. Ekki ætla ég samt að safna þeim kerfisbundið eins og sumir gera, en þeir sem lesa pistlana mína mega gjarnan gera vart við sig. 

það er enn skítakuldi, ekkert að marka þessar spár sem lofuðu okkur minkandi frosti.   En það verður bara að hafa það, sólin hækkar á lofti hvern dag og styttist í að hún fari að bræða snjóinn.

Það styttist líka í þorrablótið og prófkjörið og ferðina til Leeds.                                  Það er alltaf eitthvað gott framundan.

Davíð og Sigmar eru góður dúett. Davíð reyndar hefur komið mér á óvart í öðrum útvarpsþætti, hann er alveg einstaklega vel gefinn og skemmtilegur.                       Einu sinni hélt ég að hann gæti ekki verið neitt meira en skemmtilegur.                Svona getur maður gert sér rangar hugmyndir um fólk.                                           Og nú fór illa fyrir mér, Borgó tapaði. Þá fæ ég engan bol þetta árið, en eins og þeir sögðu, "við komum tvíefld að ári". 


Landsbankinn og ég

Í dag skrapp ég út eftir hádegið, ég þurfti aðeins að komast í bankann og svo bað ritarinn mig að taka með bréf á pósthúsið. Þetta varð þá einskonar "vinnuferð".

Það er ósköp gott að komast aðeins út, en það var kalt svo ég klæddi mig vel.              Fór í flíspeysuna, snjóbuxurnar og svo úlpuna og vettlingana. Það sem mér leiðist mest við þennan kulda er allur þessi klæðnaður, það tekur svo mikinn tíma að koma sér í þetta allt. En það þjálfast eins og annað og ég endaði með að reima á mig kuldaskóna. Svo labbaði ég af stað. Þetta er örstutt og ég gat líka stytt mér leið með því að fara yfir bankatúnið. Nú er víst enginn maður í bankanum sem vinnur með höndunum, ekkert hafði verið mokuð slóð frá bílastæðinu að húsinu. Mín vegna var það allt í lagi, ég í mínum kuldaskóm og snjóbuxum. En ég gæti trúað að pilsklæddar bankameyjarnar í fínu skónum hafi ekki verið kátar þegar þær ruddu hér slóðina í morgun.

Ég byrjaði á að fara á pósthúsið og sneri svo til baka og í bankann. Þar var erindið mitt fljótafgreitt. Ég hélt ekki á númerinu nema svona tvær mínútur, þá var komið að mér. Þegar ég var að fara út aftur og steig yfir þröskuldinn vafðist mér einhver fjötur um fót og einkennileg tilfinning fór um lærin. Ég leit niður og sá þá að snjóbuxurnar voru að síga niður um mig. Fjandans smellan hafði gefið sig. Ég stóð á tröppum Landsbankans með klofið niðri við hné.

Nú vill svo til að ég vinn í skóla, í 8. bekk, og ég var fljót að hugsa til þess að svona úlit er hreint ekki óvenjulegt þar. Ég var meira að segja svo "kool" yfir þessu að mér datt ekki í hug að gá hvað margir sætu í bílunum sem var raðað í stæðin á móti tröppunum. Ef einhverjir voru máttu þeir alveg sjá hvað ég fylgi vel tískunni í 8. bekk.

Ég greip lauslega í buxnastrenginn sem var kominn niður fyrir rass og hélt upp um mig brókinni á meðan ég staulaðist niður tröppurnar.  Niður að jólatrénu stóra sem stendur þar enn. Annað merki þess að enginn vinnandi maður er í bankanum eða hvað?       Hver á að henda jólatrénu? Eða á að nota það næsta ár líka?                                  Jæja þarna í skjóli við jólatréð sem gleymst hefur að fjarlægja girti ég mig í fulla hæð áður en ég labbaði svo aftur til vinnu minnar í skólanum.

Það er spurning hvort ég á að fara að nota heimabankann? 


Matarverð lækkar ekki af EVRU

Þetta var átakalítil helgi. Allt undirbúið fyrir vitlaust veður sem lét svo ekki sjá sig.

Fuglarnir nutu lífsins og sungu meira að segja morgunsöng í trjánum eins og miður maí væri. Sá grái lét ekki sjá sig, en svartþröstur myndarlegur kom í hans stað. Sá vildi ekki taka þátt í gleðinni við hlaðborðið heldur kom hann öðru hvoru, náði sér í vænan brauðbita og fór með hann afsíðis. Ekki þó lengra en svo að hann gat fylgst með öllum hinum og náði í meira þegar honu sýndist forðinn fara minnkandi.

Ég nota svona helgi vel. Það þarf ekkert að gera og þess vegna get ég gert allt mögulegt. Tók til í skrifborði og skúffum, fór í gegnum möppur, henti og raðaði upp á nýtt.    Prentaði út myndir og kom þeim á sinn stað. Á meðan var þvottavélin að dunda smávegis og ég tók svo við því sem hún skilaði frá sér.

Í fréttunum áðan var talað við einhvern mann, sem hélt því fram að "mjög líklega myndi matarverð á Íslandi lækka ef evran næmi hér land".  Ég kann ekki að gefa frá mér í tölvu nógu kröftugt vanþóknunarorð sem gæti lýst minni skoðun á því.  Það myndi fara alveg eins og þegar krónan var skorin niður. Allt verður svo æðislega ódýrt! Við Íslendingar erum nú ekki betur gefin en svo. Það sem nú kostar 100 kr. myndi þá væntanlega eiga að kosta 1,12 evru eða svo. Þá segjum við "Vá! kostar eiginlega ekki neitt", kaupum tvö. Og kaupmennirnir hækka vöruna af því þeir sjá tækifærið og við erum svo vitlaus.

Þetta fór svona í "krónumálinu"  og myndi verða alveg eins í "evrumálinu".  Ég ætla bara að vona í lengstu lög að það mál verði aldrei til.


Það geysar stríð

Það átti að vera veisla hér á bakvið húsið í allan dag. Ég gaf fuglunum allt sem ég átti best. Brauð, epli og fullt af reyniberjum.                                                                  þetta byrjaði nokkuð vel. það komu nokkrir snjótittlingar, þrestir og svo he------ starrarnir sem reyndu þó að haga sér skikkanlega. Nokkrar dúfur voru svo að koma og fara og krummar tveir krunkuðu í trjánum en létu kræsingarnar í friði. Það er svolítið skondið að fylgjast með hröfnunum sem nú eru orðnir þéttbýlisgestir hérna. það virðist ekkert lengur að hafa í gogginn við ströndina. Í Hólmaröst er ekki lengur verkaður fiskur og fólk er jafnvel að hreinsa rusl og hræ úr fjörunni. Þeir flögra um bæinn og leita sér ætis og verður líklega nokkuð vel ágengt í kringum skyndibitastaði og ruslatunnur.  Svo eru þeir að reyna að sitja á trjágreinum,með heldur hlálegum árangri. Þeir hanga á öspunum en halda þar engu jafnvægi, reyna samt alltaf aftur.

Þegar veislan hér á bakvið stóð sem hæst birtist allt í einu óbðinn gestur. Gráþröstur blandaði sér í hópinn, og hann kom ekki aldeilis sem kurteis gestur heldur var hann með frekjulæti. Hann renndi sér eins og orrustuflugvél ofaná hópinn svo allt varð í uppnámi. Í tvo klukkutíma hefur hann með frekjulátum og vargagangi rekið í burtu hvern einasta fugl sem reynir að nálgast. Hann sendir þeim líka tóninn með einhverskonar gaggi, líkast því sem hann væri hæna. Ekki gefur hann sér samt tíma til að éta neitt. þegar hann er búinn að reka frá fer hann upp í næsta tré og bíður eftir að einhver reyni að komast að krásunum. Þá gerir hann árás. Bölvaður vargurinn.

Einu sinni átti ég hvellhettubyssu sem ég notaði til að fæla starrana frá þegar þeir voru orðnir of margir. Ég er búin að týna henni, enda sýnist mér á kauða að hann myndi ekki láta hræða sig langt í burtu.  Satt að segja veit ég ekki hvað er til ráða?


Nú má hann snjóa

Í morgun fór ég í búð og keypti inn til tveggja vikna. Það snjóar enn og snjóar meira.  En min vegna er það allt í lagi, það má fenna fyrir bílskúrinn og það má blása og skafa sem aldrei fyrr. Ég bara klæði mig í meiri föt og labba í vinnuna, eins og ég geri reyndar alltaf. Ef þetta veður stendur lengi get ég bara komið við í Bónus í heimleiðinni, og jafnvel í ríkinu líka.

En svona má ég ekki segja, ég hugsa bara um sjálfa mig. það er fullt af fólki sem verður að komast sína leið, jafnvel langa leið og þá er ekki gott að allt sé ófært.             Þrestirnir eru á bakvið hús að éta reyniber, ætli þeir séu ekki hissa að finna ber á miðjum vetri?  Mér finnst lítið af góðum fuglamat í búðunum. Helmingurinn af því brauði sem keypt er hér á bæ endar í tætlum úti í snjónum.                                   Einu sinni fengu fuglarnir haframjöl, en svo voru þau boð látin út ganga að það væri stórhættulegt. Haframjölið myndi tútna út í maganum á greyjunum og að endingu steindrepa þá. Ég hef nú mínar efasemdir um þetta. Í hádeginu fæ ég mér alltaf yogurt með múslí útí. Mikið músli. Og það er að mestu haframjöl og svo smá rúsínur.              Í meira lagi saðsamt, en ég er ekki sprungin enn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.8.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 197654

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband