25.1.2007 | 21:00
Hvers vegna allt þetta vesen?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.1.2007 | 21:38
"Wuthering Heights"
Ég er búin með bókina og var ekki lengi að. þetta er ein af þeim sögum sem halda manni við efnið og vakandi fram á nótt. Og ég á hana sjálf. Ég les venjulega svona klukkutíma áður en ég sofna, en nú fór ég fram úr sjálfri mér. Samt hafði ég lesið hana áður og fátt kom mér á óvart.
Næst ætla ég að ferðast yfir Ameríku þvera með Einari og Ólafi. Mig vantar eina bók, til að eiga. "Grænn varstu dalur" heitir hún og ég hef lesið hana en langar til að eiga - alltaf. Ég hef ekki séð hana í búðum, sennilega er hún ekki til nema hjá fornbókasölum. Ég er vandlát á bækur til að eiga. Fæ lánað í bókasafninu eða hjá einhverjum öðrum. Mig langar bara til að eiga bækur sem ég get lesið aftur og aftur.
Ég er ánægð með veðrið núna. þarf ekki lengur að taka tíu mínútur á morgnana til að klæða mig og svo er ekki einu sinni hálka. Járnin get ég skilið eftir heima og get farið í Bónus á heimleiðinni án þess að fótaburðurinn minni á skaflajárnaðan hest.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.1.2007 | 21:29
Þegar ég var í boltanum
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.1.2007 | 20:29
Einstakt lán að það var ekki snjór
Enn í ferðinni 1996. Við fórum frá Reykjum í rigningu og héldum norður á Skaga. Tókum myndir af Hvammskirkju og Ketu. Við tókum mynd af Hofskirkju í rigningu og þungum skýjum niður í miðjar hlíðar. Síðan fórum við á Skagaströnd og var nú rok og rigning og heldur ókræsilegt útlitið á kántríhátíðinni, sem virtist reyndar vera fokin og flædd til hafs.Við byrjuðum á að taka kirkjumynd en fórum svo að leita að næringaraðstöðu.
Við fundum yfirgefið hátíðartjald í miðju þorpinu. þar fórum við inn með leyfi sjoppufólksins handan götunnar. Þarna borðuðum við nestið standandi upp á endann, á meðan rokið og rigningin lamdi tjaldið að utan. Ekki dvöldum við þarna lengur en þurfti og fljótlega vorum við búin að yfirgefa kántríbæinn, eiginlega án þess að hafa komið þar við. Við fórum svo sem leiðin lá í Hrútafjörð. Vikum þar af leið og fórum til norðurs og svo yfir Laxárdalsheiði í Dali. Á þeirri leið var aur og drulla, rok og rigning og útsýni ekkert.
Við komum í Búðardal og þar rigndi. Ókum svo út Skógaströnd í slagveðri. Tókum mynd af Breiðabólsstaðarkirkju, gegndrepa. Komum svo að Narfeyri, þar sem kirkjan stendur úti á túni - rennblautu. Hermann beið þá í bílnum uppi á vegi og fékk engan frið fyrir umhyggjusömum ökumönnum, sem vildu ólmir aðstoða hann í vandræðum. Það var verið að tilnefna fyrirmyndar ökumenn helgarinnar í útvarpinu. En Hemmi var ekki í neinum vandræðum, bara búinn að fá nóg af bleytu þennan dag.
Í Stykkishólmi fórum við beint á tjaldstæðið. Skelltum upp tjaldi í bullandi rigningu, elduðum pylsur og borðuðum af bestu lyst. Þá stytti upp.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2007 | 22:12
Á Reykjaströnd
Við höfum oft gist á Reykjum. Þar höfum við aðgang að húsi og þurfum ekki að reisa tjald. Sviðaveislur höfum við haldið þar margar og við höfum komið þangað í allskonar veðri. Rigningu og þoku svo ekki sést til sjávar en oftar í sumarblíðu.
Við höfum farið í gönguferðir í fjöruna, þar sem hvítir steinar skolast á land með öldunni. Gengið í stórgrýtinu til Glerhallavíkur, en þar eru steinar sem eru frægir í öllum heiminum. Við höfum dorgað við ströndina, en aldrei fengið bröndu.Við höfum dregið saman rekavið og kveikt bál og setið við það og horft til Drangeyjar.
Á hásumarnóttum sest sólin aldrei, hún kemur aðeins við sjávarflötinn en rís svo aftur og þá er kominn nýr dagur. Tindastóll er fyrir ofan og þar er sagt að finnist óskasteinar. Einu sinni sáum við óskastein, það var á háfjöru, við sáum hann úti í sjónum skammt frá landi. Hvítur steinn, svo stór að engann höfðum við stærri séð. Við ákváðum að taka næst með okkur snæri og binda utanum mig svo ég gæti vaðið útí sjóinn og sótt hann. þegar við komum næst var þar enginn steinn, samt var hann svo stór að engin alda átti að geta fleytt honum í burtu. Ég hefði heldur aldrei komið honum að landi.
Við höfum farið í heitu laugina hans Grettis, setið þar tímunum saman og fylgst með Óðinshanafjölskyldunni leika sér á tjörnunum í mýrinni. Við höfum rekið rollurnar úr túninu, og við höfum horft á brúna folaldið leika sér í kringum hana mömmu sína.
Það er gott að búa á Reykjum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.1.2007 | 21:27
Í kaffi hjá Helga á Merkigili
Ferðin árið 1996 hófst síðdegis á laugardegi og var ekið nærri viðstöðulaust norður í Vatnsdal. það var farið að dimma þegar við reistum tjald og fórum að sofa eftir kvöldsöguna. Við heyrðum í útvarpsfréttum næsta dag að aurskriður hefðu fallið í Vatnsdalnum og vatnsveðrið um nóttina hefði verið meira en elstu menn mundu. Við urðum einskis vör.
Við komum að Varmahlíð rúlega 10, áðum þar stutta stund en lögðum svo af stað til messu í Ábæjarkirkju. Leiðin fram sveitina var greiðfær, en heldur torfarnari eftir að komið var yfir brúna á Jökulsá vestri við Goðdali. Og eftir að komið var í Austurdalinn og yfir brúna þar var hin leiðasta torfæra. Þó gekk allt að óskum til að byrja með. Það er töluverður spölur fram að kirkjunni. Eftir svona 1/3 af leiðinni sauð á Subaro. Það var drepið á og beðið smá stund en síðan haldið aftur af stað. Þá sprakk á vinstra framdekki. Líklega lent á slæmum steini og loftið hvissaði úr svo stóð á felgunni.
Það var ekki annað að gera en skilja greyið eftir og fá far hjá Hemma. Við hefðum svo sem getað fengið far með einhverjum öðrum því nú var Ábæjarvegurinn líkastur Laugaveginum, bíll við bíl á leið til messu. Og sólin skein hátt á himni, eins og sagt er að hún geri alltaf þegar messað er í Ábæ. Kirkjan er pínulítil, tekur um 30 manns, en þarna voru um 300 gestir þennan dag. Við tókum auðvitað kirkjumyndir, það var aðalerindið.
Eftir messuna var öllum boðið í kaffi heima á Merkigili, Helgi bóndi þar bauð alltaf kirkjugestum heim. Okkur grunaði ekki þá að þetta væri í síðasta sinn sem hann stæði þar fyrir veitingum, hann lést veturinn næsta. Ég sá hann bara í þetta eina sinn en fannst eftir heimsóknina að ég hefði alltaf þekkt hann.
Við höfðum skipt um dekk á Subaro og héldum nú út á Sauðárkrók þar sem við fundum dekkjakall sem dæmdi dekkið ónýtt og seldi okkur nýtt. Svo fórum við út á Reykjaströnd, að Reykjum, þar sem við komum okkur fyrir í bústaðnum og héldum hangikjötsveislu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.1.2007 | 14:59
Ökuníðingar - birtum númerin
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.1.2007 | 13:53
Dagurinn eftir þorrablótið
Ég er samt löngu vöknuð og ágætlega frísk. Þetta var fínt blót, ég er samt ekki þorramatarfíkill, borða ekki súrt eða kæst. Það er fólkið sem ég hef mestan áhuga á.
Allt mögulegt fólk kemur þarna, fólk sem maður hittir kannski ekki á hverjum degi. Gamlir vinnufélagar, unga fólkið sem fyrir fáum árum útskrifaðist úr tíunda bekk, eftir að hafa verið með mér í skólanum marga vetur. Nú eiga þau sína eigin fjölskyldu, en vilja samt enn þekkja mig. Þarna koma brottfluttir Selfyssingar og fagna því að hitta okkur sem sitjum sem fastast.
Þar sem saman koma 600 manns er varla von á öðru en maður þekki nokkra. Þarna voru líka margir þeirra sem ætla sér að verða þingmenn okkar eftir komandi kosningar. það finnst mér alltaf svolítið hallærislegt, fólk sem aldrei hefur verið hér og enginn þekkir birtist allt í einu og flaðrar uppum mann og annan. Við vitum ekki einu sinni hvað þau heita og áhuginn er ekki bundinn við pólitík á þessu kvöldi. þetta er eins og þegar þingmennirnir ryðjast í réttirnar á haustin án þess að þekkja muninn á hrút og gimbur.
En Guðni var góður, hann hélt flotta ræðu og átti alveg fyrir því að skjóta svolitið á keppinautana sem ekkert tækifæri fengu til varna. Sigurgeir Hilmar var líka góður og Kjartan flottur, honum fer fram í þessu með hverju ári. Þetta var bara allt frábært. Og leynigesturinn Raggi Bjarna stóð fyrir sínu.
Ég get svarið það, það dropar af grýlukertunum fyrir utan gluggann. Sólin er farin að gera sitt gagn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.1.2007 | 22:25
Þegar geimverurnar komu
sama ferð-- komin á Rauðasand. Við fórum vestur með ströndinni að Saurbæ, en þar er kirkja. Lítil svört og sveitaleg kirkja. Við mynduðum hana og fengum síðan leyfi húsbænda til að tjalda á túnbletti sem var alveg við hliðina á kirkjugarðinum. Þótti þá sumum nokkuð langt gengin kirkjusókn okkar er nærri lá að við gistum í grafreitnum.
Veðurblíðan var söm og áður og við sáum Snæfellsjökul í góðu skyggni handan Breiðafjarðar. Svo sáum við út með ströndinni að Sjöundá og Munda hafði orð á að gaman væri að koma þar "og skoða morðin".
Um það bil er kvöldmat var að ljúka sáum við hvar geimskip kom út frá Snæfellsjökli. það var í laginu eins og píramíti, líkast því að fjallið Keilir stæði við rætur jökulsins. Svart í toppnum en hvítt neðar. það mjakaðist svo mjög hægt frá landi og færðist upp á himininn. Það fór ákaflega hægt og í tvo klukkutíma horfðum við á það. Lögunin breyttist þegar á loft var komið, minnti á þyrlu eða gamaldags geimskip. Ekki var eitt einasta ský á himni og á endanum hvarf þetta líka við sjóndeildarhring í vestri. Við vorum alveg viss um að þarna hefði allt fólkið sem var búið að bíða eftir heimsókn geimveranna misst af komu þeirra. Þær komu, og fóru aftur, föstudaginn 14. júlí 1995.
Húsmóðirin á bænum kom og færði okkur mjólk og svo sótti hún lykil og bauð okkur að skoða kirkjuna. það er víst ekki gestkvæmt á Rauðasandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.1.2007 | 21:51
Skriður og hengiflug
Sama ferð 1995. Nokkrum fjörðum og kirkju síðar....... Næsta kirkja var í Gufudal og þar rétt hjá, í aflagðri malarnámu, borðuðum við hádegismatinn. Við byrjum alla daga á því að útbúa nesti til dagsins. þarna var unnið að vegabótum og var það athöfn sem við höfðum ekki séð annarsstaðar á fjörðunum, þó vegirnir væru víðast ófærir. Nú nálgaðist næsti kafli sem við höfðum beðið spennt eftir, það var leiðin út að Skálmarnesmúla.
það leit nú ekki svo illa út í byrjun, nema hvað brattar hrynjandi skriður voru á aðra hönd og hengiflug til hafs á hina. En það er svo víða þannig. En þegar lengra kom fór að syrta í álinn. þessi vegur var greinilega ekki ætlaður okkur. Stórgrýti stóð uppúr á stangli, eða grasi gróin miðjan sleikti kviðinn á farartækjunum. Okkur hafði orðið á sú skyssa þetta vorið að skipta úr Volvo í Citroen beyglu. Ekki þó gamlan og ónýtan, en Citroen er bara beygla til ferðalaga og það fengum við að reyna í þessari ferð.
Tvær brýr voru á leiðinni, báðar í rúst, svo þar varð að fara útfyrir og sullast yfir lækina. En við komumst alla leið, að vísu með skaddaðar pústgræjur, aðallega hjá Hemma. Við tókum myndir af kirkjunni, við tókum margar, því ekki höfðum við hug á að endurtaka þessa för. Við hittum þarna mann sem var að gera við kirkjuna og hann var líka að mynda foktjón fyrir tryggingafélag. Það getur víst blásið stíft við Skálmarnesmúla.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.8.): 1
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 197646
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar